Mesti febrúarhiti í Reykjavík 1935

Þennan dag, 8. febrúar 1935, mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í febrúar, 10,1 stig. Veðurstöðin var þá á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Hlýindi voru um þetta leyti í nokkra daga. Þau  byrjuðu þann 6. með asahláku um land allt. Þá var djúpð lægð yfir Grænlandi. Þennan dag fór hitinn í 14,0 stig í Fagradal í Vopnafirði. Næsta dag komst hitinn á Akureyri í 13,2 stig sem þá var mesti hiti sem þar hafði mælst í febrúar en metið var slegið 1980 og tvisvar eftir það.

Þann 8. fór djúp og kröpp lægð norðaustur um landið og fylgdi henni sunnanofsaveður með rigningu. Veðrið skall á af suðaustri á sjöunda tímanum síðdegis. Loftvægi fór niður í 957,1 hPa um kvöldið í Stykkishólmi. Vindur var talinn 12 vindstig í Reykjavík og 10 sums staðar annars staðar á landinu. Enskur togari strandaði við Sléttanes við Dýrafjörð og fórust allir sem um borð voru. Kirkjan í Úthlíð í Biskupstungum fauk út í buskann og sums staðar fuku skúrar og útihús. Mjög víða fuku húsþök og er sagt að þakplötum hafi rignt yfir Reykjavík. Loftnet útvarpsstöðvarinnar á Vatnsenda slitnaði. Í  þessum látum mældist sem sé methitinn í Reykjavík. Í Vík í Mýrdal fór hitinn þá í 9,5 stig. Næsta morgun mældist úrkoman á Vattarnesi 52,3 mm og 46,9 á Teigarhorni en 13,0 í Reykjavík.

Eftir að lægðin fór yfir landið kom fyrst snöggt norðanáhlaup en svo útsynningur með éljum vestanlands. 

Í febrúar 1942 mældist einnig 10,1 stig í Reykjavík og var það þann 16. Þá var ekkert illviðri.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kannski myndskeið frá mesta ofviðrinu í Reykjavík

Vefsíðan Lemúrinn birtir í dag tvö myndskeið sem eru fræðslumynd bandaríkjahers frá því haustið 1941 og fram á árið 1942. Þar á meðal eru myndskeið frá miklu óveðri sem á myndinni er sagt að hafi gengið yfir 13. janúar 1942 og þá hafi með öðrum skaða fimm flugbátar sokkið. En dagsetningin er áreiðanlega röng. Tvö mikil veður gengu yfir í þessum mánuði með þriggja daga millibili, 12. og 15. janúar en þann 13. var skaplegt veður. Seinna veðrið var eitt hið versta sem gengið hefur yfir suðvesturland og þá mældist mesta veðurhæð sem mælst hefur í Reykjavík. Veðrið var mest um og eftir hádegi meðan birtu naut en veðrið þann 12. var mest að kvöldlagi. Í myndskeiðinu, sem tekið er í björtu, virðist sem veðrið þann 15. komi fram.

Sé svo er þetta líklega eina kvikmyndin sem til er af þessu fræga veðri þegar mesti vindhraði sem mælst hefur í Reykjavík var mældur. Hér er tengill á þetta veður sem sést í myndskeiðinu. Það byrjar á 7:50 mínútu. Þar virðist vera blandað saman myndum frá Reykjavíkurhöfn og frá Skerjafirði þar sem flugbátarnir voru. Hér má aftur á móti sjá greinargerð Veðurstofu Íslands um ofviðrið mikla 15. janúar 1942. Þar kemur meðal annars fram að þennan dag hafi fimm flugbátar sokkið. Og margt fleira er þar að lesa.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikil úrkoma á austfjörðum

Á austfjörðum hefur verið mikil úrkoma síðustu þrjá dagana. Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði hefur hún þrjá síðustu morgna og svo í dag verið samtals fir 180 mm. Þar hafði verið mjög lítil úrkoma þennan mánuð þangað til. Á Eskifirði hefur úrkoman síðustu þrjá sólarhringa verið um 180 mm, á Fáskrúðsfirði 160 mm, á Seyðisfirði um 135 mm, en ekki meiri en kringum 80 mm á úrkomustöð við Neskaupstað. 

Það er rigning á láglegndi en snjókoma til fjalla.

Viðbót 30. jan: Enn er ekkert lát á úrkomunni á austfjörðum: Úrkoman síðustu fjóra sólarahringa er nú orðin þessi: Eskifjörður 235 mm, Fáskrúðsfjörður 210 mm, Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði 204 mm, Neskaupstaður 83 mm, sjálfvirk stöð á Neskaupstað 106 mm, Seyðisfjörður rétt tæpir 200 mm. Mest úrkoma í morgun var mæld 86,8 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Ekki komu þaðan upplýsingar í gær en síðustu fjóra daga, að gærdeginum frátöldum, hafa þar mælst 153 mm. Það þarf ekkert að segja manni það að þar hafi engin úrkoma mælst í gær þó engar upplýsingar hafi borist. Og er þetta frábært dæmi um hve bagalegt það er sem oft ber við að upplýsingar frá úrkomustöðum berist EKKI daglega, jafnvel þó rigni eldi og brennisteini ef svo má segja.   

Viðbót 1.2. Eftir mínum fljótheita útreikningum er þessi janúar langt fyrir ofan meðallag á landinu, líklega í sjöunda sæti að hlýindum á landinu,á eftir 1950 en sennilega hlýrri en 1964 (þó ekki i Reykajvík). Hann er sá 7. hlýjasti í Reykjavík. Fylgiskjalið fylgdist grannt með honum allan tímann!   


mbl.is Snjóflóðahætta á Austfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkustu skammdegismánuðir

Það er kannski ofrausn að tala um sólríka skammdegismánuði. Sól mælist þó meiri í sumum þeirra en öðrum. Hér verður fjallað um þá mánuði sem státa af mestu sólskini. Eins og nefnt var í síðasta sólskinspistli tel ég skammdegið ríkja frá því snemma í  nóvember og út janúar. Er þá miðað miðað við það að sól sé minna en einn þriðja hluta sólarhringsins á lofti. Af þessum mánuðum er sólskin að jafnaði mest í nóvember en síðan í janúar en vitaskuld minnst í desember.

Meðaltal sólskinsstunda í Reykjavík í desember 1961-1990 er 12,1 stund  en 0,1 á Akureyri þar sem oftast mælist aldrei nein sól. 

Flestar sólskinsstundir í Reykjavík í desember mældust 31,8 árið 2010. Þetta var að ýmsu öðru leyti merkilegur mánuður. Aldrei hefur til dæmis meiri mánaðarloftþrýstingur mælst í Reykjavík, 1017,0 hPa. Árið 1976 mældust 30 sólskinsstundir í borginni í desember. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð skein sólin þá í 44,6 stundir og er það mesta desembersólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Á Sámsstöðum er meðaltal sólskinsstunda í desember 1963-1990 17,9 stundir og er það mesta á þeim stöðvum þar sem sólskin hefur verið mælt. Tíðin var kyrrlát en köld og þurr og var mánuðurinn einn af fimm tíu þurrustu desembermánuðum á landinu eftir 1870. Úrkoman var vel innann við helming af meðallaginu 1931-2000 á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Á Akureyri voru flestar sólskinsstundir í desember mældar 3 klukkustundir árið 1934. Þann úrkomusama mánuð tel ég sjöunda hlýjasta desember á landinu og sums staðar á austurlandi var alautt allan mánuðinn.  

Næst flestar sólskinsstundir í desember mældust í Reykjavik árið  1981 en þá voru þær tuttugu. Kalt var  og umhleypingasamt en hiti komst þó þann annan í 16,6 stig á Dalatanga sem þá var jöfnun á Íslandsmeti í hita í desember en metið hefur síðan verið slegið. Sólin skein einni klukkustund skemur í höfuðborginni í desember árið 2000.  Mánuðurinn var með þeim þurrustu en nær samt ekki alveg inn á topp tíu þurrklistann en úrkoman var aðeins liðlega helmingur af meðaltali. Árið 1978 mældist sólarmesti desember á Hveravöllum meðan þar var mælt, 13,9 stundir og þetta er fjórði sólarmesti desember í Reykjavík með 24 sólskinsstundir. Mikið snjóaði á suðvesturandi í lok mánaðarins og að morgni gamlársdags mældist met snjódýpt í Reykjavík í desember, 31 cm, en það met var slegið árið 2011 þegar snjódýptin varð 33 cm. Í desember 1968 voru sólarstundirnar í Reykjavík 23 og er hann þar með sá fimmti sólarmesti.

Desember 1985 var kaldur og  inni á topp tíu listanum yfir þurrustu desembermánuði á landinu og afar snjóléttur suðvestanlands og í Reykjavík er hann sjötti sólarmesti jólamánuðurinn með 22 sólskinsstundir. Tveir desembermánuðir í röð, 1958 og 1959,  eru hnífjafnir í sjöunda og áttunda sæti með 20,4 sólskinsstundir. Sá fyrri kom á eftir einum allra hlýjasta nóvember á landinu og var sjálfur fremur hlýr en hinn var lítið eitt kaldari en báðir voru þeir taldir hagstæðir. Í  desember 1959 mældust sólarstundirnar á Akureyri 0,7 og er hann í 7.-10, sæti yfir sólarmestu desembermánuði þar ásamt 1977, 2001 og 2011. Síðasttaldi mánuðurinn var óvenjulega snjóþungur á suðvesturlandi og í Reykjavík hefur hann hæstu snjólagstölu allra desembermánaða, 97%, og mestu snjódýpt, 33 cm.

Sá kaldi desember 1961, eins konar fyrirboði hafísáranna, er sá níundi sólarmesti í Reykjavík með 20,3 sólarstundir en hins vegar mældist aldrei meiri desembersól á Reykhólum  7,5 klukkustundir. Milli jóla og nýjárs kom eitt mesta kuldakast síðustu áratuga og þann 28. fór frostið í Reykjavík í -16,8 stig og hefur ekki mælst meira síðan í öðrum desember. Tíundi sólarmesti desember í höfuðborginni er loks 1947 þegar  sólin skein í 19,6 stundir. Björgunarafrekið mikla við Látrabjarg, þegar togarinn Doohn fórst, var unnið í þeim mánuði.

Fimmti hlýjasti desember á landinu var 1987 og þá mældist næst sólarmesti desember á Akureyri, 2,2, stundir. Sá þriðji var árið 2010 með 1,5 stundir og sá fjórði 1936 með1,4 stund en fimmti 1945 en þá skein sólin í nákvæmlega eina klukkustund og sjötti 1932 með 0,8 stundir.

Á Melrakkasléttu mældist mesta sól í desember árið 1995, 3,3 stundir en árið 1953 á Hallormsstað, 0,7 stundir og er það víst eini jólamánuðurinn sem þar hefur mælst nokkur sól! Á Hólum í Hornafirði hefur mælst mest desembersól árið 1970, 34,5 klukkustundir.  

Meðaltal sólarstunda í janúar í Reykjavík  1961-1990 eru 26,9 klukkustundir. Sólarmesti janúar í Reykjavík er 1971 en þá mældust sólskinsstundirnar 64,5. Á  Sámsstöðum voru sólarstundirnar 64,4 sem þar er vitaskuld janúarmet. Frá því um miðjan mánuð og til mánaðarloka mátti heita stanslaust bjartviðri á þessum stöðum. Kalt var í veðri og þ. 30. mældist mesta frost sem komið hefur í höfuðborginni síðan 1918, -19,7 stig en á Hólmi rétt ofan við borgina varð frostið -25,7 stig og er ekki ólíklegt að þar hafi verið meira en 30 stiga frost þegar kuldinn varð mestur 1918. Úrkoman var innan við helmingur af meðallaginu. Árið 1977 voru 60 sólskinsstundir í Reykjavík sem gerir hann næst sólríkasta janúar. Á Reykjum við Hveragerði, þar sem sólskin var mælt árin 1972-2000 skein sólin í 70,2 klukkustundir. Það er mesti fjöldi sólskinsstunda sem mælst hefur á íslenski sólskinsstöð í janúar. Óvenjulega snjólétt var á suðvesturlandi. Þessi mánuður var beint framhald af næst sólríkasta desember, 1976. Og sá desember á einnig sólskinsmetið fyrir Reyki og ekki nóg með það heldur mældist þar í febrúar 1977 meiri sól en í nokkrum öðrum febrúar. Á Reykjum var sem sagt sett sólskinsmet þrjá mánuði í röð. Veturinn 1976-1977 var annálaður fyrir hægviðri, þurrka og bjartviðri á suður og suðvesturlandi. Febrúar var einn sá þurrasti á landinu og veturinn í heild sá þurrasti í Reykjavík.    

Þriðji sólríkasti janúar í Reykjavík er 1959 með 58 sólskinsstundir. Þá var mjög kalt og tel ég þetta 11. kaldasta janúar. Á Hólum í Hornafirði er þetta einnig sólarmesti janúar, 54,4 stundir. Úrkoman var aðeins um helmingur af meðalúrkomu. Febrúar sem á eftir kom reyndist hins vegar einn sá allra úrkomusamasti á landinu. Annar enn þá kaldari  janúar, 1979, er sá fjórði sólarmesti í Reykjavík með með 45 stundir og er hann 8. kaldasta janúar á landinu og var mjög snjóþungur. Úrkoman var heldur meiri en 1959, liðlega helmingur af meðallaginu 1931-2000. Í Stykkishólmi er þetta fimmti þurrasti janúar (frá 1857). Frostið í Möðrudal fór niður í 30,7 stig þann 13. Næsti janúar, 1980, er sá fimmti sólarmesti  í höfuðborginni með 44,5 sólarstundir. Hann var rétt aðeins úrkomumeiri en 1979 en miklu mildari, hitinn rétt yfir meðallagi.         

Sólarmesti janúar á Akureyri, þar sem meðaltal sólskinsstunda í janúar árin 1961-1990 er 6,8 stundir, er það sögufræga ár 1939. Þá mældust sólskinsstundirnar 21. Úrkoman var afar lítil á landinu  og flýgur mánuðurinn inn á miðjan topp tíu listann fyrir þurrustu mánuði. Snjóþungt var fyrir norðan. Næst sólríkasti janúar í höfuðstað norðurlands er 1941 en þá skein sólin 20 klukkustundir og er þetta þriðji þurrasti janúar á Akureyri. Og þessi mánuður er jafnframt sá sjötti sólarmesti í Reykjavik með 43,5 stundir. Þetta var álíka þurr janúar og 1939. Hitinn var svo að segja nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990. Bjartviðrinu fylgdu miklar stillur. Þykkur reykjarmökkur grúfði yfir bænum  dagana 22. til  29. og ollu því að þrjú skip strönduðu. Á þessum árum voru hús í Reykjavík kynnt með kolum og mengun var iðulega mikil í hægviðri.     

Á hafísárunum var oft sólríkt í janúar á suðvesturlandi. Árin 1966, 1967 og 1969  skipa 7.-9 sæti í Reykjavík fyrir sólarmestu janúar. Fyrst talda árið voru sólskinsstundirnar 42,7  Þrjá síðustu dagana gerð eitthvert mesta norðaustanveður sem um getur. Árið eftir skein sólin 42,2 stundir en 41,8 árið 1969. Kalt var þessa mánuði nema 1967 en þá var hlýtt. Þann mánuð fór hitinn á Hólum í Hornafirði í 15,0 stig þ. 9. sem er vægast sagt sjaldgæft á þeim stað í janúar. Úrkoman var í minna lagi alla mánuðina. Árið 1988 situr svo í 10. sæti yfir sólarmestu janúarmánuði i Reykjavik með 41 sólskinsstund. Hann var mjög kaldur og fremur úrkomusamur en tíðin þótti þó sæmileg.

Janúar 1996 var mjög hlýr á landinu og töluðu sumir um einmunatíð og ég tel þetta 13. hlýjasta janúar. Þá skein sólin í 16 klukkustundir á Akureyri sem gerir hann að þriðja sólarmesta janúar í höfuðstað norðurlands. Fjórði sólríkasti janúar á Akureyri var 2009 en þá voru sólarstundirnar 14,5. Tíð var góð og snjólétt. Óvenjulega snjólétt var einnig í janúar 1985 sem er fimmti i sólarmesti janúar á Akureyri með 14 stundir. Þennan mánuð mældist sólríkasti janúar á Reykhólum, 32,6 klukkustundir.

Árið 1973 var sunnanátt ríkjandi í janúar og þá mældust sólskinsstundir á Akureyri þá 12,7 sem gerir hann þar að sjötta sólarmesta janúar. Á Melrakkasléttu er  þetta hins vegar allra sólríkasti janúar með 20,3 stundir. Þá er þetta þriðji hlýjasti janúar á landinu. Flestum er þessi mánuður minnstæðastur fyrir það að þ. 23. hófst eldgosið á Heimaey.

Janúar 1963 var merkilegur mánuður. Þá var hæsti mánaðarþrýstingur í nokkrum janúar. Hann var hæstur á veðurstöð 1028,2 hPa á Grímsstöðum, lægstur á Hornbjargsvita 1024,2 hPa, en í Reykjavík var hann 1026,9 hPa. Þar mældist hæsta loftþrýstingsmæling í mánuðinum, 1049,3 hPa  þ. 30. Á Brú á Jökuldal mældist úrkoman aðeins 0,2 mm og hefur ekki mælst minni janúarúrkoma á veðurstöð. Aðeins einu sinni hefur mælst minni úrkoma á Akureyri og þar er þetta áttundi sólríkasti janúar með 12,6 stundir af sól. Þetta er með þurrari janúarmánuðum. Það er einnig sérkennilegt með þennan mánuð að fyrri hlutinn var ískaldur en seinni hlutinn alveg einstaklega hlýr. Í Vestur -Evrópu var einhver mesta kuldatíð tuttugustu aldar.  

Einn af þurrviðrasömustu janúarmánuðum, 1945, mældist sá níundi sólarmesti á Akureyri með 12,2 sólskinsstundir. Á Teigarhorni hefur aldrei mælst minni úrkoma í janúar, 3,8 mm. Áttundi sólarmesti janúar í höfuðstað norðurlands er 2010 með 12,5 stundir. Úrkoman á landinu var kringum meðallagið 1931-2000 en að mínu tali er þetta tíundi hlýjasti janúar. Einstaklega þurrt var fyrir norðan og er þetta þurrasti janúar á Akureyri þar sem úrkoman mældist aðeins 0,6 mm. Ýmsar aðrar veðurstöðvar sem lengi hafa athugað kræktu í þurrkamet fyrir janúar.

Tíundi sólarmesti janúar á Akureyri er 1970 með 12 stundir. Á Hallormsstað mældust sólskinsstundirnar 3,1 og hafa aldrei mælst þar meiri í janúar. Sól er sjaldséð á Hallormsstað í janúar. Af 35 mánuðum sem þar var mælt sólskin mældist engin sól í 23 þeirra. 

Varla getur að hitafari ólíkari nóvembermánuði en þá tvo sólríkustu í Reykjavík. Á gæðaárinu 1960 mældust sólarstundirnar 78 þar í nóvember. Meðaltalið 1961-1990 er 38,5 stundir. Mánuðurinn er jafnframt á landinu sá tíundi hlýjasti að mínu tali. Meiru réði um það hvað góður hiti var jafndreifður um landið fremur en að methitar væru á einstökum veðurstöðvum. Úrkoman var fremur lítil, einkanlega vestanlands og norðan þar sem sums staðar varð vatnsskortur. Úrkomudagar voru 8 í Reykjavík og hafa aldrei verið jafn fáir þar í nóvember. Þetta er næst snjóléttasti nóvember á landinu frá 1924 og var snjólag aðeins 8%. Haustið 1960 (okt-nóv) er einnig  það sólríkasta sem mælst hefur í Reykjavík, 200 klukkustundir, en nóvember er næst sólríkasti nóvember. Hann var sá sólríkasti þegar hann kom en var sleginn út árið 1996 með 79 klukkustunda sólskini. Sá mánuður var mjög kaldur, sá sjötti kaldasti á landinu frá 1866, fimm og hálfu stigi kaldari en nóvember 1960. Á Akureyri var þetta tíundi sólarmesti nóvember með 22,6 sólskinsstundir. Úrkoman á landinu var aðeins um helmingur af meðaltalinu 1931-2000. Næstur að sól í Reykjavík kemur nóvember árið 2000 með 75 klukkustundir. Þetta var mildur mánuður og þurr. Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma í Reykjavík í nóvember, aðeins 10,1 mm.  Mánuðurinn er nærri miðju á topp tíu listanum yfir þurra nóvembermánuði á landinu. Í  fjórða sæti fyrir mikla sól i Reykjavik er nóvember 1950 með 68 stundir en var kringum meðallag að hita en fremur  var þurrt.

Tveir nóvembermánuðir frá sjöunda áratugnum krækja í fimmta og sjötta sætið. Nóvember 1965 var með 64,3 stundir en nóvember 1963 með 63,7 stundir. Sá fyrrnefndi var aðeins með um helming meðalúrkomu en hinn var í tæpu meðallagi að því leyti. Og nóvember 1963 var reyndar sá sólarminnsti  sem mælst hefur á Akureyri en þar skein sólin í 3 stundir eins og greint var frá í fyrri pistli um skammdegissól. Báðir voru þessir mánuðir frekar kaldir, einkum 1963. Hann er sá nóvember í Reykjavík sem flesta hefur frostdaga eða 25 talsins.  

Nóvember 1994 er sá 7. sólarmesti  með 61,4 sólskinsstundir. Hann var mjög hlýr og úrkomusamur. Árið 1977 sá 8. með 61 sólarstund, kaldur mánuður og úrkoman ekki nema rétt rúmlega helmingur af meðallaginu. 

Níundi og tíundi sólarmestu nóvembermánuðir í Reykjavík eru svo árið 1980 með 60 stundir, mildur mánuður og úrkomusamur, og 2003 með 58 klukkustundir af sól en þá var mjög  hlýtt en úrkomusamt. Nóvembermánuðirnir 1994 og 2003 mjög áþekkir að hita og úrkomu, kringum hálft annað stig yfir meðallagi hitans og um 20% yfir úrkomumeðaltalinu.

Þriðji og fjórði áratugurinn á Akureyri eru áberandi með sólarmikla nóvembermánuði. Árið 1937 er sá sem mest  sólskin hefur mælt, 31 klukkustund en meðaltalið 1961-1990 er 6,8 stundir. Hlýtt var á landinu, hátt upp i þrjú stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem í þessum sólarpistlum er alltaf miðað við með hita og fremur lítil var úrkoman, kringum þrír fjórðu af meðaltalinu 1931-2000 sem alltaf er hér miðað við um úrkomuna.

Næstur er nóvember 1933, með 28 stundir. Hann tel ég vera þann níunda hlýjasta á landinu og á eftir honum fór reyndar allra hlýjasti desember. Í þessum nóvember var mesta frost sem mældist á landinu aðeins -9,9, stig (á Grímsstöðum) og hefur mesti lágmarkshiti á landinu í nóvember aldrei verið jafn hár. Meðaltal landslágmarksins í nóvember síðustu áratugi er um -19 stig. Hitinn komst í 17,8 í Fagradal í Vopnafirði þ. 17, og var það þá mesti nóvemberhiti sem mælst hafði á landinu. Það met hefur síðan verið slegið átta sinnum. Í Reykjavík var einhver úrkoma alla daga mánaðarins.   

Nóvember 1927 er sá þriðji sólarmesti á Akureyri með 28 stundir en nóvember 1929 sá sjöundi með 24 sólskinsstundir. Mjög úrkomusamt var á suðurlandi 1927. Úrkoman í Stykkishólmi mældist  161,5 mm og var þá úrkomusamasti nóvember sem þar hafði mælst (frá 1856) og er enn sá fjórði í röðinni. Þetta er fimmti úrkomumesti nóvember í Reykjavík, 173,8 mm.

Nýlegur nóvember, árið 2010, er sá fjórði sólarmesti á Akureyri með 27,0 stundir en sá fimmti er 1985 með 26,6 stundir og sjötti er 1990 en þá skein sólin í 25 stundir. Veður voru kyrrlát í þeim síðastnefnda og snjólétt og hitinn hálft annað stig yfir meðallaginu, en 1985 var í kaldara lagi en  úrkoman var svipuð í þeim báðum, um þrír fjórðu af meðallaginu. Árið 2010 var hitinn í minna lagi og einnig úrkoman. Á hafísárunum var nóvember 1967 með 22,8 sólskinsstundir á Akureyri og er sá 8. sólarmesti þar. Þetta var kaldur mánuður og stormasamur mjög og fremur snjóþungur. Níundi er nóvember 2004 með 22,6 stundir, mjög úrkomusamur en í hlýrra lagi.    

Tíundi sólríkasti nóvember á Akureyri er svo 1996 eins og getið var um hér að framan.      

Vona svo bara að ég hafi hvergi farið mánaðarvillt í þessari yfirferð um svo marga mánuði!     


Hlýr janúar enn sem komið er

Þegar einn þriðji er eftir af janúar er meðalhitinn í Reykjavík 3,1 stig eða 3,7 stig yfir meðallagi. Það er með því hlýrra en ekki er þó lengra síðan 2002 að meðalhiti fyrstu 20 dagana var 4,1 stig en sá mánuður kólnaði strax eftir þ. 20 og endaði í 1,3 stigum. Árið 1996 var meðalhitinn 3,3 stig en lokatalan var 2,2 stig. Árin 1972 og 1973 voru tölurnar 4,6 og 4,2 eftir fyrstu 20 dagana en lokatölur beggja mánaðanna 3,0 stig. Hlýjasti janúar sem mælst hefur í Reykjavík 1847 sem varð á endanum 3,9 stig hefur líklega verið svipaður eftir fyrstu 20 dagana og þessir tveir síðast töldu mánuðir. Janúar 1964 sem næstur er honum í hlýindum, stóð í 4,5 stigum eftir 20 daga en endaði svo í 3,5 stigum. Janúar 1947, sem mældist allur 3,2 stig, náði ekki þremur stigum eftir fyrstu 20 dagana en svo hlýnaði enn á lokasprettinum. Svipaða sögu er að segja um janúar 1987 með sína lokatölu upp á 3,1 stig. Árið 1946 virðist hafa verið ívið hlýrra en nú fyrstu 20 dagana en svo kólnaði en talsvert hlýrra var í janúar 1929 en þá kólnaði undir lokin og meðalhiti mánaðarins varð 2,4 stig. Þar á undan, alveg til að minnstakosti 1880, er nokkuð víst að enginn janúar nálgast okkar mánuð fyrstu 20 dagana. 

Ef mánuðurinn endað i 3,1 stigi yrði hann í fjórða sæti yfir hlýjustu janúarmánuði í Reykjavík. Það er ekki líklegt að hann haldi sinni tölu.  

Meðalhitinn á Akureyri er nú 1,5 stig eða 3,7 yfir meðallagi. Þar er enn alhvítt eins og verið hefur allan mánuðinn og alveg síðan síðasta daginn í október.Úrkoman er þegar komin vel yfir meðallag alls mánaðarins á suðurlandi, farinn að nálgast það á vesturlandi en er fremur lítil annars staðar og mjög lítil enn sem komið er við Ísafjarðardjúp og í Vopnafirði.

Nóvember var í kringum meðallag að hita á landinu en desember aðeins í mildara lagi. Það er ekki fyrr en núna í janúar sem hafa verið einhver hlýindi að marki og þá mest sunnanlands, Og þar hefur verið snjólétt hingað til en fyrir norðan hlýtur það sem af er að teljast hafa verið hinn mesti snjóavetur þó mjög haf gengið á snjóinn upp á síðkastið og sé orðið snjólítið vestan til á norðurlandi og jafnvel snjólaust við sjóinn á norðausturlandi.

Ekki er hægt að segja að þetta hafi hingað til verið neinn sjaldgæfur öndvegisvetur miðað við ýmsa aðra þó um það heyrist furðu margar raddir í netheimum.  Hann hefur samt verið góður sunnanlands og eftir áramótin um allt land.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband