Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
23.12.2008 | 14:32
Jóla og áramótaveðrið frá 1807
Einstaklega köld jól voru árin 1995, 1968 og 1965 og fyrir norðan líka árin 1980, 1988 og 1989. Sérlega hlýtt var á jólunum 2006, 1948, 1940, 1934 og 1933 sem líklega voru allra hlýjustu jólin.
Á vef Veðurstofunnar má sjá veðrið kl. 18 á aðfangadag og á hádegi alla jóladaga frá 1949 og snjóhulu í Reykjavík. Reyndar er hægur vandi að fletta upp á hvaða hátíðisdegi sem er frá 1949 á vef Veðurstofunnar. Og það ættu menn endilega að gera fremur en liggja í þessum jólabókum!
Úrkomusömustu jól í Reykjavík voru 2005 en 1960 á Akureyri.
Frá 1949 er kaldasti gamlársdagur í Reykjavík og á Akureyri árið 1976 en 1971 sá hlýjasti í Reykjavík en fyrir norðan var 1968 sá hlýjasti. Hlýjasti nýjársdagurinn í Reykjavík var 2003 en 1973 fyrir norðan. Kaldastur nýjársdaga í Reykjavík var 1948 en á Akureyri 1977.
Á töflunum á fylgiskjali er annars hægt að sjá hvaða hátíðisdagar voru hlýjastir og kaldastir bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Þar er hægt að sjá hita, sól og úrkomu yfir alla jóladagana (reyndar líka Þorláksmessu), gamlársdag og nýjársdag í Reykjavík frá 1882 og frá Akureyri frá 1949 en fyrir þann tíma hef ég ekki aðgang að daglegum gögnum um þann stað. Hins vegar eru hér upplýsingar um hita og úrkomu á Hallormsstað frá 1937 til 1948. Veður er ekki alltaf það sama á þessum stöðum en oft er það svipað og Hallormsstaðatölurnar ættu að gefa bendingu um ástandið á norðausturlandi og jafnvel norðurlandi á jólunum þetta tímabil.
Fyrir Reykjavík eru því miður litlar sem engar upplýsingar á lausu um hitann árin 1924 til 1934, aðeins þegar mestur hiti eða kuldi viðkomandi desembermánaðar hefur fallið á jóladagana, en hins vegar upplýsingar um sól og hita. Hins vegar er hér meðalhiti þessara daga, og aðeins hann, árin 1932-1934 frá Kirkjubæjarklaustri sem sýnir hve mild þessi jól voru en sól og úrkoma er þessi ár frá Reykjavík eins og öll hin árin. Í nokkrum elstu töflunum er dálítið um eyður i dálkum.
Einn dálkur sýnir snjóhulu í Reykjavík frá 1921 og snjódýpt kl. 9 á jóladagsmorgun. Alhvít jörð er 4 en jörð hvít að hálfu er 2.
Úrkoman er hér auðvitað í mm og sólarstundir í klukkustundum. Menn skulu athuga vel að úrkomutölur við hvern dag er úrkoma sem mældist frá kl. 9 þann dag til kl. 9 daginn eftir. Þegar úrkomudálkur er auður hefur ekki komið dropi úr lofti en núllið stendur fyrir vott af úrkomu sem ekki var þó mælanleg. Þá skal nefnt að sól á Akureyri mælist aldrei um jólin vegna þess að fjöllin byrgja hana.
Nýjársdagurin er auðvitað alltaf á næsta ári miðað við þá ársetningu sem er við hver jólin í töflunum.
Dagar með hæstu og lægstu gildi eru auðkenndir með rauðu og ætti því að vera auðvelt að finna þá í töflunum.
Meðalhitinn er þarna raunverulegur meðalhiti fyrir Akureyri og Hallormsstað en í Reykjavík til ársins 1935. Frá 1888 til 1902 er hins vegar meðaltal hámarks-og lágmarkshita viðkomandi dags í Reykjavík en árin 1907 til 1919 er um að ræða meðaltal mesta og minnsta álesturs á hitamæli frá því snemma morguns þar til seint á kvöldi, ekki raunverulegs lágmarks-og hámarkshita.
Á blaði tvö á fylgiskjalinu má svo sjá mesta og minnsta hita á landinu öllu hvern hátíðardag frá 1949 og hvar sá hiti mældist. Þar eru sjálfvirkar stöðvar inni frá 1996 með hámarkið án þess að þess sé sérstaklega getið en fyrir þann tíma eru aðeins mælingar frá mönnuðum veðurstöðvum. og allan tímann fyrir lágmarkið. Á blaði þrjú má sjá meðalhita hvers hátíðardags og meðalhita jóladaganna og áramótanna og einnig úrkomuna og hvað hún hefur verið mikil alls í Reykjavík og á Akureyri.
Þá geta menn einnig séð hér á blaði 1 með sínum eigin augum mesta og minnsta hita þessara daga í Reykjavík árin 1829-1850 og meðaltal þess. Þessar mælingar eru ekki eins áreiðanlega og hinar og eru hér hafðar með til gamans. Árin 1820-1828 er einungis ein hitatala við hvern dag og á kannski að segja eitthvað um mildi eða hörku þeirra jóla.
Við Eyjafjörð voru gerðar einhvers konar athuganir þrisvar á dag árin 1807-1813 og má hér sjá hitann á þeim árum um jól og áramót. Sérlega norðlensk nítjándualdar rómantík!
Loks er hægt að sjá lágmarks- og hámarkshita í Stykkishólmi árin 1845 til 1918 og úrkomuna frá 1877. Frá 1874-1918 er meðalhitinn sem sýndur er meðalhitinn kl. 9 og 21 eða 22 en annars meðaltal hámarks-og lágmarkshita. Stykkishólsmhitinn heldur hér svo áfram árin 1924-1934, þegar ekki er hægt að fá dagsmeðaltöl fyrir Reykjavík en ekki er um hámarks-og lágmarkstölur að ræða heldur hitann þrisvar á dag og meðaltal hitans kl. 9 og 21 eða 22. Árið 1919 er vandræðaár og ekkert liggur á lausu hvorki frá Reykajvík né Stykkishólmi og er þá gripið til Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir það ár svo menn hafi eitthvað hugboð um hitafarið um þau jól og áramót. Það fer ekki á milli mála að jólin 1880 eru þau köldustu sem komið hafa á landinu þann tíma sem þessar töflur ná yfir.
Ótrúlega áhugavert og jólalegt með afbrigðum! Þeir sem munu skoða þetta vel og vandlega verða fyrir vikið upphafnir umsvifalaust í The Incredible Weather Hall of Infame!
Það sem hér er framborið er tekið eftir Íslenskri veðurfarsbók 1920-1923, Veðráttunni 1947-2002, Veðurfarsyfirliti frá 2003 og áfram og loks ýmsum öðrum gögnum frá Veðurstofunni.
Veðurfar | Breytt 25.12.2008 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2008 | 11:50
Rauð jól í Reykjavík á aðfangadagskvöld
Í morgun var talin alauð jörð í Reykajvík eftir hláku gærdagsins þegar hitinn komst í 8,5 stig. Mat á snjóhulu fer eftir sérstökum reglum og er talin auð jörð þó svellbunkar séu og skaflar í lautum og lænum. Í bakgarðinum hjá mér er jörðin flekkótt af snjó á grasflötunum.
Það mun þó taka upp í dag og ekki síður á morgun en þá hlýjar til muna á nýjan leik með rigningu. Það má því teljast öruggt að jörð varður marauð í Reykjavík þegar hátíðin gengur í garð kl. 18 annað kvöld. Hins vegar mun kólna á jólanótt og mun kannski gera él undir morgun svo vel getur verið að jörð verði orðin hvít á jóladagsmorgun en kannski grá og gruggin öllu heldur. Það er sem sagt taugastríð um það hvort jóladagsmorgun verði hvítur eða ekki!
En á aðfangadagskvöld verður líkast til auð jörð og dimmt mjög og drungalegt. Nema hvað ljós jólanna mun loga skært í öllum betri hjörtum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2008 | 18:52
Íslendingar og innflytjendur
Í Speglinum var talað við Evu Heiðu Önnudóttur um viðhorf Íslendinga til innflytjenda eins og þau birtast í nýrri könnun.
Skýrt kom fram að við lítum fyrst og fremst á innflytjendur sem vinnuafl. Þegar vel gengur eiga þeir að gera okkur ríkari með striti sínu en þegar illa árar eiga þeir að hypja sig heim með skömm. Þetta var auðvitað ekki sagt svona blátt áfram en ég er að draga sjálfur mínar ályktanir af staðreyndum sem komu fram í könnuninni.
Það kom líka fram að við viljum alveg endilega að innflytjendur leggi niður siði síns heimalands en taki upp okkar (ó)siði í einu og öllu. Þeir eigi bara að verða alveg eins og við. Ekki verði þá um neitt ''fjölmenningarsamfélag'' að ræða heldur bara íslenska flatneskju.
Hvernig var það annars með Vestur-Íslendingana? Eru sumir þeirra ekki enn að rækta málsiði gamla heimalandsins með því að tala íslensku eftir nokkrar kynslóðir í nýja landinu? Af því erum við ekkert smáræðis stolt. En við viljum auðvitað ekki að bévítans innflytjendurnir endurtaki þennan leik í okkar landi. Skárra væri það nú!
Ég endurtek að ég hef sagt frá niðurstöðum þessarar könnunar með mínum eigin orðum en auðvitað var þetta framreitt af fræðilegri ráðvendni í Speglinum.
Mér finnst þessar niðurstöður sem könnunin leiddi í ljós hálf óhugnanlegur vitnisburður um þjóðernisdramb okkar og hroka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.12.2008 | 22:07
Mali the magnificent
Mali | Breytt 22.12.2008 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.12.2008 | 12:41
Verða sjúklingar sendir heim?
Nú er alþingi búið að samþykkja heimild til að rukka innritunargjald af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús. Ekki er að efa að til þessarar heimildar mun verða gripið.
Þá vaknar spurningin: Hvað gerist ef menn neita að greiða gjaldið? Verða sjúklingarnir þá sendir heim án læknishjálpar? Kannski að koma í hjartaþræðingu eða uppskurð vegna heilaæxlis. Hvaða skoðun hafa yfirlæknar deilda á þessu? Er það ekki skylda þeirra að veita öllum þjónustu? Geta þeir ekki sett sig upp á móti þessu? Ekki hefur þó heyrst frá þeim eitt einasta orð. Þarna er þó verið að stíga skref í heilbrigðismálum sem á sér ekkert fordæmi og engum hefði svo mikið sem dottið í hug þar til nú. Og þetta var samþykkt af löggjafarsamkundinn án nokkurrar umræðu að heitið geti.
Ríkisstjórnin, þessi sama og ber ábyrgð á kaldakolinu, er á fullu að velta byrðunum yfir á þá sem verst eiga með að bera þær, sjúklinga, gamalt fólk og öryrkja, en hlífa þeim sem breiðust hafa bökin eins og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur var að benda á í Morgunblaðinu í fyrradag. Auðvitað bjóst engin við öðru af þessari ömurlegustu ríkisstjórn í sögu landsins.
Hvað þarf til að koma þessu glæpagengi frá? Getum við ekki lært ýmislegt af Grikkjum í því sambandi?
Ef allir yfirlæknar sjúkrahúsa sendu frá sér mótmælayfirlýsingu af þessu tilefni myndi það hugsanlega hnekkja þessum siðlausu álögum. Að læknarnir þegi þunnu hljóði sýnir að þeir meta meira fylgispekt við stjórnvöld en hag sjúklinga sinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.12.2008 | 12:34
Meira af jólasnjónum. Það verða skítajól!
Hanna G. Sigurðardóttir var enn í útvarpsþættinum sínum í gær að tala um ''jólasnjóinn'' sem nú liggur yfir, 19 cm í Reykjavík, og bætti við: ''Við krossum náttúrlega puttana að það haldist''.
Hvaða við? Ekki vil ég hvít jól fremur en rauð þó ég láti mér auðvitað lynda það veður sem verður. Og þeir eru áreiðanlega fleiri en ég sem vilja heldur rauða og auðfarna jörð um jólin. Hva, höfum við engan rétt?!! Mér finnst í alvöru jólalegast í marauðri jörð og miklu myrkri, stilltu veðri og góðu.
En hvaða veður skyldi svo verða?
Það á að snjóa eitthvað fram á mánudag en þá mun hvessa með suðaustanátt og rigningu sem mun haldast á Þorláksmessu og aðfangadag. Þetta verður samt ekkert sérstakt óveður. Hins vegar verður hlákan ekki sterk og hitinn mun varla fara yfir 5 stig í Reykjavík, nema í stuttan tíma. Líklega verður hlýjast snemma á aðfangadag.
Hvað þýðir þetta? Það þýðir að snjórinn nær ekki að hverfa. Á jörðu verður blautur og andstyggilegur ''jólasnjór'' en á stöku stað hafa kannski komið göt á hann og það má búast við klakabunkum sem verða stórvarasamir vegna hálku. Allt verður því slabblegt með afbrigðum og einstaklega viðbjóðslegt.
Það verða sem sagt skítajól!
En hvít verða þau og það er víst fyrir öllu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.12.2008 | 18:42
Hefðarrof
Síðan 1956 hefur verið veitt úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins á gamlársdag.
Það hefur verið eitt af því sem setti notalegan hátíðarblæ á áramótin.
Nú er allt í einu tekið upp á því, skýringarlaust, að veita viðurkenninguna í dag, 19. desember, alls ómerkum degi. Þar með fýkur hátíðarstemningin út í veður og vind. Á gamlársdag fór veitingin heldur ekki framhjá neinum. Núna týnist hún í jólaösinni.
Óskaplega er þetta taktlaust og leiðinlegt fólk sem sér ekki skemmtilegheitin í svona hefðum og getur fengið af sér að eyðileggja þær.
Bloggar | Breytt 20.12.2008 kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 21:00
Margt er skrýtið í barnshausnum
Bloggar | Breytt 20.12.2008 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 14:06
Jólasnjórinn
Hanna G. Sigurðardóttir var áðan í útvarpsþætti sínum, ''Vítt og breitt'', að tala um að nú væri jólasnjór og bætti við: ''Bara að hann fari nú ekki''.
Í morgun var snjódýpt 10 cm í Reykjavík og búið að vera alhvítt í fimm daga. Í nótt bættust 5 cm við snjóinn. Næstu daga mun bætast enn meira við. Hins vegar er spáð hláku og rigningu 22. desember og mun hún standa alla jóladagana ef spáin engur eftir. Ég held samt að þessi hláka verði ekki mjög sterk og búast megi fljótlega við suðvestanátt og éljagangi.
Hvergi er nú alautt á landinu en jörð er þó einungis flekkótt af snjó sums staðar við suður- og norðausturströndina, á vesturlandi og Vestfjörðum og - merkilegt nokk - inni í Eyjafjarðardal og Bárðardal.
Ég efast mjög um að snjó taki upp í Reykjavík fyrir jól en hann gæti verið orðinn æði skítugur og slabblegur og kannski verður flekkótt og miklir klakabunkar. Svona nokkurn vegin eins andstyggileg jörð og hugsast getur að vetrarlagi.
Í fyrra var alhvítt að morgni Þorláksmessu í Reykjavík og var alhvítt um öll jólin, komin 12 cm snjódýpt á öðrum degi jóla. Á Akureyri var jörð aðeins talin flekkótt að morgni jóladags en alhvítt aðra jóladagana. Öllum að óvörum var alhvít jörð á jóladagsmorgun í Reykjavik árið 2006 en snjólaust var á aðfangadag kl. 18 þegar hátíðin gekk í garð og alla aðra jóladaga og þetta ár voru alauð jól á Akureyri. Reyndar held ég að flestir miði í huga sér við kl. 18 á aðfangadag hvað hvít jól varðar eða rauð. Á Veðurstofunni er snjóhula hins vegar aðeins athuguð klukkan 9 að morgni og segir ekkert um hvernig snjólag er klukkan 18. Hins vegar er hægt að sjá hér veðrið á þeim tíma um land allt frá 1949 á aðfangadag.
Það hafa sem sagt verið hvít jól í Reykjavík tvö ár í röð og hugsanlega verður þetta þriðja árið. Athugasemd fréttamanns sjónvarps á dögunum um það að nú séu alltaf rauð jól í borginni stenst sem sagt ekki betur en þetta. Eins og sjá má á snjóatöflunni er nokkur munur á jólasnjó eftir tímabilum þegar nokkur ár eru tekin saman. Eftir 1996 hefur verið lítill snjór um jólin en mikill árin 1990-1995 og enn meiri 1979 til 1984 en aftur yfirleitt ítill og oft snjólaust alveg frá fjórða áratugnum og fram á miðjan sjöunda áratuginn. Snjóleysi í Reykjavík er því engin nýlunda um jólin.
Hægt er að sjá hér snjóalög í borginni á jóladagsmorgun alveg frá 1921. Misræmi er í töflunni um árið 1964. Þar stendur í einum dálki að alautt hafi verið en í öðrum að snjóhula hafi verið 2 af 4 hlutum.
Ég vona innilega að allan snjó taki upp í borginni fyrir jólin. Fátt er eins ójólalegt og hallærislegt og hvít jól!
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2008 | 13:52
Ómarkviss grein yfirlækna á geðsviði Landsspítalans í Morgunblaðinu
Tveir yfirlæknar á geðsviði Landsspítalans, Halldóra Ólafsdóttir og Bjarni Össurarson, ávíta í gær Stöð 2 og Kompás fyrir umfjöllun um sjálfsvíg í grein í Morgunblaðinu. Ekki hafa læknarnir fyrir því að nefna dagsetningar þessara umfjallana svo menn geti kynnt sér þær. Þetta er alvarleg hroðvirkni. Eða er það kannski bara meðvitað kænskubragð sem gerir þeim auðveldara að koma höggi á þessa miðla í þeirri von að fólk taki orð þeirra trúanleg án þess að vita hvað á bak við þau leynist? Það geti þá ekki séð með eigin augum hvort umfjöllunin hafi verið í ''hróplegri mótsögn við ráðleggingar til fjölmiðla um umfjöllun vegna sjálfsvíga sem gefnar hafa verið út á alþjóðavettvangi...''eins og læknarnir segja í greininni.
Læknarnir virðast líta á þessar ráðleggingar sem einhvern óyggjandi æðstadóm um það hvernig fjölmilar eigi að fjalla um sjálfsvíg. Reyndar er hér um að ræða ráðleggingar heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna en ekki neina alþjóðlega samþykkt. Ýmislegt er í ráðleggingunum sem enginn ástæða er til að fallast á gagnrýnislaust. Ég nefni sem dæmi að á einum stað er sagt að 90 % þeirra sem fremji sjálfsvíg séu haldnir geðrænum sjúkdómum sem stundum hafi þó ekki verið greindir og er þar vísað til einhverra rannsókna. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvernig í ósköpunum rannsakendurnir viti að einhverjir hafi verið geðveikir úr því þeir voru ekki greindir. Er það ekki vegna þess að hið sjálfvirka viðbragð heilbrigðisstétta við sjálfsvígum er að stimpla umhugsunarlítið verknaðinn sem einkenni um geðsjúkdóm? Oft hef ég skrifað gegn því sjónarmiði en auðvitað kemur það fyrir ekki. Og þó! Ég man alltaf þegar geðhjúkrunarfræðingur einn, doktor í fræðunum, þakkaði mér fyrir eina slíka grein og var mér innilega sammála. En slíkar raddir fagfólks koma tæplega fram opinberlega vegna skoðanakúgunar í fámennu samfélagi þeirra.
Þessi grein yfirlæknanna í Morgunblaðinu er ágætt dæmi um það hvernig geðlæknar reyna að þagga niður alla umræðu um sjálfsvíg sem fer ekki eftir þeirra kokkabókum. Fyrst og fremst er hún þó skrifuð til að amast við þeirri gagnrýni sem þeir telja að sé á geðddeildir í þeirri umfjöllun fjölmiðlanna sem þeir vísa til. Þeir nefna þó ekki í hverju sú gagnrýni er fólgin og svara henni því í engu efnislega. Þess í stað reyna þeir með viðeigandi orðalagi að koma óorði á fjölmiðlanna, draga úr trúverðugleika þeirra, með því að gefa í skyn að umfjöllun þeirra hafi verið lituð af fordómum, fáfræði, neikvæðni og æsifréttamennsku. Þeir bæta við í sama dúr: ''Ítrekuð, neikvæð og beinlínis villandi fjölmiðlaumræða hlýtur að draga úr tiltrú fólks á því að aðstoð sé að finna.'' Það er sérlega ógeðfellt við málflutning geðlækna um sjálfsvíg að þeir reyna að kúga samfélagið til hlýðni við eigin sjónarmið með því að gefa í skyn að annars konar umræða kunni að valda aukningu á sjálfsvígum.
Hvergi nefna greinahöfundar, þessir yfirlæknar sem áreiðanlega vilja láta taka sig mjög alvarlega, raunveruleg dæmi um þessa neikvæðu umræðu um sjálfsvíg sem þeir eru að hneykslast á, eru aðeins með óljósar ábendingar. Öll greinin er í þessum hoðvirknisstíl að viðbættu almennu hjali um geðsjúkdóma. Hún er fyrst og fremst gossip. Greinin er þó skrifuð í hefðbundnum geðlæknastíl sem á yfirbragðinu virðist rólegur og trúverðugur. En menn mega ekki láta blekkjast af stílblæ texta og halda að ákveðinn rólyndisstíll sé sama og trúverðugleiki í hugsun. Trúverðugleiki hugsunar felst í skýrleika hennar, gagnsæi og skynsemi, en ekki í stílfræðilegu yfirbragði. Grein geðlæknanna er fremur subbuleg í hugsun sem best sést á þeirri ónákvæmni í vísunum til þeirra umfjallana fjölmiðla sem þeir gera að umtalsefni eins og ég var að benda á.
Hvað fordóma um geðsjúklinga varðar ættu menn að lesa bókina Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson. Það er beinlínis hryllilegt að lesa þar um fordóma og hrokafullt yfirlæti geðlækna til sjúklinga sinna gegnum árin og hvernig þeir hafa lengst af mótað neikvæða afstöðu samfélagsins í þessum efnum. Geðlæknar ættu því ekki að kasta steinum til fjölmiðla úr glerhúsi hvað fordóma varðar.
Aðalatriðið í þessu máli er þetta:
Geðlæknar geta ekki sagt fjölmiðlum eða öðrum fyrir verkum um það hvernig þeir fjalla um sjálfsvíg. Þeir hafa svo sannarlega ekki úr háum söðli að detta í þeirri umræðu.
Heilbrigðismál | Breytt 15.12.2008 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006