Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.9.2007 | 16:24
Hvernig yrði lífið í landinu?
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn í Reykjavík mætti í viðtali á sjónvarpsstöðinni Omega í einkennisbúningi sínum og sagði að sögn Blaðsins í dag, að það væri heillavænlegri lausn að senda trúboða út af örkinni til að leysa miðborgarvandann heldur en að fjölga þar lögregluþjónum." Hann vill að óeirðaseggirnir fái að kynnast drottni".
Í 17. grein reglugerðar um einkennisbúninga og merki lögreglunnar er kveðið á um að lögreglumönnum sé óheimilt að nota einkennisfatnað utan lögreglustarfs, nema með heimild lögreglustjóra.
Í Blaðinu segir: Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kannast ekki við að Geir Jón hafi verið í erindum lögreglunnar í þessu viðtali á Omega."
Þetta þýðir að Geir Jón fékk ekki leyfi frá lögreglustjóra til að nota einkennisbúninginn utan lögreglustarfsins.
Hann braut því klárlega þessa 17 grein reglugerðarinnar.
Og hann hefur játað brot sitt og segir Það má kannski segja að það hafi verið mistök hjá mér að mæta þarna í einkennisbúningi vegna þess, ég get tekið undir þá gagnrýni á mig."
Hvað svo?
Þegar lögreglan gómar fólk fyrir að henda rusli í miðbænum breytir engu þó það játi brot sín og gráti beisklega, það verður eigi að síður gert ábyrgt gerða sinna og sektað. Verður þá ekki að bregðast á svipaðan hátt við þeim sem opinberlega brjóta reglugerðir ríkisins?
Blaðið segir: Stefán segist ekki hafa fengið neinar athugasemdir eða ábendingar varðandi þáttinn en ef um eitthvað athugunarvert sé að ræða af hálfu starfsmanns embættisins þá verði það mál afgreitt gagnvart honum en ekki opinberlega. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um það."
Maður spyr sig hvort brot jafn háttsetts manns í lögreglunni fyrir allra augum í sjónvarpi eigi bara að leysa í pukri bak við tjöldin. En fyrst og fremst hvort tregða lögreglustjórans til að ræða málið sé vísbending um það að hjá lögreglunni verði horft framhjá þessu broti með því að yppta bara öxlum.
Hugmynd Geirs Jóns um trúboð yfir óeirðaseggjum miðbæjarins býður hins vegar upp á aðrar pælingar og all-glæfralegar.
Hugsum okkar að kristnir heittrúarmenn eins og Geir Jón sjálfur, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel, næðu á einhvern hátt völdum í þjóðfélaginu á öllum sviðum. Þeir væru í ríkisstjórn, hefðu meirihluta á alþingi og réðu lögum og lofum í öllum ríkisstofnunum og bæjarstjórnum, stýrðu menntakerfinu, heilbrigðismálunum og auðvitað Þjóðkirkjunni og hvers kyns samtökum, svo sem sem æskulýðs -og íþróttafélögum.
Hvernig ætli lífið í landinu yrði ef þetta mundi gersast?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2007 | 19:24
Gróft mannréttindabrot, segir Mannréttindaskrifstofan
Framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar var að segja í sjónvarpsfréttum að nefndin teldi að konan á Selfossi hefði orðið fyrir grófu mannréttindabroti sem jafna mætti við pyntingnar. Sérstaklega væri það alvarlegt að konan hefði ekki fengið tækifæri hjá saksóknara til að leita réttar síns. Mannréttindaskrifstofan er að senda skýrslu um þetta mál til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Og ætla menn hér heima að láta yfirvöld og lækninn, sem sagt er að hafi verið viðstaddur þegar mannréttindabrotið var framið á konunni og var ábyrgur fyrir læknisfræðilega hlutanum, komast upp með svona brot fyrir augum allrar þjóðarnar svo að segja?
Skyldu ráðherrar heilbrigðismála og dómsmála hafa eitthvað um þetta að segja?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.8.2007 | 20:35
Þeir ófyrirleitnustu og ósvífnustu
Ólína Þorvarðardóttir og Dögg Pálsdóttir voru að ræða um stóra þvagleggsmálið í Kastljósi.
Mér fannst Dögg betri. Hún var svo róleg og yfirveguð og hvert orð hafði skýra meiningu, hvorki of né van. Svona er hún alltaf. Ólína var aftur á móti ekki í essinu sínu. Einhver sjálfvirkur talandi hrifsaði af henni völdin. Hún komst eiginlega ekki að neinni skýrt afmarkaðri hugsun fyrir orðaformálum. Hún er miklu betri í þessu máli á bloggsíðunni sinni en hún var í Kastljósi.
Dögg viðurkenndi að ef sýnistakan hafi farið fram á þann hátt sem lýst hefur verið hafi það verið æði groddalegt (man ekki það sem hún sagði orðrétt) en hún tryði því bara ekki að þannig hafi það gerst. - Það hafi verið læknir viðstaddur.
Einmitt.
Það var læknir viðstaddur. En hvað ef þetta gerðist nú samt sem áður á þennan hátt þó læknir hafi verið viðstaddur?
Það verður því að tala við lækninn. Ekki samt af fréttamönnum. Það verður að rannsaka þetta af hlutlausum aðila og komast til botns í því.
Já, ef þetta gerðist nú eins og lýst hefur verið - með samþykki læknisins.
Yfirlæknir slysadeildar í Reykjavík lagði í sömu sjónvarpsfrétt og sýslumaður lét ljós sitt skína áherslu á það að þó læknar hefðu skyldur við lögreglu væri frumskylda þeirra að gæta virðingar sjúklinga sinna.
Konan var sjúklingur viðkomandi læknis meðan sýnið var tekið með þvaglegg.
Þessi frumskylda lækna við sjúklinga er afar mikilvæg og það veit manneskja eins og Dögg Pálsdóttir manna best og auðvitað margir fleiri. En sýslumaðurinn á Selfossi þó klár sé og aðsópsmikill virðist ekki vita það. Eða honum stendur bara á sama.
Hneykslun hans, sem kom svo ódulin fram í sjónvarpsfréttinni, yfir því að læknar vilji vera vakandi yfir þessari skyldu sinni gagnvart sjúklingum, að gæta virðingvar þeirra, er ekki hægt að skilja öðru vísi en sem árás á þessa aldagömlu skyldu lækna við sjúklinga.
Og það er ekki ölóður maður sem talaði heldur virðulegur embættismaður. Fulltrúi ríkisvaldsins.
Þess er að vænta að skilaboð sýslumannsins fari hvorki framhjá samtökum lækna né hinum almenna borgara í landinu. Þau eru þjóðfélaginu nefnilega miklu háskalegri ef þau yrðu almennt ofan á heldur en ölvunarakstur einstaklings þó vondur sé og svívirðilegur.
Ég trúi því ekki að læknar láti það líðast að ófyrirleitnustu og ósvífnustu embættismennirnir komist upp með aðför að siðareglum lækna eins og ekkert sé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.12.2008 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.8.2007 | 11:32
Ofbeldi, segir formaður Læknafélagsins
Ekki bjóst ég nú við öðru en að svona mundu forsvarsmenn lækna líta á þvagleggsmálið. Ofbeldi, segir formaður Læknafélagsins fullum fetum.
Fréttir af atburðinum hafa reyndar verið nokkuð ruglingslegar. Hafi læknir á einhvern hátt verið ábyrgur fyrir þvagtökunni ætti hann að taka afleiðingum gerða sinni fyrir siðanefnd lækna eins og ég hef vikið að áður hér á blogginu. Eða var þetta kannski bara löggan upp á sitt eindæmi sem tók þvagsýnið?
Þá versnar nú í því. Þetta atriði þarf að koma fram á óyggjandi hátt.
Konan beitt ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.8.2007 | 02:06
Konan ætti að kæra til siðanefndar lækna
Mér finnst að konan sem tekið var af þvagsýni á Selfossi eigi að kæra lækninn, sem var ábyrgur fyrir læknisfræðilega þættinum, fyrir siðanefnd lækna fyrir að hafa látið þetta viðgangast. Þetta er einmitt mál sem kemur inn á grundvallarspursmál um siðferðislegar skyldur lækna gagnvart þeim sem þeir gera á aðgerðir. Læknar eiga að halda sjálfstæði sínu í þeim efnum gagnvart yfirvöldum. Þeir eru ekki þjónar þeirra. Jafnvel þó þeim sé skipað að gera eitthvað með dómskúrskurði stendur það eftir að þeim ber að taka á siðferðislega þættinum og óhlýnðast fyrirskipunum á þeim grundvelli ef því er að skipta, um sé t.d. að ræða niðurlægjandi og meiðandi aðgerð.
Það er þá líka með ólíkindum að íslensk læknastétt láti það líðast umræðulaust að læknar taki þvagsýni úr fólki sem yfirvöld svipta sjálfræði eingöngu til að koma fram vilja sínum að fá sýni sem sönnunargagn í umferðalagabroti þó læknar hafi neitað að gera aðgerðina meðan manneskjan hafði sjálfræði af því að hún neitaði því. En þetta hefur átt sér stað sagði yfirlæknir slysadeildar í tíufréttum sjónvarsins í kvöld. Ég undrast aðgangshörku yfirvalda að beita slíkum brögðum fremur en viðurlögum við óhlýðninni því sjálfsræðissvipting er ekki gamanmál og ætti ekki að beita nema í ýtrustu neyð og ég næ því bara ekki að læknasamfélagið láti slíkt líðast, að þeir geri ekki uppreisn gegn því hvað svona tilefni snertir.
Ef þetta mál konunnar fer ekki fyrir siðanefnd lækna fer gullið tækifæri forgörðum til að glíma við mikilvæg álitamál sem snerta undirstöðuatriði.
Hættan af ölvunarakstri og hvernig taka ber á mótþróa gagnvart lögreglunni er svo annar handleggur en kemur ekki við þessum siðræna þætti er lýtur að samskiptum lækna við sjúklinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.8.2007 | 12:48
Áfengisdýrkun
Þegar ég kom heim frá Krít ók ég heim frá flugvellinum um Lækjargötuna klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudags. Mér brá í brún að sjá þann rónalega subbuskap sem blasti við hvarvetna en ótrúlegt margmenni var á götunum. Engan sá ég samt laminn til óbóta fyrir augunum á mér.
Nú les ég á netfréttum að "mikill erill" hafi verið hjá lögreglunni í nótt og "mikil ölvun". Þetta orðalag sem notað er í fréttum þýðir í raun og veru að allt hafi logað í fylliríi. Þá sá ég fyrir mér subbuskapinn í miðbænum þegar ég kom heim í margföldu veldi. Það var líklega góða veðrið sem olli því að þrátt fyrir fjöldafyllirí varð ekki vandræðaástand. En menningarnótt, eins og svo margt annað á Íslandi, er orðin að algjörri múgæsingu. Einn þriðji hluti þjóðarinnar æðir í bæinn til að rápa og drekka bjór. Það er tímasuprsmál hve nær allt fer úr böndunum við slíkar aðstæður með þvílíkum ósköpum að ekki er hægt að hugsa það til enda.
Það er bara tímaspursmál.
Mikið er rætt um "ástandið" almennt í miðbænum um helgar en sumir vilja þó meina að það sé svo sem ekkert "ástand". Það er vel þekkt að sóðar verða samdauna sóðaskapnum í sjálfum sér. Ýmislegt hefur mönnum dottið í hug sem gæti bætt ástandið. En það er eitt sem menn passa sig vel á að nefna ekki:
Hvaða þátt umgengni þjóðarinar við áfengi á í þessum hamförum.
Það er undarlegur tvískynningur að það verður stórfrétt í vandlætingastíl þegar smáræði af ólöglegum vímuefnum finnst á útihátið um verslunarmannahelgina þar sem þúsundir veltast um ælandi og slefandi af fullkomlega löglegri vímuefnaneyslu í formi brennivíns en ÞAÐ þykir ekki tiltökumál. Oft er talað og skrifað um vín eins og það sé ekki vímuefni og ekki fíkniefni.
Áfengisdekrið og áfengisdýrkunin er eiginlega orðin að andlegri harðstjórn í landinu. Fín fyrirtæki bjóða jafnvel háskólnemum í kynnisfeðir um fyrirtækin og servera vín í stríðum straumum. Enginn þorir að skera upp almennilega herör gegn áfegnisdýrkuninni af ótta við að verða hællærislegur í augum annara.
Það þykir dyggð að vera bindindismaður á tóbak og ólögleg vímuefni en jafnvel þeir sem hafa verið að skrifa gegn verslunarmannahelgarsukkinu taka það samviskulega fram að þeir séu ekki bindindismenn á áfengi. Þeir skammast sín nefnilega fyrir að vera það.
Svo langt gengur spéhræðslan við vínbindindi að meira að segja auglýsingar í "forvarnarskyni" brýna það fyrir börnum og unglingum að láta það dragast að detta í það - en fyrir alla muni ekki sleppa því samt áður en yfir lýkur.
Hvernig stendur á því að menn hafa þetta einkennilega viðhorf til áfengis en fordæma yfirleitt t.d. tóbak? Tóbakið veldur vð vísu banvænum sjúkdómum. En það leggur ekki persónuleikann í rúst, sundrar ekki fjölskyldum og lætur menn ekki missa allar eigur sínar og vini og veldur ekki ofbeldi, morðum og nauðgunum eins og áfengið. Auk þess veldur það reyndar líkamlegum dauða oft og tíðum.
Mikið væri það nú kærkomið ef sá mórall skapaðist með þjóðinni að það sé álíka ófínt að drekka í hófi og að reykja í hófi eða éta amfetamín í hófi. Ég er ekki að tala um boð eða bönn. Ég er að tala um viðhorf. Það viðhorf að það sé svipuð dyggð frá heilsufarslegu og velferðarlegu sjónarmiði að vera bindindismaður á áfengi og vera bindindismaður á tóbak.
En það er við ramman reip að draga. Frelsi einstaklingsins er allt lifandi að drepa og margir græða á því mikið af peningum. Auk þess eru rauðvínsalkar í afneitun eins og froðufellandi krossfarar á alþingi og öllum stjórnmálaflokkum og bara hreinlega út um allt og hvergi er fyrir þeim flóafriður og þeir heimta áfengi í allar matvörubúðir og á öll dagvistunarheimili.
Þeir frekustu og ósvífnustu, þeir fjósrugluðustu, þeir allra ömurlegustu, eiga oftast nær síðasta orðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.6.2007 | 13:34
Fjölmiðlum er hætta búin
Í Laugardagsþætti Ríkisútvarpsins var Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fréttamaður að segja frá ástandi fjölmiðla í Rússlandi en hún sat þing alþjóðasambands blaðamanna í Moskvu. Lýsingar hennar eru hrollvekjandi en koma þó ekki á óvart. Í stuttu máli hefur hún eftir rússneskum blaðamönnum að ströng ritskoðun ríki í Rússlandi. Ritskoðun markaðarins. Með dyggum stuðningi stjórnvalda. Það eru auglýsendur, auðmenn, sem ráða alveg hvað er sagt í fjölmiðlum. Blaðamenn eru miskunnarlaust myrtir ef þeir segja frá óþægilegum málum og í níu af hverjum tíu tilvikum kemst aldrei upp hverjir frömdu ódæðið.
Konur eru að taka yfir blaðamennskustarfið, áttatíu prósent allra blaðamanna eru konur. Ástæðan er þó ekki jafnréttisleg. Hún er blátt áfram sú að blaðamennska er illa launuð og nýtur lítillar virðingar og það þrýstir auðvitað konum í starfið.
Þóra Kristín lauk máli sinu með þeirri aðvörun að þau vandamál sem eru af ganga að blaðamennsku í Rússlandi dauðri, alræði markaðarins og yfirgangur peningaaflanna, sé einnig fyrir hendi hér á landi og þau öfl muni fara eins langt og þau komast ef þeim er ekki veitt aðhald.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.6.2007 | 11:20
Á efnahagur að ráða ritfrelsinu?
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs ætlar að höfða meiðyrðamál gegn tímaritunum Mannlífi og Ísafold vegna skrifa þeirra um hann. Segist Gunnar ætla að krefjast hárra skaðabóta. Blaðið hefur eftir honum: "Ég ætla að láta þá borga. Það er það eina sem þetta fólk skilur." Hann segir líka:" Svo er spurning hvort það er eitthvað af þeim að hafa. Ég hef mestar áhyggjur af því." Eitthvað þessu líkt sagði Gunnar einnig í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi.
Taka verður með í reikningin að Gunnar er reiður og finnst að vegið hafi verið að sér. Og ekki ætla ég að segja neitt um réttmæti greinanna í þessum tímaritum sem ég hef ekki einu sinni lesið. Það er samt eitt sem mér finnst ískyggilegt við orð Gunnars ekki síst vegna þess að þau eru endurómur þess sem oft hefur komið upp áður. Það er að þegar einhverjum mektarmanni, sem hefur völd og peninga, finnst að sér vegið og hótar meiðyrðamáli skýtur hann oft að þeim sem þeir ætla að lögsækja einmitt með þessu: Svo eruð þið ekki einu sinni borgunarmenn fyrir orðum ykkar.
Þá spyr ég: Á fjárhagur manna að ráða því hverjir mega gagnrýna og koma við kaunin á öðrum en því athæfi fylgir alltaf viss hætta á því að menn fari yfir strikið. En eiga þeir sem ekki eru ríkir að gæta sín alveg sérstaklega vel að stíga ekki á tærnar á ríka fólkinu bara af því að þeir eru ekki sjálfir ríkir en þeir sem peningana hafa geta látið móðan mása enda eru þeir "borgunarmenn" fyrir orðum sínum?
Það gætir mjög vaxandi tilhneigingar í þá átt að þeir sem öllu ráða í krafti valda og peninga vilji að bókstaflega allt sé metið eftir peningum: líka rétturinn til að gagnrýna opinberlega.
Í því felst að það séu bara þeir ríku sem megi tala eða yfirleitt hafa sig í frammi. Þeir sem ekki eru "borgunarmenn" fyrir orðum sínum í beinhörðum peningum eiga að steinhalda kjafti.
Þetta er ískyggilegt tímanna tákn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.6.2007 | 20:13
Og hvað svo ?
Í fréttum Ríkissjónvarpsins klukkan sjö gaf að líta hvernig lögreglumaður, afmyndaður af bræði, slær farssíma úr hendi manns sem vildi taka myndir af lögreglumönnum á farsímann sinn. Síðan er manninum skellt á jörðina og höggin látin dynja á honum. Þetta sáu allir með sínum eigin augum sem horfðu á fréttirnar.
Er það einhver glæpur að taka myndir á farsíma af lögreglunni?
Síðan kom Óskar Bjartmarz og fór langt út fyrir verksvið sitt sem lögreglumanns með subbulegu og lítilsvirðandi tali um einhverja menn sem við vitum ekkert um. Á frásögn lögreglunnar eftir þetta sjónarspil sem við sáum er ekkert mark takandi. Hún er örugglega hlutdræg.
Og hvað svo?
Kemst lögreglan bara upp með svona lagað fyrir allra augum? Það er líka einkennileg lítilþægni af fréttastofu Sjónvarpsins að gera skýringar lögreglunnar að höfuðefni fréttarinnar en ekki ofbeldi hennar sem blasti þó við öllum. Það er svo annað mál hvort einhver maður var með fíkniefni innvortis. En það afsakar ekki ruddaskap lögreglumannsins sem sló til mannsins með símann eða orðbragð Óskars Bjartmarz.
Hann getur ekki stimplað menn án dóms og laga frammi fyrir alþjóð og réttlætt augljósan fantaskap.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.6.2007 | 14:10
Smán og skömm
Ég dauðskammast mín fyrir að vera Íslendingur vegna þessa þrælahalds sem viðgengst á Kárahnjúkum. Vitnisburðirnir um það hrúgast upp. Reyndar þekki ég sjálfur fólk sem hætti að vinna á staðnum vegna þess að það fylltist ógeði.
Ekkert af þessu kemur þó á óvart miðað við ýmsar upplýsingar sem áður hafa borist af þessu dæmalausa fyrirtæki Ipmpreglio.
En það er ekki bara fyrirtækið sem ber ábyrgð á þessum ósköpum. Það starfar hér með mikilli velþóknun íslenskra yfirvalda.
Íslendingar hafa nú þann sóma að vera orðið ósvikið þrælahaldsríki til að auka sína eigin velmegun. Og flestir eru undarlega þöglir um málið. En hugsið ykkur atganginn í fjölmiðlum og hjá yfirvöldum ef þessar fréttir hefðu borist af Íslendingum í vinnu erlendis, t.d. í Portúgal.
Og nú ætlar Impreglio að auka virðingu sína með því að hóta þeirri manneskju málsókn sem sagði frá ófullnægjandi öryggi á Kárahnjúkum. Hún segist bara vera venjuleg manneskja sem engan áhuga hafi á því að vekja á sér athygli. En hún gat bara ekki orða bundist. En Impreglio ætla að að keyra alla niður með hörku sem voga sér að opna munninn. Og hvernig er þá með konuna sem keyrði trukkinn og hefur líka leyst frá skjóðunni?
Á ekki að svínbeygja hana líka?
Já, ég skammast mín fyrir að vera af þeirri þjóð sem ber ábyrgð á því að þetta fyrirtæki veður hér uppi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006