Vorið lætur á sér standa í Reykjavík en blómstrar á Akureyri!

Það sem af er wundershönen Monat Mai als alle Knospen sprangen er meðalhitnn á Akureyri næstum því hálft stig yfir meðallagi en næstum því heilt stig undir því í Reykjavík! 

Reykvíkingar eru því orðnir æði langeygðir eftir vorinu og öfunda óskaplega Akureyringa af blessaðri vorblíðunni.

Ef þið trúið mér ekki skulið þið bara kíkja á fylgiskjalið. 

Ekki lýgur það!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mannaðar veðurstöðvar

Sem vesæll veðuráhugamaður er ég sammála því að net mannaðra  veðurstöðva sé orðið of gisið  þó þær sjálfvirku séu þarfaþing og mætti fjölga fremur en fækka.

Það er sárt að horfa á eftir mönnuðum stöðvum sem athugað hafa í áratugi, hátt upp í heila öld, eins og Stórhöfða, Lambavatni, Hæli, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri. Ekki bætir úr skák þegar sjálfvirkar stöðvar sem eiga að vera ígildi þeirra mönnuðu sem hverfa eru alls ekki á sama stað eins og raunin er um Árnes (fyrir Hæl) og Stjórnarsand (fyrir Klaustur) að ógleymdri þessari hörmung við Mývatn.

Allra verst er þó þegar langtíma mannaðar stöðvar eru lagðar niður en ekkert kemur í staðinn eins og raunin er um Norðurhjáleigu (þar á undan Mýrar í Álftaveri) og kannski Vík í Mýrdal. Maður er svo dauðhræddur um sama verði uppi á teningnum með Stafholtsey og allt undirlendi Borgarfjarðar verði þá  án veðurathugunarstöðvar. 

Til fróðleiks og nostalgíu ætla ég telja upp þær mönnuðu stöðvar fyrir almennar athuganir sem voru við líði þegar ég byrjaði að fylgjast með veðri 1967 eða einhverjum árum seinna en eru nú aflagðar og ekki hafa fengið mannaðan staðgengil í grenndinni og sumar ekki heldur sjálfvirkan, skeytastöðvar eru með svartletri: Elliðaárstöð, Hólmur,  Víðistaðir, Straumsvík, Mógilsá, Akranes, Hvanneyri, Andakílsárvirkjun, Fitjar í Skorradal, Síðumúli (kannski er Stafholtsey gild sem staðgengill), Haukatunga, Arnarstapi, Hamraendar í Dölum, Búðardalur (hugsanlega er Ásgarður einhvers konar staðgengill), Reykhólar, Flatey á Breiðafirði, Lambavatn á Rauðasandi, Kvígindisdalur, Suðureyri, Æðey, Hornbjargsviti,  Hrútafjörður, Barkarstaðir í Miðfirði, Blönduós, Hraun á Skaga, Nautabú, Grímsey, Torfufell í Eyjafjarðardal, Reykjahlíð við Mývatn, Sandur í Aðaladal, Staðarhóll, Húsavík, Garður í Kelduhverfi, Raufarhöfn, Skoruvík á Langanesi, Þorvaldsstaðir í Bakkafirði, Brú á Jökuldal, Hof í Vopnafirði, Dratthalastaðir, Egilsstaðir, Hallormsstaður, Skriðulaustur, Neskaupstaður, Kollaleira (mér skilst að veðurathugunarmaðurinn þar hafi hröklast burt vegna ofstækis virkjanasinna), Kambanes, Papey, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, Stórhöfði, Sámsstaðir, Hella, Hæll, Búrfell, Jaðar, Þingvellir, Reykir við Hveragerði, Reykjanesviti, Hveravellir

Kannski gleymi ég einhverjum stöðvum eða yfirsést eitthvað.  

Ekki veit ég alveg ástæðuna fyrir þessum gífurlegu breytingum. Ýmsar þjóðfélagsbreytingar spila þar inn í og eflaust fjárhgsástæður. 

Ekki á ég von á því að tilvonandi ríkisstjórn muni sýna þörfum Veðurstofunnar mikinn skilning. Fremur má búast við að hún skeri niður um allan helming og vilji helst einkavæða allt draslið. 

Einkavæðing veðurathugana og veðurupplýsinga væri það versta sem fyrir gæti komið. Tala nú ekki um ef aðgangur að veðurupplsingunum yrði þá seldur dýrum dómum. 

Í lokin tek ég fram að frá 1. maí er sú breyting gerð á mánaðarveðurvaktinni hér á Allra veðra von að Hveravellir er flokkuð sem hálendisstöð en hefur áður verið höfð meðal byggðastöðva. 

En ég býst varla við að þessi breyting eigi eftir að halda vöku fyrir mörgum!  

Viðbót 12.5.:  Nú á hádegi hafa engar upplýsingar borist frá Kirkjubæjarklaustri-Stjórnarsandi síðan kl. 4 í nótt. Þegar það gerist að ekkert kemur frá sjálfvirku stöðvunum varar það stundum vikum saman. Þetta er eitt af því óhagræði, eitt af mörgum, sem fylgir því að leggja niður mannaðar veðurstöðvar.Svo er það einkennilegt að jörð hefur verið talin alhvít á Stórthöfða í Vestmannaeyjum nú í margra morgna í röð.


mbl.is Net mannaðra veðurstöðva of gisið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Létt og leikandi

Já, auðvitað kom vorið létt og leikandi eins og músik eftir Mozart. Þess var líka algjörlega að vænta þrátt fyrir það að sumir töluðu eins og ekkert myndi vora þetta árið í einhverjum mesta veðurbarlómi og eymdarsöng sem heyrst hefur á landinu frá því í Sögum úr Skaftáreldi eftir Jón Trausta.

Í dag komst hitinn í 10,5 stig í Reykjavík í glaða sólskini sem er nokkuð gott eftir árstíma en fyrir austan fjall og í Hvalfirði voru 13,1 stig.

En ballið er bara rétt að byrja. Í maí hlýnar venjulega ansi skarpt og við erum ekki nærri komin að skemmtilegasta og heitasta partinum. 

Bráðlega verður snjórinn í Fljótum bara wagnerísk martraðarminning úr Niflheimum en raunveruleikinn verður endalaus mozartsæla undir flippuðum góðviðrihimni með ívafi af Bítlunum: Lucy in the sky with diamonds.   

Fylgiskjalið ætlar ekki að láta það æsilega vorblót framhjá sér fara! 

The times they are a-changin'. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurstöð í Fljótin

Mikið væri nú gaman að fá sjálfvirka veðurstöð í Fljótin. Þó ekki við Skeiðsfossvirkjun þar sem er úrkomu og snjómælingastöð heldur t.d.í grennd við Ketilás. Fyrir löngu var í allmörg ár veðurathugunarstöð úti við sjó á Hrauni eða Hraunum (hvort er það?). En mér finnst áhugaverðast að veðurstöð væri inni í dalnum. 

En mikið er lagið við þetta myndband leiðinlegt og flutningurinn enn leiðinlegri. Óneitanlega er nafn lagsins, Undur vorsins, samt kaldhælðislegt miðað við ástandið! 

Í morgun var snjódýptin 162 cm við Skeiðsfossvirkjun. Metið í maí er 176 cm árið 1995.  


mbl.is Fljótin á kafi í snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrirvarar

Það þarf að taka þessa frétt að nýtt kuldamet fyrir byggð í maí hafi verið sett með -17,6 stiga frosti á Grímsstöðum með þó nokkrum fyrirvara.

Gamla metið, sem sagt er að hafi verið slegið, -17,4 þ. 1. 1977 á Möðrudal á Fjöllum, var mælt á kvikasilfursmæli en þá voru engar sjálfvirkar hitamælingar.

Þessi mæling í nótt á Grímsstöðum -17,6 stig var gerð á sjálfvirkan mæli sem alveg er nýbúið að setja upp. Ekki efa ég að mælingin sé í sjálfu sér rétt. Hins vegar mældist á kvikasilfursmælinum á Grímsstöðum ,,aðeins'' -14,5 stig. Munurinn er sláandi, 3,1 stig. Mesta frost sem mælst hefur í mái á Grímsstöðum á kvikasilfursmæli er -16,4 stig sem mældist svo seint í mánuðinum sem þann 19. í hrylingsmaímánuðinum  1979 og sömu nótt mældust -17,0 stig á Brú á Jökuldal á pjúra kvikasilfur.

Menn verða að mínu áliti aðeins að hugsa sig um stundum þegar þessar sjálfvirku stöðvar rjúka upp með íslandsmet í  kulda eða hita. 

Hvað kuldann snertir í byrjun þessa mánaðar, sem vissulega er ekkert grín, hafa samt ekki fallið nein kuldamet fyrir maí nema á einni stöð, að því er ég best veit, sem athugað hafa til dæmis í kuldaköstunum í maí 1982, 1979, 1977, 1967 eða 1968 til dæmis eða þá 1955 og 1943 og enn aftar, hvorki á stöðvum sem hafa verið mannaðar allan tímann eða á stöðvum sem voru mannaðar lengi en hafa svo haldið áfram á seinni árum sem sjálfvirkar. 

Þessi eina stöð er Hella á Rangárvöllum sem athugað hefur frá 1958. Þar mældist mest á kvikasilfrið -8,2 stig þ. 18. 1979 en í nótt mældist þar á sjálfvirku stöðinni -10,3 stig. En er þetta í rauninni sama stöð?

Á nokkrum þrælmönnuðum stöðvum sem hófu að mæla kringum 1990 hafa met hins vegar fallið. 

En gömlu súperkuldametin í maí frá 1982 og fyrr standa á þeim stöðvum sem staðið hafa vaktina allan tímann til þessa dags.

Það er enginn vafi í mínum huga að þessi sjálfvirka Grímsstaðamæling er ekki vitnisburður um mesta maíkulda sem komið hefur á landinu í byggð eftir að hitamælingar hófust. 

Nú er ég reyndar að taka saman smá dót um þessi alræmdu kuldaköst í maí á fyrri tíð og birti það kannski á þessari síðu.

Ef ég dett þá ekki dauður niður í miðjum klíðum úr kulda og vosbúð!

Viðbót: Ég er víst þegar búinn að skrifa svona pistil um hret í maí.

 


mbl.is Nýtt kuldamet fyrir maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband