Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
13.12.2008 | 13:11
Fordómar gegn föngum
Í þessari frétt finnst mér koma fram sömu fordómar fangelsismálastjórans Páls Winkels gegn föngum og oft koma fram gegn útlendingum. Einhverjir útlendingar komast í kast við lögin og þá eru þær ávirðingar fluttir yfir á alla þá þjóð sem hann tilheyrir. Litháar eru ekkert nema glæpamenn segja menn til dæmis ef einhverjir Litháar fremja glæpi. Svo segir í fréttinni:
''Eins og frægt er orðið sendi refsifangi á Litla-Hrauni tilkynningu um andlát samfanga síns í Morgunblaðið í gegnum netið nú fyrr í vikunni. Þetta brot fanganna gæti leitt til endurskoðunar á tölvunotkun refsifanga, en vonast er til að leysa megi málið með því að útiloka bakdyrainngang að netinu með hjálp tækninnar, án þess að svipta alla fanga réttinum að tölvunotkun.
En ef þetta gengur ekki eftir, þá þurfum við að skoða þann möguleika að takmarka hreinlega tölvuaðgengi fanga yfirhöfuð, ef þeir halda áfram að misnota þennan aukabúnað, segir Páll.''
Hér alhæfir Páll Winkel fangelsamálastjóri um alla fanga með því að segja án aðgreiningar að þeir séu að misnota netið. Hann segir ekki ef þeir kynnu að halda áfram heldur ef þeir halda áfram eins og það sé regla. Má ekki setja stjórann í einangrun hjá fjölmiðlum fyrir þessi orð?
Það sem ýmsir bloggarar hafa skrifað um þetta mál er hrollvekjandi að lesa fyrir þá harðýðgi sem þar kemur fram.
Þó standa þessir bloggarar líklega mörgum föngum í engu framar þó þeir hafi ekki komist í kast við lögin. Ýmislegt getur stuðlað að því að menn fremji afbrot. Það er síður en svo að allir sem það gera séu vondir og ómerkilegir. Ég hef kynnst þó nokkuð mörgum sem setið hafa inni en náð sér síðar á strik og orðið fyrirmyndarfólk.
Lokað fyrir netaðgang fanga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2008 | 00:27
Fall auðmannanna. Getraun.
Svo eru ágjörn augu
auðugs manns og brjóst
sem grimmt helvítis gin,
dofin sem drukkin í laugu
draga til leynt og ljóst
auð, sinn æðsta vin.
Æ því heldur sem hann hefur gózið meira,
heit ágirndin þyrst er á enn fleira,
líkt sem sandur, sjór eða sprungin leira.
Sá eg ei nær, að honum skuli allvel eira.
Dergst af þessu drafli
dyggð á annan hátt
og siðanna setning snjöll,
störf og stundlegur afli
styttir daginn sem nátt.
Svo fara óhóf öll.
Kemur þar skjótt, að skekinn mun vindur úr æðum,
skrokkur er kaldur og numinn úr fögrum klæðum,
valdi sviptur og veraldar öllum gæðum,
veltur í gröfina áta möðkum skæðum.
Veltur hann pall af palli,
er plægði fram um þörf
og tapaði tíma þrátt.
Hrapar hann fall af falli,
og fylgir rangleg störf
en gerði hið góða fátt,
hafandi sjaldan hjartað guði til handa,
hnígur því undir pínu ens neðsta fjanda.
Þar eru nógar nauðir illra anda.
Náðalaust mun þetta heimboð standa.
Hver orti þessar tímabæru vísur og hvenær?
Bloggar | Breytt 13.12.2008 kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.12.2008 | 16:59
Nauðsyn langtíma veðurathugana
Það dylst engum að veður og veðurfar skiptir landsmenn miklu máli alla daga ársins, ekki aðeins hvað mannvirki og önnur verðmæti varðar heldur beinlínis líf þeirra og limi. Undirstaða góðra veðurspáa eru veðurathuganir. Undirstaða þekkingar á veðurfari landsins og ekki síst skilnings á breytingum á veðurfari, en sá skilningur er nú svo mikilvægur, eru langtíma veðurathuganir á sama stað. Þær veðurstöðvar sem lengst hafa starfað eru því sérlega mikilvægar.
Mönnuðum veðurathugunarstöðvum fer fækkandi. Því valda breyttar þjóðfélagsaðstæður fyrst og fremst. Menn bregða sér oftar af bæ nú en áður var en veðurathuganir eru mjög bindandi. Það er því hægt að skilja það að menn vilji losna við mannaðar veðurathuganir, jafnvel þar sem mælingasagan er mjög löng. Þá hefur oft verið gripið til þess ráðs að setja upp sjálfvirkar athugunarstöðvar á sama stað. Síðan verða veðurmenn að finna út samræmið milli mönnuðu og sjálfvirku athuganna því svona breytingar valda hniki í athuganaröðinni.
En nú er það nýjasta nýtt að landeigendur jarða þar sem athugað hefur verið í jafnvel meira en heila öld vilja bara losna líka við sjálfvirku stöðvarnar af landareign sinni. Það er illskiljanlegt. Mér finnst það lýsa ótrúlegri skammsýni og skilningsleysi. Athuganirnar hófust löngu áður en núverandi landeigendur fæddust og hafa verið mikilvægar fyrir veðurathuganasögu landsins og rannsóknir á veðurfari. Þetta varðar því beinlínis almannahag og það ættu landeigendur að hugsa út í Þó enginn efist um rétt þeirra til að fokka upp veðurathuganastöðvum.
Úr því landeigendur eru nú komnir á bragðið má spyrja hvað gerist næst. Má ekki búast við því að allar veðurathuganir verði gerðar útlægar til dæmis af Teigarhorni þar sem athugað hefur verið frá 1872, Grímsey frá 1874 og Grímsstöðum á Fjöllum frá 1907, svo aðeins nokkrar gamlar veðurathuganastöðvar séu nefndar.
Og getur nokkur sagt eitthvað ef bæjarstjórnin í Stykkishólmi vildi leggja niður elstu veðurathuganastöð landsins sem er þar í bænum?
Er ekki hægt að setja lög um eins konar friðhelgi veðurathugana á elstu veðurathuganastöðvunum sem hindraði bændur og búalið í að gera viðkomandi stöðvar alveg útlægar af landareign sinni?
Nú snúa kannski sumir upp á sig og segja: Eignarrétturinn er heilagur og það má ekki setja kvaðir á landeigendur. (Ýmsar kvaðir á þá eru þó nú þegar fyrir hendi). En ég sný þá enn þá meira upp á mig og spyr á móti:
Eiga landeigendur að komast upp með það að leggja elstu og mikilvægustu veðurfarsrannsóknir í landinu í rúst bara eftir dyntum sínum og duttlungum?
Veðurfar | Breytt 21.12.2008 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2008 | 19:38
Aumingja Fagurhólsmýri!
Sú var tíðin að Fagurhólsmýri var ein af elstu og virðulegustu mönnuðu veðurathugunarstöðvum á landinu. En í apríllok síðastliðnum var mönnuðum athugunum hætt en stöðin hélt áfram sem sjálfvirk stöð.
Nú hafa svo engar sjálfvirkar athuganir komið á vef Veðurstofunnar á netinu síðan 25. nóvember.
Fagurhólsmýri má muna sinn fífil fegri. Og þetta er sú stöð sem oftast hefur mælt mesta dagshita á landinu!
Bloggar | Breytt 11.12.2008 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.12.2008 | 10:34
Hver er vitleysingurinn á bak við Staksteina?
Staksteinar Morgunblaðsins skrifa gegn þeim sem mótmæltu í alþingishúsinu í gær. Og sá sem skrifar tekur stærra upp í sig gegn því unga fólki sem þarna lét til sín taka en nokkur á Morgunblaðinu hefur gert um þau öfl sem ábyrgð bera á því hvernig nú er komið fyrir þjóðinni, til dæmis öllum miljónaþjófnaðinum frá heiðarlegu fólki.
Það er ekki á hverjum degi sem skrif á ábyrgð ritstjórnar Moggans kalla hópa fólks vitleysinga. Ég held að það hafi aldrei gerst áður. Aldrei hefur blaðið kallað útrásarvíkingana vitleysinga, ríkisstjórnina eða fjármálaeftirlitið, nú eða forsetann, og eru þó margir á því að allir þessir aðilar hafi brugðist þjóðinni á alveg yfirgengilega vitlausan hátt.
Það er ekki hægt að ganga lengra í bleyðuskap og andlegu ofbeldi en að kalla fólk vitleysingja í skjóli nafnleysis í blaði eins og Morgunblaðinu, jafnvel þó eigi að heita að það sé gert á ábyrgð einhverrar ritstjórnar. En það er auðvitað einstaklingur, einhver aumingi og bjáni, sem skrifaði þetta. Óskaplega er það lítill kall og ljótur. Sannkallaður undirmálsræfill. Og svo samþykkti þessi þóttafulla og smátt hugsandi ritstjórn gjörninginn. Og hún fær borgað fyrir ósómann. Þegar menn kalla fólk vitleysinga er nefnilega verið að höfða til lægstu hvata skrílmennsku. Það er greinilega örvæntingarfullt blað á síðasta snúningi sem fellur í slíkan forarpytt. Það er eins og blaðið viti að enginn ber lengur virðingu fyrir þvi og hagi sér eftir því.
Unga fólkið duldist ekki sem einstaklingar. Það var fólk með nafni og andliti sem var fært á lögreglustöðina. Það stendur og fellur með verkum sinum. Er reiðubúið til að taka við fyrirlitningu á borð við illkvittni og subbuskap Staksteina eins og manneskjur. Hvað sem menn segja um athæfi þessa fólks er þó einhvers konar reisn yfir því. Yfir Morgunblaðinu og Staksteinum hvílir hins vegar engin reisn.
Þar ríkir lágkúran ein.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
9.12.2008 | 00:50
Mali er larger than life
Hann Mali kann að slaka á í kreppunni og láta sér liða vel. Sá fer nú ekki á tauginni enda er hann enginn vitleysingur!
Ef smellt er nokkrum sinnum á myndirnar má sjá Mala larger than life.
8.12.2008 | 12:19
Öflug mótmæli
Fyrst eftir bakahrunið var talað mikið um það að þjóðin ætti að sýna samstöðu og menn ættu að taka utan um hvern annan og sýna skilning. Auðvitað var þetta draumsýn. Veruleikinn er sá að hart verður barist um þau verðmæti þjóðarinnar sem eftir eru. Menn munu þar einskis svífast. Þessi frétt um bílstjóranna er ein af birtingarmyndum þessa. Í annarri frétt segir Sturla það ''augljóst að verið sé að búa til kostnað vegna viðgerða og annars sem sem sé í engu samræmi við raunverulegt ástand og verðgildi tækisins. Að sögn Sturlu verður uppítökuverðið því mun lægra fyrir Lýsingu sem síðan geti sent tækin úr landi og selt þau fyrir margfalt hærra verð.'
Óheilindi og svindl vaða uppi.
Í Silfri Egils varaði Jón Steinsson hagfræðingur við því að nú sé kjörlendi spillingar. Hann segir verulega hættu á því að sömu auðmenn og nú séu orðnir gjaldþrota geti aftur sölsað undir sig þann auð í bönkunum sem sé eign þjóðarinnar. Jón skrifaði líka grein um málið í Morgunblaðið í haust.
Einnig sagði Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur í Silfrinu að menn skilji ekki hvað pólitisk ábyrgð sé. Og hún er þá heldur ekki tekin.
Þessi dæmi eru ein af mörgum um það hvernig ástandið er í þjóðfélaginu. Það er því brýn ástæða til að almenningur haldi ráðamönnum við efnið. Sumir segja að þau mótmæli sem verið hafa skili engu og er nokkuð til í því. Það vitnar þó fremur um einsýni stjórnvalda en það að málstaður mótmælenda sé rangur. Og hvað vilja menn? Að almenningur láti ekki í sér heyra og beygi sig viljalaus undir þann darraðardans sem nú fer fram, auðsveipur og lítiþlægur þjónn stjórnvalda?
Það virðist þvert á móti vera full ástæða til að herða á mótmælunum, breiða þau út og finna fjölbreyttari form.
Jú, það er til fólk sem kallar mótmælin skrílmennsku og annað í þeim dúr og birtist þetta á sumum bloggsíðum. Það er reyndar félagssálfræðilegt umhugsunarefni að skýra út það hatur og þá illmælgi sem virðist ráða ríkjum í hugum sumra bloggara um þessar mundir.
Það þarf að stöðva þau óheilindi sem vaða uppi og koma i veg fyrir svindl. Strangt aðhald almennings er ein af leiðunum til þess.
Öflug mótmæli.
Mótmæla innheimtuaðferðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2008 | 18:19
Áhrifamáttur ''skrílsláta''
Búið er að handtaka lögreglumanninn sem skaut 15 ára dreng í Aþenu til bana. Eitthvað hafa menn þá talið athugavert við það.
Ég hef þá verið einum of svartsýnn hvað viðbrögðin varðar í þessari færslu.
Eftir er þó að sjá hver eftirleikurinn verður.
En skyldu nokkrir hafa verið handteknir ef ekki hefðu orðið nein ''skrílslæti'' í kjölfar banaskotsins?
Lögreglumenn handteknir í Aþenu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.12.2008 | 16:00
Mali er kominn í flokk
Vek athygli á því að ég hef nú flokkað bloggfærslurnar mínar lauslega. Hysterískir aðdáendur mínir og hans Mala geta til dæmis nú séð á einu bretti allar færslurnar um hann með myndum undir flokki sem ber hans tignarlega nafn, Mali.
Margar aðra dægilegar færslur eru nú aðgengilegar í flokkum aðrar en veðrið, til dæmis þær sem færðar eru í hálfkæringi eða bara gríni undir heitinu ''Allt í plati'' og trúamálafærslurnar mínar illræmdu undnir nafninu ''Guð sé oss næstur'. Einn flokkur, ''Blogg'' geymir allt sem ég hefi skrifað - og það sem ég hefi skrifað það hefi ég skrifað - um hið sjálfhverfa fenómen sem bloggið er. Já, og ekki má láta sér yfirsjást gægjugluggalegar færslur sem lúta að mjög leyndardómsfullu einkalifi mínu og sá flokkur heitir náttúrlega 'Ég''. Undir ''Mannlífið' eru ógnardjúpar pælingar um lífið og tilveruna en harðskeyttar ádeilur má finna í bloggflokknum með ófrumlega nafninu ''Stjórnmál og samfélag".
Hógværð og lítillæti er hins vegar hvergi að finna.
Blogg | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2008 | 13:21
Hvað er mannlegt líf?
Það er skylda lækna að bjarga mannslífum. En hvað er þá mannlegt líf?
Er það ekki að vera karakter, jafnvel þó takmarkaður væri vegna veikinda eða bæklunar, sem er í einhvers konar tengslum við umheiminn? Manneskja sem er í dái og getur ekki einu sinni andað án öndunarvélar er ekki lengur neinn karakter, manneskja, aðeins vélræn líkamsstarfsemi án vitundar.
Hver er eiginlega meiningin að halda slíkum líkama gangandi í 28 ár?
Mér finnst að við þannig aðstæður sé tæknin, það að hægt er yfirleitt að halda slíkum skrokki gangandi, farinn að snúast í rauninni gegn lífinu.
Martha von Bülow látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006