Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Öfugsnúinn október

Þetta hefur verið einkennilegur október. Að meðaltali kólnar enginn mánuður ársins eins mikið frá fyrsta til síðasta dags sem október, um 2,9 stig í Reykjavík. En svo var ekki núna. Fyrsti þriðjungur mánaðarins var mjög kaldur. Meðalhiti fyrstu 12  dagana í Reykjavík var 2,7 stig. En eftir það var hlýtt og meðalhiti þeirra daga sem eftir var mánaðarins var 6,4 stig. Meðalhiti alls mánaðarins ætlar að ná upp i 5,1 stig sem er yfir meðaltalinu á hlýindatímabilinu 1931-1960.

Í morgun var alauð jörð alls staðar á veðurstöðvum landsins. Fyrstu tíu dagana eða svo var hins vegar alhvítt alveg frá Ísafjarðardjúpi í vestri til norðausturlands í austri og suma daga líka á vesturlandi, austfjörðum og suðausturlandi. Í höfuðstaðnum var alhvítt einn dag.

Á landsvísu virðist meðalhitinn vera lítið eitt undir meðallaginu 1931-1960 víðast hvar nema á suður og suðvesturlandi þar sem hann virðist rétt skríða yfir það. Aftur á móti er líka hlýrra á flestum stöðum en meðaltalið 1961-1990. Ef það sem eftir er ársins verður í svipuðum stíl og það sem af er mun árið ekki skera sig úr hvað önnur ár þessarar aldar varðar um hlýindi nema síður sé.

Úrkoma sýnist hafa verið ansi mikil á suðausturlandi í þessum mánuði  en í minna lagi annars staðar. Hvergi þó nein stórtíðindi.   

En hvað hitann snertir má segja að þessi októbermánuður hafi verið öfugsnúinn í alveg bókstaflegri merkingu.

Og tíðarandinn er líka ekkert smáræðis öfugsnúinn. 


Sé ég eftir sauðunum

Hryðjuverkið gegn vestfirsku rollunum ætlar að draga dilk  á eftir sér. Ríkisstjórnin hefur fjallað um málið og ekki færri en þrjú ráðuneyti eru flækt í þann ullarvöndul.

Meðal annars er verið að kanna hvort lög hafi verið freklega brotin á blessuðum skepnunum, svo sem mannúðarlög, hryðjuverkalög eða jafnvel guðslög. Ekki hefur samt náðst í sauðamálaráðherrann, Jón Bjarnason en það er ekki nema von því  hann hefur ekki verið réttur maður á réttum stað og tíma síðan um miðja síðustu öld eða frá þeim dögum sem vestfirsku hetjurnar héldu frjálsar í fjallasalinn. 

Já, menn eru að verða ansi kindarlegir yfir þessu og dauðsjá eftir öllu saman.

Brátt mun gamli húsgangurinn verða á hvers manns vörum ...sé ég eftir sauðunum...

 

 

 

 


Drápsfýsn

Nú er menn að útrýma villifé í fjöllunum milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Það hefur gengið þarna villt síðan um miðja síðustu öld og er víst ólíkt öðru fé. 

Ríkisútvarpið var að skýra frá þessu. Ekki kom fram í fréttinni hvernig á því stendur að féð varð villt. Og ekki heldur hvers vegna menn eru nú fyrst að útrýma því eftir meira en hálfa öld. 

Ætli það sé ekki hið eina sinnar tegundar á landinu? Og ætli það valdi nokkrum skaða?

Virðist það svo bara ekki plumma sig nokkuð vel?  Tilvist þess í meira en hálf öld sýnir það. Allt bendir svo til mildari veðráttu í framtíðinni en verið hefur svo  lífsskilyrði þessara dýra ættu að fara batnandi.

Hvers vegna í ósköpunum fá þau ekki að lifa? Er ekki verið að skerða íslenska villináttúru að óþörfu og án nokkurs tilefnis þegar þeim er útrýmt?

Þegar er búið að fanga flest dýrin. Og það er einkennilegt að svona gerist án þess að nokkur aðili, dýraverndunarfélög og náttúrusamtök, lyfti upp litla fingri. 

Drápsfýsn er þetta. 

 


Skólar og bænagerðir

Mér er hulin ráðgáta hvers vegna í ósköpunum skólar eru að veita nemendum aðstæður til bænagerða með því að koma upp kapellum og bænaherbergjum. Kemur þetta skólahaldi og námi eitthvað við?

Geta menn ekki beðist fyrir heima hjá sér?

 


Veðurfarslíkön stórlega gölluð

Samkvæmt rannsókn sem kynnt hefur verið í vísindaritinu Nature Geoscience uxu pálmatré 500 km frá  norðursskautinu fyrir rúmum 50 miljónum ára. Meðalhiti kaldasta mánaðar hafi ekki verið undir 8 stigum.

Veðurfarslíkön sem notuð eru í dag gera ráð fyrir að hann hafi verið undir frostmarki.

Og rannsakendur segja að þetta bendi til að veðurfarslíkönin sem nú eru notuð séu stórlega gölluð. 

Sjá líka hér.

 


Lag og ljóð

Fyrir skömmu voru tónleikar sem báru yfirskriftina Lag og ljóð. Þar voru meðal annarra laga flutt lög Sigvalda Kaldalóns við ljóð eftir Höllu Eyjólfsdóttur. Þekktustu lög tónskáldsins við ljóð Höllu eru Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur en besta lagið er kannski Máninn.

Við þetta tækifæri flutti Elín Gunnlaugsdóttir erindi um lög og ljóð almennt.

Því miður heyrði ég ekkert af þessu. Hins vegar las ég eitthvað í blöðunum  eða heyrði í útvarpi þar sem þetta var sett upp einhvern vegin þannig að lög Sigvalda og ljóð Höllu væru jafngild og vinsældir þeirra og áhrifamáttur hvíldu einmitt á því.

Þetta er samt alls ekki rétt.

Mig langar til að ræða hér samspil lags og ljóðs dálítið þó ekki leggist ég djúpt. Fyrst og fremst vil ég vekja athygli á því að það eru ósköp einfaldlega hinar grípandi og fallegu laglínur  í lögum Sigvalda við ljóð Höllu sem   eingöngu valda vinsældum laganna og þeim sess sem þau hafa í huga þjóðarinnar. Lagið Ég lít í anda liðna tíð var reyndar samið sem lag án orða en textanum, sem óneitanlega fer vel við lagið, var bætt við seinna.

Það eru lög Sigvalda Kaldalóns sem beinlínis valda því að Halla Eyjólfsdóttir er ekki löngu gleymt ljóðskáld. En vegna þess að hann samdi lög við ljóð hennar og þau eru því hluti af lagagerð hans er sjálfsagt að Höllu sé sómi sýndur.

Það er býsna algengt að ljóð sem aldrei hefðu lifað á eigin gæðum v erða ódauðleg gegnum tónlist. Það er tónlistin, ekki ljóðin, sem því veldur. Oftar en ekki standa ljóðin langt að baki lögunum sem listaverk.

Satt að segja eru lög hinna miklu erlendu lagatónskálda, Schuberts, Schumanns, Brahms og Strauss,  yfirleitt samin við texta sem standa þeim langt að baki. En þó ekki  alltaf. Schubert samdi lög við góðan kveðskap eftir Goethe og Schumann við ljóð eftir Heine. Í þessum lögum og  nokkrum öðrum eru lag og ljóð jafngild listaverk. Tónskáldunum tekst jafnvel stunum að bæta við eins og nýrri vídd við ljóðin með lögum sínum. En flest bestu lög heimsins eru ekki við góð ljóð. Lögin lifa þá vegna laganna en ekki vegna orðsnilldar textans. Það eru samt kannski hinar almennu hugmyndir ljóðsins sem kveikja í huga tónskáldsins, t.d. ástarsorg eða sólarlag eða vorgleði. 

Eitt frægt sönglagatónskáld samdi þó svo að segja eingöngu lög við góðan  kveðskap. Það var Hugo Wolf. Hann fylgir geðblæ og hugsun ljóðsins út í ystu æsar og lögin bera oft blæ framsagnar mælt máls eins og ljóðin séu lesin. Wolf afrekaði það að grafa eitt besta ljóðskáld Þýskalands, Eduard Mörike, úr gleymsku og hefja til viðurkenningar. Það er engin tilviljun að lög Wolfs eru af engum jafn mikils metin sem tónelsku bókmenntafólki. Aðeins í lögum hans og í fáeinum lögum Schuberts og Schumanns og einstaka öðrum lögum eftir hina og þessa eru lag og ljóð samofin og jafngild listaverk svo úr verður nýtt  listform: sönglag sem orð og tónar saman breyta í sérstakt fyrirbæri, eitthvað sem er ekki bara lag eða bara ljóð heldur raunverulegur samruni þessara tveggja listforma, tónlistar og ljóðlistar, nýtt listfyrirbrigði. En langflest lög, þar með talinn obbinn af músiklega bestu lögum heimsins, eru ekki þetta fyrirbrigði heldur bara góð tónlist.  Það er tónlistin sem hefur þau til hæða en ekki ljóðið sem sungið er, hvorki eitt og sér eða í samruna við tónlista, það er bara tónlistin. 

Þetta er meira að segja áberandi í Vetrarferðinni eftir Schubert sem oft er talin fullkomnun í þýskri sönglagagerð 19. aldar. 

Og þetta gildir jafnvel enn fremur við óperur og óratóríur en sönglög. Þar eru textarnir oft fyrir neðan allar hellur en tónlistin gerir þessi verk ómótstæðileg. Hennar vegna hlustum við á þau,  ekki textans vegna.

Á Íslandi, landi kvæðamanna og skálda, gera menn yfirleitt meira úr ljóðunum en lögunum þegar lög eru sungin við ljóð. Í útvarpsþáttum og kynningum er löngu máli  oft eytt í ljóðin en yfirleitt engu í tónlistina sem lætur ljóðin lifa.  

Og það er ekki út af því að  álitið sé að tónlistin tali sínu eigin máli sem ekki þurfi  að eyða  að orðum  heldur vegna þess að mönnum finnst texti við lag einfaldlega merkilegri en lagið.


Meira um gagnagrunn Veðurstofunnar

Í Silfri Egils var maður að tala um vitundarvakningu víða um heim varðandi opinbera gagnagrunna. Sú hugmynd væri að ryðja sér til rúms að þeir ættu að vera galopnir almenningi nema þar sem sérstakir hagsmunir, svo sem persónuvernd eða öryggi ríkisins mæli gegn því. Almenningur hafi  enda borgað fyrir gagnasöfnin jafnvel áratugum saman. 

Það er yfirlýst stefna Veðurstofunnar að upplýsingar hennar séu aðgengilegar almenningi en veðurstofur í Evrópu hafa margar lokað og læst að mestu leyti.

Aðgengileikinn á göngum Veðurstofunnar felst í því að fólk getur skoðað allar nýjustu veðurathuganir svona um það bil viku aftur í tímann. Þá er hægt að skoða ýmis mánaðarmeðaltöl fyrir allmargar stöðvar aftur á bak í nokkra áratugi. Veðurkort fyrir tíu stöðvar eða ellefu er hægt að sjá á kortum á hádegi frá 1949. 

Það liggur samt í augum uppi að gríðarlegt gagnamagn Veðurstofunnar í gagnagrunni  hennar sem búið er að tölvuvæða er EKKI almenningi aðgengilegt. Við getum ekki skoðað veðrið á Raufarhöfn vikuna 1. til 7. júlí 1960 svo dæmi sé tekið. Og þess má geta að meðaltöl veðurstöðva 1961-1990 eru enn að mestu leyti ekki aðgengileg almenningi en meðaltölin 1931-1960 eru það hins vegar.

Framtak Gagnatorgsins er því kærkomið  þó það veki upp vissar spurningar.

Hins vegar finnst mér að Veðurstofan eigi að standa við marg gefnar yfirlýsingar sínar um það að upplysingar sínar séu öllum aðgengilegar. Þær eru það ekki enn nema að litlu leyti. Auðvitað átti Veðurstofan að vera á undan Gagnatorginu að veita almenningi aðgang að gagnagrunni sínum á eins hagkvæman og einfaldan hátt og hægt er. 

Þetta getur Veðurstofan að sjálfsögðu gert enn þá. Og hún á að gera það, ljúka við að tölvuvæða öll gögn og gera þau aðgengileg og standa þar með við yfirlýsingar sínar um opið aðgengi. 

Sú krafa mun eiga eftir að þyngjast enn frekar í  framtíðinni  að opna eigi gagnasöfn opinberra stofnana fyrir almenningi. Og aðgangurinn að gagnagrunni Veðurstofunnar ætti  auðvitað að vera ókeypis en kannski háður lykilorði og einhverjum sanngjörnum og skynsamlegum skilyrðum. Meðferð þessara  gagna getur að vísu stundum verið viðkvæm. En ekkert meira en ýmis gögn annarra stofnana. 

Krafan er: 

Opnið gagnagrunn Veðurstofunnar fyrir almenningi upp á gátt!

 

 


Gagnatorgið og Veðurstofan

Upplýsingar frá Gagnatorgi  hafa nú legið niðri í nokkra daga vegna lagfæringa á gagnatenginu við Veðurstofuna.

Ég hef áður sagt að þessi gagnagrunnur sé ekki sérlega notendavænn fyrir venjulegt fólk, sem hann á samt að þjóna að hluta til, samkvæmt kynningu á vefnum og þyrfti skýringa við.  En rétt er þá að geta þess að hann verður manni nokkru ljósari þegar farið er að rýna í hann. Langt er þó frá því að hann sé augljós

Og þarna er auðvitað mikið af merkilegum upplýsingum sem allt í einu eru almenningi tiltækar sem er alveg frábært. 

Gagnatorgið hefur reyndar fengið mig til að hugsa ýmislegt og kannski eru sumar þeirra hugsana ekki sérlega fallegar!

Gagnatorgið er á vegum Reiknistofu í veðurfræði. Það er hlutafélag í einkaeigu. Hið sama er að segja um Data Market sem einnig kemur að málinu.

Ég spyr sjálfan mig hvernig á því stendur að slíkt einkafyrirtæki geti farið inn í gagnagrunn Veðurstofu Íslands, sem er ríkisstofnun og rekin fyrir skattfé landsmanna. Á hvaða forsendum getur Reiknistofan þetta? Það eru að vísu veðurfræðingar og kannski fleiri vísindamenn sem reka fyrirtækið en gefur það eitt og sér þeim rétt til að kynna gagnagrunn í eigu ríkisstofnunar fyrir hverjum sem er?

Getur fyrirtækið tekið upp á því að krefja notendur um greiðslu fyrir aðgang að gagnagrunni Veðurstofunnar gegnum Gagnatorgið?

Og loks hef ég verið að hugsa þetta sem lokkandi hugsun númer eitt:

Úr því einkafyrirtækið Reiknistofa í veðurfræði fær aðgang að gagnagrunni Veðurstofu Íslands má ég þá ekki alveg eins, sem heljarinnar einkaveðurnörd, fá milliliðalausan aðgang að honum?

Og ef ekki, hvers vegna þá?

Ég er að hugsa um að láta á þetta reyna með formlegri fyrirspurn til Veðurstofunnar.

Tek samt fram að ég er ekki vanur að vera með vesen af  neinu tagi og aldrei verið með frekju gagnvart opinberum stofnunum.

Mér finnst bara áhugavert að banka á þessar dyr og vita hvað gerist, hver svörin verða hver sem þau verða.

 

 


Berrössuð ríkisstjórn

Því ekki að senda dómsálaráðherra peningalausan og allslausan beint út á götu í Aþenu? 

Þá myndi hún kannski skynja afleiðingar gerða sinna. 

Annars eru hinir ráðherrarnir ekkert betri. Allir láta þeir sér brottvísun flóttamannanna vel líka. Katrín Jakobsdóttur, sem ég hélt að væri væn kona, sér ekkert athugavert við hana. 

Þessi sama ríkisstjórn var svo að senda frá sér fordæmingu á því að menn væru að mótmæla við heimili ráðherra. Hún hefði ekki sent slíkt frá sér ef mótmæli hefðu ekki beinst að neinum ráherra heldur eingöngu að almennum borgurum.

Líf og limir dómsmálaráðherra eru mikils virði í augum stjórnarinnar.  Líf og limir varnarlauss fólks eru hins vegar einskis virði í hennar augum.

Verk hennar tala. Og ragmennskan sker í augu.  

Best væri að senda alla ríkisstjórnina út á torg í Aþenu, peningalausa og allslausa og berrassaða að auki.  

Jú, jú, ég veit að sumum finnst svona málflutningur tilfinningasamur og barnalegur. Allt  eigi að vera ''virðulegt'' og formlegt þegar rætt er um stjórnarathafnir.

En þetta er nú samt kjarni málsins ef hann er sagður serímóníuaust á mannamáli.  


mbl.is Hælisleitendi í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti að banna Björn Bjarnason

Ekki eru allir ánægðir með Egil Helgason, hvorki i Silfri Egils né Kiljunni. Og ekki eru það bara ''hægri menn'' heldur líka ''vinstri menn'. Ég þekki vinstri sinnað fólk sem þolir hann ekki og finnst hann vera orðin alltof áberandi.

Ekkert af þessu fólki hefur þó dottið í hug að ætti að reka Egil. 

Aðrir eru mjög ánægðir með hann. Sjá ekki sólina fyrir honum!

Ekki er um það deilt að hann er vinsælasti þáttastjórnandi í landinu. Honum hefur tekist það, sem ekki er öllum gefið, að fá næstum því alla til að horfa á sig.Óhjákvæmilega hlýtur slíkur maður að verða umdeildur þar sem sjónarmiðin sem þjóðin hefur eru svo mörg.

Það er meiriháttar óraunsæi að ætlast til þess að þáttastjórnandi sem nær álíka vinsældum sé fullkominn. Hann hlýtur að hafa sínar veiku hliðar en einnig sínar sterku hliðar. Vinsældir Egils hljóta að vitna um það að sterku hliðarnar séu þungar á metunum.

Spurningin um það hvort þáttastjórnandi sem nær eins vel til þjóðarinnar sé alltaf og ævinlega óhlutdrægur er ekki einföld. Mat á því er eingöngu byggt á huglægu mati hvers og eins og fer aðallega eftir stjórnmálaskoðunum viðkomandi. Einum finnst þetta, öðrum hitt.

Þegar Björn Bjarnason fullyrðir að Egill sé svo hlutdrægur  að hann sé óhæfur til að stjórna þætti á vegum Ríkissjónvarpsins er það huglægt mat og hann leggur nákvæmlega engin hlutlæg dæmi fullyrðingu sinni til stuðnings. Þó Björn segi ekki beinum orðum að ætti að reka Egil liggur það í orðum hans ef þau verða leidd til lógískra lykta. 

Nú getur Björn hins vegar ekki beitt valdi sínu nema þá á bak við tjöldin. Orð hans ættu ekki að hafa meira vægi en orð hvað manns annars sem vera skal. Áreiðanlega verða þó margir til að taka undir óbeina kröfu Björns Bjarnasonar um að útvarpsstjóri reki Egil, ekki síst í nafnlausum athugasemdum á bloggi. Þar verða Agli víst ekki vandaðar kveðjurnar fremur en fyrri daginn af þeim sem eru á móti honum.

Eitt af því sem Björn finnur Agli til foráttu er nafnlaus illmælgi á bloggsíðu Egils sem hann segir að sé hroðaleg. Ég les bloggsíðu Egils bara stöku sinnum  eins og aðrar bloggsíður en þá hef ég séð ýmislegt ófagurt í athugasemdum en alls ekki bara þeim nafnlausu. Ég held að verði málið kannað séu nafnlausar mjög hroðalegar athugasemdir á bloggsíðu Egils, eða á öðrum bloggsíðum sé út í það farið, aðeins brotabrot af öllum athugasemdunum. Það er bara lýðskrum að blása þetta út langt fram yfir það sem eðlilegt má telja.  

Ósæmilegar athugasemdir á bloggi eru samt visst áhyggjuefni. Það er þó erfitt við að eiga.   Nauðsynlegt er að leyfa athugasemdir því annars verða engar umræður, bara eintal viðkomandi bloggara eins hundleiðinlegt og það nú er. Ekki er heldur ráðlegt að banna nafnlausar athugasemdir, en krafan um það er að verða ískyggilega sterk og  uppretta hennar  eru stjórnmálamenn sem er illa við gagnrýni þó þeir þykist ekki vera það. Á útlendum vefjum eru nafnlausar athugasemdir mjög algengar  og  ekki allar fallegar. Er okkur nokkur meiri vorkunn en útlendingum? Ýmsar ástæður geta valdið því að menn velji að koma fram undir  dulnefni, þeirra á meðal ótti um einhvers konar refsingar ef þeir reka hornin í einhverja í okkar litla samfélagi. Sá ótti held ég að sé alveg reistur á raunveruleika. Sumir misnota auðvitað nafnleysisvalkostinn eins og allt annað. Það réttlætir samt ekki að hann sá afnuminn.

Nokkrir bloggarar leyfa hins vegar ekki athugasemdir við blogg sín. Eigi að síður eru þeir að vega að mönnum og málefnum en leyfa þeim ekki að svara fyrir sig. Þetta finnst mér vera andlegt ofbeldi, hreinn fautaskapur, fyrir utan hvað það er yfirburða hrokalegt og þóttafullt. (Alltaf er auðvelt að þurrka út athugasemdir sem fara yfir strikið).

Björn Bjarnason er einn af þeim sem iðkar árásir á aðra án þess að gefa þeim kost á að svara fyrir sig í athugasemdum á hans eigin síðu. 

Mín auðmjúka skoðun er sú að ef reka eigi Egil Helgason sem þáttastjórnanda eigi líka að reka Björn Bjarnason af Moggablogginu. 

Fyrir ósæmilegar aðfarir að öðrum sem felast í því að leyfa þeim aldrei að njóta þeirrar sjálfsögðu sanngirni að fá að svara fyrir sig.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband