Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
29.1.2013 | 18:51
Mikil úrkoma á austfjörðum
Á austfjörðum hefur verið mikil úrkoma síðustu þrjá dagana. Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði hefur hún þrjá síðustu morgna og svo í dag verið samtals fir 180 mm. Þar hafði verið mjög lítil úrkoma þennan mánuð þangað til. Á Eskifirði hefur úrkoman síðustu þrjá sólarhringa verið um 180 mm, á Fáskrúðsfirði 160 mm, á Seyðisfirði um 135 mm, en ekki meiri en kringum 80 mm á úrkomustöð við Neskaupstað.
Það er rigning á láglegndi en snjókoma til fjalla.
Viðbót 30. jan: Enn er ekkert lát á úrkomunni á austfjörðum: Úrkoman síðustu fjóra sólarahringa er nú orðin þessi: Eskifjörður 235 mm, Fáskrúðsfjörður 210 mm, Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði 204 mm, Neskaupstaður 83 mm, sjálfvirk stöð á Neskaupstað 106 mm, Seyðisfjörður rétt tæpir 200 mm. Mest úrkoma í morgun var mæld 86,8 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Ekki komu þaðan upplýsingar í gær en síðustu fjóra daga, að gærdeginum frátöldum, hafa þar mælst 153 mm. Það þarf ekkert að segja manni það að þar hafi engin úrkoma mælst í gær þó engar upplýsingar hafi borist. Og er þetta frábært dæmi um hve bagalegt það er sem oft ber við að upplýsingar frá úrkomustöðum berist EKKI daglega, jafnvel þó rigni eldi og brennisteini ef svo má segja.
Viðbót 1.2. Eftir mínum fljótheita útreikningum er þessi janúar langt fyrir ofan meðallag á landinu, líklega í sjöunda sæti að hlýindum á landinu,á eftir 1950 en sennilega hlýrri en 1964 (þó ekki i Reykajvík). Hann er sá 7. hlýjasti í Reykjavík. Fylgiskjalið fylgdist grannt með honum allan tímann!
Snjóflóðahætta á Austfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.2.2013 kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2013 | 17:17
Sólríkustu skammdegismánuðir
Það er kannski ofrausn að tala um sólríka skammdegismánuði. Sól mælist þó meiri í sumum þeirra en öðrum. Hér verður fjallað um þá mánuði sem státa af mestu sólskini. Eins og nefnt var í síðasta sólskinspistli tel ég skammdegið ríkja frá því snemma í nóvember og út janúar. Er þá miðað miðað við það að sól sé minna en einn þriðja hluta sólarhringsins á lofti. Af þessum mánuðum er sólskin að jafnaði mest í nóvember en síðan í janúar en vitaskuld minnst í desember.
Meðaltal sólskinsstunda í Reykjavík í desember 1961-1990 er 12,1 stund en 0,1 á Akureyri þar sem oftast mælist aldrei nein sól.
Flestar sólskinsstundir í Reykjavík í desember mældust 31,8 árið 2010. Þetta var að ýmsu öðru leyti merkilegur mánuður. Aldrei hefur til dæmis meiri mánaðarloftþrýstingur mælst í Reykjavík, 1017,0 hPa. Árið 1976 mældust 30 sólskinsstundir í borginni í desember. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð skein sólin þá í 44,6 stundir og er það mesta desembersólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Á Sámsstöðum er meðaltal sólskinsstunda í desember 1963-1990 17,9 stundir og er það mesta á þeim stöðvum þar sem sólskin hefur verið mælt. Tíðin var kyrrlát en köld og þurr og var mánuðurinn einn af fimm tíu þurrustu desembermánuðum á landinu eftir 1870. Úrkoman var vel innann við helming af meðallaginu 1931-2000 á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Á Akureyri voru flestar sólskinsstundir í desember mældar 3 klukkustundir árið 1934. Þann úrkomusama mánuð tel ég sjöunda hlýjasta desember á landinu og sums staðar á austurlandi var alautt allan mánuðinn.
Næst flestar sólskinsstundir í desember mældust í Reykjavik árið 1981 en þá voru þær tuttugu. Kalt var og umhleypingasamt en hiti komst þó þann annan í 16,6 stig á Dalatanga sem þá var jöfnun á Íslandsmeti í hita í desember en metið hefur síðan verið slegið. Sólin skein einni klukkustund skemur í höfuðborginni í desember árið 2000. Mánuðurinn var með þeim þurrustu en nær samt ekki alveg inn á topp tíu þurrklistann en úrkoman var aðeins liðlega helmingur af meðaltali. Árið 1978 mældist sólarmesti desember á Hveravöllum meðan þar var mælt, 13,9 stundir og þetta er fjórði sólarmesti desember í Reykjavík með 24 sólskinsstundir. Mikið snjóaði á suðvesturandi í lok mánaðarins og að morgni gamlársdags mældist met snjódýpt í Reykjavík í desember, 31 cm, en það met var slegið árið 2011 þegar snjódýptin varð 33 cm. Í desember 1968 voru sólarstundirnar í Reykjavík 23 og er hann þar með sá fimmti sólarmesti.
Desember 1985 var kaldur og inni á topp tíu listanum yfir þurrustu desembermánuði á landinu og afar snjóléttur suðvestanlands og í Reykjavík er hann sjötti sólarmesti jólamánuðurinn með 22 sólskinsstundir. Tveir desembermánuðir í röð, 1958 og 1959, eru hnífjafnir í sjöunda og áttunda sæti með 20,4 sólskinsstundir. Sá fyrri kom á eftir einum allra hlýjasta nóvember á landinu og var sjálfur fremur hlýr en hinn var lítið eitt kaldari en báðir voru þeir taldir hagstæðir. Í desember 1959 mældust sólarstundirnar á Akureyri 0,7 og er hann í 7.-10, sæti yfir sólarmestu desembermánuði þar ásamt 1977, 2001 og 2011. Síðasttaldi mánuðurinn var óvenjulega snjóþungur á suðvesturlandi og í Reykjavík hefur hann hæstu snjólagstölu allra desembermánaða, 97%, og mestu snjódýpt, 33 cm.
Sá kaldi desember 1961, eins konar fyrirboði hafísáranna, er sá níundi sólarmesti í Reykjavík með 20,3 sólarstundir en hins vegar mældist aldrei meiri desembersól á Reykhólum 7,5 klukkustundir. Milli jóla og nýjárs kom eitt mesta kuldakast síðustu áratuga og þann 28. fór frostið í Reykjavík í -16,8 stig og hefur ekki mælst meira síðan í öðrum desember. Tíundi sólarmesti desember í höfuðborginni er loks 1947 þegar sólin skein í 19,6 stundir. Björgunarafrekið mikla við Látrabjarg, þegar togarinn Doohn fórst, var unnið í þeim mánuði.
Fimmti hlýjasti desember á landinu var 1987 og þá mældist næst sólarmesti desember á Akureyri, 2,2, stundir. Sá þriðji var árið 2010 með 1,5 stundir og sá fjórði 1936 með1,4 stund en fimmti 1945 en þá skein sólin í nákvæmlega eina klukkustund og sjötti 1932 með 0,8 stundir.
Á Melrakkasléttu mældist mesta sól í desember árið 1995, 3,3 stundir en árið 1953 á Hallormsstað, 0,7 stundir og er það víst eini jólamánuðurinn sem þar hefur mælst nokkur sól! Á Hólum í Hornafirði hefur mælst mest desembersól árið 1970, 34,5 klukkustundir.
Meðaltal sólarstunda í janúar í Reykjavík 1961-1990 eru 26,9 klukkustundir. Sólarmesti janúar í Reykjavík er 1971 en þá mældust sólskinsstundirnar 64,5. Á Sámsstöðum voru sólarstundirnar 64,4 sem þar er vitaskuld janúarmet. Frá því um miðjan mánuð og til mánaðarloka mátti heita stanslaust bjartviðri á þessum stöðum. Kalt var í veðri og þ. 30. mældist mesta frost sem komið hefur í höfuðborginni síðan 1918, -19,7 stig en á Hólmi rétt ofan við borgina varð frostið -25,7 stig og er ekki ólíklegt að þar hafi verið meira en 30 stiga frost þegar kuldinn varð mestur 1918. Úrkoman var innan við helmingur af meðallaginu. Árið 1977 voru 60 sólskinsstundir í Reykjavík sem gerir hann næst sólríkasta janúar. Á Reykjum við Hveragerði, þar sem sólskin var mælt árin 1972-2000 skein sólin í 70,2 klukkustundir. Það er mesti fjöldi sólskinsstunda sem mælst hefur á íslenski sólskinsstöð í janúar. Óvenjulega snjólétt var á suðvesturlandi. Þessi mánuður var beint framhald af næst sólríkasta desember, 1976. Og sá desember á einnig sólskinsmetið fyrir Reyki og ekki nóg með það heldur mældist þar í febrúar 1977 meiri sól en í nokkrum öðrum febrúar. Á Reykjum var sem sagt sett sólskinsmet þrjá mánuði í röð. Veturinn 1976-1977 var annálaður fyrir hægviðri, þurrka og bjartviðri á suður og suðvesturlandi. Febrúar var einn sá þurrasti á landinu og veturinn í heild sá þurrasti í Reykjavík.
Þriðji sólríkasti janúar í Reykjavík er 1959 með 58 sólskinsstundir. Þá var mjög kalt og tel ég þetta 11. kaldasta janúar. Á Hólum í Hornafirði er þetta einnig sólarmesti janúar, 54,4 stundir. Úrkoman var aðeins um helmingur af meðalúrkomu. Febrúar sem á eftir kom reyndist hins vegar einn sá allra úrkomusamasti á landinu. Annar enn þá kaldari janúar, 1979, er sá fjórði sólarmesti í Reykjavík með með 45 stundir og er hann 8. kaldasta janúar á landinu og var mjög snjóþungur. Úrkoman var heldur meiri en 1959, liðlega helmingur af meðallaginu 1931-2000. Í Stykkishólmi er þetta fimmti þurrasti janúar (frá 1857). Frostið í Möðrudal fór niður í 30,7 stig þann 13. Næsti janúar, 1980, er sá fimmti sólarmesti í höfuðborginni með 44,5 sólarstundir. Hann var rétt aðeins úrkomumeiri en 1979 en miklu mildari, hitinn rétt yfir meðallagi.
Sólarmesti janúar á Akureyri, þar sem meðaltal sólskinsstunda í janúar árin 1961-1990 er 6,8 stundir, er það sögufræga ár 1939. Þá mældust sólskinsstundirnar 21. Úrkoman var afar lítil á landinu og flýgur mánuðurinn inn á miðjan topp tíu listann fyrir þurrustu mánuði. Snjóþungt var fyrir norðan. Næst sólríkasti janúar í höfuðstað norðurlands er 1941 en þá skein sólin 20 klukkustundir og er þetta þriðji þurrasti janúar á Akureyri. Og þessi mánuður er jafnframt sá sjötti sólarmesti í Reykjavik með 43,5 stundir. Þetta var álíka þurr janúar og 1939. Hitinn var svo að segja nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990. Bjartviðrinu fylgdu miklar stillur. Þykkur reykjarmökkur grúfði yfir bænum dagana 22. til 29. og ollu því að þrjú skip strönduðu. Á þessum árum voru hús í Reykjavík kynnt með kolum og mengun var iðulega mikil í hægviðri.
Á hafísárunum var oft sólríkt í janúar á suðvesturlandi. Árin 1966, 1967 og 1969 skipa 7.-9 sæti í Reykjavík fyrir sólarmestu janúar. Fyrst talda árið voru sólskinsstundirnar 42,7 Þrjá síðustu dagana gerð eitthvert mesta norðaustanveður sem um getur. Árið eftir skein sólin 42,2 stundir en 41,8 árið 1969. Kalt var þessa mánuði nema 1967 en þá var hlýtt. Þann mánuð fór hitinn á Hólum í Hornafirði í 15,0 stig þ. 9. sem er vægast sagt sjaldgæft á þeim stað í janúar. Úrkoman var í minna lagi alla mánuðina. Árið 1988 situr svo í 10. sæti yfir sólarmestu janúarmánuði i Reykjavik með 41 sólskinsstund. Hann var mjög kaldur og fremur úrkomusamur en tíðin þótti þó sæmileg.
Janúar 1996 var mjög hlýr á landinu og töluðu sumir um einmunatíð og ég tel þetta 13. hlýjasta janúar. Þá skein sólin í 16 klukkustundir á Akureyri sem gerir hann að þriðja sólarmesta janúar í höfuðstað norðurlands. Fjórði sólríkasti janúar á Akureyri var 2009 en þá voru sólarstundirnar 14,5. Tíð var góð og snjólétt. Óvenjulega snjólétt var einnig í janúar 1985 sem er fimmti i sólarmesti janúar á Akureyri með 14 stundir. Þennan mánuð mældist sólríkasti janúar á Reykhólum, 32,6 klukkustundir.
Árið 1973 var sunnanátt ríkjandi í janúar og þá mældust sólskinsstundir á Akureyri þá 12,7 sem gerir hann þar að sjötta sólarmesta janúar. Á Melrakkasléttu er þetta hins vegar allra sólríkasti janúar með 20,3 stundir. Þá er þetta þriðji hlýjasti janúar á landinu. Flestum er þessi mánuður minnstæðastur fyrir það að þ. 23. hófst eldgosið á Heimaey.
Janúar 1963 var merkilegur mánuður. Þá var hæsti mánaðarþrýstingur í nokkrum janúar. Hann var hæstur á veðurstöð 1028,2 hPa á Grímsstöðum, lægstur á Hornbjargsvita 1024,2 hPa, en í Reykjavík var hann 1026,9 hPa. Þar mældist hæsta loftþrýstingsmæling í mánuðinum, 1049,3 hPa þ. 30. Á Brú á Jökuldal mældist úrkoman aðeins 0,2 mm og hefur ekki mælst minni janúarúrkoma á veðurstöð. Aðeins einu sinni hefur mælst minni úrkoma á Akureyri og þar er þetta áttundi sólríkasti janúar með 12,6 stundir af sól. Þetta er með þurrari janúarmánuðum. Það er einnig sérkennilegt með þennan mánuð að fyrri hlutinn var ískaldur en seinni hlutinn alveg einstaklega hlýr. Í Vestur -Evrópu var einhver mesta kuldatíð tuttugustu aldar.
Einn af þurrviðrasömustu janúarmánuðum, 1945, mældist sá níundi sólarmesti á Akureyri með 12,2 sólskinsstundir. Á Teigarhorni hefur aldrei mælst minni úrkoma í janúar, 3,8 mm. Áttundi sólarmesti janúar í höfuðstað norðurlands er 2010 með 12,5 stundir. Úrkoman á landinu var kringum meðallagið 1931-2000 en að mínu tali er þetta tíundi hlýjasti janúar. Einstaklega þurrt var fyrir norðan og er þetta þurrasti janúar á Akureyri þar sem úrkoman mældist aðeins 0,6 mm. Ýmsar aðrar veðurstöðvar sem lengi hafa athugað kræktu í þurrkamet fyrir janúar.
Tíundi sólarmesti janúar á Akureyri er 1970 með 12 stundir. Á Hallormsstað mældust sólskinsstundirnar 3,1 og hafa aldrei mælst þar meiri í janúar. Sól er sjaldséð á Hallormsstað í janúar. Af 35 mánuðum sem þar var mælt sólskin mældist engin sól í 23 þeirra.
Varla getur að hitafari ólíkari nóvembermánuði en þá tvo sólríkustu í Reykjavík. Á gæðaárinu 1960 mældust sólarstundirnar 78 þar í nóvember. Meðaltalið 1961-1990 er 38,5 stundir. Mánuðurinn er jafnframt á landinu sá tíundi hlýjasti að mínu tali. Meiru réði um það hvað góður hiti var jafndreifður um landið fremur en að methitar væru á einstökum veðurstöðvum. Úrkoman var fremur lítil, einkanlega vestanlands og norðan þar sem sums staðar varð vatnsskortur. Úrkomudagar voru 8 í Reykjavík og hafa aldrei verið jafn fáir þar í nóvember. Þetta er næst snjóléttasti nóvember á landinu frá 1924 og var snjólag aðeins 8%. Haustið 1960 (okt-nóv) er einnig það sólríkasta sem mælst hefur í Reykjavík, 200 klukkustundir, en nóvember er næst sólríkasti nóvember. Hann var sá sólríkasti þegar hann kom en var sleginn út árið 1996 með 79 klukkustunda sólskini. Sá mánuður var mjög kaldur, sá sjötti kaldasti á landinu frá 1866, fimm og hálfu stigi kaldari en nóvember 1960. Á Akureyri var þetta tíundi sólarmesti nóvember með 22,6 sólskinsstundir. Úrkoman á landinu var aðeins um helmingur af meðaltalinu 1931-2000. Næstur að sól í Reykjavík kemur nóvember árið 2000 með 75 klukkustundir. Þetta var mildur mánuður og þurr. Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma í Reykjavík í nóvember, aðeins 10,1 mm. Mánuðurinn er nærri miðju á topp tíu listanum yfir þurra nóvembermánuði á landinu. Í fjórða sæti fyrir mikla sól i Reykjavik er nóvember 1950 með 68 stundir en var kringum meðallag að hita en fremur var þurrt.
Tveir nóvembermánuðir frá sjöunda áratugnum krækja í fimmta og sjötta sætið. Nóvember 1965 var með 64,3 stundir en nóvember 1963 með 63,7 stundir. Sá fyrrnefndi var aðeins með um helming meðalúrkomu en hinn var í tæpu meðallagi að því leyti. Og nóvember 1963 var reyndar sá sólarminnsti sem mælst hefur á Akureyri en þar skein sólin í 3 stundir eins og greint var frá í fyrri pistli um skammdegissól. Báðir voru þessir mánuðir frekar kaldir, einkum 1963. Hann er sá nóvember í Reykjavík sem flesta hefur frostdaga eða 25 talsins.
Nóvember 1994 er sá 7. sólarmesti með 61,4 sólskinsstundir. Hann var mjög hlýr og úrkomusamur. Árið 1977 sá 8. með 61 sólarstund, kaldur mánuður og úrkoman ekki nema rétt rúmlega helmingur af meðallaginu.
Níundi og tíundi sólarmestu nóvembermánuðir í Reykjavík eru svo árið 1980 með 60 stundir, mildur mánuður og úrkomusamur, og 2003 með 58 klukkustundir af sól en þá var mjög hlýtt en úrkomusamt. Nóvembermánuðirnir 1994 og 2003 mjög áþekkir að hita og úrkomu, kringum hálft annað stig yfir meðallagi hitans og um 20% yfir úrkomumeðaltalinu.
Þriðji og fjórði áratugurinn á Akureyri eru áberandi með sólarmikla nóvembermánuði. Árið 1937 er sá sem mest sólskin hefur mælt, 31 klukkustund en meðaltalið 1961-1990 er 6,8 stundir. Hlýtt var á landinu, hátt upp i þrjú stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem í þessum sólarpistlum er alltaf miðað við með hita og fremur lítil var úrkoman, kringum þrír fjórðu af meðaltalinu 1931-2000 sem alltaf er hér miðað við um úrkomuna.
Næstur er nóvember 1933, með 28 stundir. Hann tel ég vera þann níunda hlýjasta á landinu og á eftir honum fór reyndar allra hlýjasti desember. Í þessum nóvember var mesta frost sem mældist á landinu aðeins -9,9, stig (á Grímsstöðum) og hefur mesti lágmarkshiti á landinu í nóvember aldrei verið jafn hár. Meðaltal landslágmarksins í nóvember síðustu áratugi er um -19 stig. Hitinn komst í 17,8 í Fagradal í Vopnafirði þ. 17, og var það þá mesti nóvemberhiti sem mælst hafði á landinu. Það met hefur síðan verið slegið átta sinnum. Í Reykjavík var einhver úrkoma alla daga mánaðarins.
Nóvember 1927 er sá þriðji sólarmesti á Akureyri með 28 stundir en nóvember 1929 sá sjöundi með 24 sólskinsstundir. Mjög úrkomusamt var á suðurlandi 1927. Úrkoman í Stykkishólmi mældist 161,5 mm og var þá úrkomusamasti nóvember sem þar hafði mælst (frá 1856) og er enn sá fjórði í röðinni. Þetta er fimmti úrkomumesti nóvember í Reykjavík, 173,8 mm.
Nýlegur nóvember, árið 2010, er sá fjórði sólarmesti á Akureyri með 27,0 stundir en sá fimmti er 1985 með 26,6 stundir og sjötti er 1990 en þá skein sólin í 25 stundir. Veður voru kyrrlát í þeim síðastnefnda og snjólétt og hitinn hálft annað stig yfir meðallaginu, en 1985 var í kaldara lagi en úrkoman var svipuð í þeim báðum, um þrír fjórðu af meðallaginu. Árið 2010 var hitinn í minna lagi og einnig úrkoman. Á hafísárunum var nóvember 1967 með 22,8 sólskinsstundir á Akureyri og er sá 8. sólarmesti þar. Þetta var kaldur mánuður og stormasamur mjög og fremur snjóþungur. Níundi er nóvember 2004 með 22,6 stundir, mjög úrkomusamur en í hlýrra lagi.
Tíundi sólríkasti nóvember á Akureyri er svo 1996 eins og getið var um hér að framan.
Vona svo bara að ég hafi hvergi farið mánaðarvillt í þessari yfirferð um svo marga mánuði!
Veðurfar | Breytt 19.4.2013 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2013 | 15:42
Hlýr janúar enn sem komið er
Þegar einn þriðji er eftir af janúar er meðalhitinn í Reykjavík 3,1 stig eða 3,7 stig yfir meðallagi. Það er með því hlýrra en ekki er þó lengra síðan 2002 að meðalhiti fyrstu 20 dagana var 4,1 stig en sá mánuður kólnaði strax eftir þ. 20 og endaði í 1,3 stigum. Árið 1996 var meðalhitinn 3,3 stig en lokatalan var 2,2 stig. Árin 1972 og 1973 voru tölurnar 4,6 og 4,2 eftir fyrstu 20 dagana en lokatölur beggja mánaðanna 3,0 stig. Hlýjasti janúar sem mælst hefur í Reykjavík 1847 sem varð á endanum 3,9 stig hefur líklega verið svipaður eftir fyrstu 20 dagana og þessir tveir síðast töldu mánuðir. Janúar 1964 sem næstur er honum í hlýindum, stóð í 4,5 stigum eftir 20 daga en endaði svo í 3,5 stigum. Janúar 1947, sem mældist allur 3,2 stig, náði ekki þremur stigum eftir fyrstu 20 dagana en svo hlýnaði enn á lokasprettinum. Svipaða sögu er að segja um janúar 1987 með sína lokatölu upp á 3,1 stig. Árið 1946 virðist hafa verið ívið hlýrra en nú fyrstu 20 dagana en svo kólnaði en talsvert hlýrra var í janúar 1929 en þá kólnaði undir lokin og meðalhiti mánaðarins varð 2,4 stig. Þar á undan, alveg til að minnstakosti 1880, er nokkuð víst að enginn janúar nálgast okkar mánuð fyrstu 20 dagana.
Ef mánuðurinn endað i 3,1 stigi yrði hann í fjórða sæti yfir hlýjustu janúarmánuði í Reykjavík. Það er ekki líklegt að hann haldi sinni tölu.
Meðalhitinn á Akureyri er nú 1,5 stig eða 3,7 yfir meðallagi. Þar er enn alhvítt eins og verið hefur allan mánuðinn og alveg síðan síðasta daginn í október.Úrkoman er þegar komin vel yfir meðallag alls mánaðarins á suðurlandi, farinn að nálgast það á vesturlandi en er fremur lítil annars staðar og mjög lítil enn sem komið er við Ísafjarðardjúp og í Vopnafirði.
Nóvember var í kringum meðallag að hita á landinu en desember aðeins í mildara lagi. Það er ekki fyrr en núna í janúar sem hafa verið einhver hlýindi að marki og þá mest sunnanlands, Og þar hefur verið snjólétt hingað til en fyrir norðan hlýtur það sem af er að teljast hafa verið hinn mesti snjóavetur þó mjög haf gengið á snjóinn upp á síðkastið og sé orðið snjólítið vestan til á norðurlandi og jafnvel snjólaust við sjóinn á norðausturlandi.
Ekki er hægt að segja að þetta hafi hingað til verið neinn sjaldgæfur öndvegisvetur miðað við ýmsa aðra þó um það heyrist furðu margar raddir í netheimum. Hann hefur samt verið góður sunnanlands og eftir áramótin um allt land.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 29.1.2013 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2013 | 16:32
Sólarlítið skammdegi
Skammdegið ríkir að mínum skilningi frá því snemma í nóvember og út janúar. Miðað er við að þá sé sól á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum, sem sé minna en 8 klukkustundir. Af þessum mánuðum er sólskin vitaskuld minnst að jafnaði í desember en síðan janúar en nóvember er sólríkastur þessara mánaða.
Vegna þess hve sólin er lítil í skammdeginu eru allir þessir mánuðir teknir hér saman í bloggpistlaröðinni um sólríka og sólarlitla mánuði og efnið allt ágripskenndara en í fyrri pistlum.
Og við byrjum á sólarminnsta mánuðinum. Sólarminnsti desember í höfuðstaðnum er 1943 þegar sólin skein í 0,7 stundir eða um það bil 40 mínútur. Meðaltal sólskinsstunda í Reykjavík í desember 1961-1990 eru 12,1 klukkustund. Næstur er desember 1945 þegar sólarstundirnar voru 0,1 fleiri. Báðir voru mánuðirnir vel hlýir og snjóléttir en sá fyrrnefndi þó heilu stigi hlýrri en sá síðarnefndi, um það bil tvö og hálft stig yfir meðallaginu 1961-1900. Árið 1943 var úrkoman nærri því helmingi meiri en meðaltalið 1931-2000 en árið 1945 aftur á móti rúmlega helmingur af henni á þeim fáu veðurstöðvum sem allra lengst hafa athugað.
Næstir koma desember 1974 og 1991 sem báðir mældu slétta eina klukkustund af sólskini. Hitinn í þeim síðarnefnda var sá sami og 1945 en sá fyrrnefndi var ískaldur, tveimur stigum undir meðallagi á landinu. Hann er einn af allra snjóþyngstu desembermánuðum og er reyndar minnisstæðastur fyrir snjóflóðið mikla þ. 20. á Neskaupstað þegar tólf fórust. Snjólagið var 86% (mest 87% í desember 2012). Jafnir í fimma og sjötta sæti eru desember 2004 og 1956 með 1,3 stundir. Desember 1956 er tíundi hlýjasti desember á landinu eftir mínum kokkabókum. Enn hlýrri var þó jólamánuðurinn 1987 þegar sólarstundir mældust í eina og hálfa klukkustund og er hann fimmti hlýjasti desember á landinu í sögu mælinga en sá sjöundi sólarminnsti í höfuðborginni. Þennan mánuð mældist minnsta desembersól nokkru sinni á Sámsstöðum í Fljótshlíð þegar sólin skein í 2,1 klukkustund.
Desember 1947, 1930 og 1914 eru svo í sætum nr. 8-10 að sólskinsleysi í Reykjavík.
Það ber að hafa í huga að þegar sólskin er svona takmarkað, næstum því ekkert, í svartasta skammdeginu og mælitæki hafa verið flutt til á mælitímabilinu er svo sem ekki hægt að leggja mikið upp úr innbyrðis röð þessara mánaða en ljóst er að sólinni hefur ekki verið fyrir að fara.
Sólarlitlir jólamánuðir á Akureyri eru fljótt afgreiddir því þar hefur ekki mælst nein sól í 53 mánuðum af þeim 88 sem sólskin hefur verið mælt en meðaltalið 1961-1990 er talið vera 0,1 sólskinsstund en 0,4 árin 1931-1960. Á Hallormsstað og Melrakkasléttu, þar sem lengi var mælt sólskin, er einnig oftast alveg sólarlaust í desember. Á Hólum í Hornafirði (frá 1957) og Hveravöllum (1966-2003) er desember 1992 sá eini þegar þar mældist ekkert sólskin.
Það er ekki desembermánuður sem er allra sólarminnsti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst í Reykjavík heldur er það janúar 1992 en þá mældust sólskinsstundirnar 0,3 eða um 20 mínútur. Meðaltalið 1961-1990 er 21 klukkustund. Ekki hefur mælst minni sól á Sámsstöðum í janúar, 2,5 stundir, en á Reykjum við Hveragerði voru sólskinsstundirnar aðeins 0,7. Þetta er einnig sólarminnsti janúar á Hveravöllum (1967-2004), 0,3 klukkustundir. Engin sól mældist við Mývatn. Á Akureyri voru sólarstundirnar þrjár í þessum mánuði sem er raunar ekki síst merkilegur fyrir það að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar en hitinn komst í 18,8 stig á Dalatanga þann 15. og sama dag mældist mesti janúarhitinn á Akureyri, 17,5 stig. Einnig mældist mesta sólarhringsúrkoma sem þá hafði mælst á landinu 141,2 mm á Skógum undir Eyjafjöllum þann 13. en það met hefur síðan verið slegið. Þá var þetta níundi hlýjasti janúar á landinu eftir mínum skilningi.
Engin sól mældist á Akureyri í janúar 1993 og heldur ekki á Melrakkasléttu. Meðaltalið á Akureyri 1961-1990 er 7 klukkustundir. Á Hólum í Hornfirði er þetta einnig sólarminnsti janúar, 2,3 klukkustundir og á Sámsstöðum, 2,6 stundir. Á þeim stöðum þar sem sólskin hefur verið mælt hefur það að meðaltali verð mest á Sámsstöðum í janúar og desember. Mánuðurinn var hlýr og er einn af þremur úrkomumestu janúarmánuðum á landinu og þá mældist minnsti loftþrýstingur nokkru sinni í þeim mánuði, 923,9 hPa í Vestmannaeyjum þann þriðja Þetta er reyndar 6. sólarminnsti janúar í höfuðborginni, 2,9 stundir. Næstir koma á Akureyri janúar 1943 og 1993 með 0,2 sólskinsstundir og voru þeir báðir kaldir.
Árið 1921 kom annar sólarminnsti janúar í höfuðstaðnum en þá skein sólin í hálftíma. Þá var kalt og umhleypingasamt og snjóþungt á suðvesturlandi. Í Reykjavík skein sólin í tvær stundir í janúar 1916 og 1989. Báðir voru þessir mánuðir í hlýrra lagi en mjög úrkomusamir, einkum 1989 sem ég tel næst úrkomusamasta janúar. Mög kaldur janúar árið 1983 er sá sjötti sólarminnsti í Reykjavík með 2,6 stundir.
Sæti númer 7-10 í sólarleysi eru skipaðir 1923, 1914, 1925 og 1993. Í þeim síðasttalda, tíunda sólarminnsta janúar í Reykjavík, skein sólin þar í fimm stundir en eins og áður hefur komið fram er þetta næst sólarminnsti janúar á Akureyri. Þetta voru illviðrasamir mánuður. Mjög kalt var 1923 en hinir voru hlýir.
Árið 1932 mældist sólin á Akureyri í hálftíma og er það fjórði sólarminnsti janúar en 0,8 stundir mældust árin 1952 og 1977. Í þeim fyrra kom eitthvert mesta útsynningsveður sem vitað er um hér á landi, dagana 5.-7. Sá hlýi janúar 1929, hluti af hlýjasta vetri á landinu, er svo sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 0,9 sólarstundir en janúar 1990, 2007, 1986 og 2003 koma þar í 8.-11. sæti. Svo minnst sé á öfgar má geta þess að febrúar 1986 er sá sólríkasti sem mælst hefur á Akureyri.
Nóvember er að jafnaði sólríkasti skammdegismánuðurinn og reyndar fellur fyrsti þriðjungur hans utan við skammdegið eins og ég skilgreini það. Meðaltal sólskinsstunda í þeim mánuði 1961-1990 eru 38,6 klukkustundir í Reykjavík en 12,6 á Akureyri.
Sólarminnsti nóvember í Reykjavík er 1956 en þá voru sólarstundirnar 4,7. Þetta er þriðji hlýjasti nóvember á landinu og sá allra hlýjasti á Akureyri. Þessi drungalegi mánuður, einn af fimm úrkomusömustu nóvembermánuðum á landinu og sá þriðji úrkomusamasti í Reykjavík, er annars mörgum minnisstæður fyrir það að þá stóð yfir uppreisnin í Ungverjalandi og Súezstríðið og síðast en ekki síst krækti Vilhjálmur Einarsson í silfrið á ólympíuleikunum i Melbourne. Nóvember árið áður, 1955, var einnig mildur og hann er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 12 stundir en þriðji sólarminnsti á Akureyri með 4 klukkustundir. Næst sólarminnsti nóvember í höfuðborginni er 1993 með 5,7 stundir og sá þriðji er 1942 með 6,4 stundir. Síðartaldi mánuðurinn var illviðrasamur suðvestanáttamánuður en var mjög þurr á norðausturlandi. Á Bjarnarstöðum í Bárðardal mældist alls engin úrkoma sem er einsdæmi á íslenskri veðurstöð í nóvember.
Sá veðurfarslega sögufrægi nóvember 1945 er sá fjórði sólarminnsti í höfuðstaðnum með 11 sólskinsstundir. En þetta er hlýjasti nóvember sem mælst hefur á landinu í heild og fjölmörgum einstökum veðurstöðum, þeirra á meðal Reykjavík, Stykkishólmi,og Vestmannaeyjum.
Sólarminnsti nóvember á Akureyri er aftur á móti sá kaldi nóvember 1963 en þá voru sólskinsstundirnar 3,2. Um miðjan mánuð hófst gosið í Surtsey. Næstur kemur hlýr nóvember 1997 með 3 stundir, fjórði er 1991 með 4 stundir (sólarminnsti á Melrakkasléttu, 0,5 klst) en þá var hitinn í kringum meðallag og sá fimmti er hlýr nóvember 1976 og komst hitinn þá í 17,7 stig á Reyðará þann 19.
Sjötti sólarminnsti nóvember í Reykjavík er 1992 með 16 stunda sólskin en sá sjöundi er 1953 með 16 klukkustundir af sól. Áttundi er svo nóvember 1964 með 17 stundir. Hitinn í þeim mánuði komst þann annan í 18,6 stig á Dalatanga og daginn eftir í 17,6 á Akureyri sem mun vera mesti hiti þar í nóvember sem mælst hefur en einhver vafi er víst um áreiðanleikann. Nóvember 1943 er svo í níunda sæti í sólarleysi í Reykjavík með 16,9 sólskinsstundir.
Svo vill til að sólríkasti nóvember á Akureyri, 1937 (31 klst), er jafnframt sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 17,3 sólskinsstundir. Veður voru hagstæð og hlý. Fjallað verður um sólríka skammdegismánuði hér á síðunni bráðlega.
Á Akureyri er sjötti sólarminnsti nóvember 2008 með 6,6 stundir en nóvember 1947 sá sjöundi með 6,7 klukkustundir. Nóvember 1931, sem er sá 8. sólarminnsti á Akureyri, er vel inni á topp tíu listanum fyrir mikla úrkomu á landinu og hann skartar lægsta mánaðarþrýstingi allra nóvembermánaða. Á veðurstöð var hann lægstur í Grindavík 985,1 hPa en hæstur 990,9 hPa á Teigarhorni en í Reykjavík var hann 985, 8 hPa.
Nóvember 1973 sem er sá 9. sólarminnsti á Akureyri með 7,3 stundir, er annar af tveimur köldustu nóvembermánuðum á landinu frá 1866 (ásamt 1869). Þá mældist og mesta frost sem mælst hefur á láglendi í nóvember, -27,1 stig, þann 24. á Staðarhóli en þar var meðalhiti mánaðarins -7,0 stig. Tíundi sólarminnsti nóvember á Akureyri er loks 1959 en þá mældist sólskin í 7,6 klukkustundir.
Veðurfar | Breytt 19.4.2013 kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2013 | 15:38
Viðbjóður
Það er hreinn viðbjóður að nota veðrið, sem er göfug og stolt höfuðskepna, sem markaðsvöru. Auk þess er veðrið á Íslandi yfirleitt skaplegt á veturna. En auglýsingaáróðurinn, markaðssetningin, gengur líklega út á það að hér sé alltaf vitlaust veður. En úti í löndum getur líka komið vont veður. Jafnvel í suðrænum löndum.
Veður á Íslandi eru ekki sérlega válynd miðað við fellibylji, þrumuveður, þurrka og flóð víða annars staðar, jafnvel hríðarbylji og frosthörkur í löndum sem miklu sunnar eru. Hvað vetraríþróttir varðar er Ísland mjög óryggt land. Veðrið er hreinlega of milt og gott fyrir þær!
Frá ferðaþjónustunni kemur aldrei annað en rugl um veðrið og náttúruna.
Vonda veðrið og myrkrið laðar að | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 20.1.2013 kl. 00:37 | Slóð | Facebook
11.1.2013 | 13:12
Hitastaðan í janúar
Meðalhitinn í janúar sem af er mælist 3,5 stig í Reykjavík eða 4,2 stig yfir meðallaginu 1961-1990.
Ef þetta yrði lokatala mánaðarins yrði þetta næst hlýjasti janúar sem mælst hefur. En það er svo sem ekkert að marka. Mikið er eftir af mánuðinum og þetta forskot er hreinlega ekki sérlega mikið miðað við það sem mest getur orðið. Hlýjustu fyrstu tíu dagar í Reykjavík frá 1941 voru 5,7, stig 1972, 5,5, stig 1973, 4,9 stig 1964, 4,7 stig 2002 og 4,5 stig 2003 og 1960. Árið 1940 hefur meðalhitinn líklega verið um 4,7 stig. Næstum því má fullyrða að engir janúarmánuðir fyrir 1940 skáki þessum mánuðum nema 1847 en hann er hlýjasti allur janúar sem mælst hefur í Reykjavík, 3,9 stig, en næstur kemur 1947, 3,2 stig og síðan 1972, 1973 og 1987, allir með 3,1 stig. Árið 1847 hefur meðalhiti fyrstu tíu dagana kannski verið um fjögur og hálft stig en ekki er það nákvæm tala.
Meðalhitinn á Akureyri er nú 2,2 stig eða 4,7 stig yfir meðallagi. Þar er hlýjasti janúar 1947 þegar meðalhitinn var 3,2 stig.
Hið alræmda fylgiskjal fylgist með!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 13.1.2013 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2013 | 14:13
Fylgiskjalið
Nú er lag að birta aftur skýringar á fylgiskjalinu við veðurbloggfærslurnar.
Það er hægt að sjá hitann í Reykjavík (blaði 1) og á Akureyri (blaði 2) á þriggja tíma fresti allan mánuðinn, ásamt hámarks -og lágmarkshita þar sem reynt er að skipta milli daga á miðnætti en ekki kl. 18 sem þó oftast er venjan. Engar hámarks- eða lágmarksmælingar eru gerðar á kvikasilfursmæli frá kl 18 til kl. 9 næsta dag. Oft er þó hægt að sjá af klukkuhitanum um kvöldið og hámarksmælingunni kl. 9 (og sjálfvirku mælingunum) hvorum sólarhringnum hámarsks-og lágmarkstölurnar eiga við sem þar koma fram. Stundum ekki. Og ekki alltaf gott að segja hver hámarks-eða lágmarkshitinn hefur endilega verið frá kl. 18-24 eða frá kl. 00-09 þó þetta komi fram að morgni fyrir allan tímann frá kl. 18-09. En hér er þá bara settur inn sá hiti sem mælist á athugunartímum frá 21 og til morguns ef hann skákar öðrum tölum og óvissa er um þetta. En það gerist ekki oft. En mér finnst alltaf dálitið ankanalegt að sjá t.d. lágmarksmælingu sólarhringsins skráða hærri en t.d. klukkuhitinn kl. 21 eða kl. 24 eða þá hámarkshitann lægri en hita sem kemur fram kl. 21 eða kl. 24. Klukkuhita kl. 24 læt ég gilda bæði fyrir þann dag og næsta dag ef svo verkast vill. Einstaka sinnum verður gripið til mælinga sjálfvirku mælanna (búveðurstöðvarinnar fyrir Reykjavík en Krossanesbrautar fyrir Akureyri) og verður það skáletrað. Þarna getur hugsanlega skapast smávegis óvissa og ósamræmi stöku sinnum. En mjög sjaldan þó. Hefðbundnar uppfærslur á svona töflum geta menn séð á vef Veðurstofunnar og í prentuðum ritum frá henni og má alls ekki rugla mínum töflum saman við þær.
Dagsmeðaltöl hvers dags fyrir lengri tíma er þarna líka fyrir Reykjavík og Akureyri en kannski eru forsendurnar fyrir þeim ekki alveg eins á báðum stöðum. En þetta er nú bara sett til að lesandinn hafi einhver viðmið. Einnig sést mesti og minnsti meðalhiti sem mælst hefur nokkru sinni hvern dag og hámarks og lágmarkshiti fyrir bæði Reykjavík og Akureyri.
Úrkoma og sjódýpt sést með grænum lit fyrir Reykjavík og Akureyri og einnig mesta úrkoma sem mælst hefur á landinu og mesta snjódýpt.
Þá er þarna sólskin hvers dags og mesta sól sem mælst hefur viðkomandi dag. Og hámarks-og lágmarkshiti hvers dags á landinu öllu á láglendi eða í byggð eða á Hveravöllum ef verkast vill. Hveravellir eru hafðir með af því að það er eina hálendisstöðin sem hefur verið starfækt lengi og því gaman að bera t.d. lágmarkshitann þar saman við fyrri ár. Ef stöðvar eru bæði sjálfvirkar og mannaðar er alltaf farið eftir þeim mönnuðu. Þá er og sýndur mesti og mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst viðkomandi dag á öllu landinu. Þar að baki eru mælingar allra daga frá 1949 frá skeytastöðvum og frá 1961 á svonefndum veðurfarsstöðvum og frá sjálfvirkum stöðvum frá 1996. Einnig er dálkur um lægsta hámarkshita sem mælst hefur á landinu viðkomandi dag og ártal með en ekki stöðvarnafn. Samfelldar skrár eru ekki til fyrir 1949 en stökum hámarks-og lágmarksmælingum hefur verið bætt við úr Veðráttunni frá þeim tíma ef þær eru hærri eða lægri viðkomandi dag en kemur fram frá 1949. Það er bagalegt að ekki séu til samfelldar skrár frá eldri tímum, en þó mest fyrir fyrir kuldann því t.d. í janúar einum 1918 hafa líklega mörg dagskuldamet verið sett sem þó eru ekki aðgengileg. Í öllum þessum skrám á bloggsíðunni geta verið villur sem verða lagfærðar þegar þær finnast.
Þá kemur fram hitinn á miðnætti og á hádegi yfir Keflavík í 850 hPa og 500 hPa hæðum (um 1400 m og um 5,5, km). Og einnig svokölluð þykkt milli 1000 hPa og 500 hPa flatarins í metrum yfir Keflavík og Egilsstöðum. Því meiri sem hún er því betri skilyrði eru fyrir hlýindum en nokkuð misjafnt getur verið hvað það nýtist niður við jörð. Stundum vantar háloftamælingar frá Keflavík og Egilstöðum og er þá farið eftir almennum háloftakortum á netinu og er það skáletrað. Hæð frostmaarks yfir Keflavík kemur einnig fram.
Loks er samanlagur meðalhiti 10 stöðva, Reykjavíkur, Stykkishólms, Bolungarvíkur, Blönduóss, Akureyrar, Raufarhafnar, Egilsstaða, Hafnar í Hornafirði, Kirkjubæjarklausturs og Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Allt á þetta að vera auðskilið og tala sínu máli í fylgiskjalinu. Kannski verður að skrolla niður á réttan stað þegar skjalið er opnað og svo er líka hægt að skrolla upp og til hægri. Endilega skrollið upp og niður og allt um kring!
Í færsluflokkum hér til vinstri á síðunni er flokkur sem heitir Mánaðarvöktun veðurs. Þegar þangað er farið verður auðvelt að finna nýjustu bloggfærslu um það og síðan hverja af annari.
Varla þarf svo að taka fram að þetta er einkaframtak veðuráhugamönnum til skemmtunar. Og þó tölurnar séu frá Veðurstofunni komnar er framsetning þeirra með hugsanlegum villum og öllu saman á mína ábyrgð og eftir mínum kenjum eins og kemur fram hér að framan.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 10.1.2013 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2013 | 19:31
Janúarhitamet í Reykjavík
Árið er varla byrjað þegar hitametin taka að falla. Í dag mældist hámarkshitinn í Reykjavík 10,7 stig sem er það mesta sem þar hefur mælst í janúar. Gamla metið var 10,6 stig frá þeim fimmta árið 2002. Hitinn var 9,5 stig á athugunartíma kl. 15 og 9,6 stig kl. 18. Þetta eru mælingar á gamla góða kvikasilfursmælinum. Sjálfvirka stöðin fór í 10,1 stig en búveðurstöðin í 9,9 og Reykjavíkurflugvöllur í 10,4 stig. Kannski á hitinn enn eftir að stíga.
Hvergi annars staðar veit ég til að sett hafi verið hitamet á stöð sem lengi hefur athugað. Mestur hiti sem mældist á landinu var annars 13,4 stig á vegagerðarstöðinni Stafá, skammt vestan við Haganesvík, og á Hvanneyri 12,2. Á Torfum í Eyjafirði mældist hitinn 12,0 stig á kvikasilfrinu en 12,5 á sjálfvirku stöðinni.
Á Brúarjökli í 845 metra hæð hefur hitinn farið í 8,7 stig í dag. Mjög hlýtt loft er yfir landinu. Þykktin er vel á við hásumardag. Skilyrði í háloftunum voru fyrir um 18-19 stiga hita í Reykjavík en á norðausturlandi um 24 stiga hita. En það er önnur saga hvort þeir möguleikar nýtist við jörð í raun og veru um hávetur og ekki er nú sólinni fyrir að fara.
En við megum vel við hitametið í höfuðstaðnum una.
Samt eru margir að býsnast yfir veðrinu þar á fasbók! Það er nú bara eitthvað að því fólki.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 9.1.2013 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2013 | 17:30
Sérstakt ársmet í Reykjavík
Bloggar | Breytt 4.1.2013 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006