Færsluflokkur: Blogg

Einfalt blogg

Einfaldleikinn er alltaf bestur.

Leti

Hver nennir að blogga í sól og 18 stiga hita?

 

 


Ætti að ritskoða bloggið?

Nú er ég svo andlaus að ég á ekki orð. Ég get ekkert sagt um loftslagsmálin, fótboltamálin, kvennamálin, klámmálin eða heimsmálin. Ég er alveg tómur. 

En ég er þó á móti ritskoðun á bloggi sem sumir vilja fara að innleiða. Ef menn setja þar eitthvað sem fer út yfir einhver mörk á að mæta því með sömu aðferðum og öðru efni sem birt er opinberlega. Menn geta kvartað til réttra aðila eða jafnvel kært og svo framvegis. En ef fylgst verður með blogginu með einhverju virku eftirliti sem grípur í taumana í tíma og ótíma mun það fljótlega drepa allt spontanitet í blogginu. Það gera auglýsingar líka. Að ekki sé minnst á fégreiðslur.

Ég ætla svo í lokin að trana fram mínu eigin mikilvægi og birta veðurkort (að vísu ekki gott) frá þeim degi sem ég var í heiminn borinn en það var auðvitað í Vestmannaeyjum. 

Og  svo er það spurningin hvort ekki sé hægt að spá í veðurkort manna eins og hægt er að spá í stjörnukort manna.

Segðu mér hvernig veðrið var þegar þú fæddist og ég skal segja þér hver þú ert og hvernig örlög þín verða ráðin!

Daginn sem ég fæddist var lægð á Grænlandshafi sem olli suðvestanbarningi á landinu. Og sjá! Líf mitt hefur verið einn heljarinnar útsynningsrosi með hryðjum og hryssingi. En bjart á milli.  

Rslp19471010

 

 


Skýringar á bloggáhuga þjóðarinnar

Víkverji á Mogganum er í dag að fjargviðrast yfir bloggi:

"Sumt blogg hefur frétta- og upplýsingagildi, það hefur sýnt sig, þegar upplýstir vel tengdir menn eiga í hlut. Slíkt blogg er ágætt aðhald fyrir fjölmiðlana í landinu. Víkverji botnar aftur á móti ekkert í öllu þessu persónulega bloggi. Hvaða erindi á það við almenning? Það er sök sér ef menn eru staddir erlendis eða á afskekktum fjörðum að þeir vilji blogga um ævintýri sín fyrir sína nánustu en Víkverji skilur ekki fyrir sitt litla líf hvers vegna vandalausir hafa áhuga á kynlífsraunum vinkvenna Ellýjar Ármannsdóttir sjónvarpsþulu.

Hann virðist þó vera þar í miklum minnihluta en samkvæmt könnunum liggur íslenska þjóðin yfir þessu og öðru persónulegu bloggi daginn út og daginn inn. "

Ég held að menn bloggi og lesi blogg af því að þeir hafa gaman af því. Blogg er svo skrambi   fjölbreyttur heimur, nánast eins og bloggararnir eru margir. Það er mjög þröngur skilningur á blogginu að líta á það sem eins konar framhald af hefðbundnum fjölmiðlum sem dreifa aðallega fréttum og upplýsingum. Bloggið er ekki heldur bara skoðanir einhverra "álitsgjafa" á opinberum málefnum. Allt er þetta þó  gott og gagnlegt.

Blogg er líka leikur, skáldskapur, skemmtun. Allir skilja nema Víkverji að sögurnar um vinkonur Ellýjar Ármannsdóttur eru til dæmis hvergi til nema í hennar eigin hugskoti. 

Eitt af því skemmtilegasta við bloggið er einmitt það hvað skilin milli ímyndunar og raunveruleika, gamans og alvöru, eru þar óglögg. Það gefur fantasíunni undir fótinn. Þess vegna reka margir upp stór augu þegar opinberar persónur, vanalega svaka streit og stífar, reynast vera hinar skemmtilegustu og vingjarnlegustu persónur þegar þær fara að blogga. Þá kemur manneskjan í ljós.

Maður er manns gaman. Það er svo sannarlega í lagi að menn séu persónulegir í blogginu sinu og öðrum langi til að lesa þá alveg eins og menn litu inn hjá kunningjum sínum þegar voru aðrir tímarnir.  Það reynir þó alltaf á smekkvísi og velsæmi í bloggi eins og annars staðar í lífinu. Og veldur hver á heldur. Sumir gera allt skemmtilegt sem þeir blogga um. Aðrir gera allt leiðinlegt. 

Eitt vil ég sérstaklega nefna um bloggið og tel það jákvætt mjög. 

Það er að drepa aðsendar greinar í Morgunblaðinu.

Hvers vegna? Vegna þess að í þeim greinum hafa það verið óskráð lög að menn séu í sérstökum stellingum sem taldar eru hæfa prentuðu opinberu máli. Þær stellingar eru formlegar, stirðar og leiðinlegar. Moggagreinastíllinn er orðinn algjörlega úreltur. Allir skemmtilegustu pennarnir eru löngu farnir að blogga og þar geta þeir verið miklu frjálsari og beinskeytari en hægt er að vera í blaðagreinum.

Þjóðin liggur í blogginu fyrst og fremst af því að Mogginn er orðinn svo fjandi leiðinlegur!  

 


Framúrstefnubloggarinn

Ég las á einni  bloggíðu að gamaldags bloggarar bloggi bara um það sem þeim dettur í hug. Þá varð mér allt í einu ljóst hve hrikalega nýtískulegur framúrstefnubloggari ég er. Mér dettur nefnilega aldrei neitt í hug.

Samt er ég að blogga og sómi mér bara vel innan um alla hina. Flestir eru þeir álíka moderne og ég og dettur heldur aldrei nokkur skapaður hlutur í hug. En einstaka eru þó fornir mjög í skapi og blogga og blogga um allt það sem þeim dettur í hug.

Og það sem þeim dettur í hug!


Allt í gamni

Maður trúir því varla að næstum því sex þúsund manns séu að blogga á Mogganum. Mér líst samt ekkert á þessa stefnu sem Moggabloggið er að taka með því að samtvinna það svona sterkt blaðinu sjálfu og reyna beinlínis að stýra því inn á þær brautir að verða þjóðmálablogg, eins konar absúrd framhald af Staksteinum.

Blogghundurinn er einhver orðfimasti og beittasti bloggarinn á Mogganum. Hann hefur sagt um bloggið: „Blogg er markaðstorg, málfundur, samkvæmi, skæruhernaður og ótal margt fleira - en aldrei kyrrstæð skotgrafastyrjöld þar sem hugmyndir frjósa í hel í leðjunni."      

Það má ekki gerast að pólitísk hugmyndafátækt eins og hún er stunduð á Íslandi traðki þessa blómlegu starfsemi í svaðið með leðjuslag.

Hvaða blogghundur skyldi þetta annars vera ? Mig grunar reyndar hver hann er. Hann hefur lesið mikið af bókum, er ósvífinn og óhræddur og áreiðanlega landsþekktur gjammari á mörgum sviðum. En ég þori ekki að nefna nafnið hans af ótta við að það boði tíu ára ógæfu og líka vil ég endilega virða friðhelgi einkalífsins í hundakofanum. Kannski verður blogghundurinn líka óvinur minn ef ég giska rétt á hann.

Meðal annarra orða: Er ekki hægt að stofna til bloggóvina á blogginu? Eru vondu gæjarnir ekki alltaf miklu skemmtilegri og meira intresannt en góðu gæjarnir? 

Eins og hinn vitri maður sagði: Segðu mér hverjir óvinir þínir eru og ég skal segja þér hvers konar óþokki þú ert.

 


Bloggað og blaðrað

Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur skrifar grein í Kistuna um blogg.  Af henni mættu víst margir lærdóm draga. Ekki síst sá er hér bloggar. Hvað ætli Vésteinn mundi kalla hans blogg? Viskublogg? Dellublogg? Sérviskublogg? Bloggelíblogg?

Það er ekki gott að segja. 

En spurningin er: Afhverju í ósköpunum fer Vésteinn ekki sjálfur að blogga? 

Það yrði nú aldeilis fjör.  


Bloggið og ég

Ég vissi ekkert um blogg fyrr en í mars síðastliðnum. Þá sendi einn kunningi minn mér part af bloggsíðu sem hann hafði fundið á netinu. Þar var látið svo lítið að nefna mig óverðugan og var vel um mig talað. Það gera nú ekki allir. - En flestir samt.

Ég byrjaði að blogga í haust, mjög óreglulega í fyrstu, en frá 1. desember á hverjum degi. Það voru vinir mínir sem hvöttu mig til að fara að blogga. Þeir héldu að ég væri alveg rétta týpan í það, kjaftfor mjög en hefði þó ekkert að segja. Og ég lét til leiðast. Fór að blogga. En ég verð að viðurkenna að fyrst og fremst freistaði það mín að geta sett inn á netið ýmsar upplýsingar um veðrið, sem ég hef víst alveg á heilanum, er hreint ekki liggja á lausu í þjóðfélaginu yfirleitt.

Ég fór á Moggann af því það var auðveldast, allt á íslensku og tilbúið fyrir mann. Ég er svo ótrúlega vitlaus að ég ræð ekki við annað. En ég er enginn gæðingur Moggans eða nokkurs annars. Það var sagt á einhverri útvarpsstöð að það séu bara gæðingar Moggans sem koma stundum upp í völdum blöggum. Þó ég hafi verið þar annað veifið fyrir blessuð jólin er ég samt enginn gæðingur. Fremur að ég sá hálfgerð trunta.    

Mér finnst ekki sérlega gaman að blogga. Ég get mjög vel án þess verið.

Þegar síðan mín hrökk úr gír í árslok og lá niðri í tvo daga var ég kominn í 24. sæti hjá vinsælustu bloggurunum og trúði varla mínum eigin augum. Ég er á móti vinsældum og samkeppni í bloggi. Sjálfur les ég lítið af bloggi. Skemmtilegustu bloggin finnst mér vera þegar skemmtilegur karakterar koma fram á síðunni í sæmilega læsilegum texta. En ég er ekki á móti neinum sem blogga.

Ég las einhvers staðar á bloggi að Moggabloggið væri MacDonaldið í blogginu. Er ég þá virkilega hamborgari? Kannski tvöfaldur eða þrefaldur? RISABORGARI?  Nei, fjandakornið.  Ég held ég sé bara ósköp venjulegur einfaldur smáborgari en kannski með smávegis remúlaði eða gúmmelaði.

Og nú ætla ég að upphefja egóið svolítið eins og bloggarar eiga víst að gera. Einhver bloggi sem nefnir sig Chien Andalou  (sem er nafn á frægri stuttmynd eftir Bunuel)  - og ég kann ekki enn að gera þetta eins og alvöru bloggarar - http://blogdog.blog.is/blog/blogdog/ valdi mig á gamlársdag einn af fimm bestu bloggurunum á Moggablogginu. Sagði að ég væri gullpenni og skemmtilega sérvitur. Ég sem hélt ég væri eiturpenni og alveg óbærilega leiðinlegur. En ég er enginn andskotans sérvitringur! Mér finnst bara gaman af gömlum veðurskrám og því meira sem þær eru eldri og öllu þokkalegu fólki algjörlega framandi.  

En hver skyldi hann vera þessi bloggi eða blogga Chien Andalou? Eftir skrifum hans að dæma er hann eða hún skýr og skarpur bloggari og virðist hafa innsýn í ýmislegt. Hann fattar jafnvel mig. Ég hef á tilfinningu að þetta sé kona, kannski glæsikvendi. En ef þetta er ekki kona þá er þetta líkast til karlmaður.

Ég vænti svo einskis á þessu ári. En er samt við öllu búinn.


Byrjenda blogg

Sá sem hér hefur síðustu daga verið að brölta sín fyrstu bloggspor lét skrá  sig inn með síðuna 20. júlí í glaðasólskini og blíðu í ofur bjartsýniskasti. En þegar hann sá eitthvert óskiljanlegt stjórnborð  og aðrar hremmingar sem hann botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í missti hann gersamlega móðinn, hrökklaðist öfugur út af síðunni og örvænti mjög um sinn blogghag. Hann beið svo hnugginn og hnípinn næstu vikur eftir vini sínum sem hafði lofað að leiða hann um alla leyndardóma bloggsins. En sá góði mann gleymdi sínu loforði og fór á fyllerí í útlöndum. Og bloggbusinn snérist bara ráðalaus um sjálfan sig. 

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Einn morgun fyrir viku var því eins og hvíslað að bloggaranum að kíkja nú aftur smávegis á bloggsíðuna sína. Og viti menn! Allt í einu lá honum í augum uppi að það væri ekki minnsti vandi að blogga. Það geti nú bara hvaða fæðingarhálfviti sem er. 

Og nú bullar upp úr honum óstöðvandi bloggbunan frá morgni til kvölds. Flest af þvi er engan vegin birtingarhæft og er því vandlega dulkóðað hér á síðunni. Afganginn getið þið lesið.  

Þetta eru þó bara einfaldar byrjendaæfingar. Ekki svo að skilja að bloggarinn stefni að því að verða einhver þungavigtarmaður í bloggelíblogg. Öðru nær. Hann ætlar sér þvert á móti að verða bara vesæll léttfjaðurvigtarmaður  í blogginu sínu og mun einskis svífast til að ná því göfuga takmarki!       


Blogg, blogg, blogg

Íslendingar skíttöpuðu sem betur fer fyrir Dönum í landsleiknum í fótbolta. Það hefði líka orðið félegt ef við hefðum unnið glæstan sigur, segjum 14:2. Þá hefði örugglega orðið ferlegt fjöldafyllerí út um allan bæ svo kalla hefði til margar víkingasveitir með alvæpni til að berja á bullunum. Blóðið hefði streymt um götur og torg og Geir Jón farið fullkomlega á límingunum.  

En allt fór þetta betur en áhorfðist. Og þetta var alveg yndislegur dagur. Blessuð blíða og ég byrjaður að blogga. Það gerist nú ekki á hverjum degi. Bara í dag.  Aldrei aftur. Aldrei í lífinu. En á morgun verður þó enn þá meira gaman. Djöfull skal ég þá blogga. Og hinn daginn. Og alla mína daga þar til yfir lýkur. Vinir mínir og einstaka óvinir segja að ég verði áreiðanlega með elstu mönnum. Það er því mikið æviblogg framundan. Blogg alla morgna. Blogg alla eftirmiðdaga. Blogg öll kvöld. Blogg allar nætur. Blogg, blogg, blogg!

Og guð gefi mér kæruleysi til að blogga aldrei að yfirlögðu ráði heldur ávallt fullkomlega umhugsunarlaust og út í hött.

Þegar ég hafði rétt sett punktinn aftan við þessa ódauðlegu línu kom Trausti Jónsson og færði mér bunka af gömlum embættismannabréfum um þau skelfilegu harðindi og óárán sem alltaf voru í gamla daga áður en blessuð gróðurhúsáhrifin voru fundin upp. Þá átu kindurnar gorið úr hverri  annarri og þótti gott. Aumt var að sjá Árna Finnsson og þennan aulalega efnafræðing sem var með honum í gær í Kastljósinu að ræða myndina eftir Al Gore um gróðurhúsáhrifin. Var ekki hægt að fá einhvern harðvítugan veðurfræðing á móti Árna?

Við Trausti fórum svo á Kaffi Mílanó. Við ræddum um veðrið. Og líka heilmikið um lífið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband