Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Ekki að furða þó illa sé komið fyrir þjóðinni

Þegar fólk flýgur inn á þing sem lifir í svona hugarheimi. Á mannamáli kallast þetta bull og hjátrú. En dýrkun Íslendinga er svo mikil á hjátrú að það þykir bara fínt að segjast sjá áru og geta lýst skapgerð manna eftir henni.

Þetta er náttúrlega bara heilaspuni og ekkert nema heilaspuni. Köllum hlutina réttum nöfnum.

Það er þá ekki að furða þó illa sé komið fyrir þjóðinni úr því það getur gerst að manneskja af þessu hugsanalega kalíberi getur rambað inn á þing eins og ekkert sé.

Þetta er nú alveg síðasta sort. 

By the very long way: Ætli áran mín sé ekki alveg kolsvört og ljót!


mbl.is Þingmaður og árulesari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fahrenheit og celsíus

Þær kuldatölur sem hér eru nefndar í fréttinni eru mjög  líklega eftir fahrenheitmæli, sem algengir eru í Bandaríkjunum, en við erum vanir celsíusmælum.  Sextíu stiga frost á celsíus kemur varla í Alaska þó mesta frost sem þar hafi nokkru sinni mælst sé -80 stig fahrenheit, eða -62 celsíus. Það var í Prospect Creek 23. janúar 1971. En slíkir metkuldar hafa ekki verið undanfarið þó kalt hafi verið. 

Hér er vísun á netsíðu sem sýnir mesta frost á hverjum degi í Alaska það sem af er febrúar á fahrenheit. Lægsta talan er -62 stig fahrenheit sem mældist þann fyrsta en flesta daga hefur verið miklu mildara. Þetta samsvarar 52 stigum á celsíus. Það er auðvitað feiknalegur kuldi en samt munar nokkru á honum og sextíu stigum. Auk þess hefur alla aðra daga verið minna en 50 stiga frost  á celsíus og allt upp í 39 stig. 

Á fylgiskjalinu má sjá töflu yfir fahrenheit breytt í celsíus frá mínus 76 stigum og upp í plús 60.


mbl.is Með kalbletti á kinnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er búsáhaldaglamur þá ekki líka bannað?

Lögreglan tók lúðrana af Sturla. Hún dreifði líka blaði þar sem segir að bannað sé að vera með ólæti á almannafæri.

Gott og vel. Ég var á Austurvelli þegar mestu mótmælin stóðu sem hæst í bókstaflegri merkingu  og var hávaðinn ærandi þegar menn börðu potta og pönnur. Var þá ekki verið að rjúfa bann? Var ekki verið að rjúfa þetta bann sömuleiðis þegar vörubílstjórar þeyttu flautur sínar í mótmælum? Og aðrir hafa reyndar líka þeytt bílflautur í annars konar mótmælum. 

Verður ekki næsta skref lögreglunnar að ráðast gegn mótmælendum almennt vegna þess að þeir skapa læti eða hávaða á almannafæri? 

Næsta skref verður svo væntanlega að banna mótmæli alveg.

Það er full ástæða til að mótmæla þessari hentisemi lögreglunnar og gera það ekki þegjandi og hljóðalaust. 

Kom skipunin um lúðrabannið kannski frá Seðlabankanum og löggan þorði ekki annað en að fara eftir henni? 


mbl.is Sturlu bannað að þeyta lúðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju fá svona trúarbloggsíður að blómstra á Moggablogginu?

Ég vil vekja athygli á og taka undir þessa færslu Margrétar St. Hafsteinsdóttur. Í henni er vísað á trúarblogg þar sem samkynhneigðir eru fyrir allra augum flokkaðir með þjófum, lygurum og dópistum.

Hvers vegna í ósköpunum lætur Moggabloggið slíkt líðast eins og ekkert sé?  Svo er það að loka á blogg af hinum og þessum ástæðum og þrengja að þeim sem blogga sárasaklaust undir dulnefni.

En svona ósómi fær óáreittur að breiða úr sér. Samt er hann lögbrot. 

Trúarbloggurum virðist vera allt leyfilegt.

Ef gyðingahatur eða svertingjahatur væri óheft á bloggsíðum yrði áreiðanlega gripið í taumana. En ef samkynheigðir og jafnvel aðrir eru svívirtir með guðsorð á vörum þá gerist ekki neitt.

Í skjóli svokallaðs guðsorðs komast öfgabloggarar upp með allt.


Nú ætla þeir að eyðileggja facebook

Fréttir herma að facebook vilji selja upplýsingar um kynhneigð notenda sinna, kyn, aldur og áhugamál til fyrirtækja sem svo munu senda  notendum markhópamiðaðar auglýsingar. Á facebook eru 150 milljónir, þar með taldir svo að segja allir Íslendingar á sumum aldursskeiðum. Síðan á að selja þessar upplýsingar til þriðja aðila.

Þessi frétt er hálf óhugnanleg og vekur upp margar spurningar.

Á nafn notenda að koma fram þegar upplýsingar um þá eru seldar? Er hægt að tryggja nafnleysi? Er hægt að ábyrgjast að upplýsingarnar dreifist ekki til fleiri en þeirra sem þær eru seldar til? Geta leyniþjónustur ríkja ekki komist í þær? Fær notandi greitt fyrir upplýsingarnar?

Svo koma annars konar spurningar: Kærum við okkur um að selja upplýsingar um kynhneigð okkar og áhugamál út í heim þar sem við getum líklega engu um ráðið hvað gert verður um þær? Auk þess munu síður einstaklinga fyllast að auglýsingadrasli. 

Ég hef annars orðið fyrir vonbrigðum með feisbúkkina. Þá er bloggið skárra. Þar er hægt að koma skoðunum á framfæri, taka þátt í ''umræðunni', en feisbúkk er mestan part hjal af yfirborðslegasta tagi. 

Ef þessar fyrirætlanir Facebook ná fram að ganga geri ég ráð fyrir að ýmsum finnist nærri sér höggið. Ég ætla að forða mér áður.

Það er eins og fyrri daginn: Peningar eyðileggja allt sem þeir koma nálægt.  


Farsælt líf

Nú er ég að lesa bókina Farsælt líf, réttlátt samfélag eftir Vilhjálm Árnason heimspeking. Bókin fjallar um helstu siðfræðikenningar í sögu vesturlanda og er rökræða um þær. Hún er vel og skýrlega rituð og efnið er sannarlega áhugavert.

Það er hvíld fyrir hugann frá öllu kreppufárinu að lesa þessa bók sem beinir athyglinni inn á við. Þar á siðferðið upptök sín undir áhrifum frá samfélaginu og þaðan kemur gæfan og hamingjan. Hver einstaklingur verður að hirða um sinn innri mann hvernig sem allt veltist í umhverfinu.

Ég var svo að ljúka við að lesa Skáldsögu Íslands eftir Pétur Gunnarsson. Þetta er þriggja binda saga og mér finnst hún það besta sem Pétur hefur  gert. Hún er nokkurs konar saga þjóðarinnar og líka annarra landa í margar aldir. Sagan er listavel rituð og ótrúlega fræðandi að auki. Hún bregður  upp mjög sterkum myndum sem sýna mannlífið, kvikuna í því, á öllum tímum.

Með aldrinum minnkar hrifnæmið. Þegar ég var ungur gerðu sumar bækur mig svo glaðan  og manni fannst lífið meira virði á eftir. En þetta gerist sjaldan núorðið. Það gerðist samt við lestur þessarar sögu  hans Péturs.

Hún gerir mig glaðan og mér finnst lífið ofurlítið dýpra og betra en áður. 

 


Og hvar er þá réttlætið

Fjórtán íslenskir heimspekingar sendu í vetur frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla um það að réttlæti nái fram að ganga í íslensku samfélagi.  Í yfirlýsingu þeirra segir meðal annars:

''Réttlætiskrafan lýtur fyrst og fremst að því að sannleikurinn verði leiddur í ljós, að engum verði hlíft við því að horfast í augu við mistök eða misgjörðir ef um slíkt er að ræða og að opinská umræða fari fram um þær ákvarðanir sem ýmist stuðluðu að hruninu eða dugðu ekki til að koma í veg fyrir það. Krafan um réttlæti er oft einnig krafa um makleg málagjöld þeirra sem brotið hafa af sér. ''

Um daginn sagði svo geðlæknir í sjónvarpi eitthvað á þá leið að það færi verst með þjóðina ef henni fyndist hún ekki upplifa neitt réttlæti.

Í Silfri Egils í gær hafði Ragnar Önundarsyni litla trú á því að okkurt réttlæti næði fram að ganga. Gunnar Smári Egilsson sagðist hins vegar trúa því að sakamál væru framundan og byggð yrði ný Kvíabryggja til að hýsa þá sem dæmdir yrðu.

Krafan um réttlæti virðist vera ákaflega sterk meðal þjóðarinnar. Og rannsókn mála má ekki dragast svo úr hömlu að hún fari að leita útrásar á óæskilegan hátt.  


Þetta er orðið ferlega spennó

Ég býð með eftirvæntingu eftir því að víkingasveitin með alvæpni ráðist inn í Seðlabankann.

Það gefur augaleið að það verður að rýma svæði sem óbilgjarnir mótmælendur hafa á valdi sínu og neita að yfirgefa  þrátt fyrir fjölda áskorana, þar með talið einnar ríkisstjórnar. 

Ekki þori ég þó fyrir mitt litla líf, bloggandi undir nafni og allt hvað þetta hefur, að taka afstöðu til þessa þrákelknilegasta máls allra tíma en er bara að lýsa spennufíkn minni. 

Hvaða gas verður notað? 

Taugagas myndi henta einkar vel til að taka andófsmennina í bankanum algjörlega á taugum. Og svo væri bráðnauðsynlegt að nota líka rokna skammta af hláturgasi til að létta þjóðinni lundina. Ekki veitir af á alvörustundum. 

Helvíti er þetta annars orðinn mikill hasar og alveg ferlega spennó.

Ég get bara ekki beðið!


Ólíkir dagar

Sjöundi febrúar er veðurfarslega merkilegur. Þennan dag árið 1960 kom hlýjasti febrúardagur  að meðaltali yfir allt landið sem dæmi eru um að minnsta kosti frá og með 1949. Mældist þá hitinn 16,9  stig á Seyðisfirði og Dalatanga um kvöldið og þess vegna er hitinn skráður daginn eftir.  Þetta var þá febrúarmet á landinu en hefur síðan verið slegið.   Á Siglunesi var 15 stiga hiti og 14 í Fagradal í Vopnafirði. Á rafstöðinni við Elliðaár komst hitinn í 10,1 stig. Á tveimur stöðum sem mjög lengi hafa athugað, Grímsey og Grímsstöðum, hefur aldrei mælst meiri hiti í febrúar. Meðalhitinn á Akureyri var 10,1 stig en 10,9 á Hallormsstað. Á Seyðisfirði var sólarhringsmeðalhitinn aftur á móti 13,2 stig. (Þar mældist mesti sólarhringsmeðalhiti á veðurstöð í febrúar þ. 24. árið 1984, 14,7 stig).

Lægð var á Grænlandshafi sem bar með sér óvenjulega hlýtt loft sunnan að en hæð var yfir Bretlandseyjum. Veðri þessu fylgdi hvassviðri nema suðaustanlands og mikil rigning sunnan lands og vestan. Að morgni þ. 7. mældist úrkoman 94 mm á Fagurhólsmýri en næsta morgun 49 á Hæli í Hreppum og 47 við Andakílsárvirkjun. Stórflóð urðu í ám og vötnum  og mikil spjöll á vegum og fleiru á svæðinu frá suðvesturlandi til norðurlands.

Þennan dag 1969 kom hins vegar næst kaldasti febrúardagur hvað mesta frost varðar sem komið hefur frá 1949. Hann er reyndar þriðji kaldasti vetrardagur sem komið hefur á landinu frá 1949 en á undan honum  fór næst kaldasti dagurinn. (Allra kaldasti vetrardagurinn var 3. janúar 1968). Minnsti meðalhiti nokkurs dags í febrúar sem ég veit um í Reykjavík var þ. 6.,  upp á -15,1 stig, en daginn eftir mældist þar mesta frost sem mælst hefur eftir að 19. öldin leið, -17,6 stig. Á Hveravöllum fór frostið í 27,2 stig þ. 6. Hæð var yfir Grænlandi og lægðir fyrir austan land. Þetta var á hafísárunum. 

Það er mjög upplýsandi að skoða veðurkort af landinu á hádegi þessa febrúardaga 1960 og 1969. Þau sýna hve náttúrulegur breytileiki veðurfarsins er mikill og óþarfi að rjúka til og finna alltaf aðrar skýringar en hann þegar hitar og kuldar ganga.

1960-02-07_12_789607.gif1969-02-07_12_789608.gifrrea00119600208_789610.gifrrea00219600207_789611.gifrrea00119690207_789612.gifrrea00219690207_789613.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Forsætisráðherraefni

Ég vil fá þennan sem forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn! Hann mun alveg örugglega ráðast gegn kreppunni með kjafti og klóm. Og hafa betur. Smellið þrisvar til að sjá skerpuna og göfgina í augunum! Þau loga alveg af stjórnvisku og hugsjónum!

2008_241111a.jpg

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband