Sjaldgæfir febrúardagar

Síðasti dagurinn í febrúar var óvenjulegur í Reykjavík. Þá skein sólin í 7,9 klukkustundir og hitinn fór í 7,5 stig en meðalhitinn var 4,2 stig en lágmarkið 2,4. 

Það mun vera afar sjaldgæfur atburður á þessum árstíma að svona mikill sólskinsdagur sé jafnframt þetta hlýr. Oftast nær er frost í mikilli sól á febrúardögum, stundum hörkufrost.   

Langtíma meðalhiti þessa dags er um hálft stig en meðalhiti alls febrúarmánaðar 1961-1990 er 0,3  stig en á þessari öld 1,1 stig, með þessum. 

Hér fara á eftir nokkrar vangaveltur um hlýja sólskinsdaga í febrúar.

Daglegar sólskinsmælingar eru til frá 1924. Mesta sólskin sem mælst hefur 1. febrúar er 6,5 stundir en 9,5 stundir þann 28. Meðaltal sólskins í febrúarmánuði öllum í Reykjavík síðustu 30 ár eru 58,3 stundir eða tvær stundir á dag að jafnaði. 

Sólargangur er auðvitað ekki langur í febrúar þó hann lengist eftir því sem á líður. Mér datt í hug að miða við að fimm stundir af sólskini eða meira til að ákvarða sólskinsdag í febrúar. Ég hef þær ekki fleiri til þess að ná öllum mánuðinum og vegna þess hve sólargangur er skammur held ég að menn upplifi slíka daga sem sólardaga miðað við árstímann. 

Síðan 1924 hefir sól mælst 5 klukkustundir eða meira í 446 daga í febrúar en það eru um 17% allra febrúardaga á þessum tíma. Meðalhiti þessara sólardaga er -2,8 stig frá 1949 að telja en meðaltal lágmarks og hámarkshita á sama tíma er um fimm stiga frost og hiti um frostmark. Sólskinsdagar í febrúar eru því yfirleitt kaldir og oftast miklu kaldari en dagsmeðaltal viðkomandi dags, hvað þá hlýrra hlákudaga. Af 325 sólardögum frá 1949 hefur meðalhitinn verið yfir frostmarki í kringum 22% þeirra daga en frá 1949 eru til sólarhringsmeðaltöl hita. Meðalhitinn hefur sem sagt verð undir frostmarki í nær 80% þessara sólskinsdaga. Lágmarks og hámarkshiti hvers dags liggur fyrir alveg frá 1924. Frá því ári hefur verið algjörlega frostlaust í um 9% allra daga (446) með fimm klukkustunda sól eða meira. Hámarkshitinn komst í 5 stig eða meira í 28 daga af þessum 446 dögum, þar af 4 daga 2014, yfir 6 stig í 17 daga en yfir 7 stig í 8 daga og einn af þeim var síðasti dagurinn í þeim febrúar sem var að líða. Allra allra mestu sólskinsdagar, þeir sem eru nærri sólskinsmetum viðkomandi dags, ná ekki að verða hlýir.

En þetta er sem sagt alveg nauða sjaldgæft ástand í veðrinu sem við höfum verið að lifa núna í febrúar í Reykjavík. Að á miklum sólardögum í febrúar sé líka tiltöulega hlýtt en ekki hörkufrost. 

Nokkrir af þessum mildu sólríku dögum síðustu 91 ár skera sig úr. 

Fyrstan skal telja 26. febrúar 1932, langhlýjsta febrúar sem mælst hefur, en þann dag komst hitinn í 9,9 stig (var 9,1° á hádegi) en sólin skein í 5,6 stundir og meðalhitinn hefur líklega slagað nokkuð eða jafnvel hátt upp í 7 stig. Þennan dag fór hitinn á Hvanneyri upp í 11,4 stig.

Hinn 24. árið 1963 var merkilegur dagur. Þá skein sólin í 5,3 stundir, hámarkið var 7,9 stig (7,4 kl. 15) en sólarhringsmeðaltalið var svo hátt sem 6,4 stig.

Mér er minnisstæður 14. febrúar árið 1991. Þá komst hitinn i 7,7 stig (kl. 15) en meðalhitinn var 6,3 stig og sólin skein í 6,3 stundir. Gestir í sundlaug vesturbæjar tóku fram sólbekkina þennan dag! 

Sólin skein í 5,3 stundir þann 24. árið 2003 en hitinn fór í 7,1 stig en meðalhitinn var 5,1 stig.

Allir þessir dagar voru alveg frostlausir. 

Og svo er það okkar dagur, líka frostlaus, síðasti dagur febrúarmánaðar 2014, með sól upp á 7,9 stundir, 7,5 stiga hámarkshita og meðalhitann upp á 4,2 stig.

Mig langar til að láta okkar dag hreppa gullið á vetarólympíuleikunum fyrir milda sólskinsdaga í Reykjavík í febrúar en 1932 daginn silfrið og 1991 daginn bronsið! Það er listrænn elegans  gærdagsins á svellinu sem gerir útslagið með gullið!

Hvað sem um þennan veðurleik má segja hefur veðurfarið vægast sagt verið óvenjulegt í þessum febrúar og ekki bara vegna þurrkanna og austanáttarinnar. Litlu munaði að mánuðurinn kæmist líka inn á topp tíu listann fyrir sólríki og samt svona hlýr og hann skartar óvenjulega mörgum tiltölulega hlýjum sólskinsdögum miðað við árstíma. Loftið yfir landinu hefur ekki komið norðan af heimskauti með svellköldum sævi.

 

 

  

 

 

 

         


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjórði þurrasti febrúar í Reykjavík

Þessi febrúar reyndist vera sá fjórði þurrasti sem mælst hefur í Reykjavík frá 1885. Úrkoman var 13,6, mm en var minnst 1966 4,9 mm, 9,0 mm í þeim ískalda febrúar 1885, og 10,0 mm árið 1900. Árið 1838 mældi Jón Þorsteinsson 8 mm í Reykjavík en þær mælingar eru kannski ekki alveg sambæirlegar við síðari mælingar. Úrkomudagar voru núna fimm en frá stofnun Veðurstofunnar 1920 hafa þeir fæstir verið þrír í febrúar 1947, þeim sólríkasta sem mælst hefur og fimm í febrúar 1977. Árið 1966, í úrkomuminnsta febrúar, voru þeir hins vegar 7. 

Úrkomuminnsti febrúar sem mælst hefur á landinu í heild er talin vera árið 1900 en næstur kemur frá þeim tíma 1977, 1901 og 1966. Þess má geta að febrúar árið 2010 er talinn sá 11. þurrasti frá 1900 á landinu. Allir búir að gleyma honum!

Sá febrúar sem nú er að líða kemst varla mjög hátt á þurrkalista alls landsins því sums staðar hefur verið veruleg útkoma. En nokkur þurrkamet einstakra stöðva sem allengi hafa athugað veit ég um: Í Stafholtsey í Borgarfirði hefur alls engin úrkoma mælst (stöðin er um 25 ára). Í febrúar 1977 mældust 0,2 mm í Síðumúla í Hvítársíðu. Í Stykkishólmi er þetta næst þurrasti febrúar, alveg frá 1857 en minnst var árið 1977. Á Bergsstöðum í Skagafirði hefur ekki mælst minni febrúarúrkoma eða í nokkrum mánuði, 0,4 mm, frá 1979.  Á Þingvöllum, þar sem er sjálfvirk úrkomustöð en var lengi mpönnuð, hefur líklega ekki mælst minni úrkoma í febrúar.  Kannski minnir þessi mánuður núna nokkuð á  febrúar 1977. Þá var þrálát  austanátt eins og nú og meturrkar, í alveg bókstaflegum skilningi, á vesturlandi og mjög þurrt var á norðvestanverðu landinu. En okkar mánuður er miklu mildari en 1977.

Hiti mánaðarins er hár miðað við febrúar eins og sjá má i fylgiskjalinu.     

Búið er að setja þennan mánuð inn í úrkomutöfluna í færslunni  Úrkoma í Reykjavík.  

Vona að ég móðgi engan þó mér finnst þessi febrúar hafa verið góður fyrir Reykvikinga og reyndar allur veturinn sem af er. Ekki hversdagslegt t.d. að hiti komist í 8 stig í glaða sólskini síðasta daginn  í febrúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Uppfærðar veðurskrár

Nú hef ég uppfært nokkrar veðurskrár sem hér hafa verið á blogginu. Þær eru: 

Íslandsmetin í veðrinu. Veðurmet hvers mánaðar fyrir landið í heild.

Hámarks-og lágmarkshiti hvers mánaðar á landinu í heild.  Tölur frá sjálfvirkum stöðum koma líka inn frá 1995 en fram að þeim tíma voru eingöngu mælingar á kvikasilfursmæla.

Veðurmet hvers mánaðar á íslenskum veðurstöðum. Hiti, úrkoma og snjódýpt fyrir einstakar stöðvar. 

Sólskin á Íslandi. Mánaðartölur hvers mánaðar fyrir allar stöðvar sem mælt hafa sólskin.

Veðurmet í Reykjavík. 

Hámarks- og lágmarkshiti hvers mánaðar í Reykjavík frá 1871.

Sólarstundir í Reykjavík frá 1911. 

Úrkoma í Reykjavík.

Snjóalög i Reykjavík.

Fyrstu og síðustu frost og snjóar í Reykjavík.

Mesti og minnsti hiti á  Akureyri frá 1882, sólskinsstundir og úrkoma. 

Efnisyfirlit un veður á þessari síðu má sjá hér. Og það er líka vísað á yfirlitið á forsíðu þessarar bloggsíðu. 

Villur geta verið á sveimi í þessum skrám.  


Hvað með íbúa í nágrenninu

Fyrir íbúa í grennd við Höfðatorg hefur verið sífellt ónæði með hléum frá Höfðatorgsreitnum frá 2006. Það hefur ekki bara verið frá sprengingum heldur ekki síður frá höggfleygum sem halda áfram klukkustundum saman. Og glamri frá stórgrýti og vélum og dyn frá þungum flutningabílum. 

Ekki hefur verið hægt að hafa opna glugga í húsum í nágrenninu meðan verið er að vinna. Erfitt er að hlusta á útvarp eða sjónvarp eða á tónlist, jafnvel í heyrnartólum því hljóðin þröngva sér alls staðar inn. Ekki er með góðu móti hægt að taka á móti gestum því það er varla hægt að tala  saman. Auk þess hefur svo mikið ryk safnast á glugga að stórverk verður að þrífa þá. En kannski að verktakinn gangi nú í það að leikslokum! Svona hefur þetta verið meira og minna árum saman með hléum. Þegar turninn alræmdi var í byggingu og engar rúður voru í honum en bara plast í heilan vetur ýlfraði og gólaði allan sólarhringinn í eyrun á fólki sem bjó í nágrenninu. Sagan mun kannski endurtaka sig með þá turna sem nú á að byggja. Þegar fleygurinn er í gangi er ekki eins og hávaðinn berist utan að heldur er eins og verið sé að berja veggina í húsunum að innan. Fyrir jólin barst bréf í húsin frá verktakanum þar sem gefin voru fyrirheit um að vinnu við fleyg lyki fyrir jólin. En hann er enn að með hléum og stundum aldrei verið verrri.

Reyndar eru þetta ekki einu framkvæmdirnar í nágrenninu og ekki alltaf auðvelt að greina á milli þeirra hvað ónæði varðar. Um tíma voru framkvæmdir á þremur stöðum í einu í fárra metra fjarlægð frá hver öðrum. Það vekur upp umhugsun um það hvað þeir eru að hugsa sem gefa leyfi fyrir svona framkvæmdum milli fjölmennra íbúðarhúsa á sama tíma á nánast sama bletti. Tilfinningaleysið fyrir íbúum sem hafa ekki að öðru að hverfa en heimilum sinum virðist vera algjört.

Þetta tilfinningaleysi fyrir íbúum kemur lika fram í þessri frétt. Hvergi er minnst á íbúða í íbúðarhúsum þó fjölmargar blokkir séu alveg við í Bríetartúni og í Ásholti auk smærri húsa í  Túnunum. Hins vegar er talað um þá sem vinna í nærliggjandi húsum.

Í fréttinni segir að fólk hafi tekið þesum framkvæmdum vel. Ég efast um að svo sé. Ég held að þetta leggist einmitt mjög þungt á íbúa en kannski mismikið eins og gengur. Þetta byggi ég á samtökum við íbúa. Alveg í eldlínunni er sambýli fyrir geðfatlaða á vegum Reykjavíkurborgar. (Lóðin þar hefur reyndar fyllst af byggingarvörum frá annarri húsbyggingu við Laugaveg, hinum megin við! Verktakar valta yfir allt). En fólk veit að það þýðir ekkert að kvarta. Það breytir engu. Framkvæmdirnar halda bara áfram eins og ekkert hafi ískorist. Það er sá veruleiki sem íbúar borgarinanr búa við hvort sem er við Höfðatorg, Hampiðjureitinn eða Lýsisreitinn. Þeir eru að öllu leyti varnarlausir og réttlausir gagnvart risaframkvæmdum svo að segja inni í görðunum hjá þeim.

Heyrst hefur að þegar byggt verður enn nær íbúðarblokkunum en hótelið þó er verði atgangurinn svo mikill að flytja þurfi burtu fólk í þeim húsum sem næst liggja. Þetta sagði starfsmaður á svæðinu í mín eyru í sumar. Ekki veit ég hvað hann hefur fyrir sér í þessu. En þetta er hrolvekjandi ef rétt reynist. Það verða þá nauðingarflutningar. Og hvar á þá fólkið að búa og hver á að sjá um flutningana? Og flutningar reyna mikið á fólk. Vonandi er þetta einfaldlega ekki rétt. En við þessar aðstæður ætti að upplýsa íbúa í grennd við framkvæmdirnar í tíma nákvæmlega um það sem þeir geti átt von á svo þeir lifi ekki í ugg og kvíða. En geðslegar verða hamfarirnar fyrir íbúana þó þeir  verði áfram ef framkvædirnar færast enn nær og svo að segja inn í stofu hjá fólki.    

Í fréttinni er boðað að Morgunblaðið muni fylgjast áfram með framkvæmdunum á Höfatorgi eins og það hefur gert um hríð. 

En hvernig væri að blaðið fylgdist líka með íbúunum í nágrenninu? Koma þegar atgangurin er mestur og beina athyglinni að þeim  sem neyddir eru til að búa við hann með hléum í heilan áratug.

Framkvæmdir hófust við langa húsið við Höfðatorg með tilheyrandi neðanjarðargöngum kringum árið 2006 en verklok á reitnum eru áætluð 2016.

Í sannleika sagt hafa framkvæmdirnar við Höfðatorg breytt þessu áður friðsæla svæði í langdregna martröð fyrir íbúana.  

Skiptir fólk á heimilum sínum engan neinu máli í þessari borg? Eru það bara verktakar og hótel sem máli skipta?

 


mbl.is Lítið má út af bregða á Höfðatorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ólympíuleikar kúgunnar

''Að sögn Amnesty International eru aðgerðir stjórnvalda svívirðilegar. Samtökunum berast fregnir af daglegum handtökum aðgerðasinna í Sotjsí og á svæðinu í grennd við ólympíuleikana. Fólk er handtekið fyrir það eitt að tjá hug sinn friðsamlega.''

Þetta eru ólympíuleikarnir sem íslenski íþróttamálaráðherrann kenndi við frið í umræðum á Alþingi! 

Kannski er þetta friðarhugjsón Illuga Gunnarssonar ráðherrra sem ekki þorði að láta bera mikið á treflinum sínum á leikunum. Með réttu hefur óttast svona meðferð.  

 


mbl.is Meðlimum Pussy Riot sleppt úr haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband