16.7.2011 | 12:24
Köldustu júlímánuðir
Nokkrir júlímánuðir skera sig úr á landinu fyrir kulda. Þeir voru langflestir á 19. öld þegar afar fáar veðurstöðvar voru starfandi. Flestir hlýjustu júlímánuðir voru aftur á móti á 20. öld þegar veðurstöðvar voru orðnar margar.
Fyrir 1866 voru gerðar athuganir í Reykjavík frá 1823-1853 og í Stykkishólmi frá 1846. Á þessu tímabili virðast reyndar hafa komið allra köldustu júlímánuðirnir.
Árið 1826, fyrsta sumarið eftir að Beethoven dó sem var í mars, er meðalhitinn í Reykjavík talinn 7,9 stig og er ekki hægt að finna þar lægri tölu fyrir nokkurn júlí. Brandsstaðaannáll, sem skrifaður var í Húnavatnssýslu, segir um sumarið 1826: "Með júlí fóru lestir suður, fengu ófærð og óveður til þrautar. 5.-6. júlí mesta vestanóveður, svo ær króknuðu sumstaðar, enn fremur 7.-8., 11. og 16. miklar rigningar, þar eftir kuldar og blástur. Sláttur fyrst 19. júlí. Kom þá þurrviðri og varð góð nýting á töðu og hirt 3. ágúst."
Júlí næsta ár, 1827, var einnig mjög kaldur, 9,1 stig í Reykjavik eða á svipuðu róli og júlí 1970 og 1886.
Kaldasti júlí í Stykkishólmi var árið 1862, 7,5 stig. Mikill grasbrestur var það sumar. Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár að fram í miðjan mánuðinn hafi varla komið eðlilega hlýr eða lygn dagur og varla hafi komið sú nótt að ekki hafi verið frost til fjalla. Í Borgarfirði hafi verið svo mikil næturfrost í byrjun mánaðarins að mýrar voru mannheldar fyrir sólaruppkomu. Meðaltal hámarkshita í Stykkishólmi var aðeins 9,7 stig en lágmarksins 1,6 og það voru tvær frostnætur. Meðaltal morgunhita var þar 6,8 stig, nákvæmlega einu stigi lægri en í júlí 1882 og var aldrei hærri en 9,4 stig en lægst 3,5. Áttin var yfirgnæfandi milli norðurs og austurs. Úrkoma var 34 mm og féll á aðeins fjórum dögum og tvo dagana rigndi mikið, 18 og 10 mm. Ekki var athugað þennan mánuð í Reykjavík en giskað er á að hitinn hafi verið mjög um sama bil og júlí 1874. Hins vegar voru einhvers konar athuganir á Siglufirði þar sem meðalhitinn er reiknaður aðeins rúm 5 stig og út frá því rétt rúm sex stig á Akureyri eða mjög svipað og júlí 1882 og 1812. Hvort sem miðað er aðeins við hitann í Reykjavík og Stykkishólmi eða Akureyri líka bætt við er þetta óneitanlega kaldasti eða næst kaldasti júlí sem hægt er að finna. Fjallkonan hefur nú áreiðanlega króknað þarna uppi á fjöllunum á þessum allt annað en rómantísku árum!
Árið 1812, þegar Napoleonsstyrjaldirnar geysuðu í Evrópu, var hitinn áætlaður svipaður fyrir Stykkishólm eða lægri en 1862 eftir athugunum sem gerðar voru á Akureyri. Hann keppir við júlí 1862 sem kaldasti júlí sem einhverjar tölur eru um. Ís var fyrir norður og austurlandi allt fram í ágúst. Svo segir Þorvaldur: "Þá var júlí harður með kuldum og hríðum sem á vetri fyrir norðan og hið mesta grasleysi og bjargarleysi hvarvetna."
Í Reykjavík mældist meðalhitinn í júlí 8,4 stig árið 1874, árið sem Íslendingar fengu stjórnarskrá. Þetta er lægsti meðalhiti sem þekkist þar í mánuðinum eftir að athuganir voru teknar upp aftur í bænum árið 1871. Í Stykkishólmi var þá 0,9 stigum hlýrra en í Reykjavík sem er óvenjulegt. Þessi mánuður var hvergi með þeim allra köldustu nema í Reykjavík en reyndar var aðeins mælt á þremur öðrum stöðum á landinu, Stykkishómi, Teigarhorni og Grímsey. Eftir meðalhita þeirra er hægt að áætla meðalhitann 8,65 fyrir allar níu stöðvarnar og gerir það mánuðinn þann 11. og 12. kaldasta júlí frá 1866 ásamt júli 1877. Í Árferði á Íslandi í þúsund ár segir að framan af mánuðinum hafi verið kuldahret við og við nyrðra, vestra og eystra með krapaskúrum og jafnvel snjó niður í byggð. Dagana 8.-9. snjóaði víða.
Allir þessir júlímánuður sem hér hafa verið taldir, nema 1874, eru kaldari í Stykkishólmi en nokkrir aðrir mánuðir og eru þessir upptöldu mánuðir því líklega köldustu júlímánuðir á landinu sem einhverjar hitatölur finnast um. Og þó! Allir mánuðirnir frá júní til september árið 1782, eftir ófullkomnum mælingum á Bessastöðum að dæma, virðast hafa verið kaldari en nokkrir aðrir þessara þriggja sumarmánaða hafa síðar orðið. Hins vegar má efast um trúverðugleika mælinganna. En kalt hefur sumarið örugglega verið og var það nú ekki sérlega heppilegt fyrir síðasta sumarið fyrir Skaftárelda! Djáknaannálar segja svo: "Hret kom um Jónsmessu og annað stærra 7da og 8da Júlii; snjóaði þá ofan í byggð svo kýr og fé var hýst í 2 nætur fyrir norðan."Höskuldsstaðaannáll segir: "Sumarið var þurrt og kalt, sérdeilis þá á leið. (Hret um Jónsmessu og aftur eftir þingmaríumessu). Stórmikill grasbrestur yfir allt norðan lands, þó næsta misjafnt á bæjum í sveitunum." Þorvaldur Thoroddsen skrifar: "Á harðlendi varð mesti grasbrestur, og í Þingeyjarþingi var gras svo lítið sprottið, að á bæjum á Langanesi urðu ekki hærð tún. Hafísar hindruðu kaupskip frá að hafna sig og nokkrir menn gengu frá heimilum sínum." Hafís var fyrir norðan og austan og reyndar allt til Eyrarbakka.
Víkjum nú að hinum köldu júlímánuðum frá og með 1866 sem er hið fasta viðmiðunaraár fyrir þessa pistla. Fremst við hvert ár er innan sviga meðaltal hinna níu stöðva, oft áætlað út frá meðalhita 7 stöðva en meðaltalið 1961-1990 fyrir 9 stöðvar var 9,73 stig en örlítið lægra fyrir 7 stöðvar.
Það er eftirtektarvert að fjórir af sex köldustu mánuðunum komu svo að segja í röð, 1885, 1886, 1887 og 1888 og árin 1882 og 1892 voru ekki langt undan. Á ellefu árum, 1882-1892, komu fimm af sex köldustu júlímánuðum eftir 1873. Neðst á síðunni eru kort er sýna mánaðarloftþrýsting við jörð í júl 1885-1888. Kortin sýna reynar hæð 1000 hPa flatarins í metrum miðað við 1000 sem er þá 0 en að öðru leyti eru þau eins og venjuleg þrýstikort og ég hef merkt inn á þau þrýstinginn á þann veg sem við erum vönust að lesa hann á kortum, sem sagt í hPa.
1887 (7,6) Suðurnesjaannáll segir svo um sumarið: "Tíðarfar mátti heita hið bezta yfir allt suðurland, grasvöxtur með betra móti og nýting ágæt, svo hey náðist óhrakið." Árbók Reykjavíkur: "Sumarveðrátta var hin hagstæðasta, grasvöxtur ágætur og nýting í bezta lagi um alt Suðurland." Þorvaldur Thoroddsen skrifar: "Sumarveðrátta var þó yfir höfuð góð og framúrskarandi góð á Suðurlandi og Austurlandi." Hann segir líka að veðráttan hafi verið "óvenjulega hlý og þurr um mestallt land enda áttin sjaldan af norðri". Þetta er síður en svo eina dæmið um það að tíðarfar sem mælingar segja að sé með mestu frávikum í kalda átt sé talið ágætt þegar menn lýsa því huglægt með orðum. Þessi júlí er sá kaldasti á landinu frá 1873 samkvæmt mælingum. Á undan honum fór kaldur júní og á eftir honum ískaldur ágúst og líka september. Sumarið í heild var eitt af þeim allra köldustu. Hins vegar virðist hafa verið sólríkt og verið hægviðrasamt en norðaustanátt var ríkjandi. Heyskapur hefur því gengið vel og það ræður líklega úrlistum um lýsingar manna á tíðarfarinu. Norðurljósið á Akureyri segir 13. ágúst að veðurfar hafi verið afbragðsgott um heyskapartímann, sem er reyndar líka í ágúst, og alls staðar hafi taða náðst með góðri verkun. Úrkoman í júlí þessum var minni en helmingur af meðallaginu 1931-2000. Hún var var aðeins 22 mm í Reykjavík sem einnig er minna en helmingur meðallagsins. Annars staðar á landinu var líka lítil úrkoma. Ekki kom dropi úr lofti fyrri helming mánaðarins í Stykkishólmi, síðan var nokkur úrkoma í viku en eftir það var aftur þurrt nema einn dag. Í Grímsey var sama og engin úrkoma en á öðrum stöðvum sem mældu var dálítil úrkoma annað kastið. En kuldarnir voru miklir. Í Grímsey mældist mesta frost sem þar hefur nokkurn tíma mælst í júlí, -3,0 stig, þ. 4. Í Reykjavík komu fimm dagar í röð frá þ. 22. þar sem hitinn komst aldrei í tíu stig sem mun hreinlega vera einsdæmi. Var þó glaðasólskin. Frostdagar í Grímsey voru 14, þar af á hverjum degi 24.-30. en síðdegishiti var þá svona tvö stig og snjóaði oft. Meðaltal lágmarkshita mánaðarins í Grímsey var 0,5 stig. Fyrstu fimm daganna var kafskýjað þar en 5.-10. var talið heiðskírt en seinni hluta mánaðarins mátti kalla alskýjað alla daga. Í Stykkishólmi var talið heiðskírt á öllum athugunartímum dagana þriðja til níunda. Síðdegishitinn þá daga var þar alveg þokkalegur, 11-14 stig. Þarna koma þá líklega blíðviðrin hans Þorvaldar! Á Raufarhöfn var mælt þennan mánuð og þar fór frostið í -1,6 stig og hefur þar heldur aldrei orðið eins kalt í júlí. Suðvestan átt gerði loks síðustu dagana fyrir þ. 20, og fór hitinn þá í 19,5 stig á Teigarhorni. Jónas Jónassen segir svo um veðurfarið þennan mánuð í Ísafoldarblöðum:
Fyrri hluta vikunnar var optast hæg sunnanátt með talsverðri úrkomu ; h. 3. var hjer útnyrðingskaldi og bjart veður og hefir síðan verið heiðskirt og gott veður ; Í dag 5. er hægur landsunnan (Sa) kaldi með miklum hlýindum (kl. 2 + 16°C. i forsælunni). Loptþyngdarmælir stendur hátt og haggast eigi. (6. júlí) - Fyrsta dag vikunnar var hjer austanátt, hvass allt til kvelds, að hann lygndi ; daginn eptir h. 7- var hæg austanátt með mikilli rigningu; stytti upp síðari part dags og gjörði logn. Síðan hefir verið bjart og fagurt veður, hæg útræna nema 10. var dimmviðri en logn allan daginn. Í dag 12. hæg norðangola, bjart veður. (13. júlí) - Allan fyrri hluta vikunnar var optast logn og bjart sólskin; að kveldi h. 16. gekk hann til suðurs og hefir síðan verið við þá átt með dimmviðri og nú síðast með mikilli úrkomu. Í dag 19. hefir í allan morgan verið húðarigning á sunnan útsunnan (S S v) og mjög dimmur i lopti. (20. júlí) - Fyrstu daga vikunnar var hjer talsverð rigning af suðri og austri, en fyrir hádegi h. 22. gekk hann til norðurs, hvass til d|úpa, hægur hjer, bjart og fagurt sólskin á degi hverjum og enn í dag 26. er sama veðrið, hægur norðankaldi og bjartasta veður. (27. júlí) - Fyrri part vikunnar var bjart og fagurt veður optast rjett að kalla logn ; síðari part dags h. 30. var hjer úði af suðri og síðan hefir verið við suður eða útsuðurátt, hægur en dimmur og stundum rignt talsvert með köflum ... (3. ágúst).
1882 (8,0) Þetta er alræmdasti og kaldasti júlí sem nokkurn tíma hefur komið á norðurlandi síðan mælingar hófust og ekki bætti úr skák að sömu sögu er að segja um júní og ágúst. Hafís var fyrir öllu norðurlandi fram á höfuðdag og fylgdu honum kuldasvækjur og úrkoma. Vetrarís var ekki leystur af Ólafsfjarðarvatni 6. júlí og sýnir það kuldann. Norðlingur skrifar þ. 12.: Tíðarfarið hefir í vor alstaðar um land verið mjög kalt, enda hafþök af hafis fyrir öllu Norður- og Austurlandi; má heita að hvert hretið hafi rekið annað, og síðast snjóaði hér ofan í sjó 6. þ. m., en menn urðu úti í blindbyljum."
Hafísinn fór af austfjörðum í byrjun mánaðarins en jafnan var þar votviðrasamt og kalt. Lítið sást til sólar fyrir norðan. Í Grímsey var aldrei talið minna en hálfskýjað og lang oftast alskýjað. Meðaltal skýjahulu á athugunartímum var 9,3 af tíunduhlutum. Seinustu dagana létti þó loks upp fyrir norðan að sögn Þorvaldar Thoroddsen en þó varla í Grímsey samkvæmt athugunum. Sérlega kalt var við Húnaflóa að tiltölu. Meðalhitinn á Skagaströnd var aðeins 3,5 stig, lægri en í Grímsey þó júlí sé að jafnaði talsvert hlýrri á svæðinu kringum Skagaströnd en í Grímsey. Minnsti hiti mánaðarins á landinu mældist reyndar á Skagaströnd, -1,0 og finnst manni það vel sloppið, en þess ber að gæta að fyrir norðan var oftast mjög skýjað og litlar hitabreytingar milli dags og nætur. Á Akureyri var meðalhitinn, 6,1 stig, sá lægsti sem þar hefur mælst, en á Hrísum, langt inni í Eyjafjarðardal, var meðalhitinn 7,2 stig og sýnir það hvað hafísísinn hefur haldið hitanum á Akureyri meira niðri en innar í sveitinni. Mesti hiti mánaðarins mældist reyndar á Hrísum, 20,7 stig. Líklega var það þ. 26. eða 27. en það voru einu dagarnir í mánuðinum sem hitinn fyrir norðan líktist eitthvað því sem venjan er í júlí. Á Grímsstöðum á Fjöllum var mælt þennan mánuð og þar náði meðalhitinn 7,4 stigum. Á Valþjófsstað í Fljótsdal var meðalhitinn enn hærri en á Hrísum, 9,0 stig og hafa þrír júlímánuðir á 20. öld á Hallormsstað, skammt frá, verið kaldari (1938, 1967, 1970, áreiðanlega líka 1993 en þá var hætt að mæla á Hallormsstað). Á suðurlandi var skárra tíðarfar en annars staðar, "allgóð hlýindi og sunnanvætur, þó stöku sinnum hlypi á norðan, varð aldrei neitt úr því", segir Þorvaldur Thoroddsen. Í Vestmannaeyjum var meðalhitinn ofan við meðallagið 1961-1990 og enn meira yfir því á Eyrarbakka. Andstæður milli landshluta um hásumarið hvað hita varðar hafa líklega aldrei verið meiri en í þessum mjög svo óvenjulega júlímánuði. Úrkoman var aðeins rúmlega helmingur af meðalúrkomu. Hún var þó mikil í Grímsey þar sem snjóaði reyndar einstaka sinnum. Fyrsti þriðjungur mánaðarins var mjög kaldur á landinu og einnig úrkomusamur. Eftir það kom vikukafli sem var sæmilegur á suður og vesturlandi en eftir hann kom fimm daga kuldakast. Frá þ. 21. og til mánaðarloka var aftur þokkalega hlýtt syðra og vestra en svipaður kuldi áfram fyrir norðan og austan og var lengst af fyrir utan þessa þrjá sæmilegu daga kringum þ. 25.
Mikil mislingasótt gekk þetta sumar og margir dóu af hennar völdum.
1892 (8,1) Sagt var að sumarið kæmi ekki þetta árið fyrr en um miðjan júlí. Í Hreppunum hefur aldrei mælst kaldari júlí, aðeins 7,9 stig á Hrepphólum sem er reyndar ótrúlega lág tala. Ákaft hret kom 7.-9. og snjóaði ofan í sjó á norðurlandi. Og hvarf snjórinn ekki að fullu úr byggðum í viku. Mánuðurinn var votviðrasamur um allt land og rigndi alls staðar meira og minna allan mánuðinn þó þurr og þurr dagur kæmi inn á milli. Úrkoman var 43% yfir meðallagi, þó aðeins lítið eitt yfir því í Stykkishólmi, en 70% yfir því á Eyrarbakka. Úrkoman var 91 mm á Teigarhorni og þar af féllu 50,1 mm á einum degi, mældir að morgni hins þriðja. Í Reykjavík voru miklar úrkomur seinni hluta mánaðarins. Mjög kalt var fram í miðjan mánuð. Á arhugunartíma kl. 14 var ekki tíu stiga hiti í Stykkishólmi fyrr en þ. 13. en í Grímsey var hitinn á sama tíma aðeins um 3-4 stig. Kaldast varð -1,5 stig á Raufarhöfn. Áttin var oftast norðaustlæg. Hlýjast í mánuðinum varð 22,8 stig í Möðrudal líklega þ. 20. en þann dag komst hitinn á Teigarhorni í 21,4 stig.
Jónassen lýsti veðrinu ekki þennan mánuð. Og er hans sárt saknað!
1970 (8,2) Yfir allt landið er þetta kaldasti júlí sem núlifandi fólk hefur lifað. Á Akureyri er þetta næst kaldasti júlí en á Grímsstöðum, þar sem athuganir hófust árið 1907, hefur aldrei mælst eins kaldur júlí, 4,7 stig, ásamt júlí 1993. Sláttur hófst ekki fyrr en síðari hluta mánaðarins. Sums staðar var jafnvel ekki byrjað að slá í mánaðarlok. Góð heyskapartíð var sunnanlands og vestan. Heyfengur var þó víðast hvar lítill vegna kulda og óvenju mikils kals í túnum. Sunnanlands var sérlega sólríkt enda áttin oftast norðlæg. Í Reykjavík er þetta næst sólríkasti júlímánuðurinn en mikill gæðamunur er þó á þessum mánuði og sólríkasta júlí í borginni, 1939, sem var þremur stigum hlýrri. Dagar með tíu stunda sól eða meira voru 15. Frá þeim 18. til hins 27. var einstök sólskinstíð í borginni og dag og dag var alveg þokkalega hlýtt, mest 16,8 stig þ. 22. Þrátt fyrir alla sólina komst hitinn á suðurlandi þó aldrei hærra en í 17-18 stig. Norðanlands og austan var úrkomusamt. Á Fljótsdalshéraði var tvöföld til þreföld meðalúrkoma. Mikið norðankast kom þ. 9. og snjóaði þá sums staðar á norðurlandi svo jörð varð alhvít einn dag á Brú á Jökuldal (6 cm), Grímsstöðum á Fjöllum (4 cm) og Mýri í Bárðardal (1 cm) en tvo daga á Hveravöllum, 8 cm þ. 10. og 11. Á Þingvöllum snjóaði niður undir byggð aðfararnótt þess 10. í norðan hvassviðri, en ekki festi þann snjó. Úrkoman um morgunin mældist 36 mm. Um nóttina brann ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum og fórst þar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, kona hans og dóttursonur. Annað norðanhret kom þ. 17. og snjóaði þá á Ísafirði og ær króknuðu í Önundarfirði. Það sýnir kuldann að í níu daga samfellt, þ. 5.-14., komst hitinn á Akureyri aldrei í tíu stig. Síðan komu þrír sæmilegir dagar en aftur frá. 18.-24. í sex daga, fór hitinn ekki í tíu stig. Fjögur dagshitamet fyrir sólarahringsmeðalhita í kulda voru sett en þó aðeins tvö fyrir lágmarkshita sólarhringsins. Svipað var ástandið á Hallormsstað á Héraði. Meðaltal hármarkshita var aðeins um 8 stig við sjóinn þar sem svalast var en um eða yfir 14 stig í allra bestu sveitum á suðurlandi. Á Hveravöllum voru frostnætur níu. Jafnvel á láglendi gerði stundum frost, t.d. -1,0 stig á Kornvöllum rétt við Hvolsvöll þ. 24. og sömu nótt -0,6 stig á Hjaltabakka við Blönduós en þá varð frostið -3,3 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Mesti hiti á landinu varð 22,4 stig á Vopnafirði þann 16. á eina verulega hlýja deginum fyrir norðan og austan. Meðalhitinn í þessum kalda mánuði sést á kortinu hér fyrir neðan en frávik þykktar yfir landinu á litkortinu. Að meðaltali er þykktin kringum 5456 m yfir suðvesturlandi. Því meiri sem þyktin er því hlýrra er loftið og því meiri þynnka því auðvitað kaldara.
1886 (8,2) Norðlægar eða norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Oft var bjart yfir vestanlands í mánuðinum og einnig á suðurlandi fyrri hluta mánaðarins. Þann þriðja og fjórða var hlý vestlæg átt og komst hitinn þá í 26,3 stig á Teigarhorni. Að öðru leyti var nokkru hlýrra seinni hluta mánaðarins en þeim fyrri. Í Grímsey voru ekki hámarksmælingar en tíu stiga hiti eða meiri var aldrei þar á mæli á athugunartímum allan mánuðinn. Minnstur hiti mældist 0,1 á Raufarhöfn. Þar var meðalhtinn aðeins 5,4 stig en á Borðeyri var hann 6,4 stig. Úrkoman var í kringum meðallag við austurströndina en annars staðar nokkuð undir meðallagi. Fróði á Akureyri segir 7. ágúst um veðurfarið norðanlands og austan þennan mánuð: ''Norðan og norðaustanátt hefir lengst af ríkt, optar rjgningar og kuldi, aðeins undantekning ef hlýr og regnlaus dagur hefir komið. Á Austurlandí hefir verið líkt tíðarfar, eptir frjettum, sem nýlega eru komnar þaðan. Tún og harðvelli þar kalið eptir vorharðindin eins og hjer norðanlands. Í Breiðdal og og innri hluta Hjeraðsins er grasvöxtur skástur, svo einstaka menn byrjuðu þar slátt í 14. viku sumars. Í Fjörðunum og á Úthjeraði er grasvöxtur á túnum og engjum mjög lítill, en þó tekur yfir þegar kemur norður fyrir Vopnafjörð, á Langanesi og Langanessströndum má ekki heita meira en gróður fyrir skepnur í úthaga og túnin 13 vikur af sumri lítið betri en um fráfærur, þegar vel árar.'' Jónassen gerði veðrinu skil í Ísafold:
Fyrst framan af vikunni var hægur sunnan-útsynningur, en er áleið gekk hann til landsuðurs með mikilli úrkomu, en hægð á veðri. Í dag 6. er hann genginn til norðurs, hægur og dimmur fyrir og um hádegið með rigningarskúrum. (7. júlí) - Umliðna viku hefir optast verið norðanátt hæg; aðfaranótt h. 10. gekk hann þó til landsuðurs (sa.) með mikilli rigningu fram að hádegi h. 10. Daginn eptir var hjer hæg austanátt með talsverðri úrkomu og síðari part dags gekk hann til vestur-útnorðurs með svækju; síðan hefir verið eindregin norðanátt, opt hvass til djúpanna; í dag 13. bjartasta veður á norðan, hvass til djúpanna. ... (14. júlí) - Alla vikuna hefur hann verið við norðanátt, hægur og optast hið hjartasta veður. Síðari part víkunnar hefur heldur hlýnað í veðri. Alla vikuna hefur verið úrkomulaust. Í gær 19. mikið mistur í loptinu um og eptir miðjan dag. (21. júlí) - Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri, mátt heita logn á hverjum degi; engin hefur verið úrkoman, að heita má, nema 22. rigndi litið eitt um tíma, og í morgun (27.) hefur við og við ýrt regn úr lopti. Í dag er hæg útsunnanátt, dimmur fyrir hádegi, bjartur síðari part dags. (29. júlí) - Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri með talsverðri úrkomu; einkum rigndi hjer mikið eptir hádegið 31. f. m. Síðustu dagana hefur verið sunnan útsunnan átt með skúrum, opt bjartur á milli. ... (4 ágúst).
Landsbanki Íslands tók til starfa þann fyrsta.
1979 (8,3) Fremur þurrviðrasamur mánuður og kaldur. Framan af var oft vestanátt með kuldum á vestanverðu landinu en sæmilegum hita dag og dag fyrir norðan og austan. Hiti náði ekki meðallagi í Reykjavík fyrr en þ. 23. Eftir það var nokkuð hlýtt og sólríkt sunnanlands en kalt eða í besta falli sæmilegt fyrir norðan. Þar var tiltölulega kaldast í mánuðinum, meira en 3 stig sums staðar undir meðallaginu 1931-1960, en á suðvesturlandi var hitinn kringum hálft annað stig undir því meðallagi. Í heild var mánuðurinn alls staðar fremur sólarlítill nema á Hveravöllum þar sem sólríkt var í kuldanum og er þetta með sólríkustu júlímánuðum sem þar var mældur. Sérstaklega var þó sólarsnautt á norðausturhorninu, aðeins 88 klukkustundir á Höskuldarnesi við Raufarhöfn. Slydda var víða fyrir norðan þ. 12. og 13. og festi sums staðar snjó í nokkrar klukkustundir, gránaði alveg niður að snjó á stöku stað, þó alautt væri talið að morgni. Mestur hiti kom þ. 24. Var þá hæð yfir Grænlandi en hæðahryggur um Ísland og víða bjart. Fór hitinn þá í 23 stig á Grundartanga og víða yfir 20 stig á suðurlandsundirlendi og reyndar í slétt tuttugu á Hólmi við Reykjavík en 18,6 í borginni. Um nóttina hafði hins vegar mælst mesti kuldi mánaðarins, -1,8 stig í bjartviðrinu á Staðarhóli í Aðaladal. Á Vöglum í Vaglaskógi fór frostið sömu nótt í -1,1 stig. Kortið sýnir meðallegu 850 hPa flatarins.
1888 (8,3) Suðurnesjaannáll segir: "Tíðarfar yfir sumarið hér hið æskilegasta. Grasvöxtur í góðu meðallagi og nýting hin besta." Í Árferði á Íslandi segir að verið hafi sífelld góðviðri, sólskin og þurrkar og mjög þurrviðrasamt um sumarið. Mánuðurinn var samt afar kaldur. Sérstaklega var hann kaldur á útskögum á norður og austurlandi og hefur ekki mælst kaldari júlí á Teigarhorni. Það var einnig mjög kalt í Grímsey þar sem voru næturfrost nær hverja nótt til hins 10. og einnig fjórar nætur seint í mánuðinum. Grímsey og Teigarhorn draga meðaltalið mikið niður en þetta var ekki meðal allra köldustu júlímánaða annars staðar. Eigi að síður er erfitt að skilja eftir hitatölum hina góðu einkunn sem Þorvaldur gefur sumrinu, líkt og sumrinu áður. Hinir sumarmánuðirnir voru enn kaldari þetta sumar en 1887 og var sumarið í heild því eitt af þeim allra köldustu líkt og 1887. Í þessum mánuði mældist reyndar minnsti lágmarkshiti í júlí nokkru sinni í Hreppunum, 0,7 stig á Hrepphólum en kaldast á landinu varð -2,8 stig í Grímsey þ. 10. Norðanátt var fyrstu tíu dagana en síðan yfirleitt austlægar áttir. Hlýjast varð 24,2 stig á Núpufelli í Eyjafjarðardal. Sólfar virðist þó hafa verið mikið og góðir þurrkar og það var alveg einstaklega hægviðrasamt. Þetta er enda þurrasti júlímánuður sem um getur á landinu, minna en 10% af meðalúrkomunni. Bæði í Vestmannaeyjum og Teigarhorni var minni úrkoma en í nokkrum öðrum júlí, á síðar nefnda staðnum aðeins 0,7 mm sem er minnsta úrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í júli og aðeins rigndi einn dag. Í Vestmannaeyjum og Grísmey voru fimm úrkomudagar en sex í Stykkishólmi. Mánuðurinn var sem sagt þurr, kaldur og hægviðrasamur. Heimskautabragur á honum. Jónasson hafði þetta að segja um veðrið í Ísafoldarblöðum:
Alla vikuna hefir verið einmuna fagurt veður daglega optast rjett logn. Í dag 3. hægur útnorðan-kaldi og bjartasta sólskin. (4. júlí) - Einmuna fagurt veður hefur verið alla þessa vikuna, optast alveg logn og bjartasta sólskin, aldrei dropi úr lopti. Í dag 10. logn og fegursta veður, sunnangola eptir kl. 4. (11. júlí) - Umliðna viku hefir verið mesta hægð á veðri rjett logn alla vikuna, optast dimmur og stundum með svækju-rigningu. Í dag 17. logn og dimmur. (18. júlí) - Sama blíðan hefir haldizt alla vikuna optast verið logn og bjart veður. Í dag 24. dimmur til hádegis, að hann gekk til norðurs með hægð, rjett logn og bjartasta sólskin. Loptþyngdartnælir mjög stöðugur. (25. júlí) - Alla umliðna viku hefir verið bjart og fagurt veður á degi hverjum, optast við norður hafi nokkur vindur verið; síðustu tvo dagana hefir heldur hvesst til djúpa og i gær h. 30. var úrhellis-rigning við og við eptir hádegi á vestan-útnorðan. Í dag 31. norðan, hvass útifyrir, bjart og fagurt veður í morgun, en þó við og við með krapa um og eptir hádegi. Í nótt snjóaði efst í Esjuna. (1. ágúst).
1885 (8,3) Suðurnesjaannáll segir svo: "Sumarið svo kalt, að engir menn muna, að annað eins hafi átt sér stað og fóru tún hér sunnan lands ekki að spretta fyrr en eftir Jónsmessu, enda leit svo víða út, að ekki mundu vera ljáberandi. Þó var sláttur byrjaður hér um pláss seinast í júlí, því þá var veðurátta snúin í votviðri, svo rekja fékkst meðan sláttur stóð yfir, sem ekki var lengi." Sérlega kalt var fyrstu þrjár vikurnar. Þá var í fyrstu ísköld vestanátt en síðan jafnvel enn kaldari norðlægar áttir. Ísafold þ. 22 júlí lýsti svo tíðinni í byrjun mánaðarins: Viku af þessum mánuði, 11 vikur af sumri, var ekki leyst af túnum sumstaðar á Austurlandi. Þar voru frost og snjóar öðru hverju allt til þess tíma, og eins í Þingeyjarsýslu og víðar nyrðra. Fjenaður allur hafður í heimahögum, og þó við rýran kost. Á Vestfjörðum einnig ódæma-árferði: tún kólu af frosti jafnóðum og af þeim leysti; málnyta hálfu minni en í meðalári. Varla hægt að komast yfir fjallvegi öðru vísi en skaflajárnað." Þetta er einn af allra köldustu júlímánuðum á suður-og suðvesturlandi frá 1866, næst kaldastur í Reykjavík, Hreppunum, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka. Mánuðurinn er sá úrkomusamasti sem hér er fjallað um, 81% yfir meðallaginu 1931-2000. Í Reykjavík er þetta úrkomusamasti júlí sem þar hefur mælst, 127 mm og féll þó aðeins á 14 dögum. Í Stykkishólmi var úrkoman meira en helmingi meiri en núverandi meðaltal. Sömu sögu er að segja um Grímsey (67 mm), Teigarhorni og Eyrarbakka (170 mm) en úrkoman var hins vegar nærri meðallaginu í Vestmannaeyjum. Ekki fór að rigna að ráði fyrr en eftir þann 20. þegar dró til suðlægra átta en eftir það voru miklar úrkomur um allt land. En þetta var líka hlýjasti kafli mánaðarins þó æði rysjóttur væri. Mestur hiti varð 20,1 stig á Teigarhorni þ. 20. Lægstur hiti var 1,2 á Raufarhöfn. Þorvaldur Thoroddsen skrifar: Í lok júlímánaðar kom loksins alls staðar hagstæð sumartíð ... ." Tún spruttu reyndar svo illa í þessum mánuði segir hann líka að varla fékkst af þeim helmingur miðað við það sem vant var. Fróði á Akureyri skrifaði 27. júlí: ,,Vegna stöðugra norðanstorma með kulda, er grasið svo lítið enn, að sláttur er óvíða byrjaður, þó er nú síðustu dagana hlýrra veður, svo heldur er útlit til að tún spretti nokkuð, engjar eru víðast enn lítt sprottnar og skemmast sumstaðar af vatnavöxtum''. Og 10. ágúst er í blaðinu bréf frá Patreksfirði 27. júlí þar sem segir að næsturfrost hafi verið í júli, snjór í fjöllum og óþíðinn snjór enn í giljum á túnum. En þannig útlistaði Jónassen Reykjavíkurveðrið í Ísafold:
Þessa vikuna hefir verið óstöðugt, hlaupið úr einni átt í aðra, og má segja, að óvenjulegur kuldi sje í loptinu; 1. gjörði hjer alhvítt skömmu fyrir miðnætti af hagljelum og sama átti sjer stað að morgni daginn eptir; þá varð Esjan alhvít niður til miðs rjett sem um hávetur; njóti eigi sólarinnar er hitamælir óðara kominn niður í 5-6 stig a daginn. í dag 7. hægur á landsunnan (sa) dimmur og væta í lopti ; mikil úrkoma síðan í gær. (8. júlí) - Einlægt er sami kalsi í verðinu og því almennt gróðrarleysi. Fyrri part vikunnar var hann um tima við norðanátt, optast hægur, síðari partinn við austanátt með nokkurri úrkomu. Í dag, 14., hægur á austan, dimmur, en þó úrkomulaus hjer fram yfir hádegi, en síðan suddarigning fram yfir nón. (15. júlí) - Sífelld norðanátt var hjer alla vikuna þangað til í dag, 21. að hann er genginn til landssuðurs (Sa). Sami kalsi hefir því verið allt til þessa í veðrinu. Í dag, 21., er hægur landsynningur (Sa). og lítur út fyrir úrkomu; loptþyngdarmælir stendur hátt og hefir ekki haggast síðan í fyrra kvöld. (22. júlí) - Þegar hann síðast í fyrri vikunni gekk úr norðanáttinni til landsuðurs (Sa), leit hann strax úrkomulega út og hefur og síðan mátt heita, að rignt hafi dag og nótt án afláts og síðustu dagana tvo óhemju-rigning og ekkert útlit enn í dag (28.) til breytingar; í þessu dimmviðri hefur loptþyngdamælir staðið hátt og varla hreyft sig 3 síðustu dagana. (29. júlí) - Allan fyrri part vikunnar hjelzt við rining sú, sem var alla fyrri viku... (5. ágúst).
1915 (8,6) Þessi júlí var sá næst kaldasti sem mælst hefur á Akureyri. Á Grímsstöðum var þetta fjórði kaldasti júlí frá 1907. Kaldara var þar 1918, 1970 og 1993. Sæmilega hlýtt var fyrstu tíu dagana og mesti hiti mánaðarins mældist í Vestmannaeyjum, 20,6 stig þ. 4. en á Grímsstöðum komst hitinn í tuttugu stig. þ. 9. En hinn 11. skal á hörku norðanátt með miklum kuldum. Á Akureyri mældist mesta frost sem þar hefur mælst í júlí, 1,0 stig þ. 12. og á Möðruvöllum í Hörgárdal mældist frostið -2,0 sömu nóttina en mesta frost mánaðarins mældist reyndar þ. 1. á Grímsstöðum, -3,0 stig. Kortið sýnir þegar norðanáttinn var að skella á með lofti norðan af heimskauti nánast. Sýnir kortið loftvægi við jörð en háloftahæð var yfir Grænlandi en austan við hana streymdi mjög norrænt loft en suðaustan við land var lægð í háloftunum. Ekki linnti norðankuldunum fyrr en síðustu dagana en þá mildaðist talsvert og var þá vindur orðinn hægur. Víða snjóaði nyrðra kringum þ. 10. Á suður og suðvestulandi var stundum nokkuð hlýtt í þessari norðanátt sem þar var yfirleitt björt. Á Stóranúpi og í Vestmannaeyjum varð meðalhiti mánaðarins yfir meðalaginu 1961-1990. Hitamunur milli landshluta var óvenjulega mikill. Hafís var talsverður á Eyjafirði og víðar fyrir norðan allan mánuðinn og hefur ekki síst valdið kuldunum þar. Sólarstundir á Vífilstöðum við Reykjavík voru 243 klukkustundir sem er langt yfir núverandi meðallagi fyrir Reykjavik og úrkoman á Vífilsstöðum var aðeins 12 mm og féll á þremur dögum, þar af var helmingur hennar mældur að morgni hins 1. Í Stykkishólmi var úrkoman einungis 5,8 mm og 28 mm í Vestmannaeyjum. Fyrir norðan rigndi meira. Á Möðruvöllum í Hörgárdal mældist úrkoman 8,6 mm sem er samt í minna lagi og sömu sögu er að segja um Teigarhorn.
Þann sjöunda var kvenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur á Austurvelli.
1993 (8,6) Þetta er víst hvorki meira né minna talinn mesti norðanáttamánuður allra júlímánaða, eftir því sem bloggbróðir Trausti Jónsson segir á sinni síðu! Fyrir norðan var líka úrkomusamt og alveg einstaklega kalt, allt að fjórum stigum undir meðalhitanum 1931-1960 inn til landsins á norðausturlandi. Aldrei hefur orðið kaldara á Grímsstöðum frá 1907 (ásamt 1970) og ekki heldur Möðrudal (4,6°) og Úthéraði (6,5°) frá 1898. Mikið norðanveður gerði 27.-28. og komst vindhæð í 12 vindstig í Æðey í Ísafjarðardjúpi. Það er þó mesta furða að aldrei festi snjó í byggð þó snjóað hafi í fjöll norðanlands aðfaranótt hins 10. Ekki kom heldur frost í byggð. Minnsti hiti mældist 0,1 stig í Möðrudal. Á suðurlandi var hitinn aðeins kringum eitt stig undir meðallagi og sólskinsstundir vel yfir meðallagi í Reykjavík. Enginn júlí eftir að 19. öld sleppti hefur boðið upp á jafn lágan hámarkshita á öllu landinu og þessi (ásamt júlí 1961), 20,6 stig á Norðurhjáleigu, þ. 19. Þrátt fyrir það munaði þó litlu að hitinn færi í tuttugu stig í Reykjavík þar sem mældust 19,7 stig þ. 26. en þann dag var hiti um og yfir 20 stigum á suðurlandsundirlendi. Tuttugu stiga hiti er sjaldgæfur í höfiuðstaðnum. Á Hrauni á Skaga og Sauðanesvita komst hiti hins vegar aldrei í tíu stig! Á Hrauni var hámarkið 9,6 stig en lágmarkið 3,5. Munurinn milli mesta og minnsta hita var því ekki nema 6,1 stig. Mánuðurinn var líka ótrúlega þungbúinn fyrir norðan og austan. Á Vopnafirði voru allir dagar taldir alskýjaðir sem er eiginlega súrrealískt! Sólskinsstundir á Akureyri voru 58 og hafa aldrei verið færri í júlí en 26 við Raufarhöfn og 40 við Mývatn. Er þetta minnsta sólskin sem mælt hefur verið í júlí á íslenskum veðurstöðvum. Úrkoman var mikil á norðausturlandi, mjög nærri meðallagi á Akureyri, en sáralítil á öllu sunnan og vestanverðu landinu en aftur á móti mikil á Vestfjörðum. Úrkomudagar voru aðeins 4-9 sunnnan og vestanlands en allt upp í 30 á Raufarhöfn og um eða yfir 25 annars staðar á norðausturlandi. Kortið sýnir ástandið í 850 hpa fletinum í kringum 1400 m hæð.
Debutplata Bjarkar Guðmundsdóttur, sem kom út í júní þetta ár, rauk í byrjun mánaðarins upp í þriðja sæti vinsældalistans í Bretlandi.
1983 (8,8) Þetta er 14. kaldasti júlí á öllum níu stöðvunum en er hér getið vegna þess að hann er sá kaldasti sem mælst hefur í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka eftir 1874. Í Reykjavik var meðalhitinn 8,5 stig, 8,0 á Stórhöfða og 9,0 á Eyrarbaka. Það var líka úrkomusamt syðra og vestra. Úrkomudagar voru 24 í Reykjavík og voru hvergi fleiri á landinu nema á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi og Brjánslæk á Barðaströnd þar sem þeir voru 25. Það var einnig mjög sólarlítið í borginni þar sem þetta er sjöundi sólarminnsti júlí. Hámarkshitinn í Reykjavík er sá lægsti í nokkrum júlí, 13,8 stig. Og meðaltal hámarkshita var aðeins 10,4 stig ef sneitt er hjá tvöföldum hámörkum og hefur aldrei verið lægra í júlí í borginni. Á Reykjanesvita fór hitinn aldrei hærra en í 11,5 stig. Á Hólmi, rétt við Rauðhóla hjá Reykjavík, mældist frostið -1,7 stig þ. 18. Kuldarnir voru mestir að tilölu á suðvesturlandi og upp í Borgarfjörð og vestanvert Snæfellsnes. Fyrir norðan var hiti aðeins lítið eitt undir meðallaginu 1931-1960, hvað þá 1961-1990, og reyndar fyrir ofan það á Vopnafirði. Á Héraði var sólríkt og sól var yfir meðallagi á Akureyri. Nokkrir verulega góðir dagar komu fyrir norðan og austan. Á Vopnafirði komst hitinn í 24,7 stig þ. 20. og á Hallormsstað fór hann fimm sinnum yfir tuttugu stig. Kaldast varð -2,5 stig á Staðarhóli í Aðaldal þ. 19. og -2,1 á Brú á Jökuldal sömu nótt. Þetta voru köldustu dagar mánaðarins og var meðalhitinn talinn 6-61/2 stig undir meðallagi á landinu í heild. Þá var auðvitað norðanátt og varð jörð alhvít á Hveravöllum báða dagana (1 cm) og þ. 18. á Grímsstöðun en snjódýpt var þar ekki mæld. Þann 22. mældist svo mesti kuldi sem mælst hefur á jörðunni, -89,2 stig á stöðinni Vostok (sem þýðir austur) á Suðurskautslandi en ósagt skal látið hvort hann tengist kuldanum á suðurlandi! En þennan dag var fólki eðlilega nóg boðið og efndi harðskeyttur hópur sólarsinna t til mótmælastöðu við Veðurstofuna og krafðist góðs veðurs um allt land! Úrkoma var lítil á norðusturlandi og austurlandi í þessum mánuði en annars staðar í meira lagi og mjög mikil sunnanlands og á norðvesturlandi. Í Vestmannaeyjum hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í júli. Vindar voru oft af vestlægum toga og kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins í kringum 5 km hæð.
Bush eldri, sem þá var varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands þ. 5. en Ray Charles skemmti á Broadway í Reykjavík þ. 7.
Í fylgiskjalinu sjást veðurtölurnar fyrir allr stöðvarnar.
Brandstaðaannáll; Suðurnesjannáll; Höskuldsstaðaanáll.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 9.12.2011 kl. 17:31 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.