Færsluflokkur: Ég

Nú er sumar, gleðjist gumar

Gaman er í dag! Sól og blíða. Ég var í gönguferð um vesturbæinn. Við Pétursbúð á Ægisgötu var búið að setja upp borð og fólk fékk pylsur og gos. Ekkert tilefni. Bara sólskinsskap og lífsgleði.

Mali er fjúkandi vondur yfir icesave-reikningunum og segist ekki borga neitt. En ég nenni ekkert að hlusta á hvæsið í honum og vera reiður honum til samlætis. Er þetta ekki bara óhjákvæmilegt? Hvað á að gera? 

Í dag ætla ég bara að vera glaður og kátur og horfa á þegar næstbesta fótboltalið í heimi skíttapar fyrir 92. besta liði í heimi.


Nafn mitt er Sigurður Þór Guðjónsson

Já, það heiti ég svo sannarlega. Og ég er eini Íslendingurinn sem ber það nafn. Ég heiti ekki Sigurður  Guðjónsson þó það nafn standi í Þjóðskránni við nafnnúmer mitt, einungis vegna þess að ekki var pláss fyrir allt nafnið í tölvunni hjá þeirri stofnun.

Ég skrifa nafn mitt alltaf sem Sigurð Þór Guðjónsson og það er nafnið sem allir aðrir tengja líka við mig.

Ég get ómögulega viðurkennt annað nafn á mér, hvorki í einkalífi eða á opinberum vettvangi enda er þetta mitt raunverulega nafn.

Þar af leiðir að ég get ekki ábyrgst orð mín í fjölmiðlum eða annars staðar nema undir mínu eigin nafni. Ég hef líka gert það vandræðalaust, hvað svo sem stendur í Þjóðskránni,  á öllum vettvöngum, þar með talið fyrir Hæstarétti.

Nöfn manna eru hluti af þeim sjálfum sem ekki er hægt að svipta þá gegn vilja þeirra með einhverjum reglum. Réttur minn til nafns míns hlýtur að vega þyngra en tölvutakmarkanir Þjóðskrárinnar eða reglufesta Morgunblaðsins.

Ég vona að ég verði ekki látinn gjalda þess á neinn hátt hjá Morgunblaðinu og undirstofnunum þess, svo sem blog.is, þó ég vilji einungis kannast við ábyrgð orða minna undir mínu eigin nafni.  


Dagbækurnar á netið?

Ég ætti kannski að setja dagbækurnar sem ég hef haldið síðan 3. maí 1962 inn á netið. Í þeim eru að vísu ekki leynimakk þeirra sem telja sig útvalda til að stjórna landinu, en ég get alveg lofað því að þar er æsilegt og hneykslanlegt efni; slúður, rógur, lastmælgi, illkvittni, trúnaðarsamtöl, leyndarmál annarra, guðlast og svakalegt klám.  

Nei annars, ég ætla ekki að gera þetta. Það er af því að ég er ekki gersneyddur tillitssemi í garð náungans. 

By the way: Ýmsir hafa lýst yfir áhuga sínum að erfa eftir mig dagbækurnar þegar ég hrekk upp af sem verður innan skamms sem betur fer. En ég ætla að brenna þær og sjálfan mig með.

Hér eru myndir af dagókunum mínum en lítið sést þarna  til dagbókanna síðustu 12 árin því þann tíma hefur hún verið tölvuvædd. 

PICT1698

PICT1699


Öskjuhlíð

Líf mitt er fullt af eins manns hefðum sem ég hef skapað sjálfur gegnum árin. Ein er sú að fara upp í Öskjuhlíð á góðviðrisdögum eftir að komið er fram í ágúst. Það er svo gaman að ganga  göngustígana í suðurhlíðum hennar. Mest gaman er að stígnum sem liggur að grjótgörðunum. Það er hins vegar ótrúlega erfitt að finna rétta stíginn og þó ég hafi oft farið þarna fann ég hann ekki í dag. Það þyrfti að merkja hvert þessir stígar liggja. Þegar ég var strákur var hægt að fara á berjamó í Öskuhlíðinni. Nú er þar berjalyngið áfram en engin ber á því. Ekki veit ég hvernig á þessu stendur.  

Ég er ekki viss um að þessi mikli trjágróður sé til bóta í Öskjuhlíðinni. Það er orðið erfitt að finna sæmilegar skvompur þar sem sólar nýtur. Útsynið af Öskuhlíðinni er frábært. Snæfellsjökull blasti við og ekki er hann nú næstum því horfinn eins og ein fíflafréttin á Mbl.is er þó að segja.

Ég bjó á unglingárunum í Hlíðunum. Þess vegna var ég vanur að enda Öskjuhlíðaferðinar með því að ganga niður Eskihlíð og fara yfir Miklubraut inn á Gunnarsbrautina. En nú er þetta ekki hægt lengur. Þetta ótrúlega andstyggilega umferðarmannvirki sem kom í staðinn fyrir hringtorgið á Miklatorgi lokar leiðinni. Það er komin girðing yfir Miklubrautina sem varnar gangandi vegfarendum leiðarinnar. Þeir verða að beygja hjá gamla Eskihlíðarbænum og ganga óraleið eftir umferðarbrúnni og fara síðan hasarderaðan veg yfir umferðargötur þar sem ekkert tillit er tekið til gangandi fólks.

Aðeins nokkrir metrar eru á milli neðsta hluta Hlíðahverfisins og Norðurmýrarinnar en af þessum ástæðum er samt alveg ómögulegt að komast auðveldlega milli þessara rótgrónu íbúðahverfa. Eina leiðin er um skarð í girðingunni sem liggur upp á mitt Miklatún sem hét reyndar Klambratún í mínu ungdæmi sem var á bítlaárunum. Þá var nú fjör!

Ég skil bara ekki svona heimskulegt og mannfjandsamlegt borgarskipulag.  

Og þessi kaninka varð á vegi mínum í Öskjuhlíðinni í dag.

PICT0278

 


Í betra ástandi

Snorra listamanni er alveg guðvelkomið að nota líkið af mér þegar ég hrekk upp af og gjöra úr því stórkostlegt listaverk. Mig hefur alltaf dreymt um að líta út eins og fallegt listaverk. 

Ég get bara ekki beðið!

En ég set samt eitt skilyrði. Ég vil ekki að líkinu af mér verði skilað í SAMA ástandi.

Ég vil að því verði skilað í BETRA ástandi. Að það verði eins og það hafi gengið í endurnýingu lífdaganna.  

c_documents_and_settings_hp_owner_my_documents_my_pictures_lik

 

 

 


Aftaníossi

Í dag flykkjast allir gleðimenn og gleðikonur bæjarins út á strætin og ráða sér ekki fyrir gleði.

Og þó ég eigi aldrei framar eftir að líta glaðan dag ætla ég samt að rölta í humátt á eftir þeim  eins og hver annar aftaníossi. 

Annars ætla ég að taka til í dag, sópa og og skúra og svoleiðis. Æ, það er svo leiðinlegt. Ég þarf að fara að fá mér góða og eftirláta konu sem þjónar mér ljúflega til borðs og sængurs. Hefur nokkur nokkuð við  það að athuga? 

Athugasemdabálkurinn er galopinn sem aldrei fyrr!


Horft vongóður fram á veginn

Mér segist svo hugur um að ég eigi aldrei eftir að líta glaðan dag!

Svo held ég  líka að ég eigi ekki langt eftir.

Loks er ég handviss um að ég á eftir að fara til helvítis.

Þunglyndi? Ó,nei, ekkert svoleiðis væl! Bara ískalt raunsæi.  


Einhvers skírra, einhvers blárra ...

Stundum þegar ég er að grúska í gömlum og mygluðum veðurskýrslum, jafnvel þegar glæsileg hitamet eru slegin út um allt, fer ég að hugsa með skáldinu: "Einhvers skírra, einhvers blárra æskti hugur minn".

Já, ég gæti jafnvel líka tekið undir með öðru skáldi og andvarpað "af hverju kemur enginn og dregur oss á tálar?"

Og senn líður að hausti - ég þoli ekki menn sem skrifa um haustið um hásumarið - og eftir það kemur sá vetur sem aldrei mun líða. 


Ég óttast mjög

Að við Mali förum á verri staðinn. En þið?

Ég sem hörkutól

Nýlega fékk ég athugasemd við bloggið mitt þar sem sagt var að ég væri hörkutól. Þó þetta hafi kannski verið í gamni sagt held ég að það hafi líka verið í því smávegis alvara. 

Ég get verið ákaflega harður í skrifum og jafnvel miskunnarlaus. Harðast gegn ég fram gegn valdinu í þjóðfélaginu sem ég hef illan bifur á enda veitir nú víst ekki af. En ég ræðst sjaldan gegn einstaklingum sem slíkum. Ég lýsi því ekki blákalt yfir að hinn eða þessi sé eymingi eða eitthvað þaðan af verra jafnvel þó það liggi í augum uppi að hann sé það.

Prívat og persónulega er ég í umgengni ljúfur eins og lamb sem verið er að leiða til slátrunar. Nema hvað ég get alveg varið mig ef á mig er ráðist. Þá rýk ég upp eins og naðra eða sporðdreki svo fólki verður ekki um sel af undrun og skelfingu. Ég sting samt ekki nema í algerri nauðvörn. Og þá er það banabit.

Ég get verið mjög ákveðinn og harður á mínu. Þrjóskari en andskotinn. Samt leyfi ég öðrum alveg að hafa sínar skoðanir. Ég nenni yfirleitt ekki að þjarka um stjórnmál og trúmál við fólk. Ég hef meira gaman af fólkinu sjálfu en skoðunum þess.

Miklar skoðanir eru fyrir einfeldninga og fífl. Og miklar skoðanir vaða alveg uppi á blogginu sem annars staðar.

Þetta er nú mín ofurlitla skoðun á þessu.  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband