Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Á dauða mínum átti ég von

Fremur en því að ég væri með atkvæði mínu að stuðla að því að hægri ríkisstjórn héldi áfram að ríkja í landinu. Ég kaus Samfylkinguna með það í huga að styrkja það afl sem sterkast væri í andstöðu sinni við Sjálfstæðisflokkinn í stjórnmálum.

Nú sit ég og aðrir uppi með það að Geir Haarde er ekki aðeins kominn með svikulustu stelpuna á ballinu heim til sín heldur liggur hún alveg marflöt fyrir honum. 

Það hlýtur að verða algjört örverpi sem kemur undir í þeim ljóta leik.


Hvað á að gjöra við ríka fólkið?

Ég held að ég sé kominn með heilablóðfall. Ég er svo sljór og heimskur eitthvað. Og þungur í hausnum. Einn vinur minn segir að ég sé með léttustu mönnum. En nú er ég með þyngstu mönnum. Kosningavindurinn er líka alveg rokinn úr mér. Mér leiðist reyndar pólitík eins og hún nú er orðin. Ef ég má orða það mjög ófrumlega: Það er sama rassgatið undir þeim öllum. Mér er reyndar ekkert verr við Framsóknarflokkinn en aðra flokka ef einhver hysterískur aðdáandi þessarar síðu skyldi halda það. Bye the way. Lesturinn á síðunni hefur tekið  fjörkipp eftir að ég aflaði mér þessara fræknu og allsvakalegu bloggóvina. 

En ég kaus núna í fyrsta skipti í nokkur ár vegna þess að ég er svo gamaldags að mér hrýs hugur við því hvernig þjóðfélagið er að breytast annars  vegar í samfélag hinna ofurríku og hins vegar samfélag hinna blásnauðu. Ég kaus þess vegna með veika von um úrbætur í þeim efnum. Þegar ég var lítill og ég var víst alveg hlægilega lítill þegar  ég var lítill eins og ég hef oft sagt á þessari síðu var bara einn og einn miljónamæringur á stangli og voru að mestu leyti til friðs. Og þeir voru öreigar í samanburði við ríkisbubba nútímans.

Ég trúi því ekki að það hafi eitthvað með dugnað, því um síður mannkosti, að gera að verða svona óskaplega  ríkur. Óþolandi duglegt  fólk er út um allt og nær frábærri færni í sínu starfi en verður ekki forríkt. Nei, þetta hefur eitthvað með skapgerð og viðfangsefni að gera að verða svona moldríkur. Að nenna að standa í því að vasast í viðskiptum eða bankastandi. Að vera gráðugur og svífast einskis.

Ég held að þetta sé fyrst og fremst andlegt undirmálsfólk. Og mér finnst að eigi að meðhöndla það eftir því en ekki að vera setja það á háan hest fyrir allra augum sem eitthvert yfirburðafólk.

Mér finnst að ætti að gera það höfðinu styttra.

En þar sem ég var að fá heilablóðfall og hugsanir mínar eru nú mjög blóðidrifnar ætla ég nú bara að halda þessari meiningu fyrir sjálfan mig.

 

 

 


Lánið elti ekki Jón

Ef Jón Sigurðsson hefði nú bara haft vit á því að fara að syngja í sjónvarpssal í kosningabaráttunni sjálfri, en ekki fyrst í Kastljósi gær, hefði hann flogið inn á þing með glans. Alla vega hefði ég kosið hann. Þarna var hann kominn skemmtilegi maðurinn sem ég var að lýsa eftir hér á síðunni í ýkjustíl um daginn. jonsig

Mikið er gott að hann skuli vera enn á lífi og við góða heilsu.

Að öðru leyti tjái ég mig ekki um úrslit kosninganna  nema hvað það er auðvitað alveg ljóst að Íslendingar eru hænsn, einsog þar stendur. Já, með stórum stöfum meira að segja

Og í  þessum blogguðu orðum ætla ég að fara út og ærslast í sólinni!    


Afhverju talar lögreglan tæpitungu?

Hvað felst að baki þeirra orða lögreglunnar að rúmensku götulistamönunum hafi verið "boðið" að hverfa úr landi? Það sagði lögreglumaður á Akureyri í sjónvarpinu.

Verður lögreglan ekki að skýra þjóðinni frá því í hverju boðið var í rauninni fólgið? 

Það er með engu móti hægt að taka svona skýringar alvarlega og það er lögreglunni til vansæmdar að láta þær frá sér fara. Það ber heldur ekki vott um vandaða fréttamennsku þegar fréttamaður sjónvarpsins spurði lögreglumanninn á Akureyri hvort kvartað hafi verið yfir tónlistarsmekk Rúmenanna sem voru að leika á götunum. Og lögreglumaðurinn glotti og jánkaði því.

Er hægt að afgreiða þetta mál með svona léttúð þegar vísbendingar hafa komið fram um að þessir útlendingar séu líkast til í klóm okurlánara, sem sagt glæpamanna, sem taka ekki á þeim með vettlingatökum fremur en íslenska lögreglan?     


Live Earth tónleikarnir

Í Fréttblaðinu á laugardaginn var sagt frá því á forðsiðu að 7. júlí verði haldnir tónleikar undnir nafninu Live Earth í nokkrum helstu borgum heims. Reykjavík kæmi til greina sem einn af tónleikastöðunum  (þó varla sé hún ein af helstu borgum veraldar). Beðið hefur verið um styrk frá stjórnvöldum til að halda tónleikana en því erindi hefur ekki verið svarað. Reiknað er með að tveir miljarðar fylgist með tónleikunum í beinni útsendiningu. Í þessu sama blaði skrifar Andri Snær Magnason grein um umhverfismál og víkur að þessum tónleikum og er hneykslaður mjög á tregðu stjórnvalda til að greiða götu þeirra. Hann tekur fram að hingað eigi að koma erlendar ofurstjörnur. Ýmsir bloggarar hafa tekið undir með Andra Snæ og ná ekki upp í nefið á sér fyrir reiði út í ríkisstjórnina vondu.  

Umræddir tónleikar verða haldnir fyrst og fremst til að vekja ríkisstjórnir og þjóðir heims til aðgerða til að sporna gegn hlýnun jarðarinnar að því sagt er.

Áður en lengra er haldið vil ég taka þetta fram:

Ég er mikill náttúruunandi. Ég hef sýnt það í verki með því að heimsækja nánast allar byggðir landsins, farið inn í hvern fjörð og hvern afdal, og nokkuð hef ég farið um hálendið en á það þó eftir að miklu leyti. Hvar sem ég hef farið hef ég verið vakandi yfir náttúrfarslegum sérkennum hverrar sveitar. Ég hef fylgst með íslensku veðurfari frá degi til dags í áratugi og lesið allt sem ég hef komið höndum yfir um það efni og einnig um annað náttúrufar, eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð, vatnahlaup og allt hvað þetta hefur.

Þá hef ég sökkt mér niður í byggðasögu hvers héraðs og auk þess hef ég lesið margt og mikið um sögu þjóðarinnar almennt að ógleymdum þjóðsögunum sem sagðar hafa verið um allar sveitir. Loks hef ég síðustu árin kynnt mér ættfræði og landfræðilegan uppruna helstu ætta í landinu.

Ég hef einnig gert í því að fræðast um gróður fósturjarðarinnar og þessi fáu landdýr sem hér lifa og um alla fuglana í loftinu og fiskana í sjónum. Mér finnst líka unaðslegt að lesa um lifnaðarhætti íslenskra skordýra og annarra undirmálskvikinda. Sögu Framsóknarflokksins hef ég í alveg sérstökum hávegum.  

Allt er þetta mér síður en svo dauður vísdómur, þurr fróðleikur, heldur lifandi kvika mikils næmleika fyrir náttúru landsins og þeirri þjóð sem hefur lifað hér frá fyrstu tíð. Blæbrigði hvers héraðs hvað náttúru og veðurfar snertir hef ég heilmikið á tilfinningunni og þau eru mér uppspretta gleði og fagnaðar hvern einasta dag á öllum árstíðum. 

Þetta vildi ég nú sagt hafa ef einhverjum dytti í hug að saka mig um það að unna ekki íslenskri náttturu.   

Og ég hef viðbjóð á stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda.

Mér hryllir hins vegar við tilhugsuninni einni um að hér verði haldnir rokktónleikar með erlendum ofurstjörnum og tvö þúsund miljónir hýsterískra aðdáenda fylgist með þeim.

Ég hef aldrei almennilega gert grein fyrir skoðunum mínum í loftslagsmálunum. Mér hefur fundist að ég yrði að gera það nokkuð rækilega og vandlega og hef hreinlega ekki gefið mér tóm til þess.

Aðalatriðin get ég þó tíundað.

Ég efast ekki um að hlýnað hefur á jörðinni og að umsvif mannanna eigi hlut í þeirri hlýnun.

Ég hef fylgst með veðurfari lengi og breytingum á því og engin fræði finnst mér göfugri  en loftslagsfræðin ef ég má verða ofurlítið sentimental. Hins vegar hef ég megnustu andstyggð á því hvernig loftslagsfræðin hefur verið notuð í alþjólegu stórpólitísku fári með öllum þeim öfgum og fanatík sem fylgir frelsunarpólitík. Því okkur er vissulega sagt að heimurinn sé að farast og það verði að bjarga honum. (Ég hef líka óbeit á þeirri grunnhyggni og fljótfærni sem veður uppi í fjölmiðlum og annars staðar og birtist í því að öll tilbriðgi í veðurfari eru umsvifalaust skrifuð á reikning "gróðurhúsaáhrifanna" svo jafnvel venjuelg hitamet eru talinn óræk sönnun fyrir þeim).     

Og þá eru leiddir fram þeir bjargvæddir sem helst geta víst frelsað heiminnn. Alþjóðlegar ofurstjörnur í rokki!

Ég gæti gubbað.

Ekki þarf þó að efast um eldlegan áhuga þeirra á þessum monsterkonsert sem fá glýju í augun eða öllu heldur kling í eyrun yfir poppi og rokki hvers konar sem reyndar er að verða sannkölluð alheimsplága varla vægari en hlýnun jarðarinnar. Tregða stjórnvalda til að leyfa þessa tónleika verður líka auðvitað vatn á myllu þeirra sem vilja nota allt sem tönn á festir sínum eigin stjórnmálaskoðunum til framdráttar. Mínar stjórnmálaskoðanir hafa alltaf verið til vinstri en þær koma þessu máli bara ekkert við. Ég er bæði á móti ríkisstjórninni og tónleikunum. 

Tvö þúsund miljónir hysterískra aðdáenda sem allir hugsa á sömu rokkuðu nótunum! 

Menn geta rétt ímyndað sér hvernig umræðan um loftslagsmálin verður hér á landi eftir slíkan voða atburð.

Nógu eru hún einsýn og ofstækisleg fyrir. 

 

 


Afsökunarbeiðni

Þegar ég var strákur í Gaggó Aust var þar einn eldri nemandi sem var algjör stjarna í skólanum. Hann var alveg hryllilega gáfaður og skemmtilegur og svo mælskur að það leið yfir stelpurnar þegar hann steig í ræðustól en þar vildi hann helst alltaf vera. Stelpurnar, sem nú eru reyndar orðnar stútungskellíngar, voru líka bálskotnar í honum. Eiginlega gerði þessi maður allt vitlaust í skólanum með því einu að vera bara til. 

Það sópaði beinlínis að honum. Líka utan skólans enda virtist hann vera tíu árum eldri en hann var. Ekki síst gerði hann garðinn frægan í Keflavíkurgöngum þar sem hann kjaftaði sig með glans inn á aðal númerin sem voru auðvitað öll afgamlir kommar og einstakir gáfumenn.

Ég keypti mér jakka eins og þessi maður átti.

Hann var sem sagt eitt af mínun átrúnaðargoðum þegar ég var í gaggó.

Hann hét Jón Sigurðsson og allir spáðu honum glæstum frama.

Svo liðu árin. Löng og ströng fyrir alla. 

Þegar Jón Sigurðsson opnar nú munninn vellur út úr honum vélræn munnræpan með þvílikum frösum og endemum að menn eru farnir að kalla hann páfagaukinn. Hann þykir nú lang leiðinlegasti og hallærislegasti stjórnmálamaður landsins. 

Hvað varð af brilljant og skemmtilega manninum sem einu sinni hreif alla með sér?

Hvar hafa dagar lífsins lit sínum glatað? Gerir pólitíkin alla svona leiðinlega?

Ég biðst innilega forláts á því að hafa fallið fram fyrir þessu átrúnaðargoði í æsku minni.

Þá var maður nú ungur og vitlaus.    


Þarf nú ekki að endurskrifa

Pétur Pétursson prófessor í guðfræði er að koma á fót félagi vistfólks á barnaheimilum fyrr á tíð er telja sig hafa sætt þar illri meðferð.  

Þá vaknar ein spurning. Hvað ef stúlkur sem voru vistaðar á Bjargi sem rekið var á vegum Hjálpræðishersins vilja ganga í félagið? 

Pétur prófessor skrifaði nefnilega sögu Hálpræðishersins, "Með himneskum armi", sem út kom árið 1995. Þar segir Pétur í all-löngu máli frá rekstri stúlknaheimilisins og tildrögum þess að því var lokað haustið 1967. Fjölmiðlar sögðu að stúlkurnar teldu sig hafa sætt illri meðferð en Pétur hefur allt aðra sögu að segja í bókinni og getur að engu um viðtalið við stúlkurnar sem kom í vikublaðinu Ostrunni 6. nóvember 1967. Það finnst mér ófyrirgefanleg hlutdrægni. 

Ekki er að sjá í bókinni að Pétur  hafi séð nokkuð athugavert vð rekstur heimilisins. 

Öðru nær. Hann skrifar að margir þeir sem búast hefði mátt við að styddu kristið heimili af þessu  tagi hafi þagað þunnu hljóði "þegar ómaklega var á það ráðist" (bls.184). Sem sagt:  Ásakanir stúlknanna um illa meðferð sem fjölmiðlar sögðu frá voru rangar. Allt var í himnalagi og vitnisburður um annað "ómaklegur".  Höfundur skrifar að tildrögin að lokun heimilsins hafi verið þau að ein stúlkan hafi verið með barn sitt en það hafi verið tekið af henni því stofnunin hafi ekki verið hugsuð fyrir stúlkur með börn. Stúlkurnar hafi fundið sterka samkennd með stöllu sinni og þótt aðgerðirnar hámark frelsisskerðingar."Nemendurnir fylltust hatri sem beindist gegn starfskonum og stjórn heimilisins. Þegar þær fengu siðferðislegan stuðning utanfrá, magnaðist þetta hatur. Í blaðaviðtölum og yfirheyrslum í sambandi við lögreglurannsókn sem fram fór í árslok fegnu þær útrás fyrir þetta hatur" (bls.190). 

Ekkert smáræðis hatur í þessum "vandræðastúlkum" Og auðvitað algjörlega að  ástæðulausu. Þannig var nú þetta að dómi höfundar bókarinnar, Péturs Péturssonar guðfræðings. Á sínum tíma, 1967, var engu líkara en stúlkurnar væru "sökudólgarnir" í málinu við rannsókn þess líkt og gerðist á þeim árum með konur sem sögðust hafa verið nauðgað og gerist það víst stundum enn! Og ekki hafði þetta mat á atburðum breyst hætishót árið 1995.

Já, hvað ef stúlkur sem voru á Bjargi vilja ganga í þetta væntanlega félag?

Ef söguskoðun Péturs Péturssonar er rétt var ekkert  athugavert við heimilið, stúlkurnar urðu ekki fyrir neinu misjöfnu og hafa því ekkert að gera með að ganga í svona félag. Hafi stúlkurnar hins vegar sætt illri meðferð verður Pétur að endurmeta þessa atburði opinberlega.

Það nær ekki nokurri átt að sú saga af Bjargsmálinu sem sögð er í "Undir himneskum armi" fái að standa sem hin "opinbera" söguskýring þessara atburða.

En líklega er þess skammt að bíða að sagan verði sögð af stúlkunum sjálfum en ekki bara Hjálpræðishernum og hirðsöguritara hans.

Viðtalið í Ostunni við stúlkurnar á Bjargi má lesa á meðfylgjandi pdf-skjali. Það hefur að vísu birst áður á þessari síðu en sjaldan er saga um ranglæti gegn minnimáttar of oft sögð. Skjalið er smástund að opnast.

himneskurarmur2Ekki get ég svo þagað yfir því, úr því maður er kominn með einkafjölmiðil, að langafasystir mín, Guðjónía Bjarnadóttir, var fyrsti "æskulýðsfulltrúi" Hjálpræðishersins. Hún orti eldheita afturhvarfssálma í Herópið og þrumaði yfir syndum spilltum lýðnum á Lækjartorgi. Hún var sómakona mikil og ekki síður maður hennar, Þóroddur Bjarnason skósmiður. Dætur þeirra létu einnig til sín taka í Hernum en settust að í Danmörku. Fjölskyldan bjó í Sólheiði á Urðarstíg og kom móðir mín stundum til hennar þegar hún var ung og átti leið til Reykjavíkur. Guðjónía lést á stríðsárunum síðari.

Hér má sjá mynd af fjölskyldunni fyrir framan Sólheiði. Guðjónía er sú með hattinn. Mér sýnist önnur dóttir þeirra hjóna, sú sem er vinstra megin við stóra manninn, vera alveg fáránlega lík mér! Smellið á myndina með músinni til að stækka hana. Myndin er tekin úr "Undir himneskum armi" en þangað er myndin líklega komin úr Herópinu.  

     

  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Viðtalið við Bjargstúlkurnar haustið 1967

Hér á þessari bloggsíðu má nú lesa viðtalið sem birtist við stúlkurnar á Bjargi í vikuritinu Ostrunni 6. nóvember 1967. Ostran var ekkert æsiblað heldur rit ætlað ungu fólki og var ritstjórinn Ásgeir Ásgeirsson.

Ostran var í mjög stóru broti og einstaklega óhentugu til að ljósrita eða skanna eða birta á bloggsíðu. Hér er því gripið til þess ráðs að birta vitalið í nokkrum myndskjölum sem þurfti að sníða sérstaklega í mislanga dálka vegna hins  erfiða brots sem var á blaðinu. Myndum sem birtust með viðtalinu verður flestum að sleppa.    

Þegar ég skrifaði færsluna í gær um stúlknaheimilið á Bjargi vissi ég ekki að DV hefði gert málið að umtalsefni. Ég hvet alla til að kynna sér þá umfjöllun. Þar er m.a. talað við Gísla Gunnarsson sagnfræðing sem varð fyrst kunnur með þjóðinni einmitt vegna þessa máls.

Mér hefur mál þetta alltaf verið sérlega minnisstætt. Ég man vel þegar það kom upp. Síðar bjó móðir mín lengi í næsta húsi við Bjargið og ég hafði það því fyrir augunum svo að segja daglega og varð oft hugsað um það hvernig líf þessara stúlkna hefði nú orðið eftir vistina. Og alltaf geymdi ég þetta viðtal í Ostrunni. Löngu síðar frétti ég nokkuð um afdrf sumra stúlknanna eftir góðri heimild og veit að það er rétt sem Gísli Gunnarsson segir í DV að þær þurfi aðstoðar við.

Það var aldrei í hámæli -  en hér er rétt á það drepið í viðtalinu - að Bjarg hafði aðgang að einangurnarvistarklefa á Upptökuheimilinu í Kópavogi þar sem stúlkurnar voru látnar dúsa ef þær brutu alvarlega af sér. Þetta var ekkert á hjara veraldar eins og Breiðavík. Það var í Kópavogi.   

Viðtalið við stúlkurnar í Ostrunni má lesa í eftirfarandi myndskjölum. Það tekur smá tíma að fletta þeim öllum og menn verða að gæta þess að stækka letrið ef með þarf á tölvunni sinni. En lesturinn er nánast eins og verið sé að tala um Breiðuvík.       

Athugið!  Nú er líka hægt að sjá allt viðtalið í einu á pdf-skjali sem er fjórða efsts fylgiskjalið. Það tekur kannski smátíma að opnast.     


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á að gleyma stúlkunum á Bjargi?

Nú lofa menn uppgjöri við fortíðina í Breiðavíkurmálinu, Heyrnleysingjaskólanum og Byrginu í því skyni að veita þolendunum einhverja síðbúna hjálp. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki verði lika að fara yfir sögu stúlknaheimilisins á Bjargi sem rekið var af Hjálpræðishernum en var lokað haustið 1967. Allt lék á reiðiskjálfi í þjóðfélaginu þegar stúlkurnar sögðust hafa verið beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi og orðið fyrir lesbískri kynferðislegri áreitni. Þetta kom fram í lögregluyfirheyrslum og í viðtali við þær 5. nóvember 1967 í  vikublaðinu "Ostrunni".

Viðtalið er sögulega merkilegt vegna þess að það var eitthvert fyrsta tækifærið sem ungmenni, er segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi fullorðinna, hafa fengið til þess að segja sögu sína í fjölmiðlum. Stúlkurnar segja í viðtalinu um viðbrögð foreldra sinna um harðræðiðið á Bjargi:

"Þeir trúðu okkur aldrei þegar við sögðum þeim hvernig væri þar..." Og aðspurðar hvort þær hefðu aldrei kvartað í barnavernarnefnd svöruðu þær: "Það þýddi ekkert".

Er ekki eitthvað kunnuglegt við þetta?

Sakadómur taldi eftir vægast sagt hlutdræga rannsókn ekki ástæðu til sérstakra aðgerða gegn stjórnendum heimilisins þrátt fyrir framburð stúlknanna, sem voru yfirheyrðar strax til að þær bæru ekki saman bækur sínar, en starfsfólk heimilisins hins vegar eftir margar vikur. Eiginlega var litið á stúlkurnar sem "sökudólgana" í málinu með þessum vinnubrögðum en slíkt viðhorf var algengt til kvenna sem t.d. kærðu nauðgun á þessum árum og er jafnvel enn. Vistheimilinu var hins vegar lokað og það segir þá sögu að menn töldu að þar væri ekki allt með felldu. Það var aðferð samfélagsins á þessum árum til að díla við svona mál. Á þeim tíma gat enginn hugsað sér að stofna til málaferla um meinta lesbíska kynferðislega misnotkun. Menn hefðu bara ekki meikað það. 

Sú stúlka sem kom þessu öllu af stað með framburði síinum er nú látin en hinar munu vera á lífi. Saga þeirra eftir vistina á Bjargi er ekki ósvipuð og drengjanna í Breiðavík nema hvað þær fóru ekki út í afbrot. Afleiðingar svona ofbeldis koma öðru vísi fram hjá stúlkum en drengjum. En þær sem þarna dvöldu eru núna, að minnsta kosti sumar hverjar, niðurbrotnar miðaldra konur. Það veit ég fyrir víst. 

Rétt er að geta þess að vistheimilið á Bjargi sem nú er þar rekið fyrir geðsjúka  á ekkert skylt við fyrri starfsemi á staðnum. 

Ef við viljum vera sjálfum okkur samkvæm verðum við að rannsaka þetta gamla Bjargsmál upp á nýtt.  Auðvitað ekki til að "leita að sökudólgum" heldur til að geta veitt þolendunum þá hjálp og samúð sem við viljum sýna þolendunum í Breiðuvík, Byrginu og Heyrnleysingjaskólanum.

Er hægt að komast hjá þessu?   

  


Meira um Breiðavík - og sitthvað fleira

Það er frábært af Ingibjörgu Sólrúnu að taka Breiðavíkurmálið upp á Alþingi og Vilhjálmi borgarstjóra að bregðast líka strax við. Svo sjáum við hvað setur. Öllum er hrikalega  brugðið. Og að sjá Lalla Johns gráta er eitthvað sem enginn getur gleymt.

Eins og ég hef nefnt hér á síðunni hefur ástandið í Breiðavík áður verið dregið fram, ekki aðeins í gömlum skýrslum og blaðafrásögnum, heldur líka í bókinni "Staddu þig drengur" eftir Stefán Unnsteinsson sem kom út árið 1980. En það er eins og þjóðin hafi ekki treyst sér til að gera upp við þessa atburði fyrr en núna.

En víkjum nú að öðru hitamáli. Hádegisviðtalið á Stöð tvö í gær við Harald Ólafsson var mjög merkilegt. Þar var ekki aðeins farið í nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um gróðurhúsáhrifin heldur líka sagt frá könnun Haraldar og nemenda hans á breytingum á veðurfarinu sem vænst er á okkar eigin landi.

Hitna mun meira inn til landsins en við strendur og kemur það ekki á óvart. En kannski meira það að vetur eru ekki taldir hlýna sérlega mikið  og heldur ekki sumarið en hins vegar vorin og haustin. Þetta þýðir lengri sumur. Ástæðan fyrir tiltölulega lítilli vetrarhlýunun felst í því að búist er við aukinni norðanátt á vetrum. Og ástæðan fyrir því er aftur sú að draga mun úr sunnanátt  með lægðagangi á vetrum en þær eiga fyrst og fremst uppruna sinn í kuldanum, eða mismun kulda og hita, þegar kuldinn minnkar og hitinn eykst, minnka andstæðurnar og fóðrið fyrir lægðir með suðrænt loft. Hins vegar var sagt að norðanveður munu verða jafnvel enn harðari en áður og meiri úrkoma að vetrarlagi fyrir norðan en þá bjart og þurrt fyrir sunnan eins og gerist vanalega við slíkar aðstæður. Snjór mun þá væntanlega aukast til fjalla og jafnvel í sumum snjóasveitum fyrir norðan.

En norðanáttinn hlýtur að verða nokkru hlýrri en hún hefur lengst af verið vegna hlýnunar sjálfs lofthjúpsins og þá ekki síst á norðlægum slóðum.

Gaman væri að vita eitthvað meira um þessar rannsóknir. 

Nú er skammdegið áreiðanlega búið. Í gær skein sólin í 6 klukkustundir og 18 mínútur og ekki skinið lengur síðan 29. október og ekki mun hún skína minna í dag blessunin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband