Mars

Varla er hægt að búast við að mars verði jafn hlýr og tveir síðustu mánuðir.

Það er samt aldrei að vita og fylgiskjalið fylgist með mánuðinum marsera sinn gang.

Landið má nú víðast hvar heita alautt af snjó eða því sem næst. Næstum því alls staðar á suður,vestur og austurlandi er jörð algerlga alauð á láglendi. Víða á norðurlandi er líka snjólaust, svo sem á Akureyri. Enn er talsverður snjór í Fljótum, á Ólafsfirði, í Svarfaðardal og sums staðar í innsveitum á norðausturlandi og í heiðabyggðum.

Snjóalög komu snemma vetrar fyrir norðan og voru mikil vikum saman fram eftir öllum vetri en hafa verið að minnka smám saman síðustu vikur. En næstu daga má aftur búast við snjó. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þriðji hlýjasti febrúar í Reykjavík

Febrúar sem var að líða er sá þriðji hlýjasti í Reykjavík frá því mælingar hófust, eftir 1932 og 1965. Meðalhitinn er 3,9 stig.

Ef janúar og febrúar eru hins vegar teknir saman slá þeir öll met í Stykkishólmi, eru hlýrri saman en sömu mánuðir 1964 sem næstir koma,  en athugað hefur verið þessa mánuði í Stykkishólmi frá 1846 en mánuðurnir eru í öðru sæti í Reykjavík núna, á eftir 1964.

Við suðurströndina og á suðausturlandi virðist þetta vera næst hlýjasti febrúar.

Og reyndar hugsanlega líka á landinu öllu á eftir 1932 en kannski var 1965 hlýrri. Þetta kemur ekki í ljós alveg strax.

Á Akureyri er hann sá fjórði, en auk 1932 og 1965 var 1956 hlýrri þar en 1921 var svipaður. 

Fylgiskjalið sýnir herlegheitinn í heild sinni.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bronsið blasir við

Meðalhtinn í febrúar er nú kominn í 3,8 stig í Reykjavík og hann hefur þar með nappað bronsinu af febrúar 1964 í keppninni um hlýjustu febrúarmánuði.

Það er ekki alls ekki útilokað að hann haldi þessari tölu til mánaðarloka og bronsið ætti í það minnsta að vera nokkuð öruggt.

Vel af sér vikið að þeim stutta! 

Á Akureyri er meðalhitinn nú 2,3 stig og er mánuðurinn þar kominn i fimmta sæti yfir hlýjustu febrúarmánuði. 

En hvað gerist á lokasprettinum? 

Fylgist með í beinni útsendingu á Allra veðra von! 

Hvergi nema þar!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mest sólskin í febrúar

Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.

Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990.

Sólríkasti febrúar í höfuðborginni er 1947 en þá skein sólin í 159 stundir og er þetta jafnframt sólríkasti febrúar sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Hann kom í kjölfar hlýjasta janúar á landinu á tuttugustu öld en bæði febrúar og mars voru síðan mjög kaldir en afar sólríkir. Settu þeir báðir sólskinsmet í Reykjavík. Loftþrýstingur á landinu var sá þriðji hæsti í febrúar. Þessi mánuður var einhver sá kaldasti og snjóþyngsti  sem um getur í Evrópu. Hér var hann reyndar líka í kaldara lagi, um tvö stig undir meðallaginu 1961-1990 þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og hér er miðað við og hann var mjög þurr, vel undir helmingi af meðalúrkomunni 1931-2000, sem hér er miðað við með úrkomu á þeim stöðvum er lengst hafa athugað hana. Kemst mánuðurinn vel inn á topp tíu listann yfir þurrustu febrúarmánuði. Í Stykkishólmi er þetta þriðji þurrasti febrúar, 6,1 mm. Í þessum sólskinspistlum er landsúrkoman ekki nákvæmlega útreiknuð en tilgreind svona nokkurn veginn og lauslega metið hver statusinn á henni var miðað við aðra mánuði og aðeins gert til menn hafi einhverja hugmynd um hvernig viðkomandi mánuður var hvað úrkomuna snertir. En sólskinið er hér aðal atriðið. Þann þriðja mældist mesta frost sem mælst hefur í Ameríku, -63 stig í Snag í Yukonhéraði í Kanada. Þann 17. kom fyrsti nýsköpunartogarinn til landsins, Ingólfur Arnarson.

Febrúar 1936 var svipaður að hita og 1947 en hann er sá annar sólríkasti í Reykjavík með 130 sólarstundir. Úrkoman var  um þrír fjórðu af meðallaginu. Báðir voru þessir mánuðir norðaustanáttalegir en hægviðrasamt og snjólétt var sunnan lands. Nasisminn stóð sem hæst í Þýskalandi en þ. 26. hófst þar framleiðsla Volkswagenbílanna. Þriðji er 2007 með 126 sólskinsstundir. Bæði úrkoma og hiti á landinu var í kringum meðallag. Mjög snjólétt var víðast hvar.

Árið 1966 var febrúar erfiður og þó einkum norðanlands þar sem var mjög snjóþungt. Afar þurrt var hins vegar víða sunnan lands og vestan. En í Reykjavík er hann sá fjórði sólarmesti með 118 sólarstundir.  Þar hefur heldur ekki mælst þurrari febrúar, aðeins 4,9 mm. Sömu sögu er að segja um ýmsar stöðvar á suður og vesturlandi, svo sem Stóra Botn í Hvalfirði, 0,1 mm, Reykhóla 0,1 mm, Sámsstaði í Fljótshlíð 11,0 mm en þar er þetta sólríkasti febrúar sem mælst hefur, 98,2 klukkustundir, Vestmannaeyjar, 26 mm, Kirkjubæjarklaustur, 3,9 mm, Kvígindisdal 3,9 mm, Lambavatn 4,3 mm,  Kvísker 45,7 mm og Vík 24,2 mm. Óvenjulega þurrt var einnig í Strandasýslu, aðeins 9,8 mm á Kjörvogi. Hitinn á landinu var svipaður og 1947 og 1936.

Úrkoman í febrúar 1955 var álíka og 1947 en hann var lítið eitt kaldari en er fimmti sólríkasti febrúar í Reykjavík með 110 sólskinsstundir. Hann var víða bjartur og á Akureyri er hann næst sólríkasti febrúar með 77 klukkustundir af sól og var þar sólríkasti febrúar þegar hann kom. Á svæðinu nyrst á Tröllaskaga hefur ekki mælst þurrari febrúar. Snjólétt var á suðvesturlandi.Það var í þessum mánuði sem fríkaði 15 stiga hitinn mældist í Vík í Mýrdal.  Í lok mánaðarins hófst jarðskjálftahrina í Axarfirði.

Árið 2002 var febrúar með 108 sólskinsstundir og er sá sjötti sólríkasti. Hitinn á landinu var næstum því þrjú stig undir meðallagi og er þetta kaldasti febrúarmánuðurinn meðal hinna tíu sólríkustu í Reykjavík. Þurrt var sunnalands en úrkomusamt fyrir norðan. 

Febrúar 1941 er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 104 stundir. Hitinn var rúm tvö stig undir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. Lítil úrkoma var sunnan lands og vestan en meiri norðanlands og austan og þar voru fannkomur miklar í seinni helmingi mánaðarins. Snjóflóð féllu og fórst einn maður í Mjóafirði þegar snjóhengja brast. Síðasta daginn gerði suðaustan ofviðri og fórst þá togarinn Gullfoss með 19 mönnum og vélbáturinn Hjörtur Pjetursson frá Hafnarfirði með sex mönnum. Nokkur erlend skip rak á land hér og hvar, þar af tvö í Reykjavík, og marga vélbáta en enginn fórst.

Í febrúar 1971 voru 101 sólskinsstund í Reykjavík og er hann þar með sá 8. sólarmesti en janúar á undan honum er sólríkasti janúar í Reykjavík. Febrúar þessi var mildur en umhleypingasamur og er hlýjasti febrúarmánuðurinn af þeim tíu sólríkustu í Reykjavík. Meðalhiti þeirra stöðva sem lengst hafa athugað var þó ekki meira en nákvæmlega 0 stig og er það rétt  yfir meðallagi. Úrkoman var hins vegar vel yfir meðallagi. Allmikill hafís var við landið og sást ísbjörn á ísnum við Skaga. Síðasta daginn gerði suðaustan fárviðri eins og 1941 og fengu þrír Eyjabátar á sig brotsjói en enginn mannskaði varð.

Níundi sólríkasti febrúar í Reykjavík er 1977 en þá skein sólin í hundrað klukkustundir. Tíðarfarið var talið með eindæmum gott fyrir hægviðri nema í innsveitum á norðausturlandi. Ekki mældist sólríkari febrúar á Reykhólum 105,5 stundir þau árin sem mælt var, 1958-1989,  né á Reykjum við Hveragerði 1973-2000, 100,8 stundir og ekki heldur á Hveravöllum 1966-2004, 105,3 klukkustundir. Sólríkt var því alls staðar og svo þurrt var að mánuðurinn er líklega á miðjum topp tíu listanum yfir þurrustu febrúarmánuði á landinu. Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma í Stykkishólmi, 1,0 mm, frá upphafi mælinga 1857. Á Barkarstöðum í Miðfirði og Forsæludal varð úrkomu vart en hún var þó  ekki mælanleg og hafa engar veðurstöðvar skráð eins litla úrkomu í nokkrum febrúarmánuði. Á virkjunni við Andakíl mældist úrkoma minni en í öðrum febrúarmánuðum, 2,2 mm og aðeins 0,2 mm í Síðumúla í Borgarfirði og 0,1 í Brekku i Norðuráral. Á suður og vesturlandi voru úrkomudagar nær alls staðar færri en fimm og allvíða aðeins einn til tveir.

Tíundi sólarmesti febrúar í Reykjavík er 1957 með 98 stundir. Sólinni var þá æði misskipt því mánuðurinn er sólarminnsti febrúar á Akureyri þar sem sólin skein í 10,5 stundir. Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var um helmingur af því. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða  mesta í febrúar, 90%.  Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar árið 1885, 4,6 stig. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.

Á Akureyri er febrúar 1986 sólríkastur með 88 klukkustundir af sólskini en meðaltalið 1961-1990 er 36 stundir. Mánuðurinn var einstaklega þurr á norðausturlandi. Úrkoman var innan við 1 mm á ellefu veðurstöðvum og voru þurrkamet fyrir febrúar sett svo að segja þar á öllum stöðvum þar um slóðir. Á Akureyri var hún 1,0 mm, á Grímsstöðum, 0,5 mm, 0,2 á Mýri í Bárðardal og Staðarhóli og 0,1 í Reykjahlíð við Mývatn. Mánuðurinn var hlýr, eitt stig yfir meðallagi. Snjóhula á landinu var aeins 35%.

Næst sólarmesti febrúar á Akureyri og sá þriðji voru 1955 og 1977 með 77 og 71,5 sólskinsstundir en þessara mánaða hefur áður verið getið hér að framan.

Fjórði sólarmesti febrúar á Akureyri er 1940. Fyrri hluti sá mánaðar var mildur og hagstæður en seinni hlutann brá til norðaustanáttar með talsverðri snjókomu norðan lands og austan og kuldatíð sem endaði með 25 stiga frosti á Grímsstöðum næst síðasta dag mánaðarins en þetta var á hlaupári. Hitinn var  um hálft stig yfir meðallagi í mánuðinum en úrkoman var um þrír fjórðu af meðaltali en snjóhulan var 46%. Á Akureyri varð það sjaldgæfa slys þ.22. að klakaskriða féll af húsþaki á höfuð vegfaranda sem beið bana af. Þremur dögum áður urðu tveir menn úti á suðurlandi. Það var í þessum mánuði sem vélbáturinn Kristján úr Keflavík var talinn af en náði landi í Höfnum eftir 11 sólarhringa hrakninga með bilaða vél.        

Hlýjasti febrúarmánuður allra tíma, undramánuðurinn 1932, er sá fimmti sólríkasti í höfuðstað norðurlands með 64,5 sólarstundir. Hitinn var 4,4 stig yfir meðallagi þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og úrkoman aðeins um helmingur af meðallaginu en snjóhulan 15%, sú minnsta í nokkrum febrúar. Loftþrýstingur mánaðarins er einn sá mesti sem komið hefur í febrúar.

Næstur kemur febrúar 1994 með 58,4 sólskinsstundir. Hann var samt enn sólríkari í Reykjavík með 72 stundir en nær þar ekki inn á topp tíu listann. Hitinn var um eitt stig fyrir meðallagi á landinu en tiltölulega hlýjast var á norðausturlandi þar sem var líka mjög þurrt en úrkoman var um 50% yfir meðallagi á landinu. Hún var mikil á öllu suðurlandi en þó einkanlega á suðausturlandi, mest 415 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Snjóhula var 64%.

Sjöundi mesti sólarmánuður í febrúar á Akureyri er 1938 með sléttar 50 stundir. Hitinn var lítið eitt meiri en 1994 en úrkoman var í tæpu meðallagi. Úrkoman í Fagradal í Vopnafirði mældist aðeins 0,4 mm og hefur aldrei mælst eins lítil febrúarúrkoma á veðurstöð í Vopnafirði. Snjóhula á landinu var 64%. Þessi mánuður er reyndar tíundi sólarminnsti febrúar í Reykjavík þar sem sólin skein í 22 stundir. 

Febrúar 1969 er sá 8. sólarmesti á Akureyri með 55 sólskinsstundir. Þetta var þó enginn gæðamánuður. Hann er á landinu kaldastur þeirra mánaða sem hér eru gerðir að umtalsefni, þrjú og hálft stig undir meðallagi. Þá skartar hann kaldasta febrúardegi á landinu frá 1949 og líklega miklu lengur og mörgum stöðvametum í febrúarkulda. Úrkoman náði ekki þremur fjórðu af meallaig en snnjóhula, var 69%. Þetta var á hámarki hafísáranna. Níundi sólarmesti febrúar á Akureyri er 2005 með 53,5 stundir. Hitinn á landinu í þeim snjólétta mánuði, 49% snjóhula, var þá svipaður og 1938 en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. 

Loks er febrúar 1964 sá tíundi sólarmesti á Akureyri með 53,4 sólskinsstundir. Úrkoman var þá svipuð og 2005 en hitinn var 2,7 stig yfir meðallagi og er þetta 5. hlýjasti febrúar á landinu. Veturinn í heild var sá næst hlýjasti á landinu sem mælst hefur, á eftir 1929.   

Sólríkasti febrúar á Melrakkasléttu er 1981, 71,3 klukkustundir.

Auk þessa má geta að í febrúar 1965, þeim næst hlýjasti sem mælst hefur á landinu, voru 63 sólskinsstundir á Hallormsstað og það mesta sem þar mældist 1953-1989  og reyndar var marsmetið þar þetta sama ár. Á Hólum í Hornafirði frá 1958 er febrúar 1965 einnig sá sólríkasti, 117, 1 klukkustund og sá þurrasti frá 1931, 4,1 mm. Þá er mánuðurinn sá næst þurrasti febrúar á Teigarhorni frá 1873, 10,4 mm, en þurrasti á Dalatanga frá 1939, 15,3 mm, og einnig á Fagurhólsmýri frá 1922, 19,8 mm.                


Minnst sólskin í febrúar

Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.

Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990. Sólarminnsti febrúar í Reykjavík er 1913 þegar sólarstundirnar voru aðeins 8. Að vísu voru mælingarnar þá á Vífilsstöðum en við teljum þær hér með Reykjavík. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi hitans 1961-1990 á þeim stöðvum sem er lengst hafa athugað og hitinn er hér miðaður við og úrkoman var vel yfir meðallagi sömu stöðva 1931-2000 sem úrkoman er við miðuð. Mánuðurinn var illviðrasamur mjög.

Febrúar 1921 er næstur með 12 sólskinsstundir. Hann var miklu hlýrri, reyndar 11. hlýjasti febrúar að mínu tali á landi, rúm tvö stig yfir meðallagi, og hann er líklega einn af þeim tíu úrkomumestu. Í Reykjavík er hann reyndar sá allra úrkomusamasti með 242,3 mm.

Í febrúar 1934 mældust 15,2 sólarstundir og er hann í þriðja sæti yfir þá sólarminnstu í Reykjavík. Ekki hefur mælst meiri febrúarúrkoma á Blönduóssvæðinu, 102,4 mm eða í Hreppunum, 329,8 mm. Árið 1992 voru sólarstundirnar 15,4 og er það fjórði sólarminnsti febrúar í borginni. Mánuður þessir voru næstum því jafnir að hita, rúmlega eitt stig yfir meðallagi en úrkoman í þeim fyrrnefnda var aðeins um helmingur af meðallaginu en sá síðarnefndi var í rétt rösku meðallagi.

Fimmti sólarminnsti febrúar í Reykjavík var 1975 þegar sólarstundirnar mældust 15,8. Þetta var hlýr mánuður, svipaður og 1921, en úrkoman var um 30% fram yfir meðallagið.

Undramánuðurinn febrúar 1932, sá allra hlýjasti á landinu, var með 16,4 stunda sólskin í Reykjavík sem gerir hann að sjötta sólarminnsta febrúar þar. Á Akureyri er hann hins vegar sá fimmti sólríkasti með 54,5 sólskinsstundir.

Tveir febrúarmánuðir í röð skipa sjöunda og áttunda sætið fyrir sólarleysi í Reykjavík. Febrúar 1983 er sá 8. með 19 sólarstundir en 1984 sá 7. með 18 stundir. Báðir voru hlýir, 1983 um eitt stig yfir meðallagi en 1984 um hálft sig. Sá mánuður var einstaklega votviðrasamur, einn af þeim tíu úrkomumestu, um 77% fram yfir meðallagið en 1983 var úrkoman vel innan við meðallag. Árið 1983 var óvenjulega snjóþungt vestanlands. Mesta sólarhringsúrkoma á Akureyri í febrúar mældist þ. 7., 36,9 mm. Þessi febrúar var sá sólarminnsti á Reykhólum, 6,7 stundir árin sem mælt var,  1958-1989. Aftur á móti er febrúar 1984 sá sólarminnsti á Sámsstöðum, 18,9 klukkustundir.  

Árið 1922 voru sólarstundir í febrúar í Reykjavík 22,4 sem gerir hann að þeim níunda sólarminnsta. Hitinn var næstum því heilt stig yfir meðallagi en úrkoman um helmingi meiri en í meðallagi. Loks er árið 1938 svo með tíunda sólarminnsta febrúar í Reykjavík, 22 stundir. Hitinn á landinu var um 1,3 stig yfir meðallagi en úrkoman í tæpu meðallagi.

Á Akureyri er sólarminnsti febrúar aftur á móti árið 1957 þegar sólarstundirnar voru aðeins 10,5 en voru 36 að meðaltali ári  1961-1990. Í Reykjavík er þetta tíundi sólarmesti febrúar með 98 stundir.  Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var  um helmingur af meðallaginu. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar í Reykjavík  en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða  mesta í febrúar, 90%.  Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.

Næst sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1943 en þá skein sólin í 12 stundir. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í febrúar í Grímsey, 187,4  mm. Vélskipið Þormóður fórst þ. 18. nærri Garðskaga og fórust með honum 31 maður. Hitinn var tvö stig undir meðallagi á landinu og úrkoman aðeins meiri en í meðallagi. 

Febrúar 1946 er sá þriðji sólarminnsti á Akureyri með 14 sólarstundir. Hitinn var rétt  aðeins undir meðallagi en úrkoman aðeins röskur helmingur af meðallagi. Illviðrasamt var og þ. 9 fórust 18 manns á sjó og tveir í landi af völdum veðurs. Sama dag féll maður ofan í gjá í Aðaldalshrauni og var ekki bjargað fyrr en eftir fimma daga. 

Næstur er febrúar 1963 þegar sólskinsstundir voru 15 á Akureyri. Úrkoman var þá aðeins meiri en 1946 en hitinn var rúmlega hálft stig yfir meðallagi. Veðurlag var talið mjög hagstætt. Fimmti sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1984 en þá voru sólarstundirnar þar 16. Í Reykjavík voru þær 18 og þar er þetta sjöundi sólarminnsti febrúar eins og að framan getur. Sjötti að sólarleysi á Akureyri er febrúar 2008 með 16,3 stundir. Hann var mjög úrkomusamur og líklega einn af tíu úrkomusömustu febrúarmánuðum á landinu. Hitinn mátti heita í meðallagi.

Úrkomumesti febrúar á landinu, 1959, er sjöundi sólarminnsti febrúar á Akureyri með 16 sólskinsstundir. Þetta er níundi hlýjasti febrúar á landinu að mínu tali og var hitinn um 2,3 stig yfir meðallagi. Í Stykkishólmi var úrkoma 219,5 mm, sú næst mesta í febrúar. Á Teigarhorni er þetta þriðji úrkomusamasti febrúar. Ég tel þetta næst úrkomusamasta febrúar yfir landið en úrkomusamastur er þá árið 2003. Bæði úrkomumagn og úrkomutíðni var mikil. Sums staðar á  suður og suðvesturlandi var úrkoma alla daga. Minnisstæðastur er þessi mánuður fyrir þá miklu mannskaða á sjó er þá urðu. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 30 mönnum, á Nýfundnalandsmiðum þ. 8. eða 9. í stórviðri og mikilli ísingu en nokkrir aðrir togarar náðu til hafnar við illan leik. Aðfaranótt þ. 18.,  daginn eftir að Júlí var opinberlega talinn af, fórst vitaskipið Hermóður með allri áhöfn, 12 manns, undan Höfnum á Suðurnesjum í stormi og stórsjó og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum í því veðri. Í þessum mánuði fórst einnig danska skipið Hans Hedtoft í jómfrúarför sinni  og var það þó talið ósökkvandi eins og Titanic. Enginn komst af.

Febrúar 1992 er sá áttundi  sólarminnsti á  Akureyri með 18 stundir af sólskini. Hann er einn af úrkomusömustu febrúarmánuðum  og fer sennilega inn á topp tíu listann að því leyti og hitinn var um hálft stig undir meðallagi.

Næstur er febrúar 1967 með 19,0 sólarstundir. Hitinn var um hálft annað stig fyrir meðallagi en úrkoman var tæplega í meðaðallagi. Tíundi sólarminnsti febrúar á Akureyri er svo 1937 með 19,1 sólskinsstund. Hann var meira en heilt stig undir meðallagi í hitanum en úrkoman var í tæpu meðallagi.     

Sólarminnsti febrúar á Hólum í Hornafirði er 1982 en þá skein  sólin 19,9 klukkustundir.    

Á Hveravöllum mældist minnst sólskin í febrúar 1993, 5,1 klukkustund og er það minnsta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í febrúarmánuði.      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband