Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
12.3.2008 | 18:19
Algjört krútt
Nú á dögum þykir Þórbergur, sem orðið hefði 120 ára í dag ef hann hefði lifað, vera algjört krútt fyrir að hafa staðfastlega trúað á skrímsli og verið konunglegur skrímslafræðingur hennar hátignar Bretadrottningar. Og það var sú upphefð sem hann var stoltastur af í lífinu.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2008 | 11:13
Hvernig eiga menn að komast að Hala?
Á morgun verður haldið upp á Þórberg á Hala þar sem hann var fæddur. Boðið verður upp á sætaferðir frá Höfn í Hornafirði að Hala. Hvílík rausn!
En hvernig eiga þeir að komast sem búa í Reykjavík en flestir Þórbergsaðdáendur á landinu eiga eflaust þar heima? Ég kemst t.d. hvorki lönd né strönd út á land síðan bíllinn minn var keyrður í klessu og eftir að sá vinur minn dó sem ég var vanur að fara með út á land.
Það er um það bil fimm tíma ferð að Hala frá Reykjavík. Með allri virðingu fyrir Halafólki efast ég um notagildi þess að vera að halda ráðstefnur þarna á hala veraldar án þess að gera minnstu ráðstafanir til að gera fólki sem ekki er á bíl kost á að komast þangað úr mesta fjölmenni landsins. Áreiðanlega hefði Þórbergur ekki látið slíkt hugsunarleysi henda sig.
Þetta ráðstefnufólk virðist bara hugsa um sjálft sig. Það er auðvitað allt á bílum.
Meðal annarra orða: Soffía Auður Birgisdóttir var að segja í Víðsjá að Þórbergur hefði ekki kunnað að meta Proust þó "sýnt hefði verið fram á'' að Suðursveitabækurnar væru í stíl við Proust. En það hefur ekkert verið ''sýnt fram á'' þetta. Pétur Gunnarsson hefur verið að setja þetta fram en þetta er afar vafasöm hugmynd. Og ekki eina skrýtna nútímalega hugmyndin sem reynt hefur verið að klína upp á Þórberg.
P.S. Mikið fannst mér það ógeðfellt í lok Þorbergsþingsinis þegar þremur komum sem gerðu eitthvað mikið fyrir hátíðina var afhent ''ígildi Þorláksdropa'', sem sé áfengi, við lofatak áhorfenda. Áfengisdýrkunin veður alls staðar uppi. Á Þórbergsþinginu 1989 brá Þorsteinn Gylfason upp ónotalegri mynd af áfengisneyslu Þórbergs síðustu árin. Þar voru Þorláksdropar í aðalhlutverki.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
10.3.2008 | 09:35
Lífsspeki
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.3.2008 | 00:14
Fýla
Nú ætla ég að vera í fýlu þar til snjóa leysir.
Nú er ég að lesa Aristóteles. Tótallí óskiljanlegur.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2008 | 09:40
Ég og Þórbergur
Ég kom fyrst til Þórbergs 21. september 1964. Þórbergur spurði að ýmsu um hagi mína og var mjög látlaus og vingjarnlegur. Hann talaði síðan mikið um drauga og skrímsli sem hann taldi að væru líkamlegir náttúruandar. Um framhaldslífið sagði hann að vísindin væru alltaf að gera uppgötvanir sem bentu til þess að eitthvað meira en efni væri að baki tilverunnar. Annars ræddi hann um allt milli himins og jarðar.
Þórbergur olli mér reyndar gríðarlegum vonbrigðum. Í stað þess að hitta eldhuga sem réði sér ekki fyrir andlegu fjöri eins og halda mætti af bestu bókum hans var ég inni í stofu með gömlum manni sem gekk og hreyfði sig eins og gamalmenni og talaði hægt og lítilfjörlega. Þetta gerði mig enn þá feimnari en ég var fyrir og var eiginlega eins og aumingi inni í mér. Þórbergur var 76 ára. Ég alveg að verða sautján.
Síðan kom ég nokkrum sinnum til Þórbergs næstu árin.
Ég var í blysförinni sem farin var að heimili hans þegar hann varð 85 ára 12. mars 1974. En ég var of feiminn til að fara inn þegar hjá honum var fullt af fólki.
Ég kynntist bókum Þórbergs í fyrsta sinn haustið 1960 þegar ég var nýorðinn 13 ára. Þegar ég tók bókina á bókasafni stóð ég í þeirri meiningu að þetta væri andatrúarrit, sögur að handan í líkingu við Bréf frá Júlíu.
Bréf til Láru gerði mig að kommúnista og tafði þar með raunhæfan skilning minn á þjóðfélagsmálum í ein þrjátíu ár. Hvað skyldu Þórberg og Halldór Laxness hafa gert marga að fylgjendum þessarar óheillastefnu í rósrauðri hugsjónavímu? Ég dáði Þórberg síðan meira en alla aðra höfunda árum saman. En ekki lengur.
Það er óhreinskilni Þórbergs um sjálfan sig og þyrrkingslegt sálarlíf hans sem hefur fælt mig frá honum hin síðari ár. Enginn íslenskur rithöfundur hefur verið með sjálfan sig í öðrum eins felum. En það hafa menn ekki vitað fyllilega, þó sterkur grunur hafi leitað á suma fyrir löngu, fyrr en á síðari árum. Þórbergi tókst að telja mönnum trú um að hann væri allra manna hreinskilnastur og heiðarlegastur. Ábyrgðarleysi Þórbergs í kvennamálum finnst mér lika fráhrindandni. Jú, ég veit að menn eiga víst ekki að blanda saman lífi og list, en hvað Þórberg varðar var það alltaf óaðskiljanlegt í mínum huga. Hann var kvennaflagari en brá upp þeirri mynd af sér að hann væri óframfærinn í þeim efnum. Óheilindi!
Þórbergur er mesti stílsnillingur íslenskra bókmennta að mínu mati en er á margan hátt takmarkaður rithöfundur. Og það er enn langt í land með að menn reyni að vega kosti hans og galla með raunsæjum fagurfræðilegum skilningi. Menn eru bara enn að upphefja hann. Það er dæmigert að menn segi að það verði að taka hann eins og hann er með öllum sínum annmörkum. Þá ljúki hann upp öllum leyndardómum sínum.
Skilningurinn á takmörkunum Þórbergs sem rithöfundar leiðir til skilnings á manninum sjálfum. Það eru þessi aspergiseinkenni sem lýta bækur hans, þessi listræna ráðleysi eða getuleysi við að ritstýra efni sínu af smekkvísi og skarpleika fremur en að taka allt með. Þar með breytist ritsnilldin stundum í hreinasta stagl. Þyrrkingurinn í sálarlífinu, sem er hluti aspergiseinkennisins, veldur hins vegar því að honum var alveg fyrirmunað að skrifa um harmsefnin í lífi sínu sem voru þó mörg og sár. Þetta gerir list hans á endanum yfirborðslega. Glæsilegur stíllinn dylur vissa grunnhyggni og innihaldsleysi en birtir fyrst og fremst stöðug látalæti. En fyndni Þórbergs og þessi ótrúlega marghliða og mergjaða stílsnilld fær mann til að fyrirgefa honum margt en samt endist hrifningin ekki ævilangt. Maður fær að lokum leið á þessum manni sem aldrei getur sagt alvarlegt orð um sjálfan sig og mannlífið. Ég efast mjög um að unga fólkið nenni að lesa Þórbergs að nokkru ráði. Á því veltur það hvort hann mun lifa sem rithöfundur eða verða bara föst en lífvana stærð í bókmenntasögunni en það verða reyndar örlög næstum því allra höfunda.
Á Þórbergsráðstefnu árið 1889, þegar haldið var upp á hundrað ára afmæli Þórbergs, hélt ég í erindi á ráðstefnunni og reyndi að benda mönnum á þetta. En það féll í grýttan jarðveg. Sumir gamlir Þórbergsaðdáendur og vinir Þórbergs, sem þá voru orðnir gamlir og myglaðir, eins og t.d. Jakob Benediktsson, horfðu alveg í gegnum mig eins og menn gera þegar þeir vilja sýna mönnum sérstaka lítilsvirðingu. Einn maður var þó yfir sig hrifinn, Sigurður A. Magnússon og Þorsteinn Gylfason lét sér einnig vel líka. Og Erlendur Jónsson bókmenntgagnrýnandi Morgunblaðsins og gamall kennari minn lofaði mjög erindi mitt (sem seinna var prentað í Tímariti Máls og menningar), utan dagskrár í einhverjum ritdómi í Mogganum. En ég hyrði ég frá ýmsum vinum mínum að mönnum hafi fundist ég vera að gera lítið úr Þórbergi.
Og enn eru menn að lofa og prísa Þórberg alveg einhliða og virðast vera gersamlega blindir á hina galla hans. Það má ekki einu sinni nefna þá.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.3.2008 | 11:28
Misráðið í Þórbergssmiðju
Ég var að skoða dagskrána á Þórbergssmiðjunni sem verður haldin í Háskólanum á morgun og sunnudag. Þar verða haldin mörg erindi hvert öðru álitlegri. En það er galli á gjöf Njarðar að í gangi verða tvær málstofur í einu á sitt hvorum staðnum.
Menn eru því dæmdir til þess að fara á mis við svo sem helming erindanna nema náttúrlega þeir sem með stanslausri jógaþjálfun hafa komist upp á lag með að vera samtímis á tveimur stöðum í einu.
Þetta finnst mér einkennilegt ráðslag og bera vitni um það að ekki sá gert ráð fyrir því að einhvejrir kunni að hafa brennandi áhuga fyrir Þórbergi og vilji kynnast öllu sem um hann er skrifað.
En kannski verða öll erindin gefin út á prenti eða á netinu að þinginu loknu.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.3.2008 | 22:13
Stutt og laggott
Nú ætla ég að bæta fyrir síðustu langloku og vera bara stuttorður og koma mér beint að efninu:
Ég hef ekkert að segja.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
5.3.2008 | 13:02
Skoðanir um blogg
Guðmundur Andri Thorsson skrifar ágætan pistil í Fréttablaðið á mánudaginn um bloggið. Hann bergmálar nokkrar þær skoðanir sem ég hef heyrt frá menntamönnum um það. Menntamenn og listamenn virðast hafa sterka tilhneigingu til að líta niður á bloggið. Í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu við Ármann Jakobsson, mikinn bloggara, lét hann þess til dæmis getið að bloggið nyti lítillar virðingar. Hann er sjálfur menntamaður og er eflaust að miða við sinn hóp. Fyrir ekki löngu síðan sagði Þröstur Helgason frá gagnrýnandaþingi að þar hefði verið litið niður á bloggið. En hann kom því til varnar og sagði að svipað neikvætt viðhorf hefði verið til flestra nýjunga, svo sem símans.
Guðmundur Andri segir að bloggurum hætti til að gleyma að bloggið sé fjölmiðill. En samt ekki alveg. Bloggið sé bæði opinber og einkavettvangur.
''Þetta er eins og eintal sálarinnar í hátalara. Það er eins og prívatboð í bás í Laugardalshöllinni. Það er eins og játning í kallkerfi. Við getum líka snúið þessu við og sagt að það sé eins og ræðuhöld yfir kettinum heima í eldhúsi eða viðtal í baðspeglinum.´´
Guðmundur Andri segir líka að bloggarinn sé einn með sjálfum sér og sjái aldrei orð sín í samhengi eins og þegar menn sjá skrif sinn í dagblaði innan um skrif annars fólks. Kringumstæðurnar á bloggsíðu séu einkalegar þó utanaðkomandi fólk geti lesið það. Honum finnist samt stundum að þó utanaðkomandi fók sé velkomið að skoða séu pistlarnir fyrst og fremst skrifaðir fyrir tiltekið samfélag. ´´Það hvarflar ekki að manni að skilja sjálfur eftir athugasemd, þá er eins og maður sé staðinn að verki.''
Loks gerir Guðmundur Andri talsvert með það að á bloggi sé ekki raunveruleg nánd heldur aðeins gervisnerting líkt og Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur verið að halda fram. Og þegar þetta er sagt er það nú ekki hrós um bloggið. Það er litið á það sem gerviveröld.
Það er heldur varla hægt að segja að stórkarlalegar lýsingar Guðmundar Andra á blogginu lýsi mikilli virðingu í þess garðs. Játningar í kallkerfi eru auðvitað ósköp hjákátlegar.
Hvað má annars segja um starf rithöfundar? Hann skrifar bók sína aleinn og þegar hún kemur út er hún orðinn að opinberum vettvangi sem menn lesa nánast alltaf í einrúmi. Það er svona eins og rithöfundurinn sé að berhátta sig í einrúmi fyrir allra augum. Blogg les hver og einn yfirleitt í einrúmi þó bloggsíðan sem hann er að lesa sé opinber vettvangur. Alveg eins og bókin. Það sem er ólíkt með bók og bloggi er það að menn geta ekki látið rithöfundinn vita hvernig lesandanum finnst bókin - fyrr en bloggið kom til sögunnar en þar geta menn rakkað niður höfundinn eða hafið hann upp til skýjanna eins og hverjum og einum lystir.
Bók og blogg eru náskyld fyrirbæri: einkavettvangur sem gerður er að almannarými.
Það er rétt að kringum hvern bloggara myndast ákveðið samfélag skyldra sálna alveg eins og í mannlífinu. Við rottum okkur saman eftir því hvernig okkur líkar viðkomandi manneskja eða þá viðkomandi bloggari. En á þessu eru ýmis afbrigði af því að blogg er lifandi miðill. Þegar ég blogga um eitthvað sem gerist í samfélaginu og vekur mikla athygli fæ ég kannski yfir 2000 lesendur á einum degi. Það segir að margir eru að koma inn á síðuna sem ekki eru að öllu jöfnu í mínu bloggsamfélagi. Þegar ég blogga bara um hann Mala lesa mig miklu færri og líklega bara mínir föstu hysterísku aðdáendur en þegar ég blogga um veðrið koma bara þeir sem eitthvað vit er í! Og þeir eru nú ekki margir! Það er því mála sannast að bloggarinn getur að nokkru leyti valið sér samfélag.
Það myndast líka samfélag um rithöfunda. Það kemur bara ekki eins vel í ljós og á blogginu. Ég held að samfélagið um t.d. Gyrði Elíasson sé einsleitt og sérviskulegt og æði fámennt.
Það er einna mest sjarmerandi við bloggið er einmitt að það er sambland af einkaveröld og opinberum vettvangi. Sams konar fyrirbæri hefur aldrei áður verið til og það býður upp á marga möguleika sem óþarfi er að tala niðrandi um. Það gerir til dæmis fólki fært að koma ýmsum upplýsingum á framfæri sem ella væri ómögulegt. Nærtækt er að benda á veðurfarsupplýsingar mínar. Þær eru að vísu ekki mikið lesnar en þær eru þarna samt og menn geta leitað í þær ef þeir vilja og þær eru reyndar ástæðan fyrir því að ég blogga yfirleitt.
Alltof mikið er gert úr því hvað tengslin á blogginu eru yfirboðsleg. Þau eru samt miklu nánari en tengsl greinahöfunda í blöðum og lesenda. Þar eru engin tengsl. En það er eitt af því einkennilegasta og skemmtilegasta við bloggið að þar skapast stundum raunveruleg tengsl sem menn færu ella á mis við. Í fyrra sumar heimsótti ég til að mynda konu á Krít sem ég hafði aldrei séð en bara þekkt gegnum bloggið. Þegar til kom reyndust kynnin á blogginu nákvæmur fyrirboði um það hvernig kynnin urðu í raunveruleikanum. Á blogginu geta skyldar sálir fundið hverjar aðrar í raun og veru. Það eru ekki endilega gervitengsl. Það þykir bara fínt og menntamannslegt að segja svoleiðis.
Kvartað er yfir því að bloggið sé sjálfhverft. Auðvitað! Af því að við erum öll sjálfhverf. Sú sjálfhverfa hefur bara ekki fundið sér jafn kjörinn opinberan vettvang og bloggið. Sjálfhverfan þar er þó ekkert verri en gengur og gerist annars staðar í lífinu.
Bloggið býður upp á marga möguleika. Þar er hægt að skrifa pistla í hefðbundnum blaðagreinastíl um almenn málefni. Jafnvel fræðigreinar er hægt að setja á blogg. En þar er líka hægt að gera að gammi sínu á opnari og persónulegri hátt en á öðrum fjölmiðlum. Ennþá er bloggið frjálsasti og skemmtilegasti fjölmiðillinn og ástæða til að berjast með kjafti og klóm fyrir því að svo verði áfram. Skárra er að einhverjir fari þar offari heldur en að á bloggið verði komið eins þéttum böndum og á aðra fjölmiðla. Þessi þróun er þó að miklu leyti kominn undir bloggurunum sjálfum.
Það er rétt hjá Guðmundi Andra að blogg líkist nokkuð því þegar menn áður fyrr voru að líta við hjá kunningjum sínum. Slíku atferli er vel lýst í bók Péturs Gunnarssonar ÞÞ í fátæktarlandi. En nú eru breyttir tímar. Menn eru að mestu hættir að líta við hjá hverjum öðrum enda er margt annað í boði til skemmtunar. En bloggið er í raun og veru að endurskapa þessi skemmtilegu kunningjaboð með þeirri breytingu þó að engum er í raunini úthýst eins og er í flestum vinaboðum. Guðmundur Andri þarf því ekki halda að hann sé boðflenna þó hann geri athugasemdir hjá mér eða öðrum bloggurum. Þá fyrst færi nú að færast fjör í leikinn!
Það merkilegasta við bloggið er samt það að það hefur gefið mörgu fólki tækifæri til að láta rödd sína heyrast sem ella hefði aldrei heyrst. Það er heilmikið mál að skrifa t.d. blaðagrein og brjótast í að fá hana birta eftir dúk og disk. Það er aðallega viss manntegund sem stendur í slíku. Fólk sem heldur að skoðanir þeirra séu svo afskaplega mikilvægar að halda að samfélagið geti ekki án þeirra verið. Höfundar þessara greina eru oft áberandi og þekktar persónur, þær sömu aftur og aftur, oft í áhrifastöðum eða þrautþjálfaðir pennar, stjórnálamenn af ýmsu tagi, menntamenn og aðrir sem lengi hafa verið að móta skoðanaheiminn eins og heimaríkir hundar. Þeir eru líka algengir í útvarps-og sjóvarpsþáttum
Og hér komum við að því hvers vegna svo virðist sem menntamenn ýmis konar og listamenn líti niður á bloggið. Sönnunin fyrir því að þeir geri það kemur ekki síst fram í því hve fáir þeirra blogga þó einstakir þeirra geri það vitaskuld. Þessir menn hafa haft opinbera vettvanginn fyrir sig í blöðunum, útvarpinu og sjónvarpinu. Nú nenna menn varla að lesa hefðbundna blaðagreinar af því að hin viðurkenndi og hefðbundni blaðagreinastíll er svo fjandi leiðinlegur. En margir ómenntaðir og iðulega nánast óskrifandi bloggarar eru lesnir upp til agna af því að þeir hafa samt ýmislegt að segja. Valdahlutföllum í opinberum skoðanaheimi hefur þannig verið raskað. Þeir sem eru að missa völd sín fyllast eðlilega andúð og fyrirlitningu í garð þeirra sem eru að sölsa völdin undir sig.
Skylt þessu er sú óvild sem andar til Moggabloggsins frá ýmsum þeim sem utan við það standa. Áður en Moggabloggið byrjaði voru all margir að blogga. Það var samt fremur svona menntað lið, oft mjög þjóðfélagslega sinnað og fannst það vera í grasrótinni og allt hvað þetta hefur. Það myndaði mörg og ótrúlega sjálfumglöð skjallabandalög sín á milli. Þetta var furðulega lokaður heimur þó hann væri samt á opinberum vettvangi. Maður hafði líka sterklega á tilfinningunni að hann væri mikið mengaður af vímuefnarugli. Þetta voru bar-rónar mestan part og ölþambarar en samt af fínni sortinni.
Moggabloggið hefur hins vegar opnað allt upp á gátt og gert bloggið sýnilegra en nokkru sinni fyrr. Gömlu bloggararnir í skjallabandalögunum finnst sem þeir hafi verið sviknir. Sú þróun hefur þó orðið ofan á að Moggabloggið hefur æ meira þróast í það að verða alþýðublogg, eða plebbablogg vilja sumir meina. Mörg þekkt andlit af gömlu tegund skoðanaálitsgjafa hafa yfirgefið Moggabloggið og byrjað að blogga annars staðar. Moggabloggið er orðið blogg fyrir alþýðuna, pöpulinn, plebbana eða hvað við viljum kalla það.
Auðvitað eru þetta miklar alhæfingar hjá mér en ég held að ég hafi samt nokkuð til míns máls.
Sjálfum hefur mér boðist að flytja mig á tvö önnur bloggsetur. En ég hika við. Ég er vís með að lenda í vandræðum með veðurbloggið og ritkerfið hjá Mogganum er mjög einfalt og gott þó það mætti batna. En síðast en ekki síst þá sómi ég mér bara skrambi vel með alþýðunni og pöplinum eða bara helvítis plebbunum.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
4.3.2008 | 22:21
Tvær sögur frá Fischer-Dieskau
Í ævisögu sinni segir Dietrich Fischer-Dieskau nokkrar gamansögur. Hér eru tvær þeirra.
Óperunni Tosca eftir Puccini lýkur á því að aðalsöghetjan, Tosca sjálf, varpar sér fram af fangelsisvegg og deyr. Í einni sýningu hafði einhver keppinautur söngkonunnar sem söng Toscu í óperuhúsi einu sett af hrekk sínum trambolín í stað dýnu á þann stað þar sem Tosca átti að lenda eftir að hún henti sér fram af veggnum. Furðu lostnir áhorfendur sáu því Toscu hendast nokkrum sinnum upp og niður fyrir augum sínum í loftinu eftir að hún varpaði sér fram af veggnum til að deyja.
Hinn frægi breski hljómsveitarstjóri Sir Thomas Beecham hafði lítið dálítið á samtíðartónlist. Einu sinni var hann að æfa nýtt verk með Konunglegu fílharmoníuhljómsveitinni í Lundúnum af takmörkuðum áhuga og gerði sér allt í einu ljóst að hljómsveitin hafði hætt að spila. Þá spurði hann: Herrar mínir, hvað er eiginlega um að vera? Konsertmeistarinn svaraði: Sir Thomas, verkinu er lokið! Guði sé lof, svaraði þá meistarinn að bragði.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2008 | 19:06
Lífshlaupið
Óskaplega eru þau leiðinleg öll þess heilsuátök sem heilbrigðisstéttir eru alltaf að demba yfir þjóðina. Og stjórnmálamennirnir taka sífellt undir með sömu flatneskjunni.
Afhverju er fólki ekki treyst til að ákveða sjálft hvers konar lífi það vill lifa?
Og er nokkuð unnið við það að vera svo hraustur að lifa mörg ár sem hver annar hálfviti með ellihrörnunarsjúkdóma en vera líkamlega fitt?
Er ekki langbest að deyja í blóma lífsins?
Menn eiga ekki að ansa þessari forsjárhyggju heilbrigðisstéttanna.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006