Mikil dægursveifla

Hitinn í Reykjavík í þessum mánuði má nú heita kominn upp í meðallag. En ekki víst að hann hangi í því næstu daga. Nokkrir ágætir dagar með mikilli sól og hámarkshita upp á 15-16 stig hafa komið undanfarið og það gerist svo sannarlega ekki í hverjum júní. Hér í Reykjavík getum við ekki kvartað.

En annars staðar á landinu en suðvesturlandi er fremur kalt miðað við meðallag, meira að segja á  suðurlandi  og suðausturlandi. Og enn er hitinn vel undir tveimur stigum frá meðallagi fyrir norðan og  jafnvel  tiltölulega enn kaldara er á Vestfjörðum. 

Aldrei er hlýtt loft yfir landinu en hitinn á suðurlandi hefur orðið furðu hár á daginn þegar sólin skín en næturkuldinn líka ansi mikill. 

Á Þingvöllum fór hitinn í gær upp í 17,9 stig en í nótt féll hann niður í -1,8, en steig svo aftur í dag upp í 16,6 stig, dægursveifla upp á 19,7 stig,  en annað eins gerist stundum snemma sumars á Þingvöllum.   Bæði mesti og minnst hiti á landinu í dag í byggð var á Þingvöllum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Greinileg vinstrisveifla

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.6.2011 kl. 11:30

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, og veðurfarið vill ekki sjá neina hægrivillu sem leiddi síðast til hafísáranna alræmdu þegar hún var allsráðandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2011 kl. 11:56

3 Smámynd: Birnuson

Ættum við ekki að vera farnir að miða við meðaltal áranna 1981–2010, og er ekki rétt hjá mér að þar með væri þessi júnímánuður enn nokkuð undir meðaltali?

Birnuson, 23.6.2011 kl. 13:11

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, þá væri meðalhitinn enn 0,4 stig fyrir neðan meðaltal. Ef miðað er við siðustu tíu ár er meðalhitinn 22. júní núna hins vegar 1,2 stig undir meðallagi og sýnir það hlýindi síðasta áratugs . En ekki er kannski líklegt að jafn hátt meðaltal haldist áfram næstu 20 ár svo næsta 30 ára meðaltal haldist í þeim hæðum.  Samt  aldrei að vita!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2011 kl. 13:28

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meðallagið sem ég var að miða við var sem sagt hið lögformlega 1961-1990 sem er með þeim köldustu 30 ára tímabilum  sem hægt er að finna frá því snemma á 20. öld. En þetta er samt meðtalsástand í heil 30 ár og segir því mikið um það hitaástand sem fylgt hefur stórum hluta þjóðarinnar megninu af lífsskeiði hennar. En yngsta fólkið hefur aðra reynslu og líka það elsta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2011 kl. 14:13

6 identicon

Sæll! Það varð mikil dægursveifla á Akureyri fyrir nokkrum árum. Hiti um miðjan dag var um eða yfir 25°, undir miðnætti var hitinn um 17° og daginn eftir var hann kominn niður undir 1-2° og farið að mugga. Ekki vill svo vel til að þú eigir eitthvað um þetta í þínum fórum?

Við finnum gögn í gamla Degi um jónsmessuhretið 1992 þegar Norðmenn og Svíar komu til að skoða skíðasvæðið að Bjarnargili í Fljótum en þetta dæmi sem við höfum í huga er nýrra. Með kveðju og þakklæti fyrir fróðlegt blogg.

Áslaug Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2011 kl. 14:56

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Áslaug: Mér dettur í hug júní 1997. Þá segir Veðráttan: ''Aðfaranótt 4. fór mjög skarpt lægðardrag suður yfir landið. Vindur gekk til norðurs og kólnaði snögglega niður undir frostmark fyrir norðan með éljahreytingi. Aðeins 12 tímum áður hafði hiti verið vel yfir 20 stigum.'' Þann 3. var hámarkshitinn á Akureyri 24,6° en meðalhitinn 17,1° og hitinn kl. 18 var 24,1° en 17,4° á miðnætti. Um nóttina kólnaði svo mjög og kl. 9 næsta morgun var hitinn 1,8°.  Þann dag var meðalhitinn 2,7° og fór aldrei hærra en í 4,0° og næstu nótt féll  hitinn í -0,2°. Þetta eru einhver skörpustu veðrabrigði sem um getur að sumarlagi. Og í kuldakastinu sem þessu fylgdi mældist frost í eina skipti í júní í Vestmannaeyjum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2011 kl. 15:47

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En þessi hitamunur 1997 er ekki venjuleg dægursveifla eins og hefur verið síðustu daga á Þingvöllum heldur ruddi ískalt loft hlýju lofti burtu sem verið hafði yfir landinu. Í hitabylgjunni 2004 í ágúst meðan hlýindin enn stóðu sem hæst var dægusveiflan á Staðarhóli í Aðaldal hins vegar hlýjasta daginn, þ. 13., 27 stig, frá 1-28 stig. Þá voru engin loftskipti eins og 1997 heldur aðeins útgeislun nætur og inngeislun dags og hlýtt og þurrt loft yfir.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2011 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband