Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
31.7.2009 | 12:43
Nokkur þurrkamet í júlí 2009
Nú er ljóst að þessi júlí sem er að líða er sá þurrasti sem mælst hefur í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar 1920, 11,5 mm , en gamla metið var 13,2 mm árið 1958. Minni úrkoma mældist þó í eldgamla daga, 8,1 mm 1888 og 8,2 mm árið eftir. Sjá næstu bloggfærslu hér á undan.
Ekki hafa þó fallið þurrkamet á ýmsum veðurstöðvum sem lengi hafa athugað á suður-og vesturlandi, hvað þá annars staðar. Þar með eru taldar Stykkishólmur (athugað frá 1857), Eyrarbakki (1881-1911, 1926-), Hæll í Hreppum (1927), Vestmannaeyjar (1881), Vík í Mýrdal (1925) og Lambavatn á Rauðasandi (1938).
Ekki veit ég um úrkomu á öllum veðurstöðvum en eftirfarandi þurrkamet hef ég fundið, fyrst er úrkoman núna, svo gamla metið, loks hve nær byrjað var að athuga miðað við júlí. Kannski skeikar einhverju örlitlu með sumar þessara nýju talna hjá mér en það ætti ekki að breyta metunum sjálfum.
Brjánslækur á Barðaströnd, um 14,2 mm, 16,0 mm 1988; 1978.
Mjólkárvirkjun 4,1 mm, 8,6 mm 1974; 1960.
Hólar í Dýrafirði 10,6 mm , 15,8 mm 1988; 1983.
Vatnsskarðshólar í Mýrdal 19,2 mm, 45,6 mm 1978; 1978.
Og kannski Hveravellir ef marka má sjálfvirka úrkomumælinn; 1965.
Í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum er ekki lengra en síðan júlí 2007 að mældist minni úrkoma í júlí en nú. Á Eyrarbakka er þetta reyndar þurrasti júlí síðan 1939 en þá mældist þurrasti júlí i Vík í Mýrdal.
Þess má geta að hinn annálaði hlýji júlí 1939, sem jafnframt var sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík, var allvíða um land sá þurrasti sem hefur mælst. Menn voru þó þakklátir fyrir hann á sínum tíma og fáir kvörtuðu um of mikinn þurrk. Enginn óskaði eftir rigningu!
Og nú er ég að rjúka út í sólina, þurrkinn og 15 stiga hitann!
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2009 | 13:27
Ár liðið frá methitanum í Reykjavík
Mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík kom í fyrra þennan dag, 25,7 stig. Hann kom um kl. 17:32 en kl. 17 var hitinn 25,1 stig á sjálfvirka hitamælinum. Sama dag mældust 29,7 stig á Þingvöllum sem er mesti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar. Hitinn á Þingvöllum var yfir 29 stig í eina þrjá tíma samfleytt. Víða annars staðar var hlýtt, t.d. 28,8 stig á kvikasilfursmæli á Hjarðarlandi. Hitabylgjan frá 26. júlí til 1. ágúst þetta ár er einhver sú mesta sem komið hefur, frá því um miðja síðustu öld, ásamt bylgjunni í ágúst 2004 og júlíbylgjunum 1991 og 1980 og hitabylgjunni í júní 1949. Er þá miðað við hve hlutfallslega margar veðurstöðvar mældu tuttugu stiga hita eða meira.
Í fyrra gerðist það að hitinn í Reykjavík fór fjórum sinnum í 22,5 stig eða meira á átta dögum; 22,5 stig 25. og 29. júlí, 25,7 þ. 30. og 23,6 stig 1. ágúst.
Heitasta daginn var ég meðal annars í lystigarðinum í Laugardal, þar sem voru 25,8 stig kl. 16 og gekk heim til mín um Laugarneshverfið einmitt um hálf sexleytið. Á þeirri minnisstæðu göngu mældist mesti hiti dagsins og það mátti eiginlega þreifa á hitanum. Þetta var eins og í útlöndum.
Ég gleymi aldrei þessum degi.
29.7.2009 | 13:43
Þurr júlímánuður
Í morgun voru 4,7 mm í úrkomumælinum í Reykjavík. Síðustu fjóra daga hafa fallið 5,9 mm. Alls hafa fallið 11,5 mm í mánuðinum. Þurrasti júlí í Reykjavík síðan Veðurstofan tók til starfa 1920 var árið 1958 en þá mældust 13,2 mm. Lítilli úrkomu er spáð það sem eftir er mánaðarins svo vel má vera að við fáum þurrkamet í júlí síðustu áratugi.
Fyrir daga Veðurstofunnar hefur þó mælst minni úrkoma í þessum mánuði en 1958. Árið 1888 mældust 8,1 mm og 8,2 árið eftir.
Jón Thorsteinsson landlæknir gerði úrkomumælingar í Reykjavík frá 1829 til 1853. Þær eru þrátt fyrir allt taldar með ólíkindum trúverðugar samanborið við nútímamælingar. En kannski eru þær reyndar minnst trúverðugar þegar úrkoma var mjög lítil. Hvað um það, í júlí 1829 og 1838 mældi Jón aðeins 3 mm en 14 mm 1835.
Ekki var mæld úrkoma í Reykjavík frá því seinni hluta árs 1907 og alveg þar til Veðurstofan tók til starfa. Hins vegar var mælt á Vífilsstöðum 1911-1919. Úrkoma er þar yfirleitt nokkru meiri en í Reykjavík og þessar athuganir voru víst ekki í hæsta gæðaflokki. En í júlí 1915 mældist úrkoman á Vífilsstöðum 11,6 mm.
Til samanburðar má nefna að mesta úrkoma í Reykjavík í júlí var mæld 129,0 mm árið 1885, 127 mm 1831, 117,6 mm 1926, 117 mm 1847 og 113,3 mm í júlí 1984. Muna margir eflaust eftir síðasta mánuðinum.
Lítilli úrkomu er spáð í Reykjavík næstu daga svo vel má vera að við sitjum uppi með þurrkamet síðustu áratuga. Sama gildir um vesturland og jafnvel fleiri landssvæði.
Lengi vel stóð meðalhitinn núna í Reykjavík í mettölu. Síðasta daginn fyrir kuldakastið, þ. 22., var hann 13,5 stig en hlýjasti allur júlí sem mælst hefur var 13,0 árið 1991. Nú stendur meðalhitinn í 12,8 stigum og eftir veðurspám er líklegt að hann endi í 12,6-12,7 stigum.
Næst hlýjustu júlímánuðir í Reykjavík eftir 1991 eru 12,8 stig 2007, 12,7 árið 1936 og 12,6 árið 1939. Þetta er frá 1866.
Sólskinsstundirnar nú í júlí eru þegar komnar vel yfir meðallag en eru ekki í neinum metaflokki.
Já, helvítis kuldakastið! Vel á minnst. Kuldinn í háloftunum, í svonefndum 500 hPa fleti í kringum 5 km hæð, sem talinn er góður mælikvarði á hita loftmassa, hefur frá 1949 verið álíka kaldur eða kaldari í aðeins örfá skipti og var í kuldakastinu. Kuldinn í 850 hPa fletinum í um 1300 m hæð hefur hins vegar aðeins einu sinni verið kaldari. Hann var nú kl. 12 þ. 24. -4,6 stig yfir Keflavík en á sama tíma þ. 23. í júlí 1963 var hann -5,0. Ýmsir dagar nærri þessari dagsetningu 1963 voru meðal þeirra köldustu einnig í 500 hPa fletinum. Ábending um þetta kom frá Trausta Jónssyni á veðurbloggi Einars Sveinbjörnssonar um daginn.
Við jörð 1963 kom mesta kuldakast síðustu áratuga, sá 23. hafði lægsta meðalhita sem mælst heftur á júlídegi í Reykjavík, 5,8 stig og þ. 25. mældist minnsti júlíhiti sem mælst hefur þar í júlí 1,4 stig og júlíkuldamet voru víða sett á öðrum veðurstöðvum.
Í kuldakastinu sem var að líða var talsvert mildara við jörð en 1963, ekki síst var meðalhitinn og hámarkshiti dagsins hærri.
Þá vaknar auðvitað sú spurning hjá veðuráhugamönnum hvernig á þessu stendur þrátt fyrir svipaðan hita í háloftunum. Hvað annað spilaði inn í en háloftakuldinn?
Mikið væri gaman ef vefur Veðurstofunnar héldi úti eins konar föstu fræðslubloggi um að minnsta kosti það óvenjulegasta sem gerist í veðrinu á hverjum tíma. (Annað dæmi um óvenjulegan veðuratburð nýlega var þrumuveðrið mikla á suðurlandi þ. 18). Á vefnum hjá þeim eru birtir ýmsir fróðleiksþættir um hitt og þetta en það er ekki alveg það sama.
Ekki kom mælanleg úrkoma í þeim júlí sem nú er að líða í 15 daga samfleytt en sama gerðist 1998, 1967 og 1938 og 1960 14 daga en 1958 13 daga. Það er þó kannski ekki svona algjör þurrkatímabil sem mestu skiptir fyrir gróður jarðar heldur það hver úrkoman hefur verið í einhvern tíma áður en alveg úrkomulausa tímabilið hefst. Hún var hverfandi í þessum júlí í Reykjavík áður en algjöri þurrkurinn hófst og lremur lítil í júní en sömu sögu er alls ekki hægt að segja um næstu mánuði þar á undan.
Satt að segja undrast ég tal manna um þurrk núna og óskaplega þrá þeirra eftir rigningu. Við kvörtum ekki svo lítið alla jafna um ''rok og rigningu'' og sólarleysi. Í þau fáu skipti sem sól og sjaldgæf hlýindi taka völdin í örfáar vikur fara margir að kvarta um þurrk og heimta rigningu alveg óðir.
Ýmislegt í þessum júlí minnir mig á júlí 1958 sem ég man vel eftir sem barn og var mikill ævintýramánuður. Báðir mánuðir hófust með miklum hlýindum þar sem var sérlega hlýtt að næturþeli, þeir voru báðir mjög þurrviðrasamir, báðir með góðum sólarköflum, báðir hlýir og báðir með fjögurra daga kuldakasti seint í mánuðinum. Meira að segja loftþrýstingurinn er svipaður.
En eitt er ólíkt. Árið 1958 var Elvis upp á sitt besta og stanslaust rokk og ról ríkti í veröldinni sem var hress og glöð. Nú er enginn Elvis og dimmt og dapurt yfir heiminum.
Veðurfar | Breytt 31.7.2009 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2009 | 12:10
Það sem vekur furðu
Ekkert varð af jarðskjálftanum sem ''sjáandinn'' sagði að hafi átt að koma í gærkvöldi.
Nú segir hann að við skulum bara bíða og sjá til. Skjálftinn komi næstu daga. Bætir því við að ekki hafi verið ætlunin að hræða fólk heldur finni hún þetta á sér og vilji deila þessu með fólki.
Það er einmitt þetta síðasta atriði sem er umhugsunarvert. Að það skuli vera hægt að vekja athygli heillar þjóðar með því að ''finna á sér'' náttúrufyrirbrigði sem lúta sínum eðlisfræðilegu lögmálum. Ekki er þarna byggt á neinum skynsamlegum rökum, einhverjum raungögnum sem bendi til jarðskjálfta, heldur algjörlega huglægri tilfinningu, einhvers konar vökudraumi.
Það hefur verið sagt að ''sjáandinn'' hafi sýnt hugrekki með því að birta spána og tilgreina svona nákvæma tímasetningu. En þetta er ekki hugrekki. Hins vegar er um að ræða visst hugarástand, spámiðils hæfileika ástand. Þeir sem lifa í því eru bara í öðrum heimi, draumareiki og hugarflugi, oftast nær gersneytt allri skynsamlegri gagnrýni og hversdagslegustu dómgreind og það er andstæða alls hugrekkis. Þetta fólk skynjar ekki sjálft raunveruleikaröskun sína og er sannfært um að það hafi spádómsgáfu í raun og veru.
Það sem sannar staðhæfingu mína um skort á skynsemi og dómgreind spámiðilsins er eftirfarandi sem haft er eftir honum á Vísi is. í dag: ''Hún sagði jafnframt að miklar breytingar hefðu verið í veðri undanfarið svo sem mikið rok og frost. Það væri eitthvað sem væri að fara gerast. Það er því bara að bíða og sjá hvort að skjálftinn komi næstu daga.''
Þarna er því haldið fram eins og ekkert sé að samband sé á milli kuldakastsins er átti rót að rekja til breytinga nokkra kílómetra uppi í háloftunum og er EKKI EINSDÆMI og spennulosunar jarðskorpunnar sem veldur jarðskjálfum nokkra kílómetra niðri í jörðinni. Það er ekki heil brú í þessu.
Ekki vekur þetta bull samt neina undrun. Þetta er einmitt sá hugsanakaliber sem ríkir í hugarórum spáfólks og ''sjáanda'. Algjört rugl.
Það sem hins vegar vekur undrun og eiginlega hálfgerðan ugg er það hvað fjölmiðlar hampa þvættingi ''sjáandans'' og ansi margir virðast taka eitthvað mark á honum. Það hefur verið haft þó nokkuð samband við Veðurstofuna og fólk hefur jafnvel flúið heimili sín af ótta við stóra skjálftann. Bloggarar hafa líka eytt púðri sínu í þessa vitleysu. Það hefur ekki allt verið dár og spé, furðu margir virðast taka þetta hátíðlega og segja einmitt eins og sjálfur ''sjáandinn'': Við skulum sjá til.
Það má vænta fleiri skjálfta í kjölfar suðurlandskjálftana og það geta hve nær sem er orðið nokkuð sterkir skjálftar í Bláfjöllum sem mundu finnast mjög vel á Reykjavíkursvæðinu. Komi slíkir skjálftar eftir tvo eða þrjá daga er það algjör tilviljun, smá heppnisgrís, hvað ''sjáandann'' varðar og ekki hægt að segja að hún hafi rakið neina eðlisfræðilega atburðarás sem væri að gerast.
Veikleiki Íslendinga fyrir hjátrú í öllum myndum er eitt af undrum veraldar.
Annars er góður jarðvegur fyrir hvers kyns spákukl og dularóra þegar örvænting og erfiðleikar eru miklir í þjóðfélaginu eins og nú er ástatt.
Fjölmiðlar ættu samt ekki að leita uppi verstu rugludallana og hampa þeim heldur tala við sæmilega skynsamt fólk sem er með fullu ráði og rænu.
Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
28.7.2009 | 00:07
Spásýnir Mala hins máttuga
Mali hinn máttugi, sjáandinn mikli með röntgenaugun, spáir því hiklaust að allt fari vel að lokum.
En það verði þó ekki fyrr en eftir að allt er búið að fara til andskotans.
Mali | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.7.2009 | 00:23
Volaða land
Öllu fer aftur á Íslandi.
Jafnvel kuldaköstin eru orðin til skammar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2009 | 11:24
Hvaða kulda er verið að tala um
Yfirmaður hjá Landsvirkjun segir að ''þurrkur og kuldi'' hafi komið niður á vatnsbúskapnum og bæði júní og júlí hafi verið dræmir mánuðir.
Hvaða ''kulda'' er maðurinn eiginlega að tala um?
Það hefur reyndar verið fremur þurrt síðustu tvo mánuði víða en ekki fyrir þann tíma á árinu. Hvað ''kulda'' áhrærir var júní meira en heilt stig yfir meðallagi hitans á landinu, enn hlýrri á hálendinu, og ekki voru maí og apríl síðri. Það sem af er júlí fram að kuldakasti var sjaldgæfur hiti á suður og vesturlandi og vel yfir meðallagi annars staðar. Og nú er aftur farið að hlýna svo mánuðurinn í heild er enn vel hlýr.
Hvað sem veldur slæmum vantabúskap, sem hefur þó stundum verið verri, er ekki kulda um að kenna.
Þurrkur og kuldi koma niður á vatnsbúskapnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2009 | 10:17
Hvað gerðist á Hæli í nótt
Kuldametið í júlí á Eyrarbakka féll í nótt. Þar mældist hitinn 0,5 stig. Gamla metið var 1,4 stig frá 15. júlí 1979 og svo 1,5 stig 18. júlí 1983 og þ. 8. 1973. Athuganir á lágmarkshita eru til frá 1924. Hitinn á sjálfvirku stöðinni fór niður í -2,2 stig. Það er mikill munur á þessum mælingum og er það oft þannig á Eyrarbakka. Munur á sjálfvirkri og kvikasilfurs mælingu virðist vera mismunanndi milli stöðva. Þetta hlýtur að valda vandræðum með staðfestingu meta á stöðvum sem voru lengi mannaðar en eru nú sjálfvirkar eingöngu.
Engar upplýsingar er enn að hafa frá Hæli í Hreppum. Það er spurning hvort júlí kuldametið frá 1888 í Hreppunum, 0,7 stig, hafi ekki líka fallið í nótt. Á sjálfvirku stöðinni í Árnesi skammt frá Hæli var hitinn um frostmark á miðnætti, bara sisvona, og lágmarkið var -0,7 stig. Þarna mátti heita logn frá því klukkan 3 í nótt og til klukkan 9.
Aftur var frost í nótt á Hellu, -0,5 stig, og í Þykkvabæ, -1,7 stig, sem er enn meira en þar mældist í fyrrinótt.
Á þingvöllum var frostið -2,0 stig og -1 við Þjórsárbrú. Meira frost mældist á sjálfvirku stöðinni á Þingvöllum í júlí 2007, -2,5 stig.
Á Egilsstöðum voru -0,8 stig og -0,2 á Hallormsstað. Mesta frost sem mannaða stöðin á Egilsstöðum mældi í júlí í 44 ár var -0,5 árið 1965 og sama ár var metið á Hallormstað, -1,0 . Á Fáskrúðsfirði voru í nótt -2,3 stig en þessi stöð sýnir stundum svo einkennilega lágan lágmarkshita að maður spyr sig hvort ekki sé eitthvað athugavert við hann.
Kaldast á landinu var hins vegar -2,6 stig á Möðruvöllum. Það er nokkuð frá meti en þessum stað hefur mælst mesta frost á landinu í júlí, -4,1 stig þ. 21. árið 1986 á kvikasilfursmæli.
Ekki hafa fallið kuldamet í þessu kasti þar sem lengi hafa verið mannaðar stöðvar annars staðar en á Eyrarbakka nema þá á Hellu, í Þykkvabæ, hugsanlega á Brú og Egilsstöðum, en stóra spurningin er svo um Hæl.
Vonandi koma upplýsingar um mælingar frá Hæli seinna í dag.
Viðbót: Mælingarnar á Hæli hafa nú verið birtar. Lágmarkið var svo hátt sem 3, 0 stig. Þar féll því ekkert kuldamet. Stöðin í Árnesi er nokkurn spöl frá Hæli og er auk þess sjálfvirk. En þessi gríðarlegi munur sem kemur fram á lágmarki milli sjálfvirkra mæla og kvikasilfursmæla í þessum tveimur tilvikum, á Eyrarbakka þar sem stöðvarnar eru alveg á sama stað og svo milli Hæls og Árness, mjög nálægra stöðva, finnst mér sýna enn frekar hvað erfitt er að bera saman sjálfvirkar mælingar við kvikasilfursmælingar. Og það hlýtur að gilda um hámarkshita líka.
Er hægt að fullyrða t.d. að raunverulegt júlíkuldamet hafi verið sett á Hellu?
Ath. Bendi hér á bloggfærslu, þar sem má sjá, í fylgiskjalinu, mesta og minnsta hita sem mælst hefur í hverjum mánuði á mönnuðum íslenskum veðurstöðvum og auk þess úrkomu og snjódýpt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.7.2009 | 12:33
Fréttir af kuldabola
Í nótt mældist mesta frost á landinu -2,7 stig á Brú á Jökuldal. Þetta er sjálfvirk stöð sem mældi með kvikasilfri í 30 ár mest -2,1 stig. Það var í júlí 1983.
Sama ár mældist lægsti hiti sem mælst hefur á kvikasilfri á Hellu í júlí, 0,2 stig en þar mældist nú á sjálfvirku stöðinni -1,6 stig. Hitinn var þar að fara undir frostmarkið af og til í eina þrjá tíma.
Á kvikasilfursmæli féll eitt kuldamet í nótt. Það var á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Þar mældist 0,0 stig en í júlíkuldakastinu 1995 hafði þar lægst mælst 0,2 stig. Á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi mældist -0,8 stig í nótt. Við sjáum þarna einmitt muninn sem getur verið á þessum tvenns konar mæliaðferðum. Og líka þau vandræði sem geta orðið á staðfestingu hita-eða kuldameta á stöðvum sem lengi athuguðu með kvikasilfursmæli en eru nú eingöngu sjálfvirkar. Mannaða stöðin á Hjarðarlandi hefur aðeins mælt frá 1990. Hún hefur fangað eitt alvarlegt kuldakast í júlí, 1995, en var ekki starfandi í kuldaköstunum miklu 1983, 1970 og 1963.
Í nótt mældist - 1,1 stig í Þykkvabæ á sjálfvirku stöðinni. Þar held ég að sé enn mönnuð stöð sem heitir Önnupartur og mælt hefur frá 1981 og mældi mesta júlíkulda árið 1995, 0,5 stig. Ekki veit ég hvað þar gerðist í nótt.
Svæðið kringum Rangárvelli, Skeið og Holt og til sjávars urðu sérlega illa úti í nótt. Það er eiginlega hálf óhugnanlegt að frost skuli hafa mælst við suðurströndina í júlí en Þykkvibær liggur að sjó. Á Kálfhóli á Skeiðum mældist -1,0 stig og við Þjórsárbrú fór hitinn aðeins undir frostmarkið.
Ekkert af gömlu kuldametunum á mönnuðu stöðvunum sem enn starfa hafa þó fallið. En það verður þó að gera ráð fyrir því að þetta sé mesti kuldi í júlí sem mælst hefur á Hellu og Þykkvabæ en á mörkunum með Brú. Hins vegar er allt í lagi enn með stað eins og Þingvelli.
En sumar spár gera ráð fyrir því að næsta nótt verði enn kaldari en sú síðasta á suðurlandi og víðar og muni þá verða næturfrost upp um alla Hreppa og Biskupstungur. Kuldametið í júlí á Hæli í Hreppum, 0,7 stig frá 1888, gæti þá verið í hættu.
Aðrar spár eru bjartsýnni. Þar sem ég er svartsýnismaður hallast ég að kaldari spánum!
Hvergi var talin alhvít jörð í morgun á veðurstöð og er það vel sloppið.
Það hefði verið meira gaman að segja hitafréttir heldur en kuldafréttir!
Og áfram skín sólin í 9 stiga hita í Reykjavík á hádegi. Það er sterk ábending um það að ekki eru öll sólskinsveður af sama tagi. Þetta er fimm til tíu stigum kaldara en verið hefur í hitunum og sólinni undanfarið á sama tíma.
Samt er eins og sumir greini engan mun! Fyrir þeim er það bara sólin sem máli skiptir. Þeir finna engan mun á hitastigi ef hún skín á annað borð!
Veðurfar | Breytt 25.7.2009 kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009 | 21:19
Hrunið
Eftir gærdaginn var meðalhitinn í Reykjavík 13,55 stig. Það er hæsta talan sem nokkur júlí getur státað af þ. 22. Hefði hún haldist til mánaðarloka hefði það orðið hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík.
En nú hrynur allt. Bara eftir daginn í dag mun meðalhitinn falla um kringum 0,2 stig og enn meira á morgun.
Fylgist með því á ''Allra veðra von'' hvernig ''júlíin okkar'' skíttapar leiknum á síðasta sprettinum.
Veðurfar | Breytt 24.7.2009 kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006