Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
27.3.2011 | 17:16
Þessi dagur árið 1948
Þennan dag árið 1948 mældist mesti hiti sem komið hefur á Íslandi í mars á mannaðri veðurstöð. Á Sandi í Aðaldal mældust þá 18,3 stig.Mjög hlýtt loft var yfir landinu þennan dag og daginn eftir. Voru þá ótrúlega víða sett hitamet fyrir mars sem enn standa.
Hinn 27. kl. 14 að íslenskum miðtíma var austsuðaustan stinningskaldi í Reykjavik og minna en hálf skýjað og hiti 14,0 stig og hefur hámarkshitinn líklega komið um það leyti en kl. 17 var hitinn 11,8 stig. Sól mældist í 2,9 stundir. Næsta dag fór hámarkið í 12,4 stig. Veðurlag var þá svipað en heldur meiri sól, 6,1 klukkustund.
Metið á Sandi hlýtur að standa sem Íslandsmet fyrir marsmánuð þó 18,8, stig hafi mælst á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði þ. 28. árið 2002 og 18,4 stig á sjálfvirka mælinum á Daltanga 31. mars 2007. Í mars 1948 voru auðvitað engar sjálfvirkar stöðvar.
Á Íslandskortinu eru þau marshitamet sem enn standa frá þ. 27. 1948 merkt með rauðu en þau met sem sett voru þ. 28. og standa enn með bláu. Auk þess er merkt með grænu hámarkshiti mánaðarins sem féll á þ. 27. á þremur stöðvum sem þó eru ekki nein met. Örfáum hámarksmælingum sem hvorki féllu á þann 27. eða 28. eða eru met á viðkomandi stöð er sleppt. Hins vegar er þarna metið frá Grímsstöðum á Fjöllum sem reyndar kom þ. 4. sem líka var mjög hlýr dagur og þá mældust 15,5 stig í Fagradal í Vopnafirði. Stöðin rétt sunnan við Reykjavík er Víðistaðir við Hafnarfjörð þar sem athugað var í næstum 30 ár. Mætti vel setja upp sjálfvirka veðurstöð í þessum fjölmenna bæ.
Þá er einnig kort sem sýnir hæð 500 hPa flatarins og loftþrýsting við jörð að kvöldi hins 27. og annað sem sýnir hita í 1400-1500 metra hæð. Gaman er að sjá kuldann í Austur-Evrópu sem teygir sig suður um Balkanskagann og svo hitann yfir Íslandi. Ekki eru tiltæk nein veðurkort frá landinu sjálfu þessa daga.
Mars 1948 var merkilegur fyrir fleira en methita. Hann er einn allra úrkomumesti mars sem mælst hefur og þá komu fræg flóð í Ölfusá.
Það væri nú ekki amalegt að fá svona marsdag. Hvar eru eiginlega þessi meintu gróðurhúsaáhrif? (Djók).
Veðurfar | Breytt 9.4.2011 kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2011 | 14:59
Mars
Meðalhitinn í mars er nú tvö stig undir meðallagi 1961 til 1990 í Reykjavík en kringum eitt stig á Akureyri og líklega svipað og það á öllu landinu. Mildara er austantil heldur enn annars staðar. Á Höfn í Hornafirði virðist meðalhitinn vera yfir meðallagi.
Þetta eru auðvitað ekkert sérstakir kuldar, ekki einu sinni þó miðað sé við hlýindatímabil. Mars 2001 var svipaður að hita á landinu og það sem af er þessum, en febrúar 2002 var meira en þrjú stig undir meðallagi. Ég tel hann 15. kaldasta febrúar síðan 1866 og kaldasta mánuð á landinu eftir mars 1979. Síðustu tuttugu ár, sérstaklega síðustu tíu ár, hefur þó ríkt hlýindatímabil eins og allir vita. En hlýindatímabil eru engin trygging fyrir því að kuldamánuðir komi ekki innan um hlýju mánuðina. Þeir eru þó alltaf jafn ónotalegir.
Þessi vetur hefur verið mildur þangað til nú í mars. Og við erum góðu vön síðustu ár. Þess vegna finnst okkur það nokkur viðbrigði að upplifa fremur kaldan og leiðinlegan síðasta hluta vetrarins. En við slíku má samt alltaf búast meðan enn er þó vetur. Við getum þó huggað okkur við það að þegar þessi kuldahrina gengur yfir, sem mun vonandi gerast innan ekki mjög langs tíma, er ekki líklegt að við upplifum kulda og snjóa dögum saman fyrr en næsta haust. En það er samt möguleiki.
Árin kringum 1950 voru á hlýindaskeiðinu fyrra á tuttugustu öld þó ekki væru þau ár hlýjasti hluti þess. Eigi að síður komu þá á fimm árum þrír af allra köldustu aprílmánuðum, 1949, 1951 og 1953. Tveir þeirra, 1949 og 1951, eru á topp tíu listanum mínum yfir köldustu aprílmánuði á landinu frá 1866 og 1953 er mjög skammt undan. Allir þessir mánuðir voru afar líkir að hita og voru í kringum frostmark í Reykjavík og tæp þrjú stig undir meðallaginu 1961 til 1990 á landinu. Þeir voru allir ígildi meðal janúnarmánuðar hvað kulda snertir.
Alhvítir dagar það sem af er mars í Reykjavík eru nú taldir vera 15. Þeir verða kannski fleiri og hugsanlega fleiri en í öðrum mánuðum frá aldamótum.
Fylgiskjalið fylgist með þessu eins og fyrri daginn á blaði eitt og tvö.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.4.2011 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2011 | 03:08
Ónáttúra gróðurhúsaáhrifanna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2011 | 01:26
Vorar samt
Varpaðu frá þér vetrarkvíða.
Vorsins finnst þér langt að bíða.
En það kemur hægt og hægt.
Storminn þunga hreggs og hríða
hefir kannske bráðum lægt.
Við því búinn vertu sjálfur:
Vorið fer um lönd og álfur.
En því miðar hægt og hægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.3.2011 | 15:17
Köldustu marsmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu, sem reiknað er út frá, er -0,3° 1961-1990.
1881 (-9,9) Ókrýndur kuldakóngur allra marsmánaða var árið 1881. Þá var meðalhitinn í Reykjavík -6,1 stig en -13,3 í Stykkishólmi. Þetta er reyndar kaldasti mánuður sem í Hólminum hefur mælst frá upphafi í nokkrum mánuði. Á Siglufirði var meðalhitinn talinn -19,8 stig sem er óskapleg tala. Það mun láta nærri að vera ein 18 til 19 stig undir meðallaginu 1961-1990. Reyndar er hugsanlegt að eitthvað hafi verið athugunarvert við hitamælinn svo hann hafi sýnt of lágan hita. Varla hefur Siglufjörður verið kaldasti staður landsins og einhvers staðar hefur meðalhitinn átt að vera meiria en 20 stiga frost eftir þessu og er það með hreinum ólíkindum. En mjög kalt getur samt orðið á Siglufirði og þegar fjörðurinn hefur verið fullur af hafís hefur hann orðið eins og frystikista. Í Grímsey var meðalhitinn -17,0 stig en -13,5 á Valþjófsstað í Fljótsdal og -8,3 stig á Eyrarbakka. Allt kuldamet fyrir mars. Hitamælingar voru reyndar aðeins á fáeinum stöðvum, t.d. hvorki á Akureyri né Grímsstöðum. Ljóst er samt að fyrir norðan er þetta kaldasti mánuður í árinu sem þar hefur nokkru sinni mælst, en fyrir sunnan var nokkru kaldara í janúar 1918. Mesti giti á landinu í mars 1881 var 6,6 stig í Vestmannaeyjum. Það er reyndar lægsti skráði hármakshiti í mars á landinu en segir ekki mikið vegna þess hversu veðurstöðvar voru fáar. Mánuðurinn var umhleypingasamur og snjóþungur og allur mjög kaldur. Mikið óveður, kallað góubylurinn, gekk yfir landið þ. 5. Þá voru veðrabrigðin frábær. Lægðardrag frá norðvestri var á leið yfir landið og gekk ekkert smáræði á. Um nóttina þegar skilin gengu yfir kólnaði um tuttugu stig í Grímsey. Á Valþjófsstað var sunnanátt og sex stiga hiti kl. 14 en hálfri klukkustund síðar var kominn allhvöss austanátt, fjögra stiga frost og snjókoma. Klukkan 8 um morguninn hafði verið rigning og þoka í Vestmannaeyjum og 7 stiga hiti en á sama tíma 20 stiga frost í Grímsey og á Siglufirði og 15 stiga frost, snjókoma og rok í Stykkishólmi. Þá var hitinn um frostmark í Reykjavík. Klukkan 21 var þar komið 9 stiga frost og þá var hitinn um frostmark í Eyjum en frostið var 21 stig í skafrenningi í Grímsey og 12 í snjókomu á Valþjófsstað. Kaldast í mánuðinum var vikuna í kringum jafndægur. Lægðardrag fór hinn 18. suður yfir landið með snjókomu. Fyrir norðan dragið var frostið tíu til tuttugu stig en miklu minna sunnan við það. Næsta dag var dragið komið suður fyrir landið en djúp og víðáttumikil lægð var yfir Norðurlöndum en yfir Grænlandi var vaxandi hæð. Frostið var yfir 20 stig í nokkra daga og sums staðar yfir 30. Við suðurströndina var frostið þó 15-20 stig. Mesta frost sem mælst hefur í mars á landinu mældist í þessu kuldakasti, -36,2 stig þ. 21. Siglufirði. Þetta er mesta frost sem mælst hefur á landinu nokkru sinni á láglendi. Talað var um 40 stiga frost inn til landsins. Mjög stillt veður var um land allt þegar kuldarnir voru mestir og bjart á vestan- og sunnanverðu landinu en nokkuð skýjað við austurströndina. Klukkan 8 að morgni hins 22. var logn og skýlaus himinn í Grímsey og 30 stiga frost. Daginn áður fór frostið í 22,1 í Reykjavík og fór þar frostið yfir tuttugu stig alla dagana frá 19. til 22. og enn þann 28. Mikil hæð var yfir N-Grænlandi þennan tíma. Annað kortið sýnir mesta frost sem mældist í þessum mánuði en hitt ætlaðan loftþrýsting á hádegi 20. mars kringum landið. Það er alveg eins og venjuleg þrýstikort nema hvað tölurnar merkja hæð þrýstiflatanna í dekametrum. Talan 0 jafngildir 1000 hPa en hver 25 samsvarar 3 hPa upp fyrir og niður fyrir. Lægstu og hæstu línur hef ég merkt með hPa. Þrýstingur er svo eitthvað hærri eða lægri innan viðkomandi hæstu eða lægstu línu. Smellið að smella tvisvar því þá stækkar allt!
Jónassen lýsti veðráttufarinu á þessa leið í Þjóðólfi 23. apríl:
Þessi mánuður hefur eins og undanfarandi verið óvenjulega kaldur; þótt frostharkan hafi verið talsvert linari í sjónum enn áður, þá lagði hann þó t. d. 25. fram á miðja skipalegu. Litlu eptir miðjan mánuðinn (frá 18.) varð frostharkan framúrskarandi mikil. 1. daginn var norðanrok til djúpanna, logn hér; 2. og 3. hægur á austan; 4. og 5. hvass á norðan með mikilli ofanhríð allan daginn; 6. hægari en með talsverðri snjókomu; 7. 8. 9.- optast logn; 10. landnorðan, nokkuð hvass; 11. logn, 12. og 13. logn með ofanhríð; 14. útsynningur með blindbyl allan daginn ; 15. logn að morgni en eptir miðjan dag gengur til útsuðurs með blindbyl og 16. og 17. sami útsynningur en þó vægari, 18. gengur í norður, rok til djúpanna; 19. 20. 21. norðanrok, optast logn hér í bænum, 22. landnorðan, hvass að morgni, hægur síðari hluta dagsins, 23. og 24. norðanrok hér; 25. logn; 26. vestan útnorðan hroði; 27. fagurt veður og logn; 28. norðanrok til djúpanna, hægur hér; 29. logn; 30. útsynningur hægur; 31. hægur austankaldi, dimmur. - 23. apríl.
Hafís mikill var við landið og voru nokkrir ísbirnir felldir. Þessi mars rak endahnútinn á kaldasta vetur sem gengið hefur yfir landið síðan mælingar hófust.
1866 (-7,3) Mars þetta ár, sem kemur á eftir kaldasta eða næst kaldasta febrúar á landinu, er skráður hinn kaldasti sem mælst hefur í Reykjavík, -6,2 stig, 0,4 stigum kaldari en 1881. Í Reykjavík voru mælingarnar þetta ár þó taldar ekki sérlega góðar. Í Stykkishólmi var mars 1881 hins vegar fimm stigum kaldari en 1866. Þar var mars 1859 einnig um það bil hálfri annari gráðu kaldari en þessi og þetta er þá þriðji kaldasti mars þar á bæ. Mælingar sem gerðar voru á Siglufirði benda til að meðalhitinn þar hafi verið kringum ellefu stiga frost. Í Þjóðólfi 23. apríl var tafla um hitann í Reykjavík án frekari lýsinga. Þar kemur fram (hitanum hér snúið úr R yfir í C) að hlýjast varð 2,0 stig þ. 10. en kaldast -16 stig þ. 21. Hlýjast var vikuna 9.-15. -3,1 stig en kaldast vikuna 2.-8. -12,6. Eftir miðjan mánuð og til loka var frost á Akureyri á hverjum degi, 10-20 stig, að sögn Norðanfara þ. 30. júní. Mikil snjókoma var þar dagana 18.-20. segir blaðið Frostin voru yfirleitt jöfn og stöðug á landinu. Í Stykkishólmi var enginn dagur alveg frostlaus en hiti komst yfir frostmarkið að degi til í fimm daga en fimm daga fór það niður í tuttugu stig, mest -21,5 hinn þriðja. Snjór var lítill á landinu en mikil svell og jökull á jörðu. Ofsaveður af norðri með grimmdarfrosti og blindbyl gerði aðfaranótt þ. 5. á vestanverðu landinu og olli miklu tjóni víða á húsum og fénaði og nokkrir menn urðu úti. Þá brotnaði þakið á Knarrarkirkju undir Jökli. Daginn eftir var veðrið enn mikið en þó nokkuð vægara og 7. mars var komið bjart og gott veður. Frá Reykjavík að sjá var þá allt ísum hulið svo menn vissu ekki dæmi um annað eins síðan 1807. Lá ísinn langt út fyrir allar eyjar og á sjó út, suður og vestur fyrir Keilisnes. Þá var stór ísapöng með allri hafsbrún er menn hugðu rekna úr Borgarrfirði. Allur Hvalfjörður var lagður. Gengið var frá Reykjavík til Engeyjar og Viðeyjar. Hafísinn umgirti hins vegar norður og austurland en lagnaðarís var á öllum innfjörðum og fram þangað sem hafísinn tók við.
1891 (-5,7) Norðan og norðaustanáttin var þrálát í þessum þurrvirðasama mánuði sem er kaldasti mars sem mælst hefur í Vestmannaeyjum og sá næst kaldasti í Hreppunum. Mikið snjóaði þó í Eyjum fyrstu dagana en minna annars staðar en víða njóaði þessa daga. Fram eftir mánuðinum var frosthart og fyrir norðan gengu norðangarðar hver ofan í annan. Hæð var yfir Grænlandi. Í Vestmannaeyjum og víðast hvar annars staðar var þó samfelld hláka dagana 17.-22. vegna hæðar sem var suðvestan og vestan við landið. Mældist hitinn 7,3 stig um miðjan dag þ. 19. á Teigarhorni. Þar er þetta þurrasti mars frá 1873 og aðeins mældist þar úrkoma þ. 14. og 15. Hæðin settist svo að yfir Grænlandi en lægðir gengu milli Íslands og Noregs svo aftur fór í sama kuldafarið. Varð kaldast -24,2 stig á Gilsbakka og -22,7 á Raufarhöfn. Vegna þurrkana hafði snjór verið lítill og var sums staðar auð jörð eftir hlákuna en svo hleypti aftur í snjóa og illviðri. Jónassen fjallaði um veðrið í Ísafoldarblöðum.
Hinn 28. [febr.] var hjer hægur vestankaldi og snjóaði talsvert síðast um kveldið og sama veður næsta dag með nokkrurn brimhroða í sjónum; h. 2. var hjer hægur norðankaldi, bjart veður og snjóaði lítið eitt um tíma; h. 3. hægur austankaldi fyrri part dags, vestan-útnorðan hvass síðari partinn, með kafaldsbyl um kveldið, og var kominn þýða um kl. 11. í morgun vestan hægur, bjartur. (4. mars.) - Hinn 4. var hjer vestan-útnorðan kaldi um morguninn, hægur, fór að snjóa er á leið daginn og blindbylur um kveldið; h. 5. blindbylur eptir hádegið á landnorðan, og sama veður á norðan síðari part dags; hreinviðri með miklum gaddi h. 6., bálhvass á norðan með skafrenningsbil. Í dag (7.) genginn ofan, bjart sólskin og rjett logn í morgun. (7. mars.) -Síðari part laugardagsins gekk hann tíl norðurs og varð nokkuð hvass og var norðan daginn eptir hvass; logn og dimmur í lopti h. 9. Hægur austankaldi fyrripart dags h. 10. en síðari partinn gekk hann til norðurs, dimmur, þó eigi hvass. Í dag (11.) hvass á norðan, bjartur. Um þetta leyti í fyrra var hjer grimmdarfrost og var þá við landnorðanátt. (11. mars.) - Rokhvass á norðan h. 11., gekk ofan aðfaranótt h. 12 og var hjer logn og fagurt veður þann dag hægur austankaldi síðari part dags. Snjóaði mikið aðfaranótt h. 13. þá austankaldi. Í dag 14., bjart og fagurt veður, hægur á austan. (12. mars, er í raun 14. mars.) - Fyrri part dags h. 14. var hjer hægur austankaldi, en gekk til norðurs síðari partinn; var svo rokhvass á norðan h. 15., en lygndi hjer síðari hluta dags, þótt rok væri úti fyrir, svo logn allan daginn h. 16. og 17. hægur vestankaldi, rjett logn. Í morgun 18. logn, dimmur, sunnanvari. (18. mars.) - Undanfarna daga optast logn og bezta veður, úði og regnskúrir, þess á milli bjartur. - 21. mars. Laugardaginn h . 21, var hjer logn um morguninn en fór að kalda á vestan siðarí part dags, gekk svo til útsuðurs meö jeljum h. 20. og aðfaranótt h. 23. til norðurs og helur verið við þá átt síðan, rokhvass útifyrir og eins hjer mjog hvass með köflum; í nótt (aðf'aranótt h. 25) mjög hvass á norðan. -(25. mars.) - Norðanáttin hjelzt við þangað til um miðjan dag 27., er hann lygndi og fór að dimma og ýrði regn úr lopti seint um kveldið, sunnankaldi og 1 gráðu hiti kl. 10. Í morgun vestan-útnorðan með brimhroða, bjart veður. 28. mars. Hinn 28. var hjer hægur austan-útnyrðingur; síðan logn og bjartasta veður allan daginn h. 29. að morgni h. 30. gekk hann svo í austur-landsuður með þíðu og hefur verið við þá átt síðan, hvass um tíma eptir miðjan dag h. 31. ... (1. apríl.).
Hafís kom í byrjun mánaðarins og hafði fyllt alla firði fyrir norðan í mánaðarlok.
1919 (-4,7) Mánuðurinn hófst með einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í mars á 20. öld og byrjaði það síðasta dag febrúar með hvassviðri og stórhríð fyrir norðan. Sjá kort. Var frostið fyrstu fjóra dagana víða þrettán til sautján stig að degi til í beljandi norðanáttinni. Í Möðrudal fór það í -31,5 stig. Höfnina í Reykjavík lagði og sums staðar sprungu rör í húsum. Heldur varð svo mildara er áttin snérist til austurs en frost héldust til hins 13. Eftir það kom dálítil hláka með suðaustanátt vegna hæðar austan við landið. Stóð hlákan í svo sem viku og komst hitinn þá í 7,7 stig á Seyðisfirði þ. 16. Þrumuveður gekk yfir Reykjavík og grennd daginn áður og olli elding talsverðu tjóni á loftskeytastöðinni. Síðustu tíu dagana var köld en úrkomulítil norðanátt og var þá bjart yfir á suðurlandi. Mjög var þurrviðrasamt. Úrkomudagar voru aðeins fjórir í Stykkishólmi en fimm á Teigarhorni en tólf í Vestmannaeyjum. Við norðausturland var hafís og einna mestur í Þistilfirði og við Langanes. Að kvöldi hins 30. sást bjartur vígahnöttur frá Reykjavík og dró eldrák á eftir sér og sprakk rétt fyrir ofan sjóndeildarhring.
1979 (-4,4) Hámarkshiti í mars í Reykjavík hefur aldrei verið eins lágur sem í þessum mánuði, 3,5 stig (þ. 15.). Ekki hlánaði þar fyrstu tíu dagana en á Akureyri ekki fyrstu 15 dagana. Snjókoma var með köflum og mjög kalt. Mikill lagnaðarís var á Breiðafirði og mikið ísrek í byrjun mánaðarins. Upp úr miðjum mánuði kom skammvin og veik hláka en þó fór hitinn í 12,4 stig á Torfufelli í Eyjafjarðardal að kvöldi hins 17. Strax næsta dag kólnaði aftur með norðanstormi og linnti ekki kuldunum þó veður lægði fyrr en þrír dagar voru eftir af mánuðinum. Kaldast varð -26,1 stig í Möðrudal þ. 25. og allvíða fór þá frostið niður fyrir 20 stig á norðausturlandi. Hæð var yfir Grænlandi en lægðir austan við landið. Þrjá síðustu dagana komst hitinn dálítið yfir frostmark en tvo síðustu dagana snjóaði víða. Snjólag var 90%. Á Vestfjörðum, norðusturlandi, austurlandi og á suðausturlandi var jörð víðast hvar alhvít allan mánuðinn. Tiltölulega mestur snjór var þó á suðurlandi. Hvergi var nokkur dagur alauður nema á örfáum stöðum þar sem snjórinn hefur fokið burtu fremur en leysing hafi eytt honum. Snjóflóð féll af Esjubergi þ. 6. og fórust í því tveir piltar. Tiltölulega mjög mikil úrkoma var á norðausturlandi en lítil annars staðar. Var þetta þriðji þurrasti mars í Kvígndisdal, Hólum í Hornafirði og Fagurhólsmýri. Minnst var úrkoman við Breiðafjörð, aðeins 1,3 mm á Reykhólum. Norðanátt var langalgensta veðuráttinn. Og var þetta eftir því sólríkasti mars á Sámsstöðum, 191,4 klst, í Öfusi 188,0 klst, og reyndar einnig á Hveravöllum, 150,0 klst. Í höfuðborginni var þetta fjórði sólríkasti mars. Talsveður hafís var fyrir norðurlandi og var á öllum siglingaleiðum þar um miðjan mánuð.
1888 (-4,4) Mánuðurinn byrjaði með sæmilegum vestlægum hlýindum vegna hæðar sunnan við landið en þ. 5. gerði norðangarð með snjókomu af völdum lægðar er myndaðist austan við landið en rigning var þá í fyrstu syðst á landinu. Héldust svo norðaustankuldar með lægð yfir Bretlandseyjum fram til hins 17. Kom eftir það þriggja daga hláka og varð hlýjast 9,5 í Vestmannaeyjum þ. 20. en líka um svipað leyti á Akureyri. Miklar rigningar voru þá á austurlandi. Lægð var á Grænlandshafi. Eftir hlákuna voru grimmdardrost með norðanáttum til mánaðarmóta, kaldast var dagana 27. og 28. Á þeim tíma hæð yfir Grænlandi sem teygði sig langt suður í höf vestan við landið en lægðir voru við Norgeg og yfir Bretlandseyjum. Yfir landinu var mikil kuldastrengur. Komst frostið þá í Stykkishólmi -22,5 stig og varð hvergi meira í mánuðinum. Ekki var mikil úrkoma. Sérstaklega var þurrvirðasamt í Vestmannaeyjum þar sem þetta er fimmti þurrasti mars. Hafís var fyrir norðan. Það hefur ef til vill verið reynslan af hafísnum þennan vetur sem fékk Matthías Jochumsson til að yrkja hið fræga kvæði sitt Hafisinn sem birtist á forsíðu Norðurljóssins 6. apríl þetta vor. Ísafold birti verðurlýsingar Jónassens fyrir þennnan mánuð:
Alla þessa viku hefir verið logn, svo að kalla dag og nótt, og optast bjart veður; nokkur þoka og dimmviðri hefir verið snemma dags. Að morgni hins 5. var hjer sama lognið, hæg sunnangola (S Sv) með regnskúrum; en til djúpa fór þegar fyrir hádegi að kalda á norðan og býsna snögglega var hjer orðið mjög hvasst á norðan með miklu frosti. Í dag 6. norðanbál með hörku-gaddi, en bjartur í lopti. (7. mars.) - Fyrstu 3 dagana var hjer hvasst norðanveður en bjartur; síðari part h. 9. gjörði logn og 10. blæja logn að morgni en hvessti er á daginn leið á landnorðan. 11. hægur á landnorðan og bjart veður, logn, en dimmur daginn eptir, ýrði snjór úr lopti og gjörði hjer alhvítt og gekk til norðurs síðari part dags. Í dag 13. hvass á norðan með fjúki og talsverðu frosti.- 14. mars. Hinn fyrsta dag vikunnar var hvasst norðanveður að morgni, en gekk allt í einu ofan um kl. 10 og gerði logn og fagurt veður; daginn eptir hægð á veðri, dimmur og gekk svo til vesturs og síðan 16. til útsuðurs með jeljum og sama veður næsta dag (17.); síðan til landsuðurs með mikilli rigningu og nú aptur siðustu dagana til útsuðurs (Sv) með hvassviðri og svörtum jeljum og nokkrum brimhroða í dag 20., og ágerist í dag brimið til sjávarins. (21. mars.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn og fagurt veður og eins daginn eptir þar til hann fyrir hádegi fór að hvessa á norðan og hjelzt það næsta dag, svo kom aptur logndagur (24.) síðan aptur norðanveður, lygndi undir morgun h. 26. en hvessti fljótt til djúpa og rann heim um hádegi og var bálhvass síðari part dags. Aðfaranótt h. 27.var afspyrnu-rok á norðan með grimmdargaddi (mjög svipað veður og er Phönix var hjer í flóanum (1881) og hefir það haldizt fram eptir deginum i dag (27.). (28. mars.) - Tvo fyrstu daga þessarar viku var hjer hægð á veðri, þótt enn væri hann á norðan til djúpa; 30. var hjer hæg austangola með ofanhríð af landnorðri allan fyrri part dags, svo gjörði ökla-snjó; næsta dag (31.) var hægur austankaldi og gekk til landsuðurs, rjett logn, síðari part dags með sudda. ... (4. apríl).
1871 (-4,2) Í þessum mars var einungis athugað í Reykjavík og Stykkishólmi og er honum á þeim grundvelli hér skipað sem sjöundi kaldasti mars. Mikið norðanveður skall á þann annan en mánuðurinn hafði byrjað með góðum hlýindum. Kom þá einhver mesti stormur sem menn muna í Bolungarvík. Fórust þaðan tvö skip og voru sex skipsverjar í hvoru þeirra. Sama dag lentu fjögur hákarlaskip frá Fljótum í hrakningum í norðanofsaveðri en náðu með naumindum lendingu í Grímsey. Miklum snjó kyngdi niður norðanlands og dagana 12.-15. var samfelld stórhríð þar og á austurlandi en mikið frost var um allt land, í Stykkishólmi allt niður í -19 stig. Hvasst var og mikið brim fyrir norðan. Úrkoma í Stykkishólmi var 49,2 mm í mánuðinum. Hafis kom að norðurlandi um miðjan mánuðinn og varð talsverður hafishroði frá Ströndum austur að Langanesi. Seint í mánuðinum hraktist ísinn á haf út fyrir sunnanvindum. Var þá fjögra til sex stiga hiti nokkra morgna í Stykkishólmi.
1892 (-4,0) Mánuðurinn byrjaði fremur mildilega með hægri sunnanátt og rigningu. En hinn 5. skall skyndilega á norðanátt sem næstu daga varð mjög hvöss og hörð með afbrigðum og snjóaði víða. Lægð fór yfir landið og svo austur fyrir það. Mældust þá einhver allra mestu frost sem komið hafa í mars, mest -33,2 stig í Möðrudal. Á Gilsbakka voru -26,2 stig, -26,1 á Möðruvöllum í Hörgárdal, -24,8 á Borðeyri og -22,9 á Akureyri. Í Vestmannayjum hefur aldrei mælst eins mikið frost í mars -20,9 stig þ. 9. og ekki heldur á Eyrarbakka, -24,8 stig. Í Reykjavík fór frostið í 18-21 stig dagana 7.-10. Héldust ofurfrost til hins 11. en þá mildaðist mikið með autlægari átt og lægði en áfram var þó frost. Kringum þ. 20. var hins vegar víða frostlaust eða frostlítið í fáeina daga og komst hitinn jafnvel i 10,7 stig þ. 23. á Teigarhorni í vestanátt en mikil hæð var þá suður af landinu, en þ. 25. skall á annað kuldakast með um og yfir tuttugu stiga frosti í tvo daga en síðan mildara frosti þar til hlánaði síðustu tvo dagana með mikilli rigningu og tíu stiga hita í Vestmannaeyjum í suðvestanátt. Hafís var orðinn landfastur við Melrekkasléttu hinn 7. og lá langt fram í maí. Allmörg bjarndýr sáust þar og tvö á Tjörnesi. Við Vestfirði lá ísinn í stórum breiðum fyrir utan Ísafjarðardjúp og Önundarfjörð og alveg suður undir Dýrafjörð. Hindraði hann siglingar til Ísafjarðar og Dýrafjarðar. Hinn 2. april sást i bjartviðri hvergi út yfir ísinn af Hornbjargi. Um allt land voru jarðleysur út mánuðinn. Fannfergi var mikið og ísalög svo hvergi sá á dökkan díl ogr allir firðir voru fullir af lagnaðarís mest allan mánuðinn. Hvammsfjörður var ein íshella svo ríða mátti eftir honum endilgöngum. Um tíma var jafnvel gengið út í Flatey. Á undan þessum mars fór fjórði kaldasti febrúar.
Jónassen segir um tíðarfarið í nokkrum blöðum Ísafoldar:
...að morgni h. 29. (febr.) af austri og sama átt með hægri hláku h. 1., þá regnskúrir við og við allan daginn. Í morgun (2.) hægur á sunnan (Sv.), rignt mikið í nótt. (2. mars). - Hinn 2. hægur á sunnan með regnskúrum og sama veður h. 3. Logn og ofanhríð h. 4. í morgun (5.) dimmur rjett logn og snjór í lopti. - 5. mars. Fyrri part laugardagsins var hjer logn og dimmviðri en gekk svo til norðurs, bjartur og nokkuö hvass síðari part dags; hvass á norðan fram undir kveld h. 6.; logn hjer að morgni h . 7. en fyrir hádegið genginn til norðurs og hefir síðan verið hvass á norðan með ákaflega miklum kulda. Í morgun (9.) hægur hjer á norðan og bjart sólskin. Rok við og við í nótt. -Bálhvass útifyrir. Harða veturinn 1881 var mestur kuldi aðfaranótt h. 21. marz nefnil. 20 stiga frost, en aldrei hefið viljað til síðustu 22 árin, að 18 stiga kuldi hafi verið um miöjan dag, eins og nú þriðjudaginn h. 8. ( 9. mars). - Slðari part h. 9. gjörði hjer logn, og var logn og bjart sólskin næsta dag (10.). Hægur austankaldi h. 11. (allur ís horfinn af höfninni um kveldið). Í morgun (12.) hægur á austan, bjart sólskin. - 12. mars. Logn og fagurt veður alla undanfarna daga, þar til að fór að gola á austan í gær (15.). Í morgun landnorðan, bjart veður. (16. mars). - Hefir verið við austanátt síðustu dagana, optast bjart veður og eigi hvass. - 19. mars. Hinn 19. hægur á sunnan að morgni, hvass er á daginn leið á landsunnan; um kveldið aptur á útsunnan með jeljum, h. 20. hægur á sunnan-útsunnan með jeljum og sama veður h. 21. en fór þá að rigna síðari part dags og rigndi mikið allan daginn h. 22. Í morgun (23.) sunnan, dimmur, nokkuð hvass. (23. mars). - Hinn 23. hvass og dimmur á sunnan-suð-vestan með regnskúrum allan daginn við og við; gekk svo í vestur-útsuður með jeljum og foráttubrimi hvass og siðast um kveldið h. 24. í norður; hvass á norðan h. 25. en lygndi er á daginn leíð. Í morgun (26.) hægur á landnorðan með ofanhríð. (26. mars). - Hinn 26. var hjer blindbilur allan fyrri part dags, svo varla sást húsa á milli; hægur og bjartur á norðan daginn eptir; hvass á austan fyrri part dags h. 28. með ofanhríð, gekk svo til útsuðurs, dimmur, hægur og farið að rigna siðast um kveldið; hægur á austan og bjartur fram að hádegi h. 29., en úr því landsunnan-rigning og dimmviðri, en þó hægur. Í morgun (30.) hvass á sunnan, með rigningu. (30. mars). - Hinn 30. hvass á sunnan með regnskúrum, logn (Sv.) síðari part dags.; suðvestanjel að morgni h. 31.; logn síðari part dags, með talsverðum brimhroða; hægur á sunnan með suddarigningu ... . (2. apríl).
1967 (-3,9) Tíðarfarið var óhagstætt með afbrigðum til lands og sjávar. Um norðanvert landið voru mikil snjóþyngsli og með köflum einnig fyrir sunnan. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var hvorki meiri né minni en 153 cm og þar mældist mesta snjódýpt á landinu, 205 cm síðasta dag mánaðarins. Úrkoman á Raufarhöfn var fjórum sinnum meiri en meðallagið 1931-1960! Hefur þar ekki mælst meiri úrkoma í mars, 141,3 mm. Mest úrkomumagn var hins vegar á fremur óvenjulegum stað, 207,7 mm á Mýrum i Álftaveri. Alhvítt var allan mánuðinn á Vestfjörðum, norður og austurlandi og einnig í Vík í Mýrdal og í uppsveitum suðurlands. Víðast hvar á landinu var enginn dagur alauður. Snjólag var 91%, það mesta sem þá hafði mælst í mars en það varð þó enn meira 1989 (94%) og 1994 (92%).Snjóflóð féllu á Seyðisfirði í mánaðarlok en ollu ekki tjóni. Meðalhiti allra daga á Akureyri var undir frostmarki og í Reykjavík alla daga nema 18.-20. en þ. 18. komst hitinn í 9,5 stig á Vopnafirði. Er óvenjulegt að hiti nái ekki tíu stigum á landinu í mars þrátt fyrir fjölda veðurstöðva. Kaldast varð -26,0 stig á Grímsstöðum þ. 13. Meira brim gerði hinn 17. við suðurstöndina en komið hafði um árabil. Djúp lægð var þá uppi í landsteinum við suðurland. Eyðilögðust tveir bátar á Stokkseyri og tveir skemmdust og skipi hlekktist á suður af Ingólfshöfða. Næstu tvo daga urðu miklar rafmagnstruflanir suðvestanlands og geysilegt tjón varð á veiðarfærum. Kaldast að meðaltali varð síðustu vikuna og voru þ. 23. og 25. köldustu dagarnir, allt að 9 og hálfu stigi undir meðallagi. Illviðri á norðan var um páskana 25.-27. með mikilli ísingu. Fórst þá færeyskur bátur með allri áhöfn milli Íslands og Færeyja og margvíslegar skemmdir urðu á landi og ferðamenn voru hætt komnir. Nokkur fleiri illviðri herjuðu á landsmenn í þessum mars. Hafís var úti fyrir Vestfjörðum snemma í mánuðinum og síðast í honum var mikill ís fyrir norðurlandi. Gos var í Surtsey allan mánuðinn. Kortið sýnir loftþrýsting við jörð og hæð 500 hPa flatarins í dekametrum kl. 00 þ. 22. og var þetta ekki ódæmigerð staða fyrir mánuðinn.
1882 (-3,7) Miklir umhleypingar og úrkoma. Lægðir voru oft að drolla yfir landinu eða uppi í landsteinum, oftast austan við. Inn á milli hlákublota komu nokkur mikil kuldaköst. Kaldast varð -31,1 stig á Grímsstöðum. Síðasta þriðjung mánaðarins var austlæg eða suðaustlæg átt og ekki mikið frost en frost samt en loks hlýnaði vel síðustu tvo dagana. Komst hitinn mest í 7,5 stig á Kjörvogi á Ströndum. Hafíshroði sást í byrjun mánaðar úr Fjörðum og frá Látraströnd og rak nokkru síðar inn dálítinn ís á Húnaflóa. Í mánaðarlok var af Kaldbak við Eyjafjörð ísbrún að sjá fyrir öllu hafi og um svipað leyti var ísinn að nálgast Melrakkasléttu og Langanes.
1859 Næst kaldasti mars í Stykkishólmi var þetta ár, -9,7 stig. Einhvers konar mælingar voru í Reykjavík þar sem var miklu mildara, kringum -4,2 stig en á Akureyri mældist mánuðurinn kringum -11,8 stig. Þegar allt kemur til alls er þetta þá kannski næst kaldasti mars á landinu, á eftir 1881. Og apríl 1859 var án nokkurs vafa sá langkaldasti sem mælst hefur á Íslandi. Hafís var mikill fyrir norðan. Lagnaðarísir voru einnig afar miklir og var veturinn kallaður Álftabani á vesturlandi.
Mars 1812 og 1827 virðast hafa verið álíka kaldir og 1866 en 1801 um það bil einni gráðu mildari.
Í Fylgiskjalinu má sjá nánar um mánuðina.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 15.5.2018 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2011 | 19:59
Hlýjustu marsmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu er -0,3 stig árin 1961-1990.
1929 (5,3) Þrír marsmánuðir skera sig úr á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hvað hlýindi varðar, 1929, 1964 og 1847. Hlýjastur er þó 1929. Hann er hlýjasti mars alls staðar þar sem mælt hefur verið nema í Hornafirði og á Reykjanestá. Hitinn var 5,6 stig yfir meðallagini 1961--1990. Í Veðráttunni segir svo: Öndvegistíð um land allt, mjög hlýtt, tún græn og nál í úthaga um mánaðarlokin, klakalaus jörð á láglendi, fé gengur víða sjálfala, útsprungnar sóleyjar finnast í túnum. Allan þennan mánuð er oftast suðlæg átt og blíðviðri, úrkomusamt sunnanlands, frá Fagurhólsmýri að Kvígindisdal, en þurrt norðanlands, einkum fyrir og um miðbik mánaðarins. Allan fyrri hluta mánaðarins er hæð fyrir sunnan og austan land, og dagana 8.-9. gengur lægð fyrir norðan land, og er hann þá víða á vestan. Síðara hluta mánaðarins eru lægðir fyrir Vesturlandi. Þ. 20.-21. er hann víða austlægur, enda gengur þá lægð austur um Suðurland, og veldur norðanátt á Vesturlandi síðari daginn, en næsta dag er aftur komin sunnanátt. Síðustu tvo daga mánaðarins er vestanátt og ekki eins hlýtt í veðri.' Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn hæstur á landinu, 6,8 stig sem væri alveg eðlilegur maíhiti á suðurlandi. Á Grímsstöðum á Fjöllum var hitinn 2,7 stig og hvergi lægri. Í Vík og á Hólum í Hornafirði mældist ekki frost og er það nær einsdæmi í mars. Í Reykjavík varð frostið mest -1,5 stig. Mældist frost þar aðeins í einn dag (6.) en enginn sólarhringur var undir frostmarki að meðalhita. Tvisvar fór hitinn í bænum yfir tíu stig og meðallágmark var 4,0 stig en meðalhámark 8,1. Lágmarkið á öllu landinu er einnig met,-8,0 á Eiðum,þ. 2. Mestur hiti mældist 14,4 stig á Teigarhorni þ. 9. og þ. 19. fór hitinn í 14,1 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hvassviðri mjög sjaldan. Loftvægi var hátt, hæst að meðaltali 1013,6 hPa á Hólum í Hornafirði. Snjólagið var minna en í nokkrum öðrum mars,6% en meðallagið 1924-2007 er 61%. Allvíða var alautt allan mánuðinn (á 16 stöðvum af af 41), m.a. á Akureyri. Í Reykjavík var alautt nema þ. 25. þegar snjódýpt var svo mikil sem 1 cm. Hvergi voru alhvítir dagar fleiri en þrír og var það í Fagradal í Vopnafirði. Þar mældist mesta snjódýptin á landinu, 10 cm, sem ekki þykir nú mikið í mars. Í sunnanáttinni var sólinni ekki fyrir að fara syðra og er þetta sólarminnsti mars í Reykjavík, 38,9 klst. Ekki var mælt sólskin á Akureyri. Talsvert eldingaveður var nærri Reykjavík þ. 24. og olli skemmdum á rafstöðinni. Sama dag var einnig þrumuveður á suðurlandi. Mikið þrumuveður var einnig á Efrahvoli þ. 14. Eldsumbrot voru í Öskju sem hófust í janúar þetta ár. Mjög kalt var í Evrópu um þetta leyti og einnig var kalt vestan við landið. Kortið sýnir meðalhitann á öllum stöðvum á landinu en litkortið frávik hæðar 500 hPa flatarins miðað við 1921-1950 kringum Ísland. Kortin stækka ef smellt er tvisvar.
Þann 28. var nýji Kleppsspítalinn vígður.
1847 (4,9) Þetta er hlýjasti mars í Reykjavík. Meðalhitinn var þar 6,4 stig en miklu kaldara var þá í Stykkishólmi en 1929, 3,6 stig, sem er þó tiltölulega mjög hlýtt. Ég skipa þessum mánuði í annað sæti yfir landið. Þessi hlýji mánuður kom ekki stakur. Janúar þetta ár er líklega sá hlýjasti sem mælst hefur á landinu og veturinn í heild er sá fjórði hlýjasti, eftir 1964, 1929 og 2003. Í riti Þorvaldar Thoroddsen Árferði á Íslandi í þúsund ár segir svo um tíðina þennan vetur: ''Á Vesturlandi var tíðarfar frá nýári til sumarmála eins og syðra eitt hið ágætasta, svo mátti kalla, að ekki væri frost nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, fannir sáust að eins í háum hlíðum, láglendi var snjólaust og jörðin klakalaus, svo sauðfje og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill sást þrisvar sinnum vera farið að spretta; fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum, andir og æðafuglar flokkuðu sig um eyjar og nes og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn nje skepnur fyndi til vetrarins. Menn sljettuðu tún, hlóðu vörzlugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalvindstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, svo sjógæftir voru nokkuð bágar ... . " Einmuna blíða var sem sagt nær því allan mánuðinn. Dálítið frost var í Stykkishólmi dagana 16.-17. en það virðist ekki hafa náð til Reykjavíkur. Þar fraus ekki fyrr en síðasta daginn en þess ber að gæta að mælingarnar þar voru ekki eins góðar og í Stykkishólmi. Úrkoman í Reykjavík var 48 mm. Mánuðurinn var mjög hægviðrasamur.
1964 (4,7) Veðráttan lýsir tíðinni svo: ''Tíðarfarið var einmuna milt og gott, jörð grænkaði, tré og blóm sprungu út. Fé var víða beitt. Gæftir voru góðar.'' Í heild var þessi mánuður hálfu stigi kaldari en 1929 en á Hólum í Hornafirði og Reykjanesvita var hann 0,2 stigum hlýrri í þessum mánuði og auðvitað hlýjasti mars þar sem mælst hefur. Aðeins 0,1 gráðu kaldara var á Akureyri, Raufarhöfn og í Grímsey en 1929. Hitinn fór mest í 15,1 stig á Akureyri þ. 28. Alla daga var blíða nema þ. 25, en þá fór frostið í -10,8 stig á Grímsstöðum. Var þá suðvestanátt. Um það leyti festi víða snjó en hann tók fljótt upp aftur. Snjólag var 12% á landinu, það næst minnsta í nokkrum mars. Á Fljótsdalshéraði og við sjóinn á suðausturlandi var alautt allan mánuðinn en annars staðar voru alhvítir dagar aðeins einn til þrír víðast hvar en þó átta á Grímsstöðum. Mest snjódýpt mældist reyndar á suðurlandi, 24 cm þ. 24. á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Úrkoman var yfirleitt minni en í meðallagi nema á austanverðu landinu þar sem hún var ansi mikil. Á Kvískerjum mældist hún 509,0 mm og var það þá mesta mánaðarúrkoma sem mælst hafði á landinu í þessum mánuði. Á Fagurhólsmyri er þetta þriðji úrkomusamasti mars. Furðu sólríkt var á norðausturlandi þar sem sólskinsstundir voru 123 á Höskuldarstöðum við Raufarhöfn og voru aldrei fleiri í mars þau 40 ár sem þar var mælt. Í Reykjavík er mánuðurinn sá tíundi sólarminnsti. Það er eftirtektarverð staðreynd að af tíu hlýjustu marsmánuðum í Reykjavík eru fimm þeirra á lista yfir þá tíu sólarminnstu. Nokkuð var vindasamt fyrir sunnan en fremur hægviðrasamt fyrir norðan. Suðaustanátt var tíðust vindátta en svo sunnanátt. Á undan þessum mánuði kom fimmti hlýjasti febrúar en veturinn í heild er sá hlýjasti sem mælst hefur.
Haldið var upp á 75 ára afmæli Þórbergs í þessum mánuði sem þrátt fyrir aldurinn fór í sínar daglegu gönguferðir í góða veðrinu. Daginn eftir var hlýjasti dagur mánaðarins að meaðlhita á landinu fra 1949, 7.0 stig og er það reyndar dagshitamet og líka í Reykjaavík,8,2 stig. Fyrsta dag mánaðarins lést Davíð Stefánsson skáld. Bítlaæðið var að breiðast til Íslands. Um miðjan mánuð voru allmiklir jarðskjálftar ávið Ármúla í Ísafjarðardjúpi og eru þeir nær einsdæmi á þeim slóðum.
Í þessum mánuði stofnaði Mussolini fasistaflokk sinn.
2004 (3,6) Eftir mars 2003, þann áttunda hlýjasta, kom svo þessi fimmi hlýjasti en vætusami marsmánuður. Sérstaklega var hlýtt dagana 7.-10. og varð hlýjast á mannaðri stöð 14,5 stig á Haugi í Miðfirði, sem er nokkuð óvenjulegur staður, en síðastnefnda daginn en 16 stig á sjálfvirku stöðinni á Siglunesi þ. 7. Næstu þrjá daga fór hitinn þar í 16, 14 og 15 stig. Landsmeðalhitinn þann 9. var 8,8 stig og er það mesti landsmeameðalhiti nokkurs dags svo snemma árs síðan a.m.k. 1949. Dagurinn á undan var með dægurmet upp á 8.1 stig og reyndar líka sá 7. með 7.2 stog og líka sá 10. með 7.5 stig. Fjórir methlýindadagar i röð! Um þetta leyti voru miklir vatnavextir um allt land sem ollu skemmdum á mannvirkjum og slysum á fólki. Alla daga var hlýtt nema 21.-22. og svo þ. 28. Kaldast varð -13,7 stig á Hveravöllum þ. 23. og -12,0 stig sama dag á Haugi í Miðfirði, skammt frá Bjargi þar sem Grettir sterki ólst upp. Úrkoma var lítil á norðausturlandi en mikil vestan til, einkanlega sums staðar á suðvesturlandi, á Vestfjörðum og á hálendinu. Reyndar er þetta hlýjasti mars sem mælst hefur á Hveravöllum frá 1966, -1,3 stig. Líklega hefur mars þar 1929 verið ofan við frostmark. Eins og að líkum lætur var þurrviðrasamt á norðausturlandi en úkomusamt suðvestanlands. Snjólag var 24%. Á Reykhólum og Haugi í Miðfirði var alauð jörð. Í Reykjavík var alautt í 27 daga en alhvítt í þrjá. Jafnvel á Hveravöllum var aldrei talin alhvít jörð en alauðir dagar voru þar tíu. Mikl hæð var yfir Norðurlöndum þennan mánuð en lægðir gengu norður Grænlandshaf. Sunnan og suðaustanáttir voru því algengastar en norðaustanátt var sérstaklega fátíð.
1963 (3,4) Þetta var austan- og suðaustanáttamánuður en fremur hægviðrasamur. Lægðir voru mjög oft sunnan við landið. Úrkoman var því minnst við Breiðafjörð og fram til dala í Skagafirði og Húnavtanssýslum en í útsveitum norðaustanlands var hún allt upp í rúmlega fjórföld miðað við það meðallag sem þá var í gildi. Á Seyðisfirði mældist úrkoman 226 mm en 312 á Kvískerjum, þar sem rigndi 28 daga, en aðeins 7,8 mm á Barkarstöðum í Miðfirði. Tiltölulega sóríkt var líka við Breiðafjörð, 130 klst á Reykhólum sem var með því mesta sem þar var í mars í þau tæpu 30 ár sem mælt var. Hitinn var mjög jafn allan mánuðinn. Lágmarkshiti í Reykjavík var aðeins -1,1 stig (en frostdagar fjórir) og hefur mánaðarlágmark þar aldrei verið hærra í mars. Enginn dagur var undir frostmarki að meðalhita. Á Loftsölum í Mýrdal og Vestmannaeyjum kom hins vegar aldrei frost. Lágmarkshitinn var þar 0,7 og 0,6 stig. Er það aðeins annað dæmið um það að ekki hafi frosið á íslenskri veðurstöð í mars. Fyrra dæmið var árið 1929. Því miður fraus á þessum frostlausu stöðum í apríl 1963 í kuldakastinu alræmda sem þá kom og skemmdi gróður víða um land. Hlýjast var fyrstu dagana og komst hitinn í 11,7 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 3. Kaldast varð -13,4 stig í Möðrudal þ. 8. En kaldasti dagurinn að meðaltali varð þó hinn 21. Var þá hæðarhryggur yfir landinu, bjartviðri fyrir norðan og nokkurt frost en sunnanlands var suðaustan átt og skúrir og fremur milt. Síðustu dagana voru umhleypingar en aldrei kólnaði að ráði. Snjólag var það þriðja minnsta i mars, 17%. Á nokkrum stöðum, þeirra á meðal Reykajvík, var alhvítt í einn dag. Alhvítir dagar voru aðeins ein til tveir á suður og vesturlandi og reyndar litlu fleiri fyrir norðan. Mjög snarpur jarðskjálfti, 7,0 á Richter, varð úti í sjó í Skagafirði þ. 27. kl. 23:16 að þágildandi tíma. Fannst hann um land allt nema á austurlandi. Engar skemmdir urðu og lítil slys á fólki en því brá nokkuð í brún og er þessi skjálfti mörgum enn minnisstæður.
Haldið var upp á 85 ára afmæli meistara Þórbergs hinn 12. og var þá farinn blysför að heimili hans.
2003 (3,2) Einstaklega úrkomumikill mars á suðausturlandi. Mánaðarúrkoma á Kvískerjum var 566,8 mm og er sú mesta sem mælst hefur á veðurstöð á landinu í mars. Á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti mars frá 1873 (mest 301,5 mm 1918) og einnig á Hólum í Hornafirði frá 1931, 242,4 mm (mest 357,0 mm 1933). Tiltölulega úrkomusamt var einnig á Vestfjörðum en þurrast var inn til landsins á norðurlandi og norðausturlandi. Hlýjast varð um miðjan mánuðinn og komst hitinn á mannaðri stöð mest í 14,5 stig á Akureyri þ. 14. en á sjálfvirkri stöð 14,7 stig á Neskaupstað þ. 16. Aðeins var verulega kalt tvo daga kringum hinn 10. og svo þann 29. Kaldast varð -19,8 stig á Hveravöllum þ. 11. og -17,0 stig sama dag í Reykjahlíð en á sjálfvirku stöðinni í Sandbúðum voru -19,7 stig. Snjólag var 21%. Á Reykhólum, Hala í Suðursveit og Eyrarbakka var alautt allan mánuðinn og mjög víða var alautt alveg í þrjár vikur. Mestur var snjórinn í kringum vestanvert Ísafjarðardjúp, alhvítir dagar 11-17. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru algengastar. Hæðarsvæði voru ofast yfir Bretlandseyjum eða suður af landinu en lægðir vestan við. Eftir þessum mánuði kom þriðji hlýjasti apríl á landinu og á undan honum sjöundi hlýjasti febrúar. Árið varð svo það hlýjasta í sögu mælinga á suður og vesturlandi.
Þann 19. gerðu Bandaríkjamenn og Bretar innrás í Írak.
1945 (3,1) Úrkomusamt var á suðurlandi en þurrvirðasamt fyrir norðan. Í Vestmannaeyjum var þetta meira að segja úrkomusamasti mars sem þar hefur mælst og næst úrkomusamasti í Vík í Mýrdal. Á landinu er þetta fjórði úrkomumesti mars eftir mínu kerfi. Suðvestanátt var ríkjandi. Lítið fór þá fyrir sólinni syðra og er þetta þriðji sólarminnsti mars í Reykjavík. Snjólag var 48% á landinu. Munaði mest um það að talsverður snjór var frá fyrra mánuði. Þann fyrsta var snjódýpt t.d. 20 cm í Reykjavík en 49 cm á Grímsstöðum. Næstu nótt mældist mesti kuldinn í mánuðinum, -15,5 stig á Grímsstöðum. Eftir þetta dró til hlýinda með hæð yfir Bretlandseyjum og komst hitinn í 14,8 stig í Fagradal þ. 9. og þá um morguninn mældist mesta sólarhringsúrkoman, 46,8 mm í Kvígyndisdal. Þetta veðurlag hélst í stórum dráttum til mánaðarloka. Mikil hlýindi voru líka þ. 24. þegar hitinn fór yfir tíu stig sums staðar syðra og vestra og í 12,8 stig á Hallormsstað. Vegna hlýindanna snemma í mánuðinum voru miklir vatnavextir víða. Hvítá og Norðurá í Borgarfirði flæddu yfir bakka sína og einnig Héraðasvötn og Laxá í Þingeyjarsýslu. Sums staðar skemmdust brýr og vegir.
Lokahnykkur styrjaldarinnar stóð svo auðvitað sem hæst og bandamenn fóru yfir Rín og hertóku vesturhluta Þýskalands.
1959 (3,1) Á undan þessum mánuði kom tíundi hlýjasti febrúar. En þessi mars var kaldur fyrstu vikuna með talsverðu frosti, allt niður í tuttugu stig í Reykjahlíð þ. 7. og 19,5 stig á Grímsstöðum sama dag. Frá hinum áttunda til mánaðarloka voru samfelld hlýindi en fremur var þá vindasamt án þess að nokkur veruleg illvirði væru og voru sunnan og suðaustanáttir ríkjandi eftir að hlýindin hófust. Hlýjast varð 14,2 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 19. Hlýjasti dagurinn á öllu landinu var þó sá 22. og var hitinn þá víðast hvar yfir tíu stigum og gildir það reyndar um ýmsa fleiri daga síðari hluta mánaðarins. Sá 22. er hlýjasti 22. mars í Reykajvík, 8,3 stig. Snjólag á landinu var 41%.
Undir lok mánaðarins gerðu Tíbetar uppreisn gegn Kínverjum og Dalai Lama flúði land.
Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðrnir nánar en á því síðara er smá um mars 1929.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 15.5.2018 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2011 | 15:58
Hlýr febrúar
Febrúar sem var að líða var kringum tvö stig yfir meðallagi á landinu. Það nægir honum samt ekki nema líklega í 15. sæti yfir hlýjustu febrúar frá 1866. Það er samt ágætt.
Nú er mars byrjaður og áfram verður hægt að fylgjast með þróun mála í fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykajvik og landið, blaði tvö fyrir Akureyri. Munið að skrolla ef með þarf!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 22.3.2011 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006