Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Glæsilegur árangur

Nú er ljóst að maí var í Reykjavík sá hlýjasti síðan 1960. Meðalhitinn var 8,6 stig og er 2,3 stig yfir meðallagi. Þetta er jafnframt þriðji hlýjasti maí í borginni síðustu 150 árin. Aðeins maí 1935 (8,9) og 1960 (8,7) voru hlýrri.

Allir dagar mánaðarins voru yfir meðallagi og er það sannarlega sjaldgæft. Úrkoman var vel undir meðallagi, kringum 70% af því, en mánuðurinn var sólarlítill, vantar svona 50 sólarstundir upp á meðallag. Mesti hiti mánaðarins var í lægra lagi, merkilegt nokk með svo hlýjan mánuð, aðeins 13,8 stig en aftur á móti gerði aldrei frost. 

Lítið fór fyrir hitametunum á landinu sem spáð var. Hitinn fór aldrei í 20 stig á mannaðri stöð en komst í 21,7 stig á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað einn daginn. 

Nú er það bara spurningin hvort mánuðurinn hafi ekki líka náð 8 stigum á Akureyri. Frávik beggja staðanna frá meðallagi er eitthvað svipað, vel yfir tvö stig.

Þetta var glæsilegur árangur hjá honum maí og við Mali erum ekki minna stoltir af honum en "strákunum okkar". Ekki spillir svo að ég sagði þetta hér hálfpartinn fyrir. Mjá! Það held ég nú.


Lágt getur hann lagst

Mjög fróðlegt var að hlusta á Spegilinn í kvöld. Ekki var annað að heyra en að engar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hlerununum, eins og ég hef ákveðið haldið fram á þessari síðu og skaðabótamál myndi líta illa út fyrir ríkisvaldið sem hafi engin göng til sönnunar fyrir réttmæti hlerananna.

Efnislegar ástæður merkir það að stjórnvöld hafi ekki  borið fram nein sértæk rök fyrir því að einmitt þeir einstaklingar sem hlerað var hjá hefðu verið að hafast eitthvað að sem ógnað hefði öryggi ríkisins.

Það er með ólíkindum að jafnvel greindustu og menntuðustu menn hafi gripið til réttlætingar á hlerununum með því að halda því fram að almennar ástæður, svo sem það að kommúnistar vildu koma á sovésku alræði á Íslandi,  réttlæti lagalega og siðferðilega órökstuddar aðgeðir stjórnvalda gegn nafngreindum einstaklingum - ekki hópum manna- sem hlerað var hjá og öllum þeim sem við  þá töluðu gegnum símann.

Ég hef nánast ekkert bloggað um pólitík á þessari síðu. Ég læt stjórnmálaskoðanir fólks mér í léttu rúmi liggja. Og ég hef engan áhuga á stælum manna í kaldastríðsstíl. Hins vegar hef ég áhuga á mannréttindum og stöðu einstaklingsins gagnvart ágengni stjórnvalda hver sem þau eru. Þess vegna hef ég bloggað um hleranamálið og verið harðorðari í garð nafngreindra manna en ég á vanda til. Mér finnst það óverjandi að dómsmsmálaráðherra nútímans réttlæti aðgerðir forvera síns gegn einstaklingum einungis með vísunum til almenns pólitísks ástands. 

Ekki bætir svo Björn Bjarnason málstað sinn með því að vísa á þetta blogg í pistli á heimasíðu sinni.

Þarna er ýjað að því á ósmekklegan hátt að eitthvað sé athugavert við geðheilsu þeirra sem gagnrýnt hafa vörn ráðherrans í þessu máli. Geðlæknar þyrftu að skýrgreina ástand þeirra. Með því að vísa á þessa síðu með velþóknun er Björn Bjarnason að gera skoðanir bloggarans að sínum.

Þetta er ekki aðeins ódrengilegt af honum fram úr hófi að draga geðheilsu andstæðinga sinna í efa heldur er hann þar með - þessi maður sem er svo annt um virðingu gamalla kerfisdómara - að sýna þeim mörgu sem virkilega líða af geðsjúkdómum ótrúlega lítilsvirðingu.

Maður trúir því varla að ráðherra í ríkisstjórn landsins leggist svo flatur í lágkúrunni.

Það blasir samt við allra augum. 


Leiðum þá til hjálpræðis!

Nú þarf bara að vinda bráðan bug að því að kristna þessa vesalings heiðingja svo þeir öðlist hið eina sanna hjálpræði Jesú Krists. Ó, hans blessaða síðusár! Það frelsar alla menn frá ljótri synd og argri villu.
mbl.is Myndir nást af óþekktum ættbálki í Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Mali erum orðnir frægir

Já, við Mali erum bara orðnir frægir um allt Ísland. Það er viðtal við okkur með mynd á bls. 2 í Mogganum í dag. Ansi tökum við okkur vel út, ekki síst monsjör Mali.

Ég var áðan úti á Seltjarnarnesi. Valhúsahæð er einhver besti útsýnisstaður á Reykjavíkursvæðinu. Yfir landinu er þessi blámóskulegi góðviðrisblær sem var svo áberandi í maí 1960. Eftir þann mánuð fór í hönd eitthvert blíðasta og sólríkasta sumar í manna minnum á suðurlandi. Kannski endurtekur  nú sagan sig.

Bæði þessi maí sem nú er að líða og hann Mali eru alveg til fyrirmyndar.

Mali tekur frama sínum af stillingu. Hann er líka afskaplega hógvær og í hjarta lítillátur - alveg eins og húsbóndi hans!     


Óvirðing við þjóðina

Er það óvirðing við dómara að sjá það sem blasir við að þeir afgreiddu beiðnir um hleranir alveg sjálfvirkt án þess að spyrja um rök eða meta beiðnirnar á nokkurn hátt? Bara stimpluðu. Ekki eru til nein dæmi um að þeir hafi synjað beiðni um hleranir.

Er ekki vænlegra að menn horfist af hugrekki og heiðarleika í augu við það hvernig dómarar brugðust heldur en fara í vörn fyrir þá?

Það er ekki eins og dómarar séu heilagir. Spilltir dómarar! Þeir eru nú ekki einsdæmi.   

Þáttur dómarana er kannski alvarlegasti þáttur hleranamálsins. Og það á að ræða þann þátt í stað þess að fá kaldastríðsflog í afneitun.

En það er kannski hægt að skilja að dómsmálaráðherra vilji ekki að ymprað sé á þessu.  Könnun á því gæti leitt ljós samþættingu flokksvalds og dómstóla svo geðsleg sem sú hugsun er.

Annars ætti dómsmálaráðherra að tala sem minnst um óvirðingu. Hvernig hann hagar sér bullandi vanhæfur í þessu máli er einhver mesta óvirðing sem stjórnmálamaður hefur nokkru sinni sýnt þjóðinni. Auðvitað kemst hann samt upp með það af því að í pólitík standa menn alltaf með sínum mönnum.

En það hlýtur að vekja óbeit alls sæmilegs fólks. 


mbl.is Dómarar ekki viljalaus verkfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hann 250 manna maki?

Æðsti stjórnandi Kaupþings var árið 2006 tvo mánuði að vinna fyrir ævitekjum eins verkamanns. Árstekjur hans voru þá jafnháar og árslaun 250 almennra verkamanna.

Svo segir í úttekt sem Alþýðusambandið hefur gert á launum stjórnenda íslenskra fyrirtækja.

"Við hljótum að spyrja að samfélagslegri ábyrgð stjórnenda sem þiggja slík laun í ljósi þeirrar staðreyndar að um tuttugu ára skeið hefur ríkt sátt um að launafólk sýni ábyrgð í launakröfum sínum til þess að hér mætti ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu," segir einnig í skýrslu ASÍ.

Nú eru alltaf einhverjir sem segja að svona megi ekki spyrja, það sé bara lágkúruleg öfund. Og þeir verja svona mismunun og segja að þeir hæfustu eigi að fá mest. En ekki trúi ég því að þessi vesalings forstjóri Kaupþings sé virkilega 250 manna maki. Hann er hins vegar í sérstökum aðstæðum þar sem menn hafa enga samfélagslega ábyrgð til að bera svo það sé sagt bara hreint út.

Mér finnst samt undarlegt að hann og aðrir sem þiggja álíka ofurlaun skuli yfirleitt geta sýnt sig á almannafæri innan um venjulegt fólk. 

Að þeir skuli ekki sökkva ofan í jörðina af skömm og blygðun.

 

 


Við dæmum alltaf aftur í tímann

Í morgunvaktinni sagði Sif Friðleifsdóttir alþingismaður um hleranirnar að erfitt væri að dæma svona aftur í tímann og það ætlaði hún ekki að gera. Hún sagði líka að þetta hefðu verið lögregluaðgerðir. Kristinn H. Gunnarsson rak það snarlega ofan í hana. Aðgerðirnar hefðu aðeins að forminu til verið lögregluaðgerðir en verið pólitískar fyrst og fremst. Það held ég að fáir efist nú um.

Sif þykist vera voða sanngjörn og víðsýn með því að segjast ekki taka þátt í að dæma aftur í tímann. Samt gerir hún það sjálf. Mat hennar á atburðum fylgir skoðun þeirra stjórnvalda sem létu hlera. Það er hennar "dómur" um atburðina. Að hún skuli ekki fatta það! 

Við erum alltaf að meta fortíðina, leggja "dóma" á hana. Sagnfræðin gengur t.d. út á það. Ekki gengur að leggja það út sem eitthvað ámælisvert eins og Sif gerir.

Í hleranamálinu hafa þær forsendur þegar komið fram í gögnum sem gera mönnum fært að leggja dóma á það að þær hafi verið vafasamar. Það felst í því að hleranabeiðnirnar voru oftast ekki rökstuddar og aldrei lagt á þær gagnrýnt mat af dómurum. Þær voru þess vegna gerræði en ekki viðunandi réttarríkisathöfn.

Þetta nægir alveg til að fordæma hleranirnar.

Það þarf virkilega stjórnmálenn til að láta sér yfirsjást þetta.


Hleranirnar voru bara venjulegur ruddaskapur

Það er ekki hægt að afsaka hleranir á 32 íslenskum heimilum árin 1949-1968 með tílvísun til kalda stríðsins. Það er ekki hægt að réttlæta allt sem miður fer í ljósi tíðaranda.

Hleranirnar voru ruddaleg innrás í einkalíf fjölda fólks, ekki bara þeirra sem skráðir voru fyrir númerunum heldur allra heimilismanna og þeirra grunlausu einstaklinga sem hringdu í númerin.

Óhugnanlegast er að hleranabeiðnirnar voru næstum því aldrei rökstuddar og efnisleg afstaða tekin til þeirra heldur runnu þær sjálfkrafa í gegnum dómskerfið. Hlutur dómara er þar sérstaklega ámælisverður. Þeir eiga að gæta réttinda almennings og vera þröskuldur til hindrunar fyrir órökstuddri ásælni stjórnvalda í líf þeirra. Við afgreiðsluna var oft ekki vísað í eina einustu lagagrein. Dómararnir voru með öðrum orðum algjör gagnrýnislaus þý stjórnvalda og brugðust gjörsamlega skyldu sinni við almenning. Þetta mál ætti að verða tilefni til alvarlegra umræðna meðal lögfræðinga. En ætli þeir þegi ekki bara. 

Auðvitað á að draga nöfn dómaranna fram í dagsljósið. Það er varla meira óviðeigandi en það að þeir leyfðu hleranirnar.

Flestar fóru þær fram að beiðni Bjarna Benediktssonar ráðherra. Hann hefur almennt verið hafinn upp til skýjanna, að minnsta kosti af samherjum hans í stjórnmálum.  Má ekki endurskoða það álit? Er það nokkur sæmilegur maður sem ræðst af fádæma fruntaskap inn í einkalíf samborgara sinna? Svo hélt hann föðurlegar ræður til þjóðarinnar á gamlárskvöld og við ýmis önnur tækifæri án þess að hún hefði grun um hvílíkur úlfur fór þar í sauðargæru. 

Auðvitað eiga núverandi stjórnvöld að biðja viðkomandi einstaklinga, niðja þeirra og þjóðina alla afsökunar á þessum dónaskap. En halda menn að Björn Bjarnason geri það? Vitaskuld mun hann verja föður sinn fram í rauðann dauðann eða yppta bara öxlum. Það er venjan meðal stjórnmálamanna undir svona kringumstæðum. Virðing og sæmd þeirra einstaklinga sem brotið var á skiptir engu máli í samanburði við orðstír einhvers stjórnmálarefsins sem líklega var oflofaður fram úr öllu hófi eins og venjan er með slíka menn. 

Og þeir munu áreiðalega finnast, aðallega eftirlegukindur frá kaldastríðsárunum, sem munu reyna að réttlæta þessar hleranir og gera sem minnst úr þeim. Sem betur fer er slík þrælslund við stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka á undanhaldi meðal fólks í nútímanum.

Menn vilja bara heiðarleika alls staðar og skiptir þá ekki máli hver stjórnmálaflokkurinn er. Og það á ekki að afsaka stjórnvöld, hver svo sem þau eru, þegar þau koma aftan að þegnunum, hverjir svo sem þeir eru, án rökstudds tilefnis. Það finnst mér grundvallaratriði. 

Svo er það mikilvægasta spurningin: Getur ekki alveg verið að núverandi stjórnvöld séu að fremja einhver svívirðileg athæfi gegn okkur borgunum án okkar vitundar?

Viðbót:  Viðbrögð dómsmálaráðherra koma reyndar ekki á óvart. Annars er ekki hægt að skilja hvað hann á við með orðunum að dómur sögunnar sé á einn veg. Það er ekki hægt að sjá til hvers þessi orð eiga að vísa. Þess vegna eru þau bara innantóm merkingarleysa. Björn grípur svo til þess skjálkaskjóls að afsaka hleranirnar með kalda stríðinu. Það var algjörlega fyrirsjáanlegt. En þegar kveðinn er upp dómsúrskurður um hleranir hjá einstaklingum verður að vera einhver sérstækari ástæða fyrir því en almennt ástand eða ímundunarafl. Og það ætti ráðherran að vita. Hann vill það bara ekki. Það er greinlegt að Björn sér ekkert athugavert við þá sjálfvirku afgreiðslu sem málin fengu og er það hrollvekjandi þegar dómsmálaráðherra á í hlut. Afstaða ráðherrans sýnir annars hvað honum finnst í lagi í mannlegum samskiptum. Hvað myndi hann segja ef ég æddi inn í svefnherbegi hans á skítugum skónum?  Hleranir stjórnvalda á þessum eisntaklingum voru hliðstæður dónaskapur. Það á ekki að afsaka slíkt framferði bara af þvi að stjórnvöld áttu í hlut. En viðbrögð dómsmálaráðherra einkennast bæði af hroka og ragmennsku. Og hann situr sjálfur í skjóli valdsins. Þvílíkur heigull sem hann getur verið.


mbl.is 32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maí og Mali eru að spjara sig

Meðalhitinn það sem af er maí í Reykjavík er nú 8,35 stig. Hann er þriðji hlýjasti maí eftir 1949 við þessa dagsetningu. Hærri voru maí 1972, 8,36 og maí 1960, 8,66 stig. Góðar líkur eru á því að okkar maí hækki að meðalhita það sem eftir er og við endum með hlýjasta maí síðan 1960 en þá var meðalhitinn 8,7 stig.

Þetta eru þó mjög ólíkir mánuðir. Í maí 1960 kom bæði hitabylgja og kuldakast en nú hefur hitinn aldrei stigið mjög hátt í Reykjavík en heldur ekki fallið mjög lágt. Það hefur verið alveg frostlaust. Hitinn hefur verið óvenjulega jafn, dálítið líkt og 1961 sem þessi mun sennilega slá út í hitanum.  Maí 1960 var líka allt í lagi hvað sólina varðar en nú stefnir kannski í einn af tíu sólarminnstu maímánuðum í borginni 

Svo er það hitabylgjan sem sögð er vera yfirvofandi. Í gær, sem átti að vera forkunnarfínn  hitadagur, komst hitinn ekki einu sinni í 20 stig á landinu. Það er bara hallærislegt. Ég hef enga trú á því að maíhitamet verði slegið.

Samt vil ég nú ekki hengja mig upp á það. 

Það ylli þvílíkri sorg meðal hysterískra aðdáenda minna og hans Mala að ég legg það ekki á þá. Það er annars af Malanum að frétta eftir rófubrotið að taugarnar sem stjórna kúkelsinu hafa ekki aldeilis lamast eins og óttast var um tíma en það hefði orðið hans bani. Hann hefur mikið kúkt og voða stórt undanfarið.

Og ég er alveg alsæll.

 

 

 


Hroki vesturlandabúa er nú bara ekki normal

Nú eru menn á vesturlöndum rétt einu sinni æfir yfir því að það var austantjaldsþjóð, Rússar, sem fóru með sigur af hólmi í þessari Júrovisjón.  Og einhver bretabulla hvetur vesturlandaþjóðirnar til að hugsa sinn gang því þessi keppni snúist ekki lengur um tónlist heldur pólitík. Vesturlandaþjóðir  eigi ekki möguleika á sigri. 

Sú var tíðin að þessi keppni var algjörlega vesturlandamiðuð og vesturlönd fór þar af leiðandi alltaf með sigur af hólmi. En tímarnir breytast. Nú eru komnar til keppninnar margar þjóðir austur í Evrópu þar sem menningin er auðvitað öðru vísi en hjá okkur. Þess vegna eru minni líkur fyrir því að þjóð í V-Evrópu sigri.

Það er eftir hroka vesturlandabúa, með Breta, sem nú  urðu neðstir fremsta í flokki, að rjúka í fýlu og hóta því að hætta að keppa þó jákvæðar breytingar verði á Evrópu og þar með söngvakeppninni þar sem Bretar og örfáar aðrar lásí vesturlandaþjóðir höfðu áður menningarlega tögl og hagldirnar.

Það er eiginlega kórónan á lágkúrunni sem ríkir í þessari keppni að svona yfirlætisháttur vesturlandabúa skuli koma upp þegar kemur í ljós að þeir eru fullkomlega annars flokks í júrovísjón. 

Lengi getur samt vont versnað í lágkúrumálunum. Verður ekki næsta númer að þjóðirnar vestast í Evrópu, ásamt nortðurlandabúum, stofni til nýyrrar keppni!

Vestur-Evrópu söngvakeppninnar.  Ekki væru þá visjónirnar burðugar!


mbl.is Söngvakeppnin gekk fram af Sir Terry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband