Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Hlýr janúar enn sem komið er

Þegar einn þriðji er eftir af janúar er meðalhitinn í Reykjavík 3,1 stig eða 3,7 stig yfir meðallagi. Það er með því hlýrra en ekki er þó lengra síðan 2002 að meðalhiti fyrstu 20 dagana var 4,1 stig en sá mánuður kólnaði strax eftir þ. 20 og endaði í 1,3 stigum. Árið 1996 var meðalhitinn 3,3 stig en lokatalan var 2,2 stig. Árin 1972 og 1973 voru tölurnar 4,6 og 4,2 eftir fyrstu 20 dagana en lokatölur beggja mánaðanna 3,0 stig. Hlýjasti janúar sem mælst hefur í Reykjavík 1847 sem varð á endanum 3,9 stig hefur líklega verið svipaður eftir fyrstu 20 dagana og þessir tveir síðast töldu mánuðir. Janúar 1964 sem næstur er honum í hlýindum, stóð í 4,5 stigum eftir 20 daga en endaði svo í 3,5 stigum. Janúar 1947, sem mældist allur 3,2 stig, náði ekki þremur stigum eftir fyrstu 20 dagana en svo hlýnaði enn á lokasprettinum. Svipaða sögu er að segja um janúar 1987 með sína lokatölu upp á 3,1 stig. Árið 1946 virðist hafa verið ívið hlýrra en nú fyrstu 20 dagana en svo kólnaði en talsvert hlýrra var í janúar 1929 en þá kólnaði undir lokin og meðalhiti mánaðarins varð 2,4 stig. Þar á undan, alveg til að minnstakosti 1880, er nokkuð víst að enginn janúar nálgast okkar mánuð fyrstu 20 dagana. 

Ef mánuðurinn endað i 3,1 stigi yrði hann í fjórða sæti yfir hlýjustu janúarmánuði í Reykjavík. Það er ekki líklegt að hann haldi sinni tölu.  

Meðalhitinn á Akureyri er nú 1,5 stig eða 3,7 yfir meðallagi. Þar er enn alhvítt eins og verið hefur allan mánuðinn og alveg síðan síðasta daginn í október.Úrkoman er þegar komin vel yfir meðallag alls mánaðarins á suðurlandi, farinn að nálgast það á vesturlandi en er fremur lítil annars staðar og mjög lítil enn sem komið er við Ísafjarðardjúp og í Vopnafirði.

Nóvember var í kringum meðallag að hita á landinu en desember aðeins í mildara lagi. Það er ekki fyrr en núna í janúar sem hafa verið einhver hlýindi að marki og þá mest sunnanlands, Og þar hefur verið snjólétt hingað til en fyrir norðan hlýtur það sem af er að teljast hafa verið hinn mesti snjóavetur þó mjög haf gengið á snjóinn upp á síðkastið og sé orðið snjólítið vestan til á norðurlandi og jafnvel snjólaust við sjóinn á norðausturlandi.

Ekki er hægt að segja að þetta hafi hingað til verið neinn sjaldgæfur öndvegisvetur miðað við ýmsa aðra þó um það heyrist furðu margar raddir í netheimum.  Hann hefur samt verið góður sunnanlands og eftir áramótin um allt land.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Viðbjóður

Það er hreinn viðbjóður að nota veðrið, sem er göfug og stolt höfuðskepna, sem markaðsvöru. Auk þess er veðrið á Íslandi yfirleitt skaplegt á veturna. En auglýsingaáróðurinn, markaðssetningin, gengur líklega út á það að hér sé alltaf vitlaust veður. En úti í löndum getur líka komið vont veður. Jafnvel í suðrænum löndum.

Veður á Íslandi eru ekki sérlega válynd miðað við fellibylji, þrumuveður, þurrka og flóð víða annars staðar, jafnvel hríðarbylji og frosthörkur í löndum sem miklu sunnar eru. Hvað vetraríþróttir varðar er Ísland mjög óryggt land. Veðrið er hreinlega of milt og gott fyrir þær!

Frá ferðaþjónustunni kemur aldrei annað en rugl um veðrið og náttúruna.

 


mbl.is Vonda veðrið og myrkrið laðar að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitastaðan í janúar

Meðalhitinn í janúar sem af er mælist 3,5 stig í Reykjavík eða 4,2 stig yfir meðallaginu 1961-1990.

Ef þetta yrði lokatala mánaðarins yrði þetta næst hlýjasti janúar sem mælst hefur. En það er svo sem ekkert að marka. Mikið er eftir af mánuðinum og þetta forskot er hreinlega ekki sérlega mikið miðað við það sem mest getur orðið. Hlýjustu fyrstu tíu dagar í Reykjavík frá 1941 voru 5,7, stig 1972, 5,5, stig 1973, 4,9 stig 1964, 4,7 stig 2002 og 4,5 stig 2003 og 1960. Árið 1940 hefur meðalhitinn líklega verið um 4,7 stig. Næstum því má fullyrða að engir janúarmánuðir fyrir 1940 skáki þessum mánuðum nema 1847 en hann er hlýjasti allur janúar sem mælst hefur í Reykjavík, 3,9 stig, en næstur kemur 1947,  3,2 stig og síðan 1972, 1973 og 1987, allir með 3,1 stig. Árið 1847 hefur meðalhiti fyrstu tíu dagana kannski verið um fjögur og hálft stig en ekki er það nákvæm tala.   

Meðalhitinn á Akureyri er nú 2,2 stig eða 4,7 stig yfir meðallagi. Þar er hlýjasti janúar 1947 þegar meðalhitinn var 3,2 stig. 

Hið alræmda fylgiskjal fylgist með!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fylgiskjalið

Nú er lag að birta aftur skýringar á fylgiskjalinu við veðurbloggfærslurnar.  

Það er hægt að sjá  hitann í Reykjavík (blaði 1) og á Akureyri (blaði 2) á þriggja tíma fresti allan mánuðinn, ásamt hámarks -og lágmarkshita þar sem reynt er  að skipta milli daga á miðnætti en ekki kl. 18 sem þó  oftast er  venjan.  Engar hámarks- eða lágmarksmælingar eru gerðar á kvikasilfursmæli frá kl 18 til kl. 9 næsta dag. Oft er þó hægt að sjá af klukkuhitanum um kvöldið og hámarksmælingunni kl. 9 (og sjálfvirku mælingunum) hvorum sólarhringnum hámarsks-og lágmarkstölurnar eiga við sem þar koma fram. Stundum ekki. Og ekki alltaf gott að segja hver hámarks-eða lágmarkshitinn hefur endilega verið frá kl. 18-24 eða frá kl. 00-09 þó þetta komi fram að morgni fyrir allan tímann frá kl. 18-09. En hér er þá bara settur inn sá hiti sem mælist á athugunartímum frá  21 og til morguns ef hann skákar  öðrum tölum og óvissa er um þetta. En það gerist ekki oft. En mér finnst alltaf dálitið ankanalegt að sjá t.d. lágmarksmælingu sólarhringsins skráða hærri en t.d. klukkuhitinn kl. 21 eða kl. 24 eða þá hámarkshitann lægri en hita sem kemur fram kl. 21 eða kl. 24. Klukkuhita kl. 24 læt ég gilda bæði fyrir þann dag og næsta dag ef svo verkast vill. Einstaka sinnum verður gripið til mælinga sjálfvirku mælanna (búveðurstöðvarinnar fyrir Reykjavík en Krossanesbrautar fyrir Akureyri) og verður það skáletrað. Þarna getur hugsanlega skapast smávegis óvissa og ósamræmi  stöku sinnum. En mjög sjaldan þó. Hefðbundnar uppfærslur á svona töflum geta menn séð á vef Veðurstofunnar og í prentuðum ritum frá henni og má alls ekki rugla mínum töflum saman við þær.

Dagsmeðaltöl hvers dags fyrir lengri tíma er þarna líka fyrir Reykjavík og Akureyri en kannski eru forsendurnar fyrir þeim ekki alveg eins á báðum stöðum. En þetta er nú bara sett til að lesandinn hafi einhver viðmið. Einnig sést mesti og minnsti meðalhiti sem mælst hefur nokkru sinni hvern dag og hámarks og lágmarkshiti fyrir bæði Reykjavík og Akureyri.

Úrkoma og sjódýpt sést með grænum lit fyrir Reykjavík og Akureyri og einnig mesta úrkoma sem mælst hefur á landinu og mesta snjódýpt. 

Þá er þarna sólskin hvers dags og mesta sól sem mælst hefur viðkomandi dag. Og hámarks-og lágmarkshiti hvers dags á landinu öllu á láglendi eða í byggð eða á Hveravöllum ef verkast vill. Hveravellir eru hafðir með af því að það  er eina hálendisstöðin sem hefur verið starfækt lengi og því gaman að bera t.d. lágmarkshitann þar saman við fyrri ár. Ef stöðvar eru bæði sjálfvirkar og mannaðar er alltaf farið eftir þeim mönnuðu. Þá er og sýndur mesti og mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst viðkomandi dag á öllu landinu. Þar að baki eru mælingar allra daga frá 1949 frá skeytastöðvum og frá 1961 á svonefndum veðurfarsstöðvum og frá sjálfvirkum stöðvum frá 1996. Einnig er dálkur um lægsta hámarkshita sem mælst hefur á landinu viðkomandi dag og ártal með en ekki stöðvarnafn. Samfelldar skrár eru ekki til fyrir 1949 en stökum hámarks-og lágmarksmælingum hefur verið bætt við úr Veðráttunni frá þeim tíma ef þær eru hærri eða lægri viðkomandi dag en kemur fram frá 1949. Það er bagalegt að ekki séu til samfelldar skrár frá eldri tímum, en þó mest fyrir fyrir kuldann því t.d. í janúar einum 1918 hafa líklega mörg dagskuldamet verið sett sem þó eru ekki aðgengileg. Í öllum þessum skrám á bloggsíðunni geta verið villur sem verða lagfærðar þegar þær finnast. 

Þá kemur fram hitinn á miðnætti og á hádegi yfir Keflavík í 850 hPa og 500 hPa hæðum (um 1400 m og um 5,5, km). Og einnig svokölluð þykkt milli  1000 hPa  og 500 hPa flatarins  í metrum yfir Keflavík og Egilsstöðum. Því  meiri sem hún er því betri skilyrði eru fyrir hlýindum en nokkuð misjafnt getur verið hvað það nýtist niður við jörð. Stundum vantar háloftamælingar frá Keflavík og Egilstöðum og er þá farið eftir almennum háloftakortum á netinu og er það skáletrað. Hæð frostmaarks yfir Keflavík kemur einnig fram.

Loks er samanlagur meðalhiti 10 stöðva,  Reykjavíkur, Stykkishólms, Bolungarvíkur, Blönduóss, Akureyrar, Raufarhafnar, Egilsstaða, Hafnar í Hornafirði, Kirkjubæjarklausturs og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. 

Allt á þetta að vera auðskilið og tala sínu máli í fylgiskjalinu. Kannski verður að skrolla niður á réttan stað þegar skjalið er opnað  og svo er líka hægt að skrolla upp og til hægri. Endilega skrollið upp og niður og allt um kring! 

Í færsluflokkum hér til vinstri á síðunni er flokkur sem heitir Mánaðarvöktun veðurs. Þegar þangað er farið verður auðvelt að finna nýjustu bloggfærslu um það og síðan hverja af annari.  

Varla þarf svo að taka fram að þetta er einkaframtak veðuráhugamönnum til skemmtunar. Og þó tölurnar séu frá Veðurstofunni komnar er framsetning þeirra með hugsanlegum villum og öllu saman á mína ábyrgð og eftir mínum kenjum eins og kemur fram hér að framan.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Janúarhitamet í Reykjavík

Árið er varla byrjað þegar hitametin taka að falla. Í dag mældist hámarkshitinn í Reykjavík 10,7 stig sem er það mesta sem þar hefur mælst í janúar. Gamla metið var 10,6 stig frá þeim fimmta árið 2002. Hitinn var 9,5 stig á athugunartíma kl. 15 og 9,6 stig kl. 18.  Þetta eru mælingar á gamla góða kvikasilfursmælinum. Sjálfvirka stöðin fór í 10,1 stig en búveðurstöðin í 9,9 og Reykjavíkurflugvöllur í 10,4 stig. Kannski á hitinn enn eftir að stíga.

Hvergi annars staðar veit ég til að sett hafi verið hitamet á stöð sem lengi hefur athugað. Mestur hiti sem mældist á landinu var annars 13,4 stig á vegagerðarstöðinni Stafá, skammt vestan við Haganesvík, og á Hvanneyri 12,2. Á Torfum í Eyjafirði mældist hitinn 12,0 stig á kvikasilfrinu en 12,5 á sjálfvirku stöðinni.  

Á Brúarjökli í 845 metra hæð hefur hitinn farið í 8,7 stig í dag. Mjög hlýtt loft er yfir landinu. Þykktin er vel á við hásumardag. Skilyrði í háloftunum voru fyrir um 18-19 stiga hita í Reykjavík en á norðausturlandi um 24 stiga hita. En það er önnur saga hvort þeir möguleikar nýtist við jörð í raun og veru um hávetur og ekki er nú sólinni fyrir að fara.

En við megum vel við hitametið í höfuðstaðnum una.

Samt eru margir að býsnast yfir veðrinu þar á fasbók! Það er nú bara eitthvað að því fólki.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurfarið árið 2013 að sögn völvunnar

Árið 2013 heilsar okkur með heldur aðgerðalitlu veðri, og verður þannig sennilega allan janúarmánuð, en þá breytir um og margar krappar lægðir eiga eftir að lenda hjá okkur í febrúar og mars.

Það verður sem sagt umhleypingasamt í febrúar og mars en fremur hlýtt hér sunnanlands. Í öðrum landshlutum verður mikill snjór enda norðlægar áttir ríkjandi meirihluta vetrar.

Snjóflóð

Ég er hrædd um að snjóflóð verði sem tekur mannslíf, mér sýnist það vera á Vestfjörðum norðanverðum. Þar sem veður verða rysjótt verður einnig erfitt fyrir sjómennina að stunda sína vinnu...

Hlýtt sumar

Tíðarfar sumarsins verður misjafnt en sumarið í heild sinni verður hlýtt, en kemur seint á Norðurlandi og Vestfjörðum. Vestan- og sunnanlands verður rakt og hlýtt vor, en sólin skín má segja í allt sumar og fá Sunnlendingar sannkallað sumar, hlýtt en mætti vera meiri væta á köflum. Fyrir norðan og vestan verða júlí og ágúst sólríkir og nokkuð hlýir en júní kaldur og þurr. Á Austurlandi verður einnig gott um miðbik sumarsins, en ansi mikil úrkoma og þungbúið veður yfir stóran hluta sumars.

Árið endar með miklum veðurhvelli, það verður bæði hvasst og mikil ofankoma. Mér sýnist mannvirki vera þar í hættu og eitthvað verður um rafmagnsleysi yfir áramótin. -

Ég skal segja ykkur það! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland í aldanna rás 2001-2011 án veðurs

Áratugurinn 2001-2010 er sá hlýjasti á landinu sem mælst hefur í mælingasögunni. Sömu sögu er að segja um flestar einstakar veðurstöðvar. Þetta eru auðvitað mikil tíðindi í landi sem er jafn viðkvæmt veðurfarslega og Ísland. Auk þessa gerðust á áratugnum fjöldi merkilegra veðurartburða, sem aldrei fyrr, og nefni ég aðeins hitabylgjurnar miklu árin 2008 og 2004. Í þeirri síðartöldu var um 20 stiga hiti í Reykjavík um hánótt. Þá mældist eini sólarhringurinn sem mælst hefur nokkru sinni að meðaltali yfir tuttugu stig í borginni. Ég hygg að mörgum séu þessir dagar býsna minnisstæðir enda gjörbreyttist mannlífið i borginni.

Ekki sér þessa þó stað í bókinni Ísland í aldanna rás 2001-2010. Þar er örlítill tíðarfarsannáll í upphafi hvers árs en skemmri og efnisrýrari en í fyrri bókum. En sérstakra veðuratburða er ekki getið nema hvað sagt er frá einu snjóflóði sem gerði engan skaða og hafískomu eitt vorið sem var þó ekki neitt neitt. Og óskaplega gefur þetta veðurfarslega villandi mynd af áratugnum!

Þetta er mikil afturför frá fyrri bókum í þessari ritröð og reyndar líka frá gömlu Öldinni okkar. Í þeim bókum er hæfilega mikið vikið að veðurfari, af ritum um almenn tíðindi að ræða, enda skiptir veðrið miklu máli fyrir líf þjóðarinnar og þarf ekki neina sérstaka veðuráhugamenn til að segja sér það.

Hvernig veður og veðurfar er sniðgengið í þessari bók á einum allra merkilegasta veðuráratug í sögu þjóðarinnar er eiginlega óskiljanlegt, Fyrir utan allra merkustu einstaka atburði hefði hæglega verið hægt á aðeins um fjórðungi af blaðsíðu, hvað þá hálfri, að gefa gagnlegt yfirlit um það hve áratugurinn er sérstakur ef menn bara hefðu  hugsað út í það og viljað það.   

En víkjum að liðandi stund. Þessi desember er nú þegar orðinn sá sjötti sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík síðan byrjað var að mæla fyrir rétt rúmri öld.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta tuttugu stiga frost vetrarins í byggð

Að kvöldi hins 12. fór frostið á Möðrudal í -21,7 stig og þegar komið var fram á hinn 13. fór það í -21,8 stig. Í Svartárkoti hefur frostið farið í -20,7 stig og -20,6 á Brú á Jökuldal.

Þetta er í fyrsta sinn í vetur sem frostið í byggð nær 20 stigum en 23. nóvember fór frostið á Hágöngum í -20,3 stig. Ekkert sérstaklega kalt loft er þó yfir landinu. Á Möðrudal var hins blankalogn þegar kuldarnir voru mestir og útgeislun mikil. Nú er þar farið að blása og frostið hefur snarminkað, komið vel undir tíu stig. 

Mesta frost sem mælst hefur á landinu 13. desember er -25,1 stig og var það einmitt á Möðrudal árið 1988. 

Meðalhitinn, það sem af er desember, er nú meira en hálft annað stig yfir meðalagi í Reykjavík en hátt upp í eitt stig undir því á Akureyri.

Ekkert bólar á jólasnjónum og hann kemur ekki næstu daga í höfuðstaðnum. En látið ekki hugfallast þið jólafólk! Ég hef nefnilega lúmskan grun um að á Þorláksmessu geri þriggja sólarhringa stórhríð í aftakaveðri um land allt með tilheyrandi ófærð og rafmagnsbilunum. Verður þá ekki hundi út sigandi.

Ættu þá allir að taka jólagleði sína!  

Viðbót: Í gær, þ. 14. mældist meira sólskin í Reykjavík (3,4 klst) í vægu frosti en nokkru sinni hefur áður mælst þennan dag í ein 90 ár en mælingarnar hafa ekki alltaf verið á sama stað. Það er ekki ástæða til að kvarta yfir þessu skammdegi í höfuðborginni: björtu, ekki köldu og algerlega snjólausu. 

Viðbót: Sólin er í miklu stuði í höfuðborginni. Ný sólskinsmet fyrir vikomandi daga voru enn sett þá 16. og 17. En nú er þessari sólarsypru lokið. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólamánuðurinn

Þá er jólamánuðurinn desember hafinn með hoppi og híi.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Undarleg frétt í Ríkisútvarpinu um kulda í Moskvu

Ríkisútvarpið var að segja frá því að fimmtán útigangsmenn hafi dáið í Moskvu undanfarið úr kulda. Það getur alveg verið rétt. Síðan er því bætt við að miklar vetrarhörkur séu í Rússlandi og búist sé við að fleiri muni deyja úr kulda. 

Veðurfar í Moskvu er kalt um háveturinn og miklu kaldara en hér. Margir eru þar heimilislausir og næsta víst að svo og svo margir verði úti á hverjum vetri þar í miljónaborginni. En af fréttinni má helst ráða að núna séu óvenjulega miklir kuldar ríkjandi í Moskvu. 

En svo er alls ekki. Nóvember hefur þvert á móti verið afar mildur. Síðustu daga hefur smávegis kólnað en frostið ekki verið til að gera veður út af, hvorki á íslenskan né rússneskan mæikvarða. Fjarstæða er að tala um frosthörkur og reyndar ólíklegt að mikið mildara verði í Moskvu að staðaldri næstu mánuðina.

En hitann í borginni í þessum mánuði má sjá hér á þessari töflu. (Menn þurfa aðeins að skrolla niður siðuna þegar hún birtist).  

Satt að segja skil ég ekki hvað er verið að fara í þessari frétt útvarpsins. 

Í töflunni lengst til vinstri (blátt) er lágmarkshiti dagsins í Moskvu, þá meðalhiti sólarhringsins (grænt), hámarkshiti (rautt), vik meðalhita frá meðallagi (plús með rauðu, mínus með bláu) og loks lengst til hægri úrkoma í millimetrum (grænt). Það blasir við hve mildur þessi mánuður hefur verið. Lengst til hægri á síðunni sést dagatal og þar er uppi mesti hiti hvers dags sem mælst hefur í nóvember í Moskvu nokkru sinni og ártalið með innan sviga og ef smellt er bláa ferninginn fyrir ofan dagatalið kemur upp minnsti hiti sem mælst hefur hvern dag (a.m.k. frá 1882). Neðar á síðunni sést Moskvuhitinn á línuriti fyrir mánuðinn en deplarnir fyrir ofan og neðan er það sem hitinn hefur mest eða minnst mælst dag hvern nokkru sinni.

Veðurstofan ætti að koma sér upp einhverju svona sem allra fyrst. En þangað til verður hið frækilega og hugumstóra fylgiskjal þessarar bloggsíðu að duga!  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband