Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
29.6.2012 | 14:02
Sólarminnstu júnímánuðir
Vitaskuld er minni ljómi yfir mjög sólarsnauðum sumarmánuðum en afar sólríkum. Þess vegna verður umfjöllunin um sólarlitla júnímánuði öllu fátæklegri en pistillinn um þá sólríku.
Sumrin 1913 og 1914 voru alræmd rigningarsumur á suðurlandi. Sólinni var þá ekki fyrir að fara. Seinna sumarið var reyndar sumarið sem Þórbergur réði sig til að mála hús að utan en þar sem aldrei þornaði á steini var ekkert hægt að mála og hann fékk því ekkert kaup munaði minnstu að ofvitinn dæi úr hungri. Ef við teljum Vífilsstaði til Reykjavíkur, en þar hófust sólskinsmælingar árið 1911, er júní 1914 sá sólarminnsti sem mælst hefur í höfuðborginni með aðeins 61 sólskinsstund en meðaltalið 1961-1990 er 161 stund. Engar úrkomumælingar voru þá í Reykjavík en hins vegar á Vífilsstöðum. Þar var úrkomumagnið ekkert sérstaklega mikið en fáir þurrir dagar. Í Vestmannaeyjakaupstað mældist aftur á móti meiri úrkoma en þar mældist á árunum 1881-1921 en eftir það var veðurstöðin flutt til Stórhöfða. Hrakleg og svöl tíð var talin á vestanverðu landinu en fyrir norðan var besta tíð og alveg þokkalega hlýtt. Í heild var hitinn á landinu kringum hálft stig undir meðallaginu 1961-1990 sem við þekkjum best og ekki svo sem að góðu en hér er alltaf miðað við þetta meðaltal hvað hita varðar. Úrkoman var í rúmu meðallagi á landinu miðað við þær örfáu stöðvar sem lengst hafa athugað árin 1931-2000. Þetta var annars ekkert venjulegur mánuður í heiminum. Fyrri heimstyrjöldin hófst í mánaðarlokin.
Júní 1913 er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 104 sólarstundir. Hann var reyndar þurrari en 1914, en samt talinn rigningarsamur syðra en skárri fyrir norðan en alls staðar var hann í svalara lagi og aðeins kaldari en 1914. En úrkoman var undir meðallagi.
Fjórði sólarminnsti júní í borginni er 1925, 95 stundir. Úrkomusamt var á suðurlandi og hiti ekki langt frá meðallagi en vel hlýtt fyrr norðan og þar með telst mánuðurinn meira en eitt stig yfir meðalaginu á landinu í heild.
Árið eftir, 1926, mældist svo áttundi sólarminnsti júní á Akureyri, 130 klukkustundir. Í Reykjavík skein sólin reyndar tíu stundum skemur þó úrkoma væri lítil en þar sem mælingasagan er nokkru lengri í Reykjavík en á Akureyri kemst mánuðurinn þar ekki á topp tíu listann yfir sólarminnstu júnímánuði en er reyndar í ellefta sæti. Mætti kannski leika sér að því að kalla þetta sólarnauðasta júní sem mælst hefur á Íslandi! Miklar rigningar voru austanlands og á Teigarhorni var þetta úrkomusamasti júní sem komið hafði frá 1874, 213,5 mm en það met var þó slegið árið 2003, 234 mm.
Á miðju hlýindaskeiðinu á fyrra hluta tuttugustu aldar, 1938, mældist svo sólarminnsti júní á Akureyri, 94 klukkustundir en meðaltalið er 177 stundir 1961-1990. Fádæma úrkoma var þennan mánuð á ýmsum útskögum fyrir norðan. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í júní í Grímsey, á Raufarhöfn, nyrst á Tröllaskaga, á Ströndum og í Bolungarvík. Reyndar ekki heldur á Lambavatni á Rauðasandi þar sem þetta var fyrsti júní sem úrkoman var mæld. Í Reykjavík var fremur sólríkt. Svalt var alls staðar og leiðindatíð.
Júní 1946 var sá fimmti sólarminnsti á Akureyri með 120 stundir en fremur sólríkt var á suðurlandi. Þetta var kaldur mánuður, um hálft stig undir meðallaginu á landinu eins og júní 1938. Alræmt kuldakast gerði snemma í mánuðinum með snjó sums staðar á láglendi fyrir norðan.
Enn kaldari júní í heild, 1952, var svo sá tíundi sólarminnsti á Akureyri með 130 klukkustundir en hann er sá fimmti sólríkasti í Reykjavík, Hans er að illu getið í pistlinum um sólríkustu júnímánuði. Hann reynist vera tíu kaldasti júní á landinu frá 1866 og sá tíundi þurrasti. Metavænn júní! En á verri veg!
Kringum 1960 komu nokkrir mjög sólarlitlir júnímánuðir í Reykjavík.
Níundi sólarminnsti júní þar var 1958, 119 stundir, en þá var fremur sólríkt á Akureyri. Úrkoman á landinu var aðeins um helmingur af meðallaginu en hitinn var í kringum meðallag.
Áttundi sólarminnsti var 1960 með 116 stundir og þá var lítil sól einnig fyrir norðan. Úrkoman var um einn fjórða fram fyrir meðallagið á landsvísu.
Þrátt fyrir þessa slöppu sumarbyrjun áttu sumrin 1958 og 1960 er upp var staðið eftir að verða eftirminnileg sólskinssumur í Reykjavík og á suðurlandi og teljast þar enn með betri sumrum fyrir sól og hita.
Júní 1962 var svo í Reykjavík sá tíundi sólarminnsti með 119 stundir og ekki var mikið skárra fyrir norðan. Úrkoman á landinu var líka mikil.
Júní 1969 tel ég þann þriðja úrkomusamasta á landinu. Og hann er sá sjötti sólarminnsti í Reykjavík með 106 stundir. Við suðurströndina var þetta einn af tveimur eða þremur úrkomusömustu mánuðum í júní og í Stykkishólmi er þetta sjötti úrkomusamasti júní, allar götur frá 1857 með 80 mm en metið er frá 1889, 105 mm. Fremur sólríkt var fyrir norðan. En í hönd fór svo eitthvert hið mesta rigningarsumar í öllum landshlutum.
Næsti júní á undan, 1968, var aftur á móti næst sólarminnsti júní sem mælst hefur á Akureyri með 102 sólarstundir. Þetta var á miðjum hafísárunum.
Skammt var svo á Akureyri í þriðja sólarminsta júní, 1972, með 111 stundir. Þetta er einnig úrkomumesti júní á Akureyri, 117,2 mm. Á Fljótsdalshéraði, í Æðey og sums staðar í Þingeyjarsýslum hefur heldur aldrei mælst eins mikil júníúrkoma. Ég tel þetta raunar tíunda úrkomusamasta júni á landinu en það er ekki sérlega nákvæmt tal en gefur þó bendingu.
Níundi sólarminnsti júní á Akureyri var svo ekki langt undan, 139 stundir, árið 1975. Þetta var afar kaldur mánuður og er reyndar sá fimmti kaldasti júní á landinu að mínu tali frá 1866.
Árið 1983 kom sjötti sólarminnsti júní á Akureyri með 121 stund. Ég tel hann einnig sjötta úkomumesta júní á landinu. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í Vestmanneyjum í júní eða rigningarbælinu Vík í Mýrdal og aðeins einu sinni á Eyrarbakka, 1887, í dálítið sundurslitinni en samt langri mælingasögu. Metúrkoma var einnig á Hæli í Hreppum, Mýrum í Álftaveri, Brekku í Norðurárdal og jafnvel Hólum í Hjaltadal og Vopnafirði. Þessar stöðvar mældu allar nokkuð lengi en mælingarsagan var þó mislöng og ekki alltaf samhliða. Í mánuði þessum mældist svo minnsta lofvægi sem mælst hefur á landinu í júní, 957,5 hPa í Vestmanneyjum að morgni þess ellefta. Sumarið átti eftir að reynast eitthvert það sólarminnsta og allra kaldasta á suður og vesturlandi en var þokkalegt fyrir norðan eftir að júní sleppti.
Þriðji sólarsnauðasti júní í Reykjavík var 1986 með 88 stundir. Aldrei mældist minni sól í júní á Hveravöllum, 106 stundir. Ekki var heldur minni sól í nokkrum júní á Reykhólum, 78 klst og Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundirnar voru aðeins 62 en ekki var sérlega lengi athugað á þessum stöðum. Á Akureyri var vel sólríkt og hlýtt en svalt syðra í ríkjandi sunnan og suðvestanátt.
Annar sólarminnsti júní í höfuðborginni kom svo árið 1988. Þá skein sólin í 72 stundir. Fyrir norðan var heilmikil sól, 224 klst á Akureyri. Þar var líka vel hlýtt en svalt syðra eins og 1986. Hitinn þann 26. fór i 28,6 stig á Vopnafirði. Eitthvert mesta vestanveður í júní kom þann 18. Þá stórsá á gróðri suðvestanlands svo hann jafnaði sig aldrei allt sumarið. Veðurhæð komst í 9-11 vindstig á 22 veðurstöðvum.
Árin 1994-1996 koma öll við sögu sólskinsleysis í júní.
Á Akureyri var júní 1994 sá fjórði sólarminnsti með 120 stundir. Þetta var úrsvalur mánuður en ekki úrkomusamur. Hann státar hins vegar af einu merkismeti: Meðalloftvægi í Stykkishólmi hefur aldrei orðið lægra í júní alveg frá 1846, 1001,9 hPa.
Árið eftir, 1995, kom sjöundi sólarminnsti júní í höfuðborginni með 110 stundir. Svalt var vestanlands en veruleg hlýindi á austur og suðausturlandi.
Loks var júní 1996 sá sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 129 stundir. Þetta var annars meðalmánuður að hita og úrkomu.
Eftir þetta ár hefur enginn júnímánuður skandalíserað með topp tíu sólarleysi, hvorki fyrir sunnan né fyrir norðan.
Að maður skuli svo nenna að standa í þessu í góðviðrislegum júnímánuði sem þegar er kominn upp í fimmta sæti í Reykjavík fyrir sólríkustu júnímánuði og er enn á leið upp metorastigann! Afhverju er maður ekki úti úí góða veðrinu! En þetta er víst það sem kallað er veðurdella og er víst ekki besta dellan!
Fylgiskjalið fyrir júní fylgir hér með.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 19.4.2013 kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2012 | 16:27
Sólríkustu júnímánuðir
Sólríkasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð var í Reykjavík í júní 1928. Þá mældust sólskinsstundirnar 338,2. Meðaltalið 1961-1990 er 161 klukkustund og er furðu klént. Athuganir eru frá 1911 (ef Vífilsstaðir eru taldir með fyrstu árin). Tuttugu daga skein sólin í tíu stundir eða meira sem er met í nokkrum mánuði, ásamt maí 1958. Á suðurlandsundirlendi og víða á vesturlandi var skýjahula metin minni en í Reykjavík en svipuð á Vestfjörðum. En það skipti um við Hornstrandir og alveg austur og suður um að Mýrdalsjökli. Á því svæði var ekkert sérstaklega bjart yfir og reyndar kafskýjað á norðaustur- og austurlandi. Sólarstundirnar voru ekki fleiri en 168 á Akureyri sem er raunar hátt upp í núgildandi meðallag. Þetta var þurrviðrasamur mánuður. Úrkoman um 30% af meðallagi 1931-2000, sem hér er alltaf miðað við, og telst nimbusi hann vera 6. þurrasti júní á landinu miðað við þær örfáu stöðvar sem lengst hafa athugað úrkomu. Á Hæli í Hreppum og í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst þurrari júní. Hiti var lítillega undir núverandi 30 ára meðaltali á landinu. Fremur hlýtt var þó á sólskinssvæðinu en kalt annars staðar. Oftast var norðanátt og næturfrost voru tíð inn til landsins.
Sumrin 1927 til 1929 eru í heild þau þrjú sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og er merkilegt að þau skuli hafa komið svona þrjú í röð. Árið 1927 var júní svo út af fyrir sig sá áttundi sólríkasti í borginni með 268 sólarstundir. Þessi mánuður var talsvert mildari 1928 og ekki eins þurr þó hann hafi a vísu verið þurrviðrasamur.
Júní 1924 og 2008 skarta næst sólríkustu júnímánuðum í höfuðborginni með 313 stundir og hefur 1924 þó vinninginn upp á um 20 mínútur. Hann var bæði þurr og fremur kaldur. Árið 2008 var júní hins vegar með þeim hlýjustu á suðuvesturlandi og víðast hvar í meðallagi (1961-1990) eða yfir því. Mjög þurrt var þó. Úrkoma í báðum þessum mánuðum var aðeins um helmingur af meðalúrkomunni.
Þurrkar og mikið sólfar að sumarlagi fylgjast nokkuð að og kemur það auðvitað ekki á óvart. Júní árið 1991 er dæmi um þetta. Hann er fjórði sólríkasti júní í Reykjavík með 295 stunda sólskin. Á Akureyri (frá 1928) er hann sá fimmti sólríkasti en þar skein sólin í 250 stundir og 15 daga tíu stundir eða meira sem er met þar í júní (reyndar líka 15 daga í Reykjavík). Á Hveravöllum hefur enginn mánuður ársins verið eins sólríkur, 308 stundir og er þetta eini mánuðurinn sem þar rauf 300 stunda múrinn (1966-2003). Þá er þetta sólríkasti júní á Sámsstöðum í Fljótshlíð, 284,5 klst (frá 1964). Alls staðar var þetta mjög sólríkur mánuður og mig langar til að krýna hann sem sólkonung Íslands, ekki bara yfir júnímánuði heldur yfir alla mánuði. Þetta er svo þriðji þurrrasti júní á landinu miðað við þær stöðvar sem lengst hafa athugað. Úrkoman var aðeins 22% af meðaltali þeirra. Keppir mánuðurinn um þurrk víða við júní 1971. Á suðausturlandi var hann enn þá þurrari en þá, sums staðar einnig á Vestfjörum og í Skagafirði og jafnvel á austfjörðum. Á Teigarhorni var úrkoman aðeins 2,9 mm og hefur aðeins verið minni í júní 1916, 0,0 mm en það var einmitt úrkomutalan á Hólum í Dýrafirði í júní 1991. Hitinn var næstum því nákvæmlega i meðallagi. Þjóðhátíðardagurinn þetta ár er líklega sá sólbjartasti á landinu síðan lýðveldið var stofnað og reyndar einhver sólbjartasti dagur yfirleitt sem mælingar ná yfir á þeim fáu stöðvum sem mælt hafa blessaða sólina. Nimbus var þá reyndar fjarri glöðu og björtu gamni því hann var í Róm þennan mánuð þar sem hann hitti náttúrlega sjálfan páfann. Til er mynd af þeim saman og má ekki á milli sjá hvor nimbusinn er skærari! En tunglmyndin af Íslandi hér til vinstri er frá móttökustöðinni i Dundee í Skotlandi og er tekin kl. 1345 á þjóðhátíðardaginn 1991.
Næst þurrasti júní á landinu var 1971 (1916 tel ég hins vegar þurrastan). Og hann er þriðji sólríkasti júní á Akureyri, 257 stundir, og næst sólríkasti á Sámsstöðum. En í Reykjavík er hann níundi sólríkasti júní með 264,5 sólskinsstundir. Alls staðar var sólríkt og af því hann er nú í sólskinsskapi langar Nimbusi til að telja þetta næst sólríkasta júní á landinu sem mælingar ná yfir en ekki skulum við taka þennan metarembing alltof hátíðlega. Úrkoman á landinu var einungis 12% af meðallaginu. Ekki hefur mælst þurrari júní í Reykajvík, 2,1 mm eða Stykkishólmi 2,2 mm. Sömu sögu er reyndar að segja af mörgum stöðvum með mislanga mælingasömu á suður og vesturlandi og allt að Ísafjarðardjúpi, Hrútafirði og sums staðar í Skagafirði. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi var úrkoman aðeins 0,2 mm. Hitinn var í kringum meðallag. Bæði 1971 og 1991 var hæðarhryggur í háloftunum vestan við landið.
Næsti júní á undan, 1970, krækti í að vera sjötti sólríkasti á Akureyri, 246,5 klst. Þar var ágætlega hlýtt en svalt var á suðurlandi og úrkomusamt enda var þetta sunnanáttamánuður mikill. Á Hallormsstað er þetta þriðji sólríkasti júní með 261 stund. Á Sandi í Aðaldal, Brú á Jökuldal og Dalatanga hefur ekki mælst þurrari júní.
Að mínu tali er sá ískaldi júní 1952 sá tíundi þurrasti á landinu. Þá var sólargæðunum æði misskipt því mánuðurinn er fimmi sólríkasti júní í Reykjavík, 286 klst, en sá tíundi sólarminnsti á Akureyri. Hitagæðunum var ekki síður misskipt því þar sem sólin var mest náði hitinn að vera í meðallagi (1961-1990) eða yfir því en fyrir norðan er þetta með allra köldustu júnímánuðum. Frá 1882 hafa aðeins júní 1882 og 1907 verið kaldari á Akureyri. Þetta er þurrasti júní á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem veðrið var einna skást.
Þessi mánuður á sér svo bróðir sem er júní 2011. Hann er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 268 klst. Hann marði þar meðallagið í hita en fyrir norðan var hann sá kaldasti síðan 1952 og þar með fjórði kaldasti á Akureyri frá 1882. Og er þessi júní víst mörgum norðlendingum minnisstæður fyrir kulda og var enda mikið kvartað. En flestir eru kannski farnir að gleyma 1952 sem öllu leyti var samt enn þá fantastískari í ömurleika sínum með snjó í Vestmanneyjum og allt hvað þetta hefur! En 2011 lumar á einu trompi. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur á Hólum í Hornafirði með 237 sólarstundir (frá 1958). Í báðum þessum mánuðum var norðanáttin mjög eindregin.
Næsti júní á undan, 2010, var hins vegar miklu sólarbetri fyrir norðan en hann er sá þriðji sólríkasti á Akureyri, 256 klst, og reyndar sá næst þurrasti, 2,0 mm. Í Reykjavík var þá sól undir meðallagi. En það var bætt upp með því að þar (og í Stykkishólmi, Hreppunum og á Hveravöllum) er hann hlýjasti júní sem mælst hefur og á landsvísu er hann líka með allra hlýjustu júnímánuðum. Á Akureyri sá sjöundi hlýjasti.
Tveir mjög sólríkir júnímánuðir komu í röð í höfuðstaðnum árin 1997 og 1998. Sá fyrrnefndi er tíundi sólríkasti með 240 sólarstundir en sá síðarnefndi er sá sjötti sólríkasti með 272 stundir. Báðir voru mánuðurnir kaldir, sá fyrrnenefndi alls staðar, en hlýtt var á suðvesturlandi í þeim síðarnefnda og reyndar var þetta þá hlýjasti júní í Reykjavík síðan 1966. Á hálendinu var þetta með úrkomumestu júnímánuðum. Snemma í júní 1997 skall á rétt ofan í hitabylgju hastarlegt kuldakast og mældist þá mesta frost sem mælst hefur í júní í Vestmannaeyjum. Þurrviðrsamt var víðast hvar í báðum þessum mánuðum.
Á Akureyri er sólríkasti júní árið 2000 með 285 klukkustundir af sól en meðaltalið 1961-1990 er 177 stundir. Við Mývatn var þó enn meiri sólskin, 288 klukkustundir. Við Mývatn er á sumrin greinilega meira sólfar, a.m.k. sem mælist, heldur en á Akureyri. Hitinn á landinu var rétt aðeins undir meðallagi og úrkoman líka víðast hvar. Minnisstæðastur er þessi mánuður þó fyrir það að þá riðu yfir stóru suðurlandskjálftarnir, fyrst á þjóðhátíðardaginn og síðan þann 21.
Næst sólríkasti júní á Akureyri er 1982, 264 stundir og hann var sá annar sólríkasti á Hallormsstað, 270,5 stundir. Mjög sólríkt virðist hafa verið á öllu norður og austurlandi því þetta er sólríkasti júní sem mældur hefur verið á Melrakkasléttu, 247,5 stundir. Ekki er það nú svo sem mikið á þessu svæði miðnætursólarinnar þar sem ekkert skyggir á! Veður voru hæglát og þurr og á austurlandi var alveg einstaklega þurrt. Á Grímsstöðum á Fjöllum og á Fljótsdalshéraði hefur ekki mælst þurrari júní. Hiti var í meðallagi.
Á Hallormsstað er júní 1986 sá sólríkasti, eins og skrattinn úr sauðarleggum, með 280 stundir en meðallagið 1961-1989 er 188 stundir og virðist Hallormsstaður vera sólríkasti staður landsins í júní þar sem mælt hefur verið á annað borð nema ef vera skyldi að Mývatnssvæðið skáki honum en þar hafa mælingar ekki staðið lengi yfir. Mismunanndi mælingatími skiptir þarna þó eflaust máli og ekki gott að segja hvort sólrikara er yfirleitt á Hallormsstað en annars staðar í júní þó svo hafi verið þetta tímabil. Átján daga skein sólin á Hallormsstað þennan mánuð meira en 10 stundir og þar af alla daga nema einn frá og með þeim 18. Hann lá í suðvestan og sunnanáttum og er þetta þriðji sólarminnsti júní í Reykjavík með 88 klst en á Reykjum i Ölfusi voru sólarstundirnar svo margar eða réttar sagt svo fáar sem 62. Svalt og drungalegt var sem sagt á suður og vesturlandi en að sama skapi hlýtt og notalegt fyrir norðan og austan.
Viðbót: Eftir að þessi pistill var skrifaður kom í ljós að júní 2012 er næst sólríkasti júní sem mælst hefur í Reykjavík með 320,6 sólarstundir. Röð sólríkustu sumarmánaða í borginni hinkast því til og er tíundi sólríkasti júní sem hér er tilgreindur því hinn ellefti í röðinni. Á Akureyri er júní 2012 sá þriðji sólríkasti með 258,4 stundir. Mjög þurrt var víða og í Stykkishólmi hefur aldrei mælst eins lítil úrkoma frá því mælingar hófust 1857, 0,6 m, og féll hún á einum degi. Mjög líklegt er að mánuðurinn sé meðal tíu þurrustu júnímánaða á landinu.
Veðurfar | Breytt 19.4.2013 kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2012 | 13:51
Tom Cruise á Íslandi
Í gær mældist hitinn á Egilsstaðaflugvelli 21,5 stig og á nokkrum öðrum stöðvum náði hitinn tuttugu stigum. Eigi að síður mældist meiri hiti á landinu alla fyrstu fjóra daga mánaðarins.
Þetta er svo sem ekki neitt neitt.
Mesti hiti sem mælst hefur á landinu, 30,5 stig á Teigarhorni, mældist einmitt þann 22. júní árið 1939 og þann 23. árið 1974 nældust 29,4 stig á Akureyri. Hitinn í gær og væntanlega í dag sætir því svo sem engum sérstökum tíðindum en er góður samt.
Hlýtt er þar sem Tom Cruise er að vafstra fyrir norðan ásamt sínu liði, gæti alveg gengið sem veður í siðmenntuðum löndum Evrópu og Ameríku en auðvitað ekki í úrvalsflokki hvað hitastigið varðar. Svo halda þeir að þetta sé bara hversdagslegt veður á landinu. Þetta sé bara alltaf svona hér á þessum árstíma!
Verst að ekki skuli vera hægt að bjóða Tuma þumal upp á 30 stiga hitann sem sagt er að sé alveg yfirvofandi á landinu við gott tækifæri! Annars finnst útlendignum sem vanir eru yfir 30 stiga hita á daginn í sínum heimalöndum á sumrin kanski bara þægilegt að fá sól og 20 stig þegar þeir eru að vinna úti við.
Pólskur eftirlaunaþegi tók um daginn vitlausa ferju úti í Danmörku og lenti á austfjörðum. Honum fannst kalt á Íslandi enda var þá kuldakast austanlands.
Það er annars merkilegur fjandi hvað fólk sem dvelur nokkra daga á Íslandi hefur sterka tilhneigingu til að halda að veðrið þá daga sem það er á landinu sé alveg dæmigert þó það sé það kannski alls ekki. Þó er þetta oft fólk sem á heima í tempraða loftslagsbeltinu þar sem veður er oft mjög breytilegt.
Þurrkarnir eru svo kapituli út af fyrir sig.
Þetta má allt sjá í hinu staðfasta fylgiskjali.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 29.6.2012 kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.6.2012 | 14:25
Mannslíf eru í húfi
Gunnar Gíslason sérfræðingur í hjartasjúkdómum, telur að banna eigi eitt algengasta verkjalyf sem ávísað er á gigtarsjúklinga. Lyfið er talið valda dauða meira en eitt hundrað Dana á ári hverju. Svo segir í fréttinni í hádeginu í Ríkisútvarpinu og hér er vísað til.
Það má slá því föstu að fjölmargir Íslendingar hafi í góðri trú tekið lyf úr þessum hættulega lyfjaflokki árum saman án þess að hafa nokkurn grun um hætturnar. Enda veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi verið varað við þessum lyfjum hér á landi.
Áreiðanlega eru þeir líka margir sem tóku fyrst lyfið víox, sem tekið var af markaði vegna þess hve hættulegt það er, en hafa síðan tekið þessi lyf sem Gunnar telur einnig lífshættuleg. Þeirra á meðal er ég.
Hvers eiga sjúklingarnir eiginlega að gjalda?
Hvað hafa þessi lyf valdið miklum skaða hér á landi eða dauðsföllum? Í hverju er hættan fólgin? Hverfur hún þegar töku lyfjanna er hætt eða veldur notkun þeirra um einhvern tíma varanlegum skaða í líkamanum?
Gunnar Gíslason segir að læknar ávísi ''þessum lyfjum af gömlum vana og að varnaðarorð frá yfirvöldum nái ekki eyrum þeirra''.
Eftir orðanna hljóðan, hvað segja þau um árverkni, ábyrgð og virðingu lækna fyrir lífi sjúklinga sinna? Eða er Gunnar bara að rugla?
Og hvað svo? Birtist þessi frétt, kannski aðeins í Ríkisútvarpinu, bara sisvona án þess að nokkrar umræður eða aðgerðir komi í kjölfarið?
Viðbót 24. 6.:Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var skýrt frá því að íslenskir læknar ávísi fjórum sinnum meira af þessum lyfjum en danskir læknar og meira en aðrir læknar á norðurlöndum. Þrjátíu og fimm þúsundir taki hér þessi lyf. Sagt var líka að ekki væri von á neinum bráðum aðgerðum vegna þessa.
Hvað þarf eiginlega til?
Heilbrigðismál | Breytt 24.6.2012 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2012 | 15:26
Vanvirðing við saklausan mann
Það hlýtur að vera andlegt áfall til lífstíðar að vera handtekinn og settur í varðhald grunaður alsaklaus um morð. Vera svo niðurlægður með húsleit, þar sem ókunnir menn róta upp heimili hans og settur í læknisskoun sem ekki er síður auðmýkjandi.
Í dóminum segir að maðurinn hafi ekki valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglunnar á neinn hátt.
Það sem vekur furðu er það að dómaranum finnst þetta samt alveg eðlilegar og réttmætar aðgerðir.
Maður hélt að dómstólar ættu að vera varnarveggur fyrir borgarana gegn tilefnislausum og niðurlægjandi aðgerðum ríkisvaldsins.
En því er hér ekki að heilsa. Dómstóllinn er hreinlega framlenging á málstað ríkisvaldsins í líki lögreglunnar, sem hér er kallað ''ríkið'', þeim aðila sem mál hins saklausa manns beindist gegn. Lögreglan hafði engar raunverulegar ástæður til að handtaka manninn. En gerði það samt og af því að hún gerði það þá eru aðgerðir hennar taldar eðlilegar. Hvergi örlar á sjálfstæðu gagnrýnu viðhorfi dómarans til aðgerða lögreglunnar. Hvað þá skilningi á því hvernig er að verða fyrir öðrum eins ásökunum af hálfu ríkisvaldsins og maðurinn varð fyrir.
Þetta gæti ekki verið verra. Maðurinn lendir blátt áfram í eins konar gildru.
Bæturnar sem manninum eru dæmdar virka svo í þokkabót sem hreinasta háðung.
Ofan á það sem fyrir var hefur dómarinn, Hervör Þorvaldsdóttir, vanvirt og lítillækkað manninn með dómsorði sínu og ákvörðum skammarlega lágra skaðabóta.
Það liggur við að dómarinn segi: Þetta var bara gott á þig góði. Fyllilega eðlilegt og réttmætt.
Sakborningur í morðrannsókn fær bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2012 | 12:51
Með stuði og stæl
Það hefur verið löng hefð á 17. júní að skemmtun hafi verið um kvöldið í miðbæ Reykjavíkur. Þetta hefur verið hluti af því fyrir bæjarbúa að vera Íslendingur á þjóðhátíðardeginum og búa í höfuðstaðnum.
En nú er þetta allt í einu lagt niður. Einhver nefnd hefur ákveðið það bara. Og af svo sem engri ástæðu nema hvað tekið er fram að við höfum menningarnótt. Það er eins og nefndarfólkið skilji ekki muninn á þjóðhátíðardeginum og menningarnótt. Og þá ekki heldur hvað það er mikið öðru vísi blær yfir því að að vera úti að kvöldlagi meðan nóttin er björt og því að vera úti í myrkri.
Sagt er að dregið hafi úr fólksfjöldanum í bænum á sautjándanum síðustu árin. Ekki hef ég nú tekið eftir því en ég bý við miðbæinn. En veður gæti ég trúað að hafi áhrif á fólksfjöldann.
Jú, stundum er fyllirí og leiðindi. En það er á öllum íslenskum útiskemmtunum meira og minna.
Í dag fór fram serimónían á Austurvelli þar sem forsetinn lagði blómsveig að fótstalli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og forsætisráðherra hélt ræðu. Allt þetta kunnum við utan að. Aldrei kemur þar neitt nýtt eða frumlegt fram. Bara sama tuggan.
Af hverju er þetta ekki lagt niður?
Þarna eru valdhafarnir í fyrirrúmi, forseti og forsætisráðherra. Og forsætisráðherra var að einmitt segja áðan á Austurvelli að enginn treysti ráðamönnum lengur.
Hvers vegna í ósköpunum er þessi ráðamannaserímónía á 17. júní þá ekki lögð niður?
Og kvöldskemmtunin aukin um allan helming í staðinn!
Með stuði og stæl!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.6.2012 | 21:01
Þrumur og eldingar!
Forsenda þrumuveðurs er óstöðugleiki andrúmsloftsins. Þrumuveður eru svona fá á Íslandi vegna þess að loftið er að jafnaði stöðugra en í útlöndum því veðráttan er yfirleitt köld eða svöl, mikil útgeislun er næst jörð og hafið kælir hlýtt loft þó það berist að landinu. Íslensk þrumuveður geta heldur ekki stigið mjög hátt upp til að sækja í sig veðrið vegna þess hve veðrahvolfið hér er lágt. Jafnvel þó gangi stundum á með þrumum og eldingum standa þau veður því yfirleitt stutt og hamagangurinn og fjöldi eldinga er miklu minni heldur en í flestum öðrum löndum. Straumur í íslenskum vetrareldingum, merkilegt nokk, er þó yfirleitt meiri en í eldingum erlendis. Það gildir hins vegar ekki um ljósagang að sumri.
Fæst eru þrumuveður á Íslandi vor og haust. Gagnstætt því sem gerist í flestum öðrum löndum eru þrumuveður hér aftur á móti algengust á vetrum. Koma þau suðvestanlands og yfir sjónum úti fyrir þegar þungt og kalt heimskautaloft, ættað frá ísköldu meginlandi Kanada, kemur að landinu úr suðvestri eftir að hafa hlýnað mjög yfir tiltölulega hlýjum sjó og gerst óstöðugt og hverfult. Þessi veður geta staðið í einn til tvo sólarhringa og náð yfir stórt svæði.
Næst algengust eru þrumuveður á Íslandi að sumri til. Á þeim tíma eru þrumuveður næstum því jafn algeng fyrir norðan og fyrir sunnan. Einnig eru þá eldingar á hálendinu nokkuð algengar því. Þessi veður standa oftast nær aðeins í fáeinar klukkustundir.
Í útlöndum er algeng ástæða þrumuveðra sú að kuldaskil ganga yfir eftir langvarandi hita. Hitauppstreymi yfir hlýju landi að degi til eru einnig algeng uppspretta þrumuverða erlendis á sumrin. Hér á landi koma þrumuveður að sumarlagi oft þegar hlýtt og rakt loft er við jörð sem nær að hlýna vel í sól en kalt loft er farið að sækja að hærra uppi. Loftið verður þá óstöðugt og leitar upp undir veðrahvolf. Myndast þá hávaxnir skúra og éljaklakkar, stundum í klösum. Í allra mestu þrumuveðrum geta margir slíkír verið virkir í einu og þegar einhverjir deyja út koma aðrir í staðinn. Oft er loftið í íslenskum þrumuveðrum á sumrin næst jörð komið frá Bretlandseyjum eða meginlandi Evrópu en í efri loftlögum er gjarnan vestlægur vindur með kaldara lofti að eðli.
Vart verður við þrumur á einhverri veðurstöð í flestum sumarmánuðum. En þrumuveður sem ganga yfir stórt landsvæði og getið er um á mörgum veðurstöðvum eru sjaldgæf. Þegar slíkt gerist finnst mönnum það alltaf vera svolítið eins og gerist í útlöndum. Hitaskúrirnar endi bara með þrumum og eldingum!
Þrumubálkur
Ekki verður hér fjallað um vetrarþrumur af því að í dag erum við í sumar- og sólskinsskapi. En fyrir neðan verða nefnd helstu þrumuveður sem gengið hafa yfir landið að sumri til, frá júní til ágúst, frá og með 1925 og ekki síst með tilliti til hlýrra daga. Einnig verða nefnd tilvik þar sem eldingar hafa valdið skaða.
Eldingu sló niður á Grímsstöðum á Fjöllum 7. júlí 1926 og eyðilagði sjö símastaura og gekk frá símaáhaldinu á bænum. Þennan dag var 25 stiga hiti á staðnum og eitthvað svipað næstu tvo daga á undan en þrumur gerði þarna einnig þ. 5. Á norðurlandi voru hægir vindar og breytileg átt sem stafaði af hæð fyrir austan land.
Talsvert þrumuveður gekk yfir suðausturland 18. júlí 1929. Þess varð vart frá Berufirði til Fagurhólsmýrar. Í Hornafirði stóðu skruggulætin í heila fjóra tíma, frá hádegi til kl. 4 síðdegis.
Nokkra daga í júlí 1927 varð vart við þrumur hér og hvar. Mest var þó þrumuveðrið sem gekk yfir frá suðaustri yfir Rangárvallasýslu þ. 25., frá Austur-Landeyjum og upp í Landsveit. Haglél fylgdi veðrinu sem stóð í þrjá tíma, klukkan 2-5 síðdegis. Í Vestmanneyjum stóð þetta þrumuveður einni klukkustund lengur en inn til landsins og einnig heyrðust þrumur á Kirkjubæjarklaustri.
Mikið þrumuveður gekk yfir Mývatnssveit og víðar á norðausturlandi 21. júní 1933 en þessi mánuður var einhver hlýjasti júní sem komið hefur norðanlands. Í tímaritinu Veðrinu, 1. hefti 1956, lýsir Jóhannes Sigfinnsson bóndi á Grímsstöðum við Mývatn þessu veðri svo: ''Laugardagurinn 21. júní 1933 hófst bjartur og fagur með hita-sólskini og heiðríkju. Út við sjóndeildarhringinn sáust þó hvítir skýjabólstrar, sem stækkuðu eftir því sem á daginn leið. Einkum urðu þeir stórvaxnir í norðaustri og suðvestri, þegar leið að hádegi. Kl. 1, e. m. fóru að heyrast þrumur í norðaustri og litlu seinna í suðvestri, en auðheyrt var, að þær voru i mikilli fjarlægð. Smám saman færðust þær þó nær, og um kl. 2. e.m. fór að myndast skúr yfir sunnanverðum Laxárdal. ... Þokaðist skúrinn hægt suður undan Belgjarfjalli. Var því líkast, að þar sæi á risavaxinn vegg, blásvartan. Hef ég aldrei séð svo skuggalegan regnskúr. ... Skömmu eftir að skúrinn myndaðist, fóru að sjást í honum eldingar. Urðu þær svo tíðar, að kl. 2,30 e.m. töldum við rúmlega 30 þrumur á 10 mínútum. Kl. 3. e.m. var himinninn orðinn alskýjaður. Voru skýin mjög dökk, og mögnuðust þá þrumurnar ákaflega. Sáust þá oft eldingar í þrem áttum samtímis, og þrumurnar voru svo ákafar, að í hálfa klukkustund var ómögulegt að heyra aðgreining á þeim, rann þrumuhljóðið saman í eina látlausa þrumu, og var það ógurlegur gauragangur. ... Kl. 4. e.m. fór fyrir alvöru að draga úr þrumunum. Þó héldust miklar þrumur allan daginn. Um kl. 9 um kvöldið lagði þétta þoku yfir sveitina og jafnframt heyrðust miklar þrumur öðru hvoru. Héldu þrumurnar áfram um nóttina, og kl. 5 að morgni 22. júní heyrði ég síðustu þrumuna. Hafði þá þrumuveðrið staðið yfir í 16 klukkustundir, og hefur ekki svo menn hafi sagnir af, komið hér þrumuveður, sem sé nálægt því eins stórkostlegt og þetta, og er það hér almennt kallað ''Þrumuveðrið mikla''.
Ekki er ósennilegt að svæðisbundin þrumuveður á Íslandi að sumri til verði ekki öllu meiri en hér er lýst. Þetta er úr bréfi sem skrifað var 16. apríl 1937. Skammstöfunin e.m. þýðir auðvitað eftir miðdegi en ekki eftir miðnætti. Norðaustanátt hafði ríkt nokkra daga og loftið komið frá Evrópu yfir Norðurlönd.
Hitabylgja var á suður-og vesturlandi dagana 23.-26. í þeim annálaða júlí 1939, þeim sólríkasta sem komið hefur í Reykjavík. Alla dagana fór hitinn yfir 20 stig í borginni. Svipaða sögu er að segja um aðra staði á þessu svæði. Þann 24. var hitinn 25-26 stig í uppsveitum suðurlands. Og þann dag varð vart við þrumur á Ljósafossi og Þingvöllum, þar sem hitinn komst í 25,3 stig og í Borgarfirði. Morgunblaðið sagði frá þessu (en Veðráttan minnist ekki á það). Loftið var komið frá Evrópu yfir Skandinavíu. Þann 28. heyrðust svo þrumur i Reykjavík en þann dag fór hitinn þar í 20 stig.
Á suðausturlandi, frá Papey til Vestmannaeyja, gekk yfir talsvert þrumuveður 7. júní 1940 og næstu nótt. Drápust þá nokkrar kindur og í Mýrdal urðu víða skemmdir á útvarpstækjum. Í næsta mánuði, þ. 9. varð skýfall á Þórarinsstöðum í Hrunamanahreppi. Þetta var rigning, bleytuhríð og síðan haglél á litlu svæði. Fyrir ofan bæinn féll skriða út fjallinu og aurburður úr bæjarlæknum skemmdi tún og beitilönd.
Í júní 1941, þ. 23. gekk þrumuveður yfir norðurland, allt frá Skagafirði til Hólsfjalla. Í Eyjafirði fylgdi mikil úrkoma og skriðuföll. Þennan dag komst hitinn í 20 stig á Akureyri en 22-23 stig í sveitunum þar fyrir austan en 25 stig á Hallormsstað. Á vesturlandi var líka fremur hlýtt, t.d. 18 stig í Reykjavík og Stykkishólmi. Það var hægviðri sem kom í kjölfar hvassrar sunnanáttar.
Ágúst 1947 var alræmdur rigningarmánuður sunnanlands en fyrir norðan var einmuna veðurblíða. Einna hlýjast varð þar þ. 22. þegar hitinn fór í 27 stig í Aðaldal en víða annars staðar á norðausturlandi í 22-24 stig. Líka var hlýtt á suðurlandi, t.d. 19,5 stig í Fljótshlíð. En dag þennan gerði þrumuveður sums staðar á suður- og suðvesturlandi. Hæð var yfir Norðurlöndum en lægð á Grænlandshafi.
Eitthvert magnaðasta þrumuveður sem sagnir eru af á suður og vesturlandi geisaði 9. júlí 1960. Það fór um allt suðurlandsundirlendið, Reykjavíkursvæðið og upp í Borgarfjörð. Við rafstöðina í Andakíl gerði krapaél. Eldingu sló niður í fánastöngina á Þingvöllum og splundraði henni. Daginn áður hafði verið víða bjart og hiti farið allt upp í 21,7 stig á Hellu en í Reykjavík í 20,4 stig. En þennan dag komst hitinn þar í 17,0 og var hlýjast um hádegið. Bjart var fram eftir en upp úr hádeginu fór að þykkna upp inn til landsins af skúraskýjum á suður og vesturlandi. Við Andakílsárvirkjun fór hitinn í 20,7 stig.
Veðrið rétt áður en ósköpin byrjuðu þennan júlídag 1960.
Eitt af fáum dæmum um það að eldingu hafi slegið niður í íbúðarhús að sumarlagi gerðist 3. júní 1965 og var það í Lóni í Kelduhverfi.
Í júní á næsta ári komu þrumuveður tvo daga í röð. Þann 18. myndaðist smálægð yfir suðurlandi og fylgdi skúraveður og þrumur þar allvíða og einnig næsta dag. Þá var svalt loft að færast yfir landið en fremur hlýtt hafði verið á suðurlandi fyrri daginn, 18-20 stig.
Í björtu hægviðri 9. júlí 1968 gerði allvíða þrumuveður á suðurlandsundirlendi þegar líða fór á daginn.
Mikið þrumuveður varð á Skeiðarársandi aðfaranótt 13. júní 1970.
Óvenjulega röð af þrumuveðrum gerði dagana 4.-7. júlí 1976. Fyrsta daginn heyrðust þrumur allvíða á suðurlandsundirlendi. Næsta dag gátu 35 veðurstöðvar um þrumur, allt frá Kvískerjum í suðaustri vestur og norður um Vestfirði og allt til Miðfjarðar. Á Leirubakka í Landsveit sást kúluelding sem eru sjaldséð fyrirbæri og hafa aldrei verið fyllilega útskýrð. Þrumur heyrðust áfram á suðurlandi þ. 6. og í Hvalfirði. Þessa tvo daga varð símasambandslaust í Mýrdal og víðar vegna eldinga. Daginn eftir voru svo enn þrumur á suðurlandi og á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi og reyndar einnig á Kambanesi á austfjörðum. Þessum látum lauk með því að elding kveikti í sumarbústað í Grindavík aðfaranótt þ. 7. Hlýtt var alla þessa daga, víða yfir 20 stig í norðlenskum sveitum. Dagana 9.-10. gerði síðan mikla hitabylgju víðast um land og mældist fyrri daginn mesti hiti sem þá hafði mælst í Reykjavík, 24,3 stig. En þetta merkilega sumar gerði það ekki endasleppt með þrumuveður. Í ágúst, sem reyndist alræmdur rigningarmánuður fyrir sunnan en veðurblíður að sama skapi fyrir norðan, kom þ. 4. þrumuveður sem náði um allan vesturhluta landsins, frá Vestmannaeyjum til Miðfjarðar. Á Vestfjörðum varð sums staðar rafmagns og símalaust vegna skemmda af völdum eldinga. Á suður-og vesturlandi rigndi á nokkrum stöðum allhressilega þessa daga, 87 mm á Arnarstapa á Snæfellsnesi á fimm dögum, 4.-8., og 160 mm á Skógum undir Eyjafjöllum.
Loftstraumar við landið í 850 hPa fletinum 5. júlí 1976 kl. 18. Hlýtt loft fyrir austan land sem færðist svo yfir landið næstu daga.
Þrumuveður gerði vestanlands, þar á meðal í Reykjavík, 3. júlí 1982 og voru sums staðar miklar skúrir og jafnvel hagl. Í Síðumúla í Borgarfirði mældist úrkoman 23 mm næsta morgun.
Þrumur voru bæði fyrir norðan og sunnan 11. júlí 1984. Sló þá eldingu niður í í Fjósatungu og Illugastöðum í Fnjóskadal svo rafmagnstæki skemmdust og varð rafmagnslaust í sveitinni.
Ætli þrumuveðri 10. júlí 1988 sé ekki það mesta sem sagnir eru um í Reykjavík. Það stóð látlaust í tvær klukkustundir, frá kl. 3-5 síðdegis, með þrumu ofan í þrumu og varð víða vart á suðvesturlandi og suðurlandsundirlendi og á vesturlandi. Tvær kýr á Svarfhóli í Svínadal í Leirársveit urðu fyrir eldingu og drápust. Talsverð úrkoma fylgdi veðrinu. Það var sunnanátt með 22 stiga hita á Torfufelli í Eyjafjarðardal og í Garði í Kelduhverfi. Ekki var hlýtt í Reykjavík, mest 14,5 stig en úrkoman 4,7 mm frá klukkan 9 til 18. Kalt var hátt uppi.
Kalt loft í um 5 km hæð yfir vesturlandi á hádegi 10. júlí 1988.
Síðdegis 13. júní 1994, í kjölfar lægðar sem gengið hafði norðaustur yfir landið, gekk allmikill skúrabakki yfir landið sem olli hagléljum víða í kuldaveðri. Sums staðar fyrir norðan var þá getið um þrumur.
Fjórir rafmagnsspennar eyðilögðust í eldingaveðri 25. júní 1996 sem gekk yfir Kelduhverfi.
Talsvert tjón varð sömuleiðis á rafmagnsspennum í Hornafirði í þrumuveðri sem gekk yfir austfirði og suðausturland að kvöldi 11. júlí 1997.
Allmikið þrumuveður gerði suðaustanlands að kvöldi 11. júlí 1997. Dagana 5.-7. ágúst sama ár gekk óvenjulega hryssingsleg sunnan og suðvestanátt yfir landið. Seinni tvo dagana voru víða haglél og sums staðar þrumuveður um landið suðvestan-og vestanvert. Mikið rigndi þá á suðurlandi. En það er skammt milli hryssings og blíðu á Íslandi því fjórum dögum seinna byrjaði einhver mesta hitabylgja sem um getur í ágúst og reyndar í hvaða mánuði sem er.
Tíðni eldinga á Íslandi er talin hafa verið nokkuð vanmetinn enda var ekki auðvelt um vik meðan skráningar þeirra hvíldu einungis á veðurathugunarmönnum á tiltölulega strjálum veðurstöðvum miðað við stærð landsins. Síðan haustið 1996 hefur verið hægt að fylgjast með eldingum á landinu með sjálfvirkum tækjum. Einnig er hægt að staðsetja eldingarnar. Áfram er þó jafnframt byggt á lýsingu veðurathuganamanna og annarra er verða varir við þrumuveður. Komið hefur í ljós að eldingar á Íslandi eru mun algengari en áður var talið.
Eldingu sló niður við Hjarðarland í Biskupstungum 13. júlí 1998 og kveikti í gróðri. Þetta þrumuveður stóð í klukkustund.
Haglél með risakornum fylgdu þrumuveðri við Þingeyri við Dýrafjörð í 16 stiga hita 10. ágúst 1998.
Síðdegis og um kvöldið 30. júní ári 2000 staðsettu mælitæki 79 eldingar á miðhálendinu.
Hlýjasti júní á suðvesturlandi fyrir þann sem sló loks metið, 2010, var árið 2002. Þann 8. kom óvenjulega hlýtt loft að landinu úr austri og fylgdi því nokkuð þrumuveður við suðurströndina. Skráðar voru 77 eldingar suður af Mýrdalsjökli og inn á landið. Næstu dagar voru sérlega hlýir og féllu þá ýmis hitamet i júní, þar á meðal í Reykjavík.
Þrumuveður gekk yfir Biskupstungur 27. júlí 2003. ''Eldingar skutu mönnum og dýrum skelk í bringu og húsin nötruðu undan þrumunum í gjörningarveðri'' segir Morgunblaðið 29. júlí. Þrumuveður var líka daginn eftir á vestur-og norðurlandi. Heilmikill skruggugangur var svo yfir landinu og suður og norður af því dagana 8.-10. ágúst þetta ár.
Þrumur heyrðust á nokkrum stöðum á suðurlandi 5. júlí 2004. Á Galtafelli og nágrenni í Hrunamannahreppi gekk þá yfir gífurlegt úrfelli með hagléljum. Hæll í Hreppum tilkynnti um mikið þrumuveður og rigningu en gat ekki um hagl. Við bæinn Sólheima féll aurskriða af völdum úrfellisins og olli skemmdum á gróðri. Þetta atvik minnir reyndar á það sem gerðist 1875 og Þorvaldur Thoroddsen lýsir svo í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Hinn 10. júlí gerði í ofanverðum Biskupstungum dæmafáa haglhríð í hitaveðri. Haglkornin voru á stærð við tittlingsegg og mörg þrjú föst saman. Á tveim stundum huldu þau alla jörð, svo að varla sá í gras, og var fönnin svo hörð, að varla markaði spor. Hríðinni fylgdi ofsastormur með ógurlegum þrumum og eldingum, og töldu menn alt að 100; hríðin stóð í þrjár stundir. Ekki kom hún nema yfir lítið svæði, en gjörði þar talsverðar skemmdir: kál barðist niður í görðum, gras sligaðist og brotnaði, en lauf barðist af skógum."
Ekki veit ég til að getið sé um stærri haglkorn á Íslandi en þarna kemur fram, á stærð við tittlingsegg og þó mörg þrjú fest saman. Annað dæmi um svona hagl á þessu svæði er það frá Þórarinsstöðum 1940 sem sagt er frá hér að framan. Þetta svæði er að sumri til eldinga-og hagléljavænt eftir því sem gerist á Íslandi.
Einhver mesta hitabylgja síðari ára kom dagana 9.-13. ágúst 2004 og fór þá hitinn í Skaftafelli og á Egilsstöðum allt upp í 29 stig. Hlýja loftið barst yfir landið þ. 8. og heyrðust þá þrumur á Kirkjubæjarklaustri en daginn eftir í Reykjavík, í Hreppunum og í Viðvíkursveit í Skagafirði. Seinna í mánuðinum, þ. 26., varð mikið þrumuveður í Akurnesi í Hornafirði þegar sex þrumur og eldingar komu á einum hálftíma síðdegis. Þann 3. september þetta ár gekk einnig mikið þrumuveður yfir Vestur-Skaftafellssýslu með óskaplegu úrfelli.
Landið 11. ágúst 2004.
Þrumuveður fór yfir norðurland 2. ágúst 2005. Fram eftir degi var sól og gott veður en gríðarlegt þrumuveður brast á um miðjan degin með hellirigningu. Stóð veðrið í það minnsta í klukkustund. Eins og oft áður þegar sumarþrumuveður geysa var loft hlýtt næst jörð en kuldar í háloftunum og loftið var því mjög óstöðugt og skil voru að fara yfir. Næsta dag var svo þrumuveður fyrir sunnan og voru skráðar 190 eldingar af sjálfvirka kerfinu. Mikið þrumuveður gekk yfir Þistilfjörð 17. ágúst þetta sumar. Einni eldingu sló til jarðar.
Hvorki meira né minna en 131 elding var mæld yfir landinu 4. júlí 2007. Enginn skaði hlaust þó af.
Talsvert þrumuveður fór yfir suðurlandsundirlendið 18. júlí 2009 og var ég þá sjálfur þar staddur og sá og heyrði reiðiþrumurnar en reyndar ekki rödd guðs!Mér fannst ég reyndar alveg finna rafmagnið í loftinu. Það var rafmagnað andrúmsloft!
Dálítið þrumuveður varð á nokkrum stöðum á suðurlandi 11. júlí 2010. Var þá fremur hlýtt við jörð en óvenjulega kalt hærra uppi.
Í dag, 14. júní 2012, var smávegis þrumuveður á suður- og suðvesturlandi.
Heimildirnar fyrir því sem hér er skrifað eru einkum Veðráttan og frá 1996 árskýrslur um eldingar sem finna má á vefsíðu Veðurstofunnar svo og greinum sem þar eru, einkanlega þessari og tveimur greinum á Vísindavefnum um þrumuveður. Íslandskortið er frá vef Veðurstofunnar, Islandsmyndin frá Modis, háloftakortin frá veðurgreiningu NOOA í Bandaríkjununum og myndin af Mývatni úr myndasafni Mats Wibe Lund og birt með leyfi hans. Já, og eldingunni var stolið einhvers staðar af netinu!
Viðbót 29. julí 2013. Í gær gekk yfir hálendið þrumuveður sem sagt er það mesta á landinu síðam eldinganemar voru settir upp.
Bloggar | Breytt 8.2.2017 kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.6.2012 | 18:35
Þurrkurinn
Í dag komu skúrir í Reykjavík og á suðurlandi. Mjög þurrt hefur verið víðast hvar á landinu frá og með 28. maí.
Í fylgiskjali má sjá úrkomu frá þeim tíma á öllum skeytastöðvum Veðurstofunnar, nokkrum völdum mönnuðum úrkomustöðvum og loks nokkrum völdum sjálfvirkum stöðvum.
Úrkoma er mælt klukkan níu að morgni og sýnir það sem fallið hefur frá sama tíma deginum áður.
Þegar 0,0 stendur í dálki merkir það að úrkoman hafi verið það lítil að hún hafi ekki verið mælanleg, sum sé verið minni en 0,1 mm, en millimetrar eru mæleiningar úrkomu eins og menn vita.
Á sjálfvirku stöðvunum er ekki greint á milli alls engrar úrkomu og úrkomu minna en 0,1 mm, 0,0 sem sagt, og þar læt ég vera auða dálka nema úrkoman hafi náð 0,1 mm eða meira.
Kannski er eitthvað athugavert við Surtsey sem ekki hefur mælt neina úrkomu þennan tíma.
Stafinn v hef ég sett inn þegar engar upplýsingar komu frá viðkmomandi stöð inn á netstíðu Veðurstofunnar en þar hef ég náð í allar þessar upplýsingar. Þetta er óþægilega algengt en í þessu tilfelli má eiginlega fullyrða að þar sem v stendur hafi svo sem enginn úrkoma verið.
Villur geta verið í þessu og ferst ekki heimurinn þó svo kunni að reynast.
Fyrst og fremst er þetta veðurdellufólki til skemmtunar, að vísu nokkuð þurrlegrar. Og bara sjónrænt sést úrkomuleysið ansi vel, einkum vestanlands.
Þrumupistill um þrumur og eldingar er svo í undirbúningi hér á Allra veðra von þar sem alltaf er einmitt allra veðra von!
Þurrkafylgiskjalinu verður eitthvað haldið við- áður en hið alræmda rigningarsumar 2012 tekur völdin! Hitt fylgiskjalið er svo hið hefðbundna.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 23.6.2012 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2012 | 19:30
Mesti hiti sumarsins í Reykjavík
Í dag mældist hámarkshitinn 18,4 stig í Reykjavík þegar lesið var af mælinum kl. 18 og hugsanlega á hann enn eftir að stíga í kvöld. Þetta er mesti hiti í Reykjavík það sem af er sumars.
Hlýjast á landinu varð á Þingvöllum 21,6 stig og 20,9 í Árnesi í Hreppunum.
Á Korpu við Reykjavík mældist hitinn 20,5 stig, í Geldinganesi varð hann 19,5 stig, 19,4 á Hólmsheiði og 18,8 á Reykjavíkurflugvelli. Á Miðbakka vð hafnarhúsið í Reykjavíkurhöfn var 17,1 stigs hiti mestur miðað við mælingar á tíu mínútna fresti, hvað sem er nú að marka þá stöð Hafnarmálastjórnar en ekki er þetta ósannfærandi. Í Bláfjöllum var fimmtán stiga hiti en tólf uppi á Skálafelli.
Ef ég ætti svo að leggja út frá þessu fremur en að þegja þumbaralega segi ég bara að þetta verði líklega síðasti góðviðrisdagurinn í borginni þetta sumarið!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 14.6.2012 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2012 | 13:48
Merkileg sólar og þurrkatíð
Júní byrjar með sama bjartvirði, þurrkum og hlýindum og einkenndu síðustu dagana í maí.
Í gær komst hitinn í 22,8 stig á Hellu og í Árnesi. Víða fór hitinn yfir tuttugu stig á suðurlandsundurlendi og í Borgarfirði. Í gærkvöldi fór hitinn svo 16,6 stig í Reykjavík. En varla er nú hægt að tala um þá smámuni í sömu andrá og vel fyir 20 stiga hita.
Frá og með 25. maí hefur hitinn einhvers staðar á landinu náð tuttugu stigum nema síðasta daginn í maí.
Síðustu þrjátíu daga hefur sólin í höfuðborginni skinið í 306 stundir og er það með því mesta sem gerist á 30 dögum.
Frá og með 28. mai hefur eiginlega ekki komið dropi úr lofti á öllu landinu og oft verið heiðskírt eða svo gott sem um allt landið. Hlýindi hafa fylgt þessu veðurlagi en ekki einhver heljarkuldi enda er það ekki Grænlandshæðin gamla, staðnaða og kuldalega sem veldur heldur fersk, vingjarnleg og hlý fyrirstöðuhæð með nútímalegar hugmyndir um veðurfar á breyttum og hlýnandi tímum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 4.6.2012 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006