Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
22.2.2007 | 22:24
Hinn efsti dagur
Ég get ómögulega skilið að þær málalyktir að hætt verður við klámráðstefnuna sé góður dagur fyrir ástina eins og sumir segja. Var ástin nokkru sinni til umræðu? Til eða frá.
Kúgun, mannsal, vændi.
Ekkert af þessu er ást. Ekki heldur það réttlætismál að berjast gegn slíkri niðurlæginu.
Ástin er viðkvæmt fyrirbæri sem skapast milli einstaklinga en ekki hópa. Hún er ekki kappleikur þar sem hrópað er húrra þegar sigur vinnst fyrir eitthvert lið.
Og þeir eru margir, af báðum kynjum, sem njóta engrar ástar. Sumir deyja út af því.
Er þetta sigur fyrir þá?
Ástin var aldrei til umræðu í þessu máli. Ef hugkvíar í umræðu eru ekki skýrar verður öll umræðan argasta klám.
Kannski væri annars best að allir hætti að blogga þangað til ástin hefur sigrað heiminn. Þegar ástin er annars vegar taka menn oft stórar bloggákvarðanir!
Það verður góður dagur. En ég held líka að það verði hinn efsti dagur.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.2.2007 | 21:05
Veikist bara gift fólk af alzheimer?
Í Kastljósi var verið að fjalla um Alzheimer. Rætt var við nokkra maka sjúklinga sem lýstu því hvernig sjúklingarnir breytast hreinlega í börn. Það endar reyndar með því að þeir kunna ekki lengur að ganga. Loks kunna þeir ekki lengur að kyngja. Svo deyja þeir úr hungri.
Ég hef kynnst Alzheimer í návígi og veit svo sem hvað ég er segja. En mér finnst umræðan um Alzheimer full af hugleysi og undanbrögðum eins og öll umræða um erfið mál, svo sem sjálfsvíg og geðsjúkdóma.
Og ég hef hreinlega ekki geð í mér til að fara mikið lengra í þessa sálma að sinni. Ég get samt ekki á mér setið að spyrja hvort Alzheimer leggist bara á gift fólk. Svo mætti ætla af þeirri umræðu sem fór fram í Kastljósi. Makar sögðu frá mökum. Hvergi örlaði á því hvað bíði þeirra sem fá Alzheimer en eiga hvorki maka né afkomendur. Reyndar er þetta svona varðanadi alla sjúkdóma. Man einhver t.d. eftir samtali við einstæðing sem er að deyja úr krabbameini og hefur engan stuðning samhentrar fjölskyldu"?
Þetta er svona hluti af þvi sem ég meina með huglausri umræðu. Það felst í því að stór hluti viðfangsefnisins, veruleikans sjálfs, er gjörsamlega sniðgengin í umræðunni, jafnvel ár eftir ár eftir ár.
Einhleypt fólk virðist ekki verða alvarlega veikt á Íslandi hvað opinbera umræðu varðar.
Ég hef sagt það áður á þessari síðu að ég óttast ekkert meira en verða Alzheimersjúklingur þó ekki sé ég svo sem að velta mér upp úr þvi alla daga. Þessir sjúklingar geta verið að tærast upp í árartug eða meira. Ég veit ósköp vel að allan þann tíma myndi ég bara vera eins og hvert annað hræ á ópersónulegri stofnun. Og ég veit að vinir mínir myndu allir yfirgefa mig. Og ekki myndi ég álasa þeim fyrir það. Annað gætu þeir hreinlega ekki gert.
Og þó ég vildi að ein ung og upprennandi vinkona mín, sem skilur samt lífið, stæði við það að kæfa mig með koddanum eins og hún hefur lofað ef ég skyldi nú fara að bila þá veit ég auðvitað að hún mun ekki gera það í alvörunni. Ég mun bara hverfa öllum og öllu án þess að deyja. Þeir sem þekktu mig munu forðast mig eins og heitan eldinn og fara að hugsa um eitthvað skemmtilegt. Enda verð ég ekki lengur til sem ég sjálfur heldur bara skel utan um ósjálfráða líkamsstafsemi.
Mega menn hugsa svona? Mega menn tala svona? Mega menn blogga svona?
Nei, auðvitað ekki. Menn eiga að bæla allt niður. Setja upp falskan front. Allt er víst betra en óvæginn sannleikurinn.
Í gær var ég svo glaður og ljúfur yfir ilmi lífsins. Nú er ég orðinn bitur og harður yfir lífsins lygi og falsi.
Og það verður bara að hafa það.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
18.2.2007 | 23:39
Rómantísk ást
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2007 | 14:35
Lyktargátan ráðin fyrir hann dr. Gunna
Dr. Gunni var að skrifa um lykt á baksíðu Fréttablaðsins í fyrradag og segir: Á Hverfisgötunni fann ég á dögunum ótrúlega góða bakaríslykt. Þessi lykt er oft þarna en ég hef aldrei áttað mig á því hvaðan hún kemur. Lyktin æsti mig svo mikið upp að ég þræddi öll bakarí miðbæjarins leitandi að sætabrauðinu sem mér fannst lyktin vera af".
Árum saman hafði ég fundið þennan ilm á Hverfisgötunni. Og hann gerði mig líka alveg bandóðan eins og dr. Gunna. Ég þefaði uppi öll bakarí bæjarins í leit að göfgri uppsprettu þessarar höfugu lyktar, var þar með nefið ofan í öllu og hafði það af að verða létt skotinn í öllum sætabrauðsstelpunum sem afgreiða í þessum búðum ljúfar og vellyktandi. En ilmurinn eini átti samt ekki þarna sína uppsprettulind. Þótt hann virtist umlykja allt í bænum var hann þó hvergi.
Alveg eins og eilífðin.
Loks var það einn kaldan vetrardag að ilmur þessi barst mér að vitum sætlegri og lostlegri en nokkru sinni fyrr. Þá var ég staddur á horni Vitastígs og Hverfisgötu og stefndi niður Vitastíginn á leið niður á Skúlagötu. Og viti menn! Rak ég þá ekki augun í svart og niðurníðslulegt hús beint fyrir framan nefið á mér sem á þessari stundu reis þráðbeint upp í himinbláman og hnusaði græðgislega í allar áttir.
Á þessu svarta og niðurníðslulega húsi voru mörg flennistór vindaugu og innum þau horfði ég beinustu leið inn í mikla og víða hvelfingu þar sem sjóðlheitir súperofnar, tröllauknar hrærivélar, skessulegar skilvindur og rjúkbullandi risastrokkar hömuðust í algleymi við sætabrauðsins sköpun og bökun.
Og lyktin maður!
Þá rann upp fyrir mér það ljós að ég var að horfa og hnusa inn í það allrahelgasta í Kexversksmiðjunni Frón á Skúlagötu 28.
Ég hafði fundið uppsprettuna að ilmi lífsins.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.2.2007 | 23:43
Villidýrið inni í okkur
Loksins er símanúmerabirtirinn minn kominn í lag en hann hefur verið í stakasta ólagi í marga mánuði. Síðan hef ég setið við símann með sælubros á vör og beðið eftir því að hringt yrði í mig. En það hefur enginn hringt.
Aldrei skal neitt vera gaman þegar á að vera gaman!
Í dag keypti ég heimspekibækur Róberts H. Haraldssonar en þær vantaði í heimspekibókaasafnið mitt. Það er sérstætt við Róbert sem heimspeking að hann hefur þó nokkrar mætur á Freud og fer ómjúkum höndum um þennan Popper sem hefur verið í miklu áliti fyrir meint morð hans á Freud. Greining Róberts á ritgerð Freuds á "Undir oki siðmenninningar" sýnir þó að Freudinn er enn á lífi og furðulega ern eftir aldri.
Meðal annarra orða: Hvað skyldi Freud hafa sagt um klám? Áreiðanlega hefur hann skrifað um það en ég þekki ekki verk hans það vel að ég geti fullyrt um það eða bent á það.
En það er eins og margir hafi gleymt því að Freud sýndi okkur miskunnarlaust hvaða mann við höfum að geyma þegar siðmenningunni er sveipað burtu. Þarna inni er allt stútfullt af kynórum og klámi, sifjaspellum og nauðgunum og guð má vita hverju. Í báðum kynjum. Ég vona að það verði ekki talið til réttlætingar á mansali, barnaklámi eða kvenfyrirlitningu þó ég minni á að menn mega ekki gleyma þessari ábendingu Freuds.
Stundum finnst mér síðustu árin eins og Ísland sé að breytast í viktoríutímabilið í siðgæðismálum. Undir fáguðu yfirborðinu, fullu af hræsni og tepruskap, geisaði villidýrið þrátt fyrir siðavendnina á þessu skinhelgasta tímabili Evrópumenningarinnar. Og svo fór Kobbi kviðrista á kreik þegar rökkvaði.
Villidýrið í okkur verður enn þá villtara ef reynt er að afneita því. Ekki gengur þó að sleppa því lausu.
En skynsamlegt jafnvægi í tamningu þess er vandfundið. Og ekki gerist það með ofsa og orðaglamri. Það eitt er víst.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2007 | 19:09
Framúrstefnubloggarinn
Ég las á einni bloggíðu að gamaldags bloggarar bloggi bara um það sem þeim dettur í hug. Þá varð mér allt í einu ljóst hve hrikalega nýtískulegur framúrstefnubloggari ég er. Mér dettur nefnilega aldrei neitt í hug.
Samt er ég að blogga og sómi mér bara vel innan um alla hina. Flestir eru þeir álíka moderne og ég og dettur heldur aldrei nokkur skapaður hlutur í hug. En einstaka eru þó fornir mjög í skapi og blogga og blogga um allt það sem þeim dettur í hug.
Og það sem þeim dettur í hug!
Blogg | Breytt 5.12.2008 kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.2.2007 | 17:53
Viðtalið við Bjargstúlkurnar haustið 1967
Hér á þessari bloggsíðu má nú lesa viðtalið sem birtist við stúlkurnar á Bjargi í vikuritinu Ostrunni 6. nóvember 1967. Ostran var ekkert æsiblað heldur rit ætlað ungu fólki og var ritstjórinn Ásgeir Ásgeirsson.
Ostran var í mjög stóru broti og einstaklega óhentugu til að ljósrita eða skanna eða birta á bloggsíðu. Hér er því gripið til þess ráðs að birta vitalið í nokkrum myndskjölum sem þurfti að sníða sérstaklega í mislanga dálka vegna hins erfiða brots sem var á blaðinu. Myndum sem birtust með viðtalinu verður flestum að sleppa.
Þegar ég skrifaði færsluna í gær um stúlknaheimilið á Bjargi vissi ég ekki að DV hefði gert málið að umtalsefni. Ég hvet alla til að kynna sér þá umfjöllun. Þar er m.a. talað við Gísla Gunnarsson sagnfræðing sem varð fyrst kunnur með þjóðinni einmitt vegna þessa máls.
Mér hefur mál þetta alltaf verið sérlega minnisstætt. Ég man vel þegar það kom upp. Síðar bjó móðir mín lengi í næsta húsi við Bjargið og ég hafði það því fyrir augunum svo að segja daglega og varð oft hugsað um það hvernig líf þessara stúlkna hefði nú orðið eftir vistina. Og alltaf geymdi ég þetta viðtal í Ostrunni. Löngu síðar frétti ég nokkuð um afdrf sumra stúlknanna eftir góðri heimild og veit að það er rétt sem Gísli Gunnarsson segir í DV að þær þurfi aðstoðar við.
Það var aldrei í hámæli - en hér er rétt á það drepið í viðtalinu - að Bjarg hafði aðgang að einangurnarvistarklefa á Upptökuheimilinu í Kópavogi þar sem stúlkurnar voru látnar dúsa ef þær brutu alvarlega af sér. Þetta var ekkert á hjara veraldar eins og Breiðavík. Það var í Kópavogi.
Viðtalið við stúlkurnar í Ostrunni má lesa í eftirfarandi myndskjölum. Það tekur smá tíma að fletta þeim öllum og menn verða að gæta þess að stækka letrið ef með þarf á tölvunni sinni. En lesturinn er nánast eins og verið sé að tala um Breiðuvík.
Athugið! Nú er líka hægt að sjá allt viðtalið í einu á pdf-skjali sem er fjórða efsts fylgiskjalið. Það tekur kannski smátíma að opnast.
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg1.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg2_0.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg3_0.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg4.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg5.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg6.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg7.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_bjarg8.jpg
- c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_bjarg.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.2.2007 | 22:10
Á að gleyma stúlkunum á Bjargi?
Nú lofa menn uppgjöri við fortíðina í Breiðavíkurmálinu, Heyrnleysingjaskólanum og Byrginu í því skyni að veita þolendunum einhverja síðbúna hjálp. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki verði lika að fara yfir sögu stúlknaheimilisins á Bjargi sem rekið var af Hjálpræðishernum en var lokað haustið 1967. Allt lék á reiðiskjálfi í þjóðfélaginu þegar stúlkurnar sögðust hafa verið beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi og orðið fyrir lesbískri kynferðislegri áreitni. Þetta kom fram í lögregluyfirheyrslum og í viðtali við þær 5. nóvember 1967 í vikublaðinu "Ostrunni".
Viðtalið er sögulega merkilegt vegna þess að það var eitthvert fyrsta tækifærið sem ungmenni, er segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi fullorðinna, hafa fengið til þess að segja sögu sína í fjölmiðlum. Stúlkurnar segja í viðtalinu um viðbrögð foreldra sinna um harðræðiðið á Bjargi:
"Þeir trúðu okkur aldrei þegar við sögðum þeim hvernig væri þar..." Og aðspurðar hvort þær hefðu aldrei kvartað í barnavernarnefnd svöruðu þær: "Það þýddi ekkert".
Er ekki eitthvað kunnuglegt við þetta?
Sakadómur taldi eftir vægast sagt hlutdræga rannsókn ekki ástæðu til sérstakra aðgerða gegn stjórnendum heimilisins þrátt fyrir framburð stúlknanna, sem voru yfirheyrðar strax til að þær bæru ekki saman bækur sínar, en starfsfólk heimilisins hins vegar eftir margar vikur. Eiginlega var litið á stúlkurnar sem "sökudólgana" í málinu með þessum vinnubrögðum en slíkt viðhorf var algengt til kvenna sem t.d. kærðu nauðgun á þessum árum og er jafnvel enn. Vistheimilinu var hins vegar lokað og það segir þá sögu að menn töldu að þar væri ekki allt með felldu. Það var aðferð samfélagsins á þessum árum til að díla við svona mál. Á þeim tíma gat enginn hugsað sér að stofna til málaferla um meinta lesbíska kynferðislega misnotkun. Menn hefðu bara ekki meikað það.
Sú stúlka sem kom þessu öllu af stað með framburði síinum er nú látin en hinar munu vera á lífi. Saga þeirra eftir vistina á Bjargi er ekki ósvipuð og drengjanna í Breiðavík nema hvað þær fóru ekki út í afbrot. Afleiðingar svona ofbeldis koma öðru vísi fram hjá stúlkum en drengjum. En þær sem þarna dvöldu eru núna, að minnsta kosti sumar hverjar, niðurbrotnar miðaldra konur. Það veit ég fyrir víst.
Rétt er að geta þess að vistheimilið á Bjargi sem nú er þar rekið fyrir geðsjúka á ekkert skylt við fyrri starfsemi á staðnum.
Ef við viljum vera sjálfum okkur samkvæm verðum við að rannsaka þetta gamla Bjargsmál upp á nýtt. Auðvitað ekki til að "leita að sökudólgum" heldur til að geta veitt þolendunum þá hjálp og samúð sem við viljum sýna þolendunum í Breiðuvík, Byrginu og Heyrnleysingjaskólanum.
Er hægt að komast hjá þessu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.2.2007 | 17:40
Anna Nicole er dáin
Það kom mér gersamlega á óvart, eins og þruma úr heiðskíru lofti, að hún Anna Nicole Smith sé dáin. Ég vissi ekki einu sinni að hún hefði verið til. Hvað þá að hún væri núna ekki lengur til. Ég hafði sem sagt aldrei heyrt minnst á þessa góðu konu fyrr en hún dó og heyri ég þó margt og margt og ekki allt fallegt.
Já, þetta er nú ljóta. Hún er bara dáin gamla konan. Það stendur á forðsíðu allra blaða og bloggsíðna. Meira að segja hér á Allra veðra von.
En afhverju sagði mér engin að þessi merkiskona hefði verið til og gert garðinn alveg gríðarlega frægan? Allir vissu víst af henni nema ég. Engum hefði nú munað neitt um að nefna hana við mig og jafnvel bjóða okkur saman í kaffi og kleinur.
Alltaf missi ég af öllu.
Já, það er svona að vera þessi ólukkans skýjaglópur sem ég er.
Og nú þarf ég einmitt að fara að taka veðrið!
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2007 | 12:33
Lífið er samt gott
Í gær fór ég til vinar míns sem ég hef ekki hitt í 25 ár. Við vorum mjög nánir árum saman. Svo fluttist hann til útlanda og við skrifuðumst bara á. Fyrir nokkrum vikum settist hann aftur að á Íslandi.
Með mér í heimsókninni var annar vinur minn sem líka hafði þekkt þennan mann.
Það var bara eins og við hefðum hist í gær. Við náðum svo frábærlega vel saman og allir gömlu taktarnir og þessi sérstaki húmor sem myndast alltaf milli vina var á sínum stað eins og aldrei hefði verið neinn aðskilnaður.
Úti skein sólin.
Mikið var þetta gaman. Af hverju ná sumir svona vel saman en aðrir ekki? Hvað veldur vináttu milli manna?
Veit ekki. En maður finnur þetta jafnvel á blogginu að maður dregst meira að sumum en öðrum. Ýmsir hafa margt gott að segja um samfélagsmál og maður les þá en þeir toga mann ekkert sérstaklega að sér sem persónur. En svo eru einhverjir aðrir sem gera það þó maður sé jafnvel oft ósammála skoðunum þeirra. Bara. Ég hef gaman að því fara inn á þá sem ekki eru sí og æ kynntir á forsíðunni og þá finn ég stundum alveg frábærar persónur á blogginu.
En líka marga hálfvita!
Mér finnst konur blogga skemmtilegar en karlmmen svona yfirleitt. Þær eru meira þær sjálfar en ekki einhverjir besservisserar um þjóðfélagmálin.
Ég sjálfur? Jú, ég brúka stundum stólpakjaft um eitthvað sem er að gerast í þjóðlífinu. Tek eftir því að þá eykst lesturinn á síðunni. En það sem ég vildi nú helst forðast á blogginu mínu er að það verði eins og ég sé að skrifa einhverjar helvítis blaðagreinar í stórum stíl. Má vera ein og ein. Meira gaman að velta sér upp úr sjálfhverfunni!
Skemmtilegast er samt alltaf að skrifa um blessað veðrið! Það finnst öðrum þó ekki mest gaman að lesa. Lesturinn á síðunni minni hrundi þessa viku sem ég flaggaði bara veðrinu á henni og hefur ekki jafnað sig fyrr en allra síðustu daga.
Þá veit ég hvað ég að að gera til að fá að vera í friði.
Blogga bara um veðrið!
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006