Ágúst í Reykjavík og á Akureyri í beinni útsendingu

Jæja, vegna ''fjölda áskorana'' (í það minnsta einnar!)  hef ég ''látið tilleiðast'' og kemur þá þessi ágúst í Reykjavík  í  beinni útsendingu frá ''Allra veðra von'' þar sem alltaf er nú allra veðra von.  

Meðalhitinn er nú 13,2 stig og ef það helst til mánaðarmóta yrði það nýtt hitamet fyrir ágúst ofan á hitametin fyrir júní og júlí. Enn hlýrra er þó sums staðar annars staðar á landinu, kringum 13,5 í Stykkishólmi og 13,6  á Akureyri. 

En það er enn mikið eftir af mánuðinum. Næstu daga mun hitinn halda í horfinu í Reykjavík, jafnvel stíga,  en um næstu helgi er spáð norðanátt sem virkilega mun setja strik í reikninginn.

Við sjáum hvað setur og fylgjumst með í beinni á Allra veðra von.

Í fylgiskjalinu. 

Þar er  hægt að sjá hitann í bænum á þriggja tíma fresti allan mánuðinn, ásamt hámarks -og lágmarkshita þar sem reynt er  að skipta um milli daga á miðnætti en ekki kl. 18   sem þó  oftast er  venjan. Dagsmeðaltal hvers dags 1961-1990 er þarna líka. Einnig sést sólskin hvers dags og sú úrkoma sem mælst hefur  kl. 9  að morgni. Þá er þarna hámarks-og lágmarkshiti hvers dags á landinu á láglendi eða í byggð eða á Hveravöllum ef verkast vill. Og mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á landinu klukkan níu að morgni. Auk þess  er þarna hitinn á miðnætti og á hádegi yfir Keflavík í 850 hPa og 500 hPa hæðum (um 1400 m og um 5,5, km). Langtímameðalhitinn þarna uppi fyrir allan ágúst er um  tvö og hálft  stig og um -20 og hálft stig. Þá sést þarna loks svokölluð þykkt milli yfirborðs og 500 hPa flatarins  í dekametrum. Því  meiri sem hún er því betri skilyrði eru fyrir hlýindum. 

Mun þriðji sumarmánuðurinn í röð setja hitamet í Reykjavík? Eða verður metið jafnað? Eða verður ''mánuðurinn okkar''  sér til háborinnar skammar?

Þetta mun allt koma í ljós í þráðbeinni útsendingu frá Allra veðra von!

Allra veðra von - eina bloggsíðan þar sem virkilega er allra veðra von! 

Viðbót: Akureyri hefur nú verið bætt við vöktunina. 

Enn ein viðbót: Bætt hefur verið inn í töfluna í fylgiskjalinu samanlögðum sólarhringsmeðalhita fyrir 10 stöðvar, Reykjavík, Stykkishólm, Bolungarvík, Blönduós, Akureyri, Raufarhöfn, Egilsstaði, Höfn, Kirkjubæjarklaustur og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Meðalhiti allra þessara stöðvar var í gær 11,9 en meðalhiti þeirra í ágúst 1961-1990 var 9,5 stig. Á þennan hátt er hægt að fylgjast  svona nokkurn vegin með fráviki meðalhitans yfir allt landið. 

Og enn ein viðbót: Bætt hefur verið við dagsmeðaltölum fyrir Akureyri svo  hægt er sjá hvað hver dagur víkur þar frá meðalhita eins og fyrir Reykjavík.

Frekari viðbót: Bætt hefur verið inn dálkum sem sýna mesta og minnsta hita sem vitað er um að mælst hafi nokkurn tíma á landinu í byggð eða á Hveravöllum fyrir hvern dag mánaðarins, hvort heldur sem er á mönnuðum veðurstöðvum eða sjálfvirkum. Það eru bara tölurnar en nánari atriði með stöðvar og tímasetningu má finna í veðurdagatalinur.  

Bætt hefur verið inn dálkum um minnsta og mesta hita sem mælst hefur nokkru sinni í Reykjavík á degi hverjum. 

Auk þess hefur æðsta ráð ''Allra veðra von'' ákveðið með öllum atkvæðum gegn engu, en letipúkinn sat hjá, að halda þessari mánaðarvöktun áfram héðan í frá.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta verður spennandi útsending og útlitið fyrir mánuðinn er gott núna. Annars langar mig að spyrja hvert núverandi met fyrir ágúst er, það virðist ekki koma fram í færslunni?

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.8.2010 kl. 00:50

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Metið í ágúst er frá 2003 fyrir Reykjavík og Stykkishólm 12,8 og 12,4 en frá 1947 fyrir Akureyri, 13,2. Það þyrfti að koma öflug hitagusa til að þessi hiti núna haldist til loka mánaðarins.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2010 kl. 01:19

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Væntanlega verður þetta ekki metmánuður, nú fara næturnar að verða lengri og kaldari og engin hitabylgja í sjónmáli. Það væri út af fyrir sig mjög gott að ná 12,0 stiga meðalhita sem er mjög sjaldgæft fyrir ágúst. En nú er bara að fylgjast með í beinni!

Emil Hannes Valgeirsson, 17.8.2010 kl. 10:11

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Restin af mánuðinum, þarf að vera með meðaltalið 12,4°C fyrir alla dagana til að jafna metið. Ef við fáum 2-3 góða daga núna sem eru aðeins yfir því, þá er kannski aðeins meiri möguleiki. En mér sýnist þetta þó vera langsótt, alltént fyrir Reykjavík, kannski er möguleikinn aðeins meiri fyrir Stykkilshólm. Við fylgjumst allavega með!

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.8.2010 kl. 10:57

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kuldakastið sem gert er ráð fyrir um helgina er ansi ískyggilegt. En kannski verður ekkert úr því. En ef það verður fer kannski fyrir þessum mánuði eins og mörgum efnilegum sumarmánuðum á hafísárunum og kuldaárunum þar á eftir en þá var það algengt að þeir hrundu eftir góða hlýindadaga. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2010 kl. 11:14

6 identicon

Norðangarrinn eyðileggur þetta fyrir okkur hér í Eyjafirðinum. Gott ef meðalhiti þessa sólarhrings hangir í 10 gráðum og svo eru kaldari dægur framundan. Svei!

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 16:11

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað eru menn að setjast að úti við ysta haf? Komdu suður í sæluna!

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2010 kl. 19:19

8 identicon

Varaðu þig nú! Eg bjó á suðvesturútkjálkanum í 23 ár og sá næstum aldrei til sólar. Svo flutti eg og verðrið snarbatnaði. Viltu fá rokið og rigninguna aftur?

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 19:32

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú lítur út fyrir að ''kuldakastið'' verði mildara en fyrst var spáð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2010 kl. 17:25

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta fer nú bara að vera spennandi. Metið má fara að vara sig.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.8.2010 kl. 16:51

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í dag komst hitinn í bænum næstum því 20 stig, 19,7. Í gær var hlýjasti 18. ágúst að meðaltali síðan a.m.k. 1935 og það sama verður eiginlega alveg örugglega i dag. Hámarkshitinn í dag er líka sá hæsti sem komið hefur þennan dag. En hlýrra hefur samt orðið ýmsa aðra daga um þetta leyti og síðar, bæði hvað varðar meðalhita og hámarkshita. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2010 kl. 18:35

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En svo er leiðingakuldkast framundan en ég hef séð spár sem gera svo ráð fyrir svaka hitagusu í lok mánaðarins. Það er bara spurning hvað kuldakastið verður mikið. En þriggja daga mikið kuldakast t.d. gæti gert út af við möguleika mánaðarins á gulli og hreinlega komið honum niður í aðra deild.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2010 kl. 18:41

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Eins og staðan er núna þá virðist duga hitastig upp á 11,9 gráður að meðaltali restina af mánuðinum til að jafn metið. Það er yfir meðalhita fyrir þá daga. Þess ber þó að geta að hingað til hefur aðeins einn dagur í mánuðinum verið undir þessu hitastigi, en það var 6. ágúst (11,6°C). Spurning hvaða hitagusur og kuldaköst gera til að hrista upp í þessu öllu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.8.2010 kl. 11:30

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eins og spáin er núna virðist kuldakastið verða mjög slæmt, varla að hámarkshitinn nái 10 stigum á sunnudaginn. Sem sagt alvöru kuldakast. Ef þetta gengur eftir verður meðalhitinn á mánudagsmorgun kominn niður fyrir metið 12,8 stig og mér finnst ekki líklegt að hitinn það sem eftir verður mánaðarins nái að bæta þetta upp. Búið er að draga úr hitagusinni í lokin frá því í gær eða fyrradag. Í júlí í fyrra leit um þetta leyti út fyrir glæsilegt júlímet en svo kom þriggja daga kuldakast sem eyðilagði allt. Að það þurfi nú endilega að koma vont kuldakst en ekki bara venjulegt kuldakst! En kannski verður það nú ekki eins slæmt og spáð er. Trú, VON og kærleikur! Það er það sem blívur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.8.2010 kl. 13:29

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Dagurinn í gær var með dagsmet, bæði fyrir meðalhita og hámarkshita. Og mánuðurinn er nú í þeirri hæstu stöðu sem hann hefur komist upp í hvað meðalhitann varðar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.8.2010 kl. 13:35

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú hallar aldeilis undir fæti. Meðalhitinn er þegar farinn að lækka, um 0,1  stig milli gærdagsins og dagsins þar áður. Dagurinn í dag verður fyrsti dagurinn í Reykjavík þar sem hitinn verðu undir meðallagi síðan 17. maí. Á miðnætti var í fyrsta sinn frost í 1400 m hæð yfir Keflavík síðan 13. júní. Hæð frostmarks var þá 1351 m en núna á hádegi var það 1745 m.

Í útvarpinu var talað um ''dásamlegt'' veður á Menningarnótt. Ef veðrið núna, í fyrsta greinilega kuldakasti sumarsins, er dásamlegt hvað vilja menn þá kalla veðrið í fyrradag, þegar hámarkshitinn fór í 20 stig og meðalhitinn var hátt upp í 15 stig? En það er kannski ekki von á góðu þegar menn skynja ekki muninn á veðrinu þá og í dag. Allt verður bara ''dásamlegt'' ef sólin lætur sjá sig. En það verður æði kalt i kvöld, miklu kaldara en verið hefur í allt sumar. Alveg ''dásamlegt''! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2010 kl. 12:43

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þoli ekki málvillur: Þarna á að standa: hallar undan fæti.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.8.2010 kl. 14:37

18 identicon

Þakka þér fyrir Sigurður að bæta við Akureyri í skjalið. Ég var farinn að spá í að hnoða einhverju svona saman sjálfur. Ef fram fer sem horfir þá verður þetta kaldur ágúst í heildina á norðurlandi þrátt fyrir öfluga byrjun.

Bjarki (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 21:24

19 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það versta fer nú að líða hjá. Síðan verður alveg svona sæmilegt. Og aftur er farið að spá hlýindum í lok mánaðarins. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.8.2010 kl. 22:40

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í nótt var í fyrsta sinn frost í byggð síðan 13. júlí, -0,5° á Grímsstöðum á  Fjöllum. Meðalhitinn í Reykajvík er náttúrlega kominn niður fyrir metið en hann er samt enn mjög hár. Í gær var hann 11,3 stig og hámarkið 16,0 sem er nú bara ágætt miðað við allt og allt. Annars er það spurning hvort meðalhitinn nær 12 stigum þegar upp verður staðið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.8.2010 kl. 10:41

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mánuðurinn er sjálfsagt búinn að glutra þessu niður núna. En ef við gefum okkur að meðaltal daganna sem eftir eru verði 11°C (kannski ekki svo fjarri lagi) þá endar mánuðurinn í 12,3°C, sem er sjálfsagt ekki svo slæmt fyrir ágúst mánuð. En það er orðið nokkuð kaldara á nóttunni núna svo það er spurning hvort að meðaltalið 11°C sé of hátt fyrir restina af mánuðinum..?

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.8.2010 kl. 20:19

22 identicon

Nicht gut

áskell örn kárason (IP-tala skráð) 25.8.2010 kl. 19:06

23 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi svala flatneskja er að verða þreytandi en spáð er hlýindum um mánaðarmót.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.8.2010 kl. 15:24

24 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Núna á miðnætti var sums staðar frost, t.d. -1,9 á Gauksmýri í Húnavatnssýslu, -1,7 í Möðrudal, -0,4 á Möðruvöllum í Hörgárdal og -0,5 á Brú í Jökuldal. Á sama tíma var hitinn 10,5 stig á Garðskagavita. Nú fer að hlýna.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.8.2010 kl. 00:57

25 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Brú á Jökuldal. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.8.2010 kl. 00:58

26 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú virðist sem mánuðurinn ætli að hanga í 12 stigum í Reykjavík og verða þar með fjórðir hlýjasti ágúst síðan 1866. Og mánuðurnir júní til ágúst hafa þá aldrei orðið jafn hlýir þó litlu muni á 2003, svo litlu að ef síðustu tveir dagarnir standa sig ekki gæti 2003 orðið hlýrra. Verði meðalhitinn 12 stig þarf september að verða 9,9 stig að meðalhita til að þetta verði hlýjasta sumar allra tíma í Reykajvík. En það sem gerir allra hlýjustu sumrin eins hlý og þau voru eru einmitt mjög afbrigðilega hlýir septembermánuðir sem voru hlýrri en venjulegir júlímánuðir. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 12:51

27 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það verður þá væntanlega að vera september í beinni..?

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.8.2010 kl. 13:07

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er spáð hlýindum framan af september svo sumarið er ekki búið. En veðurútsendingar verða áfram í beinni á Allra veðra von framvegis. Ég hef gert eitthvað svipað í áravís fyrir sjálfan mig og munar svo sem ekki um að setja þetta á netið þó það sé reyndar smá maus.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 13:50

29 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þá er þessum mánuði lokið. Hann reyndist vera fimmti hlýjasti ágúst í Reykjavík eftir 1870. Hlýrri voru 2003, 2004, 1950 og 1880. Hins vegar hefur aldrei verið hlýrra mánuðina júní til ágúst, lítið eitt hlýrra en 2003. Yfir landið virðist mánuðurinn vera 1,6 stig yfir meðallagi. Og júní til ágúst núna eru þá svipaðir og sömu mánuðir 2003, 1933 og 1880 sem þeir hlýjustu sem komið hafa á landinu. September verður að ná 9,9 stigum ef sumarið i heild í Reykajvík ætlar að slá út það hlýjasta hingað til, 1939. Á Akureyri var líka vel hlýtt en ekki nærri neinum metum. Sólríkt var í Reykjavík. Úrkoman var næstum því alveg sú sama í Reykajvík og á Akureyri en undir meðallagi í Reykajvík en yfir því á Akureyri.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2010 kl. 01:54

30 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir yfirlitið.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.9.2010 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband