Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
27.1.2007 | 18:19
Allt í gamni
Maður trúir því varla að næstum því sex þúsund manns séu að blogga á Mogganum. Mér líst samt ekkert á þessa stefnu sem Moggabloggið er að taka með því að samtvinna það svona sterkt blaðinu sjálfu og reyna beinlínis að stýra því inn á þær brautir að verða þjóðmálablogg, eins konar absúrd framhald af Staksteinum.
Blogghundurinn er einhver orðfimasti og beittasti bloggarinn á Mogganum. Hann hefur sagt um bloggið: Blogg er markaðstorg, málfundur, samkvæmi, skæruhernaður og ótal margt fleira - en aldrei kyrrstæð skotgrafastyrjöld þar sem hugmyndir frjósa í hel í leðjunni."
Það má ekki gerast að pólitísk hugmyndafátækt eins og hún er stunduð á Íslandi traðki þessa blómlegu starfsemi í svaðið með leðjuslag.
Hvaða blogghundur skyldi þetta annars vera ? Mig grunar reyndar hver hann er. Hann hefur lesið mikið af bókum, er ósvífinn og óhræddur og áreiðanlega landsþekktur gjammari á mörgum sviðum. En ég þori ekki að nefna nafnið hans af ótta við að það boði tíu ára ógæfu og líka vil ég endilega virða friðhelgi einkalífsins í hundakofanum. Kannski verður blogghundurinn líka óvinur minn ef ég giska rétt á hann.
Meðal annarra orða: Er ekki hægt að stofna til bloggóvina á blogginu? Eru vondu gæjarnir ekki alltaf miklu skemmtilegri og meira intresannt en góðu gæjarnir?
Eins og hinn vitri maður sagði: Segðu mér hverjir óvinir þínir eru og ég skal segja þér hvers konar óþokki þú ert.
26.1.2007 | 10:00
Hausinn fauk af hálfbróður Saddams
Nú eru þeir búnir að hengja hálfbróðir Saddams ásamt einhvejrum öðrum glæpagaur. Þetta átti að vera ljúfmannleg fyrirmyndar aftaka, ólík þeirri gömlu og trylltu, en ekki tókst þó betur til en svo að hausinn fokkaðist af strjúpanum á hálfbróðurnum og hefur örugglega rúllað langa leið frá gálganum með blóðgusum bunandi all gassalegum. Svo hefur einhver hlaupið í spreng á eftir hausnum og tekið hann upp á hárinu og gert við hann ég veit bara ekki hvað.
Á hvaða tímum lifum við eiginlega? Þessar tvær aftökur eru með meiri ólíkindum en nútímamenn hafa nokkru sinni upplifað eða látið sér detta í hug.
Og svo er guði gefin dýrðin!
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.1.2007 | 14:38
Mikilvæg yfirlýsing
Í dag Þreytti ég próf um lífslíkur mínar sem ég fann á einhverri bloggsíðunni. Ég á víst að verða áttræður. Ekki deginum eldri.
Fjárinnn! Ég nenni ekkert að verða svona hundgamall. Mér finnst ég svo sem alveg hafa lifað nógu lengi. Enda er ég búinn að lifa mitt fegursta og allt það ljótasta er eftir. Og ljótt verður það. Það veit sá sem allt veit.
Ekkert óttast ég meira en verða Alzheimersjúklingur með risastóra bleyju á framtíðar elliheimilinu Sprund. En það er huggun tilvonandi harmi gegn að ég hef gert samning við eina unga og spræka vinkonu mína sem er stór í sniðum og afrend að afli og kvenkostum öllum að kæfa mig með kodda eins og hvern annan eymingja þegar ég veit ekki lengur hvað ég heiti og held kannski að hún sé ástargyðjan Venus.
Og hér með lýsi ég því yfir meðan ég hef enn ofurlítið vit og tækifæri til að ef ég skyldi svo einhvern tíma detta dauður niður vil ég alls ekki að hjartanu verði aftur kippt í gang með feiknastuði jafnvel þó raftólið sé alveg við hendina. Eg get bara ekki hugsað mér að lifa sem heilaskaðaður hálviti það sem eftir væri.
Það er ekkert mál að deyja. Maður veit ekki einu sinni af því. En það er heilmikið mál og óttalegt vesen að vera alltaf að lifa.
?
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2007 | 14:40
Schubert
Eins og hinir tíu réttlátu vita sem heimsækja bloggið mitt er ég þar með tengil á vefsíðu um tónskáldið Franz Schubert. Í svona kulda og leiðinlegasta vetrarríki sem hugsast getur kem ég engri hugsun frá mér en vísa á þessa fallegu grein um Schubert á vefnum.
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2007 | 17:44
Vá!
Hryllilegur kuldi er þetta! Maður er bara beinfrosinn á sál og líkama. Hjartað alveg kalið. Hausinn dofinn. Hvar eru nú gróðurhúsáhrifin? Og hvar er þessi skrattans kómeta? Ég hef bara ekki fundið hana og hef ég þó verið að góna til himins öllum stundum.
Mun svo ekki stjarnan skíra bera í sínum ofurhala fuglaflensu eina mjög skæða, Kötlugos stórt og ógurlegt og eitt kosningaóárán svo grimmt og óminnilegt að engu eirir sem til framsóknar og sjálfstæðis heyrir vorri þjóð? Og eigi munu þá grundirnar grænar verða né samfylkingar ráttlátra manna til góðra verka gjörðar.
Þessa vá boðar oss kómetan hin klára!
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 10:58
Skrýtin upplifun í loftslagsmálunum
Vésteinn Lúðvíksson er alls staðar líkt og hinn heilagi búdda. Í grein í síðustu Lesbók Moggans líkir hann aðferðum sumra "efasemdarmanna" um gróðurhúsáhrifin við blekkingar tóbaksiðnaðarins um skaðleysi tóbaks. Þetta er eflaust allt satt og rétt. Eigi að síður eru líka til heiðarlegir "efasemdarmenn" um gróðurhúsaáhrifin almennt talað og þeir eru reyndar fleiri og merkilegri en af er látið í íslenskri umræðu (þar sem þeir eru afgreiddir sem brjóstumkennanlegir kjánar) sem hefur nær algjörlega verið í höndum umhverfissinna af æstari sortinni.
Hafiði tekið eftir því hve íslenskir veðurfræðingar eru varkárir í tali um þessi efni? Hafiði nokkuð hugsað út í það hvers vegna svo er? Trausti Jónsson virðist efast heilmikið. Einar Sveinbjörnsson forðast heimsendaspár. Páll Bergþórssin hefur hins vegar beinlíns blásið á horrorkenninguna um stöðvun Golfstraumsins. Aðrir veðurfræðingar hafa varla sagt eitt einasta orð.
Nú vil ég að enginn haldi að ég sé hreinræktaður "efasemdarmaður" þvi það er á Íslandi orðið álíka stimplun eins og var að vera kommúnisti í Bandaríkjunum á the fifties eða vera illgjarn púki í himnaríki. Enda efast ég allls ekki um að hlýnað hefur í heiminum síðustu áratugi og það að einhverju leyti af völdum mannlegs úrgangs. En það er samt margt í mörgu í maganum á henni Ingibjörgu.
Eitt finnst mér skrýtið að upplifa.
Ég hef verið fanatískur veðurfarsáhugamaður í 40 illviðrasöm ár, hafísárin þar með talin. Man einhver eftir þeim? Fyrir utan sérfræðinga var allan þennan tíma hægt að telja þá á fingrum sér sem einhvern virkan áhuga höfðu hér á landi á veðurfari. Listamenn og skáld fyrirlitu slíkt af öllu hjarta. Ekki var hægt að leggjast inntellektúal lægra en tala um veðrið.
Og ég talaði um veðrið. Og allur skáldanna lýður fyrirleit veðrið og mig.
En viti menn! Allt í einu eru skáld og spekingar ekki bara farnir að tala um veðrið heldur tala um það eins og sá sem vald hefur. Hvert íslenska stórskáldið á fætur öðru, jafnvel búandi í París og Róm, sýnir nú aldeilis fanatískan og fantastískan áhuga á veðurfari í skrifum sínum og valta með skáldlegum elegans yfir alla sem hugsa smávegis öðru vísi en þau sjálf.
Á dauða mínum átti ég von fremur en því að mitt sérviskulega áhugamál númer eitt yrði að húsgangi í stofum skálda vorra og menntamanna.
Við þessu er svo sem ekkert að gera nema biðja guð um að gefa sér kæruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt.
En veðrið svíkur ekki. Og því betra sem það er, þvi betra!
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2007 | 13:27
Besti dagur ársins
Alltaf finnst mér dagurinn eftir þrettánda besti dagur ársins. Þá hefur hversdagsleikinn snúið aftur. Hversdagsleikinn er lífið sjálft. Það er líka svo sérstök kyrrð, eins og logn eftir storm, sem kemur svo skýrt fram þennan dag og er alveg einstaklega mögnuð einmitt núna þegar komið er út í vetrarblíðuna. En mér finnst snjórinn spilla. Mér finnst nefnilega fyrsti hálfi mánuðurinn eftir þrettándann magískasti tími ársins. En bara þegar jörð er auð og veður milt. Ég veit ekki afhvejru mér finnst þetta. Mér finnst það bara. Það er eitthvað tengt hinni sérkennilegu birtu skammdegisins.
Mikið eru ríki miklir síkópatar. Forsætisráðherra Íraks hótar þeim öllu illu sem voga sér að mótmæla aftöku Saddam Huseins. Þeir sem telja dauðarefsingar skilyrðislaust rangar ættu nú bara að mótmæla svona botnlausum hroka af enn meiri þunga. Siðaboð um helgi mannlífsins, sem er ofar gildisdómum um einstakar persónur, eru svo sannarlega ekki innanríkismál neinnar þjóðar.
Nú vilja menn fjölga eftirlitsmyndavélum á almannafæri upp úr öllu valdi. Það er einkennileg ályktun af þeirri einföldu staðreynd að um daginn kom í ljós haldleysi þeirra til að tryggja öryggi borgaranna. Nokkrir piltar gengu i skrokk á mönnum beint fyrir auga eftirlitsmyndavélar. Hún breytti sem sagt engu um öryggi þeirra sem fyrir árásinni urðu. En hún olli því reyndar að ofbeldismennirnir gáfu sig fram. En það er ekki það sama að koma í veg fyrir misþyrmingar og að geta refsað eftir á þeim sem fremja þær. Slikt breytir engu um raunverulegt öryggi fólks. Flestir fremja ofbeldisverk aðeins einu sinni. Ofbeldistíðni minnkar ekki þó hægt sé að refsa fyrir tilviljun þeim sem berja menn og annan.
Bara datt þetta í hug. Það er svo sjaldan sem mér dettur nokkuð í hug!
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2007 | 19:41
Bloggað og blaðrað
Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur skrifar grein í Kistuna um blogg. Af henni mættu víst margir lærdóm draga. Ekki síst sá er hér bloggar. Hvað ætli Vésteinn mundi kalla hans blogg? Viskublogg? Dellublogg? Sérviskublogg? Bloggelíblogg?
Það er ekki gott að segja.
En spurningin er: Afhverju í ósköpunum fer Vésteinn ekki sjálfur að blogga?
Það yrði nú aldeilis fjör.
Blogg | Breytt 5.12.2008 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 08:42
Sársauki annarra
Það er upplagt að nota afgangsaurana frá jólamánuðinum í það að kaupa bækur. Það gerði ég í gær. Bækurnar eru þessar:
Sál og mál eftir Þorstein Gylfason. Ég hef það að keppikefli að kaupa allar íslenskar bækur sem fjalla um heimspekileg efni. Þorsteinn skrifar mjög skemmtilega þó ég átti mig ekki almennilega á því hversu mikill heimspekingur hann er. Einu sinni sinnaðist mér illilega við Þorstein. Hann var með viðkvæmustu mönnum svo þetta var nú annað en gaman. Og ég er sjálfur með fáránlega viðkvæmustu mönnum. Með tímanum jafnaði þetta sig enda er ég langt frá því að vera langrækinn. Vel á minst: Einu sinni þegar ég var heima hjá Þorsteini sagði hann mér dálítið sem ég hef hvergi rekist á opinberlega. Hann sagðist hafa það eftir afa sínum, Vilmundi Jónssyni landlækni, að Þórbergur hafi á sínum yngri árum verið maníódepressívur. Hann hafi verið haldinn geðhvörfum eins og það er nú kallað. Ég var reyndar vantrúaður á þetta en gaman verður að sjá hvort farið verður út í þetta efni í væntanlegri ævisögu Þórbergs eftir Pétur Gunnarsson.
Hversdagsheimspeki eftir Róbert Jack. Þessi bók fjallar, eins og nafnið bendir til, um heimspeki hversdagsins, daglegs lifs, listina að lifa eftir hugmyndum sínum.
How the World will Change with Global Warming. Bók Trausta Valssonar um breytingarnar sem hann telur að hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa muni valda á heiminum. Bókin er prýdd fjölda mynda og uppdrátta. Hún er eina bókin sem komið hefur út eftir Íslending um gróðurhúsaáhrifin. Ég skil hins vegar ekki hvers vegna hún kemur ekki út á íslensku. Það er orðið brýnt að komi út bók á okkar máli þar sem gerð er öfgalaus og fræðileg grein fyrir gróðurhúsaáhrifunum. Sú bók ætti að vera eftir veðurfræðing en ekki annars konar fræðing. Skora ég hér með á íslenska veðurfræðinga að skrifa svona bók eða heita liðleskjur ella.
Síðasta setning Fermats. Í fljótu bragði sýnist mér þessi bók alveg æðisleg. Hún fjallar um aðdraganda þess að hin svonefnda síðasta setning Fermats", var sönnuð en það gerðist fyrir fáum árum og hafði lausnin verið umhusunarefni stærðfræðinga í nokkrar aldir. Margt gott og göfugt virðist mér vera í þessari bók, æði langt frá dægurþræsi og dellumakaríi fjölmiðlanna.
Ég var næstum þvi búinn að kaupa Um sársauka annarra eftir Susan Sonntag. En hvað varðar mig um sársauka annara? Ekki baun í bala. Ef ég þekki sjálfan mig rétt kaupi ég þó áreiðanlega bókina næstu daga vegna aðdáunnar minnar á Súsönnu. En mig varðar samt ekkert um sársauka annarra!
Ég stóðst svo ekki mátið að kaupa líka A History of Cannibalism. Bókin fjallar um mannát frá ýmsum hliðum, í fortíðinni meðal þjóðflokka, í hungursneyðum á ýmsum tímum, í þrengingum ferðalanga er urðu matarlausir og - síðast en ekki síst - er sagt frá vægast sagt afbrigðilegum raðmorðingjum síðustu aldir sem átu fórnarlömb sín með bestu lyst. Enginn var óhugnanlegri en karlskrattinn Albert Fish, elsti maður sem tekinn hefur verið af lífi í rafmagnsstólnum í Bandaríkjunum, en hann hefur jafnvel verið talin brenglaðasti perri sem sögur fara af. Hann hlakkaði mjög til að að verða steiktur í rafmagnsstólnum sem væri the supreme thrill, the only one I have not tried.
Hvers vegna er blíðmenni eins og ég að kaupa svona bók? Líklega af sömu ástæðu og okkur finnst svo gaman að horfa á bíómyndirnar um Hannibal the Cannibal. Við iðum í skinninu yfir ógeðslegum hryllingi. Hann kitlar einhvern fjandann lengst inni í myrkviðum sálarinnar. Og mannætubókin fjallar auðvitað einnig um mannát í bókmenntum og kvikmyndum.
Konan sem afgreiddi mig með bækurnar var ansi hreint sæt. Ég gæti alveg þegið hana í eftirrétt.
Bækur | Breytt 5.12.2008 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 17:49
Bloggið og ég
Ég vissi ekkert um blogg fyrr en í mars síðastliðnum. Þá sendi einn kunningi minn mér part af bloggsíðu sem hann hafði fundið á netinu. Þar var látið svo lítið að nefna mig óverðugan og var vel um mig talað. Það gera nú ekki allir. - En flestir samt.
Ég byrjaði að blogga í haust, mjög óreglulega í fyrstu, en frá 1. desember á hverjum degi. Það voru vinir mínir sem hvöttu mig til að fara að blogga. Þeir héldu að ég væri alveg rétta týpan í það, kjaftfor mjög en hefði þó ekkert að segja. Og ég lét til leiðast. Fór að blogga. En ég verð að viðurkenna að fyrst og fremst freistaði það mín að geta sett inn á netið ýmsar upplýsingar um veðrið, sem ég hef víst alveg á heilanum, er hreint ekki liggja á lausu í þjóðfélaginu yfirleitt.
Ég fór á Moggann af því það var auðveldast, allt á íslensku og tilbúið fyrir mann. Ég er svo ótrúlega vitlaus að ég ræð ekki við annað. En ég er enginn gæðingur Moggans eða nokkurs annars. Það var sagt á einhverri útvarpsstöð að það séu bara gæðingar Moggans sem koma stundum upp í völdum blöggum. Þó ég hafi verið þar annað veifið fyrir blessuð jólin er ég samt enginn gæðingur. Fremur að ég sá hálfgerð trunta.
Mér finnst ekki sérlega gaman að blogga. Ég get mjög vel án þess verið.
Þegar síðan mín hrökk úr gír í árslok og lá niðri í tvo daga var ég kominn í 24. sæti hjá vinsælustu bloggurunum og trúði varla mínum eigin augum. Ég er á móti vinsældum og samkeppni í bloggi. Sjálfur les ég lítið af bloggi. Skemmtilegustu bloggin finnst mér vera þegar skemmtilegur karakterar koma fram á síðunni í sæmilega læsilegum texta. En ég er ekki á móti neinum sem blogga.
Ég las einhvers staðar á bloggi að Moggabloggið væri MacDonaldið í blogginu. Er ég þá virkilega hamborgari? Kannski tvöfaldur eða þrefaldur? RISABORGARI? Nei, fjandakornið. Ég held ég sé bara ósköp venjulegur einfaldur smáborgari en kannski með smávegis remúlaði eða gúmmelaði.
Og nú ætla ég að upphefja egóið svolítið eins og bloggarar eiga víst að gera. Einhver bloggi sem nefnir sig Chien Andalou (sem er nafn á frægri stuttmynd eftir Bunuel) - og ég kann ekki enn að gera þetta eins og alvöru bloggarar - http://blogdog.blog.is/blog/blogdog/ valdi mig á gamlársdag einn af fimm bestu bloggurunum á Moggablogginu. Sagði að ég væri gullpenni og skemmtilega sérvitur. Ég sem hélt ég væri eiturpenni og alveg óbærilega leiðinlegur. En ég er enginn andskotans sérvitringur! Mér finnst bara gaman af gömlum veðurskrám og því meira sem þær eru eldri og öllu þokkalegu fólki algjörlega framandi.
En hver skyldi hann vera þessi bloggi eða blogga Chien Andalou? Eftir skrifum hans að dæma er hann eða hún skýr og skarpur bloggari og virðist hafa innsýn í ýmislegt. Hann fattar jafnvel mig. Ég hef á tilfinningu að þetta sé kona, kannski glæsikvendi. En ef þetta er ekki kona þá er þetta líkast til karlmaður.
Ég vænti svo einskis á þessu ári. En er samt við öllu búinn.
Blogg | Breytt 5.12.2008 kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006