Færsluflokkur: Heilbrigðismál
21.6.2012 | 14:25
Mannslíf eru í húfi
Gunnar Gíslason sérfræðingur í hjartasjúkdómum, telur að banna eigi eitt algengasta verkjalyf sem ávísað er á gigtarsjúklinga. Lyfið er talið valda dauða meira en eitt hundrað Dana á ári hverju. Svo segir í fréttinni í hádeginu í Ríkisútvarpinu og hér er vísað til.
Það má slá því föstu að fjölmargir Íslendingar hafi í góðri trú tekið lyf úr þessum hættulega lyfjaflokki árum saman án þess að hafa nokkurn grun um hætturnar. Enda veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi verið varað við þessum lyfjum hér á landi.
Áreiðanlega eru þeir líka margir sem tóku fyrst lyfið víox, sem tekið var af markaði vegna þess hve hættulegt það er, en hafa síðan tekið þessi lyf sem Gunnar telur einnig lífshættuleg. Þeirra á meðal er ég.
Hvers eiga sjúklingarnir eiginlega að gjalda?
Hvað hafa þessi lyf valdið miklum skaða hér á landi eða dauðsföllum? Í hverju er hættan fólgin? Hverfur hún þegar töku lyfjanna er hætt eða veldur notkun þeirra um einhvern tíma varanlegum skaða í líkamanum?
Gunnar Gíslason segir að læknar ávísi ''þessum lyfjum af gömlum vana og að varnaðarorð frá yfirvöldum nái ekki eyrum þeirra''.
Eftir orðanna hljóðan, hvað segja þau um árverkni, ábyrgð og virðingu lækna fyrir lífi sjúklinga sinna? Eða er Gunnar bara að rugla?
Og hvað svo? Birtist þessi frétt, kannski aðeins í Ríkisútvarpinu, bara sisvona án þess að nokkrar umræður eða aðgerðir komi í kjölfarið?
Viðbót 24. 6.:Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var skýrt frá því að íslenskir læknar ávísi fjórum sinnum meira af þessum lyfjum en danskir læknar og meira en aðrir læknar á norðurlöndum. Þrjátíu og fimm þúsundir taki hér þessi lyf. Sagt var líka að ekki væri von á neinum bráðum aðgerðum vegna þessa.
Hvað þarf eiginlega til?
Heilbrigðismál | Breytt 24.6.2012 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2008 | 13:52
Ómarkviss grein yfirlækna á geðsviði Landsspítalans í Morgunblaðinu
Tveir yfirlæknar á geðsviði Landsspítalans, Halldóra Ólafsdóttir og Bjarni Össurarson, ávíta í gær Stöð 2 og Kompás fyrir umfjöllun um sjálfsvíg í grein í Morgunblaðinu. Ekki hafa læknarnir fyrir því að nefna dagsetningar þessara umfjallana svo menn geti kynnt sér þær. Þetta er alvarleg hroðvirkni. Eða er það kannski bara meðvitað kænskubragð sem gerir þeim auðveldara að koma höggi á þessa miðla í þeirri von að fólk taki orð þeirra trúanleg án þess að vita hvað á bak við þau leynist? Það geti þá ekki séð með eigin augum hvort umfjöllunin hafi verið í ''hróplegri mótsögn við ráðleggingar til fjölmiðla um umfjöllun vegna sjálfsvíga sem gefnar hafa verið út á alþjóðavettvangi...''eins og læknarnir segja í greininni.
Læknarnir virðast líta á þessar ráðleggingar sem einhvern óyggjandi æðstadóm um það hvernig fjölmilar eigi að fjalla um sjálfsvíg. Reyndar er hér um að ræða ráðleggingar heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna en ekki neina alþjóðlega samþykkt. Ýmislegt er í ráðleggingunum sem enginn ástæða er til að fallast á gagnrýnislaust. Ég nefni sem dæmi að á einum stað er sagt að 90 % þeirra sem fremji sjálfsvíg séu haldnir geðrænum sjúkdómum sem stundum hafi þó ekki verið greindir og er þar vísað til einhverra rannsókna. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvernig í ósköpunum rannsakendurnir viti að einhverjir hafi verið geðveikir úr því þeir voru ekki greindir. Er það ekki vegna þess að hið sjálfvirka viðbragð heilbrigðisstétta við sjálfsvígum er að stimpla umhugsunarlítið verknaðinn sem einkenni um geðsjúkdóm? Oft hef ég skrifað gegn því sjónarmiði en auðvitað kemur það fyrir ekki. Og þó! Ég man alltaf þegar geðhjúkrunarfræðingur einn, doktor í fræðunum, þakkaði mér fyrir eina slíka grein og var mér innilega sammála. En slíkar raddir fagfólks koma tæplega fram opinberlega vegna skoðanakúgunar í fámennu samfélagi þeirra.
Þessi grein yfirlæknanna í Morgunblaðinu er ágætt dæmi um það hvernig geðlæknar reyna að þagga niður alla umræðu um sjálfsvíg sem fer ekki eftir þeirra kokkabókum. Fyrst og fremst er hún þó skrifuð til að amast við þeirri gagnrýni sem þeir telja að sé á geðddeildir í þeirri umfjöllun fjölmiðlanna sem þeir vísa til. Þeir nefna þó ekki í hverju sú gagnrýni er fólgin og svara henni því í engu efnislega. Þess í stað reyna þeir með viðeigandi orðalagi að koma óorði á fjölmiðlanna, draga úr trúverðugleika þeirra, með því að gefa í skyn að umfjöllun þeirra hafi verið lituð af fordómum, fáfræði, neikvæðni og æsifréttamennsku. Þeir bæta við í sama dúr: ''Ítrekuð, neikvæð og beinlínis villandi fjölmiðlaumræða hlýtur að draga úr tiltrú fólks á því að aðstoð sé að finna.'' Það er sérlega ógeðfellt við málflutning geðlækna um sjálfsvíg að þeir reyna að kúga samfélagið til hlýðni við eigin sjónarmið með því að gefa í skyn að annars konar umræða kunni að valda aukningu á sjálfsvígum.
Hvergi nefna greinahöfundar, þessir yfirlæknar sem áreiðanlega vilja láta taka sig mjög alvarlega, raunveruleg dæmi um þessa neikvæðu umræðu um sjálfsvíg sem þeir eru að hneykslast á, eru aðeins með óljósar ábendingar. Öll greinin er í þessum hoðvirknisstíl að viðbættu almennu hjali um geðsjúkdóma. Hún er fyrst og fremst gossip. Greinin er þó skrifuð í hefðbundnum geðlæknastíl sem á yfirbragðinu virðist rólegur og trúverðugur. En menn mega ekki láta blekkjast af stílblæ texta og halda að ákveðinn rólyndisstíll sé sama og trúverðugleiki í hugsun. Trúverðugleiki hugsunar felst í skýrleika hennar, gagnsæi og skynsemi, en ekki í stílfræðilegu yfirbragði. Grein geðlæknanna er fremur subbuleg í hugsun sem best sést á þeirri ónákvæmni í vísunum til þeirra umfjallana fjölmiðla sem þeir gera að umtalsefni eins og ég var að benda á.
Hvað fordóma um geðsjúklinga varðar ættu menn að lesa bókina Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson. Það er beinlínis hryllilegt að lesa þar um fordóma og hrokafullt yfirlæti geðlækna til sjúklinga sinna gegnum árin og hvernig þeir hafa lengst af mótað neikvæða afstöðu samfélagsins í þessum efnum. Geðlæknar ættu því ekki að kasta steinum til fjölmiðla úr glerhúsi hvað fordóma varðar.
Aðalatriðið í þessu máli er þetta:
Geðlæknar geta ekki sagt fjölmiðlum eða öðrum fyrir verkum um það hvernig þeir fjalla um sjálfsvíg. Þeir hafa svo sannarlega ekki úr háum söðli að detta í þeirri umræðu.
Heilbrigðismál | Breytt 15.12.2008 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.12.2008 | 13:21
Hvað er mannlegt líf?
Það er skylda lækna að bjarga mannslífum. En hvað er þá mannlegt líf?
Er það ekki að vera karakter, jafnvel þó takmarkaður væri vegna veikinda eða bæklunar, sem er í einhvers konar tengslum við umheiminn? Manneskja sem er í dái og getur ekki einu sinni andað án öndunarvélar er ekki lengur neinn karakter, manneskja, aðeins vélræn líkamsstarfsemi án vitundar.
Hver er eiginlega meiningin að halda slíkum líkama gangandi í 28 ár?
Mér finnst að við þannig aðstæður sé tæknin, það að hægt er yfirleitt að halda slíkum skrokki gangandi, farinn að snúast í rauninni gegn lífinu.
Martha von Bülow látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2008 | 13:18
Bloggað um frétt
Nú ætla ég að blogga um frétt sem er á netsíðu Morgunblaðsins en ekki er gefinn kostur á að blogga um. En það er ýmislegt athugunarvert og eiginlega hneykslanlegt við fréttina. Hún er svona:
Röng greining: Ungt barn lést í sjúkrabíl í þriðju ferð til læknis
Barn lést eftir að botnlangi þess sprakk en þá höfðu foreldrar þess farið með það tvívegis til læknis en í bæði skiptin voru þau send heim. Þegar barninu hrakaði kom nágranni fólksins að sem er sjúkraliði og hringdi á sjúkrabíl. Barnið dó á leið á sjúkrahúsið en banamein þess var blóðeitrun vegna sprungins botnlanga. Atvikið átti sér stað í síðstliðnum mánuði.
Málið í nánari skoðun
Miðað við þær upplýsingar sem við höfum frá læknum Landspítala var hér um mjög óvenjulega sjúkdómsmynd að ræða og ekkert sem bendir til að aðstandendur eða læknar hefðu átt að bregðast öðruvísi við en gert var," segir Kristján Oddsson, yfirlæknir hjá landlæknisembættinu. Þá virðist eftirfylgni við aðstandendur hafa verið góð en við eigum von á skýrslu frá Landspítalanum og munum þá skoða málið nánar," segir hann og ítrekar að hin óvenjulega sjúkdómsmynd hafi dulið hið alvarlega ástand með ofangreindum afleiðingum.
Gott aðgengi skiptir máli
Sem betur fer er það mjög sjaldgæft að fólk deyi vegna afleiðinga sprungins botnlanga," segir Niels Christian Nielsen, lækningaforstjóri á Landspítalanum, og bætir við að gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli.
Frétt lokið.
Það sem er athugunarvert og eiginlega hneykslanlegt við fréttina er hvað þeir læknar sem talað er við gera sem allra minnst úr málinu. Það er til dæmis undarlegt að blanda viðbrögðum aðstandenda við sjúkdómnum inn í málið. Ábyrgðin er eingöngu læknanna. En þarna er verið að drepa þeirri ábyrgð á dreif með lævíslegum hætti.
Viðbrögð læknanna einkennast af undabrögðum. Lækningarforstjóri Landsspítalans áréttar að mjög sjaldgæft sé að fólk deyi af völdum sprungins botnlanga. Slík yfirlýsing hefur ekkert gildi þegar manneskja var einmitt að deyja af þessum sökum. En svona er sagt til að deyfa ábyrgð læknisins eða læknanna sem tvisvar skoðuðu sjúklinginn, en ekki kemur fram hvort hann eða þeir voru á vegum spítalans. Níels Christian segir líka að gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli. Hann virðist ekki ná því hve kaldhæðnislega smekklaus sú yfirlýsing hljómar þegar um er að ræða dauða sjúklings sem tvisvar hafði haft þennan líka prýðilega aðgang að læknisþjónustu sem kom þó fyrir ekki. En það sem læknarnir forðast eins og heitann eldin að nefna þó það æpi framan í lesanda fréttarinanr er það að eitthvað verulega ábótavant hefur verið við þá heilbrigðisþjónustu.
Kristján Oddson yfirlæknir hjá Landlæknisembættinu gerir mikið með það að um óvenjulega sjúkdómsmynd hafi verið að ræða sem hafi dulið hið alvarlega ástand. Þetta virkar sem auðvirðileg afsökun. Eiga læknar ekki að geta tekist á við lífshættulega óvenjulegar sjúkdómsmyndir, bara þær sem venjulegar eru? Reyndar er ekki annað að skilja af orðum Kristjáns en að allt hafi verið í himnalagi í málinu á öllum sviðum. Í ljósi alvarleika málsins er slík afstaða ekki bara hrokafull heldur beinlínis forhert.
Kristján er starfsmaður Landlæknisembættisins og orð hana gefa skýran fyrirboða um það að "rannsókn" embættisins mun komast að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugunarvert við málið. Enginn læknir mun þurfa að taka ábyrgð á dauða barnsins. Ekki einn einasti. Þeir munu allir halda áfram störfum sínum með óskertum launum og óskertri virðingu. En foreldrarnir munu syrgja. Læknarnir yppta bara öxlum yfir því. Viðbrögð Kristjáns og Nielsar sýna það vel. Það fyrsta sem þeim dettur í hug, það eina sem þeim dettur í hug, er að gera sem minnst úr málinu til að verja sína menn, læknana.
Loks finnst mér einkennilegt að Morgunblaðið skuli ekki leyfa að blogga við þessa hálf óhugnanlegu frétt. Er eitthvað viðkvæmt við hana? Nei, ekki fyrir neinn nema heilbrigðisjónustuna. Og vill blaðið hlífa henni?
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (61)
22.7.2008 | 15:24
Forseti Íslands lýsir yfir fyrirlitningu sinni á geðsjúkum
Reglur Kínverja um þá sem fá að koma á ólympíuleikana í Peking tiltaka að fólk með geðsjúkdóma sé ekki velkomið.
Þetta er auðvitað stimplun af versta tagi, engu skárri en ef t.d. Gyðingum væri meinuð þátttaka.
Ætli Íþrótta- og ólympíusamband Íslands láti sér þetta vel líka og samþykki þar með þessa skelfilegu fordóma og mismunun? Það gera þeir ef þeir lára eins og ekkert sé.
Og síðast en ekki síst: Er forseti Íslands, sem þegið hefur boð um að fara á ólympíuleikana, að leggja blessun sína yfir þetta með því að þiggja boðið?
Já. Liggur í augum uppi.
Nú var tækifærið fyrir forsetann að sýna að hann fyrirlíti fordóma gegn geðsjúkdómum. Og hann hundsar færið. Það er hneisa fyrir þjóðina. Hann er fulltrúi þjóðarinnar og þá er eins og hann sé að samþykkja fordómana fyrir hennar hönd.
Með för sinni á ólympíuleikana er forsetinn í reynd að lýsa yfir fyrirlitningu sinni á fólki með geðsjúkdóma.
Mér finnst að Geðhjálp og Hugarafl eigi að láta þetta mál til sín taka. Félögin eru aumingjafélög ef þau láta sem ekkert hafi í skorist.
Og ég vænti þess að málsvari geðsjúkra í landinu nr. 1, Morgunblaðið, skrifi harðorðan leiðara um málið. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.
Geðfatlaðir óvelkomnir á Ólympíuleikana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.6.2008 | 19:34
Á að segja sjúklingum frá því að þeir eru með heilabilun?
Í gær skrifar Sigrún Huld Þorgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur á öldrunardeild Landsspítalans í Morgunblaðið greinina Á að segja sjúklingum frá því ef þeir eru með heilabilun?" Hún svarar ekki spurningunni beint en dregur fram ýmislegt með og móti. Það dylst þó ekki að henni finnst að eigi að segja sjúklingum frá þessu. Þess vegna finnst mér að hún hefði átt að segja það hreint út. Ég hef getið þess áður opinberlega að umræða um heilabilun einkennist oftar af einhvers konar undanbrögðum en flest önnur umræða. Einu sinni las ég grein um heilabilun eftir öldrunarlækni og mátti helst af henni ráða að heilabilun væri tæknilegt atriði en hvergi örlaði á þeim raunveruleika sem sjúklingarnir og aðstandendur þeirra verða að búa við.
Sigrún segir að mikil umskipti hafi átt sér stað frá fyrri tíð með að upplýsa sjúklinga um sjúkdómsgreiningu þeirra, en það viðgangist enn að þeir sem þjást af heilabilun fái ekki alltaf að vita það. Aðeins helmingur þeirri fái að vita um sjúkdómsgreininguna. Sjúklingar eigi þó lagalegan rétt á upplýsingum. Það "reynist yfirleitt vel" segir hún þegar sjúklingarnir fái að vita um greiningu sína. En ekki skýrir hún nánar frá því hvað er á bak við þessa fullyrðingu.
Sigrún telur það m.a. upp sem ástæður fyrir því að greiningu er haldið leyndri fyrir sjúklingnum að menn óttist að greiningin geti valdið þunglyndi hjá sjúklingnum, örvæntingu og sjálfsmorði og engin lækning sé til. Það þyki líka vafamál hvort sjúklingurinn hafi vitræna getu til að skilja greininguna. Sumir sjúklingar vilji almennt ekki vita um greiningu sína og rannsóknir bendi til að sjúklingar með heilabilun sé þar í sérstöðu.
Sitthvað fleira segir Sigrún um þetta en þetta verður hér látið nægja.
Það er ýmislegt, eins og áður er vikið að, sem sýnir að Sigrún vill að heilabilunarsjúklingum verði sagt frá ástandi sínu. Hún segir t.d. að flestar faglegar leiðbeiningar gangi út frá því að skýra skuli sjúklingum frá heilabilunargreiningu. Hún kvartar yfir því að í leiðbeiningum Landlæknis sé sú afstaða að fara beri varlega í þessum efnum, ekki sé víst að skilningur sjúklings sé til staðar vilji hann meina, og í heild séu leiðbeiningar Landlæknis orðaðar þannig, segir Sigrún, að þær fremur hvetji heilbrigðisstarfsfólk fremur en hvetji það til að skýra sjúklingnum frá því hvað að þeim gangi.
Sigrún telur að ekki sé hægt að veita sjúklingum fræðslu eða hjálpa honum af viti í því að aðlagast sjúkdómnum ef honum er ekki sagt frá sjúkdómsgreiningunni. Ekki sé hægt að búast við að hann hafi innsæi í sjúkdóminn og líklegra sé að án upplýsingar um greiningu megi fremur búast við afneitun, tortryggni, ótta og reiði.
Sjúkdómnum sjálfum lýsir Sigrún þannig: "Heilabilunarsjúkdómar eru alvarlegir stigversnandi sjúkdómar, sem ráðast ekki einungis á minni, heldur dómgreind, verklega færni og hæfni til að sinna um sjálfan sig. Margir sem greinast með sjúkdóminn þurfa síðar á stofnanavistun að halda. Sjúkdómurinn endar með dauða. Það liggur í augum uppi að einstaklingur sem veit ekki af slíkum sjúkdómi getur ekki búið sig undir framtíðina með neinum hætti."
Af þessari lýsingu að dæma er kannski ekki að furða þó Landlæknir vilji fara varlega í því að skýra sjúklingum frá raunverulegu ástandi þeirra af ótta við að þeir botni ekki í því baun.
Ég er auðvitað ekki starfsmaður á öldrunarstofnun en hef þó líkt og margir aðrir kynnst heilabilun og gangi sjúkdómsins af eigin raun og auk þess heyrt hljóðið í ýmsum sem hafa gengið í gegnum sömu reynslu.
Nú langar mig til að hugsa dálítið upphátt um þessi mál án þess að setja fram skipulega heildarskoðun.
Eins og Sigrún virðist viðurkenna er heilabilun nokkuð sérstakur sjúkdómur sem ræðst fyrst og fremst á vitgetu manna, dómgreind, sjálfsstjórn og aðra vitræna þætti. Þegar menn meta það hvort rétt sé að skýra sjúklingum frá sjúkdómsgreiningu þeirra hlýtur að verða að taka einmitt tillit til þessara sérstöku aðstæðna.
Greining á heilabilun á sér oft ekki stað fyrr en sjúkdómurinn er nokkuð langt genginn. Menn átta sig ekki þegar í stað á því hvað er að gerast. Sumir þeir sem eru með heilabilun er mjög lagnir í því að leyna ástandi sínu. Ég gæti trúað að í mörgum tilvikum sé dómgreind og tilfinningasjálfstjórn sjúklinga þegar orðin svo sköðuð þegar þeir eru greindir að þeir geti ekki gert sér grein fyrir öllum afleiðingum ástands síns. Geta þessir sjúklingar "gengið frá sínum málum" eins og aðrir sem bíða dauðans af "einhverju viti"? Og hvað ef þeir gera einhverjar ráðstafanir en breyta þeim svo þegar sjúkdómurinn er lengra gengin og dómgreindin löngu farin? Eftir hvaða vilja þeirra á þá á að fara? Þegar til kastanna kemur er hætt við að það sé í reynd vilji aðstandenda og annarra sem ræður en ekki vilji sjúklingsins. Því ekki að viðurkenna það bara.
Nú á dögum vita menn þó nokkuð um það hvernig þessi sjúkdómur þróast og margir hafa fylgt aðstandendum sínum eftir á sjúkdómsferlinu. Þegar mönnum er sagt að þeir séu með heilabilun ættu þeir sem enn hafa vit til að að vera kunnugt um það hvers konar örlög bíða þeirra. Það er dálítið annað að glíma við krabbamein t.d. með einhverri reisn heldur en lúta í lægra haldi fyrir heilabilun sem einmitt tekur af mönnum alla reisn. Ég held að eðlileg og fullkomlega heilbrigð viðbrögð fólks við að fá þann dóm að þeir séu með heilabilun séu einmitt óbærileg örvænting, ótti, þunglyndi og auðvitað fyrst og fremst þau viðbrögð að nú væri best að fyrirfara sér til að forða sér frá þeim ósköpum sem framundan eru. Eru menn tilbúnir til að mæta þessum viðbrögðum sjúklinga af fullum heiðarleika en ekki undanbrögðum? Ætla menn t.d. að deyfa þessi viðbrögð niður með lyfjum eða segja sjúklingunum að enn sé margs að njóta og allt það þegar sannleikurinn er einmitt sá að heilabilun rænir menn fljótlega þeirri tilfinningu að geta notið einhvers. Geta menn mætt þessum aðstæðum án þess að koma fram af óheilindum við sjúklingana?
Reyndar finnst mér það sterkasta ástæðan fyrir því að segja mönnum að þeir séu með heilabilun að það gefur mönnum einmitt færi á að fyrirfara sér áður en lengra er haldið. En má segja svona? Má ræða þetta á þessum nótum? Á ekki fremur að líta undan og láta sem þessi möguleiki sé ekki til umræðu? En annars nokkur heiðarleg meining í raun og veru með því að vilja endilega segja fólki frá því að það sé með heilabilun?
Reyndar þarf nokkuð skýran vilja, heilmikla fyrirhyggju og dómgreind til að fyrirfara sér svo ég held að jafnvel þessi ástæða fyrir því að segja frá sjúkdómsgreiningu komi oft fyrir ekki hjá heilabilunarsjúklingum því einbeittur vitsmunavilji er ekki þeirra sterka hlið. En í sjálfu sér hlýtur sjálfsvíg að vera raunhæfur og reyndar ákjósanlegur möguleiki í stöðunni fyrir mann sem var að frétta að hann sé með heilabilun, t.d. Alzheimer.
Í kvikmyndinni Sang for Martin er sagt frá frægum hljómsveitarstjóra sem er greindur með heilabilun. Myndin endar á því að hann liggur endilangur í rúmi sínu og opnar munninn eins og fuglsungi þegar sælgæti er lagt að vitum hans. Myndin lýsir því hins vegar ekki þegar hann hættir jafnvel þessum viðbrögðum og getur ekki lengur tuggið og borðað og deyr úr hungri og kannski með krampa. Það eru oft endalok heilabilunarsjúklinga sem ekki fara áður úr öðrum sjúkdómum.
Ef Martin hefði nú notið síðustu vitsmunaglampa sinna til að fyrirfara sér, hefði það verið eitthvað slæmt?
En það má víst ekki tala svona um þessi mál, að minnsta kosti af heilbrigðisstarfsfólki. Það má bara horfa framhjá hlutunum.
Í þáttunum Boston Legal á Skjá einum er aðalhetjan, hinn óviðjafnanlegi Danny Crane, með heilabilun sem hann kallar reyndar kúrariðu. Þættirnir eru auðvitað bara skemmtiefni og óborganlegt sem slíkt en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Og um daginn var einmitt fjallað um það í einum þættinum hvort hætta bæri virkri læknismeðferð á manni sem var á síðustu stigum heilabilunar. Ýmis rök voru færð fram bæði með og á móti. Málið var sem sagt til umræðu.
Þessir skemmtiþættir gera umræðu um heilabilun á Íslandi skömm til með því að þora að tæpa á alvöru málum, einhverju sem skiptir raunverulega máli og brennur á fólki.
Af hverju ræðum við ekki svona alvörumál varðandi heilabilun heldur en að koma fram með þá hugmynd að best væri að hafa það sem nokkuð algilda reglu að skýra sjúklingum, sem varla eru með fullum sönsum, frá því að þeir séu nú komnir með andstyggilegasta og vonlausasta sjúkdóm sem hugsast getur. Og nú skuli þeir bara njóta lífsins.
Ekki dugir að hengja sig í reglufestu. Þeirri gullvægu reglu að sjúklingar eigi almennt rétt á upplýsingum verður að beita í samræmi við aðstæður. Ef það er rétt að helmingi heilabilunarsjúklinga, sem er nokkuð mikið miðað við eðli málsins, sé greint frá sjúkdómi sínum finnst mér það sýna að þessari reglu sé fyrst og fremst beitt af skynsemi í íslensku heilbrigðiskerfi miðað við aðstæður.
Varfærnisregla Landlæknis um það að fara skuli varlega í því að skýra heilabilunarsjúklingum frá raunverulegu ástandi þeirra sýnist mér einmitt byggja á mannúðarsjónarmiðum og heilbrigðri skynsemi sem lítil ástæða er til að víkja frá.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2008 | 19:02
Lágt getur hann lagst
Mjög fróðlegt var að hlusta á Spegilinn í kvöld. Ekki var annað að heyra en að engar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hlerununum, eins og ég hef ákveðið haldið fram á þessari síðu og skaðabótamál myndi líta illa út fyrir ríkisvaldið sem hafi engin göng til sönnunar fyrir réttmæti hlerananna.
Efnislegar ástæður merkir það að stjórnvöld hafi ekki borið fram nein sértæk rök fyrir því að einmitt þeir einstaklingar sem hlerað var hjá hefðu verið að hafast eitthvað að sem ógnað hefði öryggi ríkisins.
Það er með ólíkindum að jafnvel greindustu og menntuðustu menn hafi gripið til réttlætingar á hlerununum með því að halda því fram að almennar ástæður, svo sem það að kommúnistar vildu koma á sovésku alræði á Íslandi, réttlæti lagalega og siðferðilega órökstuddar aðgeðir stjórnvalda gegn nafngreindum einstaklingum - ekki hópum manna- sem hlerað var hjá og öllum þeim sem við þá töluðu gegnum símann.
Ég hef nánast ekkert bloggað um pólitík á þessari síðu. Ég læt stjórnmálaskoðanir fólks mér í léttu rúmi liggja. Og ég hef engan áhuga á stælum manna í kaldastríðsstíl. Hins vegar hef ég áhuga á mannréttindum og stöðu einstaklingsins gagnvart ágengni stjórnvalda hver sem þau eru. Þess vegna hef ég bloggað um hleranamálið og verið harðorðari í garð nafngreindra manna en ég á vanda til. Mér finnst það óverjandi að dómsmsmálaráðherra nútímans réttlæti aðgerðir forvera síns gegn einstaklingum einungis með vísunum til almenns pólitísks ástands.
Ekki bætir svo Björn Bjarnason málstað sinn með því að vísa á þetta blogg í pistli á heimasíðu sinni.
Þarna er ýjað að því á ósmekklegan hátt að eitthvað sé athugavert við geðheilsu þeirra sem gagnrýnt hafa vörn ráðherrans í þessu máli. Geðlæknar þyrftu að skýrgreina ástand þeirra. Með því að vísa á þessa síðu með velþóknun er Björn Bjarnason að gera skoðanir bloggarans að sínum.
Þetta er ekki aðeins ódrengilegt af honum fram úr hófi að draga geðheilsu andstæðinga sinna í efa heldur er hann þar með - þessi maður sem er svo annt um virðingu gamalla kerfisdómara - að sýna þeim mörgu sem virkilega líða af geðsjúkdómum ótrúlega lítilsvirðingu.
Maður trúir því varla að ráðherra í ríkisstjórn landsins leggist svo flatur í lágkúrunni.
Það blasir samt við allra augum.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.4.2008 | 17:19
Eins og við manninn mælt
Þegar ég hafði bloggað í gær um viðbrögðin við grein Árna Tryggvasonar leikara í Morgunblaðinu sagði ég við sjálfan mig: Á morgun skrifar svo Morgunblaðið leiðara um hana og hrósar Árna fyrir hugrekki.
Og það var eins og við manninn mælt. Í dag skrifar Morgunblaðið einmitt leiðara um málið og segir í lokin um ritun greinarinnar:
"Til þess þurfti kjark".
Hvað sem segja má um grein Árna þá þarf hreint út sagt lítinn kjark til að skrifa svona grein nú á dögum. En kannski fyrir mörgum árum. En Morgunblaðið lifir í sífelldri nútíð og er gleymir því jafnharðan að menn hafa verið að ræða um geðsjúkdóma á ýmsa vegu í meira 30 ár. En alltaf rýkur Mogginn fram eins og séu að gerast fáheyrð tíðindi í hvert skipti sem einhver merktarpersóna nefnir geðræn vandræði.
Annars fer blaðið í leiðaranum í dag fram úr sjálfu sér í lágkúru. Eftir að það hefur rakið orð Árna um að vondan aðbúnað sjúklinga á gedeild Landsspítalans segir blaðið með þeim æðstráðsþunga sem það hefur tamið sér í leiðaraskrifum:
"Hér lýsir þjóðkunnur leikari reynslu sinni sem sjúklings á geðdeild ... 0rð hans hljóta að vega þungt."
Ekki verður annað séð en að Morgunblaðið telji að orð Árna vegi þungt einungis af því að hann er þjóðkunnur leikari. Hann er reyndar ekki bara þekktur heldur er hann ein af eftirlætispersónum þjóðarinnar, Lilli klifurmús og allt það. Ef einhver óþekktur vitfirringur hefði verið skrifaður fyrir greininni hefði blaðið ekki tekið við sér. Þyngd orða í skilningi Moggans fer ekki eftir efnisinnihaldi þeirri heldur eftir því hver segir þau.
Nú tek ég það fram að ég ber mikla virðingu fyrir Árna bæði sem manni og listamanni. Gagnrýni minni er alls ekki beint gegn honum heldur yfirdrifnum viðbrögðum sem orðið hafa við grein hans sem stafa augljóslega af hneigð manna til að hóa í lætin með fræga fólkinu fremur en raunverulegum áhuga á aðstöðu sjúklinga á geðdeildum. Ég bloggaði líka um þetta í gær. Þar benti ég á það að menn hafa verið að gagnrýna aðbúnað sjúklinga á geðdeildum árum árum saman án þess að nokkur hafi tekið við sér. Svo kemur eftirlætispersóna og þá fer allt af stað.
Það er hætt við því að áhugi og viðbrögð á slíkum forsendum risti ekki djúpt og verði fljótlega að engu í flaumi nýs fjölmiðlaefnis.
Það er sárt fyrir þá sem hafa verið að reyna að vekja athygli á stöðu geðveiks fólks áratugum saman, yfirleitt fyrir daufum eyrum, að horfa upp á þá sýndarmennsku sem farið hefur í gang út af grein Árna Tryggvasonar.
Svo verður það að segjast eins og er að geðveikislega þunnir leiðarar Morgunblaðsins um geðheilbrigðismál, sem koma tugir saman á hverju ári, eru orðnir einhver erfiðasti Þrándur í götu fyrir skynsamlega umræðu í landinu um þennan málaflokk.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2008 | 19:19
Ekki nýjar fréttir
Grein í Morgunblaðinu eftir Árna Tryggvason um ófullnægjandi aðstöðu sjúklinga á geðdeild Landsspítalans hefur sett vefmiðla, fjölmiðla og ýmsa bloggara á hvolf.
Það er þó ekkert nýtt að menn, að sjúklingum meðtöldum, gagnrýni aðbúnað sjúklinga á geðdeildum. Það hefur verið gert í nokkra áratugi. Það hefur bara enginn hlustað.
En núna, af því að það er þekktur leikari, Árni Tryggvason, með allri virðingu fyrir honum, er eins og menn séu að heyra einhver spáný tíðindi.
Ekkert sýnir betur áhugaleysi þjóðarinnar á aðbúnaði geðsjúkra en einmitt þetta. Þegar einhver frægur talar fer allt á stað þó menn hafi fullkomlega hundsað allar raddir um það sama þangað til.
Sannleikurinn er sá að Íslendingar líta niður á geðsjúklinga og hafa alltaf gert. En fjölmiðlar og fleiri eru veikir fyrir fræga fólkinu og því sem það segir.
Þetta segir allt sem segja þarf um hug þjóðarinnar til þeirra sem þjást af geðsjúkdómum.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.3.2008 | 19:06
Lífshlaupið
Óskaplega eru þau leiðinleg öll þess heilsuátök sem heilbrigðisstéttir eru alltaf að demba yfir þjóðina. Og stjórnmálamennirnir taka sífellt undir með sömu flatneskjunni.
Afhverju er fólki ekki treyst til að ákveða sjálft hvers konar lífi það vill lifa?
Og er nokkuð unnið við það að vera svo hraustur að lifa mörg ár sem hver annar hálfviti með ellihrörnunarsjúkdóma en vera líkamlega fitt?
Er ekki langbest að deyja í blóma lífsins?
Menn eiga ekki að ansa þessari forsjárhyggju heilbrigðisstéttanna.
Heilbrigðismál | Breytt 6.12.2008 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006