Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
30.9.2008 | 13:37
Votviðrasamur september á suður-og vesturlandi
Nú er ljóst að þessi september er sá annar úrkomumesti sem mælst hefur í Reykjavík. Metið er frá 1887, 176,0 mm, en nú reikna ég úrkomuna 173,6 mm.
Víða á suður-og vesturlandi er ljóst að þetta er úrkomusamasti september síðan mælingar hófust. Hér verða nefnd nokkur dæmi um stöðvar sem settu met og innan sviga er árið þegar mælingar á þeim hófust.
Fyrst er þá Stykkishólmur (1856) þar sem metið frá 1933 var glæsilega slegið. Þar fauk líka sólarhringsúrkomumetið. En auk þess Andakílsárvirkjun (1950) þar sem úrkoman núna var hátt upp í helmingi meiri en hún hefur áður verið, 1959; Stafholtsey (kringum 1990), Ásgarður í Dölum (1992), Mjólkárvirkjun (1960), Hólar í Dýrafirði (1982), Hæll í Hreppum (1927). Annars staðar en á suðurlandi, vestan við Mýrdal, og upp á sunnanverða Vestfirði, er langt í frá að úrkoman í þessum mánuði sé eitthvað sérstök, nema á Kvískerjum í Öræfum, úrkomusamasta stað landsins. Mér kæmi ekki á óvart þó þessi mánuður hafi þar sett Íslandsmet í úrkomu í september, en ekki hafa síðustu daga komið þaðan fréttir inn á netið nema frá sjálfvirku úrkomustöðinni.
Ekki þori ég fyrir mitt litla líf að nefna tölur því þær hef ég kannski sumar ekki alveg hundraðprósent réttar, en ég þori að hengja mig upp á þessi met. Nú, ef þau eru ekki rétt, þá hengi ég mig bara - og þó fyrr hefði verið!
Meðalhitinn í Reykjavík er í kringum 9,4 stig sem eru talsverð vonbrigði því hann var 10,1 stig þ. 24. Sólskinsstundir eru eitthvað nærri 100 sem er hvorki mikið né lítið. Mánuðurinn er annars hlýr um allt land og líklega víðast hvar tiltölulega hlýrri annars staðar en í Reykjavík og jafnvel í hreinum tölum. Á austurlandi kemur mánuðurinn mjög vel út, held ég.
Sumar á Íslandi er talið vera frá júní til september. Ekki er hægt að segja annað en þetta ágæta sumar endi alveg hörmulega. Nú er hálfgert vetrarveður fyrir norðan og í morgun var alhvít jörð og snjódýpt 1 cm á Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og jörð talin flekkótt af snjó á nokkrum stöðum á norðausturlandi. Þetta er fyrsti haustsnjórinn. Hiti núna er langt undir meðallagi og vel getur verið að fara að snjóa í Reykjavík næstu daga. Eitthvað álíka hefur auðvitað gerst áður en þetta er alveg jafn andstyggilegt fyrir því. Október hefur oft verið ljúfur síðustu árin og stundum verið sumarveður.
Nú leggst það í mig að verði óárán hin mesta í vetur og muni hann Lurkur kallaður verða eður Hreggviður!
Veðurfar | Breytt 30.10.2008 kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
27.9.2008 | 13:37
Nokkur úrkomumet mánaðarins fallin
Ef mér er ekki farið að förlast því meira sé ég ekki betur en að mánaðarúrkomumet í september á ýmsum stöðum á suður- og vesturlandi séu þegar fallin. Þar skal fremst telja sjálfan Stykkishólm þar sem úrkoma hefur verið athuguð frá 1856. Aðrir staðir, með mismunandi langa mælingasögu, eru t.d. Andakílsárvirkjun, Stafholtsey, Bláfeldur, Ásgarður, Hólar í Dýrafirði og Hæll í Hreppum.
Úrkomumetið í Reykjavík frá 1887 er í nokkurri hættu en Íslandsmetrið frá Kvískerjum frá 1999 er í stórhættu ef það er þá ekki þegar fallið.
Ekki ætla ég að nefna neinar tölur að sinni, en ekki verður síður spennandi að sjá uppgjörið við mánaðarlok en fylgjast með þessum stelpulandsleik við Frakka sem nú er að byrja.
Ekkert hefur komið á netið frá sjálfvirku veðurstöðinni í Súðavík síðan um miðjan júlí. Ekki veit ég hvað veldur en oft þagna sjálfvirku stöðvarnar vikum saman og fólk veit ekki hvort viðkomandi stöð er hætt eða biluð. Hvað segja íbúar sveitarfélaga þegar ekkert heyrist mánuðum saman frá veðurstöðvunum hjá þeim? Kvartar enginn? Mér finnst að Veðurstofan eigi a.m.k. að tilkynna það á einhvern hátt þegar stöðvar eru lagðar niður. Þá veit fólk af því og líka það að þögn stöðva er þá tímabundin þó langur tími sé ef vitað er að hún hefur ekki verið lögð niður.
Bloggar | Breytt 1.10.2008 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2008 | 16:05
Ekki vanþörf á
Rauði krossinn ætlar að láta gera óháða rannsókn á húsleit lögreglunnar hjá hælisleitendum í Reykjanesbæ. Og þeir telja að tilefni sé til að rannsaka sérstaklega yfirlýsingar stjórnvalda um málið. Þær voru enda vægast sagt einsleitar og fordómavekjandi. Rauði krossinn hefur skýrt ýmislegt með eðlilegum hætti sem stjórnvöld lögðu sig í líma við að útmála í ljósi sem var fulllt af fjandskap og stækum fordómum. Og eftir bloggsíðum að dæma hafa ýmsir tekið þessu fagnandi til að opna sálarskjóður sinar fyrir óvild í garð hælisleitenda þar sem bullandi fordómar hafa ráðið ríkjum og hafa til dæmis tekið á sig þær myndir að setja samansemmerki á milli hælisleitenda og ólöglegra innflytjenda.
Yfirvöld í þessu dæmi eru fyrst og fremst lögreglustjórinn í Keflavík og aðstoðarmenn hans. Það er því hreinlega óhugnalegt að stofnaður hafi verið sérstakur stuðningshópur við hann vegna þess að dómsmálaráðherra vill auglýsa starf hans til umsóknar. Ólíklegustu menn hafa verið að hrósa starfsháttum lögreglustjórans eins og t.d. Þráinn Bertelsson á baksíðu Fréttablaðsins í dag.
En farið hefur fé betra ef hann verður látinn fjúka.
Fagna ber hins vegar framtaki Rauða krossins um rannsókn á húsleitinni.
Neikvæðar afleiðingar fyrir hælisleitendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.9.2008 | 10:32
Svartsýniskast
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.9.2008 | 00:33
Klukkinu loksins svarað
Sæmundur klukkaði mig fyrir löngu og nú svara ég því loksins. En ég nenni ekki að halda mig við þessi atriði sem allir nota nema að nokkru leyti og bý bara til mitt form.
Fjórar vitleysur sem ég hef gert um dagana:
Lesið mikið fagurbókmenntir svokallaðar
Afneitað guði
Kosið Samfylkinguna
Skrifað bækur
Fjórar bíómyndir sem ég held mikið upp á:
Vertigo (eftir Hitchcock frá 1958, nær tíðarandanum alveg).
Rushmore
Sigur viljans (áróðursmynd um nasismann eftir Lenu Riefensthal, er samt ekki nasisti heldur bara áhugasamur um fáránleika lífsins).
Bringing up Baby (fyndnasta mynd sem ég hef séð).
Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:
Vestmannaeyjar
Akranes
Junkaragerði við Hafnir
Reykjavík
Fernt sem ég get ekki þolað:
Jazz
Yfirborðsleg jákvæðni
Auðmýkt gagnvart valdinu
Vald örlaganna
Fernt sem ég læt mér vel líka:
Íslenskt veðurfar
Klassísk músik
Sætar stelpur
Skemmtilegt fólk
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Vínarborg
Róm
Krít
Teigarhorn við Berufjörð (til að sjá staðinn þar sem hitametið var framið!)
Fernt sem mér býður við matarkyns
Blóðmör
Skata
Hafragrautur
Grænar baunir (fæ grænar bólur þegar þær eru á borðum)
Fjórar bækur sem ég hef lesið upp til agna:
Veðráttan (mánaðar-og ársrit Veðurstofu Íslands)
Árferði á Íslandi í þúsund ár
Veður á Íslandi í 100 ár
Bréf til Láru
Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra (má nú ekki bregðast mér!)
Ólína Þorvarðardóttir
Jón Valur Jensson
Páfinn
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2008 | 14:19
Þegar ég var tónlistargagnrýnandi
Um daginn hringdi í mig maður til að spyrjast fyrir um tiltekna tónlistargagnrýni sem ég skrifaði fyrir mörgum árum.
Þetta rifjaði upp fyrir mér að ég var tónlistargagnrýnandi æði lengi og skrifaði um klassíska tónlist. Eins og svo margt annað í lífinu varð það fyrir tilviljun. Ég átti vin sem var góður kunningi Jóns Baldvins Hannibalssonar sem ég þekkti aðeins lítillega. Hann dubbaði þennan vin minn upp í það að verða leiklistargagnrýnandi á Alþýðublaðinu þar sem Jón Baldvin var þá ritstjóri. Og einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fylgdi með í kaupunum sem tónlistargagnrýnandi. Þetta var í júní 1980.
Á Alþýðublaðinu var ég í þrjú ár. Næst lá leið mín á Helgarpóstinn.
Lengst var ég þó á gamla góða Þjóðviljanum en þar var ég frá því haustið 1987 og þar til blaðið fór á hausinn. Eftir það var gefið út helgarblað á vegum Þjóðviljans og þar krítiseraði ég alveg vilt og galið.
En það blað fór líka á hausinn. Um tíma var ég þá á DV.
Síðan liðu nokkur ár og ég var ekki að gagnrýna eitt né neitt. Hustið 2004 gerði Páll Baldvin Baldvinsson mig að tónlistargagnrýnanda DV. Þar var ég svo þar til blaðið fór á hausinn. Allir fjölmiðlar fara á hausinn sem ég krítisera fyrir. Seinna var Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir - Tóta pönk - menningarritstjóri á DV og heyrði ég undir hana. Við urðum þá miklir mátar og hún er ein af uppáhaldsvinkonum mínum. Hún elskar líka Þórberg eins og ég gerði einu sinni. Nú er ég búinn að sjá í gegnum hann!
Það skiptist nokkuð í tvö horn hvernig mönnum fannst gagnrýni mín. Sumir voru voða hrifnir, þar með taldir ýmsir meiriháttar tónlistarmenn en aðrir ekki. Ég var ekki í neinum klíkum í tónlistarheiminum enda ekki tónlistarmaður. Ég lá auðvitað vel við höggi fyrir það. Og mér fannst óþægilegt að skynja þykkju og þótta í minn garð frá sumum. Hann kom ekki síst fram þegar menn voru orðnir fullir. Stundum var skrifað gegn mér í blöðin, en ekki þó oftlega. Ég var stundum óhefðbundinn í skrifum mínum og held að það hafi truflað ýmsa. En oft var ég líka mjög hefðbundinn.
Það ríkti á Íslandi mikil fyrirlitning á tónlistargagnrýnendum meðal tónlistarmanna, sumra að minnsta kosti. Tónlistarmenn hafa oft verið hörundssárir vegna gagnrýni. Hins vegar virðist það hafa verið alveg sjálfsagt að þeir létu óhefta fyrirlitningu sína á gagnrýnendum í ljósi og auðmýktu þá á prenti eins og hver vildi. Sumir tónlistarmenn virðast blátt áfram hafa haft nautn af því að lítillækka þá með smánarlegum orðum. Það þótti alveg sjálfsagt. Þannig var mórallinn. Nú er tónlistargagnrýni útdauð nema á Morgunblaðinu þar sem þrengt hefur þó verið svo að henni að hún er hvorki fugl né fiskur.
Ég var ungur þegar ég byrjaði að krítisera. Kannski var ég fyrstu árin dálítið óvæginn og sé eftir sumum dómum. Með árunum hefur mér fundist það vera eitt af keppikeflunum í lífinu að sýna öðru fólki ekki tillitsleysi. Hins vegar er náttúrlega óhjákvæmilegt að gagnrýna það sem miður fer í listdómum, jafnvel harðlega. En ekki er þó sama hvernig það er gert.
Já, ég er orðinn eitthvað svo óþolandi yfirvegaður og djúpvitur í seinni tíð! Því til sönnunar birti ég mynd sem tekinn var af mér fyrir nokkrum dögum. Ég rorra alveg í viturleika og yfirvegun! Ef smellt er þrisvar á myndina verður hinn ógnvænlegi gagnrýnandi larger than life!
Tónlist | Breytt 6.12.2008 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.9.2008 | 12:30
Sumarið er víst búið í Reykjavík
Síðustu fimm dagar hafa verið andstyggilegir, hvassir og blautir. Það hefur ekki verið hægt að njóta lífsins úti eins og verið hefur. Þetta veðurlag kom í kjölfar illviðrisins sem skall á að kvöldi þ. 16. Og á að halda áfram næstu daga. Veðurlag af þessu tagi endar æði oft í norðanátt og kulda. Mér skilst að svo muni núna líka fara. Þá birtir til á suðurlandi en hitinn verður ekki lengur yfir tíu stigum á daginn heldur miklu lægri. Fyrir norðan er þá spáð slyddu. Á austurlandi hafa síðustu dagar verið góðir og sumir segja að þar hafi sumarið fyrst byrjað í september.
En sumarið er sem sagt búið hér í Reykjavík!
Meðalhitinn það sem af er september er þó enn kringum tíu og hálft stig eða tvö og hálft fyrir ofan meðallag. Hann er sem sagt með hlýjustu septembermánuðum en mun varla gera miklar rósir að leiðarlokum. Í nótt féll hitinn niður í 3,5 stig. Jafn kalt var 19. júní en ekki hefur verið kaldara síðan 21. maí. Annars hefur veðrið undanfarið verið þannig að maður yrði ekkert undrandi þó það færi að snjóa. Einstaka sinnum hefur snjó fest í Reykjavík í september, síðast árið 1969. Úrkoman í borginni er kominn langt yfir meðallagið og á víst heilmikið eftir að bætast við.
Fátt er betra en bjartir góðvirðisdagar en samt hlýir í kringum haustjafndægur. Þá fáum við líklega ekki að þessu sinni. Til að menn viti hvað ég á við birti ég kort á hádegi af einum slíkum en þá var blíðuveður á suðvesturlandi. Mikið man ég vel eftir þessum degi. Það var fyrsta haustið eftir að ég fékk veðurdelluna, einkennilegustu og nördalegustu dellu í heimi!
Ég hef verið að skrifa pistla hér á blogginu um hlýjustu og köldustu mánuði á landinu. Byrjaði ég á þessu í október í fyrra og er nú að skrifa um september og verður þá þessari syrpu lokið. Síðasti pistillinn mun birtast hér á blogginu næstu daga við gífurleg fagnaðarlæti minna hysterísku aðdáenda sem reyndar hefur fækkað mjög síðustu daga. Bráðum verða þeir fyrrverandi hysterískir aðdáendur!
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.9.2008 | 00:30
Óskalisti um sjálfvirkar veðurstöðvar
Það eru komnar æði margar sjálfvirkar veðurstöðvar. En þær mættu vera miklu fleiri.
Hér set ég saman óskalista um veðurstöðvar sem ég myndi setja upp ef ég ætti peninga eins og arabískur olíufursti. Það sem ég miða við er að ekki séu veðurstöðvar á þeim stöðum sem ég vel og hinar og þessar veðurfarslegar ástæður sem ég nenni ekki að rekja, en framar öllu ræður sérviska mín og nördaháttur. Ég tek fram að ég hef sjálfur komið á langflesta þessa staði og virkilega pælt í þeim.
Við Nesstofu á Seltjarnarnesi.
Þak Landsímahússins. Þar athugaði Veðurstofan á árunum 1931-1945.
Laugardalur, aðeins vestan við grasagarðinn, á grasflötunum við brýrnar.
Fossvogsdalur.
Hólmur við Rauðhóla. Þar var athugað í allmörg ár eftir 1960 og reyndist þetta vera einhver mesti kuldapollur á landinu.
Reykir í Mosfellssveit.
Laxnes í Mosfellsdal.
Meðalfell í Kjós. Þar var áður úrkomustöð.
Akranes. Þar var athugað nokkur ár en nú er þar sjálfvirk stöð Siglingamálastofnunar á bryggjunni en ég vil fá mína stöð í grennd við grunnskólann.
Vatnaskógur þar sem börnin læra guðsorðið og vera góð börn og hlýðin.
Lundur í Lundareykjadal.
Reykholt.
Hreðavatn. Þar var ég með fjölskyldu minni í sumarbústað góðviðrissumarið 1957.
Hraunholt í Hnappadal. Þar bjó föðurgrein móðurættar minnar í nokkra ættliði. Gæti trúað að þarna sé mikil útgeislun.
Hjarðarfell á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem nú er úrkomustöð.
Hamraendar í Mið-Dölum þar sem voru athuganir um áratugaskeið.
Bjarkarlundur. Þar er blómlegt.
Gufudalur. Ég hef ekstra freudískan áhuga fyrir þessum dal og veðurfari hans en Freud sá alltaf eitthvað kynferðislegt í djúpum dölum og löngum fjörðum!
Skálmarfjörður í Barðastrandarsýslu. Samkvæmt hitaspám í Belgingi virðast hitar á sumrin ná sér þar betur á strik en víðast hvar annars staðar á svæðinu.
Vatnsfjörður, við brúna, en ekki í Flókalundi. Við enda dalsins er vatn í aðeins 8 metra hæð og þar inn af er sléttur völlur en þröngur og fjöll til beggja handa. Þarna er áreiðanlega margt skrýtið að gerast í veðrinu og ég vil fá aðra stöð þar! Sem sagt: Tvær stöðvar í hinum ómótstæðilega Vatnsfirði.
Mjólkárvirkjun þar sem nú er úrkomustöð.
Þórustaðir í Önundarfirði eða grennd. Þarna var lengi athugað.
Suðureyri þar sem líka var lengi athugað.
Botn í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Æsilegur staður!
Langidalur inn af Ísafjarðardjúpi þar sem brúin er yfir, lengst inni í þessum afskekkta og heillandi dal, þar sem áreiðanlega er frábært en þó kaldranalegt veðurfar.
Einhver góður staður í Jökulfjörðum, helst þó einhvers staðar austan við Hesteyri þar sem athugað var í nokkur ár, kannski í Veiðileysufirði.
Reykjarfjörður á Ströndum, á bænum fyrir botni fjarðarins, kannski alveg eins í Djúpuvík.
Gilstaðir í Selárdal. Þar er smávegis kjarr og þetta er álitlegur dalur.
Víðidalstunga þar sem athugað var í stuttan tíma á mestu velmektardögum Framsóknarflokksins.
Bólstaðarhlíð.
Stokkhólmi í Skagafirði. Þarna er marflatt og í aðeins nokkra metra hæð yfir sjó. Frábært! Hvað eru menn að æða yfir 100 m hæð með veðurstöðvar þarna eins t.d. á Nautabúi.
Fljótin, fyrir sunnan vatnið. Á Hraunum fyrir norðan vatnið var athugað all-lengi í kringum 1930.
Urðir í Svarfaðardal.
Bægisá í Hörgárdal. Þar í grennd dukknaði djákninn.
Vel á minnst. Endilega stöð á Myrká. Þar sést víst aldrei til sólar fyrir fjöllum. En hvað með hafgoluna?
Grenivík.
Nes í Fnjóskadal. Þessi staður er í um 60 metra hæð en veðurstöðvarnar í þessum dal liggja ægilega hátt.
Ljósavatn. Þar er sagt að alltaf sé logn þó rok sé allt um kring.
Sandhaugar í Bárðardal. Frábær dalur en Mýri, þar sem er mönnuð veðurstöð, er svo langt inni í dalnum.
Einarsstaðir í Reykjadal eða jafnvel Laugar. Hvað gerist þar þegar Staðarhóll er að brillera?
Skútustaðir við Mývatn.
Ásbyrgi. Þar er sjálfvirk stöð, utan við byrgið, en ég vil fá mína inni í byrginu sjálfu en þar verður kannski hlýrra en annars staðar á landinu við vissar veðuraðstæður.
Kópasker.
Svalbarð í Þistilfirði.
Hof í Vopnafirði en þar voru athuganir í nokkur ár og varð æði heitt í suðvestanáttinni á sumrin.
Fossvellir í Jökuldal.
Dratthalastaðir á Úthéraði. Á þeim slóðum voru athuganir mjög lengi og eru reyndar enn á Svínafelli í grenndinni.
Borgarfjörður eystri. Hvað gerist þar í asahláku í suðvestanátt?
Skriðuklaustur í Fljótsdal. Á næsta bæ, Valþjófsstað, er skráður mesti meðalhiti nokkurs mánaðar á Íslandi, í ágúst 1880, fjórtán glæsistig. Í nokkur ár voru mannaðar veðurathuganir á Skriðuklaustri.
Breiðdalur, kannski á Ásunnarstöðum eða í nágrenni.
Berufjörður, bærinn við botn Berufjarðar. Þar kom ég einu sinni í sól og sunnanvindi. Þar var logn og blíða en bölvað rok skömmu seinna á Djúpavogi þó þar væri líka sól.
Hof í Álftafirði.
Stafafell í Lóni en þar er úrkomustöð.
Hoffell, lengst inni i Hornafirði. Einn af þessum stöðum sem ég hef djúpstæðan freudískan áhuga að vita hvernig viðrar.
Hali í Suðursveit. Þar koma ógurleg voðaveður, segir Þórbergur.
Hrífunes í Skaftártungu eða einhver bær þar í nánd.
Skammadalshóll í Mýrdal.
Skarðshlíð undir Eyjafjöllum.
Akurhóll á Rangárvöllum hvar voru einu sinni athuganir.
Skarð á Landi eða kannski frekar Fellsmúli.
Flúðir þar sem sveitarfélagið tímir ekki borga undir veðurstöð þó hún hafi komið til tals.
Laugarvatn. Það er aðeins í kringum 60 metra hæð svona langt inni í landi. Hvað gera hitabylgjunar þar?
Selfoss. Má svo sem fylgja með af því að þar búa svo margir.
Höskuldarvellir inni á miðju Reykjanesi.
Þá eru aðeins óbyggðirnar eftir. Þar er Askja efst á blaði en líka Sprengisandur, sem næst miðju landsins. Og svo framvegis. Og svo framvegis
Þetta er sem sagt óskalistinn um sjálfvirkar veðurstöðvar. Marga slíka hef ég sett saman gegnum árin og alloft hafa svo sumar óskirnar ræst síðar meir.
Ætli ég sé annars ekki mesti nörd á landinu?
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
14.9.2008 | 16:07
Ljúfmennska
"Á fimmtíu ára söngferli hefur hann ekki, svo vitað sé, móðgað nokkurn mann eða komið úr jafnvægi með orðum sínum og athöfnum."
Þetta stendur í grein í Morgunblaðinu í dag um söngvarann Cliff Richard.
Og svona eiga menn að vera. Ég hef aldrei getað skilið þá aðdáun sem er svo algeng á þeim sem eru með andstyggilegheit gagnvart fólki í hvaða mynd sem er. Það þarf samt ekki að þýða að ljúfmennin séu skaplaus eða karakterlaus eða geti ekki sagt meiningu sína.
Nú er víst sagt að Cliff Richard sé hörkuhommi. Mér gæti ekki verið meira sama.
Ég man annars vel þegar hann kom fram árið 1958 en frægur varð hann svo um munar með laginu Living Doll sem birtist síðsumars 1959. Þá var ég á 12. ári.
Ég hef sem sagt lifað lengur en elstu menn muna.
Mannlífið | Breytt 6.12.2008 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.9.2008 | 16:32
Óþolinmæði
Nú, fer þessi helvítis heimsendir þá ekki að koma?
Ég þoli ekki svona hangs!
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006