Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
23.6.2008 | 12:30
Draumspeki Íslendinga er bara hjátrú
Einhver maður sagðist hafa dreymt fyrir þremur ísbjörnum. Það sýnir hjátrú Íslendinga að það skuli yfirleitt hafa komist í fréttir. Ekki nóg með það! Heldur er eins og menn taki svo mikið mark á þessu að manni finnst að það hafi eitthvað að segja um væntingar manna um það að finna þriðja ísbjörninn.
Ef finnast nú þrír birnir væri þá draumur mannsins ótvíræð forspá um það? Getur ekki verið að menn dreymi þrjá ísbirni og þrír ísbirnir gangi á land án þess að nokkurt orsakasamhengi sé þar á milli?
Eitt undrar mig mjög. Það er að menn skuli ekki skrifa niður drauma sína og dagsetja þá undir eins og þeir hafa dreymt þá. Ég veit ekki um nein dæmi um slíkan frágang á draumum sem síðan var hægt að flagga framan í fólk eftir að draumurinn "kom fram". Þó getur verið að slíkt hafi gerst. Þegar menn hafa dreymt draum og geyma hann einungis í minni sér er hætt við að þeir hagræði honum, þó ekki sé nema ósjálfrátt, til að koma honum heim og saman við veruleikann, til að hægt sé að segja að viðkomandi sé berdreyminn sem á víst að vera alveg óskaplega merkilegt. Oftast mun sá hinn sami þó fremur vera bullukollur en spámaður.
Og hvað ef finnast nú fjórir ísbirnir? Væri þá um ekta berdreymi að ræða?
Meint berdreymni sumra Íslendinga skal hiklaust kallast bull og þvæla þar til þeir geta sýnt skriflega fram á það að þá hafi í raun og veru dreymt drauma sína áður en atburðirnir gerðust sem þeir þykjast hafa dreymt fyrir.
Munar þá nokkuð um að skrifa drauma sína? Ég hélt draumadagbók árum saman. Draumar mínir voru djúpir og spakir. En þeir komu aldrei fram. Draumar eru ekki fyrir einhverju heldur eru þeir endurspeglun af sálarlífi dreymandans.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.6.2008 | 11:36
Bón og ein spurning til veðurfréttamanna sjónvarpsins
Fyrir skemmstu vék ég að því í bloggi að það hefði verið ógæfuspor þegar hætt var að útvarpa á gömlu gufunni veðurlýsingum frá kl. 18 þar sem flutt var visst veðuruppgjör dagsins. Ágætur veðuráhugamaður tók undir þetta í athugasemdum en benti réttilega á að það er líka "alveg hætt að sýna í Sjónvarpinu Íslandskortið með veðri dagsins og varla talað um það."
Þetta er mikil afturför og hefði bloggið verið búið að festa sig eins í sessi og nú er hefði þessari breytingu ekki verið tekið þegjandi og hljóðalaust af veðuráhugamönnum. En það er kannski aldrei of seint að bregðast við.
Veðurfregnir í ríkissjónvarpinu eru nú bara svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.
Ég veit að sjónvarpið hefur sífellt verið að þrengja að tíma veðurfregna en ég trúi því ekki að veðurkorti dagsins hafi verið kippt í burtu af þeirri ástæðu. Ástæðan hefur fremur verið ákvörðun þeirra veðurfræðinga sem sjá um veðurfréttatímana.
(Ekki bætir úr skák að nýlega hafa veðurkortin af Íslandi verið smækkuð svo sjóndapurt fólk á hreinlega erfitt með að greina tölurnar á því):
Veðurfréttir eiga ekki að vera bara spár fram í tímann. Þær eiga líka að vera það sem felst í orðanna hljóðan: fréttir - af veðri. Veðurfræðingar í sjónvarpi ættu því ekki aðeins að vera spámenn heldur líka fréttamenn, segja frá helstu veðurtíðindum dagsins. Það er mikilvægara að mínum dómi að sýna veður dagsins á Íslandi heldur en að eyða tíma í að spá í veðrið í Evrópu
Viljiði ekki gera svo vel að taka aftur upp þann góða sið að sýna veðurkort dagsins með einhvers konar uppgjöri. Er eitthvað sem stendur í veginum?
Með bestu kveðjum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.6.2008 | 20:12
Sko, skottið á Mala!
Eins og allir hysterískir aðdáendur hans Mala vita rófubrotnaði hann í vor þegar hann flaug fram af svölunum á fjórðu hæð.
Hann hefur lítið getað hreyft skottið þar til síðustu daga að allt í einu er komið líf í það. Hann er farinn að sveifla því í veiðihug og reisa upp stýrið þegar mikið liggur við.
Ég náði þessari listrænu mynd af uppreistu glæsiskottinu hans Mala bara rétt áðan. Hægt er að stækka myndina.
Mali er algjör súperskotti!
Mali | Breytt 6.12.2008 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.6.2008 | 19:06
Úrkoma í grennd
Í veðurlýsingu fyrir Reykjavík kl. 18 á netinu var sagt "úrkoma í grennd". Þetta er stundum sagt í veðurlýsingum. En hér var nú samt glaðasólskin og er oft þegar svona er sagt. Er nokkuð vit í því að segja svona þó einhverjar skúraleiðingar sjáist " í grennd" þegar sól er á staðnum?
Má ekki segja bara: "léttskýjað" eða "skýjað" eftir því sem við á og sleppa allri þessari "grennd"?
Annað sem ég fæ ekki skilið: Hvers vegna eru lesnar veðurlýsingar í útvarpinu fyrir veðrið kl. 9 en ekki kl. 18? Er veðrið kl. 9 eitthvað merkilegra en veðrið kl. 18? Hér áður fyrr var að minnsta kosti sagt hvað mikill hiti hafði mælst yfir daginn til kl. 18 og mikil úrkoma en nú er bara ekkert í útvarpinu um daglegt uppgjör.
Það er hæglega hægt að lenda í þeim aðstæðum að hafa ekki aðgang að sjónvarpi eða tölvu, til dæmis í akstri um landið.
Að leggja niður "veðrið kl. 18" í Ríkisútvarpinu var mikið ógæfuspor. Veðurstofan átti ekki að taka það í mál. Og það hefði ekki gerst ef hún hefði staðið föst á sínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2008 | 00:38
Hvað er klukkan annars ...
á Seyðisfirði?
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.6.2008 | 18:53
Ekki kápan úr því klæðinu
Það eru til miljarðar trúmanna í heiminum. Ekki nokkur þeirra gengur af trú sinni vegna andstöðu trúleysingja.
Það eru til miljarðar trúleysingja í heiminum. Ekki einn einasti þeirra fer að trúa þrátt fyrir boðun trúmannanna.
Þannig er heimurinn. Að menn skuli ekki geta sætt sig við það.
Ó, nei, kæru bræður! Ekki verður ykkur kápan úr klæðinu að gera athugasemdir við þetta.
17.6.2008 | 18:47
Spjöld sögunnar
Einhvern veginn fannst mér eins og þetta færi svona með bangsann, sérstaklega þegar ég heyrði kokhreysti danska villidýrafangarans í sjónvarpinu sem ætlaði að fanga björninn. Ekkert mál, sagði hann.
Ólánið lá í loftinu.
Þessi þjóðhátíðardagur kemst þá á spjöld sögunnar eftir allt saman fyrir það að ísbjörn var felldur.
Og nú er bara að bregða sér á ballið í bænum í kvöld! Villt djamm! Lífið heldur áfram!
Nema náttúrlega fyrir bangsann.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.6.2008 | 10:12
Óþokkar eru þetta!
Ísbjörninn fær ekki að vera í friði. Í morgun flaug flugvél lágflug yfir hann. Það kom styggð að honum. Samt er flug bannað þarna.
Þvílíkir óþokkar eru þetta!
Annars kemur fátt á óvart ef menn hafa lesið blogg manna um ísbjörninn. Björninn er vel vaktaður og auðvitað verður gripið í taumana ef hann fer að gerast hættulegur mönnum áður en svæfingameistarinn mætir á staðinn. Þrátt fyrir þetta má lesa mörg blogg þar sem menn vilja óðir og uppvægir drepa björninn - að því er virðist af drápfýsn einni saman - og hæðast að yfirvöldum og öðrum sem vilja freista þess að reyna að bjarga birninum. Kalla þá alls kyns lítilsvirðandi nöfnum.
Hvers konar hugarfar er þetta eiginlega?
Já, og svo var kominn tólf stiga hiti strax kl. 9 í morgun í Reykjavík í sól og norðanátt. Þetta ætlar að verða góður þjóðhátíðardagur - það er að segja ef hann kemst ekki á spjöld sögunnar fyrir það að þá var annar ísbjörn felldur á hálfum mánuði.
Ég er annars að hlusta á útvarpið frá serimóníunni á Austurvelli. Það voru lesin upp nöfnin á hverri silkihúfunni upp af annarri; forsetinn og frú, ráðherrar og frúr því auðvitað eru ráðherrar aldrei einhleypir og því um síður hommar eða lesbíur, borgarstjóri, biskupinn og ég veit ekki hver. Má ekki stilla þessu partýi fína fólksins í hóf og hafa með einhverja fulltrúa sauðsvarts almúgans? Er hann nú ekki þjóðin eftir allt saman?
Og vel að merkja: Hvers vegna í ósköpunum er ríki sem rekið er á veraldlegum forsendum að flagga æðsta yfirmanni trúflokks í fremstu röð? Hvern fjandann er biskupinn yfir Íslandi að gera þarna?
Dagskráin hófst náttúrlega á því að formaður "þjóðhátíðarnefndar" flutti ótrúlega flatt og lágkúrulegt ávarp sem líka var fullt af mærðarlegri þjóðrembu. Hann nefndi til dæmis Jón Sigurðsson og Ingólf Arnarson sem var nú bara billeg þjóðsaga fremur en landnámsmaður.
Síðan söng karlakór þjóðsönginn svo hörmulega að einum afdönkuðum tónlistargagnrýnanda rann kalt vatn milli skins og hörunds og er hann þó ýmsu vanur.
Well, forsætisráðherra er nú að flytja "hátíðarræðu" í þessum skrifuðu og þjóðhollu bloggorðum mínum og er þegar búinn að nefna tvisvar þennan Jón Sigurðsson sem þjóðin hefur aldrei þolað í raun og veru enda virðist hann hafa verið einhver leiðinlegasti Íslendingur allra tíma. Já, og nú fer hann að mæra Bjarna Benediktsson, dónann sem ruddist inn í einkalíf nokkurra Íslendinga til að hlera símana þeirra.
Mín tillaga er sú að þessi auma serímónía á Austurvelli á 17. júní verði þegar í stað lögð niður.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2008 | 23:17
Beðið fyrir Vantrú í Laugarneskirkju
Bjarni Karlsson bað fyrir félaginu Vantrú í messu í Laugarneskirkju í kvöld. Hann bað reyndar ekki um það að guð leiddi félagsmenn til réttrar trúar heldur eitthvað í þá veru að þeim vegni vel að leita sannleikans.
Mér finnst alltaf svo yfirlætislegt þegar trúaðir menn eru að biðja upphátt fyrir trúleysingjum: Sjáið þessa syndara hér? Ekki veitir nú af að biðja fyrir þeim! Geta þeir ekki gert það í hljóði?
Einföld mannþekking og félagsleg þekking segir manni að þetta sé eins konar ögrun. Margir trúleysingjar standast nefnilega ekki reiðari en þegar allt í einu er farið að biðja fyrir þeim. Það hélt ég að jafn ágætur og vitur maður og Bjarni Karlsson ætti að vita.
Það fór líka fyrir brjóstið á mér að Bjarni prédikaði á móti greininni "Trúlausi guðfræðingurinn" sem birtist í dag í Fréttablaðinu. Hana skrifaði Teitur Atlason sem lauk BA prófi í guðfræði en hætti svo námi og er nú í Vantrú. Auðvitað má gagnrýna þær skoðanir sem þar koma fram í sjálfu sér.
Mér finnst hins vegar ósanngjarnt þegar prestar nota prédikunarstólinn til að nafngreina menn sem skrifað hafa blaðagreinar og ráðast gegn skoðunum þeirra. Eðlilegt væri að svara þeim í blöðunum. Bjarni sagði að Teitur hæddist að hugmyndinni um fórnardauða Jesú sem mér finnst hann reyndar ekki gera eins og ég skil háð þó hann tali gegn hugmyndinni.
Messa er athöfn þar sem menn sem vegið er að geta ekki svarað fyrir sig á sama vettvangi. Höfundur greinarinnar hefði alveg getað verið viðstaddur án þess að geta komið nokkrum vörnum við.
Ég segi fyrir mig að ég yrði æfur, og er ég þó skapstillingarmaður hinn mesti, ef prestur í stólnum nefndi mig þar með nafni og réðist að skoðunum mínum í blaðagrein frammi fyrir söfnuðinum. Ég myndi fara með það undireins fyrir siðanefnd presta til að vita hvað þeir hefðu um það að segja. Í slíkum nefndum verða menn að rökstyðja niðurstöðu sína vandlega eftir siðfræðilegum brautum (líka siðanefndir trúarstofnana), ekki trúarlegum.
Svona eiga menn bara ekki að gera. Það er lágmark að svara mönnum á þeim vettvangi þar sem jafnræði ríkir með þeim sem hafa ólíkar skoðanir.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
15.6.2008 | 18:13
Mali svali
Þetta er ofurtöffarinn Mali svali um það bil að koma út úr kuldanum.
Og hér er hann í allri sinni tign að njósna um heiminn. Með því að klikka þrisvar á myndirnar er hægt stækka þær mjög og sjá hve Mali er myndarlegur.
Mali | Breytt 6.12.2008 kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006