Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
30.3.2012 | 01:10
Glæsilegt Íslandsmet og tuttugu stig!
Ég held að ég sé nú bara ekki alveg í lagi.
Í allan eftirmiðdaginn og fram eftir kvöldi var sem ég væri sleginn blindu á það að upplýsingar frá sjálfvirku stöð Veðurstofunanr á Kvískerjum höfðu ekki borist nema til hádegis. Og ætti ég þó að hafa vitað það. En stundum fær maður einkennilegar meinlokur. Ég las þetta sem fullnaðaruppgjör dagsins.
En það var þá eitthvað annað!
Í kvöld kom það í ljós að hitinn á stöðinni hafði verið um og yfir tuttugu stigum alveg frá klukkan tvö til fimm síðdegis og fór tvisvar í 20,5 stig.
Glæsilegt Íslandsmet fyrir mars!
Gerir gamla metið á Sandi 1948 beinlinis hallærislegt! Í kaupbæti er svo dagshitamet fyrir allan mars á Akureyri í sólarhringsmeðalhita.
Ekki er svo meira um þetta að segja.
Nema hvað þessi dagur hefur sannarlega ekki valdið neinum vonbrigðum.
Bloggar | Breytt 1.4.2012 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2012 | 21:00
Met eða ekki met - það er hin regindjúpa spurning!
Þetta var nokkuð æsilegur dagur á austurlandi. Hitinn á sjálfvirku veðurstöðinni á Teigarhorni fór í 18,2 stig. Þar hefur mælst mest á mönnuðu stöðinni ( sem er ný hætt) í mars 16,0 stig þ. 7. árið 1968 og mikið man ég vel eftir þeim degi.
Þetta hlýtur að teljast marsmet á stöðinni sem hefur stritað baki brotnu við að mæla hitann frá 1873.
Á sjálfvirkri stöð Veðurstofunnar á Kvískerjum fór hitinn í 18,6 stig.
Það er samt EKKI met á sjálfvirkum stöðvum Veðurstofunnar. Á Eskifirði mældust 18,8 stig þ. 28. árið 2000 og reyndar 17,0 stig daginn áður.
Í dag mældust hins vegar 19,6 stig á sjálfvirku stöð vegagerðarinnar við Kvísker.
Það er hæsta tala sem nokkur veðurstöð hefur mælt í marsmánuði á Íslandi.
En er þetta þá íslandsmet fyrir mars?
Það hefði verið meira gaman ef þetta hefði mælst á sjálfvirkri stöð Veðurtofunnar, að ekki sé nú talað um kvikasilfursmæli. Einhvern veginn á ég erfitt með að samþykkja þetta sem gilt Íslandsmet. Metið frá Eskifirði standi í rauninni enn. Ekki ætla ég þó að fara í hart út af því!
Ég bíð eftir kvikasilfursmeti sem er hærra en Sandsmælingin frá 1948, 18,3 stig, eða sjálfvirkri mælingu á einhverri stöð Veðurstofunnar sem er hærra en 18,8.
Á Kollaleiru, Neskaupstað og Seyðisfirði halda metinn sem komu fyrir fáum dögum.
Á Akureyri var sett dagshitamet, 15,2 stig og ætli það sé ekki næstmesti hiti sem þar hefur mælst í mars. Dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita alls marsmánaðar (frá 1949) er ekki ólíklegur. Núverandi met er 11,2 stig frá þeim 28. árið 2000.
Mýri í Bárðardal bætti svo marsmetið sitt í dag upp í 12,6 stig (frá bara 1970).
En eins og ég sagði þegar hitahasarinn byrjaði:
Allt undir 20 stigum verða vonbrigði!
Hitametið í mars fallið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2012 | 16:16
27. mars 1948
Elsta hitamet að vetri sem enn stendur var sett 27. mars árið 1948 á Sandi í Aðaldal, 18,3 stig. Þetta er mesti hiti sem mælst hefur á landinu í mars. Það var mælt í gamaldags hitamælaskýli sem fest var á húsvegg.
Mörg hitamet sem komu þennan dag á landinu standa enn. Þar skal fyrst nefna metið í Reykjavík, 14,2 stig. Í Reykjavík var á þessum tíma komið sérstætt mælaskýli líkt og nú tíðkast og það stóð á flötinni fyrir sunnan Sjómannaskólann. Þennan dag, sem var laugardagurinn fyrir páska, var sléttur fjórtán stiga hiti kl. 14 að íslenskum miðtíma þegar veðurathugun var gerð, minna en hálfskýjað og áttin var austsuðaustan sex vindstig. Það hefur verið alveg svona þokkalegt skjól í görðum og mönnum hefur þótt þetta vera ótrúlega góður dagur.
Á nokkrum veðurstöðvum sem lengi hafa athugað hefur síðan ekki komið eins hár hiti í mars: Stykkishólmi 15,5, Gjögri 13,4, Akureyri 16,0, Reykjahlíð við Mývatn 13,1, Grímsstöðum 14,1 og Hallormsstað 16,5 stig. Allt mælt þ. 27. Þann dag var hæð yfir NV-Evrópu en lægð suður af Grænlandi og landið laugað í hlýjum loftsstraumi eins og sést á korti hér að neðan.
Næst mestu hitarnir í mars komu síðasta dag mánaðarins hafísaárið 1965. Það sérstaka var að hans gætti eingöngu á suður-og vesturlandi og mældist þá langmesti hiti sem mælst hefur á suðurlandsundirlendi í mars: Sámsstaðir, 17,9 (17,5 kl. 15), Hella 16,8, Akurhóll, 16,5, Hæll 13,5, Þingvelir 13,5. Einnig var mjög hlýtt í Borgarfirði: 15,8 stig á Hvanneyri og 15,2 í Síðumúla. en í Reykjavík hélt metið frá 1948. Þennan dag var austan eða suðaustanstrekkingur við suðvesturströndina en annars staðar lyngt og víða léttskýjað. Kannski olli hafísinn því að hitinn fyrir norðan náði sér ekki á strik. Mistur var í lofti þennan dag. Það þótti vorlegt á þeim árum en mistrið var í rauninni efnamengun frá Bretlandseyjum. Í Reykjavík skein sól fram á hádegi en síðan byrgði mistrið hana en hitinn fór í 13 stig.
Árið 1956 fór hitinn á Dalatanga upp í 17,4 stig þ. 27. Þá var veðri öðru vísi farið en í þeim hitabylgjum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, allhvöss sunnan og suðvestanátt með mestu hlýindunum á Austfjörðum.
Þann 28. mars árið 2000 kom álitleg hitabylgja. Þá mældist hitinn 16,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði á kvikasilfursmæli en á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði fór hitinn í 18,8 stig. Það er hæsta hitatala sem skráð er á íslenskri veðurstöð i mars en þar eð mælirinn var sjálfvirkur er rétt að taka þetta ekki sem allsherjarhitamet fyrir mars. Sandur heldur því enn metinu frá 1948.
Veðurfar | Breytt 29.3.2012 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2012 | 19:22
Allt fór ekki á versta veg - en vonbrigði samt
Hitinn í dag fór í 18,2 stig á kvikasilfursmælinum á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Það er mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í mars á slíkum mæli í nútíma hitamælaskýli. Og þetta er aðeins 0,1 stigi lægra en mesti hiti sem mælst hefur í mars á kvikasilfursmæli, en í gamaldags skýli, á Sandi í Aðaldal þann 27. árið 1948.
Ég verð því að éta ofan í mig, með glöðu geði, fyrri fullyrðingar um það að allt hafi farið á versta veg. Það er náttúrlega fjarri lagi en samt er ergilegt að marshitametið hafi ekki verið slegið, þetta elsta kvikasilfurshitamet að vetrarlagi á landinu.
Hitinn í dag er marsmet fyrir Skjaldþingsstaði (frá 1994) og reyndar mesti hiti sem mælst hefur í mars í Vopnafjarðarhéraði öllu með kvikasilfri (frá 1930).
Þetta er líka dagshitamet fyrir hámarkshita á landinu en gamla metið var líka frá Skjaldþingsstööum, 16,2 stig frá 2005.
Á Syðisfirði fór hitinn í dag sjálfvirkt í 17,6 stig og var mældur í 92 metra hæð. Gaman hefði verið ef hann hefði enn verið mældur skammt frá kirkjunni eins og lengi var á mannaðri stöð. Marsmetið á þeirri stöð (1958-2002) var 15,2 stig.
Á Akureyri var dagshitametið frá 2005 jafnað, 14,4 stig. Aftur fór hitinn í dag á Torfum í Eyjafjarðardal í 15,1 stig eins og þann 24. og er það þá jöfnun á marsmeti þar en aðeins hefur verið athugað í mars frá 1998.
Marsmet var hins vegar sett á Mýri í Bárðardal 12,2 stig (frá 1979).
Á Kollaleiru í Reyðarfirði fór hitinn í dag alveg sjálfvirkt í 15,6 stig en metið á gömlu mönnuðu stöðinni (1977-2006) var 14,6 stig. Á Neskaupstað mældust 15,8 í dag en metið á mönnuðu stöðinni (1976-2000 og eitthvað) var 14,0. Ekki man ég í bili hvað sjálfvirku stöðvarnar á þessum stöðum hafa mælt.
Egilsstaðir og Hallormsstaður halda örugglega sínum gömlu og góðu metum. Hins vegar fór Brú á Jökuldal sjálfvirkt í 11,3 stig en mest hefur hún mælt á kvikasilfur 10,5 stig (1970-1998).
Það eru mikil vonbrigði að metið frá 1948 hafi ekki verið slegið vafalaust í eitt skipti fyrir öll.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.3.2012 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2012 | 13:36
Allt fer víst á versta veg
Ekkert stórkostlegt gerðist í hitamálunum í gær. Þó komu dagshitamet að meðalhita bæði í Reykjavík og á Akureyri eins og sést í fylgiskjalinu. Hámarkshiti varð mestur 15,0 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði sem ekki er þar marsmet og ekki heldur dagshitamet á landinu að hámarkshita.
Á hádegi í dag var þykktin yfir Egilsstöðum 5480 metrar sem er hásumarástand og ætti að duga í ein 20 stig eða meira ef allt færi á allra hugsanlega besta veg. Á Vatnsskarði, fjallveginum til Borgarfjarðar eystra var 12 stiga hiti í 430 metra hæð á hádegi en slíkur hiti sést þar varla um hásumarið því þetta er skítaveðursheiði mikil. En á láglendi hefur hitinn ekki náð sér neitt á strik enn þá miðað við þær glæstu vonir sem til hans eru gerðar. Þó hafa komið 16 stig niðri á austfjörðum. En hvað er það!
Allt virðist ætla fara á versta veg.
Ekki kom háloftaathugun frá Keflavík á hádegi en þær eru orðnar æði stopular þar í seinni tíð en þar munu þó ekki vera jafn sérstök hlýindi í háloftunum og yfir austurlandi.
Í Reykjavík hefur hitinn enn ekki náð 10 stigum í þessum mánuði. Slíkur hiti er þar enda fremur sjaldgæfur í mars. Frá 1872 hefur hann aðeins komið í 18 mánuðum, þar af fimm frá 2001, en einstaka sinnum oftar en einu sinni í þeim mánuðum sem hann kom.
Andstyggilegu kuldakasti með frosti allan sólarhringinn er svo spáð í mánaðarlok!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2012 | 19:30
Fáein hitamet
Nokkur met fyrir hámarkshita veðurstöðva í mars féllu í dag á stöðvum sem sæmilega lengi hafa athugað. Hér er einungis átt við mannaðar stöðvar.
Innan sviga er fyrsta ártal athugana og er þar miðað við mars.
Merkast er kannski metið í Æðey 10,5° (1954) vegna þess hve lengi hefur þar verið athugað þó ekki sé það að vísu afskaplega lengi miðað við lengstu samfellur mælinga.
Bláfeldur á Snæfellsnesi sunnanverðu 11,0 (1998).
Hólar í Dýrafirði 13,8 (1994).
Bolungarvík 12,7 (1949-1953, 1995).
Bergsstaðir í Skagafirði 14,0 (1999).
Torfur í Eyjafirði 15,1 (1998). Á Akureyri fór hitinn í 13,6 stig sem er 0,4 stigum lægra en dagshitametið frá 2003.
Mestur hiti mældist á sjálfvirku stöðinni á Siglunesi og er það dagshitamet fyrir landið en gamla metið var 15,0 á mönnuðu stöðinni á Dalatanga 1953.
Ekki er þetta nú samt neinn sérstakur árangur.
Æðey og Bergsstaðir ná ekki einu sinni ólympíulágmarkinu sem er 11 stig fyrir fyrrnefnda staðinn en 15 stig fyrir þann síðarnefnda!! En ætli við segjum ekki að Torfur hafi marið lágmarkið!
Bloggar | Breytt 26.3.2012 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2012 | 19:14
Hitamet byrjuð að falla
Hlýindahasarinn er þegar byrjaður þó þetta sé vonandi bara bláupphafið.
Í dag mældist hitinn 15,0 stig á sjálfvirku stöðinni á Seyðisfirði, sem er reyndar í um 100 m hæð.
Það mun vera dagshitamet á landinu. Gamla metið var 14,9 stig frá árinu 1964 í Fagradal í Vopnafirði. Það var kvikasilfursmæling en í dag mældust 13,6 stig á kvikasilfrinu á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Þetta er nokkuð frá allsherjar marsmeti á þessum stöðvum. Á Seyðisfirði er það met þó ekki nema 15,4 stig, frá þeim 28. árið 2000.
Á Akureyri fór hitinn í dag í 12,0 stig og er það jöfnun á dagshitameti hámarkshita frá 1959. Miklar líkur eru á því að dagshitamet sólarhringsmeðalhita falli þar líka.
Þess ber að geta að dagshitametalistinn minn, sem er að mestu leyti tekinn saman af mér, auðvitað eftir gögnum frá Veðurstofunni, getur stundum verið ekki alveg réttur en mikið vesen er að týna metin saman og villur geta auðveldlega slæðst inn. Hann er samt í sífelldri leiðréttingu og borinn saman við aðra sams konar lista sem hafa birst á netinu en ekki er endilega til einn réttur listi. Ég reyni t.d. að sía út hin svokölluðu tvöföldu hámörk, (frá deginum áður) en það getur stundum verið brösugur og óviss bissness. En fáir hafa líklega miklar áhyggjur af þessu!
Gaman verður svo að fylgjast með hitanum næstu daga.
Allt nema skýr 20 stig verða vonbrigði!
Viðbót: Dagshitamet að meðalhita var sett á Akureyri og líka - nokkuð óvænt- í Reykjavík. Frostmarkshæð yfir Keflavík er í um 2300 metra hæð nú á miðnætti.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 24.3.2012 kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2012 | 13:26
Mannamunur
Lifverðir á vegum Ríkislögreglustjóra fylgja nú innanríkisráðherra og efnahagsráðherra við hvert fótmál og vakta heimili þeirra.
Þeir hafa fengið hótanir.
Lögreglan bregst hins vegar ekki við á neinn hátt þegar venjulegt fólk sem ekki er í valdastöðum verður fyrir því sama. Menn hafa kvartað hástöfum yfir því en það vekur engin viðbrögð valdsins. Hvorki Ögmundur né Steingrímur eru svo skyni skropnir að þeir viti ekki af þesssu. Þeir hafa bara látið sig það bara engu skipta.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi ekki ræða þetta mál við fréttamenn Ríkisútvarpsins í hádegisfréttum.
Hann er þó yfirmaður lögreglunnar.
Sá mannamunur sem felst í því að ráðherrar fái gjörgæslu af hálfu lögreglunnar, ef þeim er hótað á sama tíma og venjulegur maður sem fær slíkar hótanir fær enga vernd af neinu tagi, er svo æpandi að enginn ærlegur maður, hvað þá ráðherra landsins, gæti liðið það og þagað um það.
Innanríkisráðherra átti auðvitað grípa tækifærið við fréttamenn og mótmæla þessum augljósa mannamun og beina því til lögreglunnar í embættisvaldi að veita öllum borgurum landsins sams konar vernd ef þeim er ógnað í orði eða í verki.
Hann gerði það ekki.
Og ekki heldur efnahagsráðherra. Þessi menn eru þó ekki vanir að þegja þunnu hljóði. Þvert á móti hafa þeir talað stanslaust í ein þrjátíu ár eða lengur.
En þetta segir sorglega sögu um það hvað handhafar valdsins elska sjálfa sig meira en það fólk sem þeir eiga þó að þjóna.
Bloggar | Breytt 24.3.2012 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2012 | 18:17
Ósvífin endaskipti á hlutunum
Í síðustu viku var haldin ráðstefna í Kaupmannahöfn þar sem meðal annars var rædd sú ógn sem stafar af því að margar bakteríur eru orðnar ónæmar fyrir sýklalyfjum. Helsta ástæðan er ofnotkun þeirra lyfja. DV birtir í dag frétt um þetta. Í henni er sagt að Vilhjálmur Ari Arason læknir gagnrýni ''aðgerðaleysi yfirvalda vegna of mikillar sýklalyfjanotkunnar''. Svo er þetta haft eftir honum: ''Það hefur ekki verið tekið á vandanum þar sem hann er.'' Hann segist hafa skrifað bréf til heilbrigðisráðherra en þeim bréfum hafi ekki verið svarað.
Ég hefði nú haldið að það liggi beinlínis í augum uppi að aðeins læknar, en ekki yfirvöld, geti ávísað sýklalýfjum. Ofnotkun þeirra er því á þeirra ábyrgð lækna og eingöngu á þeirra ábyrgð.
Það er með eindæmum ósvífin endaskipti á hlutunum ef Vilhjálmur Arason ætlar að gera yfirvöld ábyrg fyrir þessum vanda. Afhverju sendir hann ekki bréf til starfsbræðra sinna?
Ábyrgð á ofnotkun sýklalyfja hvílir á læknum og engum nema þeim.
Og þeir eiga að leysa vandann.
Bera ábyrgðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.3.2012 | 14:02
Kaldasti dagur ársins
Þetta er kaldasti dagur ársins enn sem komið er. Landsmeðalhitinn verður líklega sá lægsti á árinu. Frostið fór í 24,3 stig í nótt í Veiðivatnahrauni og er það lægsti hiti sem mælst hefur enn á árinu. Á Grímsstöðum fór frostið í 18,8 stig sem er mesta frost ársins á mannaðri veðurstöð. Ekki er þó hægt að segja að það sé ýkja mikið á þeim stað. Kuldapollurinn hans Trausta hefur verið að sleikja landið.
Í dag er sólargangur í Reykjavík orðinn meiri en tólf stundir en jafndægur eru á þriðjudag.
Á fasbókarsíðum voru menn að tala um vorveður fyrir nokkrum dögum. En dagurinn í dag sýnir einstaklega vel hve óvarlegt er að treysta því að vorið komi í mars þó hlýir dagar komi og það margir í röð.
En í suðaustur Evrópu, nema Grikklandi og Tyrklandi, er ekki vorið heldur sumarið komið, að minnsta kosti í heimsókn, og teygir sig alveg inn i Pólland, Tékkland og sunnanvert Þýskaland. Í Belgrad í Serbíu var 25 stiga hiti nú á hádegi.
Í Ameríku hefur verið mjög hlýtt undanfarið og rétt eins og hér, þegar langvinn hlýindi koma síðla vetrar, óttast menn að gróður kunni að fara illa ef vorhret skellur á. Í New York getur 10-12 stiga frost alveg komið á þessum árstíma ef virkilega liggur illa á kuldabola.
Kuldinn hér mun ekki standa lengi. Það hlýnar strax á morgun. Enn er hitinn á landinu yfir meðallagi og góðar líkur eru á að hann haldi því til mánaðarloka. Hann nær þó aldrei febrúar enda var hann mjög afbrigðilega hlýr.
Nú bíður maður bara eftir þvi að snjórinn fari og komi ekki aftur fyrr en næsta vetur og helst aldrei.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 23.3.2012 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006