Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
30.7.2010 | 08:23
Metjöfnun í júlíhita í Reykjavík
Hlýjasti júlí sem mælst hafði í Reykjavík hingað til var 1991 en þá mældist meðalhitinn 13,03 stig. Er þá miðað við átta athuganir á sólarhring á þriggja klukkustunda fresti. Nú er júlí 2010 lokið og meðalhitinn reynist eftir sams konar reikningi vera 13,03 stig!
Það eru annars nokkur tíðindi veðurfarslega í Reykjavík að á eftir hlýjasta júní komi hlýjasti júlí.
Í fylgiskjalinu er hægt að sjá hitann í bænum eins og hann hefur verið á þriggja tíma fresti allan mánuðinn, ásamt hámarks -og lágmarkshita þar sem reynt er að skipta um miðnætti en ekki kl. 18. Þessar tölur eru teknar af Gagnatorginu. Dagsmeðaltal hvers dags 1961-1990 er þarna líka. Vel sést að allir dagar hafa verið yfir meðallagi. Einnig sést sólskin hvers dags og sú úrkoma sem mælst hefur kl. 9 að morgni. Auk þess er þarna hitinn á miðnætti og á hádegi yfir Keflavík í 850 hPa og 500 hPa hæðum (um 1400-1500 m og um 5,5, km). Langtímameðalhitinn þarna uppi í júlí er um 3 stig og -20 stig. Þá sést svokölluð þykkt milli yfirborðs og 500 hPa flatarins í dekametrum. Því meiri sem hún er því betri skilyrði eru fyrir hlýindum en ekki er alltaf víst að það nýtist til hins ýtrasta við jörð. Loks er hámarks-og lágmarkshiti hvers dags á landinu á láglendi eða í byggð. En Hveravellir fá þó að vera með ef þar varð einhvern tíma kaldast, svona upp á gamlar minningar.
Undarlegur er maður. Þegar ég sá þokuna í nótt vissi ég að þessi júlí myndi ekki setja neitt afgerandi met. Og þá missti ég eiginlega áhugann fyrir honum og varð fyrir vonbrigðum, fannst þetta leiðinlegur og ómerkilegur júlí í alla staði. Hefði metið aldrei verið innan seilingar, hitinn undir lokin verið t.d. kringum 12,5 stig hefði maður verið fyllilega sáttur og ánægður með frábæran júlí.
En mánuðurinn klúðraði sem sagt öllu á lokasprettinum ekki síður en strákararnir okkar gera svo ansi oft.
Ekki kemur nú annað til mála en að reka veðurþjálfaran samstundis með skömm!
Hér er gömul bloggfærsla þar sem í fylgiskjali má sjá aðra hlýjustu júlímánuði í Reykjavík. Reyndar vantar þar júlí í fyrra.
Smávægilegar villur í innslætti í fylgiskjalinu hafa nú verið leiréttar.
Bloggar | Breytt 5.8.2010 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2010 | 16:29
Saga hlýindanna
Spáð er nú hlýrra og sólríkara veðri fyrir norðan en fyrir sunnan um helgina. Það er kannski kominn tími til í þessum júlí. Hlýindunum á suður og vesturlandi er hér með lokið í bili. Þau voru bara þó nokkur á svæðinu frá V-Skaftafellsýslu til Borgarfjarðar og jafnvel til Breiðafjarðar. Hér er rakinn saga 20 stiga hita eða meira á mönnuðum veðurstöðvum frá 16. júlí þegar hlýindin hófust .
16. júlí. Eyrarbakki 20,5, Hæll í Hreppum og Keflavíkurflugvöllur 20,0.
17. júlí. Keflavíkurflugvöllur 23,0, Reykjavík 21,4, Kirkjubæjarklaustur og Hjarðarland í Biskupstungum 21,2, Eyrarbakki 21,0, Hæll 20,5.
18. júlí. Hæll 23,3, Hjarðarland 23,0, Eyrarbakki og Kirkjubæjarklaustur 22,0, Stafholtsey í Borgarfirði 21,6, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi 20,4.
19. júlí. Hjarðarland 23,2, Hæll 21,3, Stafholtsey 23,1, Bláfeldur 21,1, Ásgarður í Dölum 21,7, Lambavatn á Rauðsandi 20,1.
Þegar hér var komið voru mestu hlýindin dottin niður.
20. júlí. Kirkjubæjarklaustur 21,8. Aðeins Kirkjubæjarklaustur hélt þennan dag uppi hitaheiðri landsins á mönnuðum stöðvum! Næsta dag hafði hitalandslagið breytt nokkuð um svip.
21. júlí. 21,0 Reykir í Hrútafirði (sko hana, einhverja hrútleiðinlegustu veðurstöð landsins!) og Staðarhóll í Aðaldal, Ásgarður 20,5, Hæll 20,4, Hjarðarland 20,2. Litlu munaði að 20 stig næðust í Litlu-Ávík á Ströndum en þar mældust 19,7 stig.
Eins og sjá má hafa hlýindin verið mest og lengst á suðvesturlandi.
Á sjálfvirkum veðurstöðvum hefur 20 stiga hiti eða meiri mælst á þessum stöðvum (sleppt þeim þar sem líka eru mannaðar stöðvar): Reykjavíkurflugvöllur, Einarsnes í Skerjafirði, Geldinganes, Hólmsheiði, Korpa, Kjalarnes, Miðdalsheiði, Sandskeið, Skrauthólar á Kjalarnesi, Þyrill, Akrafjall, Fíflholt á Mýrum, Hafnarfjall, Hafnarmelar, Hafursfell á Snæfellsnesi, Húsafell, Hvanneyri, Litla-Skarð, Hraunsmúli í Staðarsveit, Vatnaleið á Snæfellsnesi, Brattabrekka, Svínadalur í Dölum, Gillastaðamelar, Reykhólar, Grundarfjörður, Skíðaskálinn í Seljalandsdal, Súðavík, Haugur í Miðfirði, Brúsastaðir í Vatnsdal, Sauðárkrókur, Nautabú, Möðruvellir í Hörgárdal, Reykir í Fnjóskadal, Stjórnarsandur, Lómagnúpur, Skaftafell, Hvammur undir Eyjafjöllum, Básar á Goðalandi, Þykkvibær, Sámsstaðir, Hella, Skálholt, Árnes, Búrfell, Mörk á Landi, Gullfoss, Þingvellir, Þjórsárbrú, Kálfhóll, Ingólfsfjall, Grindavík, Þrengsli.
Eins og sjá má hafa hitarnir varla náð til norðurlands og alls ekki til austurlands.
Mesti hiti hvers dags á landinu (á mannaðri eða sjálfvirkri veðurstöð):
16. Eyrarbakki 20,5.
17. Þingvellir 24,1.
18. Hella 24,2.
19. Hafursfell 23,4.
20. Stjórnarsandur við Kirkjubæjarklaustur 22,9.
21. Brúsastaðir í Vatnsdal 21,7.
Glampandi sólskin var þar sem hlýindin náðu sér á strik.
Nú spyr ég: Hvað hefði verið rætt og ritað á bloggi og í blöðunum ef sól og yfir 20 stiga hiti hefði mælst á mörgum veðurstöðvum dag eftir dag í glaðasólskini á svæðinu t.d. frá Skagafirði til Fljótsdalshéraðs? Það hefði ekki linnt látum yfir blíðunni fyrir norðan og látið svona fylgja með að þar væri alltaf besta veðrið. Reyndar var nokkuð gert með þessi sunnlensku hlýindi en ég held að það hefði verið miklu meira ef þau hefðu bara verið fyrir norðan. Og mér sýnist á tali manna oft á bloggi og fasbók, sem auðvitað ristir ekki djúpt og ætlar sér það ekki, að fjöldi fólks standi raunverulega í þeirri meiningu að meiri veðurblíða sé svona yfirleitt fyrir norðan á sumrin en fyrir sunnan. Það er nú bara einfaldlega rangt.
Enga trú hef ég svo á því að hlýindin næstu daga verði eins stöðug og langvinn fyrir norðan og austan og hlýindin voru þó á suður og vesturlandi.
Samt er bara að vona að hitar og sólskin verði sem mest og víðast á landinu það sem eftir lifir sumars.
Blíða fyrir norðan og austan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.7.2010 | 19:01
Sjaldgæf hlýindi
Júlí er nú rúmlega hálfnaður. Hann hófst með hvassvirði og hálf rysjóttu veðri fram eftir þó ekki væru neinir kuldar.
Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík var í gærkvöldi kominn í 12,6 stig eða 2,3 stig yfir meðallagi. Það er svipað frávik frá meðallagi og var í júní öllum sem var sá hlýjasti sem mælst hefur í borginni. Enginn dagur hefur enn verið undir meðallagi. Meðalhitinn í gær var 15,3 stig en sjaldgæft er að meðalhitinn í borginni nái 15 stigum. Hámarkshitinn var líka sá mesti sem komið hefur á þessu sumri, 21,2 stig á kvikasilfursmæli. Í nótt fór hitinn ekki lægra en í 12,8 stig en í dag ætlar hann greinilega ekki að stíga jafn hátt og í gær í höfuðborginni. Vindur er líka norðvestanstæður og dregur inn loft frá Faxaflóa sem varnar því að landið hitni eins vel og í gær þar sem þessa gætir. Í gær fór hitinn á Reykjavíkursvæðinu mest í 23,4 stig við Korpu. Á Keflavíkurflugvelli mældust 23,0 sem er vægast sagt sjaldgæft á þeim stað, reyndar svo að ég efast eiginlega um þessa tölu, og hitinn hefur þá stigið allrösklega eftir kl. 18 í gær því þá voru 19,5°. Á Þingvöllum varð hlýjast í gær á landinu 24,1 stig en 22 stig voru á Kjalarnesi, Hólmsheiði og í Hvalfirði.
Sums staðar er enn hlýrra í dag en í gær, svo sem í Borgarfirði þar sem hitinn var 21 stig klukkan 15 í Stafholtsey og enginn hafgola og heldur ekki á Hvanneyri þar sem hitinn er búinn að fara í 23 stig og líka í Hvalfirði. Hlýjast er þó í uppsveitum suðurlands, búið að fara í 24 stig í Árnesi, Þingvöllum og Hellu, 23 í Hjarðarlandi og Kálfhóli og 22 í Búrfelli. Í Grindavík hefur hitinn farið í 22 stig sem er sárasjaldgæft þar. Hlýtt er einnig á suðausturlandi, 22 stig á Kirkjubæjarklaustri og Skaftafelli. En lengra austur ná ekki umtalsverð hlýindi. Við Breiðafjörð og i Dölum hefur hitinn náð 17-18 stigum í dag og í Bolungarvík voru 19 stig kl. 15 í heiðskíru veðri en annars staðar á Vestfjörðum er bara svona venjulegur júlíhiti. Þess má þó geta að hvorki á Hornbjargsvita né Fonti hefur hiti enn náð tíu stigum í þessum júlí!
Hitinn núna er ekki af venjulegasta tagi. Hitar á suður og vesturlandi verða oft þegar hlýr loftmassi frá meginlandi Evrópu leikur um landið. En hýindin að þessu sinni stafa af hlýrri hæð í háloftunum yfir suðaustanverðu Grænlandi. Skúraloftið sem var svo áberandi um margra daga skeið um daginn stafaði hins vegar af háloftkuldum þó fremur hlýtt væri við jörð. Þegar loftið við jörð hlýnaði og þandist út og steig upp á við kom að því að það mætti köldu loftinu í háloftunum sem var um 25-26 froststig í kringum fimm þúsund metra hæð sem er 5-6 stig undir meðallagi á þessum árstíma. Þetta olli skúrum og sums staðar jafnvel þrumuveðri. Nú er annað uppi á teningnum. Það hefur hlýnað um tíu stig eða meira í fimm kílómetra hæð og er loft þar nú venju fremur hlýtt. Umskiptin urðu á föstudaginn.
Yfir Tasiilaq (sem áður hét Ammassalik) var á hádegi 14 stiga hiti í meira en þúsund metra hæð. Hlýja loftið þarna er auðvitað upphaflega komið sunnan að fyrir nokkrum dögum. Loftið berst svo til landsins með norðlægum straumi sem ríkir austan við sjálfan hitahólinn. Smávegis ský berast að ströndinni en Hornstrandir og landið í heild standa eiginlega eins og varnarveggur fyrir þeim og sólin á auðvelt með að hlýja þetta að grunni til hlýja og þurra loft upp í hálfgerða hitabylgju niður við jörð þar sem best lætur.
Talsvert kaldara loft er yfir austurlandi. Þangað ná ekki áhrif Grænlandshlýjunnar almennilega og köld tunga í háloftunum teygir sig reyndar suður á bóginn rétt austan við landið en hlýrra er þó neðar. Skýjakerfi af þessum völdum ná nokkuð austur á landið og suður fyrir það. Lægðir lúra milli Íslands og Noregs.
Meðalhitinn í Reykjavík mun halda áfram að stíga í dag og á morgun. Hann gæti þá verið kominn al veg upp að 13 stigunum, sjálfri mettölunni fyrir hlýjasta júlí. En þá verða líka mestu hitarnir liðnir hjá í bili en samt verður hlýtt áfram.Um þetta leyti í fyrra var meðalhitinn í júlí reyndar kominn vel upp fyrir metið en þá gerði þriggja daga kuldakast svo meðaltalið lækkaði mikið en þegar upp var staðið var mánuðurinn samt með hlýjustu júlímánuðum. Mér kæmi annars ekki neitt á óvart ef þessi júlí bætti metið að lokum.
Mikið sakna ég þess að engar Modis myndir skuli sjást meðan þetta góðviðri ríkir. Ekkert hefur komið síðan 13. júlí. Ekkert skil ég svo í þeim á Veðurstofunni að vera alltaf með hámarks-og lágmarkshitann frá kl. 18-18 (reyndar líka frá kl. 9-9). Í dag sést að hafi verið 20 stig mest í Reykjavík en sá hiti mældist í gær um kl. 18 en í dag mest 18,6°. Svo mætti á spákortunum á Brunninum vera hægt að hreyfa þau áfram og aftur á bak með tökkunum á tölvunni en ekki bara með músinni sem á erfitt með það vægast sagt án þess að hlaupa yfir. Svo væri lúxus ef hægt væri að hægja á keyrslunum á spárkortunum sem fara svo hratt að ekki er hægt að festa sjónir á neinu nema þá helst fyrir ofurmenni og veðurofvita. Alls ekki veðurhálfvita!
Fyrir neðan sést gervitunglamynd frá stöðinni í Dundee í Skotlandi, tekin kl. 1640. Þetta er ekki hitamynd, svona til að breyta til. En fyrst er kort þar sem kalda tungan í kringum 5000 metra hæð sést vel undan austfjörðum en hlýja loftið yfir Grænlandi og austur um Ísland.
Athugasemd: Hef tekið eftir því einkennilega fyrirbrigði að oft munar 0,1° (einstaka sinnum 0,2°) á lágmarkshita stöðva sem gefinn er upp á þessum hámarks-og lágmarkslistum á vefsíðu Veðurstofunnar og þeim hita sem tiltekinn er á svokölluðum leslista yfir minnsta hita næturinnar, í dag (þ. 19.) 10,0 og 9,9 fyrir Reykjavík og 1,0 og 0,7 fyrir Grímsstaði. Þó eiga tölurnar greinilega við sömu mælingu.
Bloggar | Breytt 23.7.2010 kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.7.2010 | 18:52
Nýstárlegar sjúkdómaskýringar
Björn H. Jónsson fyrrverandi sóknarprestur skrifar í dag grein í Moggann. Hann er að velta fyrir sér sjúkdómum og trúarlífi. Hann skrifar meðal annars: ''Grimmir sjúkdómar hafa á okkur herjað og hygg ég krabbameinið þar illskeyttast. ... Óttalegust er sú uppgötvun lækna að gen hafi fundist í mönnum sem beri í sér krabbameinsfrumu og skili henni yfir í annan einstakling með einhverskonar erfðafestu ferli og tengist jafnvel einstökum ættum. Ekki deili ég á niðurstöðu læknanna. Mér finnst þessi niðurstaða skelfileg. Ég trúi því ekki upp á Guð minn að hann skapi sitt eigið listaverk með slíkum fæðingargalla. Það getur ekki verið okkar Guð sem Jesús hefur frætt okkur um.''
Ég feitletraði orðin.
Þó presturinn segist ekki deila á niðurstöðu læknanna, sem ég veit reyndar ekki hver er umfram hans eigin orð, þá neitar hann samt að trúa henni. Í þessu er ósættanleg mótsögn fólgin. Hann gerir það sem hann segist ekki gera. Deilir í reynd á niðurstöðuna sem hann segist ekki deila á, vísar henni hreinlega á bug.
Þess í stað er hann með ýmsar vangaveltur um hvað geti skapað slíka sjúkdóma. Það gæti verið að barnið í móðurkviði ''verði fyrir hnjaski, áfalli eða fyrir einhverju slæmu er móðirin verður fyrir: Falli úr tröppu, verði fyrir ofbeldi eða ofraun af einhverju tagi. Sýkill gæti sest að í fóstrinu og borist með því út úr fyrstu vöggustofunni.''
Hér er sem sagt strikað yfir niðurstöðu vísindanna eins og ekkert sé, ef við látum sem frásögn prestsins af niðurstöðum læknanna sé rétt, en villt hugmyndaflug látið koma í staðinn.
Ekki vantar svo forskriftina fyrir því hvernig skapa eigi manneskju sem sé laus við sjúkdóma:
''Við þekkjum flest þessa setningu: »Guð skapaði manninn í sinni mynd«. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir návist hans og aðkomu þegar maður og kona maka sig í þeim tilgangi að skapa manneskju. ...Við mökun þarf hugur beggja að vera gagntekinn af kærleika, ástúð. Sál og líkami sátt við hvort annað. Mikill gæðamunur er á verkum þar sem hugur fylgir máli og þeirra er kastað er til höndum. Hér þarf að gilda fyrra verklagið.''
Af þessari grein, þar sem sjúkdómum sem berast með erfðum, er hreinlega neitað, er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að þegar erfðasjúkdómur, krabbamein þá í þessu tilfelli, kemur upp meðal barna sé það vegna þess að foreldrarnir hafi ekki verið nógu kærleiksríkir í hákristilegum skilningi þegar getnaður barnsins átti sér stað. Þegar foreldrarnir sofa saman með stórum kærleik kemur enginn krabbafjandi. En þegar foreldrarnir sofa saman án kærleiks birtist krabbinn hreinlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þannig er lógíkin.
Til eru ýmsir sjaldgæfir erfðasjúkdómar sem erfast eftir ströngum erfðalögmálum sem hafa ekkert með trú eða kærleika að gera og þessir sjúkdómar geta verið alveg skelfilegir, eins og t.d. Huntington´s chorea eða ótímabær öldrun smábarna.
En það er samt miklu skelfilegra að á 21. öld skulu menn halda fram þeim býsnum og fádæmum sem finna má í þessari grein Björn H. Jónssonar um skýringar á sjúkdómum sem berast með genum frá foreldri eða foreldrum til barna.
Á hvers konar trúarvitleysisdellutímum lifum við eiginlega?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.7.2010 | 15:29
Tökum nú í alvöru á níðingsskap gegn köttum
Samkvæmt vitnisburði Kattholts er útburður katta skelfilega algengur. Margra ára heimilisköttum er hent út eftir duttlungum eða hentisemi eigenda sinna. Litlir kettlingar eru bornir út á guð og gaddinn og jafnvel læður með nýgotna kettlinga sína. Allt ber þetta vitni um fágæta grimmd. Grimmd gegn dýrum er lágkúrulegasta grimmd sem mennirnir geta sýnt. Aldrei hafa yfirvöld, bæjarfélög eða ríkisvaldið, skorið upp afdráttarlausa herför gegn þessum níðingsskap í nokkurri mynd.
ALDREI.
Engar auglýsingar, engar áskoranir. Afhverju kemur Guðríður Arnardóttir ekki í fjölmiðla með Samfylkinguna og aðra flokka í Kópavogi einróma að baki sér til að hvetja menn til að hætta þessum skepnuskap? Engin tilraun er svo gerð til að leita að þeim sem skilja ketti og kettlinga eftir bjarglarlausa á víðavangi,
En það er oft verið að skera upp herör gegn saklausum dýrunum eða búa til herferðir gegn þeim.
Við Mali skorum á bæjaryfirvöld í Kópavogi og annars staðar að vera jafn einbeitt í að leita uppi kattaníðinga og refsa þeim eins og að leita uppi fórnarlömb þeirra, kettina.
Við Mali vonumst eftir að lifa það að tekið verði almennilega til hendinni í þessum efnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.7.2010 | 00:39
Bjöllu um háls Guðríðar
Guðríður Arnardóttir hálfviti ... nei, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi vildi ég sagt hafa, vill hengja bjöllu um hálsinn á heimilisköttum í bænum.
Mali er yfir sig hneykslaður á slíkum hugmyndum og hvæsir að það sé hreinn sadismi að hengja hávaðasama bjöllu um hálsinn á dýri sem sé eðlislægt að veiða. Miklu nær væri að hengja bjöllu um hálsinn á Guðríði svo fólk geti forðað sér áður en hún fer að blaðra.
Vonar hann að um þetta náist bæði pólitísk og ópólitísk samstaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
1.7.2010 | 23:05
Fyrsta haustlægðin!
Hún er óneitanlega ansi reffileg þessi fyrsta haustlægð!
Og gerir sig svo sannarlega breiða um hálft Atlantshafið.
Myndin sýnir hana frá kl. 7 í morgun og er af vef Veðurstofunnar.
Spái ek svo því, og leggið nú eyrun við börnin mín ung og smá, bévítans óþekktarormarnir, að eftir hraklegt haustið komi fádæma vetrarhörkur með svá miklum hafísum, að elstu menn muni ekki annað eins enda muna þeir nú svo sem aldrei eitt né neitt. Verður þá mörg óætan ill etin og lánleysi mikið mun þjaka jafnt menn sem algjörar skepnur og valda fári miklu svo kalla megi það í einu orði sagt alveg óborganlegt.
Bloggar | Breytt 2.7.2010 kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006