Sólarminnstu aprílmánuðir

Það er nánast hlálegt að sólarminnsti apríl í Reykjavík, árið 1974 með 57,2 klukkustundir af sól, skuli líka vera hlýjasti apríl sem þar hefur mælst og á öllu landinu þar sem hitinn var 3,7 stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem hér er miðað við um hitafrávik. Ýmsar veðurstöðvar sem hafa mælt sól settu met í sólarleysi, Reykhólar, 49,3 stundir (1958-1987), Hveravellir 82,3 (1966-2004) og  Sámsstaðir 53,8 stundir (frá 1964).  Á Reykjum í Ölfusi voru hins vegar sólskinsstundirnar aðeins  29,8, svo ótrúlega sem það hljómar, og hefur ekki mælst minni sól á íslenskri veðurstöð í apríl. Fyrir norðan og austan var aðra sólarsögu að segja. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 154,4 en 175 á Hallormsstað. Sunnanátt var langtíðasta vindáttin. Úrkoman var mikil, 37% fram yfir meðallagið 1931-2000 þeirra stöðva sem lengt hafa athugað. Mikil úrkoma var á vesturlandi og mánaðarúkomumet á Lambavetni 157,1 mm og Kvígindisdal 324,3 mm. Snjólag var með því minnsta sem verið hefur í apríl síðan byrjað var að fylgjast með síku 1924, 15%. Síðasta dag mánaðarins hófst jarðskjálftahrina í Borgarfirði sem hélst fram í desember.

Í apríl 1913 mældust sólskinsstundirnar 59 á Vífilsstöðum. Við teljum það hér til Reykjavíkur og er þetta þá næst sólarminnsti apríl í bænum. Hitinn var um hálft stig yfir meðallaginu. Hraungos hófst þ. 25. við Mundafell og Lambafit norðaustur af Heklu. Í Skeiðará kom stórhlaup í þessum mánuði. Úrkoman á landinu var örlítið meiri en 1974.

Árið 1921 var úrkoman hins vegar miklu meiri, hátt upp í að vera tvöföld meðalúrkoma á landinu og er þetta talinn úrkomusamasti apríl sem mælst hefur. Í Stykkishólmi hefur ekki mælst meiri úrkoma í apríl, 124,5 mm (frá 1857) og heldur ekki í Reykjavík, 149,9 mm. Sólin skein í 82 stundir í Reykjavík sem gerir hann að sjötta sólarminnsta apríl. Hitinn var í meðallagi á landinu. Í lok mánaðarins komst hitinn í 19 stig á Grímsstöðum sem þá var mesti aprílhiti sem mælst hafði á landinu. Í Reykjavik fór hitinn í 14,6 stig.

Apríl 1923 er sá þriðji sólarminnsti með 68 sólskinsstundir. Tíðin var hægviðrasöm og sagt var að sólríkt hafi verið nyrðra en engar sólskinsmælingar voru  þó til staðar. Hlýtt var í veðri, um eitt og hálft stig yfir meðallagi, en úrkoman var ríflega þrír fjórðu af meðallaginu. Þann 19. opnaði Bæjarbókasafnið í Reykjavík sem nú er Borgarbókasafnið. 

Apríl 1976 er fjórði sólarminnsti í Reykjavik með 78 stundir. Hitinn var aðeins yfir meðallagi en úrkoman 87% af meðallaginu. Snjólag var 49%. Hitabylgja miðað við árstíma kom í mánuðinum. Þann 22. mældist hitinn á Akureyri 19,8 stig sem þá var mesti aprílhiti sem mælst hefur a landinu en það met hefur síðan verið margslegið.

Fimmti sólarminnsti apríl í Reykjavik er 1973 með 83 stundir. Hitinn var rúmt stig yfir meðallagi en úrkoman var aðeins um þrír fjórðu hlutar af meðalúrkomu. Á Kvískerjum hefur ekki mælst minni aprílúrkoma, 47,3 mm (frá 1962) og ekki á Fagurhólsmýri, 25,1 mm (frá 1924).  Snjólag á landinu var 40%.

Níundi sólarminnsti apríl í höfuðborginni er árið 1938 þegar sólin skein í 87 stundir. Hitinn var rétt rúm tvö stig yfir meðallagi og er þetta reyndar 11. hlýjasti apríl á landinu en úrkoman var aðeins undir en meðallagi. Mjög þurrt var fyrir norðan og austan. Á Akureyri er þetta þriðji þurrasti apríl, 5,4 mm, en sá allra þurrasti við Mývatn, 0,3 mm (frá 1938). Á Teigarhorni var úrkoman 2,0  mm. Allt aðra sögu er að segja af Vestfjörðum en á Suðureyri hefur ekki mælst meiri aprílúrkoma, 147,1 mm (1923-1989). Snjóhula var 30% á landinu.  

Næsti apríl  á undan, 1937, reynist svo vera sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 95 sólskinsstundir. Hitinn var dálítið lægri en 1938, 1,8 stig yfir meðallagi. Aftur á móti var mánuðurinn enn úrkomusamari og er vel inni á topp tíu listanum fyrir úrkomusömustu aprílmánuði. Ekki hefur mælst meiri úrkoma á Fagurhólsmýri í apríl, 280,6 mm. Sjólagið var 33% á landinu. Þann 26. gerði þýski flugherinn hina villimannslegu loftárás á basknesku borgina Guernica og Picasso gerði síðar um atvikið sína frægu mynd. Þetta er talin fyrsta terror loftárás á borgir í sögunni. 

Tveir aprílmánuðir um miðjan sjötta áratuginn eru á topp tíu listanum yfir sólarminnstu aprílmánuði í Reykjavík. Árið 1954 er sá áttundi sólarminnsti með 114 sólarstundir en apríl 1955 er sá níundi sólarminnsti með 129 sólskinsstundir. Í fyrrnefnda mánuðinum þótti nokkuð stormasamt þrátt fyrir hlýindin en hitinn var 1,7 stig yfir meðallagi og úrkoman var rífleg meðalúrkoma. Hún var samt mikil á suðurlandi og á Þingvöllum mældist aldrei meiri aprílúrkoma, 206, 9 mm (1935-1983) og ekki heldur á Eyrarbakka, 205,3 mm en þar hefur verið athugað sundurslitið af nokkrum árum frá 1880. Snjólag á landinu var 26%. Síðarnefndi mánuðurinn var enn hlýrri, 2,4 stig yfir meðallagi og ég tel hann vera 8. hlýjasta apríl á landinu. Úrkoman var um einn fjórða fram yfir meðallag en snjólagið var aðeins 19%. Á suðurlandi og vesturlandi var sums staðar alautt, þar með talið í Reykjavík og þar varð aðeins einn frostdagur en enginn allra syðst á landinu og á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Mikil skriðuföll eftir stórrigningar ollu miklu tjóni þann 16. og fórst eitt barn á Hjalla í Kjós. Eðlisfræðingurinn Albert Einstain dó sama dag.         

Á Akureyri er apríl 1956  sá sólarminnsti með 49 sólskinsstundir en meðaltalið 1961-1990 er 129,8 stundir. Hitinn var rétt yfir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. Snjólagið var 36% en sums staðar á suðurlandi var alautt en  einn dag var alhvítt í Reykjavík. Í mánaðarlok mátti víða heita snjólaust í byggð. Dönsku konungshjónin komu til Reykjavíkur snemma mánaðarins.

Næst sólarminnsti apríl á Akureyri er 1944 en þá skein sólin í 53,5 stundir. Hitinn á landinu var nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990 en úrkoman rétt aðeins yfir meðallaginu 1931-2000. Snjólag var 38%. Fyrir norðurlandi var dálítill hafís og var hann reyndar landfastur kringum Raufarhöfn meirihluta mánaðarins.

Apríl 1932 er þriðji í röðinni en þá voru sólskinsstundir 56 en aftur á móti 171 í Reykjavík. Kalt var í nær látlausum norðannæðingi og gróður sem kominn var á veg eftir hlýjan vetur sölnaði. Hitinn var tvö og hálft stig undir meðallagi á landinu. Úrkoman var um 11% fram yfir meðallagið og snjólagið var 52%. Úrkoman var einstaklega mikil sums staðar norðanlands. Mánaðarmet fyrir úrkomu voru sett á Akureyri, 87,9 mm. Lengi fram eftir mánuði var hafís fyrir norðurlandi og Vestfjörðum. Ísbjörn kom á land á Stöndum.   

Það sögufræga ár 1939 flaggar fjórða sólarminnsta apríl í höfuðstað norðurlands með 62 3 sólarstundir. Hitinn var um 1,2 stig yfir  meðallagi yfir landið en úrkoman aðeins fyrir neðan meðallag. Hún var þó mikil á norðvestanverðu landinu. Á Horni var hún 184,5 mm og hefur aldrei verið jafn mikil þar um slóðir í apríl. Á Grímsstöðum hefur hins vegar  ekki mælst minni úrkoma, 4,3 mm (frá 1936). Þetta var árið sem mesti hiti á landinu var mældur, í júní, en óvenjulega heitur apríldagur kom á suðaustur landi þann 27. Fór  þá hitinn á Fagurhólsmýri í 18,2 stig sem enn í dag er aprílhámark á staðnum. Snjólag var 31%. Alautt var í Reykjavík, Stykkisólmi og á Reykjanesvita. Síðasta dag mánaðarins kom til Reykjavíkur hinn harðskeytti nasisti og ræðismaður Þýskalands, Walter Gerlach. 

Apríl 1949, er sá fimmti sólarminnsti á Akureyri er með 64 sólskinsstundir.  Hitinn var 2,9 undir meðallaginu 1961-1990 og tel ég þetta vera sjöunda kaldasta apríl. Úrkoman var rómlega þrír fjórðu af meðallaginu 1931-2000. Á suður og suðvesturlandi voru fádæma snjóþyngsli og víðast hvar var mikil snjór. Snjólagið var 71%. Hámarkshiti í Reykjavík var sá lægsti sem mælst hefur í apríl, aðeins 6,6, stig. Hafís sem var fyrir norðurlandi og varð meira að segja landfastur við Horn og Skagatá.

Árið 1992 var apríl sá sjötti sólarminnsti á Akureyri  með 71 sólarstund. Á Melrakkasléttur mældist aldrei  minni aprílsól, 41,9 stundir. Hitinn var um 0,2 stig undir  meðallaginu á landinu en úrkoman lítið eitt minni en í sínu meðaðallagi. Snjólag var 38% en óvenju lítill snjór var í byggð á norður og austurlandi.  

Sjöundi sólarminnsti apríl á Akureyri er 1979  þegar sólin skein 72 stundir. Ekki mældist minni sól í apríl á Hallormsstað, 84,6 stundir (1953-1987). Sólríkt var í Reykjavík en þar er þetta ellefti sólríkasti apríl með 197 sólskinsstundir. Hitinn var um 0,8 stig undir meðallagi á landinu en úrkoman um 65% af henni. Snjólag var 55%. Hafís lokaði höfnum á norðausturlandi snemma í mánuðinum.

Árið 1971 var apríl sá áttundi sólarminnsti á Akureyri með 74 sólarstundir. Hitinn var rétt aðeins yfir meðallagi en úrkoman á landinu var 100% í meðallagi! Hún var samt misjöfn eftir landshlutum eins og oftast er. Suðvestanátt var algengust vindátta og snjólagið var 45%.  

Margt merkilegt gerðist í þessum mánuði. Igor Stravinsky, eitt merkasta tónskáld 20. aldar dó þ. 6., Freymóður Jóhannesson listmálari og tónskáld (12. september) kærði fornklámið í Bósasögu þ. 10. Fyrsta geimstöð á braut um jörðu komst í gagnið þ.19., handritin komu til Íslands í kulda og bjartviðri  þ. 21. en þ. 25. var fjölmenn mótmælaganga í Washington gegn Vietnamstríðinu og síðasta daginn kom fimmþúsundkrónaseðill í umferð  Íslandi.

Gæðaárið 1953 var apríl samt einkennilega kaldur á landinu, sá 12. kaldasti að mínu tali og sá níundi sólarminnsti á Akureyri með 78 sólskinsstundir. Þar er þetta jafnfram næst úrkomusamasti apríl með 86,4 mm. Ekki hefur heldur mælst meiri aprílúrkoma við Mývatn 58,1 mm (frá 1938) og Grímsstöðum á Fjöllum, 62,3 mm (frá 1936) og við Blönduós, 79,9 mm (1925-2003). Hitinn var 2,7 stig undir meðallagi á landinu. Snjólag var 69% og var snjóungt fyrir norðan. Þann þriðja féll snjóflóð á bæinn Auðnir í Svarfaðardal og fórst þar tvennt.                    

Tíundi sólarminnsti apríl á Akureyri er 2009 með 82 sólskinsstundir. Hitinn á landinu var næstum því tvö sig yfir meðallagi. Úrkoman var feiknarlega mikil. Næstum því 100% fram yfir meðallagið 1931-2000 á þeim fáu stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Mánaðarúrkoman á Kvískerjum var 523,7 mm og er það mesta mánaðarúrkoma í apríl sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Önnur mánaðarmet fyrir úrkomu voru á Mánárbakka, 82,8 mm (frá 1957), Vík í Mýrdal, 305,2 mm (1926) og í Vestmannaeyjum 218,1 mm (frá 1881). Snjólag var 46% á landinu.         

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband