Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Öfgar og misræmi

Í gærdag varð mestur hiti á landinu 12,0 stig á Þingvöllum. Í nótt varð mesta frost á landinu -6,3  stig - á Þingvöllum. Þar var frost samfellt í nótt frá miðnætti og þar til milli klukkan 7 og 8 í morgun. Á hádegi var hitinn þar kominn upp í 9,1 stig og ekki ólíklegt að hann fari bráðlega yfir 10 stig.

Þetta eru miklar sveiflur. 

Ég sé ekki betur en nokkurt misræmi sé í  upplýsingum Veðurstofunnar á netsíðu hennar um snjóhulu og snjódýpt. Á Íslandskorti eru nokkrar stöðvar, jafnvel staður eins og Skógar undir Eyjafjöllum, taldar alhvítar en í töflu um snjóhulu og snjódýpt sést að þær eru annað hvort alauðar eða jörð flekkótt af snjó.


Svínslegt

Ég er alveg logandi hræddur við þessa svínapest. Hún á eftir að verða verri en nokkur kreppa.

Heiðurslaun eru heiðurslaun

Það er ekkert stjórnmálalegt við það sem hér fer á eftir. En heiðurslaun listamanna eru ekki starfslaun heldur viðurkenning á listrænum afrekum. Eins konar verðlaun.

Mér finnst það órökrétt að menn geti afsalað sér heiðri. Maður á heiðurslaunum fyrir list er því ekki á tvöföldum launum þó hann sinni líka ólistrænu starfi.

Þess vegna finnst mér að Þráinn, eða hver sem er í sömu stöðu, eigi ekki að láta pólitískan þrýsting hafa áhrif á sig heldur beita rökhyggjunni.  

Það er ekki hægt að svipta menn áunnum heiðri.

 


mbl.is Þráinn íhugar heiðurslaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaúrslitaspeki

Nú ætla ég að vera eins og vitringarnir sem alltaf eru að láta sitt skæra ljós skína. Segja álit mitt á kosningaúrslitunum!

Það liggur náttúrulega í augum uppi að það er vinstri sveifla. Hvernig má annað vera eftir það sem á undan er gengið. Ég held að fólk sé bara skelfingu lostið við þá nýfrjálshyggju sem alltof margir voru samt blindaðir af og Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrst og fremst fyrir. 

Margir treysta sér samt ekki til að kjósa Vinstri græna sem þeim finnst vera einum of mikill afturhaldsakommatitta flokkur.

Samfylkingin varð því fyrir valinu. 

Framsókn, sem allir héldu að væri búin að vera, græðir á nýjum formanni sínum sem er óneitanlega klár maður og viðfelldin í þokkabót. Það var masterstroke flokksins að velja hann.

Ég hef ekki mikla trú á því að Borgarahreyfingin eigi eftir að gera mikla rósir á þingi. Þetta er velviljað fólk en alltof mikið úti að aka.

Vinstri grænir hafa aldrei verið jafn innilega grænir.  Þeir segjast hafa hreinan skjöld. En það er nú bara út af því að þeir hafa ekki haft tækifæri til að óhreinka hann með setu að völdum.

Þar verður nú áreiðanlega skjót  og röggsamleg umbylting á.  

Þeir sem vonuðust eftir alvöru breytingum og raunverulegri tiltekt  í íslensku samfélagi eftir búsáhaldabyltinguna hafa auðvitað fyrir löngu orðið fyrir vonbrigðum.

Nú  heldur pólitíska atið og íslenski skotgrafahernaðurinn svo bara áfram eins og venjulega. 

Það síðasta sem ég vil gera er að binda mig á flokksklafa með þessum fíflalegu húrrahrópum fyrir forystumönnum þó reyndar hafi ég meiri samúð með stefnumálum sumra flokka en annarra. 

Stjórnmál finnst mér einfaldlega ekki áhugaverð lengur. Pólitískar breytingar ganga yfir. En við eigum innri mann sem fylgir okkur alla ævi.

Ég hef meiri áhuga á honum og öðru fólki en pólitík. 


Jæja krakkar, þá er komið að því

X

Hrun

Auðvitað verður annað hrun.

Það liggur í augum uppi. 

 


Var Siv að gráta

Það er augljóst hvað Siv er slegin. Það er engu líkara en að hún hafi verið að gráta. Hún segir að atburðarásin hafi verið mun ævintýralegri en hún hafi gert ráð fyrir. Hún meinar víst að hún hafi verið mun skelfilegri.

Ástand þjóðarinnar og framtíðarhorfur eru sannarlega grátlegar. Við erum einfaldlega búin að vera þó mönnum finnist óþægilegt að menn orði þá staðreynd.

Ég held ég fari bara að gráta með Siv.


mbl.is Siv segir atburði ævintýralega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grimmd og miskunnarleysi

Gerist það nokkurn tíma að her viðurkenni að hann hafi framið stríðsglæpi?

Fimm hermenn gerðu þessa skýrslu. Þeir verja árás sem gerð var á saklausa fjölskyldu þar sem  21 maður úr henni létu lífið. Þeir verja árásina með kjafti og klóm. Æ, þetta voru bara eðlileg mistök. 

Eftir skýrslugerðina hafa þeir eflaust farið heim í faðm sinna fjölskyldna.  

Þeir hafa ekki eitt augnablik leitt hugann að þeim harmi og sorg, skelfingu og dauða, sem her þeirra hefur valdið. 

Herir eru andstyggilegar stofnanir. Þar er litið á grimmd og miskunnarleysi sem dyggð. 

 


mbl.is Ísraelsher: Engir stríðglæpir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiði í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu

Þegar ég horfði á gönguferðina í Kiljunni um gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu minnti það mig á dálítið persónulegt.

Mamma hans pabba dó þegar hann var 17 ára. Þá var hann kominn í siglingar erlendis.  Hann ólst upp með henni  fyrir norðan og var einkabarn hennar. Amma skildi við afa og var ein eftir það. 

Fyrir allmörgum árum fór ég að kynna mér forfeður mína. Þá komst ég að því að amma hafði dáið í Reykjavík. Mér datt þá í hug hvort hún kynni ekki að hafa verið grafin í kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Og viti menn! Leiði hennar var skráð en algjörlega ómerkt í garðinum.

Ég lét setja kross á leiðið með nafninu hennar ömmu. Þetta var haustð 1997. Þá hafði amma legið í ómerktri gröf í 76 ár. Hún dó úr lungnabólgu aðeins liðlega fertug að aldrei.

Ég ólst upp skammt frá kirkjugarðinum í Suðurgötu. Aldrei talaði pabbi um að amma hvíldi þar þó hann væri oft að segja hvað honum hafi þótt vænt um hana.

Ekki vissi amma að ég myndi nokkurn tíma verða til. 

Það er einkennilegt að standa við leiði hennar í kirkjugarðinum við Suðurgötu og hugsa um hverfulleika lífsins. En líka það að við höfum öll rætur.

Við megum ekki gleyma því. 


Hjátrú

Það bregst ekki að það sé tekið fram, bæði af veðurfræðingum í sjónvarpi og í almennum fréttum, að það þyki boða gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman. 

Þetta finnst mér alltaf hálfpartinn sett fram þannig að taka eigi  mark á því. Eins og veðurklúbburinn á Dalvík hafi talað. Ég myndi taka ofan fyrir þeim veðurfræðingi sem ekki myndi tönnlast á þessu síðasta vetrardag. 

En það er auðvitað ekkert mark á þessu takandi. Nú eru veðurstöðvar orðnar svo margar að það þarf sérlega óvenjuleg hlýindi til að ekki mælist frost einhvers staðar á  landinu í tveggja metra hæð. Skæni á pollum er enn algengara. Það hefur gerst aðeins sex sinnum frá 1949 að ekki hafi verið frost einhvers staðar á landinu. Eftir því ættu öll sumur að hafa verið góð þennan tíma nema sex! Ég hef aldrei heillast af þjóðtrú um veðrið. Mér finnst hún bara fíflaleg og ekki þess virði að leiða athyglinni að henni.

Er þetta smámunasemi og nöldur í mér? Ef svo er þá stafar það eingöngu af því að ég er alveg einstaklega smámunasamur nöldurseggur! Auk þess má lesa á blogginu mínu, komið frá öðrum, að ég sé guðlastari!

Þær upplýsingar sem fram koma í þessari frétt eru ágætar og ættu menn að lesa þær vandlega. Það er meira vit í þeim en öllu því pólitíska ati sem nú tröllríðum flestum bloggsíðum.

Þess má geta að sumardagurinn fyrsti árið 2004 í Reykjavík var öllu betri en 1998 þó síðarnefnda árið hafi mælst lítillega hærri hámarkshiti.  Hann stóð þó stutt við en árið 2004 var yfir ellefu stiga hiti  samfellt frá hádegi og framundir kl. 9 um kvöldið og dagurinn mátti heita sólardagur en ekki sá árið 1998. Meðalhitinn 2004 var líka talsvert hærri en 1998 og má hann teljast besti sumardagurinn fyrsti sem við höfum hér lifað.

Meðalhitinn í Reykjavík í apríl er nú 5,0 stig og 2,7 stig yfir meðallagi. Hiti hefur komst í 10 stig eða meira fjóra daga og einn í 9,8. Það gerist svo sem ekki í hverjum apríl. En  nú er að kólna.  Það á þó að hlýna aftur á sunnudaginn. Eigi að síður er hálf rysjótt tíð framundan. Þessi apríl hefur verið úrkomusamur og ekki eins þægilegur og hitinn gefur til kynna.

Hér er hægt að sjá veðrið á hádegi alla sumardagana fyrstu frá 1949

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 


mbl.is Sumar og vetur frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband