17.11.2016 | 12:33
Síðkomnasta haustfrost mælinga í Reykjavík
Að morgni 16. nóvember sýndi kvikasilfurslágmarksmælir í Reykjavík -0,3 stig. Það er fyrsta frostið á þessu hausti. Og það sem meira er: Aldrei hefur fyrsta frost að hausti komið jafn seint. Gamla metið var 11. nóvember á því gósenári 1939. Það ár skartar þó enn flestum frostlausum dögum frá vori til hausts eða 202 dögum. En næst að því leyti er einmitt okkar ár með 200 daga. Meðaltal fyrsta frosts á þessari öld er 9. október en næstu 60 árin þar á undan 5.-6. október. Lengd frostlausa timabilsins frá vori til hausts á okkar öld til 2015 er 149 dagar en frá 1920 til 2015 144 dagar.
Í gær og í morgun var talin flekkótt jörð af snjó í Reykjavík en þar hefur enn ekki orðið allhvít jörð. Búast má við alhvítri jörð að meðaltali fyrstu vikuna í nóvember en eins og með frostið er talsverður breytileiki milli ára.
Með færsluni fylgir fylgiskjal þar sem eru dagsetningar á síðata frosti að vori og fyrsta frosti að hausti frá stofnun Veðurstofunnar árið 1920. En auk þess tölur frá fyrri tímabilum þegar mælt var en taka ber þeim mælingum með nokkru meiri varúð. Í skjalinu eru líka dagsetningar á alhvítri jörð síðast á vorin og fyrst á haustin frá 1920. Á blaði 2 á fylgiskjalinu er fjöldi frostdaga í hverjum mánuði í Reykjavík en tölurnar fyrir árin 1907-1919 eru lágmarkstölur því þá voru ekki neinar lágmsrksmælingar en lesið á mæla á föstum athugnartímum.
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.9.2016 | 17:13
Tuttugu stiga hiti mældur á Íslandi 1920-1948
Í Fylgiskjalinu við þessa bloggfærslu má sjá allar tuttugu stiga hitamælingar á veðurstöðvum á Íslandi frá stofnun Veðurstofunnar 1920 til 1948.
Þess ber að geta að hámarksmælingar voru ekki á öllum stöðvum. Stundum mældu stöðvar án þeirra 20 stiga hita eða meira á föstum athugunartímum, nánast alltaf klukkan 14 að íslenskum miðtíma. Þær mælingar eru hér skáletraðar. Nokkrar skeytastöðvar án hámarksmælis mældu á enn öðrum tímum og eru hér líka skáletraðar en tekið fram klukkan hvað mælingin var gerð. Þetta ætti allt að vera auðskilið.
Við hvern dag, i dálkum til hægri, kemur fram hve margar stöðvar voru með hámarksmælingar og reiknað hve hátt hlutfall þeirra mældu 20 stiga hita eða meira.Stöðvar sem ekki voru með hámarksmæla eru ekki í þeim útreikningum, jafnvel þó slíkur hiti hafi verið lesin á athugunartímum og einhvern dag jafnvel eingöngu á slíkri stöð. (Á þessu er ein undantekning, júlí 1944, sem gerð er grein fyrir á viðkomandi stað í dagalistanum) Af þessum ástæðum getur það komið fyrir að einhvern daginn sé ekki neitt hitahlutfall reiknað þó einhver eða einhverjar stöðvar sem ekki höfðu hámarksmæla hafi mælt 20 stig á athugunartímum en engar stöðvar með hámarksmæla. Listunm er þannig raðað að byrjað er á suðausturlandi en síðan farið réttsælis um landið og endað á Berufirði.
Það verður að segjast að ýmsar hámarksksmælingar þessara ára eru ekki sérlega trúverðugar, sérataklega fyrir 1930 en um það leyti skánar og æ meira er á líður. Þær mælingar sem ég tel mjög ótrúverðugar eru þó teknar með en með smærra letri en þær stöðvar sem í hlut eiga eru EKKI reiknaðar með tuttugu stiga hlutfallinu. Einstaka sinnum fyrstu árin eru mælingar í stöku mánuðum á einhverri stöð augljóslega algjörlega út í hött og þeim er því alveg sleppt. Er þessa getið í athugasemdunum til hægri þeegar það kemur fyrir. Þær stöðvar sem liggja til grundvallar í hlutafallsreikninunum eru þær stöðvar með hámarksmæla sem koma fram í viðkomandi mánuði í Veðráttunni, mánaðarriti Veðurstofunar, stöku sinnum reyndar ekki fyrr en í næsta mánuði eða jafnvel enn seinna. Stundum tek ég þó með stöðvar sem fá ekki rúm i Veðráttunni af einhverjum ástæðum, aðallega Grímsey og Eyrarvakka. Stöðin á Lambavatni, sem árum saman var eitthvað biluð, er aldrei með í hlutfallsreikningunum þóí mælingar þaðan séu birtar eins og aðrar en þá með smærra letri og til hægri er gefin upp mmesti hiti á stöðinni sem lesin var á mæli á föstum athugunartímum. Sést þá reyndar vel hve hámarksmælingarnar þar eru ótrúverðugar. Sami háttur er hafður á með aðrar stöðvar sem eru með sérlega ótrúverðugar hámarksmælingar að mínu mati. Og eins og aður segir eru þessar stððvar ekki hafðar með í hlutfallsreikningunum. Það breytti reyndar litlu þó þær væru með en mér finnst réttara að sleppa þeim bara í þeim útreikningum þó hitatölurnar sjáfar frá þeim fylgi hér með með. Ekki er þar með sagt að 20 stiga hiti eða meira hafi ekki komið einhvern tíma á þessum stöðvum í raun og veru þó mælingarnar i heild séu ótrúverðugar. Allt er þetta nokkuð matsatriði.
Reyndar eru ýmsar aðrar stöðvar stundum grunsamlegar hvað háamrkshitann snertir. Má þar nefna Hvanneyri, Hamraenda í Dölum, Eiðar, Hallormsstað, Hlíð í Hrunamannahreppi, og jafnvel Grímsstaði og Teigarhorn. Og fleiri. Allar mælingar á þessum árum, nema í Reykjavik frá 1947,voru gerðar í veggskýlum sem fest voru á húsveggi en ekki í frístandandi skýlum eins og síðar varð og eru veggskýlamælingar ekki alveg sambærilegar við seinni tíma mælingar. En samt!
Þrátt fyrir ýmis álitamál og vafaatriði má glögglega sjá á hitalistunum hvenær komu óvenjulega hlýir dagar, einn stakur eða þá fleiri í röð. Hér eru allir samfelldir hitadagar hafðir i samhangandi röð í listunum, líka yfir mánaðarmót, en þegar dagur stendur alveg stakur eða eitthvað líður á milli daga með 20 stiga hita er haft bil á milli þeirra. Þar sem margar stöðvar mæla 20 stig eða meira á einum degi eða röð daga er hæsti hitinn í syrpunni merktur með rauðu letri svo hann blasi fremur við lesenda. Ekki er haft fyrir þessu í stuttum runum þar sem hámarkshitinn er tiltölulega lágur. Hitabylgjuhlutfall sem nær 30% eða meira er svartletrað en rauðletrað ef það nær 40% eða meira. Auðvelt ætti því að vera að finna alvöru hitabylgjur. Þær eru sannarlega ekki árlegur viðburður.
Þetta er tekið upp úr veðurbókum sem einstaka eru komnar á tölvu en flestar eru bara handskrifaðar af veðurathugunarmönnum. Ekki er sem sagt búuð að tölvuskrá þessar bækur nema eina og eina.En frá 1949 hefur það verið gert.
Villur og hnökrar geta verið í fylgiskjalinu.
Jú, jú, þessi fortíðarþrá vekur auðvitað engan áhuga nema hjá mestu og allra einkennilegustu veðurnördunum. En til þess er líka leikurinn gerður!
Veðurfar | Breytt 1.10.2016 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.7.2016 | 19:31
Tveir hlýir dagar á suðurlandi
Í dag og í gær hefur hiti víða farið yfir 20 stig á svæðinu frá Öræfum vestur til Hvalfjarðar. Stöðvarnar má sjá hér fyrir neðan, fyrst stöðvar Veðurstofunar en svo stöðvar Vegagerðarinnar.Í Surtsey fór hitinn í dag í 17,5 stig sem er ekki alveg hversdagslegt.
26 | 22,9 | Skaftafell | 27 | 22,7 | Eyrarbakki | ||||||
26 | 20,9 | Hella | 27 | 22,7 | Hella | ||||||
26 | 20,5 | Þykkvibær | 27 | 22,6 | Þingvellir | ||||||
26 | 20,3 | Kirkjubæjarklaustur | 27 | 22,3 | Geldinganes | ||||||
26 | 20,1 | Kálfhóll | 27 | 22,0 | Hólmshheiði | ||||||
26 | 20,2 | Sámsstaðir | 27 | 22,0 | Korpa | ||||||
26 | 20,9 | Vatnsskarðshólar | kl. 20 | 27 | 21,2 | Reykjavík | |||||
26 | 20,2 | Önundarhorn | kl 21 | 27 | 20,5 | Reykjavík búveðurstöð | |||||
26 | 20,9 | Hvammur | 27 | 20,8 | Reykjavíkurflugvöllur | ||||||
26 | 20,9 | Markarfljót | 27 | 21,6 | Skrauthólar | ||||||
26 | 20,1 | Steinar | 27 | 21,5 | Kirkjubæjarklaustur | ||||||
26 | 20,8 | Selvogur | 27 | 21,6 | Skaftafell | ||||||
26 | 20,8 | Mýrdalssandur | 27 | 21,3 | Árnes | ||||||
26 | 20,5 | Eldhraun | 27 | 21,3 | Grindavík | ||||||
26 | 20,1 | Skálholt | 27 | 21,7 | Mörk á Landi | ||||||
27 | 20,6 | Sámsstaðir | |||||||||
27 | 21,6 | Þykkvibær | |||||||||
27 | 20,8 | Þyrill | |||||||||
27 | 20,5 | Hjarðarland | |||||||||
27 | 21,7 | Kálfhóll | |||||||||
27 | 21,2 | Bræðratunguvegur | |||||||||
27 | 20,1 | Festarfjall | |||||||||
27 | 20,3 | Grindavíkurvegur | |||||||||
27 | 21,1 | Ingólfsfjall | |||||||||
27 | 21,8 | Kjalarnes | |||||||||
27 | 22,0 | Skálholt | |||||||||
27 | 20,8 | Blikadalsá | |||||||||
27 | 20,4 | Gjábakki | |||||||||
27 | 21,0 | Sandskeið | |||||||||
27 | 20,6 | Selvogur | |||||||||
27 | 21,6 | Þjórsárbrú | |||||||||
27 | 20,3 | Eldhraun | |||||||||
27 | 20,0 | Lyngdalsheiði |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2016 | 21:22
Hitabylgjan æfintýralega í júli 1944
Sú hitabylgja sem náð hefur til hlutfallslega flestra veðurstöðva, a.m.k., fram á þessa öld, kom í júlí 1944. Þá mældust einhvers staðar á landinu tuttugu stiga hiti eða meira dagana 17.-23. Reyndar naut bylgjan sín best á suður og vesturlandi þó hún kæmi víða við.
Manudaginn 17. tók hlýtt loft úr suðri eða suðaustri að berast til landsins vegna áhrifa hæðarsvæðis austan við land og lægðar suðvestur af því og fór hitinn í 25 stig á Hallormsstað. Skýjað var í austanátt og um tíma rigndi norðaustast á landinu. Næsta dag mældu 13 veðurstöðvar inn til landsins, af alls 28 stöðvum með hámarksmæla, tuttugu stiga hita eða meira, mest 24,5 stig á Hallormsstað og meðalhitinn var þar 18.0 stig. Reyndar er til ótraust mæling á Egilsstöðum upp á 27 stig á hádegi.Hitabylgjuvísitalan, hlutfall veðurstöðva með hámarksmæla sem mældu 20 stiga hita, var komin í 46% sem þykir mikið. Meðaltal hámarkshita á landinu var 19,1°en lágmarkshita 11,0°og meðaltal þessa 15,0 stig. Loftþrýstingur fór nú hækkandi og alla dagana 18.-22. var hægviðri og breytileg átt og víða bjartviðri. Hlýtt loft var í háloftunum yfir landinu.Kortið sýnir ástandið við sjávarmál og í 500 hPa fletinum þegar hlýja loftið var að berast til landsins. Stækkar við smell.
Næsti dagur bætti um betur með hitann en þá var helmingur veðurstöðva með hámarksmæla með tuttugu stiga hita eða meira, víðast hvar um land nema á Vestfjörðum og mið norðurlandi. Hlýjast varð 26,4 stig á Kirkjubæjarklaustri og fór hiti ekki hærra þar þessa heitu daga en meðalhitinn á staðnum var 19,6 stig. Meðaltal hámarks-og lágmarkshita á landinu var hins vegar 19,9 og 9,3 stig með meðaltal upp á 14,6 stig. Alls staðar var bjartvirði nema hvað þokulofts gætti við Breiðafjörð.
Fimmtudagurinn 20. var hámark hitabylgjunnar hvað fjölda stöðva varðar sem mældu 20 stiga hita. Þær voru hvorki meira né minna en 22 af 28 stöðvum með hámarksmæla eða 79%. Það er einfaldlega í beinum tölum hæsta hlutfall með 20 stiga hita nokkurn dag síðan Veðurstofan var stofnuð, en ekki er kannski hægt að bera það hiklaust saman við hitabylgjuhlutfallið í hinum miklu hitabylgjum síðari ára. En ljóst er þessi hitabylgja er með þeim allra mestu fyrr og síðar. Sólin skein glatt næstum því alls staðar en hafgola fór að leita inn á land fyrir norðan er leið á daginn. Meðaltal lágmarks-og hámarkshita á landinu var 21,5 og 9,8 stig eða 15,7 stig að meðaltali. Hlýjast varð 26,4 stig á Þingvöllum (25,0 kl. 17). Á Hæli í Hreppum var hitinn 24,5 á hádegi en því miður féllu hámarksmælingar þar niður í þessum mánuði.Hitinn í Reykjavík fór í 20,3 stig en sólarhringsmeðaltalið reikna ég 16,3 stig.
Á föstudeginum 21. mældist mesti hitinn á veðurstöð í bylgjunni,26,7 stig,í Síðumúla í Hvítársíðu, sem er mesti hiti sem þar var mældur meðan stöðin var í gangi,en færri stöðvar en daginn áður mældu yfir 20 stig,eða 57%. Meðaltal lágmarks-og hámarkshita var 20,8° og 10,8° og meðaltal þess 15,8 stig. Landsmeðalhiti gerist ekki mikið hærri en líklega hefur landsmeðalhiti allra stöðva þó verið eilítið lægri en meðaltal lágmarks-hámarkshita stöðva með slíka mæla. Hitinn fór í 22,3 stig í Reykjavík. Meðalhiti sólarhringsins þar var 17,1 stig og bæði þessi dagur og dagurinn á undan, sem voru sólbjartir frá morgni til kvölds, eru metdagar að meðalhita að mínum skilningi fyrir viðkomandi daga í borginni og að mínu viti hafa aðeins tíu dagar (allt árið)verið hlýrri en seinni dagurinn frá stofnun Veðurstofunnar 1920. Á Hæli, þar sem ekki var hámarksmælir, var hitinn 24,6 stig kl. 17 og 24,0 á hádegi og hefur hámarkshitinn áreiðanlega farið ansi hátt. Á Þingvöllum fór hitinn í 26,5 stig. Um kvöldið á miðnætti var útreiknuð þykktin upp í 500 hPa flötin 5605 metrar yfir miðju landi eða nákvæmlega sú sama og þegar 30 stiginn mældust í Hallormsstað 17. júlí 1946 eins og sagt er frá í síðasta hitabylgjupistli. Meira skýjað var fyrir norðan og austan þennan dag en daginn áður og þokuloft leitaði inn á land á Vestfjörðum og við Breiðafjörð og sums staðar annars staðar við sjóinn. Bjart var á öllu suður og vesturlandi og síðdegis glaðnaði til fyrir norðan með ágætum hita inni í sveitunum. Sjá fylgiskajalið. Kortið til vinstri sýnir hitann í 850 hPa fletinum á miðnætti daginn sem hitinn fór hæst. Landið er umlukið mjög hlýju lofti.
Næsta dag voru norður og austurland alveg dottin út með hitann en heilmikill kraftur var enn í hitabylgjunni á suðurlandi og vesturlandi með mestan hita upp á 24,0 stig á Sámsstöðum i Fljótshlíð. Í Reykjavik fór hitinn í 20,2 stig og var það þá þriðji dagurinn í röð sem hitinn þar náði tuttugu stigum en metið er fjórir dagar í ágúst 2004. Hitabylgjuvísitalan þennan dag var 29%.Um morguninn mældist mest loftvægi í mánuðinum, 1028,6 hPa á Akureyri.
Alla dagana 18.-22, var mikið sólskin á Akureyri og þ. 23.var það einnig talsvert. Hitabylgjan náði sér þó á Akureyri ekki eins vel á strik og á suður og vesturlandi. Aðeins einn dag náði hitinn þar tuttugu stigum. 23,0 stig þann 20. Varla þarf að taka það fram að hlýtt var þessa daga líka á veðurstöðum þó þær hafi ekki mælt 20 stiga hita. Á Stórhöfða í Vestmannaeyju fór hitinn t.d. í 19,0 stig þ. 20. og 19,5 stig sama dag í Fagradal i Vopnfirði,en 16,8 stig mældust í Grímsey þ. 19. Eins og sjá má í fylgiskjalinu mældu 8 veðurstöðvar sem ekki voru með hámarksmæli 20 stiga hita á einhverjum athugunartímum (Hæll talinn hér með stövum með hámarksmæli þó hann hafi raunar ekki verið það). Veðurstöðvarnar sem mældu með fullri vissu 20 stiga hita eða meira voru sem sagt 36 af 49 veðurstöðvum sem voru í gangi þennan mánuð. (Vandræðastöðin Lambavatn ekki talin með). Ef við segjum að þær stöðvar sem eftir eru hafi ekki ná náð 20 stiga hita verður hlutfallið samt 73% af öllum 49 stöðvunum. Ýmsar stöðvar án hámarksmælis sem mældu háan hita á athugunartímum, en þó undir tuttugu stigum, hefðu vel getað mælt 20 stig ef þær hefðu verið búnar hámarksmælumm jafnvel flest allar. Þetta má sjá í viðauka fylgiskjalsins.
Sunnudaginn 23. var hitabylgjan að syngja sitt síðasta en þá mældust 20,7 stig á Hallormsstað. Hins vegar mældist þá mesti hiti alls mánaðarins á Suðureyri 17,5 stig og á Þórustöðum í Önundarfirði var hitinn 18,0 stig kl.14. Segja má þó að hitabylgjan hafi ekki snert Vestfirði norðan við Patreksfjörð. Þar var oft skýjað og þoka að flækjast þessa hlýju daga eins og var líka við sjóinn á norður og austurlandi. En alls staðar var úrkomulaust á landinu meðan mesta hitabaylgjan stóð yfir.
Í heild var þessi júlí vel hlýr, sérstaklega á suður og vesturlandi. Bæði á Hæli í Hreppum og Sámsstöðum í Fljótshlíð er hann talinn sá næst hlýjasti með meðalhita upp á 13,4 og 13,0 stig. Í Reykjavík var meðalhitinn 12,6 stig. En ekki var þó hlýtt alla daga. Aðfaranótt hins 27. var mjög köld og þá mældist mesta frost sem mælst hefur á veðurstöð á láglendi á landinu í júlí, -4,0 stig á Núpsdalstungu í Miðfirði og víða var frost inn til landsins á norður og austurlandi. Minna þessir "öfgar" á það hvað veðurlag getur verið breytilegt í einum og sama sumarmánuðinum á Íslandi, hvað þá í öðrum mánuðum.
Fylgiskjalið juli 1944 sýnir tuttugu stiga hita hvern dag sem mældist á veðurstöðvum með hámarksmæla og einnig skáletrað álestur á athugunartímum er náðu tuttugu stigum á veðurstöðvum sem ekki voru með hámarksmæla.
Fylgiskjal merkt 1944 sýnir veðurkort af Íslandi kl. 17 21.júlí 1944, daginn sem hitabylgjan var útbreiddust. Kortið er ansi magnað og stækkar mjög ef smellt er á það.
Veðurfar | Breytt 23.7.2016 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2016 | 19:54
Hitabylgjan í júní 1939
Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi svo trúverðugur þyki er 30,5 stig á Teigarhorni við Berufjörð, rétt norðan við Djúpavog þann 22. júní 1939. Sama dag mældust 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri. Þetta eru einu dæmin um það að yfir 30 stiga hiti mælist á fleiri en einni veðurstöð á landinu sama daginn. Gerðist þetta í mikilli hitabylgju sem stóð í fáeina daga.
Laugardaginn 18. júní var norðaustan og austan átt á landinu og nokkur rigning á norðausturlandi. Engin hitabylgjublær var í lofti en mesti hiti varð 17,6 og var það í Reykjavík. Þar var rúmlega hálfskýjað síðdegis og loftþrýstingur 1007,8 hPa síðla dags. Lægð var suðaustur af landinu en langt suður í hafi sá til mikillar hæðar yfir Azoreyjum. Daginn eftir var vaxandi hæðin og hlýindi hennar farin að teygja sig vel í norður suðvestur af landinu. Loftvægi á landinu sjálfu var mjög hækkandi og var orðið 1023,2 hPa síðdegis í höfuðstaðnum. Á einni veðurstöð náði hitinn yfir tuttugu stig, 22,5 stig á Hallormsstað. Í Reykjavík voru 16,5 stig og sólin skein þar í sjö klukkustundir.
Þann 20. teygði hryggur úr hæðinni, sem færðist norðar, yfir landið og allt til norðaustur Grænlands en grunn lægð var vestur undan. Klukkan 8 að morgni (kl. 9 eftir núverandi klukkustillingu) var hlýjast 16 stig á Blönduósi og Kirkjubæjarklaustri en sex veðurstöðvar mældu síðar um daginn 20 stiga hita eða meira, mest 24,5 á Hallormsstað en hinar stöðvarnar voru m.a. Akureyri, Reykjahlíð við Mývatn og Kirkjubæjarklaustur. Hitinn fór þennan dag hærra í Reykjavík (ásamt þeim 24.) en nokkurn annan dag í þessari hitasyrpu, 18,7 stig, þó sólar gætti ekki að ráði, og einnig kom mesti hitinn þessa daga á Kjörvogi við Reykjarfjörð á Ströndum, 18,9 stig. Hægviðri var um allt land. Á þessum tíma voru veðurstöðvar sem mældu hámarkshita 31 að tölu og nokkrar stöðvar til viðbótar mældu hita á föstum athugunartímum þó þær væru ekki búnar hámarksmælum. Í þessari talningu sem hér fer á eftir er stöðin á Lambavatni á Rauðasandi ekki talin með en hámarksmælingar þar á þessum árum voru mjög ótrúverðugar en Grímsey er höfð með þó tímaritið Veðráttan hafi eitthvað hikað við það. Ekki mældu allar stöðvar heldur á sama tíma, allar þó kl 8 að morgni en skeytastöðvar einnig klukkan 12 og 17 en veðurfarsstöðvar kl. 14 og 21 (22 eftir núverandi klukkustillingu).
Þann 21. júní, hafði hæðin náð sér vel á strik með miðju rétt fyrir sunnan landið og raunveruleg hitabylgja var á landinu. Hæð 500 hPa flatarins yfir landinu var yfir 5900 metrar sem er einsdæmi. Skýjað var vestanlands og á Vestfjörðum en léttskýjað annars staðar. Meðalhiti allra stöðva klukkan 8 um morguninn var 15,3 stig og hitinn var þá þegar orðinn 24 stig á Akureyri, 21 á Kirkjubæjarklaustri og og Fagurhólsmýri og 20 á Grímsstöðum á Fjöllum og Hólum í Hornafirði. Kaldast var 9 stig á Dalatanga. Seinna um daginn fór hitinn á Akureyri í 28,6 stig sem varð mesti hiti á landinu þennan dag og methiti í júní á Akureyri til 1974. Sólarhringsmeðalhitinn var þar 20,9 stig. Á Kirkjubæjarklaustri fór hitinn í 28 stig, var það kl. 17, og þar var meðalhitinn 21,8 stig. Á Hallormsstað fór hitinn í 26 stig og 25 á Mælifelli í Skagafirði, Hlíð í Hrunamannahreppi og Vík í Mýrdal. Hitinn í Vík er mesti hiti sem þar hefur mælst í júní enn þann dag í dag. Í Miðfirði mældist einnig mesti hiti sem þar um slóðir hefur mælst í júní, 24,0 stig í Núpsdalstungu inni í dalnum. Þetta var besti dagurinn við Húnaflóa og kl. 14 var 20 stiga hiti á Blönduósi en þar var ekki hámarksmælir. Í Skagafirði var hitinn jafn mesta hita sem þar hefur mælst i júní. Hlýtt var einnig á suðurlandsundirlendi. Á Sámsstöðum fór hitinn í 22,6 stig sem þar er júnímet á mönnuðu stöðinni sem mjög lengi var starfrækt en var lögð niður fyrir nokkrum árum. Á Þingvöllum voru 21,0 stig (sama næsta dag) og Eyrarbakka, 21,9 stig og fór hitinn þarna hærra en aðra daga í syrpunni. Í Hornafirði var þetta líka hlýjasti dagurinn ,23,1 stig, svo og í Bakkafirði, 23,4 og í Fagradal í Vopnafirði,23,5 stig. Á Suðureyri við Súgandafjörð fór hitinn hæst í þessari syrpu, 17,5 stig (aftur þ. 23.). Á Flateyri voru 18,8 stig lesinn á mæli kl. 14 en þar var ekki hámarkshiti en ekki er útilokað að hiti hafi þar farið í raun í 20 stig. Þar var þó skýjað og jafnvel súldarvottur. En hvergi mældist meiri hiti en þetta á Vestfjörðum í þessari hitabylgju. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist líka mesti hitinn í bylgjunni, 18,0 stig, sem verður að teljast lítið á þeim stað. En hitabylgjan náði sér aldrei á strik á vesturlandi.
Á myndinni, sem stækkar við smell,sést loftvægi við sjávarmál og hæð 500 hPa flatarins kl. 24 þann 21. Loftþrýstingur var afar mikil. Í Stykkishólmi var mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í júní, 1040,4 hPa þ. 21. Geysimikil hæðarmiðja sunnan við land teygði sig yfir landið og norður fyrir Grænland og Svalbarða og austur til Skandinavíu. Hitinn var 10 stig í 850 hPa fletinum yfir öllu sunnanverðu landinu. Olli hitinn miklum vaxtavöxtum í ám fyrir norðan. Við Grjótá á Öxnadalsheiði tepptist vegurinn vegna vatnavaxta og snéru áætlunarbílar við. Mikill vatnagangur var á þessum slóðum næstu daga. Meðaltal lágmarkshita á landinu var 11,0 en hámarkshita 21,7 og meðaltal þessa 16,3 stig. Ekki mun það fara langt frá sólarhringsmeðalhitanum, en líklega þó dálitlu hærra en hann. Af 31 veðurstöð með hámarksmæla mældu 22 stöðvar tuttugu stig eða meira eða 71 af hundraði stöðva. Þar fyrir utan var 20 stiga hiti eða meira lesin af mælum á athugunartímum á þremur stöðvum á sem ekki voru búnar hámarksmælum. Sjá fylgiskjal. Af bæjarlífinu í Reykjavik var það helst að frétta að kappleikur fór fram milli breska knattspyrnuliðsins Islington Corinthians ,sem lék hér nokkra leiki, og úrvalsliðs Reykjavíkur. Bretarnir unnu 1:0. Þeir hafa löngum verið seigir og vitað hvað þeir vilja!
Miðvikudaginn 22. náði hitabylgjan hámarki enda mjög hlýtt loft yfir öllu landinu, 10-12 stig i 850 hPa fletinum sem var í um 1600 metra hæð. Ameríska endurgreiningin reiknar þykktina 5670 metra yfir miðju landi sem er meira en reiknað hefur verið fyrir nokkurn annan dag. Hæðin ríkti yfir öllu þó grunn lægð við norðaustur Grænland væri á hreyfingu suðaustur eftir. Klukkan 8 að morgni var hitinn 16,3 stig að meðaltali á landinu, víða bjart en vart við þoku við Faxaflóa og áfram var skýjað á vesturlandi og á Vestfjörðum og meira skýjað en daginn áður í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Vindur var áfram vestlægur þó víða væri hægviðri. Hlýjast var um morguninn 23 stig á Kirkjubæjarklaustri, Hæli í Hreppum og Sandi í Aðaldal en kaldast 11 stig í Papey. Seinna um daginn fór hitinn á Teigarhorni í 30,5 stig en 30,2 á Kirkjubæjarklaustri en 28,5 á Fagurhólsmýri. Aldrei hefur mælst jafn mikill hiti á þessum stöðum í nokkrum mánuði. Sólarhringsmeðaltalið á Klaustri var hvorki meira né minna en 23,6 stig og mun vera eitt af því allra hæsta fyrir nokkurn dag á nokkurri veðurstöð. Á Akureyri var meðalhitinn 21,6 stig sem er ekki aðeins met fyrir júní heldur nokkurn dag ársins en samanburðurinn nær til ársins 1936. Á Teigarhorni var meðalhitinn um 17 stig en hinn mikli hámarkshiti stóð þar stutt við. Á Grímsstöðum á Fjöllum og á Sandi í Aðaldal komu júnímet í hámarkshita sem enn standa, 25,2 og 26,5 stig. Á Akureyri fór hitinn í 26,5 stig og 26,0 á Hallormsstað þar sem sólarhringsmeðaltlaið var 19,0 stig. Á suðurlandsundurlendi var hitinn 21-24 stig, 24 í Skagafirði og 21 stig í Miðfirði. Hitinn náði einnig út til stranda norðaustanlands og austan eins og daginn áður. Um miðjan dag voru 23, 5 stig lesinn á mæli á Seyðisfirði og 22,0 á Raufarhöfn en hámarksmælingar voru ekki á þessum stöðum.
Eins og daginn áður fór hitinn í tuttugu stig inn til landsins alls staðar á veðurstöðvum nema í Borgarfirði. Meðaltal lágmarkshita á landinu var 10,6 stig en hámarkshita 21,7 en meðaltal þessa 16,3 stig. Klukkan 17 var V eða NV átt, allhvasst á annesjum norðan lands en hægviðri austan lands og sunnan Hiti var þá 13-15 vestanlands en víðast um eða yfir 20 í öðrum landshlutum, mest 27 á Fagurhólsmýri. Tuttugu stiga hita eða meira mældu 23 veðurstöðvar eða 74 af hundarði. Þetta er eitthvert allra hæsta hitabylgjuhlutfall sem þekkt er. Auk þess mældu á athugunartímum fjórar stöðvar slíkan hita sem ekki voru með hámarksmæla. Meðaltal hámarkshita þessa tvo daga, 21. og 22. er í beinum tölum hærra en nokkra aðra daga síðan Veðurstofan var stofnuð árið 1920. Þann 11. ágúst 2004 var meðaltalið 21,55 stig og 20,8 stig þann 30. júlí 2008. En þess bera að gæta að gæta við samanburðinn að mæliaðstæður voru aðrar og einnig fjöldi og dreifing veðurstöðva. Þess skal svo getið að meðaltal hámarkshita á landinu í hitabylgjunni 20. og 21. júli 1944 var 21,5 og 20,8 stig. Ljóst er að þessir dagar 1939 eru í flokki allra hlýjustu daga sem mælst hafa hvað hámarkshita snertir. Ýmislegt var á seyði í bænum. Gamla bíó var að sýna myndina María Walewska með stórstjörnunum Grétu Garbo og Charles Boyer. Á Hótel Islandi söng Kristján Kristjánsson í fyrsta skipti nýtt lag eftir Sigfús Halldórsson. Dægurlög voru leikin í útvarpinu síðast um kvöldið. Ball var i Alþýðuhúsinu þar sem hljómsveit Bjarna Böðvarssonar lék fyrir dansi. Ekki fer miklum sögum af því hvað var að gerast í þeim landshlutum þar sem hitinn varð mestur. En í heimsmálunum vofði önnur heimstyrjöldin yfir.
Næst dag (23.) var enn hlýtt á suður og suðausturlandi og í Dölunum en farið að kólna norðanlands og austan,einkum með kvöldinu. En þessi dagur var eina bestur á Snæfellsnesi af öllum dögunum þar, með sólskini og 16 stiga hita i Stykkishólmi. Ef Stykkishólmur hefði verið eina veðurstöð landsins eins og hann var lengi hefði ekki mátt sjá af hitafarinu þar einu saman að óvenjuleg hitabylgja væri á landinu. Hlýja hæðin var nú komin vestur fyrir þó hlýinda hennar gætti enn á landinu og áfram var mjög víða bjartviðri. Reyndar var fágætlega hlýr blettur rétt fyrir sunnan land með 15 stiga hita í 850 hPa fletinum en tíu stiga línan ná þvert yfir land frá Snæfellsnesi og til sunnanverðra austfjarða. Vindurinn var að verða norðan og norðaustanstæður. Hitinn fór nú mest í 26,6 á Kirkjubæjarklaustri en 20-22 á suðurlandsundirlendi og 21 stig í Dölunum. Mesti hiti í Reykjavík þessa daga mældist þennan dag, 18,7 stig, en á rafstöðinni við Elliðaár fór hitinn í slétt tuttugu stig. Sólin skein í 16,3 klukkustundir í borginni og var þetta þar einna besti dagurinn þessa hlýju daga. Þetta var einnig hlýjasti dagurinn í Vestmanneyjum, 17,3 stig.Um kvöldið gerði Valur jafntefli 2:2 við breska liðið í hörðum leik. Á myndinni sést hlýi bletturinn í 850 hPa fletinum og fleira aðfararnótt 23. júni eftir hinn sjaldgæflega hlýja dag.
Þann 24. voru enn hitar hér og hvar þó mestu hlýindin væru komin vestur fyrir land og hæðin farin að veikjast. Í Reykjahlíð við Mývatn fór hitinn þá hæst í þessari hitabylgju, 25,4 stig, og einnig hæst á Hamraendum i Miðdölum,23,6 stig. Á suðurlandsundirlendi fór hitinn sums staðar í 20-22 stig. Hátíðahöld hófust þennan dag á Hvanneyri í tilefni af 50 ára afmæli skólans. Þar varð þó ekki meiri hiti en 14 stig. Í Reykjavík gætti sólar nokkuð og hitinn fór í 15,1 stig. Daginn eftir skein sólin þar í norðanátt aftur á móti í heilar 18 stundir sem er með því allra mesta sem gerist, en hitinn fór í 15,3 stig. Þennan dag mældist tuttugu stiga hiti aðeins á einni stöð, 21,8 í Reykjahlíð. Þar hafði þá mælst tuttugu stiga hiti eða meira sex daga í röð. En tuttugu stiga hiti hafði mælst einhvers staðar á landinu í sjö daga í röð.
Hvergi mældist svo tuttugu stiga hiti mánudaginn 26. júní. Hlýjast varð 17,0 stig í Síðumúla. Svalt loft hafði færst yfir allt landið með norðanátt og víða voru skúrir en bjart á suðvesturlandi. Glaðasólskin var enn í Reykjavík, 16,4 stundir, og hitinn fór í 13,5 stig. Sigurgeir Sigurðsson var vígður biskup þennan dag.
Ekki er alveg einfalt mál að bera þessa hitabylgju saman við mestu hitabylgjur síðustu ára. Í fyrsta lagi voru aðrar mæliaðstæður, mælt var í skýlum sem hengd voru á húsveggi, en síðustu áratugi hafa verið notuð frístandandi skýli. Í öðru lagi hafa verið hámarksmælingar á öllum veðurstöðvum frá því um 1960 en í júní 1939 voru aðeins 31 veðurstöð með hámarksmælingar af 50 veðurstöðvum (Lambavatni sleppt, en Grímsey með). Af þeim stöðvum sem ekki voru með hámarksmæli mældist 20 stiga hiti eða meira með fullri vissu á fimm stöðvum en mjög líklega á einhverjum fleirum til víðbótar. En sennilega mældist ekki 20 stiga hiti á nokkrum stöðvum vestanlands og á annesjum fyrir austan. Vel er hins vegar hægt að bera þessa hitabylgju saman við hitabylgjuna miklu í júní 1949 þegar 30 stöðvar af 51 veðurstöð (án Lambavatns),margar enn mælandi í veggskýlum, voru með hámarksmælingar og hefur hitabylgjan 1939 vinninginn yfir hana með heitustu dagana. Hitabylgjan í júní 1939 hlýtur að teljast mesta hitabylgja sem komið hefur í júnímánuði sem mælingar ná yfir, bæði hvað varðar fjölda stöðva með tuttugu stiga hita eða meira og ekki síst hæsta mældan hita, tvær þrjátíu stiga mælingar takk!
Í fylgkiskjalinu má sjá hitann hvern dag á langflestum veðurstöðum sem starfandi voru, lágmark og hámark og meðaltal þess og auk þess í aukadálkum mesta hita sem lesinn var hvern dag á mæla á athugunartímum á þeim stöðvum sem ekki voru með hámarksmæla.
Hér má svo sjá ýmislegt um hitametið á Teigarhorni og fleira.
Bloggar | Breytt 25.6.2016 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006