Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
2.6.2011 | 19:50
Júní
Ekki byrjar mánuðurinn gæfulega hér á suðvesturlandi. Í Reykjavík var minna en sjö stiga hiti mest allan daginn og var sólin þó að glenna sig. Vestanátt er svo framundan.
Menn hafa kvartað mikið um kulda undanfarið. Samt sem áður hefur hitinn á mánaðargrundvelli í maí, sem var að vísu breytilegur eins og margir mánuðir, verið næstum því alveg nákvæmlega í meðallagi á landinu miðað við 1961-1990 en það er í gildi sem viðmiðun og hvergi langt frá meðallaginu. Menn er nú að kvarta yfir veðri sem var bara hversdaglegt um áratuga skeið og æði oft miklu verra. Þetta viðmiðunaratímabil er þó allmiklu kaldara en fyrra viðmiðunartímablið 1931-1960 en sá tími er reyndar talinn kannski sá hlýjasti frá landnámi yfir svo mörg ár.
Undanfarin áratug hefur aftur verið mjög afbrigðilega hlýtt, reyndar svo hlýtt að kommon sens segir manni að það geti ekki haldið mjög lengi áfram. Einhvern tíma fari að kólna ofan úr þessum hæðum og það án þess að um einhverja kulda þurfi að vera að ræða miðað við langtíma meðaltöl.
Menn verða að gera sér grein fyrir því að það árferði sem við höfum búið við í áratug eða meira er ekki eitthvað sem er það ''eðlilegasta'' og við getum búist við að verði áfram von úr viti.
Auðvitað er ansi hart að þurfta að sætta sig við það. En haldi hlýindin áfram lengi enn sagði einn góður maður að þá væri eitthvað mikið að í náttúrunni.
En kannski er það einmitt tilfellið. Náttúran sé orðin ónáttúruleg!
Hvað um það. Við fylgjumst með framgangi mála í fylgiskjalinu sem lætur sér hvorki hita né kulda fyrir brjósti brenna, blaði eitt fyrir Reykjavík og landið, blaði tvö fyrir Akureyri.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.6.2011 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2011 | 00:36
Hlýjustu júnímánuðir
Meðaltal stöðvanna níu í júní 1961-1990 er 8,1 stig.
1933 (10,3) Júní 1933 er sá hlýjasti sem mælst hefur landinu í heild og einnig á Akureyri þó nokkur vafi leiki þó reyndar á hitanum þar þennan mánuð. Hvergi á öðrum veðurstöðvum á norður og austurlandi var þetta allra hlýjasti júní en litlu munaði þó. Á suðurlandi var einnig mjög hlýtt. Veðráttan gerir undarlega lítið með þennan góða mánuð: Tíðarfarið var yfirleitt hagstætt, einkum á NA-landi. Fyrri hluti mánaðarins var vætusamur og voru þá sunnan eða suðaustanáttir." Úrkoma var mikil um allt land, kringum 75% yfir meðallaginu, en þó einkum á austanverðu landinu og á suðausturlandi. Á Teigarhorni er þetta fjórði úrkomumesti júní (frá 1873) og fjórði á Akureyri (frá 1925) en undangenginn maí var ekki mælanleg úrkoma þar. Á Fagurhólsmýri mældist sólarhringsúrkoman 81,5 mm að morgni þ. 5. og 64,3 mm á Kirkjubæjarklaustri. Þrátt fyrir mikið úrkomumagn austanlands var suðvestanátt algengasta vindáttin og var fremur hægviðrasöm. Sólin var af skornum skammti syðra en kringum meðallag fyrir norðan. Eitt stutt kuldakast kom í þessum blíða mánuði, dagana 16.-18. Þá var norðaustanátt og slydda á Vestfjörðum og til heiða á norðurlandi og gránaði jörð einn daginn á Hesteyri í Jökulfjörðum. Í þessu kasti mældist mesti kuldi í byggð, 1,0 stig á Grænhóli á Ströndum þ. 17. Kaldast á landinu varð hins vegar -3,1 stig á Jökulshálsi, austan við Snæfellsjökul í 825 m hæð en þar var mælt þetta ár. Eftir kastið tók við hægviðri og hlýindi. Dagana 24.-26. var kyrrt og bjart veður og afar hlýtt og fór hitinn í 26,6 stig á Kirkjubæjarklaustri þ. 26. Á suðurlandsundirlendi var einnig um og yfir tuttugu stiga hiti þessa daga. Jafnvel í Reykjavík var hámarkshitinn 17-19 stig og glampandi sólskin og urðu bæjarbúar glaðir við. Hæð var fyrir sunnan land og um Grænlandshaf.
Síðustu fjóra dagana var vestanátt með rigningu á vesturlandi en hlýindum og þurrviðri á norðausturlandi og austfjörðum. Hitinn fór í 22,2 stig á Hólum í Hornafirði þ. 27. en daginn eftir í 25,1 stig á Hraunum í Fljótum og 23,4 á Grímsstöðum og síðasta daginn mældust í 22,1 stig á Teigarhorni. Á Klaustri var meðaltal hámarkshita í mánuðinum skráð 17,1 stig, sem er reyndar grunsamlega hátt, en meðalhitinn var 12,0 stig. Tuttugu stiga hiti á landinu var tiltölulega oft í þessum mánuði, bæði fyrstu dagana og síðustu vikuna. Kortið sýnir áætlað frávik hita í 850 hPa fletinum í rúmlega 1400 metra hæð og er hann tvö til þrjú stig yfir meðallagi 1968-1996 sem er ansi nærri því sem hann var við yfirborð en munurinn á hita 1961-1990 og 1968-1996 á Íslandi má heita enginn. Talsverður jarðskjálfti varð þann 10. á suðvesturlandi. Upptökin voru skammt fyrir sunnan Keili og stærðin var tæpir sex á Richter. Skjálftinn olli engum skemmdum.
Á eftir þessum mánuði kom hlýjasti júlí á landinu og á undan honum fór fimmti hlýjasti maí.
Meðalhiti mánaðarins:
1909 (10,2) Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum og sá næst hlýjasti á suðurlandsundirlendi og í Grímsey. Það var svo hægviðrasamt að næstum því má segja að ekki hafi hreyft vind allan mánuðinn. Og þetta er einn af allra þurrustu júnímánuðum. Segja má að háþrýstisvæðið við Asoreyjar hafi teygt sig alveg til landsins. Sjá kortið frá hæð 500 hPa flatarins. Miðað við Stykkishólm, Teigarhorn og Vestmannaeyjar er þetta sjötti þurrasti júní ef júní 2010 er undanskilinn en þá var ekki mælt á Teigarhorni en sá mánður var einnig mjög þurrviðrsamur. Úrkomudagar voru einungis fjórir á Teigarhorni. Fyrir norðan þótti líka ansi þurrt. Hægar vestlægar áttir voru viðvarandi fram yfir miðjan mánuð og var þá oft skýjað og sólarlítið vestanlands en mikil hlýindi suma daga fyrir norðan og austan. Þann 5. var hitinn 21,5 stig á Akureyri og 21,7 stig á Seyðisfirði þ. 12. Vindur snérist til austlægar áttar í fáeina daga frá þeim 16. og fór hitinn í Reykjavík í 17 stig þ.17. Fljótlega snérist aftur til vestanáttar eða hæðgviðris og síðustu dagana var mjög hlýtt, 21,4 stig á Akureyri þ. 24. og síðasta daginn 21,2 stig á Seyðisfirði. Kaldast í mánuðinum var 0,3 stig á Grímsstöðum. Sláttur á bestu bæjum byrjaði viku fyrir Jónmessu og þótti einsdæmi.
Vatnsveitan í Reykjavík var tekin í notkun í þessum mánuði.
2010 (10,1) Bæði í Stykkishólmi og Reykjavík er þetta hlýjasti júní sem mælst hefur og líka fyrir þessa staði saman. Fyrir allar níu stöðvarnar eru júní 1933, 1909 og 1941 hins vegar hlýrri. Og það sýnir vel að stöðvarnar í Stykkishólmi og Reykjavík duga ekki einar sér til að gera sér nokkurn vegin grein fyrir hita á öllu landinu. En þær verða þó að nægja þegar ekki er um að að ræða mælingar frá fleiri stöðvum eins og er um sum árin sem fjallað er um í þessum pistlum. Þetta er einnig hlýjasti júní sem mælst hefur í Hreppunum frá 1880 og á Hveravöllum frá 1965, 8,5 stig. Á Kirkjubæjarklaustri er þetta þriðji hlýjasti júní, eftir 1933 og 1941. Meðaltal hámarkshita á Hæli var 16,1 stig sem er með því mesta sem gerist í júni. Mánuðurinn var afskaplega þurr á norðausturlandi, sá þurrasti við Mývatn og næst þurrasti á Akureyri, eftir 2007. Þar var þetta fjórði sólríkasti júní frá 1926. Mjög hlýtt og bjart veður var á landinu í upphafi mánaðarins. Meðalhitinn þann 4. var dagshitamet að sólarhringsmeðaltali í Reykjavík 14,4, stig, en hámarkshitinn var 19,2 stig. Aldrei varð hámarkshi þó neitt afskaplega mikill á landinu öllu miðað við háan meðalhitann. Hlýjast varð 22,5 stig á Torfum í Eyjafirði þ. 18. Hámarkshiti á landinu var reyndar lægstur síðasta daginn, 17,4 stig. Kaldast varð aftur á móti -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaldal þ. 3. Meðalhiti allra daga var í Reykjavík yfir dagsmeðaltalinu. Meðalhiti hámarkshita á landinu á mönnuðum stöðvum var 18,7 stig en með sjálfvirkum stöðvum 20,0 stig og gerist varla meiri. Þykktin yfir Keflavík á hádegi og miðnætti var 5475 m en á kortinu má sjá frávikið frá meðallagi. Mikil þykkt skapar skilyrði fyrir hlýindi.
Áttundi hlýjasti júlí kom á eftir þessum mánuði. Meðalhiti júní 2010 á nokkrum stöðvum:
1871 Ef eingöngu er miðað við Reykjavík og Stykkishólm er ljóst að júní 1871 er sá næst hlýjasti, eftir 2010, 2,3 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Næstur í röðinni fyrir þessa tvo staði er júní 2003 en sá júní nær þó ekki að vera með allra hlýjustu júnímánuðum eftir að hægt er að fylla út töflu með þeim níu veðurathugunarstöðvum sem lengst hafa mælt frá því fyrir aldamótin 1900. Það er því ómögulegt að segja hver meðalhitinn á þeim öllum hefur verið í júní 1871. En ljóst er að sá mánuður var afar hlýr. Við setjum hann hér í fjórða sæti af því að hann er ekki alveg jafn hlýr í Reykjavík og Stykkishólmi og 2010. Hæðasvæði var oft milli Skotlands og Noregs en lægðir á Grænlandshafi. Kortið sýnir áætla hæð 850 hPa flatarins í rúmlega 1400 m hæð.
Framan af voru miklir hitar, einkum i dölum norðanlands, í Eyjafirði voru t.d. 20° R. [25° C] í forsælu um hádegi og 15° R [19° C] undir miðnætti, segir Þorvaldur Thoroddsen án þess að skýra það nánar með stað og dagsetningu. Nokkuð rigndi í Stykkishólmi þennan tíma í mildri sunnanátt. Þar var hitinn 11-13 stig hvern morgun frá þeim 8. til hins 16. Þegar sláttur hófst, segir Þorvaldur ennfremur, tók að þorna vestan- og sunnanlands, en fór í staðinn að rigna norðanlands- og austan. Var alveg þurrt í Stykkishólmi frá því rétt fyrir miðjan mámuð og til mánaðarloka og stundum bjart yfir að undanteknum tveimur dögum í síðustu vikunni þegar rigndi nokkuð. Áttin var þennan tíma oft austlæg. Hámarkshiti varð engan dag lægri en tíu stig í Stykkishólmi en var furðu oft um og yfir fimmtán en mest 17,2 stig þann 10. og aftur þann 29. Minnstur hiti var 2,3 stig þann 20. Þetta var því gósentíð. Sagt var að sunnanlands hafi þurkurinn verið minnstur í Skaftafellssýslu en fyrir norðan voru rigningar minnstar í Húnavatnssýslu þegar þar fór að rigna. Um miðjan mánuð var grasvöxtur orðinn meiri en vanalega í júlí og byrjaði sláttur því víða næstum því mánuði fyrr en venjulega.
1941 (10,1) Þessu júní kom á eftir níunda hlýjasta maí. Veðráttan segir: Tíðarfarið var mjög gott og hagstætt. Spretta ágæt og gæftir til sjávar góðar. Óþurkasamt síðari hluta mánaðarins." Á Hólum í Hornafirði er þetta hlýjasti júní sem þar hefur mælst 11,3 stig og einnig á Kirkjublæjarklaustri, 12,0, ásamt júní 1933. Síðasta talan er reyndar hæsta júnítala meðalhita á veðurstöð á sunnanverðu landinu. Í Borgarfirði og á suður Snæfellsnesi hefur ekki heldur mælst hlýrri júlí. Í Reykjavík var mánuðurinn sá fjórði hlýjasti eftir 2011, 2003 og 1871. Fyrstu dagana var afar hlýtt, 25,7 stig þ. 3. á Teigarhorni en nóttina áður mældist reyndar lægsti hiti mánaðarins í Reykjavík, 6,7 stig sem þá var hæsti lágmarkshiti sem þar hafði mælst í júní og var ekki slegið fyrr en árið 2003. Hæð var þessa daga yfir landinu eða nærri því og hægviðri. Hélst hægviðrið áfram þegar grunn lægð var yfir landinu 7.-12. og var þá bjart að mestu. Aðfaranótt hins 10. var næturfrost á fáeinum stöðvum, mest -2,0 stig á Grímsstöðum. Um daginn fór hitinn á Þingvöllum hins vegar í 18, 3 stig. Eftir þetta fór að rigna allmikið sunnanlands og í heild var óþurrkasamt það sem eftir lifði mánaðar. Þann 19. var mjög hvasst af suðri og fauk þá þak af húsum sums staðar. Um morguninn mældist mikil úrkoma á suður og suðausturlandi, mest 52,3 mm á Fagurhólsmýri. Djúp lægð var að fara austur yfir landið. Í kjölfarið kom mjög hlý sunnanátt en í Vestmannaeyjum var þá stormur í tvo daga. Þar á bæ fór hitinn í mánuðinum aldrei lægra en í 7,3 stig sem er í hæsta lagi óvenjulegt í júní. Veit ég ekki betur en þetta sé hæsta mánaðarlágmark veðurstöðvar í þeim mánuði. Eins konar hitabylgja kom þ. 23. þegar 24,8 stig mældust á Hallormsstað en 20-23 í innsveitum norðanands. Mikið þrumuveður var þennan dag fyrir norðan, alveg frá Skagafirði til Mývatnssveitar. Þann 25. dró til skammvinnrar og hægrar norðaustanáttar með talsveðri úrkomu víða. En síðustu dagana var hægur vindur en grunnar lægðir í námunda við landið. Á Hallormsstað var meðaltal hámarkshita í mánuðinum 17,6 stig sem er það hæsta sem skráð hefur verið í júní á nokkurri stöð en líklega hafa mæliaðstæður valdið því að þetta meðaltal er óeðlilega hátt miðað við meðalhitann sem var ekki meiri en 11,3 stig. Á Hallormsstað var meðalhitinn 11,7 stig í júní 1953 en þá var meðaltal hámarkshita aðeins 15,3 stig. Það er áberandi hve hámarkshitameðaltöl á sumrin eru oft skráð ótrúlega há í Veðráttunni á þriðja, fjórða og fimmta áratugnum. Valda því líklega fyrst og fremst ófullnægjandi aðstæður varðandi hitamælaskýli. Úrkoman var aðeins undir meðallagi í heild á landinu og miklu minni en 1933, einkum á suðausturlandi og norðurlandi. Sólarstundir voru lítið eitt færri í Reykjavík en 1933 en 30 klukkustundum færri á Akureyri. Þetta var því ekki neinn sólskinsmánuður. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum enda var úrkoman á Höfn í Bakkafirði aðeins 12 mm. Hæðahryggur var yfir Norðurlöndum en þrýstingur var lágur suðvestur af landinu. Sjá kortið sem sýnir meðalþrýsting við sjávarmál.
Þau stórtíðindi gerðust þann 22. að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin með lengstu víglínua sögunnar.
Árið 1940 (9,2, nr. 14) féllu veðurathuganir niður á Hallormsstað en á Úthéraði var þá veðurstöð og hafa þar verið stöðvar allt frá 1898. Þessi júní var sá hlýjasti á þessum slóðum þó hann hafi hvergi slegið met nema þar. Hann lá líka í suðvestanátt með rigningu og sólarleysi víðast hvar nema á norðausturlandi. Samt sem áður var gífurleg úrkoma á austurlandi síðast í mánuðinum. Að morgni þess 29. mældust 111,6 mm á Dalatanga sem var þá met fyrir sólarhringsúrkomu í júní sem féll svo árið 2002. Miklir skaðar urðu af skriðuföllum og sérstaklega varð Eskifjörður illa úti.
2007 (9,8) Þetta er þá sjöttu hlýjasti júní. Fyrstu vikuna var oft rigning á suður- og vesturlandi en blíðviðri fyrir norðan. Á Akureyri var úrkoman reyndar aðeins 0,4 mm í öllum mánuðinum og hefur aldrei verið minni í júní. Eftir miðjan mánuð var góðviðri um allt land og kom varla dropi úr lofti í Reykjavík. Þann 23. var sólin þar 18,0 klst og hitinn fór upp í 17,4 stig. Síðustu þrjá dagana var líka hlýtt og sólríkt i höfuðstaðnum. Hitinn var yfir meðallagi í Reykjavík alla daga nema tvo. Varla gerði næturfrost í byggð. Þó fór hitinn í -0,3 stig þ. 12. á Grímsstöðum en í -3,7 stig á sjálfvirku stöðinni á Gagnheiði uppi á reginfjöllum þ. 12. Mesti dagshiti á landinu var oft um eða yfir tuttugu stig en fór þó aldrei mjög hátt. Mestur hiti mældist á sjálfvirku stöðinni á Egilsstaðaflugvelli 23,0 stig þ. 9. en mest á mannaðri stöð 21,0 stig þ. 5. á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og Raufarhöfn. Kortið sýnir frávik 500 hPa flatarins í mánuðinum.
1953 (9,7) Á Húsavík var meðalhitinn 12,7 stig og er það mesti meðalhiti sem skráður er á veðurstöð á Íslandi í júní. Þetta er einnig hlýjasti júní á Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 10,8 stig. Grasspretta var með ágætum en sunnanlands og vestan voru óþurrkar svo slætti var allvíða frestað. Í Vík í Mýrdal var úrkoman 286 mm en aðeins 0,8 á Húsavík. Það var sólríkara en 1933 og 1941, bæði fyrir sunnan og norðan. Mánuðurinn byrjaði reyndar fremur kuldalega og var sá fyrsti kaldasti dagurinn. Hægviðri var þá og mikið til bjart á norðausturlandi. Fór frostið þann annan í -4,8 stig í Möðrudal og víða voru næturfrost fyrir norðan og austan og jafnvel á Þingvöllum fraus eina nótt. Hæð var fyrst yfir landinu en síðan sunnan við það. Frá þeim sjötta og til mánaðarloka voru lægðir oftast sunnan eða vestanvert við landið. Var þá oft úrkomusamt á suður og vesturlandi og einstaka sinnum um land allt. Hæðahryggur var annars oft yfir Norðurlöndum en hæð yfir Kolaskaga í þessum mánuði en lægðir á Grænlandshafi. Þykktin yfir landinu upp í 500 hPa flötin var því meiri sem norðaustar dró. Sjá kortið. Gott veður var á sautjándanum, 15 stiga hiti í Reykajvík en 18 í Borgarfirði og á Hólsfjöllum. Á suðurlandi og um miðbik vesturlands voru stórrigningar 22.-23. Að morgni hins 23. mældist sólarhringsúrkoman í Vík í Mýrdal t.d. 72 mm og 58 mm á Kirkjubæjarklaustri. Hlýtt var fyrir norðan og næsta dag mældist hitinn 26,2 stig á Sandi í Aðaldal og meðalhitinn á Akureyri var 17,3 stig sem er dagshitamet og með hlýrri júnídögum sem koma yfirleitt að meðalhita. Daginn eftir fór hámarkshitinn í 25,0 á Húsavík. Þessa daga komst hitinn víða annars staðar fyrir norðan í 20-24 stig. Héldust hlýindi á landinu nánast til mánaðarloka og þ. 28. fór hitinn á Síðumúla í Hvítarsíðu í 21 stig, 20 í Dölum og svipað í Hrútafirði.
Elísabet Englandsdrottning var vígð þann 2. í alveg sjaldgæfum kulda miðað við árstíma í Englandi. Daginn áður barst sú frétt um heiminn að Everest hefði verið klifið í fyrsta sinn. Uppreisn var gerð í A-Berlín en hún var bæld miskunnarlaust niður. Síðast en ekki síst var þetta frægur aftökumánuður. Rosenberghjóinin voru tekin af lífi í Bandaríkjunum þ. 19. og er það einhver umdeildasta aftaka sögunar. Og þ. 29. var fjöldamorðinginn og kynferðisglæpamaðurinn John Christie tekinn af lífi í Englandi.
Júní 1954 var aðeins í rúmu meðallagi að hita yfir landið en sló þó met í Hreppunum þar sem athugað hefur verið síðan 1880. Meðalhitinn á Hæli var 11,4 stig og hefur aðeins orðið hærri árið 2010. Meðaltal hámarkshita þar var og óvenju hátt, 16,8 stig sem er það hæsta sem skráð er í júnímánuði á suðurlandsundirlendi. Þetta var reyndar síðasti júní á stöðinni þar sem mælt var í veggskýli og er þetta hámarksmeðaltal kannski grunsamlega hátt. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð var meðalhitinn 11,0 stig en meðaltal hámarkshita 14,4 stig og þar var líka bara veggskýli. En á Sámsstöðum verður hámarkshiti á sumrin reyndar yfirleitt ekki eins mikill sem á Hæli. Mjög hlýtt var á landinu dagana 4.-6. Þann 6. á hvítasunnudag fór hitinn í Reykjavík í 20,7 stig en víða á suður og vesturlandi í 21-23 stig. Þetta voru hlýjustu dagar mánaðarins. Og menn voru alveg ölvaðir af sumargleði!
Það voru mikil tíðindi þegar almyrkvi á sólu varð syðst á landinu þ. 30. en vel rökkvaði í Reykjavík. Man bloggarinn ágætlega eftir þessum atburði. Hann fór reyndar að skæla því einhver barnagárunginn skrökvaði því að honum að væri að koma heimsendir! Myrkvinn sást á 150 km belti sem lá reyndar að mestu fyrir sunnan land en norðurtakmörk þess var bein lína sem lá yfir Kross í Landeyjum, og Langholt í Meðallandi. Annars staðar varð deildarmyrkvi. Í Vestmannaeyjum hófst almyrkvinn kl. 11:04 og stóð í rúmlega hálf aðra mínútu. Bjart var á suðurlandi þegar þetta gekk yfir.
2003 (9,7) Þetta er áttundi hlýjasti júní og virðist vera einhver sá allra úrkomusamasti sem mælingar ná yfir, næstur á eftir 1889 og svipaður og 1930 og 1969 og er þetta úrkomusamasti mánuður sem hér er fjallað um. En hann státar einnig af því að vera næst hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík en sá níundi úrkomusamasti. Á Lambavatni á Rauðasandi í Barðarstrandarsýslu, þar sem mælt hefur veríð síðan 1923, var þetta hlýjasti júní sem þar hefur komið, 11,1 stig. Í Reykjavík var meðlhitinn mjög jafn, aldrei mjög hár, hæstur 12,4 þ. 24., en heldur aldrei lægri en 9,5 stig þ. 3. Ekki var sérlega hlýtt á landinu lengi framan af. Næturfrost mældist til dæmis -0,1 stig á Hveravöllum þ. 3. en á Gagnheiði -2,3 stig þ. 16. Á láglendi fór hitinn minnst í 0,2 stig á Staðarhóli þ. 3 og aftur þ. 16. á Miðfjarðarnesi. Hiti komst ekki í tuttugu stig á mönnuðum veðurstöðum fyrr en þann 22. en var það svo hvern dag til mánaðarloka. Á Akureyri komu dagshitamet fyrir meðalhita þ. 25. og 26. Mestur hámarkshiti varð 23,6 stig á Mánárbakka þ. 26. en á sjálfvirkri stöð 24,9 stig á Hallormsstað þ. 29. Síðasta dag mánaðarins var blíða á suðurlandsundirlendi og fór hiti þar víða í nákvæmlega tuttugu stig. Meðaltal hámarkshita mannaðra stöðva var 18,5 stig en 19,0 í júní 2002. Mjög var vætusamt sunnanlands og austan en þurrviðrasamt á norðvesturlandi. Úrkoman á Kvískerjum var 405,5 mm en 15,9 mm á Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði og 15,2 mm í Dalsmynni í Skagafirði. Sólskinsstundir á Hólum í Hornafirði voru einungis 45,6. Það er ekki aðeins minnsta sólskin sem þar hefur mælst í júní frá 1958 heldur hefur aldrei mælst eins lítið sólskin í júní á veðurstöð á Íslandi. Lægðir gerðu sig aðsópsmiklar suður af landinu en kortið sýnir loftþrýsting við yfirborð.
Júní 2002 (9,2), sautjándi hlýjasti á landinu, er tekinn hér með vegna þess að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur í júní í Reykjavík og mesta sólarhringsúrkoma á landinu þó mánuðurinn nái ekki að vera meðal tíu hlýjustu yfir landið. Meðalhitinn var 10,8 stig í Reykjavík, sjötti hlýjasti þar frá 1866, og mánuðurinn var svipaður að hlýindum á suðurlandsundirlendi og 2003. Á Hellu var hitinn 11,1 stig en 11,7 á Írafossi sem er hæsta júnímeðalhitatala á suðurlandsundirlendinu. Hitaskil fóru yfir landið þ. 8 með þrumuveðri syðst á landinu. Var síðan sérlega hlý austanátt næstu tvo daga. Hitamet fuku á nokkrum stöðvum vestanlands. Á þeim fræga stað Breiðavík fór hitinn til dæmis í 24,0 stig þ. 10. og er það langmesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á þeim slóðum í nokkrum mánuði. Dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita var sett í Reykjavík hvern dag 8.-14. og þann tíunda var meðalhitinn 16,2 stig sem er mesti meðalhiti sem þar hefur mælst nokkurn dag í júní. Daginn eftir var meðalhitinn 15,1 stig en þá mældist mesti hámarkshiti sem komið hefur í júní í Reykjavík í nútímaskýli, 22,4 stig (þ. 24. 1891 mældust 24,7° í annars konar skýli). Sólin skein nokkuð glatt í höfuðborginni þessa tvo ofurhlýju daga á reykvískan mælikvarða. Mesti hiti á landinu varð hins vegar 24,7 stig á Írafossi þ. 12. Hiti fór einhvers staðar í tuttugu stig eða meira alla dagana 4.-14. á mönnuðum veðurstöðvum.
Meðan á hlýindunum stóð kom forseti Kína í heimsókn til Íslands og vakti framkoma yfirvalda við félaga Falungong sem hingað komu þá líka miklar deilur. Góðviðriskaflanum lauk eiginlega á sautjándanum með foráttuveðri af norðaustri með vatnsveðri og skriðuföllum á austfjörðum. Úrkoman að morgni hins 18. á Gilsá í Breiðdal var hvorki meiri né minni en 167,1 mm sem mun vera met í júní. Veðrið gekk von bráðar niður en mánuðurinn var ekkert sérstakur að hita eftir það og eiginlega hálf leiðinlegur. Líkt og í júní árið eftir var lægðasvæði þaulsetið suður af landinu eins og kortið yfir loftþrýsting við yfirborð sýnir.
1939 (9,7) Júní þessi, sem er sá níundi hlýjasti í heild á landinu og kom í kjölfarið á næst hlýjasta maí, státar af mesta hita sem mælst hefur á Íslandi og mesta loftþrýstingi í júní á landinu. Hann var allur talinn hagstæður en samt nokkuð þurr fyrir norðan. Fram eftir voru aðallega suðlægar áttir með dálítilli úrkomu. Þann 6. var þrumuveður með miklu hagléli í Þistilfirði. Myndaðist þá hola allmikill í mýri og er talið að eldingnu hafi þar lostið niður. Dagana 10.-12 var hægviðri og víðast hvar þurrt og bjart. Þá mældust sums staðar næturfrost, mest -3,0 stig í Núpsdalstungu í Miðfirði þ. 11. Síðan gekk í suðaustanátt og mældist sólarhringsúrkoman 53,2 mm á Vattarnesi þ. 14. en 77,6 mm þ. 16. á Hólum í Hornafirði og 48 mm þ. 18. í Fagradal í Vopnafirði. Aðal veðurballið byrjaði hins vegar mánudaginn þann 19. þegar geysimikil hæð byggðist upp fyrir sunnan land og svo yfir landinu sjálfu. Klukkan 17 (kl. 18 að okkar tíma) þ. 21. mældist loftþrýstingur 1040,4 hPa í Stykkishólmi. Er það eins og áður segir mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í júní. Óvenju mikil hlýindi fylgdu þessu. Á kortinu er sýndur mesti hámarkshiti sem mældist á viðkomandi stöð í hitabylgjunni. Í Stykkishólmi voru ekki hámarksmælingar en sýndur mesti hiti sem lesinn var á mæli á athugunartímum. Stykkishólmur er alls ekki hitavænleg stöð. Hámarksmælingar vantar líka frá ýmsum öðrum stöðvum.
Hlýindin héldust í nokkra daga en mesti hitinn færðist nokkuð til milli landshluta. Í eina fimm eða sex daga var hitinn yfir tuttugu stig í mörgum sveitum þar sem hafgola náði ekki til. Sums staðar varð þó aldrei sérstaklega hlýtt, t.d. í Borgarfirði, á Vestfjörðum og í Reykjavík. Þar varð hlýjast 18,7 stig þ. 20. og aftur þ. 23. Fyrri daginn varð hámarkshitinn aftur á móti 21,7 á Kirkjubæjarklaustri. Daginn eftir voru þar 28,0 stig en á suðurlandsundirlendi var víða 20 til 23 stiga hiti en 25,0 stig í Vík í Mýrdal. Sama hitastig var mælt á Mælifelli í Skagafirði en 24,0 stig í Miðfirði og Teigarhorni og 26,0 stig í Möðurdal og á Hallormsstað. Á Akureyri fór hitinn hins vegar í 28,6 stig í hægri vestanátt þennan dag og var kominn í 24 stig strax um morguninn. Fréttir af veðri voru fáskrúðugar í blöðunum á þessum árum og sjaldan eða aldrei minnst á hitabylgjur. En nú gátu menn ekki orða bundist! Þann þ. 22. náðu hlýindin hámarki. Mældist þá mesti hiti sem mælst hefur á landinu, 30,5 stig á Teigarhorni í Berufirði en 30,2 á Kirkjubæjarklaustri, 28,5 á Fagurhólsmýri og 26,5 stig á Akureyri. Aftur fór hitinn á Hallormsstað þennan dag í 26 stig en 26,5 stig á Sandi í Aðaladal, 25,3 á Húsavík og 25,2 á Grímsstöðum. Á suðurlandsundirlendi var líka mikill hiti, til dæmis 23,2 stig á Berustöðum, skammt frá Hellu. Næsta dag kólnaði mjög á norðurlandi þegar vindur varð norðlægari, en þar var þó enn bjart, en aftur komst hitinn í 26,6 stig á Kirkjubæjarklaustri en 22 á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum varð sá dagur heitasti dagurinn þó hitinn yrði ekki meiri en 17,5 stig. Fyrir utan tölurnar frá Kirkjubæjarklaustri, Hallormsstað og Teigarhorni og fyrir hitann þann 22. á Akureyri hef ég reyndar ekki handbærar hámarkshitatölur allra stöðva frá degi til dags en einungis dagsetningar þegar hitinn fór hæst á stöðvunum í mánuðinum. Þann 24. varð svo hámarkið í Reykjahlíð við Mývatn, 25,4 stig og á Hamraendum í Dölum varð það 23,6 stig þ. 25. og var þá kominn sunnudagur. Þetta þýðir að hitarnir stóðu frá þeim 20. til a.m.k. hins 25. þó þeir hafi komið misjafnt niður og allmikið hafi dregið úr þeim síðustu dagana. Hafgolan var leiðinleg, t.d. kólnaði mjög skarpt á Akureyri þegar hún kom þar. Óvenjulega mikil sólskinstíð hófst í Reykjavík þ. 23. sem hélst til 5. júlí þó ekki væri nú alltaf hlýtt þá daga. Myndin er af Teigarhorni á 19.öld. Hún er í eigu Þjóðminjasafnsins en er tekin af vef Veðursstofunnar.
Júnihitamet sem enn standa og voru sett í þessari hitabylgju eru þau í Miðfirði, á Sandi, Grímsstöðum og Vík í Mýrdal og á Sámsstöðum, 22,6 stig þ. 21. En ársmetin á Teigarhorni, Kirkjubæjarklaustri og Fagurhólsmýri standa öll enn. Miklir vatnavextir urðu í hlýindunum í Eyjafirði og hljóp vöxtur gríðarlegur í Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá og Glerá þar sem brúin eyðislagðist. Vegurinn um Öxnadal varð ófær á kafla og skriða stíflaði næstum því Eyjafjarðará. Ýmsar fleiri skemmdir urðu á brúm, vegum túnum, engjum og matjurtagörðum. Eftir að hlýindin höfu gengið yfir var enn hæð yfir landinu eða nærri því. Hægviðri var suma daga en aðra daga var norðan eða norðaustan átt og sums staðar allhvasst. Veður var oft bjart og úrkoma mjög lítil.
Neðst á síðunni eru nokkur kort sem sýna þróun hæðarinnar miklu frá þ. 20 til 25. í endurgreiningunni amerísku. Þykktin upp í 500 hPa flötin hefur jafnvel verið nokkuð yfir 5600 m þegar mest var. Merkt er með rauðu nokkrar hitatölur inn á landið. Þá er kort sem sýnir hæð 5 hPa flatarins þegar hann var talinn hæstur. Viðbót 10.6. Þykktin yfir suðvesturlandi fór svo hátt sem í 5655 m en hæðin var 5961 sem er hitabeltisástand og vel það!
1934 (9,6) Fyrstu fimm dagana voru hlýjar sunnanáttir með rigningu sunnanlands en blíðu mikilli fyrir norðan. Komst hitinn í 25,5 stig á Hraunum í Fljótum þann þriðja. Hlýindin ollu miklum leysingum til fjalla, einkum fyrir norðan. Gríðarlegir vatnavextir urðu í Skagafirði og Eyjafirði. Héraðsvötn og fleiri vatnsföll skemmdu vegi og sums staðar sópustu æaðarvörp burt í flóðum. Á Vestfjörðum runnur skriður úr fjöllum og ollu skemmdum á túnum og görðum.
Þessi mánuður er svo auðvitað þekktur fyrir jarðskjálfann mikla sem reið yfir eða réttara sagt undir Dalvík þ. 2. kl. 13:42. Stærðin var 6,3 stig á Richterskvarða en skjálftinn átti upptök í sundinu milli Dalvíkur og Hríseyjar en fannst frá Breiðafirði til austfjarða. Tólf hús eyðilögðust en 85 skemmdust. En enginn meiddist.
Mikil veðurblíða var um allt land dagana 6.-14. í hægviðri. Á Húsavík fór hitinn í 26,0 stig þ. 7. sem er þar júnímet og þ. 10. var yfir tuttugu stiga hiti á suðurlandsundirlendi. En skjótt skipast veður í lofti og upp úr miðjum mánuði kom leiðinda kuldakast með norðaustanátt. Veður var þó víða bjart og þurrt og voru sums staðar næturfrost, mest -2,4 stig þ. 21. á Grímsstöðum. Síðustu vikuna var breytileg átt en rigningar víða en ekki kalt. Úrkoma á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði var aðeins 3,7 mm í þessum mánuði og mældist aldrei minni meðan mælt var (1924-1995). Á eftir þessum júní kom ellefti hlýjasti júlí.
Síðasta daginn lét Hitler til skarar skríða gegn þeim sem hann taldi ógna veldi sinu innan raða nasista í aðgerð sem nefnd hefur verið Nótt hinna löngu hnífa.
Fyrir 1867 var júní 1830 einstaklega hlýr líkt og maí sama ár og eru þau hlýindin ansi stórkarlaleg og ekki alveg trúanleg. Enn hlýrri var þó júní 1831. Þetta eru mælingar frá Reykjavík. Tölurnar sjást í fylgiskjalinu. Einnig var mjög hlýtt 1846 þegar hitinn í Stykkishólmi var 10,4 stig, en 10,3 í Reykjavík og er það ekkert út í hött.
Fjallkonan, 19. júní 1909; Ingólfur 1. júlí 1909.
Fyrra fylgiskjalið er hið hefbundna en hið síðar er um júní á Akureyri 1953 og Reykjavík 2002 og 2010. Þau eru fyrir neðan kortin.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006