Fréttirnar endurspegluðu raunveruleikann

Þetta er ekki rétt sem hótelstjórinn á Hallormsstað fullyrðir þarna í fréttinni:  ''Við erum búin að vera með álíka veður og innsveitir Suðurlands í allt sumar.''

Almennt líta menn svo á að júní sé fyrsti sumarmánuðurinn. Hann var verulega kaldur á Hallormsstað. Meðalhitinn var aðeins 7,7 stig,  meira en heilu stigi undir meðallagi svölu áranna 1961-1990. Ekki var hægt að tala um neitt sumarveður á Hallormsstað fyrr en um stólstöður en þá komu fáeinir verulega góðir dagar en dögum saman framan af mánuðinum náði hitinn þar ekki tíu stigum. Fáum hefur þá þótt fýsilegt að leggja leið sina sína í þessa sveit meðan einmuna veðurblíða var víða annars staðar á landinu, ,,sól og hiti‘‘ í alveg bókstaflegri merkingu.  

Í Árnesi  í  Gnúpverjahreppi, uppsveit suðurlands, var meðalhiti júní til dæmis 10,7 stig og líka í Reykjavík þar sem mánuðurinn var tíundi hlýjasti júní. Þarna munar heilum þremum stigum á meðalhita milli suðurlands og Fljótsdalshéraðs. Mánuðurinn var því alls ekki sambærilegur milli Hallormsstaðar og uppsveita suðurlands. Auk þess fylgdi hlýindunum sunnanlands einstaklega mikið sólfar. Í Reykjavík var þetta næst sólríkasti júní sem mælst hefur og þriðji sólríkasti sumarmánuður og sólarmesti mánuður yfirleitt í meira en hálfa öld. Af þessari sól og þessum hita sunnanlands og vestan, ásamt óvenjulegu hægviðri, voru auðvitað sagðar fréttir af því að það var virkilega fréttnæmt og þetta eru reyndar veðurfarslegar stórfréttir. Hallormsstaður stóðst sunnlenskum uppsveitum engan samjöfnuð í þessum mánuði. Talsvert skárra var á Akureyri, meðalhitinn var 8,6 stig, og þar var líka mikið sólskin. Vera má að sól hafi skinið mikið á Hallormstað í júní þó mjög ósennilega hafi hún skákað suðurlandinu, en því miður er búið að leggja þar sólskinsmælingar niður, en það breytir þó ekki kuldanum.

Júlí var hins vegar svo sem í lagi á Hallormsstað að hita, 10,7 stig, sem er rétt aðeins undir meðallagi hlýindatímabilsins 1931-1960 og lítillega yfir svala meðallaginu 1961-1990. Úrkoman var meiri á Hallormsstað en á flestum stöðum í þessum mánuði þó ekki sé hægt að segja að hún hafi verið mikil eða til baga. Í Árnesi var meðalhitinn í júlí aftur á móti 12,5 stig, það sama og í  Reykjavík og svipað mun hafa verið í uppsveitum suðurlands. Í Vestmannaeyjum var þetta annar af tveimur hlýjustu júlímánuðum, sjötti hlýjasti á Kirkjubæjarklaustri og tíundi hlýjasti bæði í Reykjavík og á Bolungarvík. Á Akureyri var einnig talsvert hlýrra en á Hallormsstað, 11,6 stig. Hitinn á Akureyri og á Hallormsstað var reyndar svipaður um hádaginn en kaldara að morgni og kvöldi á Hallormsstað. Akureyri er annars heldur ekki með bestu stöðum þessa sumars sem af er. Það eru suður og vesturland.

Fyrstu tveir sumarmánuðinir á suður og vesturlandi hafa sem sagt að hita og sól verið með þeim bestu sem komið hafa en á Hallormsstað var fyrri hlutinn verulega kaldur en seinni hlutinn hefur slagað upp í að vera í meðalagi. Um þennan mikla mun milli landshluta hafa auðvitað borist fréttir og spurnir. Veðurspár og veðurfregnir eru ekki bara í útvarpi og sjónvarpi heldur fyrst og fremst í smáatriðum á netinu og þar hafa menn í allt sumar séð hvað var í gangi. Og það er ósköp eðlilegt, eins og hótelstjórinn á Hallormsstað bendir á, að fólk leiti þangað sem best er veðrið, ekki næst best eða þriðja best.  

Fréttaflutningur fjölmiðla um veðurfarið í sumar hefur bara endurspeglað raunveruleikann.   

Eftirfarandi orð hótelstjórans eru því ósanngjörn: ,, Samt hefur allur fréttaflutningur verið á þá leið að á Austurlandi hafi veður ekki verið gott. Þetta kostar ferðaþjónustuna hérna tugi ef ekki hundruð milljóna í töpuðum tekjum. Fólk fer eðlilega þangað sem spáð er sól og góðu veðri."  

Og við hverja er að sakast nema veðurguðina? Ekkert sérstakt aðfinnsluvert hefur verið við veðurspár í sumar og almennur fréttaburður fjölmiðla hefur bara endurspeglað ástandið eins og það hefur verið í  raun: Sjaldgæf hlýindi og sólfar víða um land, en einkum sunnan lands og vestan, en bara la la á Fljótsdalshéraði og enn lakara niðri á austfjörðum.  

Hótelstjórinn segir: ''Þetta er búið að vera veðurfarslega mjög gott sumar hjá okkur og í gær fór hitinn upp í 26,6 stig hér á Hallormsstað og í dag er hitinn kominn yfir 20 gráður og stefnir í svipað og í gær."  

Þessi mikli hiti á Hallormsstað kom ekki fyrr en fyrir um það bil viku (en þó komu þar einn og einn  dagur áður á stangli með 20 stiga hita sem þar þykir nú ekki mikið) en þá líka svo um munar. Vonandi verður framhald á því og sem víðast um land. En fram að þessu var veðrið yfirleitt hlýrra og sólríkara annars staðar en á Hallormsstað, þó ég ítreki að seinni hluti sumarsins hafi ekki verið þar slæmur og engum svo sem vorkunn að vera þar í sumarfríi. En hann var bara miklu betri víða annars staðar. Og það er ástæðan fyrir því að ferðamenn hafa fremur lagt leið sína á aðra staði en í Hallormsstaðaskóg en ekki rangar eða villandi fréttir fjölmiðla. Þegar nú austfirsk hlýindi, sem fáu öðru líkjast þegar þau ná sér á strik, komast loks í gang hefur alls ekki staðið á fjölmiðlum að flytja af því fréttir og gleðjast með austfirðingum. Og hótelstjórinn játar að fréttaflutningur af því hafi haft góð áhrif. En ekkert samblærilegt hefur gerst á Hallormsstað fyrr í sumar. 

Það er auðvitað skiljanlegt að þeir sem standa í hótelrekstri vilji fá sem flesta gesti. En menn verða bara að sætta sig við það að veðrið er oft misgott eftir landshlutum. Enginn getur heimtað jafn gott veður alls staðar. Heilu sumrin hafa til dæmis stundum verið jafn drungaleg og úrkomusöm á suðurlandi og síðustu dagar.

Við þessu er ekkert að gera. Allra síst að kenna fjölmiðlum um. 

Kvörtunartónn hótelstjórans út í fjölmiðla á engan rétt á sér og fullyrðing hans um að veðrið á Hallormsstað í allt sumar hafi jafnast á við uppsveitir suðurlands er harla vafasöm svo ekki sé meira sagt. Það sannast nú sem oftar að aðilar í ferðamannaiðnaðinum, og reyndar líka þeir sem standa fyrir útihátíðum, eru óáreiðanlegustu veðurvitni sem um  getur.

Það alvarlega við þessa frétt er þó sá ódulbúni undirtónn í orðum hótelstjórans þar sem ýjað er að því að eitthvað hafi verið athugavert við veðurspár sumarsins sem ásamt þöggun fjölmiðla um austurlenska veðurblíðu hafi þá bakað stórfellt fjárhagslegt tjón upp á jafnvel hundruði miljóna króna fyrir hótelrekstur á Hallormsstað.

Svo ég segi það enn og aftur: Ástæða þess að fólk var ekki að streyma austur á Fljótsdalshérað var einfaldlega sú að það vissi af meiri veðurblíðu í öðrum landshlutum lengst af það sem af er sumars.    

Næsta skref ferðabransans verður þá væntanlega að fara fram á að veðurspám verði hagrætt og fréttir um veður verði falsaðar til að spilla ekki viðskiptunum.


mbl.is Fréttir af veðri hafa áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Að deginum loknum

Dagurinn varð sá hlýjasti að sólarhringsmeðaltali í ágúst sem komið hefur á Akureyri frá og með 1949 með meðalhita upp á 20 stig. Fjórir júlídagar á þessum tíma hafa þó haft hærri meðalhita. Dagshitametið fyrir hámarkshita var einnig slegið á Akureyri, 24,4, stig.

Dasgshitametið fyrir hámarkshita á landinu var og slegið með 28,0 stigum á Eskifirði en gamla metið var 27,0 á Hallormsstað árið 2004. Meiri hiti hefur þó mælst á landinu um þetta leyti, 29,4 stig 11. ágúst 2004.

Á skeytastöðvum sem enn  mæla hita voru engin allsherjarmet slegin en ágústmet kom á Skjaldþignsstöðum í Vopnafirði, 25,2 stig en talsvert meiri hiti hefur áður mælst í Vopnafjarðarkauptúni.

Á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði var vitaskuld sett allsherjarmet (frá nóv. 1998) og á Neskaupstað mældist hitinn 27,9 stig sem er meira en þar hefur mælst í nokkrum mánuði frá 1975, bæði meðan þar var mönnuð veðurstöð og eftir að hún varð sjálfvirk. Á Kollaleiru kom ágústmet, 27,6 stig en allsherjarmetið 28,9 stig í júlí 1991, stendur enn. Sólarhringsmeðaltalið er þar 22 stig sem er ærlega geggjað! Á Seyðisfirði varð hitinn mestur 27,0 stig og er það sama og hæst hefur orðið þar lengi í seinni tíð en ekki má gleyma því að í júlí 1911 fór hitinn þar í a.m.k. 28,9 stig og 29,9 á Akureyri.

Ekki hefur komið önnur eins hitagusa á austfjörðum líklega í áratug eða meira. Hins vegar tek ég  ekki undir það sem oft hefur heyrst undanfarið að sumur hafi verið verulega svöl eða hálf svöl undanfarin sumur á austur og norðurlandi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfríi lokið í hitabylgju

Jæja, þá er verslunarmannahelginni lokið og ólympíuleikunum næstum því lokið og nú er bloggfríi síðuhaldara og æsilegum safaríferðum um landið loksins lokið, lengsta fríinu frá því hann byrjaði að blogga.

En nú verður þráðurinn aftur upp tekinn. 

Hitabylgja er í gangi austanlands. Á hádegi var þyktin fyrir Egilsstöðum 5651 m en frostmarkshæð   3763  metrar og hitinn i 850 hPa fletinum var um 8 stig en við jörð var hitinn 23,1 stig en 25 stig á Hallormsstað og 25-26 stig niðri á austfjörðunum. Reiknað er með að yfir fjörðunum fari hitinn í 850 hPa fletinum jafnvel 13-14 stig í dag með vænlegum metatilboðum fyrir láglendið.

Meðalhitinn í ágúst er nú um og yfir 2 stig yfir meðallagi eftir landshlutum og ekki lækkar hann núna.

Fylgiskjalið, sem sýnir daglegan gang ýmissa veðurþátta fyrir Reykjavík (blað 1) og Akureyri (blað 2) og á landinu öllu (blað 1), er nú komið aftur á sinn stað og vantar ekkert í það. Skjalið er stillt á ágúst en menn geta skrollað upp til að sjá allan júlí og reyndar allt árið sem af er.

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí það sem af er

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er júli er nú 12,6 stig eða 2,2 stig yfir meðallagi. Hann hefur ekki oft verið hærri. Frá 1949 var hann árið  2007 og 2009 13,3 stig en þegar þeim mánuðum lauk komu þeir út með 12,8 og 12,7 stig að meðalhita. Árið 1991 var meðalhitinn fyrstu 16 dagana 13,4 stig en meðalhiti alls mánaðarins reyndist 13,0 stig það sama og árið 2010 en þá var meðalhiti fyrstu 16 dagana 12,4 stig.
 
Ef litið er til tímabilsins fyrir 1949 eru dagsmeðaltöl ónákvæm, þó hægt sé gera sér nokkra gein fyrir þeim, og flutningar veðurstöðvarinnar flækja málið enn frekar en samt er líklegt að fyrri hluti júlí 1936 hafi verið hlýrri en nú,  en aðrir júlimánuður frá stofnun Veðurstofunnar til 1948 ógna varla okkar júlí nú þegar hann er hálfnaður. Aðalhlhlýindin t.d. í hlýju mánuðunum 1939 og 1944 voru til að mynda seint í mánuðunum.
 
Ef við lítum svo að gamni, fullkomlega ábyrgðarlaust og lígeglað, til tímans fyrir stofnun Veðurstofunnar, allt til 1880,  er það einmitt júlí það ár og svo 1894 sem eiga einhvern sjens í okkar júlí miðað við þá alla hálfnaða. 
 
Við megum þvi vel við una hvað hitann snertir. 
 
Seinni hluti júlímánaðar er hlýrri að meðaltali en fyrri hlutinn. Ef þessi júlí héldi sínu fráviki til mánaðarloka myndi hann verða þriðji hlýjasti júlí, næstur á eftir 2010 og 1991. Hann þarf því að taka sig enn á ef hann ætlar að hljóta gullið á þessu ólympíuári. 
 
Hvað þurrkinn margumtalaða varðar er ljóst að engin met verða sett í Reykjavík. En Vestmannaeyjar eiga von!
 
Í gær gerðust þau tíðindi að hitinn á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum steig upp í 21 stig, sem er sannarlega ekki á hverjum degi, en hlýjast varð í Bíldudal 22,3 stig. Hlýjasta loftið var yfir Vestfjörðum en á suðurlandsundirlendi komst hitinn hvergi í 20 stig en 21,8 á Þingvöllum og svipaður hiti var í Borgarfirði. 
 
 
 
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkustu júlímánuðir

Fimm af tíu sólríkustu júlímánuðum í Reykjavík og á Akureyri eru sameiginlegir.

Fyrstan ber þá frægan að telja júlí 1939 sem er sólríkasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík með 308 klukkustunda sólskin og er þetta eini júlí á nokkurri veðurstöð sem rofið hefur 300 stunda sólskinsmúrinn. Meðaltalið 1961-1990 er 171 stund í Reykjavík.  Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 221 og þar er þetta sjötti sólríkasti júlí. Þetta var mikill gæðamánuður að hita, sérstaklega á suður og vesturlandi. Í Reykjavík er þetta áttundi hlýjasti júlí frá 1866. Á Hæli í Hreppum var meðalhitinn reiknaður 13,6 stig og er þetta þar hlýjasti júlí en sá sautjándi hlýjasti á landinu. Hitabylgju allmikla gerði dagana 23.-26. og fór hitinn í Reykjavík þá fjóra daga í 20 stig eða meira. Mánuðurinn var einnig afar þurrviðrasamur og reyndar að mínu tali þurrasti júlí eftir að Veðurstofan var stofnuð, aðeins um 30 prósent af meðalúrkomunni 1931-2000. Í Stykkishólmi er hann þurrasti júlí frá því mælingar hófust 1857, 3,9 mm. Þurrkamet fyrir júlí voru einnig sett hér og hvar annars staðar þar sem lengi hefur verkið athugað, t.d. á Arnarstapa á Snæfellsnesi, 7,2 mm (1935-1982) og  Blönduóssvæðinu (1924-2003), 10 mm. Á Suðausturlandi var þetta einnig þurrasti júlí, á Fagurhólsmýri, 13,2 mm (1922-2007), Hólum í Hornafirði (frá 1931), 7,2 mm, Kirkjubæjarklaustri (frá 1931) 29,4 mm og Vík í Mýrdal 10,3 mm (1925). Í Vestmannaeyjum var aðeins þurrara 1888 og 1931 (frá 1881).

Júli 1929 er aftur á móti sá sólríkasti sem mælst hefur á Akureyri með 239 stundir, meðaltalið 1961-1990 er 158 stundir, en í Reykjavík er hann sjöundi sólarrmesti  með 257 stundir. Takið eftir því að sólskinsstundirnar eru samt fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Skýjahula var metin sú sama á báðum stöðunum en næstum því alls staðar annars staðar var hún metin minni. Sólríkt hefur því verið nánast alls staðar og blíðviðri svo að segja allan mánuðinn um land allt. Miklar þrumur komu þó á suðausturlandi þann 18. Og þann 23. klukkan 1845 reið  yfir höfuðborgina snarpasti jarðskjálfti sem þar hefur fundist síðan byrjað var að fylgjast kerfisbundið með slíku. Upptökin voru í eða skammt austur af Brennisteinsfjöllum og mældist skjálfinn 6,3 stig á Richter. Á Akureyri hefur ekki mælst þurrari júlí, 7 mm (frá 1925), og á landinu tel ég þetta vera sjöunda þurrasta júlí með minna en 40% prósent úrkomu.  Þetta var hlýr mánuður og nær tíunda sæti yfir hlýjustu júlímánuði eins og ég hef reiknað þá.

Næsti júlí á undan þessum, 1928, er sá þriðji sólríkasti í Reykjavík, 268 klst en áttundi á Akureyri, 210 klst. Hann var talsvert kaldari en 1929, en þó um  hálft stig yfir núverandi meðallagi, og ekki eins þurr, úrkoman um 80% af meðalúrkomunni. 

Níundi  sólríkasti júlí í Reykjavík er 1957 með 251 stund en á Akureyri er  þetta tíundi sólríkasti júlí með 208 stundir. Sól var víðast hvar mikil. Reykhólar (1957-1987) settu sitt sólskinsmet í júlí, 256 klst, og einnig Melrakkaslétta (1957-1999), 216 klst. Þurrviðrasamt var og tel ég þetta áttunda þurrasta júlí. Á Hallormsstað mældist ekki þurrari júlí, 13,1 mm (1937-1989). Hitinn var rúmlega hálft sig yfir meðallaginu 1961-1990.

Næsti júlí á eftir, 1958, er sá þriðji sólarmesti á Akureyri með 231 stund. Sólríkarara var þó í Reykjavík, 246 klst, en þar er mánuðurinn í ellefta sæti hvað sólskin varðar. Þar skein sól tíu stundir eða meira í 15 daga og þar af alla dagana 11.-22. nema þann 16. þegar sólarstundirnar voru þó 7,5. Þetta er einna glæstasti samfelldi sólarbálkurinn sem hægt er að finna í Reykjavík. Og ekki voru neinir kuldar þar þennan tíma, hitinn stöðugt yfir meðalagi og komst yfir tuttugu stig þegar mest var. Meðalhitinn dagana 11.-22. var 12,7 stig, svo til það sama og það sem af er júlí 2012, en meðaltal hámarkshita (án tvöfaldra hámarka) var 15,7 stig. Á Akureyri voru 11 dagar með meira en tíu stunda sól og komu þeir alveg sömu daga og í Reykjavík nema hvað þann 20. var sólin 8,6 stundir. Og  svipaða sögu er að segja af þessum dögum frá Breiðafirði og Fljótsdalshéraði. Glaðasólskin um allt land! Á Hólum í Hornafirði er þetta næst sólríkasti júlí og sá næst þurrasti. Á Teigarhorni er þetta einnig næst þurrasti júlí, allar götur frá 1873, 3,9 mm (minnst 0,7 mm 1888). Mánuðurinn var á endanum vel hlýr á suðurlandi, 12 stig í Reykjavík og á Hæli en dálitið undir meðallagi fyrir norðan. Í heild var mánuðurinn lítið eitt kaldari en árið á undan. Úrkoman var tæpur helmingur af meðallúrkomu. 

Júlí árið 2009 er svo síðasti sameiginlegi mánuðurinn á topp tíu sólskinslistanum fyrir bæði Reykjavík og Akureyri og er í sjötta sæti á báðum stöðunum, 259 klst í Reykjavík en 209 á Akureyri. Hann er tuttugu hlýjasti júlí eftir mínu tali. Úrkoman var mjög svipuð og 1958 en á suður og vesturlandi voru sums staðar met júlíþurrkar, svo sem í Mýrdal (frá 1940),19,2 mm Andakílsárvirkjun (1950), 6,8 mm, Keflavíkurflugveli (1952), 15,4 mm og Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum (1960), 4.1 mm. Hitinn var hátt yfir meðallagi, 1,2 stig enda komið vel fram á veðurfrslegu gullöldina sem nú ríkir! Í  Reykjavík er þetta einn fjórum hlýjustu júlímánuðum. Þrátt fyrir hlýindin kom mikið en stutt kuldakast seint i mánuðinum svo næturfrost gerði jafnvel sums staðar við suðurströndina. 

Árið 1960 kom þriðji mjög sólríki júlí á fjórum árum í Reykjavík, 1957-1960. Sólarstundirnar voru 259 og gerir það mánuðinn fimmta sólríkasta júlí i borginni. Fyrir norðan og austan var vætusamt og hefur aldrei í júí verið meiri úrkoma á Fagurhólsmýri, 338 m. Mikið þrumuveður gerði þann 9. á  suður og vesturlandi. Allir þessir sólbjörtu júlímánuðir 1957, 1958 og 1960 voru mjög svipaðir að meðalhita í Reykjavík, 12 stig,  og á landinu öllu,  0,5-0,6 stig yfir núgildandi meðallagi. Úrkoman var lítið eitt yfir meðallagi á landinu í heild í júlí 1960.

Á hafísárunum náði júlí 1967 að vera sá áttundi sólríkasti í Reykjavík með 256 stundir. Hann var þó fremur svalur, 0,8 stig undir meðallagi , og mjög kaldur fyrir norðan en þó ekki alveg eins og 1970. Eins og 1958 byrjaði aðal sólskinskaflinn borginni þann 11. og til hins 20. skein sólin alla daga nema tvo meira en tíu stundir.En heldur kaldara var þessa daga en 1958, meðalhiti þeirra var 11,5  stig en meðaltal hámmarkshita 14,5 stig. Þetta er sólríkasti júlí sem mælst hefur á Sámsstöðum 265 stundir en meðalhitinn var þar 11,3 stig yfir allan mánuðinn.

Næsti júlí, 1968, mældist á Akureyri með 208 stunda sólskin og er þar tíundi sólríkasti júlí. Loftvægið í þessum mánuði á landinu er það mesta sem mælst hefur í júlí og var mest að meðaltali 1020,2 hPa á Keflavíkurflugvelli. Í Æðey í Ísafjarðardjúpi hefur ekki mælst þurrari júlí (frá 1954), 6,1 mm. Kalt var framan af en síðan gerði mánaðar hlýindakafla sem var einhver sá lengsti og besti á þessum svölu árum. En þar sem hann kom á milli mánaða gætir hans ekki verulega  í mánaðarmeðaltölum fyrir júlí og ágúst. En meðalhiti samfelldra 30 daga milli mánaða var yfir 13 stig þar sem best lét. Í júlí sjálfum var hitinn rúmlega hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990 á landinu og er þetta einn af sárafáum júlímánuðum á því tímabili og mörg næstu ár sem var hlýrri en meðallagið 1931-1960.      

Næst sólríkasti júlí í Reykjavík var árið 1970 með 286 sólskinsstundir. Þessi mánuður var þó æði ólíkur júlí 1939, þeim sólríkasta í borginni. Þá var meðalhitinn 12,6 stig í en 1970 aðeins 9,4 stig, sá sjötti kaldasti frá 1866 en fjórði kaldasti á landinu. Átján daga skein sólin meira en tíu stundir í höfuðborginni en enginn þeirra var almennilega hlýr nema kannski einn þegar hitinn náði sextán stigum. Fyrir norðan var sólarlítið og afskaplega kalt enda var norðanáttin ansi óvægin. Úrkoman var um það bil þrír fjórðu af meðallaginu. Á Kvískerjum, úrkomusamasta stað landsins, hefur ekki mælst minni úrkoma í júlí frá 1962, 53,4 mm.                                         

Næst sólríkasti júlí á Akureyri er 1973 með 237 stundir. Víðar var sólríkt. Á meðan mælt var mældist ekki meiri sól á Hallormsstað (1953-1990),292 stundir,  og Hveravöllum (1965-2003) 221 klukkustund. Hiti og úrkoman var lítið eitt undir meðallagi í heild. Í Vopnafirði var þetta þó met þurr júlí.    

Þjóðhátíðarárið 1974 krækti í fjórða sólríkasta júlí Reykjavík með 261 sólarstund og 15 daga með meira en tíu stunda sól. Fremur sólríkt  var reyndar víðast hvar á landinu. Á Hveravöllum er þetta næst sólríkasti júlí. Úrkoman var aðeins liðlega helmingur af meðallatalinu en hitinn yfir meðallagi.

Næsti júlí, 1975, var sá sjötti sólarmesti á Akureyri með 212 stundir og hann var sá þriðji sólríkasti á Melrakkasléttu. Hann var þungbúinn og afar svalur fyrir sunnan en hlýr og bjartur fyrir norðan en í réttu meðallagi að hita á landinu.

Árið 1936 var mikið gæðasumar á suðurlandi og skartar það tíunda sólríkasta júlí í Reykjavík með 250,5 stundum. Fyrir norðan var sólin vel í meðallagi. Þetta var blíður mánuður og reyndar níundi hlýjasti júlí á landinu. Úrkoman var minna en hálf meðalúrkoma og sérstaklega var hún litil sunnanlands og vestan. Aðeins júlí 1931 var þurrari í Kvígyndisdal í Patreksfirði (1928-2004).

Júlí árið 2004 er sá fimmti sólríkasti á Akureyri með 213 stundir. Þurrviðrasamt var fyrir norðan og nyrst á Tröllaskaga var mánuðurinn með eindæmum þurr, 10,5 mm á Sauðanesvita. Úrkoman var rétt yfir meðallagi á landinu í heild en hitinn hátt yfir því, nætum því hálft annað stig yfir meðallaginu 1961-1990.     

Loks er við hæfi að geta þess að Hólar í Hornafirði eru sólarminnsti staðurinn í júlí þar sem sól hefur verið mæld á Íslandi. Og fer sínar eigin leiðir í sólskinsmálunum. Þar er sólríkasti júli 1989 með 213 stundir (frá 1958). Mánuðurinn var hlýr og bjartur fyrir norðan og austan en eins og 1975 algjörlega misheppnaður á suðvesturlandi vegna sólarleysis og kulda. Hitinn var samt í meðallagi á landsvísu.
 
Viðbót: Júlí síðasti reyndist annar sólríkasti júlí sem mælst hefur á Akureyri með 237,4 sólarstundir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband