Hlýjustu septembermánuðir

Sá septembermánuður sem mestur ljómi stendur af hvað hita og góðviðri varðar er september 1939. Hann er að vísu strangt til tekið bara næst hlýjasti septembermánuðurinn, ef miðað er við þær 9 stöðvar sem lengst hafa athugað þó næstum því enginn munur sé á honum og þeim hlýjasta, en þar á móti kemur að hann var einstaklega blíðviðrasamur. Þetta er líka eini september sem 20 stiga hiti hefur mælst í Reykjavík. Síðast en ekki síst hefur mánuðurinn fest í minni fólks vegna þess að þá hófst síðari heimsstyrjöldin þó það komi veðurfari auðvitað ekkert við.

Eins og áður í þessum pistlum um hlýjustu og köldustu mánuði er hiti og úrkoma tíunduð í hverjum mánuði fyrir hverja og eina af hinum níu stöðvum sem við er miðað í fylgiskjalinu en innan sviga í þessum megintexta er meðalhiti þeirra allra. Hann er 6,7 stig fyrir árin 1961-1990.  

1939 (10,6) Mánuðurinn var sá hlýjasti sem komið hefur á  suðurlandi allt frá Kirkjubæjarklaustri til Hornbjargsvita, en þó ekki í Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal, Þingvöllum, Hvanneyri og á Reykjanesi þar sem hlýrra varð 1941. 1939_9_850.pngFyrstu níu daga mánaðarins (reyndar frá 29. ágúst) fór hitinn í Reykjavík aldrei niður fyrir tíu stig og hámarkshitinn fór fyrstu þrjá dagana í 18, 19 og 20 stig og aftur í 18 stig þ. 6. og 17 stig næstu þrjá daga þar á eftir. Meðaltal lágmarkshita var 9,8 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem þýðir að hann hefur næstum því örugglega verið yfir tíu stigum í kaupstaðnum. Og það í september! Mikil hlýindi voru í byrjun mánaðarins, 24,6 stig þ. 1. á Sandi í Aðaldal og 23,4 á Húsavík og þ. 3. var yfir tuttugu stiga hiti víða á suðurlandsundirlendi og vesturlandi, allt upp í 22,7 stig á Hvanneyri. Í Reykjavík mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í september, 20,1 stig þ. 3. sama dag og Bretar og Frakkar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur og var sólskinsglæta í bænum í hægri suðaustanátt. Á norðausturhorninu komst hitinn yfir 20 stig þ. 6. og á austfjörðum þ. 21. Á Akureyri mældist mesti hiti sem þá hafði þar mælst í september, 22,0 stig þ. 1. Hiti fór í 20 stig eða meira á vel yfir helmingi allra veðurstöðva sem mældu hámarkshita sem er býsna óvenjulegt í september. Kaldast varð -3,5 stig á Nefbjarnarsstöðum þ. 14. Nokkuð kólnaði er á leið mánuðinn eins og eðlilegt er en alltaf máttu þó heita hlýindi. 

Úrkoman var aðeins lítið eitt meiri en meðaltaið 1931-2000. Hún var meiri en venjulega syðra og á Austfjörðum og  kringum meðallag á suðvesturlandi en minni nyrðra eins og vænta mátti eftir vindáttinni, en suðlægar áttir voru venju fremur tíðar. Á norðausturlandi var úrkoma sums staðar aðeins um 17 mm og úrkomudagar 5-7 en á suðurlandi voru þeir um og yfir 20. Mikil úrkoma var víða upp úr þeim 20. og mældist sólarhringsúrkoman 106 mm á Horni þ. 24. Það var hægviðrasamt í mánuðinum og mjög oft talið logn. Á Akureyri var fremur mikið sólskin en lítið í Reykjavík. Heyskapartíð var víðast mjög hagstæð en þó var þurrklítið sunnanlands. Uppskera úr görðum var óvenjulega mikil. Síðustu tvo dagana kólnaði nokkuð og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan en hvergi festi snjó og var mánuðurinn alauður allstaðar. Yfir Bretlandseyjum var hlý háloftahæð þaulsetin sem hafði áhrif á veðurlagið hér á landi eins og sést á kortinu um meðalhæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð.   

Hér er samsett kort sem sýnir meðalhita hverrar stöðvar í septembermánuðum 1939 (blátt) og 1941 (rautt), eftir því hvort árið var hlýrra á viðkomandi stöð en mjög lítill munur var á meðalhita stöðva þessi ár. Báðir voru þessir mánuðir jafngildir vel hlýjum júlímánuðum að hita. 

sept_1111487.gif

 

1941 (10,7) Hlýjasti september sem mælst hefur á landinu er svo 1941, fjögur stig yfir meðallaginu 1961-1990, og er hann aðeins 0,1 stigi hlýrri en bróðir hans frá 1939. Mánuðurinn var sá hlýjasti víðast hvar á svæðinu norðan og austan til á landinu frá Hrútafirði til Fagurhólsmýrar en auk þess á Hvanneyri, Vík í Mýrdal, Vestmannaeyjum, Þingvöllum og Reykjanesi. Meðalhitinn á Akureyri, 11,6 stig, er hæsti septembermeðalhiti sem skráður hefur verið á íslenskri veðurstöð. 1941_9_850.pngÞetta er einhver mesti sunnanáttaseptember sem vitað er um. Mánuðurinn var enda miklu votviðrasamari en 1939. Mest rigndi náttúrlega á suður og vesturlandi þar sem úrkoman var 2-21/2 sinnum meiri en í meðallagi en minna en helmingur af meðallagi á Akureyri. Minnst rigndi að tiltölu á norðausturströndinni, aðeins fjóra daga við Bakkafjörð og við Eyjafjörð. Mánaðarúrkomutölur fyrir sumar stöðvar eru ansi háar, 378,5 mm í Kvígindisdal sem er septembermet þar,  351 á Ljósafossi og 335 mm á Kirkjubæjarklaustri. Aldrei hafa verið fleiri úrkomudagar í september í Reykjavik, 28, og voru því líkir á suður og vesturlandi og á Ljósafossi jafnvel 29. Síðari hluta mánaðarins fór hver lægðin á fætur annarri norður fyrir land úr vestri og fylgdi úrkoma með og oft hvassvirði um vesturhluta landsins. Í heild var mánuðurinn þó ekki vindasamur. Gífurleg úrkoma var i kringum þ. 20. og aftur 25., víða 40-60 mm á sólarhring á suður- og vesturlandi. Mikil flóð urðu þá í Múlakvísl og Núpsvötnum. Eftir miðjan mánuðinn varð afar hlýtt á norður-og austurlandi, 24,4 stig á Hallormsstað þ. 15. sem þar er septembermet og 22,2 á Sandi þ. 19. Tuttugu stiga hiti eða meira mældist aðeins á sex veðurstöðvum sem mældu hámarkshita, þar af er ein mæling sem næstum því örugglega er  röng, en á 17 stöðvum 1939. Kaldast varð -3,2 stig á Grímsstöðum þ. 6. í hægviðri sem stóð í einn dag. Ólíkt september 1939 kom seinni helmingur þessa mánaðar síst verr út í hitanum en fyrri hlutinn. Eins og 1939 var hæðasvæði yfir Bretlandseyjum en þó lengra frá landinu en þá en aftur á móti var lægða-og úrkomusvæði nær landinu vestan við það. Sjá kortið frá meðalhæð 850 hPa flatarins.  

Heimsstyrjöldin geisaði og hófst umsátrið um Leningrad þann fyrsta. En síðasta daginn voru framin fjöldamorðin í Babi Yar.

Þessir tveir mánuðir, 1939 og 1941, eru eiginlega í sérflokki hvað hlýindi varðar.

September 1958 og 1996 eru þeir þriðji og fjórði hlýjustu. Þeir eru samt nokkru svalari en þeir tveir sem hér hafa verið taldir, en eigi að síður afar hlýir.

1958 (10,2) Eins og september 1939 er september 1958  einnig frægur af öðrum ástæðum en veðurfarslegum. Þá var landhelgin færð í 12 mílur og geisaði fyrsta þorskastríðið við Breta. Þessi mánuður var ekki eins úrkomusamur og þeir sem hér hafa verið taldir en sólin var fremur lítil. Mest rigndi á suðausturlandi, enda var suðaustanátt langalgengust í mánuðinum, en minnst rigndi á norðurlandi. Aldrei hefur mælst minni úrkoma á Akureyri, aðeins 0,4 mm sem féll á einum degi. Þurrkamet var einnig á Grímsstöðum, 1,5 mm. 1958_9_850t_an_1111318.pngMjög hlýtt var síðustu dagana og mesti hiti mánaðarins í Reykjavík mældist síðasta daginn, 16,9 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst svo seint að sumri. Svipaður hiti eða meiri var þann dag allra syðst á landinu og á suðausturlandi. Á Stórhöfða kom þá mesti hiti þar í september, 15,4 stig. En á Seyðisfirði féllu miklar skriður. Mjög hlýtt var einnig dagana 3.-5. og hlýjast var þann þriðja þegar hitinn fór í 23,4 stig á Húsavík. Minnsti hitinn sem mældist í Reykjavík þennan mánuð var 5,4 stig og er það hæsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst í nokkrum september. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi var 11,5 stig og er það einhver mesti meðalhiti á veðursstöð í september. Eiginlegt kuldakast kom aldrei en hitinn féll í þó -2,2 stig á Barkarstöðum í Miðfirði aðfaranótt hins 20. sem þykir nú ekki tiltökumál á þeim stað. Svokölluð þykkt yfir landinu var 70-80 metrum yfir meðallagi en því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kortið sýnir hins vegar frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð yfir landinu.

1996 (10,15) var meðalhiti alls landsins svipaður og 1958 en fyrir sunnan var kaldara en norðanlands og austan var hitinn svipaður og 1941 og sums staðar meiri. Á Raufarhöfn (9,6°), Úthéraði (10,7°), Teigarhorni og Seyðisfirði var þetta hlýjasti september sem mælst hefur. Meðalhitinn á Seyðisfirði var 11,5 stig og er það eitt af fimm hæstu gildum meðalhita í september á veðurstöðvum. Hlýjast varð þ. 4. og var þá víða fyrir norðan yfir 20 stiga hiti, en mest 22,0 á Garði í Kelduhverfi. 1996_9_thick_an.pngSama dag komst hitinn í Grímsey í 18,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur verið skráður í september í ansi langri en ekki alveg samfelldri sögu hámarkshita. Í bjartri vestanátt þ. 11. komst hitinn í 20,4 stig í Norðurhjáleigu í Álftaveri og er slíkur hiti þar mjög sjaldgæfur í september.

Sunnanáttin var þrálát og þetta er þriðji sólarminnsti september í Reykjavík frá því mælingar hófust, 55 klst, en hins vegar mældust 104 klst á Akureyri og 113 við Mývatn, en aðeins 41 klst við Hveragerði. Á norðausturlandi var úrkoman einungis um helmingur þess sem venjan er og upp að meðallagi en votast var tiltölulega norðvestanlands, en á suðurlandi var úrkoma kringum helmingi meiri en venjulega. Úrkomudagar á suður-og vesturlandi voru margir, 25-27 víða og sums staðar 29. Á Kvískerjum var heildarúrkoman 454 mm. Kortið sýnir þykktina yfir landinu sem var heldur minni en 1958.

Svavar Gests, hinn þekkti tónlistar-og útvarpsmaður, lést fyrsta dag mánaðarins en síðasta daginn hófst eldgosið í Gjálp í Vatnajökli.  

2010 (9,4)  Mestur var meðalhitinn í þessum mánuði 10,9 stig á Garðskagavita. Nú voru komnar sjálfvirkar veðurstöðvar víða en engar slíkar voru vitanlega í september 1939, 1941 og 1958. 20100309_1111324.gifÍ fyrstu vikunni kom einhver mesta hitabygja (sjá kortið sem sýnir hita í 850 hPa fletinum þ. 3.) sem  mæld hefur verið í september. Komst hitinn í 24,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þ. 4. og sama dag 24,7 stig á Mánárabakka og er þetta nærri Íslandsmetinu í september (26,0 stig á Dalatanga, þ. 12. 1947). Staðarmetið frá 1939 féll á Akureyri þar sem hitinn fór 23,6 stig þennan dag og á Staðarhóli fór hitinn í 23,1 stig. Meðalhitinn á Akureyri þann fjórða var 17,9 stig og er það mesti meðalhiti nokkurs dags í september frá a.m.k. 1948 og sennilega miklu lengur. Í þessum látum komu reyndar dagshitamet að sólarhringsmeðalhita í Reykjavík alla dagana frá þeim fjórða til níunda og á Akureyri dagana 3.-5. og 8. Kaldast í byggð í þessum mánuði varð -6,1 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. en -8,5  stig mældust þ. 21. á Brúarjökli. Úrkoman var mjög lítil fyrir norðan en kringum meðallag á landinu í heild.  

Þetta sumar, frá júní til september, er hið hlýjasta sem mælst hefur víða á suður og vesturlandi, svo sem í Reykjavík, Stykkishólmi og Stóhöfða en allar þessar stöðvar hafa lengi athugað. Einnig er þetta hlýjasta sumar á Hveravöllum (frá 1963).  

Danski skákmeistarinn Bent Larsen, góðkunningi Íslendinga, lést þ. 9. en í mánaðarlok samþykkti Alþingi að stefna Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdóm.      

1901 (9,3). Þá voru óþurrkar miklir á suðurlandi. En litlar fréttir fara af úrkomu á norðurlandi því þar voru engar úrkomumælingar. Á Teigarhorni var úrkoma hins vegar meira en tvöföld miðað við meðallag. Mánuðurinn lá í sunnan-og suðaustlægum áttum svo fáir mánuðir jafnast við hann að því leyti.  Hlýjast varð 18,7 stig á Kóreksstöðum á Úthéraði en kaldast - 2,1° i Grímsey.

2008_9_850.png2008 (9,2) Mjög úrkomusamt var á suður- og vesturlandi. Met úrkoma var í Stykkishólmi og í Reykjavík er þetta næst úrkomusamasti september og munar sáralitlu á metmánuðinum og þessum (176,0 mm 1887). Miðað við þær fimm úrkomustöðvar sem hér er stuðst við er þetta einfaldlega úrkomusamasti september sem þær hafa mælt. Á Akureyri var úrkoman þó í minna lagi. Á Nesjavöllum var úrkoman 665,9 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á landinu á veðursstöð í september. Sólarhringsúrkoman mældist á Nesjavöllum 197,0 mm þ. 17. og er það mesta sólarhringsúrkoma á mannaðari stöð í september (árið eftir, þ. 27.  mældust 220,2 mm á sjálvirku stöðinni á Ölkelduhálsi). Hlýjast varð á sjálfvirku stöðinni á Raufarhöfn, 20,6 stig þ. 17. og sama dag mældust 20,1 stig á mönnuðu veðurstöðnni þar. Kaldast í byggð var -4,2 stig á Möðrudal síðasta dag mánaðarins. Sama dag mældist frostið -7,3 stig  uppi á Brúarjökli. Lægðir og úrkomusvæði voru oft nærri landinun eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.

Undir lok mánaðarins varð hrunið mikla í íslenska bankakerfinu.

1953 (9,2) Áttundi hlýjasti september er svo hinn ágæti góðviðrismánuður 1953. Þá  var hitinn mjög jafn um land allt, 9-10 stig í betri byggðum, úrkoma var nokkuð mikil nema á norðurlandi og sólin var af skornum skammti. Hlýjast varð 20,2 stig á Hallormsstað þ. 7. en kaldast -5,9 á Möðrudal þ. 12. Býsna mikil úrkoma var sunnanlands og vestan og ekki hefur fallið meiri úrkoma í september á Hólum í Hornafirði, 375,9 mm og á Keflavíkurflugvelli, 225,2 mm. Uppskera garðávaxta þótti með afbrigðum góð. Mánuðurinn var veðragóður en þó hvessti dagana 24.-26. af vestri og varð þá mikill sjávargangur í Faxaflóa og við Breiðafjörð sem olli nokkrum skaða. Í kjölfar vestanáttarinnar kólnað og snjóaði víða í fjöll en þó var alls staðar snjólaust í byggð í mánuðinum nema einn dag við Mývatn. 

Þann 6. varð fjögurra ára telpa úti  skammt frá Hólmavík. Vakti sá atburður mikla sorg um land allt en hans er þó hvergi getið í nýrri annálabókum.

1933 (9,2) Þetta var síðasti mánuðurinn í hlýjasta sumri sem komið hefur norðanlands. Á Akureyri var meðalhitinn í mánuðinum 10,4 stig og þar var þetta því fimmti hlýjasti september.  Miklar rigningar voru á suður-og vesturlandi og er þetta úrkomusamasti september sem mælst hefur í Stykkishólmi og með þeim úrkomumestu í Reykjavík. Sunnanáttir voru með allra mesta móti. Á Hvanneyri var úrkoman 282,3 mm og var aldrei meiri þar í september meðan mælt var. Úrkomudagar voru þó færri yfirleitt en 1941. Mánaðarrúrkoman í Vík var talinn 474,9 mm sem er það mesta þar í september og sólarhringsúrkoman var 150,3 mm þ. 9. , sem er líka met þar, en einhver óvissa er þó víst um töluna. Þennan dag mældist mesti hiti mánaðarins, 20,1 stig í Fagradal í Vopnafirði. Rigningin þessa daga ollu miklum vexti í mörgum ám og skriðum sums staðar. Mánuðurinn var enda talinn mjög rosasamur á suður-og vesturlandi. Það var í þessum rigningarmánuði sem Þórbergur Þórðarson reið yfir Skeiðará og segir frá því í hinni mögnuðu frásögn Vatnadeginum mikla. Að mínu tali nær mánuðurinn upp í það að vera tíundi úrkomusamasti september en þó ekki meira en það. Mikið jökulhlaup kom þ. 8. eða 9. í Jökulsá á Sólheimasandi og skemmdist brúin mikið. Kaldast varð - 3,3° á Kollsá þ. 13. í stuttu kuldakasti. Sumarið í heild, frá júní til september, er það hlýjasta sem mælst hefur á Akureyri.

1931_9_500v_1111335.png1931 (9,15) Þessi september er sérstakur fyrir það hve vestanáttinn var eindregin. Hún var þurr og loftþrýstingur oft hár framan af og fylgdi þessu venju fremur mikið sólskin. Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr sunnanlands og vestan fram yfir miðjan mánuð en allan mánuðinn á norður-og austurlandi. Hiti fór þar yfir tuttugu stig um miðjan mánuð og aftur þ. 21. og 22. og fyrri daginn mældist mesti hiti mánaðarains, 22,1 stig á Eiðum. Eftir miðjan mánuð gerði óþurrka mikla sunnanlands og vestan. Ekkert raunverulegt kuldakast kom en næturfrost voru sums staðar í fyrstu vikunni í hægri norðanátt, mest -4,9 stig á Grímsstöðum þ. 4. Ekki var mánuðurinn samt eintóm blíða. Vestan hvassviðri var um allt land þ. 17. og aftkaveður gerði við Eyjafjörð og þá snjóaði á Vestfjörðum svo þ. 18. var alhvítt á Suðureyri við Súgandafjörð og Þórustöðum í Önundarfirði.  

Nokkurra annarra septembermánaða ber að geta. Mjög hlýtt var  í september lengi fram eftir 1968 á suður og vesturlandi. Þetta var hins vegar á hafísárunum og var mánuðuirnn ekki hlýr við sjóinn á norður-og austurlandi og meðalhitinn ekki meiri en 8,0 stig á Akureyri, lítið yfir meðallaginu 1931-1960. Þegar fjórir dagar voru eftir af mánuðinum var meðalhitinn í Reykjavík 10,6 stig en síðustu dagana kom óvenjulega hastarlegt kuldakast svo lokatala hitans í mánuðinum varð 9,7 stig. Mánuðurinn kólnaði sem sagt um 0,9 stig á fjórum dögum. Slíkt hrun í mánaðarmeðalhita var algengt á ísaárunum. Í þessum mánuði var einkanlega hlýtt kringum þ. 10. og mældist þá mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í september síðan 1939, 18,5 stig, tvo daga í röð, og á Þingvöllum komst hitinn í 20,2 stig þ. 10. Tiltölulega sólríkt var á suðurlandi þegar um hlýja september er að ræða, en þeir eru oft þungbúnir sunnanáttamánuðir, 114 klst mældust á Sámsstöðum í Fljótshlíð. 

September 2006 krækir í 11. sæti að hlýindum. Þá eru þrír septembermánuðir eftir 2000 meðal ellefu hlýjustu septembermánaðanna.  

1935_9_500v_1111336.pngÁrið 1935 var september reyndar ekki nema í meðallagi í hita á landinu miðað við meðaltalið 1931-1960 og í kaldara lagi fyrir norðan og austan, en á suðvesturlandi var hann vel hlýr, 9,2 stig í Reykjavík. Það er hins vegar merkilegt með þennan mánuð að hann er allra mánaða mestur austanáttamánður enda var hann í Reykjavík, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum úrkomuminnstur septembermánaða, 12,6, 1,6 og 39,9 mm. Í rigningarbælinu Kvígindisdal í Patreksfirði var einn úrkomudagur (0,2 mm) og reyndar einnig í Hrútafirði. Mánuðurinn var einnig tiltölulega sólríkur vestanlands með 130 sólarstundir í Reykjavík. Svona hlýir, þurrir og sólríkir septembermánuðir í höfuðborginni eru sannarlega sjaldgæfir. Fádæma úrkoma var aftur á móti á Seyðisfirði í linnulausri austanáttinni,  492 mm sem er með því mesta sem mælist í september og sólarhringsúrkoman var 110 mm þ. 15. Þessi mánuður er sláandi dæmi um breytilegt veðurlag í landshutum eftir því hvort vindur er af hafi eða landátt ríkir. Einnig rigndi mikið sunnanlands og suðaustan. Rigningarnar ollu skriðuhlaupum víða sem ollu miklu tjóni. Kortið sýni stefnu og styrk vindsins í um 5 km hæð.

Af eldri mælingum, fyrir okkar helsta viðmiðunarár 1866, má ráða að september 1828 var mjög hlýr í Reykjavík, eins og allt sumarið, 10,2 stig. September 1850 var þar einnig 10,2 stig en ekkert sérstakur í Stykkishólmi.

Fyrra fylgiskjalið sýnir hita og úrkomu stöðvanna en hið síðara sýnir veðrið í Reykjavík og fleira í hinum sögufræga og hreint ótrúlega september 1939. 

Skýringar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband