Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað segir Páll Óskar

Lögreglan gekk ekki í skrokk á mótmælendum sem andmæltu mannréttindabrotum á hommum og lesbíum. Það var bara vegna þess að athygli umheimsins beinist að Rússlandi vegna Söngvakeppni Evrópu. Undir venjulegum kringumstæðum sparar lögreglan ekki barsmíðarnar. En nokkrir  tugir voru handteknir og þeirra bíður líklega ekki neinar ljúfar trakteringar. 

Svona ganga í Rússlandi er ekki skemmtiganga eins og Gay Pride gangan er að mestu leyti á Íslandi. Þarna er hópur fólks að mótmæla einhverri grimmúðlegustu kúgun sem nokkrir hópar í Evrópu verða að sæta. Ekki bara mismunun og höfnun heldur oft og tíðum beinum misþyrmingum.

Sagt er að sumum keppenda í Söngvakeppninni sé órótt og ætli jafnvel að  mótmæla þegar keppnin fer fram. Vonandi að þeir láti að því verða. 

Hvað ætli Páll Óskar annars hugsi en hann er alltaf að tala um keppnina í sjónvarpinu? Getur hann nú ekki sagt eitthvað sem máli skiptir? Eða horfir hann bara í aðra  átt og blikkar augunum  þó verið sé að þjarma af félögum hans?

Sigmar Guðmundsson sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að íslensku keppendurnir hafi ekki mikið frétt af þessum mótmælum og handtökum. En nú ættu þeir að hafa frétt af þeim.  Ekki geta þeir nú borið fyrir sig að vita ekki af þessu.

Ef nógu margir keppendur myndu mótmæla í kvöld myndi keppnin að vísu fara úr böndunum.  En það myndi beina athygli heimsins rækilega að  því að mönnum væri ekki sama um níðingslega meðferð Rússa á hommum og lesbíum. 

Eftir því yrði tekið. 

 


mbl.is Handtökur vegna gleðigöngu í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sigurður Árnason að brjóta siðareglur lækna

Sigurður Árnason læknir í Keflavík gerir sig nokkuð breiðan í þessari frétt ef eftir honum er rétt haft.

Hann segir að maðurinn sé í fínu standi. Ekki skal ég segja um það enda hef ég ekki vit á því hvernig mönnum líður eftir þriggja vikna hungurverkfall.

Hins vegar finnst mér læknirinn vera farinn að skipta sér helst til mikið af efnisatriðum málsins þegar hann með lítilsvirðingartóni talar um Séð og heyrt kjaftæði í sambandi við manninn. 

En fyrst og fremst þegar hann hvetur fólk til þess að gera ekki of mikið úr málum mannsins.

Er það mál sem varðar Sigurð Árnason? Hann talar af miklum hroka og yfirlæti.

Hann er að reyna að gera sem allra minnst pólitískt úr málinu. Óbeinlínis eða jafnvel beinlíns að taka afstöðu með stjórnvöldum. Hugsanlega hefur hann brotið siðareglur lækna með þessu afstöðuþrungna tali sínu.

Slíkum lækni er ekki treystandi í viðkvæmum málum.

 


Ætlar það að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að drepa mann

Alsírbúinn sem er í hungurverkfalli er kominn heim af spítalanum. Hann afþakkaði saltvatn í æð og vill ekki matast.

Hann er aftur kominn ''heim''. Sagt er að hann sé í lífshættu og innri líffæri hans geti farið að skaðast varanlega.

Það þarf víst ekki að minna á að stjórnvöld hafa haft tvö ár til að sinna erindi mannsins. Þau hafa ekkert gert. 

Meðan þjóðin sekkur sér niður í fullkomlega ómerkilega söngvakeppi Evrópu er maður að deyja vegna vanrækslu stjórnvalda.

Það er undarlegt sinnuleysi fjölmiðla að hafa ekki tekið þetta mál upp í alvöru. Stuttorðar fréttir og óskýrar eru allt sem frá þeim kemur. Hins vegar streymir hatrið út í manninn óheft um blogg- og feisbúkksíður. Það er þjóðinni til skammar. 

Í einni frétt er sagt að sálfræðingar og félagsfræðingar séu að þrýsta á manninn að láta af mótmælasveltinu. 

Það er auðvitað hörmulegt ef maðurinn deyr eða skaðast varanlega og allir  nema kannski stjórnvöld vilja afstýra því. Eigi að síður má spyrja hverra hagsmuna þessir sálfræðingar og félagsfræðingar eru að gæta. Hvert er vandamálið?

Vandamálið eru stjórnvöld. Ekki Alsírbúinn. Menn eiga því að þrýsta á stjórnvöld.

Sálfræðingarnir eru væntanlega á vegum Rauða krossins. En á hverra vegum eru félagsfræðingarnir? Á vegum Reykjanesbæjar? Eru þessir aðilar ekki fyrst og fremst að gæta hagsmuna yfirvalda? Það verður nefnilega meira en vandræðalegt fyrir þau ef maðurinn deyr af þeirra völdum. Ég endurtek að allur þrýstingur í þessu máli á að vera á stjórnvöld.

Ég held meira að segja að færa megi siðferðileg rök fyrir því að það samræmist ekki siðareglum þessara starfstétta að þrýsta á mann sem er í mótmælasvelti eða af samviskuástæðum til að láta af sveltinu ef engar breytingar verða á stöðu málsins að öðru leyti.  

Ég spyr nú bara eins og Hallgrímur Helgason rithöfundur á feisbúkksíðu sinni:

Ætlar það að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að drepa mann?  


Til hvers

Til hvers er maður sem vitandi vits er í hungurverkfalli og veit hvaða afleiðingar það hefur ef farið er alla leið að leggjast inn á sjúkrahús?

Breytir það einhverju þó hann fái saltvatnsupplausn í æð? 

Er ekki alveg eins gott að deyja ''heima'' eins og á sjúkrahúsi undir þessum kringumstæðum?

Er þetta annars ekki bragð og fyrsta skrefið til þess að neyða næringu á einhvern hátt ofan í manninn?  

Reyndar kemur fram ótti í fréttinni um það Lögreglan, Rauði krossinn og Útlendingastofnun séu að plotta eitthvað saman. Allt virðist ætla að fara á þann veg sem ég spáði


mbl.is Hælisleitandi fluttur á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boomerang dómsmálaráðherra og hungurverkfall

Nú ætla ég aðallega að velta þessu máli fyrir mér út frá einu sjónarmiði.

Maðurinn hefur neitað að undirskrifa yfirlýsingu um það að hann neiti að þiggja læknishjálp þegar hann missir rænu. 

Þegar þar að kemur - ef að því kemur - er hætt við því að hann verði látinn á sjúkrahús þar sem læknar líti svo á að gefa beri honum næringu í æð af því að hann neitaði því ekki skriflega. 

Geri læknar það eru þeir að taka afstöðu með stjórnvöldum í því að beygja manninn. 

En verknaðurinn hungurverkfal og orð mannsins eru alveg fyllilega skýr yfirlýsing um vilja hans  um það að hann sé reiðubúinn til að deyja fremur en gefast upp.

Auðvitað vona allir að lausn finnist á máli mannsins og til þess þurfi ekki að koma að hann deyi. En valdbeiting lækna í skjóli yfirvalda án þess að tekið væri á málinu að öðru leyti væri fullkominn auðmýking á honum. 

Haft var eftir dómsmálaráðherra í sjónvarpsfréttum að það væri alvarlegt mál að fara í svona hungurverkfall. Hún hefur víst efni á því í öruggu skjóli ríkisvaldsins að vera með slíkar ásakanir  í  garð hælisleitandans. Og ekki þarf hún víst að óttast viðbrögð samráðherra sinna. En það er víst ekki alvarlegt mál hvernig framkoma yfirvalda hefur verið í garð hælisleitenda.  

Ráðherrann sagði einnig að svo virtist sem hælisleitandinn þekkti íslenskt réttarkerfi ekki nógu vel. Ég spyr: Gera íslensk yfirvöld nokkuð í því kynna það fyrir hælisleitendum? Svarið er  augljóslega nei úr því vanþekkingin birtist svona ótvírætt. Yfirlýsingar ráðherrans hitta hana því sjálfa fyrir eins og boomerang.   

Mér dettur ekki í hug að hafa opið hér fyrir athugasemdir til þess að allt fyllist af hatri og svívirðingum um þennan mann og aðra hælisleitendur.


mbl.is Ætla allir í hungurverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjör viðbjóður

Samningurinn sem fegurðardísirnar verða að samþykkja og hafa samþykkt án þess að mögla er auðvitað ekki samningur, samkomulag, heldur er hann einhliða skilyrði til að fá að taka þátt í keppninni um fegurðardrottningu Íslands. Þetta var að koma fram í Kastljósi.

Stelpurnar láta sig hafa það af afsala sér allri virðingu og persónulegum réttindum.

Þó þær séu ungar eru þær fullorðnar konur en ekki börn.

Enginn skyldar þær til að skrifa undir. Manneskja sem bæri lágmarksvirðingu fyrir sjálfri sér myndi ekki aðeins hrökkva frá svona samningi heldur vekja athygli yfirvalda á ósómanum.

Þetta er nú það sem snýr að stelpunum. En þar fyrir utan er keppnishaldarinn sem býður slíkan samning algjör viðbjóður og sömuleiðis þau tíu fyrirtæki sem styðja þessa keppni.

 


Gáttaður

Ég botna nú ekkert í Borgarahreyfingunni,  sem ég hef þó mætur á, að hvetja fólk til að borga ekki skuldir sínar. Ef það yrði almenn regla myndi samfélagsleg upplausn hljótast af. 

Viðskiptaráðherra hefur orðið fyrir ómaklegri gagnrýni. Hann talar bara út frá staðreyndum og heilbrigðri skynsemi og pólitískir stælar eru víðs fjarri honum, ólíkt atvinnustjórnmálamönnunum. 

Á tímum eins og þessum á þjóðin að standa saman við að leysa vandann í stað þess að auka hann. 


Villandi frétt

Mynd af lögregluskildi fylgir þessari frétt. Það gæti gefið til kynna að upplýsingar í henni komi frá lögreglunni. Svo er þó alls ekki. Upplýsingarnar í fréttinni koma frá fjölskyldu þolandans eins og nær allar aðrar fréttir um málið. 

Það eina sem ég hef séð frá lögreglunni um málið er það að áverkar stúlkunnar séu ekki alvarlegir. 

Morgunblaðið á ekki að gefa villandi skilaboð í fréttum sínum.

Ég hef andstyggð á ofbeldi hvaða nafni sem nefnist. Það er hins vegar umhugsunarefni hvernig bregðast á við í málum þegar börn beita ofbeldi. Raddir hafa heyrst um að beita eigi mikilli hörku og t.d. loka árásarstelpurnar inni þar til þær verði dæmdar. Það eigi sem sé að beita þær meiri hörku en aðra í sambærilegum málum. 

Það á eftir að dæma þær. Við réttarhöldin koma öll málsatvik fram ásamt læknisfræðilegum áverkaskýrslum. Síðan dæma dómararnir. Ekki fjölskyldur og ekki bloggarar fullir af heift en ótrúlega  margir þeirra ganga af göflunum ef eitthvað ber út af í þjóðfélaginu. Og það er alltaf eitthvað að bera út af.

Læknir sagði um daginn að svona árásaratvik væru orðin algeng. 

Ég held að eitthvert þjóðfélagsmein liggi á bak við sem taka verði á.  

Harðir dómar eiga að leysa vandann er gegnumgangandi stef í bloggfærlsum. En  harðir dómar  í einstökum málum leysa ekki neinn vanda og hafa aldrei gert ef menn vilja ekki hyggja að rótum hans. 


mbl.is „Á enn langt í land með að ná sér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaður

Það ætti að verða eitthvert fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að leggja niður þetta hallærislega forsetaembætti. 

Það ætti líka endilega að leggja niður Þjóðkirkjuna á fjárlögum.

Við höfum ekki efni á neinu bruðli. 


Kosningaúrslitaspeki

Nú ætla ég að vera eins og vitringarnir sem alltaf eru að láta sitt skæra ljós skína. Segja álit mitt á kosningaúrslitunum!

Það liggur náttúrulega í augum uppi að það er vinstri sveifla. Hvernig má annað vera eftir það sem á undan er gengið. Ég held að fólk sé bara skelfingu lostið við þá nýfrjálshyggju sem alltof margir voru samt blindaðir af og Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrst og fremst fyrir. 

Margir treysta sér samt ekki til að kjósa Vinstri græna sem þeim finnst vera einum of mikill afturhaldsakommatitta flokkur.

Samfylkingin varð því fyrir valinu. 

Framsókn, sem allir héldu að væri búin að vera, græðir á nýjum formanni sínum sem er óneitanlega klár maður og viðfelldin í þokkabót. Það var masterstroke flokksins að velja hann.

Ég hef ekki mikla trú á því að Borgarahreyfingin eigi eftir að gera mikla rósir á þingi. Þetta er velviljað fólk en alltof mikið úti að aka.

Vinstri grænir hafa aldrei verið jafn innilega grænir.  Þeir segjast hafa hreinan skjöld. En það er nú bara út af því að þeir hafa ekki haft tækifæri til að óhreinka hann með setu að völdum.

Þar verður nú áreiðanlega skjót  og röggsamleg umbylting á.  

Þeir sem vonuðust eftir alvöru breytingum og raunverulegri tiltekt  í íslensku samfélagi eftir búsáhaldabyltinguna hafa auðvitað fyrir löngu orðið fyrir vonbrigðum.

Nú  heldur pólitíska atið og íslenski skotgrafahernaðurinn svo bara áfram eins og venjulega. 

Það síðasta sem ég vil gera er að binda mig á flokksklafa með þessum fíflalegu húrrahrópum fyrir forystumönnum þó reyndar hafi ég meiri samúð með stefnumálum sumra flokka en annarra. 

Stjórnmál finnst mér einfaldlega ekki áhugaverð lengur. Pólitískar breytingar ganga yfir. En við eigum innri mann sem fylgir okkur alla ævi.

Ég hef meiri áhuga á honum og öðru fólki en pólitík. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband