Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Hitabylgjan á enda í Rússlandi

Hitabylgjan er loks á enda í Rússlandi. Hún hefur staðið í eina tvo mánuði.

Í nótt var tveggja stiga frost í Kotlas og eins stigs frost í Arkhangelsk. 

Hitinn í dag var undir meðallagi suður fyrir Moskvu en í kringum meðallag eða lítið eitt yfir því syðst i landinu.

Hægt er að skoða gang hita og úrkomu í Moskvu hér fyrir júní, júlí og það sem af er águst.Til hægri á síðunni er hægt að sjá hver mælst hefur mesti hiti á viðkomandi degi og árið sem það var. Þetta er auðþekkt á tölunum og ártölunum innan sviga. Sést þar hve ótrúlega mörg dagshitmaet hafa verið slegin í sumar. Ef smellt er svo á lengst til hægri þar sem stendur mинимумы kemur fram lágmarkshitinn á sama hátt.

Lengst til vinstri í töflunum er dagsetning, þá lágmarkshiti (blátt), meðalhiti (grænt), hámarkshiti (rautt) vik frá meðallagi og loks úrkoman í mm. Neðar á síðunni er línurit. Punktarnir  í þeim sýna mesta og minnsta hita sem nokkurn tíma hefur mælst viðkomandi dag í Moskvu.  Fyrir neðan hér á bloggfærlsunni má  hins vegar sjá kort sem sýnir hámarkshitann í dag í nokkrum borgum í  Rússlandi. Hvergi varð hlýrra en 35 stig. Gang hámarkshitans í landinu síðan í júní -og á öllu norðurhveli - má sjá í fylgiskjalinu við þessa bloggfærslu.

 

 cgiaktgraph.gif

 


Ágúst í Reykjavík og á Akureyri í beinni útsendingu

Jæja, vegna ''fjölda áskorana'' (í það minnsta einnar!)  hef ég ''látið tilleiðast'' og kemur þá þessi ágúst í Reykjavík  í  beinni útsendingu frá ''Allra veðra von'' þar sem alltaf er nú allra veðra von.  

Meðalhitinn er nú 13,2 stig og ef það helst til mánaðarmóta yrði það nýtt hitamet fyrir ágúst ofan á hitametin fyrir júní og júlí. Enn hlýrra er þó sums staðar annars staðar á landinu, kringum 13,5 í Stykkishólmi og 13,6  á Akureyri. 

En það er enn mikið eftir af mánuðinum. Næstu daga mun hitinn halda í horfinu í Reykjavík, jafnvel stíga,  en um næstu helgi er spáð norðanátt sem virkilega mun setja strik í reikninginn.

Við sjáum hvað setur og fylgjumst með í beinni á Allra veðra von.

Í fylgiskjalinu. 

Þar er  hægt að sjá hitann í bænum á þriggja tíma fresti allan mánuðinn, ásamt hámarks -og lágmarkshita þar sem reynt er  að skipta um milli daga á miðnætti en ekki kl. 18   sem þó  oftast er  venjan. Dagsmeðaltal hvers dags 1961-1990 er þarna líka. Einnig sést sólskin hvers dags og sú úrkoma sem mælst hefur  kl. 9  að morgni. Þá er þarna hámarks-og lágmarkshiti hvers dags á landinu á láglendi eða í byggð eða á Hveravöllum ef verkast vill. Og mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á landinu klukkan níu að morgni. Auk þess  er þarna hitinn á miðnætti og á hádegi yfir Keflavík í 850 hPa og 500 hPa hæðum (um 1400 m og um 5,5, km). Langtímameðalhitinn þarna uppi fyrir allan ágúst er um  tvö og hálft  stig og um -20 og hálft stig. Þá sést þarna loks svokölluð þykkt milli yfirborðs og 500 hPa flatarins  í dekametrum. Því  meiri sem hún er því betri skilyrði eru fyrir hlýindum. 

Mun þriðji sumarmánuðurinn í röð setja hitamet í Reykjavík? Eða verður metið jafnað? Eða verður ''mánuðurinn okkar''  sér til háborinnar skammar?

Þetta mun allt koma í ljós í þráðbeinni útsendingu frá Allra veðra von!

Allra veðra von - eina bloggsíðan þar sem virkilega er allra veðra von! 

Viðbót: Akureyri hefur nú verið bætt við vöktunina. 

Enn ein viðbót: Bætt hefur verið inn í töfluna í fylgiskjalinu samanlögðum sólarhringsmeðalhita fyrir 10 stöðvar, Reykjavík, Stykkishólm, Bolungarvík, Blönduós, Akureyri, Raufarhöfn, Egilsstaði, Höfn, Kirkjubæjarklaustur og Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Meðalhiti allra þessara stöðvar var í gær 11,9 en meðalhiti þeirra í ágúst 1961-1990 var 9,5 stig. Á þennan hátt er hægt að fylgjast  svona nokkurn vegin með fráviki meðalhitans yfir allt landið. 

Og enn ein viðbót: Bætt hefur verið við dagsmeðaltölum fyrir Akureyri svo  hægt er sjá hvað hver dagur víkur þar frá meðalhita eins og fyrir Reykjavík.

Frekari viðbót: Bætt hefur verið inn dálkum sem sýna mesta og minnsta hita sem vitað er um að mælst hafi nokkurn tíma á landinu í byggð eða á Hveravöllum fyrir hvern dag mánaðarins, hvort heldur sem er á mönnuðum veðurstöðvum eða sjálfvirkum. Það eru bara tölurnar en nánari atriði með stöðvar og tímasetningu má finna í veðurdagatalinur.  

Bætt hefur verið inn dálkum um minnsta og mesta hita sem mælst hefur nokkru sinni í Reykjavík á degi hverjum. 

Auk þess hefur æðsta ráð ''Allra veðra von'' ákveðið með öllum atkvæðum gegn engu, en letipúkinn sat hjá, að halda þessari mánaðarvöktun áfram héðan í frá.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitabylgjan í Rússlandi

Lítið lát er á hitabylgjunni í Rússlandi.    

400x266_08031653_page-1.jpgOrsökin fyrir henni er sú að snemma sumars byggðist upp mikil fyrirstöðuhæð í háloftunum yfir Rússlandi, norðan við Kaspíahaf. Hæðin veldur því að skotvindurinn leitar norður og austur fyrir hæðina. Og það varnar því að rakaþrungið loft frá Atlantshafi  komist nokkurs staðar að til að kæla þó ekki væri nema suma daga. Afar heitt loft frá Mið- Asíu, Arabíuskaga og NA-Afríku hefur þess í stað streymt yfir Rússland. Landið hitnar þá mjög og það styrkir enn háloftahæðina, uppgufun eykst og jarðvegurinn þornar. Þyktin í hæðinni var dögum eða jafnvel vikum saman yfir 570 dekametrar og stundum yfir 575

Strax um miðjan júní komu nokkrir mjög heitir dagar í sunnanverðu og mið Rússlandi en kólnaði svo nokkuð þar til hitinn náði sér aftur á strik í mánaðarlokin. Í Moskvu komst hitinn þá í 33 stig. Meðalhitinn í Moskvu í júní var þó ekki meira en 1,7 stig yfir meðallagi. Hitamet var ekki slegið en tvo daga voru sett dagshitamet.

Í fyrstu viku júlí var skotvindurinn kominn í miklu norðlægari stöðu en venjulega en nokkrar lægðir voru við Svartahaf. Þetta olli mjög heitu veðri næstu daga. Þann 11. júlí mældist í Jaskul mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst í öllu Rússlandi, 44,0 stig. Gamla metið var 43,8 stig frá 6. ágúst 1940. Jaskul er milli Volgograd og Kaspíahafs og er 7 metra undir sjávarmáli. Þetta er bara smáþorp. Hér má sjá gang hitans og annarra veðurþátta í Jaskul í júlí. Svipaður hiti var í nágrenninu. Eftir fjóra daga kólnaði verulega en svo steig hitinn enn á ný. Frá 24. júlí hefur hitinn á hverjum degi einhvers staðar í Rússlandi farið í 40 stig eða meira og oftast á nokkuð stóru svæði. Hámarkshiti 36 stig til 40 hefur verið norður eftir öllu Rússlandi. Þó náðu hitarnir ekki til Hvítahafsins fyrr en seint í júlí en í Arhangelsk hafa þó engin hitamet verið slegin. Og í heild var júlímánuður þar örlítið undir meðallagi.

ru_2010_7_28.gifHitatametið í Moskvu var slegið tvisvar í júlí,  síðara skiptið þ. 28., 38,2 stig. Í miðborginni mældist hitinn 39,0 stig. Mesti hiti í Moskvu sem mælst hefur í ágúst kom svo  þ. 6.  37,3 stig. Dagshitamet voru sett í borginni alla dagana frá 22. til 29. júli  og líka dagana 3. til 6. ágúst og 8. til 10. ágúst. Meðalhámark á þessum árstíma er 23 stig en alloft fer hitinn yfir 30 stig á venjulegum sumrum. Um tíma náðu hitarnir til Finnlands. Mesti hiti sem mælst hefur þar í landi mældist þ. 29. í Joensu, 37,2 stig. Daginn áður hafði komið metið í Helsinki, 33, 2 stig.

Meðalhitinn í júlí í Moskvu var 26,1 stig eða 7,7 stig yfir meðallagi! Í St. Pétursborg var hitinn 6,3 stig yfir meðallagi. Þar var júlí hámarkið slegið þ. 28. 35,3 stig en 7. ágúst kom árshitametið, 37,1 stig.

Sunnar í landinu var hitinn nokkru minna yfir meðallagi, um 4-5 stig en samt var hlýrra þar í beinum tölum talið.  

Hitarnir náðu ekki almennilega til héraðanna vestan við Úrafjöll á Moskvubreiddargráðum fyrr en í ágúst en það sem af er mánaðarins þar hefur hitinn verið 5 til 8 stig yfir meðallagi.  

ru_2010_8_1.gifFyrsta vika ágústmánaðar var víða heitasti tíminn. Í Vorones for hitinn þ. 2. í 40,5 stig. En kannski var sá 3. allra heitasti dagurinn ef litið er til þess hve víða mældist 40 stiga hiti. Þá var slegið met í Pensa, 41,0 stig og sami hiti mældist þann dag í Tambov, sem er líka met, en þar fór hitinn yfir 40 stig fyrstu fimm daganna í ágúst. Í Astrahan við Kaspíhaf fór hitinn þ. 3.  í 40,8 stig sem er ágústmet þar.  

Kortin, sem sýna dagshámarkshita,  stækka ef smellt er á þau. 

Það sem af er ágúst er meðalhitinn í Volgograd 10 stig yfir meðallagi. Fyrsta dag mánaðarins var hitatmetið þar slegið, 41,1 stig.  Í Kasan austan við Moskvu hefur hitinn það sem af er ágúst hins vegar verið 11,6 stig yfir meðallagi!

Eiginlega er lítið lát á hitunum. Í dag fór hitinn í Aleksandrov Gaj, skammt frá landamærunum við Kasakstan, til dæmis í 41 stig og 39 í Volgograd. Í Kænugarði í Úrkaínu var hitinn 37 stig.

Þessir hitar með tilheyrandi þurrkum hafa eyðilagt uppskeru, valdið miklum eldum og orðið fjölda manns að fjörtjóni. En það er önnur saga. 

Hitabylgjur hafa reyndar víðar verið á sveimi í sumar en í Rússlandi. Í fylgiskjalinu má til gamans sjá mesta hita á hverjum degi síðan 1. júní á öllu norðurhveli, Evrópu (án Tyrklands en með Kýpur), Rússlandi, Asíu, Afríku og N-Ameríku. Auðvitað er ekki um að ræða allar veðurstöðvar á þessu svæði heldur þær hverra athuganir fara í alþjóðlega dreifingu. Það sést að ansi heitt er víða á jörðinni og eiginlega ótrúlegt að mannlíf skuli þrífast sums staðar. En mennirnir geta víst aðlagað sig öllu og svona miklir hitar standa aðeins yfir hluta ársins. Fylgiskjalið verður uppfært að minnsta kosti út ágúst.

Það verður nú ekki mikið úr íslensku ''hitabylgjunum'' við hliðina á þessum fádæmum!     

En þær eru samt kósí og vinalegar.

Hér er hægt að sjá veðrið á rússneska vefnum, sem vísað er til hér fyrir neðan,  fyrir Reykjavík á þriggja tíma fresti í júlí. Veðurstofan mætti alveg sýna eitthvað svona. Lengst til vinstri er klukkustundin og dagsetningin, þá vindstefna og vindhraði í m/s, skyggni, veður á athugunartíma, skýjahula, hæð skýja og skýjategundir, hiti, daggarmark, rakastig, þá er þarna þægindastuðull (á rússnesku), loftþrýstingur, lágmarks og hámarkshiti og úrkoma í mm.     

Skýringarmyndin (mætti vera betri) er upphaflega komin frá Accuweather, kortin héðan frá  en flest hitt frá þessum frábæra veðurvef. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hve nær er nóg nóg

Það er auðvitað gaman að gera sér glaðan dag. En allt hlýtur að vera best í hófi. Skemmtanafíkn Íslendinga á vegum bæjarfélaga, sem hófst til hæstu hæða meðan græðgisdellan var sem mest, hlýtur samt að vera búin að fá á sig hreinlega nevrótískan svip.

Skíðavikan, Aldrei fór ég suður, Hafnardagar, Bjartir dagar, Sjóarinn síkáti, Útifjör, Víkingahátíðin, Jónsmessuhátíðir, Bjartar nætur, Bjartir dagar, Sólseturshátíð, Lummudagar, Blóm í bæ, Humarhátíð, Írskir dagar, Þjóðlagahátíð, Sæluhelgi, Skógarhátíðin mikla, Brú til Borgar,  Bryggjuhátíð, Húnavaka, Kátt í Kjós, Sænskir dagar, Danskir dagar, Kátir dagar, Reykholtshátíð, Mærudagar, Tálknafjör, Síldarævintýrið, Aldrei fór ég suður, Mýraeldar, Tekið til kostanna, Sæluvika, Vor í Árborg, Skjaldborg, Eldur í Húnaþingi, Síldarævintýrið, Fiskidagurinn mikli, Grímsævintýri, Ormsteiti, Grenivíkurgleði, Kántrýhátíð, Sveitasæla, Blómstrandi dagar, Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Neistaflug, Sandgerðisdagar, Ljósanótt, Veturnætur, Haustfagnaður, Dagar myrkurs.

Hér er ekki allt upp talið.

Maður er manns gaman og eflaust er sumt sem hér er upptalið ágæt  skemmtun. En það er heldur ekki hægt að horfa framhjá því að magnið eitt og sér er  bókstaflega  undravert í litlu landi þar sem hægðarleikur er fyrir marga að færa sig af einni hátíð yfir á aðra. Vera í samfelldu ''fjöri'' allan bjartari helming ársins og lengur þó. Og þessu fylgir oft mikill ''erill'' eins og það er kurteislega orðað en það er annað orð yfir mikið og almennt fyllirí. 

Er þetta ekki orðið hrein della?

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík er að hugsa um að sleppa flugeldasýningunni á Menningarhátíð. 

Vonandi gerir hann það. Og vonandi verða þau viðbrögð líka til þess að menn fari að íhuga almennt hvort þessi skemmtanafíkn Íslendinga á vegum bæjarfélaga sé ekki komin út í  hreinar öfgar. Að einhvern tíma verði nóg alveg yfrið nóg.

 


Annars konar hitamet jafnað í Reykjavík

Eins og kunnugt er var júlí síðastliðinn sá hlýjasti að meðalhita í Reykjavík ásamt júlí 1991, 13,03 stig.

Í nótt mældist minnsti hiti í borginni 11,4 stig. Þar með hefur hitinn í Reykjavík ekki farið niður fyrir  tíu  stig í 17 sólarhringa. Það er jöfnun á meti sem einnig er frá 1991, en þá fór hitinn ekki niður fyrir  tíu stig frá 22. júlí til 7. ágúst eða í 17 sólarhringa.

Frá því Veðurstofan var stofnuð 1920 hefur hitinn ekki farið niður fyrir  tíu stig, fyrir utan 1991,  í  tólf daga 29. ágúst til 9. september 1939 og tólf daga 24. júlí til 4. ágúst 2007 og tíu daga í júlí 1926, júlí 1936, júlí 1939, september 1958  og í ágúst 2004.  Fyrir daga Veðurstofunnar, árið 1894 fór hitinn ekki undir  tíu stig í fimmtán daga, 25. júlí til 8. ágúst. 

Nú er bara að sjá hvort metið verður alveg slegið í nótt, sólarhringarnir verði þá 18 sem hitinn í Reykjavík hefur ekki farið niður fyrir tíu stig. 


Það eru engin haustmerki í veðrinu

Ég var að lesa grein á Vísi is. Þar koma fram sjónarmið sem alveg er árvisst að koma einhvers staðar fram eftir að verslunarmannahelgi lýkur. Þau eru að nú sé að verða haustlegt og að  gefið sé í skyn að sumrinu sé eiginlega lokið. Greinarhöfundur hafði verið í Flatey í Breiðafirði þar sem hún segir að sólin hafi baðað gesti. En segir svo: ''Aðra sögu var víst að segja um ástandið í Reykjavík en þegar heim var komið minnti höfuðborgin eyjafara óþægilega mikið á að haustið er á næsta leiti. Þar var skýjað og vindurinn feykti upp bílhurðinni og ýtti þeim inn á heimilið. Eina rauða laufblaðið sem dinglað hafði einmana fyrir utan stofugluggann minn fyrr í vikunni hafði fjölgað sér og fengið til liðs við sig nokkur gul og reyniberin voru á góðri leið með að verða rauð. Haustið er svo sannarlega á næsta leiti. Lok verslunarmannahelgarinnar, veðrið og náttúran bera þess glöggt vitni.

Eftir lok verslunarmannahelgar finnst mér alltaf sem haustið sé að koma.''

Þessi grein er reyndar öðrum þræði bollalegging um það hvað tíminn líður hratt, jólin séu jafnvel á næsta leiti. 

Eigi að siður er það alrangt að veðrið þessa dagana og náttúran beri því glöggt vitni að haustið sé á næsta leyti. Það er auðvitað rétt að það er styttra í haustið í dögum talið núna heldur en var í júní. Hins vegar er meira sumar á þessum árstíma yfirleitt og verður væntanlega  í fáeinar vikur heldur en  venjan er nokkurn tíma í  öllum júní og reyndar líka framan af júlí.

Sumar er fyrst og fremst skilgreint eftir hitastigi en ekki birtustigi. Hásumar veðurfarslega er heilum mánuði eða jafnvel meira á eftir þeim tíma þegar sól er hæst á lofti. Þetta hélt ég að væri almenn þekking.

Núna er akkúrat hásumar veðurfarslega. Það verður ekki hlýrra á neinum parti sumarsins að meðaltali, fyrir utan fáeina daga næst á undan,  og þetta er einna hægviðrasamasti tími ársins. Úrkoman fer dálítið vaxandi þegar líður á águst. Og einmitt framan af ágúst eru einna minnstar líkur á alvarlegum kuldaköstum. En auðvitað kólnar hægt og bítandi eftir því sem líður á mánuðinn. Eigi að síður er ágúst yfirleitt næst hlýjasti mánuður ársins og stundum sá hlýjasti. Að meðaltali er dagshitinn í Reykjavík 1. september sá sami og 13. júní og þá má alveg búast við sumarveðri í svona hálfan mánuð í viðbót. Síðustu dagar ágústmánaðar eru alla jafna svipaðir að hita og fyrstu dagar júlí. Í ágúst geta meira að segja komið magnaðar hitabylgjur eins og sú sem kom þ. 9.-13. árið 2004.  

Auðvitað haustar veðurfarslega missnemma eftir árum. Það geta líka komið kuldaköst hve nær sem er um mitt sumar.  Og í dögum talið er eins og áður segir styttra til hausts nú  í byrjun ágúst en í byrjun júní. Og tíminn líður hratt og íslenska sumarið er í eðli sínu stutt. 

Það er hins vegar alrangt að setja upp einhverja sérstaka hauststemningu strax og verslunarmannahelgi lýkur, einmitt á nokkurn vegin hápunkti sumarins, eins og virðist þó vera lenska hjá æði mörgum á hverju einasta ári.  Þessi grein sem ég geri hér að umtalsefni með sínum haustlýsingum, sem eiga sér enga stoð í veðurlaginu (hiti hefur t.d. ekki farið niður fyrir 10 stig í Reykjavík í hálfan mánuð), birtist 4. ágúst. Ef nú er orðið haustlegt hvað á þá sumarið að vera langt í hugum þeirra sem hugsa svona? Hvenær byrjar það? Er bara sumar í júlí úr því næsthlýjasti mánuður ársins, áberandi hlýrri næstum því alltaf en júní, er orðinn eins konar haustmánuður bara strax í byrjun?

Hve nær skyldi þessi vitleysa taka enda að strax eftir verslunarmannahelgi fari að birtast blaðagreinar og bloggpistlar um hvað sé orðið haustlegt og sumarið sé búið.

Menn ættu frekar að njóta  veðurfarslega besta tíma ársins. 

 


Bloggið mitt um veður og annað

Bloggsíða mín var fyrst og fremst stofnuð til að blogga um veðrið. Ég hef oft tekið það fram. Það  er nóg af bloggurum sem blogga um annað, ESB, Icesave, trúmál og bara hvað sem er. En þetta blogg mitt er fyrst og fremst hugsað sem eins konar upplýsingaveita og bollaleggingar fyrir þá sem áhuga hafa á veðri.

Ég veit vel að þeir eru fáir. En þeim er þetta samt ætlað, þeim sem skilja það og kunna á einhvern hátt að meta það. Á vefsíðu Veðurstofunnar hef ég lesið ummæli um skrif mín um veður sem benda til þess að  eitthvað vit sé í þeim. Þegar ég var unglingur man ég hvað ég drakk í mig öll skrif um veður og var þakklátur fyrir þau. Kannski hugsa einhverjir fleiri á svipuðum nótum.  Og ég hef ánægju af því að deila veðurpælingum mínum með þeim sem eru á  þeim nótum. Þess vegna og eingöngu þess vegna er ég að þessu. Í efnisyfirliti um veður má sjá í sjónhendingu  hvað ég hef skrifað um veðrið. Og það sem ég hefi skrifað það hefi ég skrifað!

Af gefnu tilefni, sem ég ætla þó ekki að rekja, sé ég ástæðu til að taka ofanritað fram.

Þetta breytir ekki því að ég hef líka bloggað um ýmislegt annað en veður. Enda hef ég áhuga á fjölmörgum viðfangsefnum og skrifað um sumt af því, til dæmis bókmenntir og tónlist, þó ekki svo mikið á bloggi heldur á almennum vettvangi. Með tímanum hefur áhugi minn á  venjulegu bloggi minkað stöðugt. Þetta var skemmtilegt fyrst en gamanið er að miklu leyti  kafnað í mínum augum í pólitísku ati. Samt finnst mér enn gaman að einstaka bloggsíðu, ekki síst þeim sem einbeita sér að sérstökum viðfangsefnum sem um er skrifað af þekkingu og viti.

Ég er nú með ýmsar veðurfærslur í takinu. Ein er um illviðri að sumarlagi, önnur um þrumuveður á sumrin, þriðja um rigningarsumur. Auk þess er ég vandlega að endurskoða pistla mína um hlýjustu og köldustu mánuði og mesta og minnsta  hita sem mælst hefur í mánuði hverjum. Endurskoðunin hefur enn ekki verið sett inn á síðuna en gömlu pistlarnir standa þangað til. Hitt er annað mál að vinnustífla og skriftartregða sækir nú nokkuð á mig.

Líkast til held ég þó áfram að blogga um veðrið þar til ég dett steindauður niður. Sem ég gæti alveg trúað að komi yfir mig eins og þruma úr heiðskíru lofti!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband