Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Vísað til Vítis í boði ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin var að fordæma með óvenjulega hörðum orðum mótmælin við heimili dómsmálaráðherra. Þetta samþykktu ráðherrarnir allir sem einn.

Gott og vel.

En ráðherrarnir í ríkisstjórninni létu sér vel líka þegar flóttamönnunum var vísað til Grikklands. Allir sem einn.

Í Speglunum var það áðan haft eftir þeim sem til þekkja að það sé næstum því víst að flóttamönnunum verði á endanum aftur vísað til þess lands sem þeir voru að flýja. 

Þeim verði vísað beint til  sama vítis og þeir flúðu frá.

En ríkisstjórnin mótmælir ekki þessu grimmdarverki.  Samt veit hún af þessu. 

Óskapleg mannvonska er þetta. Og þvílík ríkisstjórn!

Fantar og grimmdarseggir eru þessir ráðherrar. 

Að þeir skuli geta sofið á næturnar.

En það gera þeir nú samt eins og saklausir barnsrassar!

Þannig birtist einmitt mesta illskan. Hún er forherðingin sjálf bak við siðfágað yfirbragðið. 

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ef mótmælin hefði eingöngu beinst gegn almennum borgurunum en ekki ráðherra hefði ríkisstjórnin ekki fordæmt þau. Hún  er fyrst og fremst að slá skjaldborg um sjálfa sig. Á sama tíma og hún sendir varnarlaus fólk út í hreina neyð.

Raggeitur og bleyður er þessi ríkisstjórn.

 


Breytt blogg

Ég heimsótti vinkonu mína um daginn sem er mjög þekktur bloggari. Henni finnst bloggið mitt hafa breyst. Það sé þyngra en það hafi verið lengi frameftir. Ég láti ekki eins oft gamminn geysa og geri minna af því að vera áhyggjulaus og bara skemmta mér.

Sæmundur hinn bloggfróði og bloggvinur minn góður hefur gaman af því að spá í blogg og skrifa um það, bæði sitt eigið og annarra. Mér finnst það raunar ekki þó ég geri nú þessa undantekningu og bregði mér í sæmundarhaminn. En seint mun ég jafnast á við meistarann.

Mér hefur alltaf fundist erfitt að blogga. Það er allt önnur tilfinning en að skrifa greinar í blöð. Ég hef aldrei fundið fyrir slíkum skriftum en bloggið hefur frá fyrstu tíð valdið mér óþægindum oft og tíðum. Það er harkan í blogginu sem mér líkar ekki. Ég á ekki við að menn gagnrýni menn og málefni af fyllstu hörku og með bravúr heldur þá persónulegu meinfýsi sem mér finnst um of  setja svip  á blogg en einkumm þó í athugasemdum. Þetta er atriði sem erfitt er við að eiga og ekki má fara út í alltof   stranga ritskoðun. En þannig er nú lífið, ansi hart á  stundum, og á blogginu erum við  einmitt líkari okkur sjálfum í daglegu lífi en við komust upp með í öðrum skrifum sem verða að fara í gegnum síun ritnefnda.

Mér er voðalega illa við persónulegar deilur og tek þær alltaf inn á mig. Ég stend líka lítið í slíku. Það er þá helst að ég efni stöku sinnum til óvinafangaðar með frelsuðum strangtrúarmönnum!Ég læt þá hins vegar í friði á  þeirra eigin bloggsíðum. Mér finnst mest gaman að vera bara ljúfur og glaður á blogginu út í allt og alla. Það er ég þó auðvitað ekki nærri því alltaf en okkur Mala finnst það samt mest gaman.

Já, svo kom feisbúkk. Hún hefur meira tekið til sín þessa á hlið  á mér en ég leyfi mér  að sýna á blogginu núorðið og ég hef þá orðið fjarlægari að sama skapi á blogginu. Ég hef gaman af fólki og finnst notalegt að finna hlýju frá því. Það fyrirbæri er sterkara á feisbúkk en á bloggi þó ýmis tilbrigði séu á þessu. Feisbúkk er eins konar vinhópur (ég stilli fjölda vinanna í hóf), blogg meira í ætt við opinbert at. Ég hef samþykkt alla vini sem eftir því hafa leita á feisbúkk þó ég þekki þá ekki, en einstaka hafa dregið beiðni sína til baka áður en ég hef getað samþykkt hana. Þegar ég sjálfur leita eftir vinum þar, sem ekki er oft því ég er óframfærinn að eðli,  vel ég þá af kostgæfni. Engan áhuga hef ég  á kynnum við  þekkt fólk fyrir þá sök eina að það er frægt.  Ef ég þekki einhvern aðeins sem opinbera persónu nálgast ég hana á feisbúkk vegna þess að mér líkar vel við  hana á einhvern hátt á opinberum vettvangi en það þarf ekki að merkja að ég sé alltaf sammála henni í skoðunum. Þetta hefur eitthvað með útgeislun manneskjunnar að gera.  

Ég hef í rauninni meiri áhuga á fólki heldur en þeim skoðunum sem fólkið hefur. Ég þoli vel skoðanir annarra sem ég er ósammála. En ég á samt vont með að þola valdníðslu yfirvalda af öllu tagi og þá sem mæla slíku athæfi bót. Þá sný ég stundum upp á mig á blogginu í alvöru. En flest hitt, þegar ég þykist vera reiður, er bara plat!

Moggabloggið hefur verið að breytast. Ég á ekki við það að margir séu að hætta vegna þess að Davíð Oddsson sé orðinn ritstjóri heldur annars konar breytingar. Moggabloggið er orðið þriggja ára gamalt. Á þeim tíma hefur nýjabrumið horfið, en það stóð oft í sambandi við hið óvænta sem var afleiðing af nokkurs konar konar stjórnleysi sem gat verið spennandi þó það ætti sínar skuggahliðar. Nú er allt  orðið svo tamið og settlegt, nafnleysi úthýst og  alles. Flestir þekktir pennar, sem þykjast vera eitthvað, hafa reyndar yfirgefið Moggabloggið fyrir löngu. Ég hef á tilfinningunni að ekki þyki fínt að blogga á Mogganum og  mörgum finnist  ekki fínt að blogga yfirleitt. Þeir líta niður á bloggiðju skilst mér. Sumir líta jafnvel niður á allt og alla! En það er nú önnur saga.

Það sem hefur líka breytt bloggi almennt í landinu er þetta eilífa krepputal sem er í algjörri ofgnótt á  blogginu, ekki síst Moggablogginu. Til mótvægis við það langar mig til að benda á  að á Moggablogginu eru nokkrar upplýsingaveitur um hin ýmsu mál sem ekki láta mikið yfir sér en eru fyrir mér áhugaverðasta bloggið. Ég vísa aðeins á öráar eftir minni og handahófi, Veðurvaktina, Ágúst, Emil, Láru (sem er reyndar áberandi vegna vinsælda sinna) og þetta blogg. Aldrei hef ég reyndar lesið mikið af bloggi en tek samt rispur annað veifið. Og ekki bara á Moggablogginu.   

Ekki finnst mér ég vera á neinn hátt tengdur fyrirtækinu Morgunblaðinu, nema að forminu til, þó ég bloggi á  vefsvæði þess. Ég er bara ég og myndi alls staðar blogga eins og ég geri hér. 

Fyrir mér er veðurbloggið aðalatriðið. Ef ekki væri fyrir það hefði ég aldrei farið að blogga. En nú  er ég búinn með nokkrar veðurfarsseríur og veit ekki hvort ég legg í fleiri.  Engan áhuga hef ég fyrir að blogga um veðurfarsbreytingar af manna völdum þó vissulega sé ég áhugasamur að öðru leyti um  þær. Þrátt fyrir að veðurbloggið sé fyrir mér aðalatriðið neita ég því ekki að stundum er mér   nokkuð niðrifyrir að koma skoðunum mínum á framfæri um almenn málefni. Þá getur verið hentugt að blogga. Málið er bara að mér finnst það ekki gaman svona yfirleitt. Ég nýt mín ekki nema  í veðurbloggi svona inni í mér þó ég hafi heyrt  að einhverjum þyki ekki ógaman að lesa bloggið mitt þegar ég blogga ekki um veðrið og sé það líka á heimsóknartölum þegar ég nenni að blogga samfellt um nokkurn tíma. En mér skilst og hef  reyndar stundum fengið  að heyra það fullum fetum að fátt þyki blogglesendum leiðinlegra en einmitt veðurfærslurnar  mikilfenglegu á Allra veðra von! Það er líka erfitt að setja upp um þær þykka þrætubók eins og um veðurfarsbreytingarnar. Mér finnst annars dálítið dularfullt hvað lítið er um efnislegar athugasemdir við veðurbloggið mitt miðað við það sem gerist á öðrum bloggsíðum þar sem loftslagsmál eru rædd. 

Það er álitamál hvað maður á að opinbera mikið af sjálfum sér á bloggi.  Mér finnst  þó alltaf gott að greina persónuna á bak við blogg, að þau séu ekki bara eins og  ópersónulegar blaðagreinar. Í þessum efnum hef ég reynt að gæta hófs og jafnvel stundum tekið út efni þar sem mér finnst ég hafa sagt of mikið. En ég get samt ekki neitað því að hluti af bloggfælni minni í seinni tíð - ég er alltaf með löng og stutt hlé á milli þess sem ég blogga- er sú óheppilega  og einkennlega staðreynd að svo undarlega æxlaðist að einhver erfiðasta reynsla ævi minnar er órjúfanlega tengd fyrirbærinu bloggi. Í  bloggheiminum og því sem honum tengist gerist auðvitað ýmislegt á bak við hin opinberu leiktjöld eins og í öllum öðrum heimum.

Ég lít því persónulega á bloggið sem hálfgerða ógæfu sem tengist  sorg, söknuði og eftirsjá, auk ýmsu  öðru. En vitanlega segir þessi einkareynsla ekkert um bloggið sem almennan miðil. 

Ég hef á tilfinningunni að dagar Moggabloggsins séu senn taldir, hvernig sem það mun bera að. Kannski skjátlast mér. 

En við Mali munum samt mala saman meðan stætt er - eða réttara sagt meðan malandi er.  

 

 


Fyrstu og síðustu frost og snjóar í Reykjavík

Fyrsta frost á þessu hausti í Reykjavík mældist að kvöldi 3. október. Samkvæmt skráningarreglum Veðurstofunnar verður það bókað 4. október. Síðasta frostið í vor kom 25. apríl. Frostlausi tíminn hefur  því varað í 161 dag. 

Alautt varð til frambúðar svo snemma í vor sem 31. mars en alhvítt varð fyrst í haust 6. október. Dagarnir þarna á milli eru 188.

Skráningar á síðustu vorfrostum og fyrstu haustfrostum eru til fyrir Reykjavík árin 1880 til 1903  eftir sírita og frá stofnun Veðurstofunnar 1920 og er þá farið eftir kvikasilfursmælingum. 

Skráningar á því hve nær alautt verður að staðaldri á vorin og fyrst alhvítt á haustin eru til samfelldar frá því 1924. Einstaka sinnum hefur það gerst að dagar koma flekkóttir af snjó áður en fyrst verður alhvítt á haustin en þetta eru aðeins fáein tilvik sem hér verða ekki rakin.

Meðaltal síðasta frosts að vori árin 1961 til 1990 er 14. maí en fyrsta frosts að hausti er 5. október. Frostlausi tíminn er því 143 dagar. Meðaltal dagsins sem fyrst verður alautt að vori er 24. apríl en fyrst verður alhvítt að meðaltali 7. nóvember. Dagarnir þarna á milli eru 196.

Árin 1931 til 1960 voru samsvarandi dagsetningar 10. maí og 6. október með frostin en 20. apríl og 6. nóvember með snjóinn. Þarna munar meira að vori en hausti. Frostlausu dagarnir voru 148 en snjólausu dagarnir 199.

Á árunum 1880-1903 voru síðustu frost á vorin að meðaltali 22. maí en fyrstu haustfrost  25. september. Frostlausi tíminn var 125 dagar, 18 dögum færri  en 1961-1990 og 23 dögum færri en á hlýindaskeiðinu 1931-1960.

pict0960_921429.jpg

Fyrsti haustssnjór í Reykjavík árið 2005, 29. október. 

Síðan Veðurstofan var stofnuð árið 1920 hefur frostlausi tíminn lengstur verið árið 1939, 201 dagur, frá 23. apríl til 9. nóvember. Næst koma árin 1941, 186 dagar og 1959 og 1991 með 174  daga. Fæstir hafa frostlausu dagarnir verið 102 árið 1927, sem samt var gott ár, 103 dagar 1962 og 105 dagar 1952. 

Síðasta vorfrost hefur fyrst orðið 3. apríl árið 1974 en síðast 7. júní árin 1927, 1936, 1977 og 1997.

Fyrsta haustfrost sem komið hefur var reyndar svo snemma sem 27. ágúst 1956, en næst fyrst 4. september 1982 og 10. september 1965 en hins vegar ekki fyrr enn 10. nóvember 1939. Það ár er í eina skiptið sem ekki hefur komið frost fyrr en í nóvember í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar en líklega gerðist það þó einnig árið 1915. Aðeins einu sinni, náttúrlega 1939, hefur hvorki frosið í maí og október eða nokkrum mánuði þar á milli. Næstu dagsetningar á eftir 1939 eru 28. október 1959 og 1976 og 27. október 2001.  

Snjólausir dagar milli vors og hausts voru flestir 248 árið 2000 en 243 árin 1955 og 1995, en fæstir hafa þessir dagar verið 121 árið 1926, 152 1929, 158 árið 1967, 159 árið 1944 og 165 dagar 1969 og 1935.

Síðast að vori sem jörð hefur orðið alauð er 29. maí 1949, en þá var reyndar aldrei talin alhvít jörð í maí heldur aðeins flekkótt,  og 21. maí 1979 en fyrst 23. mars 1928, 25. mars 1955, 26. mars 1939  og 31. mars á þessu ári. Síðasti dagur á vori sem jörð hefur verið talin alhvít í Reykjavík er 16. maí 1979. 

Jörð hefur fyrst orðið alhvít að hausti í Reykjavík 9. september 1926, 26. september 1954, 28. september 1924 og loks 30. september 1969. Ekki hefur orðið alhvítt í öðrum septembermánuðum en þessum eftir að Veðurstofan var stofnuð. Einstaka sinnum er vel liðið á veturinn þegar koma fyrstu snjóar. Svo virðist sem fyrsti alhvíti dagur að hausti árið 1933 hafi ekki komið fyrr en 18.  desember en frá 1949 gerðist það 16. desember árið 2000 og 10. desember 1976. 

Á árunum 1880 til 1903 mældist síðasta vorfrost seinast 7. júní árin 1881 og 1885 en árið 1889 kom síðasta vorfrostið 27. apríl. Fyrsta frost að hausti kom 2. september 1894 og 1897 en ekki fyrr enn 6. október 1902.

Jóns Þorsteinsson mældi með hámarks-og lágmarksmælum í Reykjavík frá því í júlí 1829 og síðasta haustið hans var 1853. Þó þessar mælingar séu kannski ekki sambærilegar við yngri mælingar er samt fróðlegt að sjá að hann mældi síðast vorfrost 11. júní 1848. Það er síðasta dagsetning sem hægt er að finna eftir mælingum með frost að vori í Reykjavík. Árið 1845 kom síðasta vorfrostið hins vegar 14. apríl. Fyrsta haustfrost mæld Jón 4. september 1841 en árið 1830 ekki fyrr enn 26. október.

Í fylgiskjali við þessa færslu má sjá dagsetningar við síðustu vorfrost, fyrstu haustfrost, fyrsta alauðan dag að vori og fyrsta alhvítan dag að hausti í Reykjavík. Fyrir árin 1920-1923 eru snjóatölurnar  óáreiðanlegar og eiginlega ágiskun, þó út frá nokkrum líkum, og eru hér settar inn sem utan dagskrár efni. Útgildi  í  töflunni eru svartletruð og því auðvelt að finna þau. Villur geta leynst  í þessu og verða leiðréttar þegar upp um þær kemst. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjósgola

Það var lítið varið í fjósgolu þessa sem gekk yfir Reykjavík.

Almennilegt ofviðri hefur ekki komið í höfuðstaðnum síðan ég man ekki hve nær. 


Flókið Gagnatorg

Skýrt hefur verið frá því að opnað hafi verið vefsvæðið Gagnatorg. Þar á að vera hægt ''með einföldum hætti'', eins og segir í kynningu, að finna allar veðurathuganir Veðurstofunnar.

Þeir sem standa að  vefnum, sem eru aðrir aðilar en Veðurstofan, gera sér glæstar vonir um að grunnurinn gagnist ekki aðeins grámyglulegum fræðimönnum heldur líka kynferskum nemendum og sérlunduðum áhugamönnum um veðurfar. 

Ekki virðist vefurinn samt árennilegur og næsta víst að notkun hans vefjist fyrir nemendum og áhugamönnum. Til að komast eitthvað áfram verða menn að fylla út heil ósköp af einhverju sem virðist vera það sama en með mismunandi nöfnum; ''mæling'', ''upprunaleg gildi,'' ''gæðastimplar'', hvað merkir þetta?

Engar skýringar um eitt né neitt eru sjáanlegar.

Allt er þetta litlu skiljanlegra en vegir almættisins. 

En kannski er þetta bara byrjunin. Til þess að  venjulegu fólki geti gagnast þessi vefur þarf  nauðsynlega að gera hann aðgengilegri.

Viðbót: Þegar maður fer að skoða vefin grandgæfilega renna upp fyrir manni ýmis göfug skilningsljós. Eigi að síður ættu vefmeistarar að gefa skýringar, þarna eru t.d. skammstafanir sem ekki liggja í augum uppi og hætt er við að ýmislegt í töflum sem upp koma þegar leitað er geti valdið misskilningi hjá námsmönnum og áhugamönnum. Auk þess þyrfti að sjást hvað gögn ná langt aftur fyrir hverja stöð. Og síðast en ekki síst ætti að raða veðurstöðunu í dálkinum þar sem hægt er að haka við þær eftir einhvers konar röð, stafrófsröð, landsröð, eftir gerð veðurstöðvar eða á einhvern annan kerfisbundinn hátt,  en röðin er núna gjörsamlega holt og bolt. Það tekur því langan tíma að leita að tiltekinni stöð. Þá vill hakast af sjálfsdáðum við eitthvað sem maður hefur ekkert hakað við og veldur töfum og leiðindum. Loks er bagalegt að ekki skuli vera hægt að komast fyrirhafnarlaust í upphafsstöðu, maður þarf að fletta til baka langar leiðir ef maður hefur verið að skoða stöðvar og eitt hefur leitt af öðru. Það er líka þreyandi að leitarramminn sem maður slær inn með tímabil, t.d. 1.10.2009-10.10. 2009 og vill skoða dag (en ekki klukkustundir eða mánuði) þá halda þessar stillingar ekki áfram ef maður vill skoða margar stöðvar, maður þarf því sífellt að vera að slá inn aftur  þessum tímaviðmiðunum. Svona er þetta hjá mér og ég geri ráð fyrir að það sé ekki mín tölva sem veldur heldur sé feillinn hjá Gagnatorgi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband