Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
30.4.2010 | 13:31
Veltur á dómaranum
Það var víst Alþingi sem kærði þetta mál. Síðan gaf settur saksóknari út ákæru. Ekki veit ég hvort kærandi, Alþingi, getur dregið málið til baka eftir að það er komið í dóm. En saksóknari mun varla falla frá ákærunum og mun vísast sækja málið af fullri hörku.
Nú veltur því allt á dómaranum. Í þessu máli er hann Pétur Guðgeirsson. Hann er afar streit og íhaldssamur dómari, að ekki sé sagt hreinlega afturhaldssamur. Hann er vís með að vera mjög hallur undir ríkisvaldið. Ákvörðun hans um það að engir megi standa við réttarhaldið og að vísa tveimur viðstöddum á dyr lofar ekki góðu um dómana.
Harka ríkisvaldsins, þegar horft er til kringumstæðna málsins og þjóðfélagsaðstæða, vekur furðu margra þó einnig heyrist æstar raddir á bloggi um það að refsa beri sakborningunum harðlega.
Mig grunar að það verði gert.
En í augum margra njóta sakborningarnir í það minnsta meiri virðingar heldur en druslurnar sem sitja á Alþingi.
Viðbót: Það var dómarinn sjálfur sem kallaði lögregluna til og hefur þá heimilað lögreglumönnum að vera inni í réttarsalnum meðan réttarhaldið fór fram. Er hægt að treysta slíkum manni fyri sanngjörnum réttarhöldum og sanngjörnum dómum? Réttarhald í skjóli lögregluvalds!
Í Kastljósi kallaði Ragnar Aðalsteinsson, einn verjanda sakborninganna, þetta ofbeldi. En afhverju horfa allir fram hjá því að ofbeldið var í boði dómarans sjálfs?
Réttarhöldin blettur á réttarfarinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.5.2010 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2010 | 20:28
Áfram Katla!
Magnús Tumi Guðmundsson sagði í Kastljósi áðan að meiri líkur en minni væru á því að næsta Kötlugos verði lítið eða miðlungsgos fremur en stórt. Vísaði hann eingöngu til sögunnar í þessu tilliti. Svona fjórða hvert Kötlugos væri stórt en hin ekki.
En Magnús Tumi veit bara ekkert um þetta fremur en aðrir, til dæmis ég eða vor ástsæli forseti. Á átjándu öld komu tvö stórgos í Kötlu í röð, 1721 og 1755 og næsta gos þar á undan, 1660, var líka ansi drjúgt. Og ekki síður gosið þar á undan, 1625.
Hins vegar mun þjóðin líklega spjara sig í næsta Kötlugosi eins og öllum öðrum.
Annars eru spekúkúkasjónir um það að virkni fjallsins fari minnkandi því síðustu aldir hefur það gosið sjaldnar en næstu þúsund árin þar á undan. En áreiðanlega getur það samt skvett vel úr sér og ærslast all mjög.
Og vonandi fer nú Katla gamla að gjósa sem fyrst til að leiða til lykta þessar deilur um það hvað hún ætli sér að gera.
Áfram Katla!
Bloggar | Breytt 29.4.2010 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.4.2010 | 11:35
Dreifingarlíkönin standa fyrir sínu
Að sögn Veðurstofunnar hafa mælingar sem gerðar hafa verið í Evrópu undanfarna daga staðfest niðurstöður úr þeim dreifingarlíkönum sem öskuspár viðvaranaseturs London VAAC vegna flugumferðar byggjast á.
Um þetta ættu þeir að hugsa sem hafa verið að þenja sig sem mest á netinu um það að ekkert sé að marka líkindaspár um öskudreifingu.
En ef ég þekki mannskepnuna rétt mun þessi frétt hafa nákvæmlega engin áhrif á þvergirðingshátt þeirra.
Öskumistur getur borist vestur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2010 | 11:44
Ögmundur hittir naglann á höfuðið
Ögmundur hittir hér einmitt naglann á höfuðið.
Hvar sem maður talar við fólk finnur maður einmitt að það heldur að eitthvað mikið sé framundan í eldgosamálum. Allan tímann sem gaus á Fimmvörðuhálsi fannst mér t.d.að aðalgosið væri eftir.
Þessar hugsanir fólks eru byggðar í bland á skoðunum vísindamanna og svo er bara eins og fólk finni eitthvað á sér.Ég er á móti hvers kyns hjátrúardellu og þvættingi. En grunur margra um meiri eldgos á næstunni er eigi að síður ósköp skynsamlegur og raunhæfur.
Forsetinn hefur verið skammaður fyrir það að spá stóru Kötlugosi sem hann gerði reyndar aldrei. En Kötlugos eru alltaf Kötlugos og það væri þá eitthvað nýtt ef næsta Kötlugos yrði lítilmótlegra en þetta smágos í Eyjafjallajökli.
Nú ætla ég láta uppi mitt óskeikula hugboð um framhaldið:
Ég held að þetta sé bara rétt að byrja!
Það er fyrst og fremst einhver óvild af stjórnmálalegum toga og svo peningalegir hagsmunir sem stjórna viðbrögðum manna vegna orða forsetans.
Hann er náttúrlega orðinn hrein plága svona almennt talað og þjóðin metur hann lítils. En oft ratast samt kjöftugum satt á munn.
Sú krafa frá sumum að engir megi ljúka upp munni um hugsanleg eldgos nema jarðvísindamenn er ansi ritskoðunarleg og hlægilega ofgerð kennivaldadýrkun í þokkabót.
Ögmundur kemur forsetanum til varnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.4.2010 | 12:11
Skaðlegt fyrir ferðaþjónustuna?
Já, jarðvísindamenn telja að ný hrina eldgosa geti verið að hefjast hér á landi. Slík umbrot séu lotubundin.
Þá sé meiri hætta á stórum gosum.
Menn eru alltaf að vísa til hinna þekktu eldstöðva, að þau geri hitt og þetta. En það geta alveg opnast nýjar gossprungur út frá þeim og gosið óskaplega eins og gerðist í Skaftáreldum, Veiðivatnaeldum og Eldgjáreldum. Þetta eru mestu gosin sem við fáum.
Annars finnst mér eftirtektarvert og hálf óhugnanlegt í sambandi við eldsumbrotin núna hvað mikið ber á tortryggni og jafnvel fjandskap í garð vísindarannsókna og vísindamanna á netinu. Það sé nú ekki mikið að marka þá. Flest sem við vitum um eldgos og hugsanlega hættu af þeim er þó frá vísindamönnum komið en ekki frá ''heimamönnum'' en flest eldgos eru reyndar fjarri öllum heimilum sem betur fer.
Enginn er ég aðdáandi forsetans (en heldur ekki hatursmaður). En fátt er jafn hvimleitt og tilraunir stjórnvalda til að þagga niður umræðu um hvað sem vera skal eða stýra henni eftir eigin höfði. Steingrímur J. sem óskar eftir ''ábyrgri'' umræðu um eldgosahættu er á engan hátt ábyrgari í málflutningi sínum en þeir sem hann beinir orðum sínum gegn nema síður sé.
Nýtt eldgosaskeið að hefjast? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.4.2010 | 15:59
Má forsetinn ekki segja sannleikann
Forsetinn sagði það sem allir vita: Kötlugos er auðvitað yfirvofandi, hvað sem Eyjafjallajökli líður, hvort sem það dregst í nokkur ár eða ekki. Þetta vita allir Íslendingar. Aldrei hefur liðið jafn langur tími milli gosa í fjallinu og nú. Það gefur ástæðu til að óttast að næsta gos verði mikið og öflugt.
Nú rýkur ferðamálafólk upp og kvartar yfir því að forsetinn segi útlendingum það sem liggur okkur alveg í augum uppi. Og jarðfræðingurinn Steingrímur J. Sigfússon tekur undir á Alþingi.
Það er ekkert í augnablikinu sem bendir til Kötlugoss alveg á næstunni. En það mun verða áður en varir og verður örugglega miklu meira gos en það sem nú er í Eyjafjallajökli. Fyrirvarinn þarf ekki að verða svo óskaplega langur.
Afhverju má ekki tala um þetta?
Reyndar vil ég bæta því við að ég hef fylgst mjög vel með umfjöllun erlendra fjölmiðla um gosið og verð ekki var við að ráði þær rangfærslur sem ferðamálafólk segir að sé í þeim málflutningi. Erlendir fjölmiðlar hafa fyrst og fremst áhuga á loftferðum milli landa en ekki innanlandsástandi á Íslandi.
Forsetinn var heldur ekki að segja, eins og virðist af ummælum Steingríms, að hér ríki ógnar eða upplausnarástand. Hann var aðeins að benda á það að Kötlugos verði verra en núverandi gos og líka mætti búast við öðrum gosum á þessari öld.
Ferðaiðnaðurinn á ekki að fá að ráða íslenskri umræðu um náttúruvá.
Það er líka út í hött sem iðnaðarráðherra segir að engir megi hreyfa við sjálfsögðum hlutum nema vísindamenn.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að tengsl jökulsins við Kötlu verði að taka mjög alvarlega. Auk þess gýs Katla sjálfstætt og þarf ekki jökulinn til. Langt er frá síðasta gosi og þegar það verður má búast við stóru gosi en þarf þó ekki að vera.
Og vel á minnst: Þessi ummæli forsetans koma gangrýni skýrslunar á hann ekkert við.
Óþarft að skapa óróa og hræðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.4.2010 kl. 07:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.4.2010 | 15:27
Heppni að ekki sé austanátt
Mikil röskun hefur orðið á flugi í norðanveðri Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli. Margir flugvellir eru lokaðir og flug liggur einfaldlega niðri.
Mjög sterkur vestanvindur er yfir landinu og austur um sem ber öskuna með sér.
Annað kvöld mun snúast til skammvinnrar norðanáttar og mun aska þá berast yfir sveitirnar fyrir sunnan jökulinn en síðan á að snúast aftur til vestanáttar.
Við erum heppinn í bili að ekki skuli vera ákveðin austanátt eins og var dögum saman fyrir skömmu.
Þá væru flugvellirnir í Keflavík og Reykjavík báðir lokaðir. En reyndar er ekki flogið núna til Norðurlanda að minnsta kosti.
Á myndinni má sjá vestanstrenginn yfir landinu á austurleið eins og hann lítur út í kringum 9 km hæð. Skotvindurinn, feikna hvass, sums staðar yfir 100 hnútar, kringum 55 m/s, er beint yfir landinu. Gosmökkurinn nær reyndar ekki svona hátt upp en vindafarið er ekki ósvipað neðar.
Kortið er af Brunni Veðurstofu Íslands.
Aldrei áður jafn mikil röskun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2010 | 13:39
Hlýjustu vetur á Íslandi
Samkvæmt skilgreiningu Veðurstofunnar er vetur á Íslandi frá desember til mars.
Hlýjustu vetur sem mælst hafa eru allir frá því á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öld að einum frátöldum.
Hlýjastur var veturinn 1963-1964. Er þá miðað við þær 9 veðurstöðvar sem lengst hafa athugað, Reykjavík, Stykkishólm, Ísafjörð/Bolungarvík, Akureyri, Grímsey, Teigarhorn, Fagurhólsmýri, Vestmannaeyjar og Stóranúp/Hæl í Hreppum.
Meðalhiti þessara stöðva yfir vetrarmánuðina er -0,4 stig 1961-1990 en 0,1 árin 1931-1960.
Þennan vetur var meðalhitinn hins vegar 2,8 stig á stöðvunum níu.
Úrkoma var i rösku meðallagi á landinu yfir allan veturinn. Sunnan til á landinu og norður á Vestfirði var hún yfirleitt meiri en i meðalári, og á stöku stað meira en 30% umfram meðallag, en á Norðausturlandi var hún yfirleitt innan við 50% af meðal- úrkomu 1931-1960.
Desember var svalastur mánaðanna veturinn 1963-1964. Hann var samt vel hlýr. Sunnanátt var yfirgnæfandi nema nokkra daga rétt fyrir jólin og svo um jólin sjálf. Mesta frost mánaðarins mældist -21,0 stig þ. 20. í Reykjahlíð við Mývatn. Skarpt hlýnaði eftir þetta kuldakast því hiti komst í 11,9 stig á Seyðisfirði þ. 22. Loftvægi í mánuðinum var óvenjulega hátt, 11,5 hPa yfir meðallaginu 1931-1960 og hafði þessi mánuður hæsta loftþrýsting allra þeirra mánaða sem minnst er á í þessum pistli. Er þetta með mesta loftvægi sem mælst hefur í desember. Úrkoma var hins vegar 30% undir meðallaginu 1931-1960, minnst í innsveitum á norðausturlandi en mest á vesturlandi. Snjólag var 47%. Alhvítir dagar voru aðeins fjórir í Reykjavík en alautt var talið allan mánuðinn á Vífilsstöðum.
Janúar var sá áttundi hlýjasti á landinu í heild en sá annar hlýjasti í Reykjavík og Vestmannaeyjum en fjórði hlýjasti í Stykkishólmi. Kuldakast í fjóra daga kom laust fyrir miðjan mánuð og svo tvo síðustu dagana en annars voru látlaus hlýindi. Lengst af var snjólaust í byggð og sumarfærð á vegum. Á suðurlandi sló grænum lit á tún. Mestur hiti mældist 14,9 stig á Seyðisfirði þ. 7. og 10. Á Arnarstapa á sunnanverðu Snæfellsnesi var skráður 14 stiga hiti þ. 5. og er það vægast sagt óvenjulegur janúarhiti á þeim stað ef rétt hefur verið mælt. Í kuldakastinu í lok mánaðarins fór frostið í 27,1 stig á Grímsstöðum. Þessi kuldi hélt áfram fyrstu fimm dagana í febrúar og mældist yfir 20 stiga frost í Borgarfirði þ. 5, en einnig á Grímsstöðum.
Febrúar var sá fjórði hlýjasti sem mælst hefur. Hann var hægviðrasamur og tiltölulega sólríkt var á norðausturlandi. Eftir 5. febrúar ríktu einmuna hlýindi til marsloka að einum degi undanskildum, 25. mars. Hæðir voru yfir Bretlandseyjum eða Norðurlöndum en lægðir suður í hafi.
Úrkoman í janúar var 30% umfram meðallagið 1931-1960. Mest var hún á suðvesturlandi og suðurlandi en á norðaustur og austurlandi var úrkoman aðeins helmingur af meðalúrkomu. Snjóhula var bara 33% og hefur aðeins verið minni árið 2001 þegar hún var 30%. Í Reykjavík var alautt í 28 daga en alhvítt í tvo. Víðast hvar voru alhvítir dagar færri en 10.
Úrkoma í febrúar var fremur lítil, 87% af meðalúrkomu. Snjólag var 29% en var minna árið 1932 og líklega árið 2006.
Tré og blóm fóru að springa út í mars sem var sá næst hlýjasti í sögu mælinga. Fór hitinn seint í mánuðinum í 15 stig á nokkrum stöðum og 12 stig í Reykjavík. Úrkoman var 20% umfram meðallagið. Mest rigndi suðaustanlands, allt að tvöföld meðalúrkoma. Á norðurlandi var sérlega lítil úrkoma þennan vetur, aðeins 45 mm á Akureyri og 63 mm í Grímsey alla fjóra mánuðina.
Þetta er snjóléttasti vetur í heild á landinu frá 1924. Samanlögð snjólagsprósenta allra stöðva á landinu allra vetrarmánaðanna var aðeins 121 en var að meðaltali 263 veturna 1961-1990.
Næst hlýjasti veturinn var 1928-1929. Meðalhitinn var 2,6 stig. Mars var sá hlýjasti sem mælst hefur, febrúar sá þriðji hlýjasti og janúar sá 13. hlýjasti.
Desember var nokkuð umhleypingasamur, sérstaklega á Vestfjörðum. Hlýtt var fyrsta daginn en annars var fremur kalt fyrsta þriðjung mánaðarins. Eftir það ríktu hlýindi að mestu nema um jólin. Hiti fór þó aldrei hærra en í 9,6 stig, þ. 1. á Húsavík. Dagana 4.-7. var norðanátt með kulda og mældist frostið þá 22,7 stig á Grænavatni þ. 7. Úrkoma var svipuð og núverandi meðaltal en þó mjög lítil á austfjörðum en mest vestanlands og á Vestfjörðum. Snjólag var í kringum meðallagið 1961-1990 en þótti fremur lítið á þessum tíma.
Meðalloftvægi í janúar var mjög hátt, 1022,3 hPa á Hólum í Hornafirði en 1019,9 í Reykjavík. Loftvægi í janúar hefur aðeins einu sinni orðið meira, 1963. Sérstaklega var loftþrýstingur mikill dagana 10.-15. og 23.-27. Hæst stóð loftvog 1048,5 hPa þ. 27. á Ísafirði. (Loftvægi vetrarins í heild var líka óvenjulega hátt eins og það var líka veturna 1846-47 og 1963-64). Látlaus hlýindi voru í mánuðinum að undanskildum þ. 17. og síðustu sex dagana. Síðasta daginn fór frostið í 25 stig á Grímsstöðum og 23 á Grænavatni sunnan við Mývatn. Veður voru yfirleitt kyrrlát. Einstakt blíðviðri ríki dagana 18.-25. um land allt og var þá víða bjart. Mestur hiti í mánuðinum varð 11,6 stig þ. 11. á Suðureyri við Súgandafjörð. Sérlega hlýtt var þ. 4. og 9.-12. Úrkoman var mjög svipuð og núgildandi meðallag, mest á vesturlandi en tiltölulega lítil á suðurlandsundirlendinu og um miðbik norðurlands. Snjólag var 38% , það sjötta minnsta. Í Reykjavík var alautt 25 daga en aldrei talið alhvítt. Sunnanlands mátti heita alauð jörð til þ. 26. Fyrir norðan var lítill snjór fyrri hluta mánaðarins en yfirleitt alhvítt eftir það.
Í febrúar var oft hæð yfir Norðurlöndum en lægðir gengu norður um Grænlandshaf. Það var talin einmuna tíð nema dagana 9.-10. og 18., jörð víðast klakalaus, vottaði víða fyrir gróðri og hestar gengu úti sums staðar. Nokkuð dró úr hlýjunni síðast í mánuðinum en þau fóru aftur í gang síðasta dag mánaðarins og héldu linnulaust áfram allan marsmánuð. Er þetta þriðji hlýjasti febrúar á landinu en hlýrra var 1932 og 1965. Hlýjast varð 12,0 stig þ. 20. á Hraunum í Fljótum en þ. 10. fór frostið í 15,4 stig á Kollsá í Hrútafirði. Mánuðurinn var mjög úrkomusamur og á Teigarhorni mældist mesta úrkoma sem þar hefur mælst í febrúar, 300,2 mm. Enn meiri úrkoman var þó á Fagurhólsmýri, 389,2 mm. Snjór var lítill 35% og hefur aðeins verið minni snjór í febrúar 1932, 1964, 1965 og 2006. Á norðurlandi allt frá Bakkaflóa til Seyðisfjarðar var víða alautt eftir þ. 20. en á suðurlandi voru alhvítir dagar einn til fjórir og engir á stöku stað. Hvergi var þó talið alautt allan mánuðinn
Marsmánuður er sá hlýjasti sem mælst hefur. Í mánaðarlokin var komin nál í úthaga og enginn klaki í jörð á laglendi og sóleyjar sáust i túnum. Hitafarið minnti reyndar frekar á maí en mars. Meðalhitinn í Vík í Mýrdal var 6,8 stig og er það mesti meðalhiti sem mælst hefur á nokkurri veðurstöð á Íslandi í mars. Á Seyðisfirði var meðalhitinn 6,5 stig en svalast var á Grímsstöðum á Fjöllum 2,7 stig í 400 metra hæð. Hlýjast varð 14,4 stig þ. 9. á Teigarhorni. Hiti fór yfir tíu stig víða um land nokkuð marga daga. Mesta frost mældist 8,0 stig á Eiðum þ. 2. Þetta er hæsti lágmarkshiti yfir allt landið sem mælst hefur í nokkrum marsmánuði síðan mælingar hófust. Ekki fraus allan mánuðinn í Hornafirði og Vík í Mýrdal sem er nánast einsdæmi í mars. (Frost mældist ekki í Mýrdal og Vestmannaeyjum í mars 1963). Ekki mældist frost í Reykjavík eftir þ. 6. en hins vegar 1. apríl! Ekki var sólinni fyrir að fara syðra í sífelldri sunnanáttinni og er þetta sólarminnsti mars í Reykjavík sem mælst hefur, 38,9 klst. Engar mælingar voru gerðar á Akureyri. Mánuðurinn er snjóléttasti mars sem vitað er um á landinu. Snjólag var 6%. Í Reykjavík var alhvítt aðeins einn dag, þ. 25. Víða um land var alautt allan mánuðinn, svo sem á Grænhóli á Ströndum, Blönduósi og Akureyri og víðast hvar á suður og vesturlandi. Hvergi varð oftar alhvítt en þrjá daga og var það á Grímsstöðum og Fagradal í Vopnafirði.
Hæð var iðulega í mámunda við Bretlandseyjar þennan mánuð en lægðir suðvestan eða vestur af Grænlandi.
Veturinn 2002-2003 er næstur í röðinni. Meðalhiti 2,5 stig.
Desember var sá næst hlýjasti á landsvísu sem mælst hefur. Hlýrri var desember 1933. Á Fagurhólsmýri og á suðvesturlandi var þessi mánuður sá hlýjasti en næst hlýjasti á Vestfjörðum og þriðji hlýjasti Akureyri. Sérlega hlýtt var þ. 5. og um kvöldið mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í desember, 12,0 stig og sama daga mældust 17,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Það er með því mesta sem mælst hefur á landinu í desember. Meðalhitinn varð mestur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 5,5 stig og má þá telja líklegt að í kaupstaðnum hafi meðalhitinn náð sex stigum. Úrkoma var í minna lagi um allt norðurland en í meira lagi annars staðar og mest á suðausturlandi en þó einkum á vesturlandi þar sem hún var sums staðar tvöföld miðað við meðallagið 1961-1990. Snjólag virðist aldrei hafa verið eins lítið á landinu í desember, kringum 7% (einhver óvissa er reyndar um þessa tölu) en næstur kemur desember 1933 með 13%. Í Reykjavík var aldrei alhvítt en flekkótt í tvo daga. Á Akureyri var alauð jörð og er það einsdæmi. Sömu sögu er að segja víða af suðurlandi og Borgarfirði og á stöku stað við Breiðafjörð. Það er til marks um snjóleysið að á Hveravöllum var alauð jörð í 15 daga og aðeins alhvítt í einn dag. Víða voru tún græn og blóm sprungu út. Hæð var langtímum saman yfir Norðurlöndum eða austan við land og svo í námunda við Bretlandseyjar en lægðir gengu vestan við land og við Grænland.
Hlýindin héldu áfram fram í miðjan janúar og var þá fremur hægviðrasamt. Kuldakast allmikið gerði dagana 18.-23. og fór þá frostið yfir 20 stig inn til landsins norðaustanlands, en eftir það hlýnaði á ný. Meðalúrkoma var aðeins um helmingur þess sem venjan er þó hún hafi náð meðallagi á útskögum norðanlands og austan og sums staðar vel það. Snjólítið var víðast hvar en einkum þó á suðurlandi.
Febrúar var sá sjötti hlýjasti sem mælst hefur. Tún voru byrjuð að grænka í mánaðarlok og brum farin að myndast á trjám. Tiltölulega hlýjast var á norðausturlandi, einkum inn til landsins, 3,5 til 4 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Mánuðurinn hófst raunar á kuldakasti fyrstu fjóra dagana en eftir það var oftast hlýtt. Frostið fór í 21 stig í Möðrudal þ. 5. Vindar ollu nokkrum vandræðum í mánuðinum. Norðanbyl gerði þ. 2. suðaustanstorm þ. 10. og þ. 18. geisaði ofsaveður á Austfjörðum. Síðasta daginn var hlýtt og fór hitinn þá í 14,1 stig á Sauðanesvita. Úrkoma var býsna mikil, tvöföld eða meira á suðausturlandi, suðvesturlandi og sums staðar á vesturlandi og í Skagafirði. Aðeins á norðausturhorninu var úrkoman undir meðallagi. Á Eyrarbakka og á Reykhólum var alauð jörð allan mánuðinn. Hvergi voru alhvítir dagar fleiri en tíu.
Mars var sá níundi hlýjasti. Og enn var tiltölulega hlýjast á norðausturlandi 4,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Mestur meðalhiti var í Vík í Mýrdal, 4,8 stig en svalast í byggð í Möðrudal, 0,4 stig en afar sjaldan er þar marsmánuður yfir frostmarki. Hitinn komst þ. 24. í 14,5 strg á Akureyri en 14,7 á sjálfvirku stöðinni á Neskaupsstað þ. 16. Úrkoma var í minna lagi á norðausturhorninu og inn til landsins á norður og austurlandi en yfir meðallagi á útskögum sem og annars staðar á landinu. Á suðausturlandi var úrkoman tvöföld en víða annars staðar kringum 50 % meiri en venja er til.
Veturinn 1846-1847 er fjórði hlýjasti veturinn ef miðað er við mælingar í Reykjavík og Stykkishólmi sem eru stöðvarnar sem þá mældu hita. Meðalhiti kringum 2,1 stig.
Hitinn í desember var reyndar einungis svipaður eða örlítið lægri en hann var að meðallagi árin 1961-1990. Kringum tíu daga kuldakast kom um miðbik mánaðarins en hlýrra var yfirleitt í byrjun hans og enda. Aðeins var mæld úrkoma í Reykjavík þennan vetur og í desember var hún svipuð og meðallagið 1961-1990. Í janúar ríktu hins vegar eindregin hlýindi og var hann sá hlýjasti sem mælst hefur bæði í Reykjavík og Stykkishólmi en 1947 gengur næstur. Á Akureyri virðist mánuðurinn líka hafa verið í svipuðum gæðaflokki samkvæmt mælingum sem þá voru þar gerðar. Er þetta þá líklega hlýjasti janúar sem mælst hefur á landinu í um 200 ár. Mjög úrkomusamt var í Reykjavík en í febrúar og mars var úrkoma fremur lítil miðað við núverandi meðallag.
Í febrúar dró verulega úr hlýindunum og var meðalhitinn í Reykjavík og Stykkishólmi minna en eitt stig yfir meðallaginu 1961-1990. Eins og í desember var kalt um miðbik mánaðarins en síðasta þriðjunginn hlýnaði svo um munaði og héldust þau hlýindi á suðurlandi til loka marsmánaðar en dag og dag kólnaði fyrir norðan. Virðist marsmánuðurinn í heild vera sá þriðji hlýjasti á landsvísu síðan mælingar hófust en líklega voru þó mars 1929 og 1964 hlýrri. Í Reykjavík var þetta þó hlýjasti mars sem mælst hefur en næst hlýjasti í Stykkishólmi.
Þorvaldur Thoroddsen segir svo um þennan vetur í riti sínu Árferði á Íslandi í þúsund ár:
"Framan af árinu voru frostleysur og blíðviðri, svo sóley og baldursbrá voru sums staðar syðra komnar í blóm á þorra. Yfirleitt mundu menn eigi jafngóða vetrarveðráttu... Á Vesturlandi var tíðarfar frá nýári til sumarmála eins og syðra eitt hið ágætasta, svo mátti kalla, að ekki væri frost nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, fannir sáust að eins í háum hlíðum, láglendi var snjólaust og jörðin klakalaus, svo sauðfje og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill sást þrisvar sinnum vera farið að spretta; fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum, andir og æðafuglar flokkuðu sig um eyjar og nes og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn nje skepnur fyndi til vetrarins. Menn sljettuðu tún, hlóðu vörzlugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalvindstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, svo sjógæftir voru nokkuð bágar ... ''
Fimmti hlýjasti veturinn er árið 2005-2006 en hann er samt skör lægra í hitanum en þeir sem áður hafa verið hér taldir. Meðalhiti stöðvanna níu er 1,6 stig.
Desember var sá tíundi hlýjasti. Hann var umhleypingasamur en enginn stórviðri voru þó í mánuðinum. Jóladagur var hlýjasti dagur mánaðarins að tiltölu. Mældist þá mesti hiti í Reykjavík sem komið hefur þann dag, 10,1 stig. Sama dag mældist mesti hiti mánaðarins, 13,7 stig á Sauðanesvita. Mjög hlýtt var einnig þ. 14. þegar hitinn á Akureyri fór í 12,3 stig og 13,1 á Dalatanga en 14,2 stig á sjálfvirku stöðinni í Neskaupsstað. Fyrstu dagana var kalt í veðri, einkum norðanlands og fór frostið í 20,9 stig í Möðrudal þ. 7. Úrkoma var mikil, nær alls staðar meiri en í meðallagi og tiltölulega mest á suðvesturhorninu og um miðbik Vestfjarða. Fremur var snjólétt og var alautt allan mánuðinn í Norðurhjáleigu í Vestur-Skaftafellssýslu. Á nokkrum stöðvum sunnanlands varð aldrei alhvítt og aðeins fjóra daga í Reykjavík. Hvergi var alhvít jörð allan mánuðinn.
Nokkuð umhleypingasamt var á suðvesturlandi í janúar. Hiti var allt upp í 4 stig yfir meðallagi í Vopnafirði en innan við tvo stig vestast á Vestfjörðum og við suðurströndina. Hlýindi mikil voru fyrstu vikuna og komst hitinn 15,8 stig á sjálfvirku stöðinni í Neskaupsstað þ. 4. og daginn eftir í 14,8 stig á Skjaldþingsstöðum. Um miðjan mánuðinn kom kuldakast og mældist þá mesta frost á landinu og var það á fremur óvenjulegum stöðum, -21,0 stig á Stafholtsey í Borgarfirði en -21,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Hvanneyri. Úrkoma var mikil. Hún var þó venju fremur lítil á svæðinu frá Skagafirði til Norðfjarðar en mjög mikil sums staðar á vesturlandi og suðurlandi. Í Reykjavík var mesta janúarúrkoma síðan 1947. Á Kvískerjum mældist úrkoman 700,2 mm. Á Teigarhorni var þetta þriðji úrkomusamasti janúar frá 1874 en mælingar vantaði reyndar árið 1997 sem var afskaplega úrkomusamur mánuður á þeim slóðum.
Febrúar var sá fimmti hlýjasti sem mælst hefur. Hitinn var tiltölulega jafn um allt land, 2,5-3,5 stig yfir meðallaginu 1931-1990 nema norðvestast á landinu þar sem nokkru kaldara var. Loftvægi var hátt og norðanátt var venju fremur tíð þrátt fyrir hlýindin. Úrkomusamt var sunnanlands og vestan en yfirleitt í þurrara lagi á norður og austurlandi. Mikil hlýindi ríktu á síðasta þriðjungi mánaðarins og fór hitinn í 16,2 stig á sjálfvirku stöðinni á Seyðisfirði þ. 21. og sama dag í 14,6 stig á Skjaldþingsstöðum. Gróður fór víða af stað, bæði tré og gras. Snjór var mjög lítill, aðeins þrjá daga var alhvítt á Akureyri og þrjá í Reykjavík en alautt var allan mánuðinn syðst á landinu.
Veðrátta var talsvert breytileg í mars, hlýtt um miðjan mánuðinn en kalt fyrstu dagana og síðasta þriðjung mánaðarins. Meðalhiti alls mánaðarins var lítið yfir meðallagi. Frostið fór í 23,1 stig í Möðrudal þ. 5. Í hlýindakaflanum var hæð við Færeyjar og svo sunnan við land þ. 17. og 18. og var þá sólskin og mikil hlýindi á suðausturlandi. Hitinn fór þá í 16,6 stig á sjálfvirku stöðinni á Fagurhólsmýri en 15,0 á þeirri mönnuðu og 16,2 stig á sjálfvirku stöðinni í Skaftafelli. Úrkoma var lítill. Hún var yfir meðallagi einungis um miðbik norðurlands og kringum Reyðarfjörð og upp á Hérað en afar lítil á suðurlandi og vesturlandi. Sérstaklega var þurrt í kuldakastinu í lok mánaðarins og var þá oft allhvasst af norðri. Síðasta dag mánaðarins hófust sinueldararnir miklu á Mýrum. Snjólétt var syðra og vestra en kringum meðallag eða rúmlega það á norður og austurlandi. Alhvítt var þó allan mánuðinn í Reyðarfirði.
Næstum því enginn munur er á vetrarhita 2005-2006 og 1971-1972 en hér verður látið staðar numið. Hægt er þó að sjá tölur um veturinn 1972 í fylgiskjalinu.
Vetur á Íslandi fóru að hlýna upp úr 1920. Næstu áratugi voru meðalvetur lítið kaldari en hlýjustu vetur voru áratugina þar á undan. Eftir hlýja veturinn 1847 fylgdu tveir hlýir vetur árin 1851 og 1852 sem voru kringum 0,8 og 0,9 stig en hlýjasti vetur eftir það voru veturnir 1875, um 0,1 stig, 1880, um 0,5 stig og 1901, 0,1 stig. Svo kom allt í einu veturinn 1923 upp á 1,3 stig og boðaði almennt hlýrri vetur. Síðast taldi veturinn er sá níundi hlýjasti á eftir þeim sem hér hafa verið raktir, en auk þeirra voru veturnir 1972 (1,6° ), 1946 (1,4°) og 1942 (1,4°) hlýrri en 1923.
Ástæðurnar fyrir mjög afbrigðilega hlýjum (og köldum) mánuðum eða heilu vetrunum er vitanlega óvenjulega mikið aðstreymi af hlýju (eða köldu) lofti. Hér verður ekki farið lengra í þá sálma en vísað á þennan pistil þar sem ýmislegt er útskýrt hvernig það gerist. Þó skal tekið fram að mjög bar á hagstæðum fyrirstöðuhæðum fyrir Ísland veturna 1929 og 1964 og líklega einnig í janúar og mars 1847.
Í fylgiskjalinu má sjá hvernig þessir vetur koma út í tölum í samanburði við meðallag.
Heimildir: Veðráttan, Þorvaldur Thoroddsen: Árferði á Íslandi í þúsund ár, gefið út í Kaupmannahöfn 1916-17, vefsíða Veðurstofunnar, ''veðurfar''. Ýmsar meðalhitatöflur frá Veðurstofunni.
Vísindi og fræði | Breytt 11.4.2010 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2010 | 00:16
Skýrslan
Er nú ekki nær að lesa biblíuna heldur en þessa hrunskýrslu?
Hvort tveggja eru doðrantar miklir.
En í biblíunni er að finna allt sem við þurfum á að halda til að lifa vel og viturlega!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (68)
6.4.2010 | 00:43
Bleyður
Bandaríski herinn rannsakaði atvikið sem myndbandið í Kastljósi í kvöld sýndi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að farið hafi verið í einu og öllu að reglum um vopnuð átök.
Myndbandið sannar að svo var ekki og þessi rannsókn hersins er með öllu ótrúverðug. Einungis gerð til að réttlæta.
Það stangast á við allar reglur að skjóta á þá sem eru að reyna að koma særðum til hjálpar.
Auk þess laug herinn blákalt um ýmsa þætti málsins.
Við skulum svo ekki gleyma hvernig hermennirnir höguðu orðum sínum um þá sem þeir drápu, ''sjá þessi dauðu kvikindi''.
Þvílíkir grimmdarseggir og bleyður!
Enginn mun þó líklega þurfa að svara til saka fyrir atvikið, allra síst herforingjarnir, og bandaríski herinn mun, þrátt fyrir augljósa lygi sem nú er á allra vitorði, halda áfram réttlæta sig með kjafti og klóm.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006