Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Gott að helgin er liðin

Þá er leiðinlegasta helgi ársins liðin. Sagt  er að hún hafi farið vel fram þó "mikill erill" hafi verið hjá lögreglu víða. Orðalagið merkir að mikið fyllerí hafi verið í gangi. Umburðarlyndi Íslendinga í garð drykkjuskapar er undravert.  Svo er verið að gera fréttaefni úr því að tvö eða þrjú "fíkniefnamál" hafi komið upp á samkomum. Og samt voru margir alveg blindfullir. En það er mórallinn að áfengi sé ekki fíkniefni. Það þykir bara sjálfsagður hlutur að drekka sig fulla. Ég drekk ekki og leiði hjá mér að umgangast drukkið fólk en að öðru leyti er ég þó ekki fantatískur í garð áfengisneyslu. Þessi tvískinnngur fer samt ofurlítið í taugarnar á mér þó þær séu úr stáli.

Anna vélstýra var að blogga um veðrið eða veðurspána. Spáð var sól og blíðu um verslunarmannahelgina alveg fram á föstudagskvöld þegar þeir fóru að breyta spánni, jafnvel eitthvað í líkingu við það sem hafði verið dagana áður þegar hitarnir miklu gengu yfir. En allt fór þetta fjandans til. Föstudagurinn var nokkuð góður en eftir það fór mestur glansinn af veðrinu. Það var að vísu hæglátt og ekki rigndi á laugardag og i gær nema á suður-og vesturlandi og á austfjörðum en lítið sást til sólar og hitastigið ver ekki til að hrópa húrra fyrir að deginum nema sums staðar norðaustanlands á laugardag, víðast hvar þessi föstu 12 stig í gær og hlýjast 16 stig á Patreksfirði af öllum stöðum.

Í bók sinni Íslendingar skrifar Guðmundur Finnbogason sem var landsbókavörður að á Íslandi sé sjaldan hægt að vera úti vegna kulda nema kappklæddur og helst á hreyfingu. Nú, eða blindfullur! Það verður kalsamt að vera úti við klukkustundum saman í 10-12 stiga hita undir sólarlausum  himni.

En svona er nú íslenskt veðurfar. Það getur skipt úr hitabylgjum í kalsa á stuttri stund. Reyndar bjargaði það miklu núna hve hiti var jafn milli dags og nætur. Næturhitinn var tiltölulega mikill þó dagshitinn hafi verið fremur lítill.  

Í gær var ég að blogga um frétt á Mbl. is sem ekki var hægt að blogga um. Hátt á annað þúsund mans hafa verið að lesa þessa færslu og var einn af hærri aðsóknartoppunum á blogginu mínu í gær og nokkuð líflegar umræður. Það dugar sem sagt ekki að leyfa ekki að bloggað sé um fréttir til að  hefta  umræður um þær. Mér finnst það hins vegar umhugsunarvert hvernig það síast út að maður sé  að blogga eitthvað merkilegt. Ekki vakti það athygli á blogginu mínu þegar menn lásu fréttina því ekki var hægt að blogga um hana og engir þar af leiðandi taldir upp sem það hefðu gert. Hvað var það þá? 

Gott er að þesi helvítis helgi er liðin og vonandi gerist ekkert hræðilegt í dag. Mánudagurin eftir verslunarmannahelgi er hættulegasti dagur heglarinnar.

Svo vorkenni ég ekki rassgat þeim sem eru að drepast úr þynnku og timburmönnum!DevilTounge


Hin djúpa dul lífsins

Og nú er bara komið skítaveður í henni Reykjavík eftir hitana miklu. Ekki hefur sést til Esjunnar í allan dag fyrir Venusarlegu skýjaþykkni.

Mér finnst laugardagurinn og sunnudagurinn um verslunarmannahelgina bestu dagar ársins í Reykjavík. Þá fer ég í langar göngur og hugsa gríðarlega mikið um hina djúpu dul lífsins. Hún er nú ekkert smáæðis djúp. En það er ekkert gaman að ganga úti þegar ekki sér til fjalla og skýjamökkurinn er alveg ofan i manni og ætlar að kæfa mann. Þetta er önnur eða þriðja - eða  er það fjórða - verslunarmannahelgin í röð sem ónýtist vegna fúlviðris en þar á undan komu margar gönguvænar og hugsanadjúpar verslunarmannahelgar. 

Það er enn mjög hlýtt loft yfir landinu en ekkert orðið sérlega mikið úr því. Í dag varð hlýjast 23 stig uppi á reginörfæum, Hágöngum, vestan við Vatnajökull. Á Reykjum í Fnjóskadal fór hitinn í 22 stig og er það víst 9. dagurinn í röð sem hitinn þar fer yfir 20 stig sem út af fyrir sig er að verða fenómen.

Við lifum á dögum hinna veðurfarslegu fenómena.

Ekki voru fenómenin samt minni á sixties þegar snjókomur og voðaveður óðu uppi um hásumarið. Veðurfar núna er alveg óþekkjanlegt síðan þá. Og hvort er nú betra: Voðaveðrin ógurlegu eða hitabylgjurnar létt erótísku? Hefur Jan Mayen liðið eitthvað svar við því? Vill annars einhver vera með því gengi í liði?

Nú, en af því að ekkert gaman var að ganga úti í dag reyndi ég að rífa mig upp í innra rómantískt hitasóttaræði með því að hlusta á sönglög eftir Schumann. "Mein Herz ist schwer" (alveg rosalega), "was will die einsame Tranen", "du bist wie eine Blume" (lexía í grasafræði) og svo framvegis alveg út í " du meine Seele, du mein Herz, du meine Wonn', o, du mein Schmerz", þar til væmnisklígjan fór að láta mig þykja vænt um gömlu góðu voðaveðrin þegar menn urðu einir og yfirgefnir úti í stórhríðum um verslunarmannahelgina langt frá öllum öðum titrandi hjörtum.

Já við lifum á tímum fenómenana. Það eru fenómen í veðrinu. Það eru fenómen í pólítíkinni. Það eru fenómen í efnahagsmálunum. Það eru ekstra fenómen varðandi ólympíuleikana. En langmesta fenómenið er það hvað bloggararnir endast til að velta sér upp úr bullinu úr sjálfum sér. 

  

 


Bloggað um frétt

Nú ætla ég að  blogga um frétt sem er á netsíðu Morgunblaðsins en ekki er gefinn kostur á að blogga um. En það er ýmislegt athugunarvert og eiginlega hneykslanlegt við fréttina. Hún er svona:

Röng greining: Ungt barn lést í sjúkrabíl í þriðju ferð til læknis

Barn lést eftir að botnlangi þess sprakk en þá höfðu foreldrar þess farið með það tvívegis til læknis en í bæði skiptin voru þau send heim. Þegar barninu hrakaði kom nágranni fólksins að sem er sjúkraliði og hringdi á sjúkrabíl. Barnið dó á leið á sjúkrahúsið en banamein þess var blóðeitrun vegna sprungins botnlanga. Atvikið átti sér stað í síðstliðnum mánuði.

Málið í nánari skoðun

„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum frá læknum Landspítala var hér um mjög óvenjulega sjúkdómsmynd að ræða og ekkert sem bendir til að aðstandendur eða læknar hefðu átt að bregðast öðruvísi við en gert var," segir Kristján Oddsson, yfirlæknir hjá landlæknisembættinu. „Þá virðist eftirfylgni við aðstandendur hafa verið góð en við eigum von á skýrslu frá Landspítalanum og munum þá skoða málið nánar," segir hann og ítrekar að hin óvenjulega sjúkdómsmynd hafi dulið hið alvarlega ástand með ofangreindum afleiðingum.

Gott aðgengi skiptir máli

„Sem betur fer er það mjög sjaldgæft að fólk deyi vegna afleiðinga sprungins botnlanga," segir Niels Christian Nielsen, lækningaforstjóri á Landspítalanum, og bætir við að gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli.

Frétt lokið.

Það sem er athugunarvert og eiginlega hneykslanlegt við fréttina er hvað þeir læknar sem talað er við gera sem allra minnst úr málinu. Það er til dæmis undarlegt að blanda viðbrögðum aðstandenda við sjúkdómnum inn í málið. Ábyrgðin er eingöngu læknanna. En þarna er verið að drepa þeirri ábyrgð á dreif með lævíslegum hætti.

Viðbrögð læknanna einkennast af undabrögðum. Lækningarforstjóri Landsspítalans áréttar að mjög sjaldgæft sé að fólk deyi af völdum sprungins botnlanga. Slík yfirlýsing hefur ekkert gildi þegar manneskja var einmitt að deyja af þessum sökum. En svona er sagt til að deyfa ábyrgð læknisins eða læknanna sem tvisvar skoðuðu sjúklinginn, en ekki kemur fram hvort hann eða þeir voru á vegum spítalans.  Níels Christian segir líka að gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli. Hann virðist ekki ná því hve kaldhæðnislega smekklaus sú yfirlýsing hljómar þegar um er að ræða dauða sjúklings sem tvisvar hafði haft þennan líka prýðilega aðgang að læknisþjónustu sem kom þó fyrir ekki. En það sem læknarnir forðast eins og heitann eldin að nefna þó það æpi framan í lesanda fréttarinanr er það að eitthvað verulega ábótavant hefur verið við þá heilbrigðisþjónustu.  

Kristján Oddson yfirlæknir hjá Landlæknisembættinu gerir mikið með það að um óvenjulega sjúkdómsmynd hafi verið að ræða sem hafi dulið  hið alvarlega ástand. Þetta virkar sem auðvirðileg afsökun. Eiga læknar ekki að geta tekist á við lífshættulega óvenjulegar sjúkdómsmyndir, bara þær sem venjulegar eru? Reyndar er ekki annað að skilja af orðum Kristjáns en að allt hafi verið í himnalagi í málinu á öllum sviðum. Í ljósi alvarleika málsins er slík afstaða ekki bara hrokafull heldur beinlínis forhert. 

Kristján er starfsmaður Landlæknisembættisins og orð hana gefa skýran  fyrirboða um það að "rannsókn" embættisins mun komast að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugunarvert við málið. Enginn læknir mun þurfa að taka ábyrgð á dauða barnsins. Ekki einn einasti. Þeir munu allir halda áfram störfum sínum með óskertum launum og óskertri virðingu. En foreldrarnir munu syrgja. Læknarnir yppta bara öxlum yfir því. Viðbrögð Kristjáns og Nielsar sýna það vel. Það fyrsta sem þeim dettur í hug, það eina sem þeim dettur í hug, er að gera sem minnst úr málinu til að verja sína menn, læknana.

Loks finnst mér einkennilegt að Morgunblaðið skuli ekki leyfa að blogga við þessa hálf óhugnanlegu frétt. Er eitthvað viðkvæmt við hana? Nei, ekki fyrir neinn nema heilbrigðisjónustuna. Og vill blaðið hlífa henni?

 


Ó, er ekki tilveran dásamleg!

Hitabylgjan gerir það ekki endasleppt. Í dag varð mesti hiti í Reykjavík 23,5 stig og var í þeirri tölu einmitt við athugun kl. 18. Það er ekki útilokað að hámarkið eigi enn eftir að stíga og sést það við hámarksathugun í fyrra málið. Hvergi á landinu varð hlýrra á mannaðri veðurstöð.

Á sjálfvirkri stöð varð hlýjast 24,3 stig á Þyrli í Hvalfirði, 24,2 á Korpu og 24,1 í Geldinganesi, á  Reykjavíkurflugvelli og á Möðruvöllum í Hörgárdal. Já og meira að segja stöðvarómyndin í Straumsvík sem svamlar oftast nær í úrsvalri hafgolu rauk upp í 23,8 stig! Henni er þá ekki alls varnað greyskarninu!

Nú er svo komið að fjórum sinnum á átta dögum hefur hitinn í Reykjavík farið í 22,5 stig eða meira. Það á sér ekkert fordæmi. Og svo er að koma verslunarmannahelgi við þessar aðstæður. Ó, er ekki tilveran dásamleg! 

Þess má líka geta að síðustu þrjá dagana hefur hitinn komist í 20 stig í Grundarfirði en í öllum þessum hamagangi hefur hitinn ekki náð 20 stigum í Stykkishólmi fremur en fyrri daginn. Þar hafa verið veðurathuganir síðan 1846, lengur en nokkurs staðar annars staðar og er vart hægt að finna stað á öllu landinu sem er eins ónæmur fyrir hitabylgjum og einmitt Stykkishólmur. Það er því alveg ómögulegt að fá svo mikið sem grænan grun um hitabylgjur á landinu í gamla daga út frá athugunum á þeim hinum herlega stað.

Það breytist allt mannlíf á götum Reykjavíkur í svona miklum hitum. Stemningin verður engu lík og allt öðru vísi en á venjulegum góðviðrisdögum. Það verður útlenskt ástand og gjörsamlega tryllt. Allir eru líka hálfberir eða meira en það og það skapast upprífandi erótík í hlýja loftinu. (Meira að segja jafn gamlir, virðulegir og djúpvitrir menn og ég verða aftur ungir í anda og fara að sjá sætar stelpur á hverju götuhorni) En þetta var nú bara innan sviga og á ekki að fara hátt. Og þetta upplifum við aðeins á margra ára fresti og varla það. En þeir eru víst til sem velja heldur 12 stigin og rigninguna. Það er ólukkans Jan Mayen gengið!   

En ekki má svo gleyma því með mikilli samúð í hjarta að á Neskaupsstað voru einmitt 12 stig í dag. Og samt búa þar víst bæði bókhneigðar manneskjur og afar stolt kattardýr og una öll glöð við sitt!


19 stig kl. 9 í Reykjavík

Klukkan níu var hitinn kominn upp í 19 stig í Reykjavík í hægri austanátt og sólarlausum himni . En það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Klukkan tíu var áttin orðin norðaustlæg og hitinn hafði lækkað ofurlítið. Það er ekkert víst að hann fari nokkuð hærra. En þetta er samt ágætt svo snemma dags.

Á Hjarðarlandi í Biskupstungum var hitinn kominn í 20 stig klukkan níu. Og klukkan 11 var hitinn 22 á Þingvöllum og 20 á Skrauthólum á Kjalarnesi og í Bíldusal þar sem voru 25 stig í gær. Hitabylgjan er ekki liðin hjá.

Á Neskaupsstað var aldrei nein bylgja. Þar eru menn dúðaðir í sínum peysum í þessum ámáttlegu tíu stigum. Samt búa þar bæði stórskrýtnar manneskjur og stórgöfug kattardýr.   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband