Enginn alvöru bati

Hret getur komið í öllum sumarmánuðum og alhvíta jörð getur þá gert í heiðabyggðum norðanlands.  En snjódýptin er ekki mikil, svona 10 cm mest í júlí og ágúst  og frameftir september en yfirleitt miklu minni. Það er ekki fyrr en í seinni hluta september sem búast hefur mátt við meiri snjódýpt en þetta, allt upp í hálfan metra seint í mánuðinum og auðvitað bara einstaka sinnum. Það sem nú er að gerast á sér því ekki hliðstæðu síðustu áratugi svona snemma hausts eða réttara sagt svona síðla sumars hvað snjóinn varðar. Snjódýptin hefur sums staðar fyrir norðan verið 25-50 cm.

Í fyrradag hlánaði ekki allan sólarhringinn á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er nauðasjaldgæft á þessum árstíma en hefur þó gerst áður einu sinni eða tvisvar á síðustu áratugum. En það er ekki kuldinn sem nú er aðalatriðið heldur snjóþyngslin og auðvitað hvassviðrið sem kom með þau.

Lítið mun leysa á næstunni til fjalla fyrir norðan og um helgina má jafnvel búast við meiri snjókomu  en þegar enn lengra líður er gert ráð fyrir að létta muni til. En þá verður kuldatíð.  

Er þetta þá ekki til vitnis um vaxandi öfgar í veðurfari? 

Nei, skrattakornið!  Þetta er fremur vitni um það að svo sem flest getur gerst í veðrinu á hverri árstíð.

Einstaka sinum gerast stórlega afbrigðilegir atburðir. Og svo ekki kannski næstu 50 árin.

Og hana nú!   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikill snjór

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að mikill snjór er í heiðabyggðum á norðurlandi og víðar. Snjódýpt í morgun á Auðnum í Öxnadal var mæld 50 cm. Mesta snjódýpt sem ég veit um  í byggð í öllum september er 55 cm á Sandhaugum í Bárðardal þann 24. árið 1975. 

En nú er bara 11. september! Og  þori ég að veðja að þetta sé mesta snjódýpt sem mælst hefur á landinu, nema kannski á fjöllum, á þessum árstíma. Á Grímsstöðum var snjódýptin 30 cm og 20 cm í Reykjahlíð við Mývatn. Þarna er reynt að mæla jafnfallin snjó. 

Úrkoman á Akureyri var mæld 34,4 mm í morgun en 42,8 í gær. Á tveimur sólarhringum hafa þar því fallið 77 mm og er það ekki hversdagslegt.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leiðinda septemberbyrjun og tölvubilanir

Þessi september byrjar ansi leiðinlega. Fyrst miklar úrkomu en ekki kalt en svo þegar birtir hér í Reykjavík er hitinn um hádaginn undir tíu stigum. Og þetta eru fyrstu dagar mánaðarins.

Það er einmitt þetta sem ég óttaðist. Að sólardagar með sæmilegum hita væru fyrir bý.

Oft er ágætis sumarblær frameftir september en því er nú ekki að heilsa. Í Reykajvík er meðalhiti fyrstu tíu dagana í júni og fyrstu tíu dagana í september til langs tíma alveg sá sami. Það, ásamt mörgu öðru, rettlætir að september sé talinn til sumarmánaða en ekki hausmánaða. En auðvitað kólnar jafnt og þétt allan manuðinn.

Tölva á Veðurstofunni bilaði og hafði það áhrif á aðgengi upplýsinga á vefsíðu hennar og hefur kannski enn.  Mæligögn sjálvirkra stövða eru nú lengi að opnast en það gerðist áður á augabragði.

Eitt hefur ekki komið aftur. Það eru upplýsingar af gamla vefnum um mannaðar stöðvar á þriggja tíma fresti, raðað eftir spásæðum. Þar var t.d. hægt að sjá hámarks-og lágmarksmælingar stöðvanna sem hvergi annars staðar er að finna. Auk þess voru þarna upplýsngar frá mörgum sjálfvirkum stöðvum, en ekki öllum, á klukkutíma fresti. Það var mjög handhægt að fletta þessu upp til að sjá svona margar stövar saman, mannaðar sem sjálfvirkar, og geta flett eftir veðurhéruðum. Þetta var  ekki sýnt annars staðar í töfluformi. Þetta var já á gamla vefnum. Og hefur horfið áður án þess að um bilun hafi verið að ræða.

Ég óttast nú mjög að þetta hverfi varanlega án þess að nokkuð komi í staðinn.

Það er kannski lítið vit í því að vera með tvær vefsiður en ekki má þurrka burtu efni á gamla vefnum sem EKKI er aðgengilegt á þeim nýja. Enn er nokkuð af efni á gamla vefnum sem ekki er á þeim nýja. 

Ég hef sagt það áður og segi það enn að þessar upplsýngar frá mönnuðum stöðvunum eigi að koma endurbættar á nýja vefinn. 

Auk þess væri frábært ef hægt væri að skoða sólarhrings hámark-og lágmarkhita allra sjálvirku stöðvanna  (frá kl.0-24) á einu skjali svo menn þurfi ekki að leita að þessu á hverri stöð fyri sig sem tekur svona  nokkurn veginn allan daginn.

Og það skjal mætti alveg vera uppi í að minnsta kosti nokkra daga en helst allt til enda veraldar! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sá hann í gær

Ég þykist hafa séð skaflinn í gær í Gunnlaugssskarði í kíki útum eldhgúsgluggann minn.  En má vera að ég hafi  séð ofsjónir. Alveg örugglega er hann þó enn  í Kerhólakambi eins og segir reyndar í fréttinni.

Esjan er því ekki orðinn snjólaus þrátt fyrir hlýindin. Hún var það heldur ekki í fyrra þrátt fyrir hlýindi. 

Fylgiskjalið er í vissum vandræðum sem vonandi greiðist þó úr áður en snjóa leysir!

Viðbót 7.9. Nú er aftur bjart yfir og áðan sá ég í forláta kíki, sem er merktur hakakrossi og þýska erninum og pabbi fékk frá kafbátaforingja í Noregi þegar hann varð innlyksa þar í stríðinu, að enginn skafl er nú í Gunnlaugsskarði.  

Það er því staðfest að ég sá ofsjónir þegar ég þóttist sjá skafl í skarðinu. Það er reyndar ljós blettur í berginu sem áður hefur villt um fyrir mér þegar skaflarnir eru orðnir mjög litlir.

 

 


mbl.is Skaflinn í Esjunni horfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sómasamlegur ágúst

Þrátt fyrir mikið hitafall síðustu dagana í ágúst er hann eigi að síður meðal þeirra hlýjustu sem mælst hafa á landinu.

Ágústmánuðirnir 2003 og 2004 eru þó vel hlýrri enda eru þeir hlýjustu ágústmánuðir sem mælst hafa. Ágúst árin 1880 og 1939 eru einnig nokkuð hlýrri.

Hitinn núna er hins vegar mjög svipaður á landinu og 1947 og líklega hlýrri en 2001 og 1931 miðað við þær stöðvar sem lengst hafa athugað, sem sagt einn af fimm til sex  hlýjustu ágústmánuðum, þó hitadreifingin um landið sé ólík 1947. Hitinn  var um það bil 1,7 stig yfir meðallagi.

Það er ekki hægt að kvarta yfir þessu. 

Eftir allt saman er úrkoman í höfuðborginni meiri en í meðallagi en það gildir reyndar á fæstum stöðvum nema þar og á Reykjanesskaga. Annars var viðast hvar þurrt á landinu venju fremur.

Menn láta mikið með veðurblíðu sumarsins og þykjast sumir jafnvel ekki muna annað eins.

Það er fyrst fremst sólin fyrri hluta sumarsins sem situr í fólki held ég og svo auðvitað það að það hefur verið vel hlýtt. Hins vegar var sólin í Reykjavík í ágúst ekkert sérstök. Og nokkur sumur síðasta áratug hafa ekki verið síðri en þetta að hita og sumarblíðu yfirleitt.

Og svo er sumarið ekki búið. September er talinn til sumarmánaða og getur stundum verið góður sumarauki og oft verið það seinni árin. En stundum fer hann alveg í hundana. 

Maður vonast til að upplifa enn nokkra hlýja sólardaga en ekki bara kalda sólardaga eða linnulausar  rigningar.

Menn geta nú skoðað allan ágúst í fylgiskjalinu, fylgnasta skjali landsins!

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband