Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Sannleikurinn leiddur í ljós

Ég át aldrei páskalambið á páskadag. Ég sagði það bara til að gleðja hysteríska aðdáendur mína. Sannleikurinn var sá að ég vakti með uppköstum alla páskanóttina og svaf svo frá kl. 7-12. Síðan hef ég verið alveg eins og aumingi. Ég hef nánast ekkert borðað síðan á laugardag en mikið drukkið af vökva enda þjáist ég af helvítisþorsta. En ég er nú hættur að gubba. Oj, ég gæti samt gubbað yfir því hvað þetta er allt saman ömurlegt.   

Áðan kom systir mín til mín með drykkjarvöru og fleira. Það er enn ekkert lát á flensunni, sem byrjaði á föstudaginn langa og þetta er sú allra versta flensa sem ég hef nokkru sinni fengið.

Mali er alltaf að reka trýnið upp í andlitið á mér og leggst svo ofan á mig hér og hvar. Það eru hans heilunaraðferðir. Hann hefur aldrei verið jafn þægur og góður.

Ég tel víst að veiran eigi eftir að fara í hjartað og heilann enda er hún búin að koma alls staðar annars staðar við.

Kannski að ég eigi eftir að fá viðurnefnið Siggi zombí


Páskalambið

Nú er ég búinn að borða aumingja litla og saklausa páskalambið.

Og mikið lifandis skelfingar ósköp var það nú gott!


Að mér dauðum en ekki lifandi

Nú er ég kominn með flensu. Ég er að drepast úr hósta og verkjum í skrokknum og er með hita. Ég treysti mér því ekki til að fara að kínverska sendiráðinu og standa þar úti. Hins vegar verð ég að skjótast út í búð seinna í dag til að kaupa páskalambið svo ég hafi eitthvað að éta um páskana.

Páskalambið er svona voða lítið og sætt lamb eins og sýnt var í myndinni um hann Ástþór í sjónvarpinu í gær. Svo er því slátrað svona sætu og krúttlegu og étið.

Kannski lifi ég ekki þessa flensu af. Kannski fer vírusinn í hjartað á mér og drepur mig eða í heilann og ég verð eins og zombí.

Ef svo skyldi fara að ég deyi vil ég endilega að útför mín fari fram í pukri.

Ég vil heldur ekki að einhver asni skrifi um mig minningargrein. Það yrði hvort sem er allt saman tóm lygi. 

Í gær kom hér kolsvartur hrafn og krunkaði lengi á þakrennustokknum. Ég setti Mala út í þakglugga og hann titraði alveg af veiðihug. Á eftir var hann snaróður út um alla íbúð.

Ég ætla að arfleiða Mala að öllum mínum veraldlega og andlega auði.

 

 

 

 


Innri maðurinn

Ekki er hún gæfuleg veðurspáin. Eftir páskana mun kólna og vera snjór og frost um allt land.

Ætlar þessum viðbjóði aldrei að linna? En kannski er það huggun harmi gegn að veðurfræðingur dagsins sagði að sólin væri farin að hlýna. Það er sannarlega komin tími til. Hún hefur verið eitthvað svo undarlega köld upp á síðkastið. Hitinn í henni var síðast þgar ég vissi 15 miljón stig í kjarnanum en kannski er hann nú kominn upp í 20.

Annars hef ég í dag verið að hlusta á Mattheusarpassíu Bach. Á morgun er það Jóhannesarpassían.

Þrjá daga ársins vil ég vera í friði með sjálfum mér og loka allt annað úti: Jóladag, föstudaginn langa og páskadag. Þetta eru fyrir mig dagar tónlistar og innri íhugunar. Ég á mér nefnilega innri mann en það er sjaldgæft nú dögum. Þessi innri maður er gerólíkur þeim útvortis manni sem er að sperra sig á þessu bloggi.     

Ég fer alltaf í gönguferð þessa daga. Í dag var sól en samt mistur í lofti svo ekki sást til Snæfellsness. 

Mér finnst alltaf þegar orðið er snjólaust en ekki byrjað að vora að það sé búið að gera hreint fyrir vorkomuna.

Æ, vonandi þarf ekki að fara að gera aftur hreint ef snjór og slabb er að koma.

 


Er hlutleysi nokkuð hlutleysi?

Formaður ólympíusambands Íslands, Ólafur Rafnsson, segir að tal um að sniðganga ólympíuleikana sé skaðlegt. Rætt hefur verið um í fjölmiðlum hvort Íslendingar eigi að sniðganga þá til að mótmæla mannréttindabrotum í Kína og einkum meðferðinni á Tíbetum. Hann segir:

„Menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta er íþróttaviðburður og íþróttahreyfingin er ekki pólitísk í eðli sínu. Þannig að það er varhugavert að menn fari að blanda þessu tvennu saman," segir Ólafur. Hann segir þó að í þessari skoðun sinni felist engin afstaða gagnvart því sem sé að gerast í Kína.

Ólafur segir alla umræðu um að sniðganga Ólympíuleikana vera óheppilega og til þess fallna að skaða þriðja aðila, Ólympíuhreyfinguna.

Allir gera sér grein fyrir því að ólympíuleikarnir eru íþróttaviðburður. Það er hins vegar mikið vafamál hvort íþróttahreyfingin sé eins ópólitísk og Ólafur vill vera láta. Það er að minnst kosti víst að ólympíuleikarnir eru hápólitískt fyrirbæri. Núna eru Kínverjar til dæmis að nota leikana til að sýna auð sinn og vald meðal þjóðanna og vinna sér inn álit til að vega upp á móti gagnrýni á ástandið í mannréttindum í landinu. 

Það er ómögulegt að komast hjá því að sjá ólympíuleikana í alþjóða pólitísku ljósi. Þar af leiðir að ólympíuhreyfingin er engan vegin ópólitísk hreyfing. Og það var pólitísk ákvörðun að leyfa Kínverjum að halda leikana. 

Er þá hægt að horfa fram hjá því með tilvísin til þess að þetta sé bara '' pólitík'' þegar verið er að brjóta niður þrek og menningarlega reisn fornrar menningarþjóðar sem lengst af sögu sinnar var algjörlega sjálfstæð þjóð með því að segja: Æ, við skiptum okkur ekki af ''pólitík''. Það er verið að drepa menn, hneppa þá í fangelsi fyrir það eitt að krefjast sjálfsvirðingar fyrir þjóð sína og kínversk fangelsi fyrir andófsmenn eru engin heilsuhæli. Þar geta menn frekar búist við pyntingum. 

Ólafur segir að í skoðun sinni felist engin afstaða um það sem sé að gerast í Kína. 

Það er rangt. Í afstöðu hans felst einmitt stuðningur við kúgarann gegn hinum kúgaða. Það er verið að drepa fólk og hneppa það í fjötra. Er það ekki skýr afstaða með kúgaranum að láta sig það engu skipta? 

Hlutleysi er vissulega oft til sem valkostur. En í vissum aðstæðum er hlutleysi ekki neinn raunverulegur valkostur. Þú ert á gangi meðfram vatnsbakka og sérð barn falla í vatnið. Þú hefur um það að velja að reyna að bjarga barninu eða ganga framhjá. Hvort tveggja er verknaður. Siðferðislegt val. Frammi fyrir þessu vali standa nú þjóðir heims.

Það er auðvitað hugsanlegt að andóf heimsins gegn ólympíuleikunum hafi áhrif á þriðja aðila, hina hápólitísku ólympíuhreyfingu. Ef engir yrðu leikarnir myndu hún líklega telja sig hafa orðið fyrir skaða. 

Er sá skaði samt ekki lítilfjörlegur  í samanburði við heill og hamingju heillar þjóðar sem býr auk þess yfir slíkum auði fornra handrita að íslensku handritin verða harla lítilvæg til samanburðar? 

Hér vil ég taka fram utan dagskrár að ég hef alltaf fylgst með ólympíuleikum af miklum áhuga. Ég er enginn andsportisti. 

Og það eru fleiri fletir á þessu máli en Tíbetógæfan. Ólympíuleikarnir í Kína eru meðal annars byggðir á miklu ranglæti og miskunnarleysi í garð kínverskra alþýðu. Hreinni þrælkun. Um það hafa borist áreiðanlegar upplýsingar.

Gerum ráð fyrir að Íslendingur vinni til verðlauna á leikunum. Gætum við í ljósi aðstæðna nokkuð fundið fyrir stolti vegna þess? Myndum við ekki fremur hugsa um það blóð sem hefur þurft að renna til að gera ólympíuleikana að raunveruleika, þá grimmd, kúgun og miskunnarleysi sem er í bakgrunni þeirra?

Ég held að það muni allt skárra fólk gera sem ekki hefur algjörlega skorið á manlega samkennd og samúð í brjóstinu en látið glepjast af glýju og glæsileika. 

 


Hótanir og raunveruleiki

Geir Sigurðsson segir að hótanir um að þjóðir heims hætti við að senda lið á ólympíuleikana vegna Tíbets hafi engin áhrif á leiðtoga Kína. En ef ríki heims myndu í alvöru hætta við að senda fólk á leikana yrðu engir ólympíuleikar og smán kínverskra stjórnvalda yrði óumræðileg.

Boltinn er sem sagt hjá þjóðum heims. Þetta er fyrst og fremst siðferðilegt spursmál.

Jú, jú, ég veit að svona hugmyndir fara ekki vel í suma. En þetta er samt einfalt ráð sem myndi ganga upp. Án þátttakenda verða engir ólympíuleikar.    

Engu var reyndar líkara í Spegli Ríkisútvarpsins en Geir Sigurðsson, forstjóri Asíusetursins, talaði sem sérstakur fulltrúi kínverskra stjórnvalda á Íslandi. 

Aftur var Geir Sigurðsson að bera blak af kínverskum stjórnvöldum í Kastljósi og reyndi allt hvað af tók að gera tíbetska útlaga að ómerkingum. Er ríkisfjölmiðlunum algerlega ofviða að finna einhverja aðra en þennan eina og sama mann til að fjalla um málið? 

     


Vor í lofti

Fólk er nú farið að tala um vor í lofti. 

Það er fyrst og fremst huglæg tilfinning. Hún fer að sækja á fólk eftir langan vetur þegar sólarstundir á björtum dögum ná um það bil tíu klukkustundum sem þýðir að hún skín nánast allan birtutímann. Þetta gerist þegar komið er fram í mars. 

Síðustu dagar hafa verið bjartir og hægviðrasamir en ekki hlýir. Á hverri nóttu hefur verið talsvert næturfrost en hiti örfá stig um hádaginn. Meðalhitinn hefur verið mjög nærri meðallagi áranna 1961-1990 sem er 16. mars aðeins 0,6 stig. Það er fullkominn ofrausn að telja að þá sé vor í lofti.

Eins og áður segir er þetta er fyrst og fremst huglæg tilfinning eftir vetrardrungann og ég er síst af öllu að gera lítið úr henni. En nú langar mig til að setja fram einfaldan hlutlægan kvarða um það hve nær sé komið vor í loftið. Þetta er fyrst og fremst gert til skemmtunar og ber ekki að taka of alvarlega - fremur en lífið yfirleitt.

Ég segi að vor sé í lofti þegar meðalhiti sólarhringsins nær þremur stigum. Þá byrjar gras að spretta. Að  meðaltali gerist þetta 18 apríl. Það er nánast á sumardaginn fyrsta. Í algjöru meðalári, sem aldrei reyndar kemur, er sem sagt komið vor í Reykjavík 18. apríl, nokkrum dögum fyrr syðst á landinu en nokkru síðar norðar á landinu og þetta gerist fyrr þegar meðalhitinn nær þessari tölu, tímabundið eða að staðaldri. Mælikvarðinn er þó alls staðar sá sami á landinu: þriggja stiga meðalhiti svo gras geti sprottið.

Við segjum því að vor sé í lofti þegar meðalhitinn nær þremur stigum. Oft gerist það dögum saman um hávetur. Stundum er þá talað um vor í lofti þó kuldaköst leggi aftur að. Mér finnst að slíkt ástand eigi fremur að kalla vetrarhlákur og ekki sé tímabært að tala um vor í lofti fyrr en komið er fram í mars.

En hvað merkir þriggja stiga meðalhiti í raun og veru fyrir fólk? Hvað upplifir það úti við í slíku ástandi?

Það fer eftir því hvort veður er þungbúið eða bjart. Þegar úrkoma er má búast við 5-6 stiga hámarkshita og lágmarki upp á svona eitt til tvö stig. Það er nokkuð tryggt að ekki snjói að degi til. Þegar bjart er má búast við 7-8 stiga hámarkshita en jafnvel vægu næturfrosti stundum en oftar þó lágmarki um frostmark eða rétt yfir því.

Það má því segja með öðrum orðum að vor sé í lofti þegar dagshitinn nær að minnsta kosti fimm stigum í skýjuðu veðri en sjö í björtu veðri. Lægri hámarkshiti í björtu veðri myndi varla ná þremur stigum í sólarhringsmeðalhita vegna hættu á næturfrostum.

Sem sagt: tveggja til fimm sex stiga hiti yfir sólarhringinn í þungbúnu veðri, 0 til 7 eða 8 í björtu veðri.

Þá er vor í lofti eftir að kemur fram í mars.

 

 


Hvað gera íþróttahreyfingarnar?

200px-Dalai_Lama_1430_Luca_Galuzzi_2007cropDalai Lama, landflótta foringi Tíbetbúa, segir að Kínverjar séu að fremja menningarmorð á tíbetsku þjóðinni. Viðbrögð íbúanna síðustu daga virðast draga dám af örvæntingu til að fá athygli umheimsins þegar ólympíuleikarnir eru framundan og allra augu beinast að Kína.  

Tíbet hefur nú verið lokað, herlög eru í gildi og sagt er að allt að hundrað manns hafi fallið og sýnir það hörku Kínverja. 

En hvað gera íþróttahreyfingar í heiminum? Ætla þær bara að láta sem ekkert sé? Maður gæti ímyndað sér að það yrði ægilegt vopn ef íþróttahreyfingar heimsins settu Kínverjum hreinlega stólinn fyrir dyrnar og segðu:  Annað hvort komið þið fram við Tíbeta eins og menn eða það verða engir keppendur á ólympíuleikunum. 

Hvaða máli skipta glysgjarnir ólympíuleikar í samanburði við  hamingju heillar þjóðar?    


Veldur hálslón jarðskjálftunum?

Erfitt er að túlka þessa frétt frá Veðurstofunni öðru vísi en svo að Hálslón orsaki kvikuhreyfingarnar sem jarðskjálftunum valda við Álftadalsdyngju. Ef þar  gýs mun það verða fyrsta dyngjugos á Íslandi síðan skömmu eftir ísöld. Slík gos geta staðið áratugum saman. Gos úr Trölladyngju í fyrndinni náði niður í Bárðardal.

Nú höfum við til einhvers að hlakka.    


Siggablogg

Þetta blogg er ekkert andskotans Moggablogg.

Það er Siggablogg! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband