Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
31.8.2009 | 18:21
31.ágúst 1939
Það þarf ekki að taka það fram að þessi dagur var síðasti dagur friðar áður en síðari heimsstyrjöldin skall á. En þetta var einnig dagur mikillar veðurblíðu í Reykjavík. Hámarkshitinn mældist 21,4 stig. Það var mesti hiti í ágúst sem mældist alla tuttugustu öldina í bænum.
Aðeins þrisvar hefur mælst meiri hiti einhvern tíma í ágúst. Árið 1876 mældust 21,6 stig á hádegi þ. 18. en hámarksmæling var ekki gerð. Árið 2004 mældust 24,8 stig þ. 11. og daginn eftir 22,2 stig skömmu eftir klukkan 18. Loks mældust 23,3 stig 1. ágúst í fyrra.
Enn í dag hefur hins vegar ekki mælst jafn mikill hiti í höfuðborginni og 1939 svo seint að sumri. Á þessum tíma var Veðursstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og hitamælaskápurinn var á trépalli á þaki hússins. Á hádegi þennan dag voru þrjú vindstig af austri og mátti heita léttskýjað og hitinn 19,6 stig en var hins vegar fallinn niður í 14,8 klukkan 17 en þá var orðið meira en hálfskýjað og vindur hægur af norðvestri. Dagurinn var alveg þurr en sólskin skein í tæpa tíu og hálfa klukkustund. Hlýtt var þennan dag á öllu suður og suðvesturlandi, t.d. 22,4 stig á Hvanneyri, 20,6 í Síðumúla í Hvítársíðu og 20,1 stig á Þingvöllum. Næstu daga voru mikil hlýindi. Hæð var austur af landinu en lægð suður í hafi, nokkuð algeng hitabylgjustaða.
Þessi síðasti dagur friðarins árið 1939 var fimmtudagur. Um kvöldið var dansleikur í Alþýðuhúsinu á Hverfisgötu og lék hljómsveit Bjarna Böðvarssonar fyrir dansinum. Bjarni var faðir hins landskunna Ragnars Bjarnasonar dægurlagasönvara. Annars konar tónlist var einnig í boði þetta kvöld því Björn Ólafsson, bráðungur og efnilegur fiðuleikari, hélt tónleika með Árna Kristjánssyni píanóleikara í Gamla bíói. En ekkert var því til fyrirstöðu að menn sæktu þá tónleika og skelltu sér svo á ballið í Alþýðuhúsinu á eftir. Það var líka hægt að fara í bíó. Nýja bíó sýndi til dæmis Tvífarann dr. Clitterhouse með stórstjörnum eins og Humphrey Bogart og Edward G. Robinson.
Súðin var að koma úr strandferð og Gullfoss var í höfn í Reykjavík. Dronning Alexandrine, danskt farþegaskip sem allir þekktu undir nafninu Drottningin og var í förum milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur, var líka í höfninni.
Meistaramót ÍSÍ var háð á Melavellinum. Knattspyrnumenn úr Val og Víkingi voru í Bremen í Þýskalandi að tapa öllum leikjum sínum.
Íslensk skáksveit var hins vegar að gera það gott á Ólympíuskákmótinu í Buenos Aires þar sem hún varð efst í b-flokki. Vegna styrjaldarinnar lentu skákmennirnir í miklum vandræðum á leiðinni heim.
Allir vissu að stríð lá í loftinu. Hitler hafði sett Pólverjum úrslitakosti og þjóðirnar voru að hervæðast í óðaönn.
En óneitanlega var síðasti friðardagurinn veðursæll og fagur.
Veðurfar | Breytt 2.9.2009 kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.8.2009 | 10:54
Icesave
Það má ekki seinna vera að ég skrifi um þennan Icesave-samning eins og allir aðrir.
Það verður samt ósköp máttlaust. Og ekki verður dýptinni fyrir að fara. Enda algjör óþarfi. Hana má lesa annars staðar út um allan bloggheiminn.
Sumir eru óskaplega reiðir vegna samningsins. Þeir tala fullum fetum um landráð.
Aðrir telja að samningurinn sé skásti eða jafnvel eini kosturinn í stöðunni.
Umburðarlyndi og skilningur manna á milli um mismunandi skoðanir virðist næstum því engin vera. Þeir sem eru á móti samningnum eru þó sýnu verri. Sumir þeirra strá heift og hatri í allar áttir. Og eru í aldeilis í essinu sinu.
Þjóðin er greinilega þverklofin í málinu og ekki síður varðandi inngöngu í ESB.
Hún myndi örugglega fara að berjast innbyrðis og murka lífið úr andstæðingum sínum hægt og bítandi ef hún væri ekki fyrir löngu orðin svo feit og úrkynjuð af bílífi að hún getur ekki lengur vopni valdið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.8.2009 | 14:03
Múgæði
Það er ekkert grín að verða fyrir aðsúg frá fjölda fólks.
Múgæði getur tekið af einstaklingum öll völd og þeir gera þá ýmislegt sem þeir myndu aldrei gera í öðrum aðstæðum. Enginn veit hvernig slíkir atburðir þróast. Múgsálin lýtur sínum eigin lögmálum.
Fátt er jafn geigvænlegt og æstur múgur sem gerir aðsúg að einum manni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
28.8.2009 | 01:36
Að koma ábyrgð yfir á þolendur
Þess hefur gætt í viðbrögðum við ölæði þingmannsins á Alþingi, bæði í blaðagreinum og á bloggi, að reynt sé að taka á einhvern hátt ábyrgðina á því sem gerðist frá honum og varpa henni yfir á umhverfið.
Spurt er hvort aðrir þingmenn hafi notfært sér ástand hans og spilað á það.
Sitthvað er til í ábendingum af þessu tagi. Viðbrögð manna við hverju einu sem gerist geta verið sæmileg eða ósæmileg.
Þetta er samt aukaatriði.
Ábyrgð á ölvunarástandi er á ábyrgð hins ölvaða en ekki umhverfisins.
Alveg eins og ofbeldi er á ábyrgð gerandans en ekki þolandans.
Þessar raddir eru því einfaldlega klassískt dæmi um meðvirkni hvað varðar misnotkun áfengis.
Margir hafa hneykslast á þessu ölæði í þinginu. Sú umræða er jákvæð. Umræða um svona nokkuð hefði verið þögguð niður fyrir nokkrum árum. Okkur er sem sagt að fara ofurlítið fram almennt talað í viðhorfi til umgengni okkar við áfengi.
Það verður samt ekki sagt um Alþingi. Öll viðbrögð þingsins hafa verið fyrir neðan allan hellur og eru hreinlega með ólíkindum.
Allt snýst þetta ekki um einstaklinga og breyskleika þeirra. Það varðar viðhorf og hugsunarhátt.
Áfengismóral.
Að lokum: Ég hef haldið úti bloggsíðu í þrjú ár en aldrei skrifað um áfengismál.
En það er ekki hægt að þegja þegar annað eins og þetta gerist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.8.2009 | 12:57
Ragnheiður Ríkharðsdóttir bítur höfuðið af skömminni
Mál Sigmundar Ernis var þá aldrei tekið fyrir í forsætisnefnd eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagðist ætla að gera. Engar skýringar hafa verið gefnar.
Sigmundur Ernir hefur reyndar beðist afsökunar á framkomu sinni. Það er svo sem gott af honum en á hverju er hann að biðjast afsökunar? Hann segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þó það hafi verið öllum öðrum augljóst. Ef treysta ætti hans eigin orðum var engin ástæða til að biðjast afsökunar. Samt gerði hann það.
Þarna er misræmi. Í grunninn tvöfeldni, óheiðarleiki, Og umgengni manna við áfengi er einmitt full af þessari tegund af óheiðarleika.
Það sem er einna óþægilegast við þessa uppákomu með Sigmund Erni er sú meðvirkni sem flestir sýna. Ótrúlegt umburðarlyndi varðandi misnotkun á áfengi.
Mest sláandi dæmi um það er einmitt áherslubreyting Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem er fyrsti varaforseti Alþingis. Fyrst var það framkoma Sigmundar Ernis sem vafðist fyrir henni, fyllerí hans í ræðustól Alþingis, sem hún orðaði þó aldrei beint því það þykir fínt að tipla á tánum kringum drykkjuraus.
Á Morgunvakt Rásar 2 gerir hún hins vegar mest úr almennum óróa á þinginu, frammíköllum og þess háttar. Hún gengur meira að segja svo langt að segja að sér sé alveg sama þótt menn fái sér bjór eða vínglas, bara að þeir hagi sér vel. Ekki virðist hún, fremur en margir aðrir, gera sér grein fyrir því að áfengisneysla í þingsölum sé sjálfstætt umfjöllunarefni út af fyrir sig en frammíköll annar handleggur.
Fjarri henni virðist vera sú einfalda og að mínum dómi sjálfsagða hugsun að áfengisneysla yfirleitt og þingstörf eigi aldrei að fara saman fremur en áfengisneysla á öðrum vinnustöðum. Þvert á móti gefur hún, fyrsti varaforseti Alþingis, grænt ljós á það að þingmenn séu að sulla í áfengi ef þeir fari bara vel með það. Ekki er hægt að ganga lengra í kæruleysislegu áfengisdaðri.
Hvað meðvirkni varðar hefur Ragnheiður Ríkharðsdóttir nú sannarlega bitið höfuðið af skömminni.
Hvenær skyldi sá dagur koma að mönnum finnist það álíka fjarstæðukennt og ámælisvert að neyta áfengis við þingstörf og að reykja í þingsalnum?
Er það óþarfa púritanismi að láta sig dreyma um það?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2009 | 19:52
Meðvirkni
Sigmundur Ernir Rúnarsson fullyrti í fyrstu að hann hafi ekki neytt áfengis. Síðar viðurkennir hann að hafa drukkið léttvín með mat en ekki fundið nein áfengisáhrif.
Hann sagði sem sagt ósatt um áfengisneyslu sína. Er þá nokkur ástæða til að taka mark á orðum hans um það að hann hafi ekki fundið áfengisáhrif?
Það þarf hreinlega mikla afneitun til að sjá ekki að hann var vel við skál. Það er alkunnur háttur alkóhólista þegar þeir eru að skandalísera drukknir að þeir hafi aðeins drukkið svona tvö glös. En það er Alþingi ekki sæmandi að sýna meðvirkni í slíkum tilvikum.
En hún leynir sér samt ekki.
Vigdís Hauksdóttir þingmaður sagði að málið væri fyrst og fremst leiðinlegt fyrir þingmanninn, fjölskyldu hans og kjósendur. Hún gerir því í rauninni ósköp lítið úr málinu þó hún segði að vísu að menn eigi ekki að vera fullir í vinnunni.
Það er ekki hægt að sýna allri þjóðinni meiri óvirðingu en stíga í ræðustól á alþingi undir áhrifum áfengis.
Það er svo auðvitað rétt athugað hjá Birgittu Jónsdóttur, þó hún geri reyndar líka lítið úr málinu, að þingforseti hefði átti að grípa í taumana. Sagt er að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi gert Ragnheiði Ástu viðvart. Þingforseti hunsaði það. Ekki mátti styggja þann sem var að delera í ræðustól.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að mál Sigmundar verði ekki rætt sérstaklega innan Samfylkingarinnar. Málinu sé lokið.
Viðbrögðin við þessu atviki: kæruleysi annarra þingmanna, aðgerðaleysi forseta þingsins, ósvífin afneitun formanns Samfylkingarinnar, að ógleymdum léttúðarfullum viðbrögðum margra bloggara, og hreinum ruglanda þeirra um aðalatriði, allt er þetta óhugnanlegur vitnisburður um meðvirkni þegar áfengisneysla er annars vegar.
Þetta kemur flokkspólitík hins vegar ekkert við þó þetta atvik hafi auðvitað verið notað á bloggsíðum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Enginn flokkur er öðrum betri né verri í meðvirkni í áfengismálum.
Ekki þarf að gera sér miklar vonir um röggsamleg viðbrögð forsætisnefndar.
Reglusamt fólk, hvar í flokki sem það stendur, er þó áreiðanlega sammála um það að ein regla ætti að gilda um alla þingmenn:
Þingmaður sem sýnir þjóðinni þá óvirðingu að stíga undir áhrifum áfengis í ræðustól á Alþingi á að víkja af þingi.
Annað hæfir ekki siðmenntaðri þjóð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.8.2009 | 12:52
Drykkjuskapur á Alþingi
Myndband af Sigmundi Erni Rúnarssyni í ræðustól á alþingi hefur vakið upp þær grunsemdir að hann hafi verið ölvaður.
Á Vísi is. er haft eftir vitnum að hann hafi hellt í sig víni í kvöldverðarboði MP banka fyrr þetta sama kvöld og hann hélt ræðuna. Sjálfur þvertekur hann fyrir að hafa drukkið áfengi. Vísir segist hafa rætt við fjölmarga þingmenn sem voru í þingsalnum og enginn kannaðist við að Sigmundur hafi verið drukkinn.
Kvöldfréttir Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og Mbl. is í dag sögðu frá því að Ragnheiður Ríkharðsdóttir ætli að ræða framkomu Sigmundar á fundi forsætisnefndar á morgun.
Sigmundur Ernir hefur gefið sínar skýringar: ''Upp úr klukkan tíu og fram til hálftólf var kominn mikill galsi í þingsalinn og orðafar manna eftir því," segir hann. Með þessum orðum sínum játar þingmaðurinn að umræðurnar hafi í það minnsta eitthvað verið öðruvísi en venjulega. Það er því ekki út í hött, ekki síst í ljósi myndbandsins, að mönnum detti í hug að eitthvað hafi verið athugavert við þingmanninn.
Vitni segja að hann hafi neytt áfengis. Hann segist ekki hafa gert það. Annar hvor vitnisburðurinn er ósannur. Það er alvarlegt ef venjulegir borgarar bera ljúgvitni gegn öðrum borgara . En það er enn þá alvarlegra ef þingmaður segir ósatt og reyndar einnig það að hann sé drukkinn í ræðustól á alþingi.
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr fundi forsætisnefndar.
Það er óþolandi ef þingmaður er undir áhrifum áfengis í umræðum á alþingi. Slíkt á ekki að koma fyrir. Um það eiga allir þingmenn að vera sammála og fordæma slíkt athæfi og ætti þar engu máli að skipta hver í hlut á.
Meðvirkni þjóðarinnar í áfengismálum er hins vegar mikil. Meðvirkni manna í stjórnmálaflokkum með hverjum öðrum er ekki minni. Skyldi Ragnheiður hafa tekið þetta mál upp ef Sjálfstæðismaður hefði átt í hlut? Nei, ætli það.
Eigi að síður er gott að hún hafi tekið upp málið og það á að veita henni stuðning í því. Menn eiga að gleyma stjórnmálunum um stund og einbeita sér að umgengnishætti þjóðarinnar við áfengi.
Það á að komast heiðarlega til botns í þessu máli. Það á ekki að láta það bara detta upp fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.8.2009 | 13:04
Að breytast í hund
Ég heyrði Hannes Hólmstein Gissurarson halda því fram í útvarpsviðtali að allir Íslendingar hafi misst taumhaldið í sukkinu fyrir kreppuna - nema Davíð Oddsson.
Þetta er einfaldlega ekki rétt. Ýmsir vöruðu við sem taldir eru málsmetandi menn. Margir sem engin áhrif hafa, bara venjulelgt fólk sem ráða- og álitsgjafaelítan hlustar aldrei á, létu sér einnig fátt um finnast. Og í líferni sínu gætti þetta fólk ýtrasta taumhalds, jafnt í fjármálum sem á öðrum sviðum.
Ég er ekki einn af þeim sem lagt hafa Davíð Oddsson og Hannes Hólmstein í einelti í skrifum mínum fremur en aðra einstaklinga, enda hef ég enga sérstaka vandlætingu gagnvart þeim.
En nú get ég ekki leynt undrun minni á þessari dæmalausu aðdáun Hannesar Hólmsteins á Davíð Oddssyni sem orð hans vitna um.
Það er til talsvert af merkilegu fólki í ýmsum greinum mannlífsins en aldrei í lífinu gæti ég lagst svona flatur í persónudýrkun á nokkrum manni.
Ég gæti alveg eins breyst í flaðrandi hund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2009 | 12:41
Tímaspursmál
Nýlega las ég viðtal við lögreglumann sem sagði að það væri tímaspursmál hvenær lögreglumaður léti lífið við störf sín. Hann skýrði ekki orð sín frekar.
En lögreglumenn eru alltaf að klifa á þessu. Og þetta er svo sem ekkert út í hött. Lögreglustarfið er eðli síns vegna hættulegt. Svo hættulegt að eftir því sem tímar líða verður mjög líklegt að einhver lögreglumaður láti lífið við störf sín.
Það er bara einfaldur líkindareikningur. Alveg eins og það er líka tímaspursmál hvenær slökkviliðsmaður lætur lífið við störf sín.
Lögreglumenn nota þetta hins vegar miskunnarlaust til að afla stéttinni samúðar í þjóðfélaginu en fyrst og fremst sem vopn í kjarabaráttu sinni.
Annað vofir líka yfir að miklum líkindum.
Það er tímaspursmál hvenær lögreglan verður í störfum sínum einhverjum borgara að bana.
Og þegar það gerist mun lögreglan og stjórnvöld- og fjöldi bloggara -verja það athæfi með öllum hugsanlegum ráðum.
Það verður jafnvel líka notað til að afla lögreglunni samúðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2009 | 13:00
Léttgeggjað veðurspjall og ábyrgðarlaust bloggblaður
Mér finnst það alltaf síðasta sort þegar ágúst endar illa. Nú hefur heldur betur kólnað. Á hádegi var hitinn enn ekki kominn í 10 stig í Reykjavík. Ég efast um að hann geri það þegar líður á daginn þrátt fyrir það að spárnar segi það. Á sumum fjöllum kom næturfrost.
Það var næstum því regla á kuldatímabilinu langa sem var í hámarki kringum 1980 að mánuðir enduðu illa. Síðustu ár hafa flestir mánuðir bæði byrjað og endað vel. En þetta kuldakast á reyndar að líða hjá segja spárnar. Allt líður hjá. Lífið líður líka hjá og bráðum verð ég dauður.
Guði sé lof!
Mannaðar veðurstöðvar Veðurstofunnar týna óðum tölunni. Raufarhöfn er dottin út og líka Höfn í Hornafirði og Bergsstaðir í Skagafirði. En kannski er þetta tímabundið vegna sumarfría eða annarra breytinga. Hólar í Dýrafirði hafa heldur ekki komið í nokkra daga en það er nú alltaf að gerast. Líklega er tímaspursmál hve nær sú stöð leggst af. Vík í Mýrdal heldur áfram að vera olnbogabarn og fær ekki inni í skrám Veðurstofunnar á vefsvæði hennar með hinum stöðvunum. Með leyfi: er ekki hægt að laga þetta?
Fyrir skömmu voru bollaleggingar um það í athugasemdum á blogginu mínu að sjálfvirka veðurstöðin á Eyrarbakka ætti að teljast ný stöð miðað við mönnuðu stöðina og óháð henni vegna fjarlægðar milli þeirra og mismunandi staðhátta. Svo gæti þá einnig verið með aðrar stöðvar.
Um daginn fór ég austur á land og kom við á Hellu. Það er hlýlegur og fallegur staður niður við fljótið. Lengi var þar mönnuð veðurstöð. En hún hefur verið lögð niður og sjálfvirk stöð komið í staðin. En hún er ekki niður við fljótið þar sem allt er svo fallegt og hlýlegt. Hún stendur á ljótu og leiðu bersvæði við þjóðveginn langa leið frá Hellu. Það er fráleitt að telja hana vera veðurstöð á Hellu.
Gaman var að sjá sjálfvirku stöðvar Vegagerðarinnar við Hvamm undir Eyjafjöllum (en stöðin er langt frá bænum Hvammi og ætti því að heita eitthvað annað) og á Steinum. Það er einhver ævintýrablær yfir þeim. Það stafar af landslaginu sem er stórbrotið í meira lagi og þjóðsagnalegt. Maður átti alveg von á að Gilitrutt birtist þá og þegar. Sjálfvirku stöðina á Kirkjubæjarklaustri sá ég ekki enda er hún einhvers staðar í óbyggðum úti á Stjórnarsandi á ógurlegu berangri náttúrlega.
Sjálfvirk stöð Veðurstofunnar við Kvísker í Öræfum er ekki við bæinn heldur úti við þjóðveginn á alveg voðalegu berangri og rokrassgati. Ekki sá ég sjálfvirku stöðina á Fagurhólsmýri en tel víst að hún sé á mesta finnanlega berangri.
(Mér finnst að ætti að setja upp veðurmastur á Hala í Suðursveit til heiðurs ofvitanum sem þar gerði ''vísindalegar veðurmælingar'' um aldamótin 1900 og varð fyrstur til að iðka snjódýptarmælingar á Íslandi eins og lesa má í Fjórðu bók hans í safnritinu Í Suðursveit).
Mönnuðu veðurstöðvarnar voru auðvitað alltaf við bæina þar sem athugunarmennirnir bjuggu eða inni í þorpum og kauptúnum eða kaupsstöðum. Stundum voru mælingaraðir á þessum stöðvum orðar æði langar.
Þegar þessar stöðvar leggjast niður virðist það vera keppikeflið að setja upp sjálfvirkar stöðvar í þeirra stað við þjóðvegi, hæfilega eða jafnvel óralangt frá þeim gömlu mönnuðu og á eins miklu berangri og hugsast getur.
Ég skil nú ekki svona. En kannski skilja þeir það á Veðurstofunni.
Það er líklega tímaspursmál hve nær veðurstöðin í Reykjavík, sjálf Veðurstofan, verður lögð niður við Bústaðaveg á þeim stað sem átti að verða framtíðarsetur hennar þegar hún var flutt þangað 1973, og hún drifin upp á berangur á Hólmsheiði í yfir 100 metra hæð þar sem vindar gnauða og snjóar geisa. Síðan verða turnar miklir reistir til himins Mammoni til dýrðar á túni Veðurstofunnar.
Það þarf ekki að taka það fram að allir munu yppta öxlum yfir þessu.
Jæja, ég hef tekið smá bloggskorpu undanfarið en fyrir löngu hef ég fengið óbeit á fyrirbærinu. Þetta er sálardrepandi iðja. Eftir skorpuna er í mér ólýsanlegur pirringur.
Ég er samt með þrjár æsispennandi veðurfærslur í undirbúningi, eina um sólskins-og sólarleysissumur, aðra um rigninga-og þurrkasumur, en sú þriðja og lagngheitasta er um hitabylgjur á Íslandi frá því 1700 og súrkál.
En pirringurinn í mér er svo mikill að mér gengur ekkert að koma þessu saman.
Ég er áreiðanlega kominn með alzheimer á lokastigi.
Að svo mæltu er ég að hugsa um að skríða aftur inn í bloggbindindishýðið sem ég hef verið í lengst af í sumar.
Og þess vegna enda ég á einkunarorðum hins mikla vitrings í fornöld, þá er hann mælti:
VEÐURBLOGG ER EINA BLOGGIÐ SEM VITSMUNAVERUM ER SÆMANDI.
Bloggar | Breytt 25.8.2009 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006