Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Leiðindi

Ég óttast að þetta verði leiðinlegur febrúar. 

En menn geta fylgst með honum hér. 

Pistill um hlýjustu janúarmánuði er kominn inn hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gamlar og nýjar náttúrufarsbreytingar

Horfði á veðurvitringana ræða hlýindin í Kastljósi.

Það hljóta að hafa orðið miklar umhverfisbreytingar á landinu upp úr miðjum þriðja áratugnum þegar hlýnaði afar skarpt og náðu hlýindi tuttugustu aldar hámarki á mjög skömmum tíma þó áfram yrði hlýtt nokkra áratugi lengur. Svo hljóta líka að hafa orðið miklar breytingar þegar fór að kólna á hafísárunum og sá kuldi hélst líka býsna lengi. 

Aldrei er þó talað um þessar breytingar, fremur en þær hafi engar verið, en því meira er talað um  um þær breytingar sem nú hafa orðið vegna hlýinda sem staðið hafa í 15 til 20 ár þó út yfir hafi tekið síðustu tíu árin.

Náttúrufarsbreytingar á Íslandi vegna veðurfarsbreytinga - maður gæti helst haldið að menn hafi aldrei upplifað slíkt áður. Eins og menn komi af fjöllum.  Skil bara ekki hvers vegna.

Þetta með fuglana. Afhverju hrundu sjófuglarnir ekki niður á árunum kringum 1940 ef það eiga fyrst og fremst að vera hlýindi sem valda hruni þeirra núna? 

Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr núverandi hlýnun eða afleiðingum hennar - hlýnunin er ótrúleg - aðeins að hugsa upphátt. 

Og nú er þessi janúar kominn upp fyrir meðallag að hita bæði í Reykjavík og Akureyri. 

Þetta má sjá á hinu óforbetranlega fylgiskjali, blaði eitt fyrir Reykjavík og blaði tvö fyrir Akureyri.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nú er komið að veðurfréttum

pict2372.jpg
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýjárskveðja með fylgiskjali um veðrið árið 2011

Hér birtist þá hið undurfurðulega fylgiskjal fyrir veðrið árið 2011 í sama stíl og árið 2010. Skýringar má finna hér.

Annars er ég að hugsa um að hætta alveg að blogga. Eftir að ég hætti að skrifa um annað en veðrið nennir enginn að lesa það hvort sem er. Lesturinn hefur gjörsamlega hrunið en var mikill meðan ég lét gamminn geisa um hvað eina. Fyrirbærið blogg á Íslandi er reyndar á fallanda fæti.

Ég hef bloggað í rúm þrjú ár og að því kemur að maður þreytist. Ég hreinlega nenni þessu ekki lengur. En mér finnst nokkuð gaman á facebook og er þar mjög virkur. En facebook er fyrst og fremst bara djók milli vina og kunningja. Þar kemur nú ekki veðrið mikið við sögu. 

Það stóð til að setja inn á bloggið gagngerða endurskoðun á pistlunum um hlýjustu og köldustu mánuði. Hún er alveg tilbúin að smáatriðum fráteknum og ég veit ekki hvers vegna ég kem henni ekki frá mér á síðuna en kannski koma þeir pistlar þó einhvern tíma. Líklega er almennum bloggleiða um að kenna. En kannski líka því að svo til engir nenna lengur að lesa bloggið mitt eftir það breyttist í veðurblogg nær eingöngu.  

Allt á sér sinn tíma. Og minn tími er líklega liðinn hvað blogg varðar. En þetta var ansi gaman þegar hasarinn var sem mestur. Það var árið 2008.   

En hvernig sem allt veltist mun fylgiskjalið áfram fylgjast með öllu í veðrinu eitthvað áfram. Eins og áður er Reykjavík og fleira á blaði 1 en Akureyri á blaði 2.

Ég óska öllum til hamingju með glænýja árið og gott að vera laus við það gamla og úrelta.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

White Christmas

Einhvern tíma kemur að því að verði sannkallað illviðri, hríð og ófærð, um jólin á höfuðborgarsvæðinu.

Snarvitlaust veður fyrir snarvitlausa þjóð!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Desemberhitinn kominn upp fyrir meðallag

Hitinn í desember er nú kominn lítillega yfir meðallagið bæði í Reykjavik og á Akureyri. Góð hlýindi hafa staðið í fjóra daga. Næstu tvo daga verður áfram hlýtt. Síðan snýst til norðvestanáttar og svo  norðurs og síðan norðausturs. Með nokkrum látum þegar dregur að næstu helgi.
 
Síðan eru bara kuldar og þræsingar eins langt og sést og fer kólnandi þegar á líður. 
 
Líkast til verður ekki sunnanblær og þíður um jólin. Ekki er ég samt viss um jólasnjó í Reykjavík. Aðrir vita það kannski betur.
 
Desember 1917 var afar kaldur lengst af. Eftir látlausan kulda kom loks þessi líka fína hláka um jól og áramót. Ísafold skrifaði 29. desember '' Með jólunum gerði mikla hláku, sem haldist hefir óslitin að heita má síðan, til mikillar hagsældar, jafnt búand sem bæjarmönnum og er hlákan sögð ná um land allt.''
 
Á þessum árum voru Íslendingar enn vitrir og veðurdjúpir og fögnuðu hláku um jólin þó hún tæki upp snjó. Amerísk glysvæðing um white christmas hafði enn ekki heltekið þjóðina.    
 
Nú er öldin önnur! 


Áfram er fylgiskjalið að njósna um veðrið. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Desember í harðri baráttu

Jæja, börnin góð!

Ef árið í Reykjavík ætlar að verða það hlýjasta sem þar hefur mælst verður meðalhitinn í desember að ná næstum því þremur stigum. Það er ekki vonlaust. Þrisvar hefur meðalhitinn náð fjórum stigum, síðast árið 2002.

Ef hitinn verður nákvæmlega í núgildandi en algerlega gamaldags og úreltu meðallagi verður árið það fjórða hlýjasta. Verði hann  hins vegar jafn kaldur og sá kaldasti sem hingað til hefur mælst, -7 stig verður meðalhiti ársins samt vel yfir meðallagi. 

Stundum er sagt að eftir kuldaskeiðið sem hófst með hafísárunum hafi byrjað að  hlýna á Íslandi kringum miðjan síðasta áratug tuttugustu aldar, en sumir hafa jafnvel nefnt miðjan níunda áratuginn en þá var mestu kuldunum á þessu síðasta kuldaskeiði lokið. En stóra stökkið var þó ekki fyrr en með aldamótunum. Einmitt frá 2001 hafa öll ár í Reykjavík verið yfir fimm stigum, en það var árshiti hlýindaskeiðsins mikla 1931-1960. Þess vegna verður gaman þegar árið er liðið að gera upp þennan makalausa áratug sem að hlýindum hefur slegið út alla aðra áratugi í mælingasögunni.

En á meðan við bíðum eftir að árið líði í aldanna skaut getum við fylgst með veðrinu í Reykjavík og á Akureyri og að nokkru leyti á landinu öllu í hinu óþreytandi fylgiskjali, blaði eitt og tvö. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkur nóvember og mögulegt silfurár

Nú er tvennt til. Annað hvort er heimsendir í nánd eða hamfaravetur framundan. Og kannski byrjar heimsendinn einmitt með honum!

Hæðin sem kortið sýnir nær ég veit ekki hvaðan til ég veit ekki hvert. Gaman að sjá hvað gerist eftir morgundaginn, the day after tomorrow! 

Þessi nóvember er þegar orðinn sá fjórði sólríkasti í Reykjavík. En hann fer varla hærra en í þriðja sæti að lokum. En brons er alveg viðunandi árangur.

Meðalhitinn er ekkert óskaplega lágur, 0,5 stig eða eitt stig undir meðallaginu 1961-1990 sem er reyndar 1,4 stigum kaldara en 1931-1960. Nóvember 1996 er sá kaldasti mjög langt aftur, -1,9 stig. Hitinn mun líklega eitthvað smávegis stíga i okkar nóvember síðustu tvo dagana. Svo þetta er nú ekkert óskaplegt.

Desember verður samt að taka á honum stóra sínum til að árið verði það  hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavik. En það hefur góða möguleika á að krækja í silfrið - það er að segja ef ekki kemur annað hvort heimsendir eða hamfara Lurkur.

Þetta verður þá silfurárið fræga! 

Fylgikskjalið birtir umbúðalausan sannleikann um þennan nóvember. Alveg þar til daginn eftir morgundaginn.  

10112806_2806.gif

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Blíðskaparveður

Meðalhitinn í nóvember í Reykjavík er loksins kominn yfir frostmarkið. Hann er nú 0,5 stig og er 1,3 stig undir meðallagi. Á Akureyri er hitinn -0,9 og er svipað undir meðallagi.

Nú er glaðasólskin í Reykjavík og milli sjö og átta stiga hiti. Vindur fremur hægur.

En þetta verður besti dagurinn á næstunni. Síðan kólnar smám saman. Meðalhitinn mun samt stíga  í dag og á morgun en verður síðan aftur líklega undir frostmarki í hægu veðri og mun lækka hægt. 

Nú er það bara spurningin hvort meðalhitinn helst yfir frostmarki þegar upp verður staðið í mánaðarlok.

Nóvember er sá mánuður sem mest kólnaði frá hlýindatímabilinu 1931-1960 til kuldatímabilsins 1961-1990, 1,4 stig. Síðustu árin hefur nóvember hlýnað mjög en þessi ætlar greinilega að svíkja lit í þeim efnum.

Sólskinsstundir eru þegar orðnar fleiri en í meðallagi alls mánaðarins í Reykjavik.  

Í fylgiskjalinu sést hinn sláandi munur sem oft er á snjóalögum á suðurlandi og norðurlandi. Í Reykjavík hefur alhvít jörð verið í þrjá daga og einn dag flekkótt af snjó en annars hefur jörð verið alauð. Snjódýptarsumma alhvítra daga er 12. Á Akureyri hefur verið alhvítt allan mánuðinn og summa snjódyptar er 422. 

Áfram getum við fylgst með þessu á fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykjavík og blaði tvö fyrir Akureyri.

Hámarkshitinn á mönnuðu stöðinnni á Höfn í Hornafirði hefur verið eitthvað undarlegur síðustu daga og ekki trúverðugur. Úrkomutölur frá mönnuðu úrkomustöðinni á Raufarhöfn eru einnig stundum stórundarlegar og kannski líka frá sjálfvirku stöðinni á Fáskrúðsfirði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nóvember

Jæja, þá er það nóvember.

Nú snýst málið um það hvort þetta ár verði það hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík. Þeir tveir mánuðir sem eftir eru verða því að standa sig. Og ekkert múður!

Við getum fylgst með þessu í fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykjavík og landið og blaði tvö fyrir Akureyri.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband