Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hótanir

Það eru ekki bara ráðherrar og annað fínt fólk sem fær sendar hótanir í pósti.

Meira að segja ég, sem aldrei hef gert flugu mein að ráði, en skrifað nokkrar blaðagreinar, hef nokkrum sinum fengið sendar hræðilegar hótanir heim til mín.

Ein var frá einhverri frelsaðri jesúfrík. Hún vísaði mér beina leið til eilífs helvítis.

Ég held að  æði margir sem taka þátt í opinberum umræðum hafi sömu sögu að segja. Það er því erfitt að hafa einhverja ekstra samúð með ráðherrum þó þeir fái kaldar kveðjur.

Hins vegar hef ég alltaf samúð með þeim sem senda svona póst. Ég er sannfærður um að enginn þeirra mundi nokkru sinni gera mönnum mein. En það er einhver mikill sársauki í lífi þeirra og þeim er það einhver huggun harmi gegn að fá útrás á þennan tiltölulega skaðlausa  hátt.

Mig undrar að jafn lífsreyndir menn og ráðherrar skuli ekki gera sér grein fyrir þessu og yppta bara öxlum í stað þess að kvarta eins forsætisráðherra gerði í sjónvarpinu í gær, hvað þá að vera að birta á bloggi bænir hinna ógæfusömu um sinnu og athygli. 


Veðrið á sumardaginn fyrsta

Hér er hægt að sjá veðrið á sumardaginn fyrsta allt til ársins 1881.

Meðalhiti, hámarks-og lágmarkshiti er frá 1936 á fylgiskjali fyrir Reykjavík og 1949 á Akureyri en frá Hallormsstað frá 1937-1948. Hámarks-og lágmarkshiti á öllu landinu er frá 1949. 

Einnig sést sólarhringsúrkoman fyrir Reykjavík árin 1885-1907 og frá 1921. Allar tölur eru frá því kl. 9 á sumardaginn fyrsta til kl. 9 daginn eftir. Þegar eyða er í dálki hefur engin úrkoma fallið en 0.0 merkir að úrkoman hafi ekki verið mælanleg.

Sólskinsstundir Reykjavík eru frá 1924 en 1949 frá Akureyri eins og úrkoman þar. 

Árin 1907-1919 er ekki raunverulegur hámarks-og lágmarkshiti fyrir Reykjavik heldur lægsti og hæsti álestur á hitamæla. Frá 1881 til 1902 eru hámarks-og lágmarksmælingar af sírita. Meðaltal þessara mælinga eru hafðar með að gamni en ekki er það alvöru meðalhiti sólarhringsins.

Ég bendi líka á umfjöllun um veðrið á sumardaginn fyrsta frá 1949 á vef Veðurstofunnar.  

Athugasemd: Augljós mistök sem voru á neðsta hluta töflunnar í gær hafa nú verið leiðrétt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vörubílstjórar nota bíla sína sem þungavopn

Nú eru vörubílstjórar búnir að loka suðurlandsvegi við Rauðavatn. 

Um daginn kom ég þar að sem þeir höfðu lagt bílum sínum í Tryggvagötu. Þetta eru engir smáræðis trukkar. Þá varð mér ljóst hvers vegna lögreglan lætur bílstjórana vaða uppi án þess að grípa til nokkurra aðgerða gegn þeim að heitið geti.

Bílarnir eru eins og þungavopn. Það myndi t.d. lítið þýða fyrir lögregluna að handtaka bílstjórana og færa þá á stöðina því enginn lifandi máttur gæti fært þessa mörgu bíla úr stað sem myndu þá teppa umferðina von úr viti.

Þetta vita bílstjórarnir. Þeir fara um sem sveit alvopnaðra manna sem enginn þorir eða getur staðið á móti.

Þeir haga sér eins og frumstæðir ruddar sem vaða áfram í krafti afls og einskis annars. Eftir er bara að vita hvort þjóðfélagið ætlar að láta það líðast að slíkir menn koma kröfum sínum fram, t.d. þá fáránlegu frekju þeirra um hvíldartímann sem dómbærir menn segja að muni stefna lífi og limum vegfaranda í hættu ef hún nær fram að ganga.

Vörubílstjórarnir eru að fremja eins konar hryðjuverk og nota bíla sína sem vopn líkt og aðrir hafa notað flugvélar.


Af æfintýrum Mala

Mali í vandræðum.

DSC00017%20Mali%20ansi%20h%C3%A1tt%20uppi%20_edited

Hjálpin berst á bakka.

DSC00018%20Dekurd%C3%BDrir%C3%B0%20og%20%C3%BEr%C3%A6ll%20%C3%BEess%20

Mali góður með sig.

DSC00015%20Mala%20svala%20lyft%20%C3%AD%20gullst%C3%B3f%20 

 


Bréf til Láru er ekki bjánaleg bók

Í dag skrifar Guðmundur Andri Thorsson í Fréttablaðið  grein um Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarsonar vegna ummæla Egils Helgasonar nýlega um að hún væri ekki góð bók. Guðmundur Andri segir flest sem ég vildi sagt hafa um málið. Bæta má því við að Bréfið er talið upphaf íslenskra nútímabókmennta, ekki síst vegna þess að þar fær hugarflug og snilld frumlegrar sjálfsvitundar í fyrsta sinn að leika frjáls í bókmenntunum. 


Fordómar fagfólks í garð geðsjúklinga

Þetta er fyrirlestur sem ég flutti nýlega á fundi í Reykjavík 

Ég ætla aðallega að beina athyglinni að einni birtingarmynd fordóma, en birtingarmynd sem er mjög afdrifarík fyrir allt þjóðfélagið. Ég vek mönnum þó vara við því að taka því sem segi sem  einhverjum óhagganlegum stórasannleika, þvert á móti er ég mjög meðvitaður um að það sem ég vek athygli á er einungis einn hluti af margbrotnu málefni, en eigi að síður hluti sem full ástæða er til að menn átti sig vel á.

Fordómar spretta ekki upp í hverjum og einum  manni nema að litlu leyti. Menn sækja þá til umhverfisins. Þeir liggja í loftinu. En það er eitthvað sem skapar þá.

Það fólk sem ætti að hafa einna mesta þekkingu á geðsjúkdómum og geðsjúklingum er heilbrigðisstarfsfólkið. Maður gæti því haldið að meðal þess væru fordómarnir minnstir.

Sagt er nefnilega að fordómar eigi upptök sín í fáfræði og þeim verði þá eytt með upplýsingu eða fræðslu. En þetta er bara ekki nema að nokkru leyti rétt. Rannsóknir hafa sýnt að fræðsla hefur einungis áhrif á suma hvað fordóma varðar en ekki aðra. Sumir vilja endilega hafa fordómana sína í friði.

Það eru læknarnir sem skilgreina geðsjúkdómana fyrir hvern sjúkling og ráða einnig ímynd sjúklinganna almennt í samfélaginu í nánu sambandi við þjóðfélagið úti fyrir, valdastofnunina, sem ákvarðar hvaða hegðun og hugsun er talin viðeigandi.  

Fordómar gegn sjúkdómum eiga sér auðvitað langa sögu en flestir hafa minnkað mikið eftir því sem þekking á þeim hefur fleygt  fram. En það er eftirtektarvert að fordómar gegn geðsjúkdómum og geðsjúklingum halda enn miklum velli.

Ég held því fram að nútímafordómar gegn geðsjúkdómum sæki ekki mesta kraft sinn og seiglu til dægurmenningarinnar, glæpasagna og kvikmynda þó nóg sé af þeim þar, heldur fyrst og fremst til heilbrigðisstéttanna sjálfra og þá læknanna framar öllu. Og nú ætla ég að fær rök fyrir þessari  skoðun.   

Það er beinlínis sláandi hvernig fordómar, stimplanir og neikvæðar ímyndir birtast í bókinni Kleppur í hundrað ár hvað varðar viðhorf starfsfólksins til sjúklinganna. Þar kemur vel fram hve þetta viðhorf var gersneytt allri virðingu. Strax á fyrstu árum spítalans var litið á þá sjúklinga sem voru með gagnrýnisraddir eins og þeir væru haldnir af hverri annarri vænisýki sem fékk það læknisfræðilega heiti paranoia querulans.

Þetta neikvæða viðhorf er eiginlega eins og rauður þráður í bókinni og á sér fjölbreyttar birtingarmyndir, kemur t.d. fram í viðhorfi lækna til sakamanna og þeirra sem gerður var á heilaskurður vegna geðrænna frávika sem okkur finnst nú á dögum að hafi verið algjört smáræði. En þetta voru eiginleikar sem hegðunarviðmið samtímans, oft og tíðum hreinn smáborgaraháttur, fannst ekki við hæfi og þær voru færðar í virðulegan fræðilegan búning af læknum sem höfðu valdið til að skilgreina og grípa inn í. Læknarnir voru þarna ekki fyrst og fremst handbendi yfirvalda og vanahugsunar heldur virðist sem þeir hafi mótað hana miklu fremur, verið áhrifavaldur nr. 1 í þjóðfélaginu í þessum efnum. Einn fyrrverandi starfsmaður sagði um reynslu sína af Kleppi: Mér finnst alltaf hlálegt að heyra forsvarsmenn spítalans segja frá baráttunni gegn fordómum úti í samfélaginu. Mestu fordómarnir hafi verið inni á Kleppi sjálfum.

Lýsing Guðbergs Bergssonar rithöfundar á samfélagi starfsfólks á Kleppi í einni af bókum sínum hnígur að því sama. Starfsliðið hafði  megnustu andúð á sjúklingunum.

Samskipti aðstandenda og lækna virtust einnig að miklu leyti vera á sömu bókina lærð. Læknarnir fyrirlitu aðstandendur af öllu hjarta og kenndu þeim jafnvel um ástand sjúklinganna. Virðing og tillitssemi sýnist hafa verið nánast óþekkt hvað þetta varðar.  

Svona horfir þá málið við gegnum sögu íslenskra geðheilbrigðismála.

Lítum nú til okkar tíma.

Kannanir erlendis á því hvort geðheilbrigðisstarfsfólk hafi minni fordóma til geðsjúklinga en allur almenningur hafa leitt í ljós  að svo sé alls ekki.

Komið hefur fram að starfsfólkið vill halda sjúklingunum í alveg jafn mikilli fjarlægð og almenningur. Þó skyldi maður halda að meðal þess væri þekkingin meiri en annars staðar og ef satt er að fordómar stafi af þekkingarleysi þá ætti þetta ekki að vera svona.

En fordómar eða hleypidómar starfsfólks stafa bara ekki af þekkingarleysi. Þeir miða fremur að því að festa í sessi  stöðu þess sjálfs  og virðingu í samfélaginu og það gerist m.a. með lítilsvirðandi viðhorfum í garð hóps sem sem talinn er óæðri og þetta er gert til að bæta eigin sjálfsmynd og vellíðan starfsfólksins. Þjóðfélagið er auðvitað fullt af öðru eins á mörgum sviðum þegar um er að ræða félagslega hópa þegar valdastaðan er ólík á milli þeirra, ekki aðeins á sviði geðheilbrigðismála. Til þess að breyta þessu ástandi verður valdameiri hópurinn, læknar og annað fagfólk, að endurskoða afstöðu sína til sjúklinganna.

Viðamikil rannsókn þar sem kannaður var hugur geðlækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og annarra sem fengust við meðferð til 22 jákvæðra og neikvæðra staðalímynda sem notaðar voru til að lýsa fólki með geðraskanir, leiddi í ljós að viðhorf þessara fagstétta eru ekki frábrugðin skoðunum almennings á geðsjúkum. Það kom jafnvel fram að af þeim heilbrigðisstéttum sem kannaðar voru höfðu geðlæknarnir neikvæðustu viðhorfin til sjúklinganna

Sambærilegar niðurstöður blasa við í fleiri rannsóknum og sýna að „nánast 75% þeirra draga fram að viðhorf geðheilbrigðisstarfsfólks séu sambærileg þeim sem finnast meðal almennings eða eru jafnvel verri". Og hér var ég að vitna í Steindór Erlingsson vísindasagnfræðing sem hér á landi hefur kynnt þessar rannsóknir fyrir þjóðinni í nokkrum blaðagreinum.

Nú, það er þá ekki hægt að gefa mikið fyrir það að líta til geðlækna sem merkisbera í baráttu gegn fordómum gegn geðsjúkdómum og geðsjúklingum þrátt fyrir fögur orð oft og tíðum úr þeim herbúðum. Sögulegur vitnisburður frá Íslandi, þó af skornum skammti sé, en samt það eina sem til er,  og erlendar rannsóknarniðurstöður sýna bara allt annað.

Að þessu  sögðu er rétt að benda á, að ég er hér ekki að fjalla um getu geðlækna til að lækna fólk, aðeins viðhorf þeirra til sjúklinga sinna, fordóma þeirra gegn þeim.  

Það er því fullkomlega ljóst að sjúklingarnir hafa á enga aðra að treysta í baráttunni gegn fordómum en öfluga baráttu þeirra  sjáfra. En þar er þó á ýmsan hátt við ramman reip að draga. Þó ýmsir einstaklingar hafi komið fram á sjónarsviðið síðustu áratugi og starfandi hafi verið félög sjúklinga í langan tíma hefur þessum hópum ekki enn tekist að skapa jafn sterkt andrúmsloft og drifkraft eins og ýmsum öðrum réttindahópum hefur tekist um sína hagi.

Ég held að ástæðan sé ekki síst sú að þeir sem öllu ráða í þessum efnum, læknaveldið, hafa ekki viðurkennt þessar raddir í reynd og fremur unnið gegn þeim í krafti fálætis og valds sins á öllum sviðum geðheilbrigðismála.

Það er mikilvægt í þessu sambandi að fyrrverandi sjúklingar dragi sig ekki í hlé þegar þeir öðlast bata heldur verði virkir í baráttunni. En menn eru bara svo fegnir að losna undan sjúkdómsokinu að þeir fara fremur að lifa lífinu í stað þess að berjast fyrir aðra. Og þetta er líklega ein af ástæðunum fyrir því að geðsjúklingum hefur ekki enn tekist að verða nægjanlega öflugir og upplitsdjarfir í baráttu sinni. Þeir þurfa að ná til stjórnvalda á þann hátt að þau taki tillit til sjónarmiða þeirra, að þeir fari í raun og veru að hafa áhrif á viðhorf þjóðfélagsins til geðsjúkdóma og geðsjúklinga. Það sem vantar er einhver róttæk og öflug hugsjón sem drífur allt með sér. Það hefur ekki enn orðið nema að litlu leyti.

En kannski vantar það allra helst, að einhver stjórnmálamaður í fremstu röð, orðhvatur og fylginn sér, gangi nú ærlega af göflunum og fari ekki undan í flæmingi með krankleika sinn heldur eyði kröftum og áhuga það sem eftir er ævinnar í það að reyna að eyða fordómum gegn geðsjúklingum. Annað eins hefur nú gerst í öðrum löndum! En reynslan sýnir því miður að stjórnmálamenn hér á landi fara undan í voðalegum flæmingi þegar þeir eru slegnir  geðrænum hremmingum. Þetta er því kannski draumsýn enn sem komið er.

Við verðum því áfram að treysta á hina hversdagslegu og lítt þekktu geðsjúklinga. 

Á allra síðustu árum er eitt og annað sem bendir til þess að ný hugsun og viðhorf til geðsjúkdóma sé að byrja að láta á sér kræla. Hún er fyrst og fremst borin upp af sjúklingunum sjálfum eins og vera ber. Angi af þessu eru íslensk félagssamtök eins og Hugarafl sem vilja hafa áhrif á þjónustu og viðhorf til geðsjúklinga út frá reynslu þeirra sjálfra. Geðhjálp hefur þarna einnig hlutverki að gegna þó það félag sé stundum óþarflega mikið mótað af hefðbundnum viðhorfum geðlæknaveldisins.

Þarna er vonarneistinn sem við getum borið í brjósti með það það að baráttan gegn fordómum í garð geðsjúkdóma sé ekki alveg vonlaus.

Fyrst og fremst þurfum við að hafa það alveg á hreinu að þessi barátta vinnst ekki af neinum öðrum en sjúklingunum sjálfum.

Þeirra er valdið og það er eins gott að þeir fari fara að beita því. 


Vorar hægt á norðausturlandi

Eins og menn hafa orðið varir við hefur hlýnað mjög síðustu daga. Hámarkshiti á landinu hefur verið 12-15 stig sem er reyndar ekkert rosalega mikið miðað við það sem orðið getur á þessum árstíma. Sjá veðurdagatalið fyrir arpíl. Það er hæð yfir landinu sem á sér fremur hlýjan uppruna og er hún mest á austanverðu landinu. En loftið kólnar með tímanum. 

Í nótt var allt annað en vorlegt á heiðunum á norðausturlandi. Í Möðrudal á Fjöllum fór frostið í 13,8 stig og 10,4  á Brú á Jökuldal. Við Upptyppinga varð kaldast á landinu. Þar varð frostið 14,5 stig.

Á "yfirliti" á vef Veðurstofunnar eru allt aðrar og lægri lágmarkshitatölur sem þeir segja að hafi mælst frá því klukkan 18 í gærdag til klukkan 9 í morgun. Svona hefur þetta gengið í nokkur ár. Það þykir meira mál að kippa þessu í lag heldur en mata þjóðina á röngum upplýsingum  ár eftir ár.  

Í gærdag komst hitinn í Möðrudal í 6,2 stig og er því dægursveiflan tuttugu stig. Á Brúarjökli, í 800 metra hæð, var þó enn meiri dægursveifla í gær, eða 21,3 stig, frá, -11,7 upp í 9,6. Hreint ótrúlegt! 

Á þessum slóðum er heiðskírt eða léttskýjað og útgeislun mikil í kyrru veðri á nóttum en þegar loftið fer að hreyfast vegna sólarhitans tekst hlýja loftinu ofan til að slá til jarðar stöku sinnum.  

Ég læt svo lesandanum eftir að dæma um hvort vorið sé komið á heiðunum á norðausturlandi.

Meðalhitinn í apríl er nú kominn upp fyrir meðallagið í Reykjavík og mun ekki fara niður aftur alveg á næstunni.  


Eins og við manninn mælt

Þegar ég hafði bloggað í gær um viðbrögðin við grein Árna Tryggvasonar leikara í Morgunblaðinu sagði ég við sjálfan mig: Á morgun skrifar svo Morgunblaðið leiðara um hana og hrósar Árna fyrir hugrekki.

Og það var eins og við manninn mælt. Í dag skrifar Morgunblaðið einmitt leiðara um málið og segir í lokin um ritun greinarinnar:  

"Til þess þurfti kjark".

Hvað sem segja má um grein Árna þá þarf hreint út sagt lítinn kjark til að skrifa svona grein nú á dögum. En kannski fyrir mörgum árum. En Morgunblaðið lifir í sífelldri nútíð og er gleymir því jafnharðan að menn hafa verið að ræða um geðsjúkdóma á ýmsa vegu í meira 30 ár. En alltaf rýkur Mogginn fram eins og séu að gerast fáheyrð tíðindi í hvert skipti sem einhver merktarpersóna nefnir geðræn vandræði.

Annars fer blaðið í  leiðaranum í dag fram úr sjálfu sér í lágkúru. Eftir að það hefur rakið orð Árna um að vondan aðbúnað sjúklinga á gedeild Landsspítalans segir blaðið með þeim æðstráðsþunga sem það hefur tamið sér í leiðaraskrifum:

"Hér lýsir þjóðkunnur leikari reynslu sinni sem sjúklings á geðdeild ... 0rð hans hljóta að vega þungt."

Ekki verður annað séð en að Morgunblaðið telji að orð Árna vegi þungt einungis af því að hann er þjóðkunnur leikari. Hann er reyndar ekki bara þekktur heldur er hann ein af eftirlætispersónum þjóðarinnar, Lilli klifurmús og allt það. Ef einhver óþekktur vitfirringur hefði verið skrifaður fyrir greininni hefði blaðið ekki tekið við sér. Þyngd orða í skilningi Moggans fer ekki eftir efnisinnihaldi þeirri heldur eftir því hver segir þau. 

Nú tek ég það fram að ég ber mikla virðingu fyrir Árna bæði sem manni og listamanni. Gagnrýni minni er alls ekki beint gegn honum heldur yfirdrifnum viðbrögðum sem orðið hafa við grein hans sem stafa augljóslega af hneigð manna til að hóa í lætin með fræga fólkinu fremur en raunverulegum áhuga á aðstöðu sjúklinga á geðdeildum.  Ég bloggaði líka um þetta í gær. Þar benti ég á það að menn hafa verið að gagnrýna aðbúnað sjúklinga á geðdeildum árum árum saman án þess að nokkur hafi tekið við sér. Svo kemur eftirlætispersóna og þá fer allt af stað.

Það er hætt við því að áhugi og viðbrögð á slíkum forsendum risti ekki djúpt og verði fljótlega að engu í flaumi nýs fjölmiðlaefnis.

Það er sárt fyrir þá sem hafa verið að reyna að vekja athygli á stöðu geðveiks fólks áratugum saman, yfirleitt fyrir daufum eyrum, að horfa upp á þá sýndarmennsku sem farið hefur í gang út af grein Árna Tryggvasonar.

Svo verður það að segjast eins og er að geðveikislega þunnir leiðarar Morgunblaðsins um geðheilbrigðismál, sem koma tugir saman á hverju ári, eru orðnir einhver erfiðasti Þrándur í götu fyrir skynsamlega umræðu í landinu um þennan málaflokk.


Orð í tíma töluð

Mikið lifandis skelfingar ósköp er leiðinlegt að blogga.

Og á Moggablogginu eru saman komnir mestu hálfvitar sem safnast geta saman.

Gefið gaum að orðum hins vitra manns.

Vísið þeim eigi út í hafsauga með skammsýni og drembilæti.

Sjá ég boða yður lítinn fögnuð:

Bloggið er búið að vera.   


Ekki nýjar fréttir

Grein í Morgunblaðinu eftir Árna Tryggvason um ófullnægjandi aðstöðu sjúklinga á geðdeild Landsspítalans hefur sett  vefmiðla, fjölmiðla og ýmsa bloggara á hvolf.

Það er þó ekkert nýtt að menn, að sjúklingum meðtöldum, gagnrýni aðbúnað sjúklinga á geðdeildum. Það hefur verið gert í nokkra áratugi. Það hefur bara enginn hlustað. 

En núna, af því að það er þekktur leikari, Árni Tryggvason, með allri virðingu fyrir honum, er eins og menn séu að heyra einhver spáný tíðindi.

Ekkert sýnir betur áhugaleysi þjóðarinnar á aðbúnaði geðsjúkra en einmitt þetta. Þegar einhver frægur talar fer allt á stað þó menn hafi fullkomlega hundsað allar raddir um það sama þangað til.

Sannleikurinn er sá að Íslendingar líta niður á geðsjúklinga og hafa alltaf gert. En fjölmiðlar og fleiri eru veikir fyrir fræga fólkinu og því sem það segir.

Þetta segir allt sem segja þarf um hug þjóðarinnar til þeirra sem þjást af geðsjúkdómum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband