Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Veðurslýðskrum á Alþingi

Innanríkisráðherra segir ósatt þegar hann fullyrðir á Alþingi að enginn hafi spáð fyrir um um óveðrið í  september. Sannleikurin er sá að veðrinu var spáð  í marga daga. Vindhraði var mjög nærri lagi. Hins vegar varð aðeins kaldara en gert var ráð fyrir og það munaði því að snjóaði fremur en rigndi. Og hitamunurinn sem þarna skilur á milli er afar lítill og ekki hlaupið að því að sjá fyrir öll smáatriði. En margra daga óveðurspá hefði ekki átt að fara framhjá mönnum.  

Reyndar var snjókoman sums staðar nyrðra sú mesta að snjódýpt sem vitað er um fyrri hluta septembermánaðar. Sjaldgæft veður. 

Það er ótrúlega ósvífið og hrokafullt, en fyrst og fremst ósatt, að láta þá yfirlýsingu frá sér fara á sjálfu Alþingi að enginn hafi spáð fyrir um óveðrið. Þvert ofan í staðreyndir.

Þetta er veðurlýðskrum af versta tagi.

Ekki bætir svo úr skák og eykur ekki traustið á Alþingi að svo virðist af fréttum sem ekki einn einasti þingmaður hafi gert athugasemdir við þetta en fremur tekið í sama streng.

Viðbót 8.11. Ögmundur hefur nú beðist velvirðingar á orðum sínum. Það er gott hjá honum. Og nú fer storminn líklega að lægja!


mbl.is „Enginn spáði fyrir um óveðrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólríkur október í Reykjavík

Ekki sé ég betur en október í Reykjavík sé sá sjöttí sólríkasti sem mælst hefur frá 1911 með 122 sólskinsstundir. Hitinn í Reykjavík er í meðallagi en um eitt stig undir því á Akureyri. 

Líklega er hitinn á landinu rétt aðeins undir meðallagi.

Úrkoman virðist alls staðar vera lítil nema á Hólsfjöllum. 

Óneitanlega var þetta hægviðrasamur og góður október í Reykjavík. En það sem vantaði helst voru verulega hlýir dagar með meðalhita yfir tíu stigum. Hins vegar komu nokkuð margir dagar með glaðasólskini og hita um hádaginn yfir tíu stigum en slíkt er ekki algengt í október þegar sólardagar eru oft kaldir en þó alls ekki alltaf.

Snjó er nú kominn víða á norðanverðu landinu og jafnvel suður um Snæfellsnes og Borgarfjörð. Mest er snjódýpt 41 á Steinadal í Kollafirði við Húnaflóa.  Á Akureyri er snjódýpt 19 cm en var í gær 18 cm og var það fyrsti hvíti dagurinn á Akueyri.  

Í fylgikskjalinu má nú skoða allan mánuðinn.

Óskaplega er svo þreytandi að sjá sífellt á vefsíðu Veðurstofunar Mikladal, Þröskulda og Kleifaheiði, allar á svipuðum slóðum, tróna sem þær  stövar  með mælt hafa minnsta lágmarkshita utan hálendis. Þessar stöðvar og aðrar slíkar uppi á heiðum ættu ekkert að vera á slíkum lista. Bara láglendisstöðvar í byggð. 

Hvað fylgiskjalið á þessu bloggi varðar þá eru tveir lágmarkslistar. Annar er fyrir láglendisstöðvar í byggð, allar undir 300 m, en auk þess Grímsstaði á Fjöllum, Svartárkot, Brú á Jökuldal, Möðrudal og Hveravelli. Síðasta stöðin er kannski sérviskuleg því hún er í meira en 600 metra hæð og hærri en allar hinar. En þetta helgast af því að í marga áratugi voru Hveravellir eina veðurstöðin  á hálendinu og má reyndar segja að hún hafi verið í byggð meðan stöðin var mönnuð allt árið. En fyrst og fremst var hún lengi góður mælikvarði á kulda loftsins á landinu, alveg frá 1966, oft mældist þar mesti kuldi hvers mánaðar, en þó ekki alltaf. Þessa kuldasamfellu, sem er mér sjálfum góð til samanburðar milli ára, vil ég ekki rjúfa í fylgkiskjalinu. Lágmarkshiti allra annara stöðva en Hveravalla á heiðum og hálendi eru hins vegar í dálknum í fylgiskjalinu sem sýnir minnsta hita á fjöllum. Ekki sé ég ástæðu til að hafa tvo lista fyrir hámarkshita, allar stöðvar, háar sem lágar, geta komist inn á þann lista ef þær verða nægilegar heitar. Ef mesti hiti landsins myndi mælast á Brúarjökli (sem verður nú seint) kemur hann bara inn á þennan eina hámarkshitalsita fylgikskjalsins þegjandi og hljóðlaust sem mesti hiti landsins!  


Minnst sól í október

Það er óneitanlega nokkuð öfugsnúið að hlýjasti  október sem mælst hefur í Reykjavík og á landinu sé jafnframt sá sem haft hefur minnst sólskin í höfuðstaðnum. Það var 1915  en þá mældust sólskinsstundar aðeins 17. Hitinn á landinu var hins vegar þrjú og hálft stig yfir meðallagi áranna 1961-1990. Sólskinsmælingar voru ekki byrjaðar á Akureyri þetta ár. Lágmarkshitnn á landinu er sá hæsti sem mælst hefur í október, -4,0 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Úrkoman var geysimikill 190% yfir meðallaginu 1931-2000 á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað og er þetta líklega einn af þremur úrkomusömustu októbermánuðum. Í Vestmannaeyjum hefur aldrei mælst önnur eins úrkoma í okotóber síðan 1880 en þrisvar áður í Stykkishómi frá 1856. Mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í október var mældur þ. 15., 1045,5 hPa.

Október 1946 er sá næst hlýjasti, reyndar svipaður og 1915, og hann er sá næst sólarsnauðasti í Reykjavík, með 31,7 sólarstundir. Á Akureyri er hann hins vegar fjórði sólríkasti október og auk þess sá hlýjasti sem mælst hefur. Úrkoman var miklu minni en 1915, um 111%  og sérstaklega var þurrt á austur og norðurlandi. Snjólag, sem mælt hefur verið frá 1924, var aðeins 2% á landinu, það næst minnsta. Meðaltalið 1961-1990 er 16%.

Október árið áður, 1945, er sá þriðji sólarminnsti í Reykjavík með 32,3 stundir. Og hann er níundi hlýjasti október á landinu og var hitinn rúm tvö stig yfir meðallagi. Úrkoman var undir meðallaginu en þó mikil á suðausturlandi, sú þriðja mesta í október á Fagurhólsmýri frá 1923. Snjólag var 6%. Stríðsglæpamenn og kvislingar áttu ekki sjö dagana sæla í þessum mánuði. Stríðglæparéttarhöldin yfir nasistum  í Nurnberg hófust þ. 19. en þ. 23. var Vidkun Quisling tekinn af lífi í Noregi.

Og enn einn af tíu hlýjustu októbermánuðum á landinu kemst inn á listann yfir tíu sólarminnstu október í Reykjavík. Október 1959 er sá þriðji hlýjasti á landinu, 3,3 stig yfir meðallagi, en minna sólskin hefur aðeins mælst fjórum sinnum í höfuðborginni, 40,6 stundir. Úrkoman á landinu var hátt um 160% og er þetta einn af votviðrasömustu októbermánuðum en snjóhulan var aðeins 8%. Aðeins einu sinni hefur mælst meiri úrkoma í október á Eyrarbakka, Vestmannaeyjum og Vík í Mýrdal.     

Ekki var langt í október með sjötta minnsta sólskin, 1962, þegar sólin skein í 41 stund. Á Reykhólum mældist aldrei minni sól í október árin 1958-1988, aðeins 20 klukkustundir. Í lok mánaðarins var snjódýpt mæld heill metri á Egilsstöðum og er það mesta snjódýpt á landinu í október. Snjóhula var 18%. Minnstu munaði að þetta yrði síðasti mánuður mannkynsins því Kúbudeilan hófst þ.22. Fyrsta lag Bítlanna, Love me do, kom úr þ. 5. og sama dag var fyrsta Bondmyndin frumsýnd. En þ. 12. var kvikmyndin 79 af stöðinni frumsýnd á Íslandi, sama dag og Live me do, toppaði á enska vinsældalistanum, í 17. sæti.

Október 1969 er sá fjórði í röðinni í Reykjavík hvað lítið sólskin varðar, 33 stundir. Á Sámsstöðum hefur enginn október mælst með minni sól, 29 klukkustundir. Snjóhula á landinu var 18% eins og 1962. Úrkoman var fremur lítil og hitinn um meðallag. 

Tveir sólarlitlir októbermánuður komu í röð árin 1911 og 1912. Sá fyrri er tíundi í röðinni fyrir sólarleysi, 52 stundir, en sá síðari er sá sjöundi, 46 stundir. Báðir í hlýrra lagi, sá fyrri undir meðallagi í úrkomu en sá síðari vel yfir því.   

Árin 1955 og 1956 komu líka tveir októbermánuðir í Reykjavík sem komast inn á topp tíu listann fyrir lítið sólskin og var sá fyrri nr. 8 en sá síðari nr. 9 og eru þessir mánuðir með 46,5 og 48 sólskinsstundir. Október 1955  er sá sjötti sólríkasti á Akureyri. Fyrra árið var fremur kalt og mjög þurrt, aðeins ríflega helmingur af meðalúrkomu. Mældist aldrei þurrari október í Æðey í  Ísafjarðardjúpi frá 1954 og einnig við Hrútafjörð  frá 1940. Hins vegar var fremur hlýtt en rosalegt og í votara lagi 1956.

Ekki er alveg ljóst hvaða október krækir í fyrsta sæti á Akureyri fyrir sólarleysi. Árið 1958 voru mælingarnar ekki alveg í lagi en þær sólarstundir sem mældust voru einungis 11.  

Í október 1995, mældust sólskinsstundir á Akureyri örugglega aðeins 18 en 14,2 á Melrakkasléttu og þar hefur  aldrei mælst jafn lítið sólskin í október og ekki mælst sólarminni október á veðurstöð. Tíðarfar var talið fádæma erfitt fyrir norðan og mjög var þar úrkomusamt og einnig á austurlandi. Aldrei hefur  mælst meiri úrkoma á Akureyri í október frá 1927, 176 mm. Norðan og norðaustanáttir voru algengastar vindátta. Hitinn var meira en hálft stig undir meðallagi en landsúrkoman vel yfir því. Október á undan þessum, 1994, er sá fimmti sólarminnsti á Akureyri með 28 stundir. Hitinn var heilt stig undir meðallagi en úrkoma í meðallagi en snjólag 19% en var 20% 1995.     

Snemma á hlýindaskeiði tuttugustu aldar komu þrír mjög sólarlitlir októbermánuður á Akureyri.  

Árið 1930 er sá þriðji í röðinni fyrir lítið sólskin með 25 klukkustundir. Úrkoman var í meðallagi á landinu er mjög úrkomusamt var fyrir norðan en að sama skapi þurrt sunnanlands. Hitinn var meira en heilt stig undir meðallagi og snjólagið 24%. Austurbæjarskólinn tók til starfa þ. 14., hitaveita Reykjavíkur þ. 14. en þ. 29. var Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður og voru þar allir rauðustu íslensku bolsarnir á einu bretti! Október 1938 er sá fjórði sólarminnsti á Akureyri með 26 sólarstundir. Mánuðurinn var í hlýrra lagi og úrkoman í rösku meðallagi. Á vestanverðu norðurlandi var mjög úrkomusamt. Í Skagafirði hefur aldrei mælst önnur eins októberúrkoma á veðurstöð og aðeins einu sinni á Blönduósi. Snjólag var í 9%. Þann 5. hertóku Þjóðverjar Tékkóslóvakíu. Október 935 er svo sá tíundi sólarsnauðasti á Akureyri með 33 stundir. Hitinn á landinu var svipaður og 1930 en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu en var mjög mikil á Akureyri, sú þriðja mesta. Fremur mikil snjór var 16%.      

Október 1967, sá tíundi sólríkasti í Reykjavik er aftur á móti nr. 9 neðan frá á Akureyri með 32 sólskinsstundir. Á Vopnafjarðarkauptúni var meiri úrkoma í þrálátri norðaustanáttinni en þar mældist árin 1964-1993. En bæði í Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka er  mánuðurinn á topp tíu listanum fyrir þurrviðri í október. Snjóhula var 18%. Þann 9. var Che Guevara drepinn í Bolivíu. Seint í mánuðinum kom upp mikið mál varðandi stúlknaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi.

Nákvæmlega tíu árum seinna, 1979, kom sjöundi sólarminnsti október á Akureyri með 31,8 stundir og og sá fremur hlýi otóber 1997 er með sömu tölu. Fyrra árið var merkilegt að því leyti að þá mældist mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur í október á landinu, 772,2 mn á Kvískerjum og einnig mesta sólarhringsúrkoma, 242,7 mm sem mældist þann fyrsta  á sama stað. Metið hefur síðan verið slegið. Tíð var talin góð á landinu, úrkoman um 50% fram yfir meðallag og er mánuðurinn líklega á topp tíu votlistanum yfir landið. Hitinn var yfir meðallagi og snjólagið var aeðeins 5%. Austan og suðaustanátt voru algengastar vindátta. Þann 12. árið 1979 mældist minnsti loftþrýstingur á jörðunni, 870 hPA í fellibyl á Kyrrahafi.  


Sólríkustu októbermánuðir

Viðbót 1.11: Síðasti október, 2012, reyndist vera sjötti sólríkasti október sem mælst hefur í Reykjavík með 122 sólarstundir og hnikast því röðin á þeim mánuðum sem eftir eru af þeim tíu sólríkstu sem hér er skrifað um en þeir eru þá orðnir ellefu.   
 
Í öllum október er nóttin auðvitað lengri en dagurinn. Aðeins nóvember til febrúar hafa minna sólskin að meðaltali. Meðaltal sólskinsstunda í október árin 1961-1990 í Reykjavík er 83,4 klukkustundir. Engir maímánuðir þar hafa mælt svo litla sól en hins vegar hafa fjórir júnímánuður haft minna sólskin, sex  júlímánuðir og sex  ágústmánuðir, sá síðasti 1995. 

Sólríkasti október í Reykjavík frá 1911 er árið  1966. Þá skein sólin í 148 klukkustundir. Fjölmargir mánuðir frá apríl til september hafa haft minna sólskin. Þetta er næst sólríkasti október á Sámsstöðum frá 1964 en sá sólarmesti á Hveravöllum 1965-2004, 98 stundir. Við Hveragerði mældist heldur aldrei meiri októbersól á árunum 1972-2000, 143 stundir. Þá mun þetta vera þurrasti október á landinu síðan 1873 og var úrkoman aðeins 33% af meðalúrkomunni 1931-2000 (sem hér er alltaf miðað við) á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað.  Í Vestmannaeyjum hefur aldrei mælst þurrari október frá 1880, 50,6 mm, og ekki heldur á Hólum í Hornafirði (frá 1931), 33,0 mm  og aðeins einu sinni í  Vík í Mýrdal (frá 1925). Í Stykkishólmi er þetta fjórði þurrasti október, allar götur frá 1856. Á Teigarhorni við Berufjörð hefur ekki komið síðan eins þurr október en þar er þetta sjöundi þurrasti október frá 1873. Hitinn var næstum því heilu stigi undir meðallaginu 1961-1990 (sem hér er ávallt miðað við um hitann). Nokkrir mjög kaldir dagar komu í byrjun mánaðarins. Einnig var kalt kringum fyrsta vetrardag og síðasta dag mánaðarins en annars var fremur milt. Hlýjast var í síðustu vikunni og sá 29. krækti í dagshitamet í Reykjavík fyrir meðalhita sólarhringsins. Og mánuðurinn var talinn mjög hagstæður á suður og vesturlandi vegna sólfars og snjóleysis en þótti nokkuð rysjóttur fyrir norðan. Snjólag á öllu landinu var 14% en meðaltlaið 1961-1990 er 16%. Norðan og norðaustanáttir voru algengastar eins og að líkum lætur.    

Október 1981 er sá næst sólarmesti í Reykjavík með 142 stundir en aðeins 39 á Akureyri. Á Sámsstöðum er þetta sólríkasti október, 154 klukkustundir. Norðan og austanáttir voru algengastar en mánuðurinn var víðast hvar talinn mjög óhagstæður nema helst á suðurlandi. Fyrstu tveir dagarnir settu dagshitamet í kulda í Reykjavík að sólarhringsmeðaltali. Þetta er fjórði kaldasti október á landinu frá 1873 og var hitinn rúm þrjú stig undir meðallagi. Þá er þetta snjóþyngsti október í mælingasögunni. Snjólagið var 53% á landinu. Á Hólum í Hjaltadal, Sandhaugum í Bárðardal, Möðrudal og Brú á Jökuldal var alhvítt hvern dag.  Hvergi var alautt alla dagana og víðast hvar fyrir norðan og austan var enginn dagur alveg auður. Mánuðurinn er einn af þurrustu októbermánuðum og úrkoman var einungis um 55 % af meðallaginu. Í Stykkishólmi og Eyrarbakka er þetta sjötti þurrasti október en fimmti þurrasti í Vestmanneyjum. Á Andakílsárvirkjun hefur ekki mælst þurrari október f(rá 1950), 24,4, mm, og ekki í Vík í Mýrdal, 81,3 mm.

Þriðji sólríkasti október í Reykjavik er 2002 en hann er þar sá þriðji sólríkasti með 135 klukkustundir. Úrkoman var litið eitt yfir meðallagi á landinu en hitinn var um 0,8 stig yfir því. Snjólag var 20%. Allmiklar andstæður í hita voru í mánuðinum. Fyrsti dagurinn og sá sjötti settu dagshitamet að meðalhita í Reykjavík og þann annan fór hitinn á Reykhólum í 19,0 stig. Undir lok mánaðarins mældist hins vegar mesti kuldi sem mælst hefur á landinu í október. Í Möðrudal mældist frostið -22,0 stig á kvikasilfursmæli en á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga við Mývatn fór frostið niður í -22,3 stig. Hvor tveggja þann 28. 

Október 1926  er hins vegar sá næst kaldasti á landinu, um þrjú og hálft stig undir meðalagi. Og hann er sá fjórði sólríkasti i höfuðstaðnum með 127,5 sólarstundir. Loftvægið var með því allra mesta sem mælst hefur í október í tæp tvö hundruð ár. Mánuðurinn nær líklega inn á topp tíu listann fyrir þurrk eða í það minnsta nálægt því, en úrkoman var meira en 50% af meðallaginu þeirra stöðva sem allra lengst hafa athugað. Á  Eyrarbakka er þetta sjötti þurrasti október. Snjólag var mjög mikið, það þriðja mesta nokkru sinni, 42%. Á Húsavík var snjódýptin 65 cm þann 14. en þann dag kom út í Englandi sagan um Bangsimon eftir A.A. Milne.

Á þriðja áratugnum eru tveir aðrir októbermánuðir á topp tíu sólarlistanum í Reykjavík. 

Árið  1923 er þar sjöundi sólarmesti október með 119 sólskinsstundir. Hitinn var um eitt stig undir  meðallagi landsins. Fremur var þurrt og var úrkoman aðeins þrír fjórðu af meðallaginu. Í Vestmannaeyjum er þetta reyndar næst þurrasti október sem mælst hefur en sá áttundi í Stykkishómi.   

Október 1928 var annálaður góðviðrismánuður, stilltur, bjartur og hlýr, hitinn um 1,3 yfir meðallaginu. Þetta er hlýjasti oktober á landinu af þeim tíu sólríkustu í Reykjavík. Hann skartar snjóléttasta október sem mælst hefur á landinu með aðeins 1% snjólag. Alls staðar nema á sjö stöðvum var alautt en á þessum sjö voru 1-3 alhvítir dagar og mesta snjódýpt sem mæld var í mánuðinum öllum var 1 cm! Mánuðurinn var örlítið þurrari en 1926 og er áttundi þurrasti október í Reykjavík. Einstaklega þurrt var í Borgarfirði. 

Árið 1960 var október einnig mikill góðviðrismánuður. Og loftvægi var það mesta í október frá  1926 fyrir utan árið 1983. Þetta er sjötti sólríkasti október í Reykjavík með 120 sólarstundir en sá næst sólríkasti á Akureyri þar sem sólskinsstundirnar voru 100. Á Melrakkaslettu (1957-1999) mældist ekki sólríkari okótóber, 88 stundir. Hitinn var heilt stig yfir meðallagi á landinu en úrkoman var aðeins  um 42% af meðallaginu og er þetta með þurrustu októbermánuðum. Á Hallormsstað mældist aldrei minni úrkoma í október (1937-1989) og heldur ekki á Nautabúi í Skagafirði (1946-2004). Þetta er næst snjóléttasti október á landinu (ásamt 1946, 1976 og 2000), eftir  frænda sínum október 1928, með snjólag upp á 2%. Ekki spillti það nú haustblíðunni í höfuðborginni þetta árið að nóvember reyndist svo sá sólríkasti sem mælst hafiði þá (og er enn sá næst sólríkasti) og var auk þess hlýr en ekki kaldur!  

Tíundi sólríkasti október i Reykajvík er hafísaárið 1967 með 116 stundir. Hitinn var rúmlega eitt stig undir meðallagi. Feiknarlegt kuldakast gerði upp úr miðjum í mánuðinum. Dagarnir 16. og 17. settu dagshitamet fyrir meðalhita í kulda í Reykjavík. Á Kornvelli við Hvolsvöll fór frostið þ. 17. í -19,0 stig sem er mesta frost sem mælst hefur á láglendi á landinu í október. Mánuðurinn er þurrasti október á Hæli í Hreppum frá 1927, 33,7 mm, en sá fimmti þurrasti á Eyrarbakka og sjötti í Vestmannaeyjum.  Úrkoman var um 68% af meðallaginu en snjólagið var 22%. 

Níundi sólríkasti október í Reykjavík er hins vegar 1998 með 117 klukkustundir.  Hitinn var um hálft annað stig undir meðallagi landinu í heild en úrkoman um 62% af meðallaginu. Sagt var að mánuðurinn hafi sýnt á sér flestar hliðar, framan af var var mild og góð sumartíð um norðvestanvert landið en um miðjan mánuð skall á vetur með miklum snjó fyrir norðan en sunnanlands var kalt og þurrt. Snjólag var nokkuð mikið,32%. Aðeins var alautt allan mánuðinn á einni veðurstöð.   

Síðasti október í Reykjavík í tíma sem nær inn á topp tíu sólarlistann er 2006 en hann er þar sá fimmti sólríkasti með 124 klukkustundir. Hitinn var 1,6 stig yfir meðallagi en úrkoman um 17% fram yfir meðallag en snjólagið var 9%. Hlýtt var, hitinn 0,6 yfir meðallagi. 

Á Akureyri er október 1974 sá sólríkasti með 103,5 klukkustundir en meðaltalið 1961-1990 er 51 stund. Á Hólum í Hornafirði er þetta einnig sólríkasti október (frá 1958) með 135 stundir. Athyglisvert  er að næsti október, hinn hlýi 1975, er sá sólarminnstí á Hólum í Hornafirði, 26 klukkustudnir. Á Hallormsstað er þetta næst sólríkasti október. Í Reykjavík voru sólarstundirnar nánast nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990. Hitinn var rétt yfir meðallagi á landinu en úrkoman um 13%  fram yfir það og snjólagið var 10% en  víðast hvar var alautt allan mánuðinn á suðurlandi.

Október 1986 er einna merkilegastur fyrir það að þá mældist minnsta meðalloftvægi í nokkrum október.  Það var lægst 988,4 hPa í Stykkishólmi en 991,4 hPa í Vopnafirði og á Eyvindará. Í Reykjavík var það  989,9 hPa. Veður þóttu nokkuð rysjótt nema á austur og norðurlandi. Á Akureyri er þetta þriðji sólríkasti október með 94 sólarstundir Á Hallormsstað er þetta hins vegar sólríkasti október en þar skein sólin í 89 klukkustundir. Þurrviðrasamt var á sólskinssvæðinu en úrkoman í heild um 15%  fram yfir meðallagið okkar en hitinn var næstum því hálft annað stig undir meðallaginu. Snjólag var 30%. Þann 11. hófst leiðtogafundurinn frægi í Höfða. 

Október 1946 er sá fjórði sólríkasti á Akureyri en sólargæðunum var æði misskipt milli landshluta því aðeins einu sinni hefur mælst minna sólskin í Reykjavík. Úrkomunni var líka misskipt. Hún var um 11% umfram meðallagið á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað en þetta er  næst þurrasti október sem mælst hefur á Dalatanga (frá 1938) og sá þriðji á Akureyri. Hins vegar er þetta þriðji úrkomusamasti október á Hæli í Hreppum. Snjólagið var það næst minnsta í október 2% (ásamt 1960, 1976 og 2000). Þetta er enda annar hlýjasti október á landinu í heild, nær þrjú og hálft stig yfr meðallagi, en sums staðar sá allra hlýjasti, þar á meðal á Akureyri.  

Október 1939, sem kom í kjölfar hins rómaða ofursumars 1939 er ekki aðeins sá sjötti hlýjasti á landinu, tæp þrjú stig yfir meðallagi, sá fimmti sólríkasti á Akureyri, 86,5 stundir, heldur er hann einnig sá þurrasti sem mælst hefur á Akureyri,0,7 mm, frá 1927. Hann er einnig þurrasti október sem mælst hefur á Grímsstöðum (frá 1934), 0,6 mm, Raufarhöfn (1933), 7,0 mm  og Sandi í Aðaldal (1934-2004), 2,4 mm. Hann var og sjaldgæflega þurrviðrasamur  á Tröllaskaga, Ströndum og á Vestfjörðum. Snjólagið var 5%.  Þann fyrsta héldu Þjóðverjar inn í Varsjá í Póllandi.

Árið 1955 kom sjötti sólríkasti október á Akureyri með 84 sólskinsstundir. Hann er hins vegar sá áttundi sólarminnsti í Reykjavík. Hitinn var í tæplega eitt stig undir meðallagi á landinu en úrkoman aðeins liðlega helmingur af meðallaginu. Snjór var í minna lagi, 11% , en víðast hvar alautt á suður og vesturlandi.  Bandaríska nóbelsskáldið kom til landsins og þ. 27. var tilkynnt að íslenska skáldið Halldór Kiljan Laxness hlyti bóbelsverðlaunin þetta árið. 

Október 1973 byrjaði strax fyrstu nóttina með mesta hita sem mælst hefur á landinu í október en á Dalatanga mældust þá 23,5 stig og yfir tuttugu stig á fjórum öðrum stöðvum. Þetta er sjöundi sólríkasti október á Akureyri með 81 stund. Reykjavík skaut þó höfuðstað norðurlands ref fyrir rass með 87 stundum en þar kemst mánuðurinn þó ekki inn á topp tíu sólarlistann. Hiti mánaðarins á landinu var nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990 en úrkoman var dálítið yfir meðallaginu 1931-2000. Hún var þó mjög mikil á suðurlandi og sú níunda mesta í október á Eyrarbakka með sína löngu en þó dálítið sundurslitnu mælingasögu. Snjólag var minna en í meðallagi, 13%.

Áttundi sólríkasti október á Akureyri er 1978 með 70,5 sólskinsstundir. Hitinn var í rúmu meðallagi á landinu en úrkoman í tæpu meðallagi en snjólagið var 13%. Vígahnöttur sást þann 24. víða á suðurlandi.  Árið 1999 var níundi sólríkasti október á Akureyri með 67,9 sólarstundir. Úrkoma mátti heita í meðallagi á landinu en hitinn heilt stig yfir því. Snjólag var aðeins 8%.

Tíundi sólarmesti október á Akureyri er 1992 með 67,6 sólarstundir. Úrkoman á landinu var um 67%, snjólagið 11%, en hitinn um meðallag. Mjög hlýtt var þann 7. og fór hitinn þá í 21,7 stig á Dalatanga og Neskaupstað og er það dagshitamet á landinu. Þau met fyrir alla daga og margt fleira þarft og gagnlegt má sjá í hinu alræmda fylgiskjali!  

 


Enn ein nýjung í fylgiskjali

Bætt hefur verið dálki í fylgiskjalið með meðaltali lágmarkshita hvers dags í Reykjavík frá 1920. Hann er við hliðina á sambærilegum dálki varðandi hámarkshitann. 

Í fylgikskjalinu er því hægt að sjá, fyrir utan dagleg veðrabrigði, mesta og minnsta meðalhita sem mælst hefur hvern dag í borginni, hæsta og lægsta hita hvers dags gegnum árin og auk þess lægsta hámarkshita sem mælst hefur dag hvern. Og einnig er hægt að sjá hæsta og lægsta hita og meðalhita sem mælst hefur á Akureyri dag hvern og daglegan hámarkshita á landinu og meðaltal hámarkshita hvers dags á landinu.

Eitthvað fleira? Þetta er orðið svo mikið að maður ruglast sjálfur!

Og er þó von á meiru! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta næturfrost í Reykjavík

Í nótt kom fyrsta næturfrostið á þessu hausti í Reykjavík, -1,2 stig. Síðasta frost í vor var 17. maí. Frostlausi tíminn var því 134 dagar en meðaltalið frá 1920, þegar Veðurstofan var stofnuð, er 143 dagar en 147 árin 2001-2011.

Frá því Veðurstofan var stofnuð 1920 hafa 54 septembermánuðir af 93 (þessi talinn með) í Reykjavík verið frostlausir eða 58% allra mánaða.  Meðaltal lágmarkshita þessi ár fyrir september er 0,1 stig.

Ekki hefur enn mælst frost á suðausturlandi og við suðurstöndina og reyndar á einstaka stöðvum annars staðar.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ekki mjög kaldur september en úrkomusamur

Þrátt fyrir óveðrið   mikla sem kom í þessum mánuði ætlar hann ekki að koma sérlega illa út hvað hitann snertir. Æði margir septembermánuðir hafa þar slegið honum við. Meðalhitinn í Reykjavík er nú næstum því kominn upp í meðallagið 1961-1990. Ekki mun þó hlýna á lokasprettinum en fremur kólna og verður meðalhitinn lítið eitt undir meðalhita þessa tímabils en langt undir meðallagi áranna 1931-1960 og sömuleiðis meðalhita september það sem af er þessari öld.

Á Akureyri er hitinn nú hálft stig undir meðallaginu 1961-1990. Þar er mánuðurinn þegar orðinn næst úrkomsamasti september sem þar hefur mælst. Gaman væri nú að hann slægi metið sem er 166 mm frá árinu 1946. Víðast hvar er úrkoman þegar komin yfir meðallag, þar með talið í Reykjavík en hvergi þó jafn tryllingslega sem á Akureyri þar sem hún er orðin talsvert meira en þreföld.  

Snjóalög í þessum september verða eflaust með því meira eða mesta á norðurlandi eftir árstíma.

Nú er komin sjálfvirk veðurstöð á Grímsstöðum á Fjöllum á vegum Veðurstofunnar en þar hafa verið mannaðar athuganir samfellt frá því 1907. Ætli sé ekki tímaspursmál hve nær mannaðar athuganir leggjast þarna af. Ekki  hvarflar víst að landleigurum að fá þennan Nubo til að fjármagna mannaða veðurstöð sem athugaði allan sólarhringinn. Hvað þá gera það að skilyrði fyrir leigu jarðarinnar til hans. Hann mundi ekki finna fyrir þessu fjárhagslega.

En það er auðvitað til of mikil mælst að þeir sem sjá um þetta hafi minnsta skilning eða áhuga á veðurathugunum eða veðurfarslegum rannsóknum. 

 

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýjung

Við höldum áfram með þennan tiltölulega slappa september sem einn sem gerði einhvers staðar athugasemd við netfærslu sagði að líktist fremur október en september.

Hið nýjungagjarna fylgiskjal bryddar nú upp á tveimur nýjungum til vibótar.

Á blaði 1 hefur verið settur inn dálkur með meðaltali hámarkshita í Reykjavík hvern dag mánaðarins frá stofnun Veðurstofunnar 1920 og annar dálkur með meðaltali hámarkshita hvers dags á landinu frá 1949. Þetta eru bein dagsmeðaltöl en ekki útjöfnuð. Menn geta nú áttað sig á því hvernig hámarkshiti viðkoamndi dags stendur sig í samanburði við langtíma reynslu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enginn alvöru bati

Hret getur komið í öllum sumarmánuðum og alhvíta jörð getur þá gert í heiðabyggðum norðanlands.  En snjódýptin er ekki mikil, svona 10 cm mest í júlí og ágúst  og frameftir september en yfirleitt miklu minni. Það er ekki fyrr en í seinni hluta september sem búast hefur mátt við meiri snjódýpt en þetta, allt upp í hálfan metra seint í mánuðinum og auðvitað bara einstaka sinnum. Það sem nú er að gerast á sér því ekki hliðstæðu síðustu áratugi svona snemma hausts eða réttara sagt svona síðla sumars hvað snjóinn varðar. Snjódýptin hefur sums staðar fyrir norðan verið 25-50 cm.

Í fyrradag hlánaði ekki allan sólarhringinn á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er nauðasjaldgæft á þessum árstíma en hefur þó gerst áður einu sinni eða tvisvar á síðustu áratugum. En það er ekki kuldinn sem nú er aðalatriðið heldur snjóþyngslin og auðvitað hvassviðrið sem kom með þau.

Lítið mun leysa á næstunni til fjalla fyrir norðan og um helgina má jafnvel búast við meiri snjókomu  en þegar enn lengra líður er gert ráð fyrir að létta muni til. En þá verður kuldatíð.  

Er þetta þá ekki til vitnis um vaxandi öfgar í veðurfari? 

Nei, skrattakornið!  Þetta er fremur vitni um það að svo sem flest getur gerst í veðrinu á hverri árstíð.

Einstaka sinum gerast stórlega afbrigðilegir atburðir. Og svo ekki kannski næstu 50 árin.

Og hana nú!   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikill snjór

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að mikill snjór er í heiðabyggðum á norðurlandi og víðar. Snjódýpt í morgun á Auðnum í Öxnadal var mæld 50 cm. Mesta snjódýpt sem ég veit um  í byggð í öllum september er 55 cm á Sandhaugum í Bárðardal þann 24. árið 1975. 

En nú er bara 11. september! Og  þori ég að veðja að þetta sé mesta snjódýpt sem mælst hefur á landinu, nema kannski á fjöllum, á þessum árstíma. Á Grímsstöðum var snjódýptin 30 cm og 20 cm í Reykjahlíð við Mývatn. Þarna er reynt að mæla jafnfallin snjó. 

Úrkoman á Akureyri var mæld 34,4 mm í morgun en 42,8 í gær. Á tveimur sólarhringum hafa þar því fallið 77 mm og er það ekki hversdagslegt.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband