Hlýjasta sumarið

Meðalhitinn í september í Reykjavík reyndist 10,2  stig. Þar með er ljóst að meðalhiti allra sumarmánaðanna, júní til september, er 11,7 stig. Það er mesti sumarhiti sem mælst hefur í Reykjavík eftir að mælingar urðu nokkuð áreiðanlegar. 

Gamla metið var 11,6 stig frá því sögufræga ári 1939.

Þessar tölur eru miðaðar við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar.

Árin 1932 til 1945 var mælt á þaki Landssímahússins við Austurvöll. Þær mælingar hafa þótt  þarfnast nokkurra leiðréttinga við. Ljóst er að á þessum árum  voru sumrin í Reykjavík  nokkuð óeðlilega hlý miðað við aðrar stöðvar. Þarna er vitanlega dálítil óvissa á sveimi  en það gengur  þó ekki upp að mínu mati að taka tölurnar frá Landsímahússárunum alveg bókstaflega ef menn vilja reyna að átta sig á hlýjustu sumrunum. Ýmis sumur, sem engar sérstakar rósir gerðu, ota sér þá fram í raðir hlýrri sumra, ekki kannski þeirra allra hlýjustu samt (fyrir utan metsumrin 1939 og 1941). En ekki fer ég nánar út í þessa sálma.

Ýmislegt er merkilegt með sumarið í ár. Júní var sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík eftir 1870 og einnig júlí, ásamt júlí 1991. Ágúst varð fimmti hlýjasti og september sá sjötti. 

Mér sýnist líka að þetta sumar sé það hlýjasta sem komið hefur í Stykkishólmi frá 1846 og í Vestmannaeyjum frá 1878.  

Á Akureyri voru sumrin 1933, 1939, 1941 og 1894 hlýrri en núna. 

En það er kannski merkilegast við sumarið að það virðist vera eitt af þeim allra hlýjustu á landinu í heild eftir þeim stöðvum að dæma sem lengst hafa athugað. Sumarið 1939 var hlýrra en þetta sumar núna er á borð við sumrin 1933 og 1941. Næst koma svo eftir mínum pælingum 2003, 2004, 2008, 1953 og 1880. 

Á fylgiskjalinu má sjá hita, sól, úrkomumagn og fjölda úrkomudaga í öllum mánuðum tólf hlýjustu sumranna í Reykjavík, ásamt meðaltali þessara veðurþátta 1961 til 1990 og 1931 til 1960. Býsna mikill munur er á hitanum milli þessara tímabila.

Sitthvað er þarna skemmtilegt og veðurfanavænlegt! Áður hefur þess verið getið að þetta sumar skartar bæði hlýjasta júní og júlí. Verður nú  ýmislegt nefnt  varðandi  önnur þau sumur sem þarna eru talin:

Júlí 1939 er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík en ágúst það ár sá úrkomusamasti og september sá hlýjasti! 

September 1941 er sá hlýjasti á landinu þó afar litlu muni á honum og 1939 sem var nú samt ljúfari  mánuður.  

Ágúst 2003 var ekki aðeins hlýjasti ágúst í Reykjavík og á landinu heldur mun hann einnig  vera hlýjasti mánuður yfirleitt sem nokkru sinni hefur mælst á Íslandi. Júní var þá sá hlýjasti sem komið hafði í Reykjavík en var sleginn út af okkar júní 2010. Júni bætti um betur með því að vera kannski úrkomusamastur allra júnímánaða á landinu ef miðað er við úrkomuna á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. 

Ágúst 2004 var sá fjórði sólarmesti og í þeim mánuði kom minnisstæð hitabylgja sem hugsanlega er sú mesta sem komið hefur á landinu síðustu áratugi. Þá mældist eini dagurinn í Reykjavík sem hefur meðalhita sólarhringsins yfir tuttugu stigum.

Sólskinsstundir sumarið 2008 hafa ekki verið fleiri síðan 1957 og er sumarið hið áttunda sólríkasta. Júní var sá þriðji sólarmesti. Í lok júlí mældist mesti sem mælst hefur í Reykjavík . September hefndi sín hins vegar með því að vera líklega sá úrkomumesti á landinu.   Auk þess mældist þá mesta mánaðarúrkoma á veðurstöð í september og mesta sólarhringsúrkoma.      

Sumarið 1933 var það hlýjasta sem komið hefur fyrir norðan. 

Sumarið 1880 var langhlýjasta sumar sem mælt var á nítjándu öldinni á landinu.

Árið 1960 voru fleiri úrkomudagar í júní í borginni en í nokkrum öðrum júní og hann  var sá 8. sólarminnsti. Úrkomudagar   hafa hins vegar aldrei verið færri en þá var í júlí og einnig í ágúst sem var sá sólríkasti sem mælst hefur í bænum. ''Öfgar'' í veðurfari eru sem sé ekki nýmóðins uppfinning! Í þessum ágúst mældist á Teigarhorni minnsta mánaðarúrkoma sem mælst hefur  í  nokkrum ágúst  á veðurstöð,  0,6 mm. Og er þetta talin þurrasti ágúst  á landinu.  Hvort sem menn vilja trúa því eða ekki  kom ekki  í nokkra áratugi  eftir þetta verulega gott sumar á suðurlandi, stjörnusumar eða stórsumar eins og menn vildu víst kalla það nú á dögum. Eitthvað annað en er núna!

Sumarið í fyrra var óvenjulega þurrt, sérstaklega í júlí. 

Þessir merkismánuðir eru auðkenndir með rauðu í fylgiskjalinu en það sem auðkennt er með svörtu eru mánuðir sem fara nærri metum með það hafurtask sitt sem merkt er án þess þó að setja met.

Nú vaknar náttúrlega sú spurning af hverju þessi sumur voru svona hlý og hvort þau eigi eitthvað sameiginlegt varðandi veðurkerfi, háloftastrauma og hvað eina. En ekki verður hér farið út það. 

Það er svo  hægt í neðra fylgiskjalinu að sjá glæsilega frammistöðu septembers sem bjargaði gullinu fyrir sumarið okkar í Reykjavík!

Loks er bónus með ljúfasta fyrsta október í Reykjavík og kannski víðar. 

Viðbót 1.10. Október byrjar aldeilis vel. Hér fyrir neðan er kort frá kl. 15. Það minnir  nokkuð  á kortið 1. október 1958. Stóri munurinn er þó sá að þá var Elvis í fullu fjöri! Vöktunin heldur svo áfram hér á síðunni á október.1958-10-01_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

kl15g.gif

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er þá ekki sjálfsagt að stefna á hlýjasta árið líka?

Emil Hannes Valgeirsson, 1.10.2010 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband