Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Júlí það sem af er

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er júli er nú 12,6 stig eða 2,2 stig yfir meðallagi. Hann hefur ekki oft verið hærri. Frá 1949 var hann árið  2007 og 2009 13,3 stig en þegar þeim mánuðum lauk komu þeir út með 12,8 og 12,7 stig að meðalhita. Árið 1991 var meðalhitinn fyrstu 16 dagana 13,4 stig en meðalhiti alls mánaðarins reyndist 13,0 stig það sama og árið 2010 en þá var meðalhiti fyrstu 16 dagana 12,4 stig.
 
Ef litið er til tímabilsins fyrir 1949 eru dagsmeðaltöl ónákvæm, þó hægt sé gera sér nokkra gein fyrir þeim, og flutningar veðurstöðvarinnar flækja málið enn frekar en samt er líklegt að fyrri hluti júlí 1936 hafi verið hlýrri en nú,  en aðrir júlimánuður frá stofnun Veðurstofunnar til 1948 ógna varla okkar júlí nú þegar hann er hálfnaður. Aðalhlhlýindin t.d. í hlýju mánuðunum 1939 og 1944 voru til að mynda seint í mánuðunum.
 
Ef við lítum svo að gamni, fullkomlega ábyrgðarlaust og lígeglað, til tímans fyrir stofnun Veðurstofunnar, allt til 1880,  er það einmitt júlí það ár og svo 1894 sem eiga einhvern sjens í okkar júlí miðað við þá alla hálfnaða. 
 
Við megum þvi vel við una hvað hitann snertir. 
 
Seinni hluti júlímánaðar er hlýrri að meðaltali en fyrri hlutinn. Ef þessi júlí héldi sínu fráviki til mánaðarloka myndi hann verða þriðji hlýjasti júlí, næstur á eftir 2010 og 1991. Hann þarf því að taka sig enn á ef hann ætlar að hljóta gullið á þessu ólympíuári. 
 
Hvað þurrkinn margumtalaða varðar er ljóst að engin met verða sett í Reykjavík. En Vestmannaeyjar eiga von!
 
Í gær gerðust þau tíðindi að hitinn á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum steig upp í 21 stig, sem er sannarlega ekki á hverjum degi, en hlýjast varð í Bíldudal 22,3 stig. Hlýjasta loftið var yfir Vestfjörðum en á suðurlandsundirlendi komst hitinn hvergi í 20 stig en 21,8 á Þingvöllum og svipaður hiti var í Borgarfirði. 
 
 
 
 
 
 
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkustu júlímánuðir

Fimm af tíu sólríkustu júlímánuðum í Reykjavík og á Akureyri eru sameiginlegir.

Fyrstan ber þá frægan að telja júlí 1939 sem er sólríkasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík með 308 klukkustunda sólskin og er þetta eini júlí á nokkurri veðurstöð sem rofið hefur 300 stunda sólskinsmúrinn. Meðaltalið 1961-1990 er 171 stund í Reykjavík.  Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 221 og þar er þetta sjötti sólríkasti júlí. Þetta var mikill gæðamánuður að hita, sérstaklega á suður og vesturlandi. Í Reykjavík er þetta áttundi hlýjasti júlí frá 1866. Á Hæli í Hreppum var meðalhitinn reiknaður 13,6 stig og er þetta þar hlýjasti júlí en sá sautjándi hlýjasti á landinu. Hitabylgju allmikla gerði dagana 23.-26. og fór hitinn í Reykjavík þá fjóra daga í 20 stig eða meira. Mánuðurinn var einnig afar þurrviðrasamur og reyndar að mínu tali þurrasti júlí eftir að Veðurstofan var stofnuð, aðeins um 30 prósent af meðalúrkomunni 1931-2000. Í Stykkishólmi er hann þurrasti júlí frá því mælingar hófust 1857, 3,9 mm. Þurrkamet fyrir júlí voru einnig sett hér og hvar annars staðar þar sem lengi hefur verkið athugað, t.d. á Arnarstapa á Snæfellsnesi, 7,2 mm (1935-1982) og  Blönduóssvæðinu (1924-2003), 10 mm. Á Suðausturlandi var þetta einnig þurrasti júlí, á Fagurhólsmýri, 13,2 mm (1922-2007), Hólum í Hornafirði (frá 1931), 7,2 mm, Kirkjubæjarklaustri (frá 1931) 29,4 mm og Vík í Mýrdal 10,3 mm (1925). Í Vestmannaeyjum var aðeins þurrara 1888 og 1931 (frá 1881).

Júli 1929 er aftur á móti sá sólríkasti sem mælst hefur á Akureyri með 239 stundir, meðaltalið 1961-1990 er 158 stundir, en í Reykjavík er hann sjöundi sólarrmesti  með 257 stundir. Takið eftir því að sólskinsstundirnar eru samt fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Skýjahula var metin sú sama á báðum stöðunum en næstum því alls staðar annars staðar var hún metin minni. Sólríkt hefur því verið nánast alls staðar og blíðviðri svo að segja allan mánuðinn um land allt. Miklar þrumur komu þó á suðausturlandi þann 18. Og þann 23. klukkan 1845 reið  yfir höfuðborgina snarpasti jarðskjálfti sem þar hefur fundist síðan byrjað var að fylgjast kerfisbundið með slíku. Upptökin voru í eða skammt austur af Brennisteinsfjöllum og mældist skjálfinn 6,3 stig á Richter. Á Akureyri hefur ekki mælst þurrari júlí, 7 mm (frá 1925), og á landinu tel ég þetta vera sjöunda þurrasta júlí með minna en 40% prósent úrkomu.  Þetta var hlýr mánuður og nær tíunda sæti yfir hlýjustu júlímánuði eins og ég hef reiknað þá.

Næsti júlí á undan þessum, 1928, er sá þriðji sólríkasti í Reykjavík, 268 klst en áttundi á Akureyri, 210 klst. Hann var talsvert kaldari en 1929, en þó um  hálft stig yfir núverandi meðallagi, og ekki eins þurr, úrkoman um 80% af meðalúrkomunni. 

Níundi  sólríkasti júlí í Reykjavík er 1957 með 251 stund en á Akureyri er  þetta tíundi sólríkasti júlí með 208 stundir. Sól var víðast hvar mikil. Reykhólar (1957-1987) settu sitt sólskinsmet í júlí, 256 klst, og einnig Melrakkaslétta (1957-1999), 216 klst. Þurrviðrasamt var og tel ég þetta áttunda þurrasta júlí. Á Hallormsstað mældist ekki þurrari júlí, 13,1 mm (1937-1989). Hitinn var rúmlega hálft sig yfir meðallaginu 1961-1990.

Næsti júlí á eftir, 1958, er sá þriðji sólarmesti á Akureyri með 231 stund. Sólríkarara var þó í Reykjavík, 246 klst, en þar er mánuðurinn í ellefta sæti hvað sólskin varðar. Þar skein sól tíu stundir eða meira í 15 daga og þar af alla dagana 11.-22. nema þann 16. þegar sólarstundirnar voru þó 7,5. Þetta er einna glæstasti samfelldi sólarbálkurinn sem hægt er að finna í Reykjavík. Og ekki voru neinir kuldar þar þennan tíma, hitinn stöðugt yfir meðalagi og komst yfir tuttugu stig þegar mest var. Meðalhitinn dagana 11.-22. var 12,7 stig, svo til það sama og það sem af er júlí 2012, en meðaltal hámarkshita (án tvöfaldra hámarka) var 15,7 stig. Á Akureyri voru 11 dagar með meira en tíu stunda sól og komu þeir alveg sömu daga og í Reykjavík nema hvað þann 20. var sólin 8,6 stundir. Og  svipaða sögu er að segja af þessum dögum frá Breiðafirði og Fljótsdalshéraði. Glaðasólskin um allt land! Á Hólum í Hornafirði er þetta næst sólríkasti júlí og sá næst þurrasti. Á Teigarhorni er þetta einnig næst þurrasti júlí, allar götur frá 1873, 3,9 mm (minnst 0,7 mm 1888). Mánuðurinn var á endanum vel hlýr á suðurlandi, 12 stig í Reykjavík og á Hæli en dálitið undir meðallagi fyrir norðan. Í heild var mánuðurinn lítið eitt kaldari en árið á undan. Úrkoman var tæpur helmingur af meðallúrkomu. 

Júlí árið 2009 er svo síðasti sameiginlegi mánuðurinn á topp tíu sólskinslistanum fyrir bæði Reykjavík og Akureyri og er í sjötta sæti á báðum stöðunum, 259 klst í Reykjavík en 209 á Akureyri. Hann er tuttugu hlýjasti júlí eftir mínu tali. Úrkoman var mjög svipuð og 1958 en á suður og vesturlandi voru sums staðar met júlíþurrkar, svo sem í Mýrdal (frá 1940),19,2 mm Andakílsárvirkjun (1950), 6,8 mm, Keflavíkurflugveli (1952), 15,4 mm og Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum (1960), 4.1 mm. Hitinn var hátt yfir meðallagi, 1,2 stig enda komið vel fram á veðurfrslegu gullöldina sem nú ríkir! Í  Reykjavík er þetta einn fjórum hlýjustu júlímánuðum. Þrátt fyrir hlýindin kom mikið en stutt kuldakast seint i mánuðinum svo næturfrost gerði jafnvel sums staðar við suðurströndina. 

Árið 1960 kom þriðji mjög sólríki júlí á fjórum árum í Reykjavík, 1957-1960. Sólarstundirnar voru 259 og gerir það mánuðinn fimmta sólríkasta júlí i borginni. Fyrir norðan og austan var vætusamt og hefur aldrei í júí verið meiri úrkoma á Fagurhólsmýri, 338 m. Mikið þrumuveður gerði þann 9. á  suður og vesturlandi. Allir þessir sólbjörtu júlímánuðir 1957, 1958 og 1960 voru mjög svipaðir að meðalhita í Reykjavík, 12 stig,  og á landinu öllu,  0,5-0,6 stig yfir núgildandi meðallagi. Úrkoman var lítið eitt yfir meðallagi á landinu í heild í júlí 1960.

Á hafísárunum náði júlí 1967 að vera sá áttundi sólríkasti í Reykjavík með 256 stundir. Hann var þó fremur svalur, 0,8 stig undir meðallagi , og mjög kaldur fyrir norðan en þó ekki alveg eins og 1970. Eins og 1958 byrjaði aðal sólskinskaflinn borginni þann 11. og til hins 20. skein sólin alla daga nema tvo meira en tíu stundir.En heldur kaldara var þessa daga en 1958, meðalhiti þeirra var 11,5  stig en meðaltal hámmarkshita 14,5 stig. Þetta er sólríkasti júlí sem mælst hefur á Sámsstöðum 265 stundir en meðalhitinn var þar 11,3 stig yfir allan mánuðinn.

Næsti júlí, 1968, mældist á Akureyri með 208 stunda sólskin og er þar tíundi sólríkasti júlí. Loftvægið í þessum mánuði á landinu er það mesta sem mælst hefur í júlí og var mest að meðaltali 1020,2 hPa á Keflavíkurflugvelli. Í Æðey í Ísafjarðardjúpi hefur ekki mælst þurrari júlí (frá 1954), 6,1 mm. Kalt var framan af en síðan gerði mánaðar hlýindakafla sem var einhver sá lengsti og besti á þessum svölu árum. En þar sem hann kom á milli mánaða gætir hans ekki verulega  í mánaðarmeðaltölum fyrir júlí og ágúst. En meðalhiti samfelldra 30 daga milli mánaða var yfir 13 stig þar sem best lét. Í júlí sjálfum var hitinn rúmlega hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990 á landinu og er þetta einn af sárafáum júlímánuðum á því tímabili og mörg næstu ár sem var hlýrri en meðallagið 1931-1960.      

Næst sólríkasti júlí í Reykjavík var árið 1970 með 286 sólskinsstundir. Þessi mánuður var þó æði ólíkur júlí 1939, þeim sólríkasta í borginni. Þá var meðalhitinn 12,6 stig í en 1970 aðeins 9,4 stig, sá sjötti kaldasti frá 1866 en fjórði kaldasti á landinu. Átján daga skein sólin meira en tíu stundir í höfuðborginni en enginn þeirra var almennilega hlýr nema kannski einn þegar hitinn náði sextán stigum. Fyrir norðan var sólarlítið og afskaplega kalt enda var norðanáttin ansi óvægin. Úrkoman var um það bil þrír fjórðu af meðallaginu. Á Kvískerjum, úrkomusamasta stað landsins, hefur ekki mælst minni úrkoma í júlí frá 1962, 53,4 mm.                                         

Næst sólríkasti júlí á Akureyri er 1973 með 237 stundir. Víðar var sólríkt. Á meðan mælt var mældist ekki meiri sól á Hallormsstað (1953-1990),292 stundir,  og Hveravöllum (1965-2003) 221 klukkustund. Hiti og úrkoman var lítið eitt undir meðallagi í heild. Í Vopnafirði var þetta þó met þurr júlí.    

Þjóðhátíðarárið 1974 krækti í fjórða sólríkasta júlí Reykjavík með 261 sólarstund og 15 daga með meira en tíu stunda sól. Fremur sólríkt  var reyndar víðast hvar á landinu. Á Hveravöllum er þetta næst sólríkasti júlí. Úrkoman var aðeins liðlega helmingur af meðallatalinu en hitinn yfir meðallagi.

Næsti júlí, 1975, var sá sjötti sólarmesti á Akureyri með 212 stundir og hann var sá þriðji sólríkasti á Melrakkasléttu. Hann var þungbúinn og afar svalur fyrir sunnan en hlýr og bjartur fyrir norðan en í réttu meðallagi að hita á landinu.

Árið 1936 var mikið gæðasumar á suðurlandi og skartar það tíunda sólríkasta júlí í Reykjavík með 250,5 stundum. Fyrir norðan var sólin vel í meðallagi. Þetta var blíður mánuður og reyndar níundi hlýjasti júlí á landinu. Úrkoman var minna en hálf meðalúrkoma og sérstaklega var hún litil sunnanlands og vestan. Aðeins júlí 1931 var þurrari í Kvígyndisdal í Patreksfirði (1928-2004).

Júlí árið 2004 er sá fimmti sólríkasti á Akureyri með 213 stundir. Þurrviðrasamt var fyrir norðan og nyrst á Tröllaskaga var mánuðurinn með eindæmum þurr, 10,5 mm á Sauðanesvita. Úrkoman var rétt yfir meðallagi á landinu í heild en hitinn hátt yfir því, nætum því hálft annað stig yfir meðallaginu 1961-1990.     

Loks er við hæfi að geta þess að Hólar í Hornafirði eru sólarminnsti staðurinn í júlí þar sem sól hefur verið mæld á Íslandi. Og fer sínar eigin leiðir í sólskinsmálunum. Þar er sólríkasti júli 1989 með 213 stundir (frá 1958). Mánuðurinn var hlýr og bjartur fyrir norðan og austan en eins og 1975 algjörlega misheppnaður á suðvesturlandi vegna sólarleysis og kulda. Hitinn var samt í meðallagi á landsvísu.
 
Viðbót: Júlí síðasti reyndist annar sólríkasti júlí sem mælst hefur á Akureyri með 237,4 sólarstundir.

Öfgar í veðurfari

Svalasti júlídagur í sögu mælinga á Englandi.

Kaldasta júlíbyrjun í París í 80 ár. 

Gífurlegar rigningar í Mið-Evrópu og stórflóð í Dóná. 

Fjörtíu stiga hiti á Spáni og allt að skrælna. 

Ofsahitar í Kansas, allt upp í 45 stig. 

Hundruðir farast vegna flóða í Dhamaputra á Indlandi. 

Já, það er ekki á veðurfarsöfgarnar logið.

- Þetta var í júlí 1954.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ferð um Snæfellsnes

Var að koma úr ferð kringum Snæfellsnes. Varla sást ský á himni allan tímann. Útsýnið var takmarkalaust í allar áttir. Kom í Stykkishólm og skoðaði hús Árna Thorlaciusar sem fyrstur hóf að gera verðurathuganir á Íslandi sem enn er framhaldið og það vita náttúrlega allir. Skoðaði líka Eldjallasafnið. Varð fyrir vonbrigðum. Það er myrkt og illa lýst og vond lykt í því. 

Fyrir framan kirkjuna var opinn sendiferðabíll og út út honum barst hávær poppmúsik. Einhver kvenrödd var að syngja ömurlegt popplag gegnum hátalara með glamrundsirspili. Auðvitað á  ensku. Og á kirkjutröppunum stóð svo stelpa í stuttbuxum og bærði varirnar eins og hún væri að syngja. Svo voru einhverjir að taka þetta upp á videó og við vorum beðin að ganga ekki fyrir vélina rétt á meðan takan fór fram. Mig langaði nú til að vera með múður og uppsteyt og skemma allt þetta helvítis poppgaul því ég er svo snobbaður að það myndi rigna upp í nefið á mér ef það myndi bara rigna! En ferðafélagi minn lempaði mig niður svo lítið bar á. Það var reyndar tekið upp hvað eftir annað og spillti þessi gauragangur ánægjunni af að vera í hjarta Stykkishólms. En nú veit maður þá  hvernig svona upptökur fara fram. Fyrst er músikin tekinn upp og hún svo spiluð fyrir músikantana  sem þykjast þá syngja eða spila til að þeir verði sem eðilegastir þegar videómyndin er  tekin upp.

Algjört blöff!

Segiði svo að ekki sé lærdómsríkt að koma til Stykkishólms.

Mikill snjór var norðanmeginn í Ljósufjöllum og enn meiri í Helgrindum. Það er eins og skaflarnir séu alveg ofan í bænum í Grundarfirði. Skefling fannst mér það kuldalegt svona um hásumarið. Ekki vildi ég búa við það. Og Grundafjörður er eitthvað svo aðþrengur og leiðinlegur. Ég á reyndar ættir að rekja að hluta til frá þessum slóðum og því ekki að furða hvaða maður getur stundum verið skrambi leiðinlegur. 

Arnarstapi hefur breyst í sumarbústaðaland og mér finnst það hafa spillt staðnum. Man vel eftir honum þegar þar var lítið meiri byggð en fallega hvíta húsið sem var svo skemmtilegt með hitamælaskýlinu og úrkomumælium á túninu. Allt er það nú horfið. 

En kríurnar eru samar við sig, argandi og gargandi og mjög ögrandi og ógnandi eins og vítisenglar  og drulluðu bara yfir okkur.  

Ég sá mörg merk veðurathugunamöstur í ferðinni: þrjú á Kjalarnesi, tvö undir Hafnarfjalli með nokkra metra millibili (hagræðing og sparnaður í fyrirúmi),  við Hafursfell, á Vatnaleið, Stórholti, Stykkishólmi, Kolagrafarfjarðarbrú, (sakna gamla vegarins inn í Kolgafafjörð og um Hraunsfjörð en þar fæddist afi minn), Grundarfirði, Búlandshöfða, Fróðárheiði, alvöru hitamælaskýlið á Bláfeldi og líka mastrið og loks  mastrið á Hraunsmúla en missti hins vegar af Fíflholti á Mýrum og er ekki mönnum sinnandi yfir þeim fíflalega klaufaskap. 

Þetta var annars mikil sómaferð með mörgum Rauðakúlum! 

Og fylgikskjalið er aftur komið á kreik.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hár næturhiti

Nokkuð hár næturhiti var á landinu í nótt. Næstum því alls staðar upp um allar sveitir, jafnvel til fjalla á norðausturlandi, var hann yfir tíu stigum. Á Kirkjubæjarklaustri fór hann ekki lægra en í 15 stig slétt. Minnstur var hann við austurströndina, 5,7 stig í Seley.

Hár næturhiti er oft ávísun á háan sólarhringsmeðalhita ef síðdegishitinn verður sæmilegur. 

Á hádegi var hlýjast á suðausturlandi, 23 stig á Kirkjubæjarklaustri og 21-22 víða annars staðar frá Mýrdalssandi að Öræfum. Þarna er þykktin nú hæst yfir landinu og gæti kannski komið 25 stiga hiti.

Því miður stefnir svo kuldapollur á austanvert landið en stansar þó ekki lengi við- vonandi. 

Það er alltaf gaman að svona háum næturhita. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Undarlegar mælingar

Nokkrar undarlegar mæliniðurstöður hafa sést á vef Veðurstofunnar í dag.

Í fyrsta lagi var sólarhringsúrkoman í morgun gefin upp sem 39 mm á Brjánslæk. Ekki trúi ég því.

Í öðru lagi var skráður hámarkshiti á Akureyri frá kl. 18 í gær til kl. 9 í morgun sagður 22,0 stig. Erfitt er að koma því heim og saman við mælingar á mönnuðu stöðinni á athugunartímum og þá ekki síður samfelldar mælingar á sjálfvirku stöðinni. Síðdegis í dag fór hitinn á Akureyri hins vegar í slétt tuttugu stig. 

Í þriðja lagi var hámarkshitinn í Æðey núna kl 18 tilfærður sem 24,0 stig. Það væri met á stöðinni í hvaða mánuði sem væri. Á Ísafirði var reyndar 18 stiga hiti mest í dag en annars staðar minna í Djúpinu. Ég er vantrúaður á þessa tölu í Æðey þó ekki þori ég að hengja mig upp á að hún sé ekki rétt. Hæsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst er reyndar hlægilega lágur. Þetta er enginn hitastaður.

En það er aldrei að vita! 

Nú er víst allt hvort eð er vitlaust í veðurmálunum í heiminum, hitabylgja í Ameríku, rigningar í Bretlandi og Rússlandi og helvítis kuldar bara á norðurpólnum!

Á þessu er náttúrlega bara ein skýring, enda hefur veðrátta heimsins aldrei áður hlaupið út undan sér: 

GRÓÐURHÚSAÁHRIFIN ÓGURLEGU!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí

Þá er að vita hvort júlí, sem oftast er hlýjasti mánuður ársins, slær einhver veðurmet eins og júní gerði á ýmsan hátt, eða verður bara flatur og lágkúrulegur eins og íslenskt þjóðlíf.

Fylgiskjalið lætur ekki deigan síga þó það komi einn dag á eftir áætlun af því að skjalavörðurinn brá sér bæjarleið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júnímánuður með ólíkindum

Það má með sanni segja að júní sem var að líða hafi verið þurrviðrasamur og sólríkur. 

Hann er meira að segja þurrasti júní sem mælst hefur í Stykkishólmi alveg frá 1857.

Þurrkamet fyrir júní hafa verið sett á fjölmörgum veðurstöðvum vestanlands, með mislanga mælingasögu, allt frá Faxaflóa og að Ströndum og Tröllaskaga.

Ekki var þó þurrkametið slegið í Reykjavík. 

Svo kemur það í ljós í fyrramálið hvort þetta sé ekki næst sólríkasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og þar með einn af fimm sólríkustu mánuðum sem mælst hafa nokkru sinni í höfuðborginni. 

Loks er mánuðurnn alveg við það að komast inn á lista yfir tíu hlýjustu júnímánuði í Reykjavík en fremur kalt var reyndar víða á austanverðu landinu. 

Þessi kosningamánuður var sem sagt ekkert venjulegur. Það má jafnvel segja að hann sé um sumt með hreinum ólíkindum eins og ýmislegt í úrslitum forsetakosninganna! 

Viðbót 1.7.: Júní sem var að líða er sá næst sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík og þriðji sólríkasti mánuður yfirleitt sem þar hefur mælst. Og þetta er sólríkasti mánuður sem komið hefur í borginni eftir maí 1958. Það er því engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín. - Þrátt fyrir allt.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband