Færsluflokkur: Blogg

Víkverji um blogg

Víkverji á Morgunblaðinu segir þetta í dag um blogg og bloggara:

"Víkverji sér ansi oft vitnaði í blogg í fjölmiðlum. Hann getur ekki séð að menn hafi þar ýkja mikið fram að færa. Mest eru þetta skammir eða raus á fremur illa skrifaðri íslensku. Það er eitthvað sérlega dapurlegt við það að fólk sé farið að eyða mörgum tímum á dag í að kynna sér þessi ómerkilegu skrif. Fólk ætti að taka sér góða bók í hönd eða horfa á fugla himinsins, fremur að eyða þeim í leit að vitleysislegum og síst mannbætandi skrifum á netinu."

Alveg er ég hjartanlega sammála Víkverja en bendi á með fágætri auðmýkt og lítillæti að það er svo sem hægt að rausa og skammast líka á hinn vitleysislegasta hátt í blöðunum á óprenthæfri íslensku og það jafnvel nafnlaust eins og huglausustu og ómerkilegustu bloggararnir. 

Það sannaar grein Víkverja.


Kemur þægilega á óvart

Það hefur vakið mér undrun hvað margir nenna að lesa bloggið mitt eftir að það breyttist í vissa tegund af veðurbloggi og ég lagði niður allt ónytjungshjal og aumlegt þvaður.

Furðu margir af hysterískum aðdáendum mínum hafa því reynst vera vitsmunaverur eftir allt saman.

Það kemur mér þægilega á óvart!


Orð í tíma töluð

Mikið lifandis skelfingar ósköp er leiðinlegt að blogga.

Og á Moggablogginu eru saman komnir mestu hálfvitar sem safnast geta saman.

Gefið gaum að orðum hins vitra manns.

Vísið þeim eigi út í hafsauga með skammsýni og drembilæti.

Sjá ég boða yður lítinn fögnuð:

Bloggið er búið að vera.   


Siggablogg

Þetta blogg er ekkert andskotans Moggablogg.

Það er Siggablogg! 


Skoðanir um blogg

Guðmundur Andri Thorsson skrifar ágætan pistil í Fréttablaðið á mánudaginn um bloggið. Hann bergmálar nokkrar þær skoðanir sem ég hef heyrt frá menntamönnum um það. Menntamenn og listamenn virðast hafa sterka tilhneigingu til að líta niður á bloggið. Í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu við Ármann Jakobsson, mikinn bloggara, lét hann þess til dæmis getið að bloggið nyti lítillar virðingar. Hann er sjálfur menntamaður og er eflaust að miða við sinn hóp. Fyrir ekki löngu síðan sagði Þröstur Helgason frá gagnrýnandaþingi að þar hefði verið litið niður á bloggið. En hann kom því til varnar og sagði að svipað neikvætt viðhorf hefði verið til flestra nýjunga, svo sem símans.

Guðmundur Andri segir að bloggurum hætti til að gleyma að bloggið sé fjölmiðill. En samt ekki alveg. Bloggið sé bæði opinber og einkavettvangur.

''Þetta er eins og eintal sálarinnar í hátalara. Það er eins og prívatboð í bás í Laugardalshöllinni. Það er eins og játning í kallkerfi. Við getum líka snúið þessu við og sagt að það sé eins og ræðuhöld yfir kettinum heima í eldhúsi eða viðtal í baðspeglinum.´´

Guðmundur Andri segir líka að bloggarinn sé einn með sjálfum sér og sjái aldrei orð sín í samhengi eins og þegar menn sjá skrif sinn í dagblaði innan um skrif annars fólks. Kringumstæðurnar á bloggsíðu séu einkalegar þó utanaðkomandi fólk geti lesið það. Honum finnist samt stundum að þó utanaðkomandi fók sé velkomið að skoða séu pistlarnir fyrst og fremst skrifaðir fyrir tiltekið samfélag. ´´Það hvarflar ekki að manni að skilja sjálfur eftir athugasemd, þá er eins og maður sé  staðinn að verki.''

Loks gerir Guðmundur Andri talsvert með það að á bloggi sé ekki raunveruleg nánd heldur  aðeins gervisnerting líkt og Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur verið að halda fram. Og þegar þetta er sagt er það nú ekki hrós um bloggið. Það er litið á það sem gerviveröld.

Það er heldur varla hægt að segja að stórkarlalegar lýsingar Guðmundar Andra á blogginu lýsi mikilli virðingu í þess garðs. Játningar í kallkerfi eru auðvitað ósköp hjákátlegar.

Hvað má annars segja um starf rithöfundar? Hann skrifar bók sína aleinn og þegar hún kemur út er hún orðinn að opinberum vettvangi sem menn lesa nánast alltaf í einrúmi. Það er  svona eins og rithöfundurinn sé að berhátta sig í einrúmi fyrir allra augum. Blogg les hver og einn yfirleitt í einrúmi þó bloggsíðan sem hann er að lesa sé opinber vettvangur. Alveg eins og bókin.  Það sem er ólíkt með bók og bloggi er það að menn geta ekki látið rithöfundinn vita hvernig lesandanum finnst bókin - fyrr en bloggið kom til sögunnar en þar geta menn rakkað niður höfundinn eða hafið hann upp til skýjanna eins og hverjum og einum lystir. 

Bók og blogg eru náskyld fyrirbæri: einkavettvangur sem gerður er að almannarými.

Það er rétt að kringum hvern bloggara myndast ákveðið samfélag skyldra sálna alveg eins og í mannlífinu. Við rottum okkur saman  eftir því hvernig okkur líkar viðkomandi manneskja eða þá viðkomandi bloggari. En á þessu eru ýmis afbrigði af því að blogg er lifandi miðill. Þegar ég blogga um eitthvað sem gerist í samfélaginu og vekur mikla athygli fæ ég kannski yfir 2000 lesendur á einum degi. Það segir að margir eru að koma inn á síðuna sem ekki eru að öllu jöfnu í mínu bloggsamfélagi. Þegar ég blogga bara um hann Mala lesa mig miklu færri og líklega bara mínir föstu hysterísku aðdáendur en þegar ég blogga um veðrið koma bara þeir sem eitthvað vit er í! Og þeir eru nú ekki margir! Það er því mála sannast að bloggarinn getur að nokkru leyti valið sér samfélag.

Það myndast líka samfélag um rithöfunda. Það kemur bara ekki eins vel í ljós og á blogginu. Ég held að samfélagið um t.d. Gyrði Elíasson sé einsleitt og sérviskulegt og æði fámennt.

Það er einna mest sjarmerandi við bloggið er einmitt  að það er sambland af einkaveröld og opinberum vettvangi. Sams konar fyrirbæri hefur aldrei áður verið til og það býður upp á marga möguleika sem óþarfi er  að tala niðrandi um. Það gerir til dæmis fólki fært að koma ýmsum upplýsingum á framfæri sem ella væri ómögulegt. Nærtækt er að benda á veðurfarsupplýsingar mínar. Þær eru að vísu ekki mikið lesnar en þær eru þarna samt og menn geta leitað í þær ef þeir vilja og þær eru reyndar ástæðan fyrir því að ég blogga yfirleitt.

Alltof mikið er gert úr því hvað tengslin á blogginu eru yfirboðsleg. Þau eru samt miklu nánari en tengsl greinahöfunda í blöðum og lesenda. Þar eru engin tengsl. En það er eitt af því einkennilegasta og skemmtilegasta við bloggið að þar skapast stundum raunveruleg tengsl sem menn færu ella á mis við. Í fyrra sumar heimsótti ég til að mynda konu á Krít sem ég hafði aldrei séð en bara þekkt gegnum bloggið. Þegar til kom reyndust kynnin á blogginu nákvæmur fyrirboði um  það hvernig kynnin urðu í raunveruleikanum. Á blogginu geta skyldar sálir fundið hverjar aðrar í raun og veru. Það eru ekki endilega gervitengsl. Það þykir bara fínt og menntamannslegt að segja svoleiðis.

Kvartað er yfir því að bloggið sé sjálfhverft. Auðvitað!  Af því að við erum öll sjálfhverf. Sú sjálfhverfa hefur bara ekki fundið sér jafn kjörinn opinberan vettvang og bloggið. Sjálfhverfan þar er þó ekkert verri en gengur og gerist annars staðar í lífinu.

Bloggið býður upp á marga möguleika. Þar er hægt að skrifa pistla í hefðbundnum blaðagreinastíl um almenn málefni. Jafnvel fræðigreinar er hægt að setja á blogg. En þar er líka hægt að gera að gammi sínu á opnari og persónulegri hátt en á öðrum fjölmiðlum. Ennþá  er bloggið frjálsasti og skemmtilegasti fjölmiðillinn og ástæða til að berjast með kjafti og klóm fyrir því að svo verði áfram. Skárra er að einhverjir fari þar offari heldur en að á bloggið verði komið eins þéttum böndum og á aðra fjölmiðla. Þessi þróun er þó að miklu leyti kominn undir bloggurunum sjálfum.

Það er rétt hjá Guðmundi Andra að blogg líkist nokkuð því þegar menn áður fyrr voru að líta við hjá kunningjum sínum. Slíku atferli er vel lýst í bók Péturs Gunnarssonar ÞÞ í fátæktarlandi. En nú eru breyttir tímar. Menn eru að mestu hættir að líta við hjá hverjum öðrum enda er margt annað í boði til skemmtunar. En bloggið er í raun og veru að endurskapa þessi skemmtilegu kunningjaboð með þeirri breytingu þó að engum er í raunini úthýst eins og er í flestum vinaboðum. Guðmundur Andri þarf því ekki halda að hann sé boðflenna þó hann geri athugasemdir hjá mér eða öðrum bloggurum. Þá fyrst færi nú að færast fjör í leikinn! 

Það merkilegasta við bloggið er samt það að það hefur gefið mörgu fólki tækifæri til að láta rödd sína heyrast sem ella hefði aldrei heyrst. Það er heilmikið mál að skrifa t.d. blaðagrein og brjótast í að fá hana birta eftir dúk og disk. Það er aðallega viss manntegund sem stendur í slíku. Fólk sem heldur að skoðanir þeirra séu svo afskaplega mikilvægar að halda að samfélagið geti ekki án þeirra verið. Höfundar þessara greina eru oft áberandi og þekktar persónur, þær sömu aftur og aftur, oft í áhrifastöðum eða þrautþjálfaðir pennar, stjórnálamenn af ýmsu tagi, menntamenn og aðrir sem lengi hafa verið að móta skoðanaheiminn eins og heimaríkir hundar. Þeir eru líka algengir í útvarps-og sjóvarpsþáttum  

Og hér komum við að því hvers vegna svo virðist sem menntamenn ýmis konar og listamenn líti niður á bloggið. Sönnunin fyrir því að þeir geri það kemur ekki síst fram í því hve fáir þeirra blogga þó einstakir þeirra geri það vitaskuld. Þessir menn hafa haft opinbera vettvanginn fyrir sig í blöðunum, útvarpinu og sjónvarpinu. Nú nenna menn varla að lesa hefðbundna blaðagreinar af því að hin viðurkenndi og hefðbundni blaðagreinastíll er svo fjandi leiðinlegur. En margir ómenntaðir og iðulega nánast óskrifandi bloggarar eru lesnir upp til agna af því að þeir hafa samt ýmislegt að segja. Valdahlutföllum í opinberum skoðanaheimi hefur þannig verið raskað. Þeir sem eru að missa völd sín fyllast eðlilega andúð og fyrirlitningu í garð þeirra sem eru að sölsa völdin undir sig.

Skylt þessu er sú óvild sem andar til Moggabloggsins frá ýmsum þeim sem utan við það standa. Áður en Moggabloggið byrjaði voru all margir að blogga. Það var samt fremur svona menntað lið, oft mjög þjóðfélagslega sinnað og fannst það vera í grasrótinni og allt hvað þetta hefur. Það myndaði mörg og ótrúlega sjálfumglöð skjallabandalög sín á milli. Þetta var furðulega lokaður heimur þó hann væri samt á opinberum vettvangi. Maður hafði líka sterklega á tilfinningunni að hann væri mikið mengaður af vímuefnarugli. Þetta voru bar-rónar mestan part og ölþambarar en samt af fínni sortinni.  

Moggabloggið hefur hins vegar opnað allt upp á gátt og gert bloggið sýnilegra en nokkru sinni fyrr. Gömlu bloggararnir í skjallabandalögunum finnst sem þeir hafi verið sviknir. Sú þróun hefur þó orðið ofan á að Moggabloggið hefur æ meira þróast í það að verða alþýðublogg, eða plebbablogg vilja sumir meina. Mörg þekkt andlit af gömlu tegund skoðanaálitsgjafa hafa yfirgefið Moggabloggið og byrjað að blogga annars staðar. Moggabloggið er orðið blogg fyrir alþýðuna, pöpulinn, plebbana eða hvað við viljum kalla það.

Auðvitað eru þetta miklar alhæfingar hjá mér en ég held að ég hafi samt nokkuð til míns máls.

Sjálfum hefur mér boðist að flytja mig á tvö önnur bloggsetur. En ég hika við. Ég  er vís með að lenda í vandræðum með veðurbloggið og ritkerfið hjá Mogganum er mjög einfalt og gott þó það mætti batna. En síðast en ekki síst þá sómi ég mér bara skrambi vel með alþýðunni og pöplinum eða bara helvítis  plebbunum.    


Veit nokkur

Hver fyrstur byrjaði að blogga á Íslandi og hver á nú lengstan bloggferilinn?

Og veit nokkur hvenær Moggabloggið byrjaði upp á dag?


Lifi ferskleikinn!

Auðvitað á hver maður að vera ábyrgur orða sinna í öllum mannlegum samskiptum.

Bloggið er tiltölulega nýr miðill þar sem bloggarinn er sjálfur sinn eigin ritstjóri.

Menn þurfa kannski dálítinn tíma til að átta sig á þeim miðli.

Ég vona samt að bloggið verði aldrei jafn tamið og leiðinlegt og dagblöðin og tímaritin.

Það sem gerir vel skrifað blogg, og aðeins vel skrifað blogg, svo frjálsegt og skemmtilegt er einmitt það hvað það leyfir sér að tefla á tvær hættur stílslega séð.

Þennan ferskleika þarf að vernda ef bloggið á ekki að verða eingöngu lágkúra. Nóg er af henni á bloggi í ýmsu formi en þar er líka ýmislegt annað. Það er líka nóg af lágkúru og flatneskju í blöðunum, hún er bara viðurkennd og samþykkt, ekki síst í ritstjórnargreinunum sem eiga samt víst að vera voða virðulegar.  

Við skulum vona að bloggið eigi aldrei eftir að breytast í ómerkileg lítil einkadagblöð. 

Lifi ferskleikinn!

Ég er algerlega andvígur því að utanaðkomandi öfl gefi fordæmi um það hvernig bloggheimurinn eigi að haga sér. Hann á að gera það sjálfur. Síst af öllu á stóri bróðir að segja honum fyrir verkum.


Botnhreinsun

Þessi bloggsíða er nú í botnhreinsun.

Bloggsiðir

Í gær skrifaði einn vinsæll bloggari um vel afmarkaðan hóp manna að þeir væru vitleysingjar. Ég kom með athugasemd um það hvort þeir væru  nokkuð meiri vitleysingjar en hann sjálfur.

Hann tók út athugasemdina.

Það þykir sem sagt sjálfsagt á bloggi að kalla aðra þeim lítilsvirðingarorðum sem menn þola ekki um sjálfa sig.


Botninn

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, sem ætti reyndar að liggja í augum uppi, að bloggið er botnfall mannlífsins.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband