Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Október ekki meðal þeirra tíu hlýjustu

Meðalhitinn í október er 6,3 stig í Reykjavík en 4,3 á Akureyri.

Mánuðurinn kemst ekki á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði í Reykjavík og heldur ekki yfir landið.

Samt er hann kringum 1,8 stig yfir meðallagi á landinu. Hann er svipaður og október 2001 en annars verður að fara til 1985 til að finna hlýrri október, bæði fyrir landið og Reykjavík. Í Reykjavík er þetta þó aðeins 14. hlýjasti október frá 1866. Á landinu tel ég þetta vera 13. hlýjasta október frá sama tíma.

Sem sagt ekkert til að gera veður út af hér á Allra veðra von!

Eins og menn væntanlega muna byrjaði mánuðurinn með miklum hlýindum. Þann 17. var meðalhitinn í Reykjavík 9,4 stig eða 4,4 stig yfir meðallagi. En það sem eftir var mánaðarins var meðalhitinn 2,5 eða 1,1 stig undir meðallagi. En hann hefði alveg getað verið þrjú stig fyrir neðan meðallag!

Af hlýjum október að vera er þetta sólríkur mánuður, sólarstundir líklega yfir hundrað í höfuðstaðnum. Sumir kvörtuðu um rigningar en úrkoma var þó minna en helmingur þess sem venja er í Reykjavík en um meðallag á Akureyri.

Sem fyrr er hægt að sjá ýmislegt varðandi mánuðinn í fylgiskjalinu, blaði eitt og tvö.

Og nú er veislan búin og ég spái fádæma harðindum og vetrarhörkum framundan! 

Mun sá vetur skuldalurkur og Hreggviður hinn meiri kallaður verða. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fall októbers er mikið

Meðalhitinn í október í Reykjavík er nú fallinn niður í 7,2 stig eftir að hafa verið 9,5 stig fyrstu 17 dagana. 

Veðurspáin til mánaðarloka er afleit og ef hún gengur eftir er ekki annað að sjá en meðalhitinn falli jafnvel niður í svona 5 og hálft stig. Þá sitjum við uppi með mánuð sem er aðeins um hálfu stigi hlýrri en október var að jafnaði árin 1931 til 1960 en nokkru kaldara var 1961 til 1990. 

Það er orðið alveg ljóst að mánuðurinn kemur hvergi nærri mánaðarhitametum. 

Fyrir norðan er nú vetrarveður. Á hádegi var sex stiga frost á Akureyri og stefnir jafnvel í kaldasta 25. október sem þar hefur komið í a.m. k. rúm sextíu ár. En þess ber að gæta að aðrir dagar um þetta leyti hafa þar orðið talsvert kaldari.

Þessi október hefur fallið og fall hans er mikið.

Allt þetta má sjá í fylgiskjalinu.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta haustfrost í Reykjavík og snjór í fjöllum

Í nótt kom fyrsta frost á þessu hausti í Reykjavík, -1,4 stig. Enn á eftir að frjósa syðst á landinu og á stöku stað við Breiðafjörð, í Ísafjarðardjúpi og sums staðar við sjóinn á norður og austurlandi.  

Lengd frostlausa tímans í Reykjavík er 177 dagar og síðan mælingar hófust hefur hann aðeins verið lengri árið 1939, 2O1 dagur og 1941, 186 dagar.

Um fyrstu og síðustu frost í Reykjavík má lesa hér.

Í gærmorgun var Esjan sums staðar grá af snjó allra efst og líka Akrafjall en meiri snjór var í Skarðsheiði, Kistufelli og einkum Skálafelli. Einnig hafði snjóað í Hengil. Í gær var líka getið um fyrsta alhvíta daginn í byggð á landinu og var snjódýpt 1 cm í Svartárkoti. Í morgun var alhvítt í sveitunum  til fjalla á norðausturlandi, mest 6 cm á Grímsstöðum á Fjöllum og flekkótt var sums staðar við sjóinn á norðausturlandi og við Tröllaskaga og reyndar líka á Kvennabrekku í Dölum.  

Eftir spám að dæma er nokkuð víst að þessi október mun hrynja hvað hitann snertir og mun ekki komast í flokk með þeim allra hlýjustu.  

Það leggst þá lítið fyrir kappann!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Október kólnar

Meðalhitinn í Reykjavík er nú 9,5 stig eða 4,4 stig yfir meðallagi. Ekki  er auðvitað við því að búast að hann muni halda sér svo hátt uppi von úr viti. Haustið hefur sinn gang. Það skiptir hins vegar nokkru máli hversu mikil kólnunin verður. Til eru allmargir októbermánuðir þegar aldrei kom neitt kuldakast að heitið geti. En það geta líka komið kuldaköst í október með frosti allan sólarhringinn.

Nú er kuldakast framundan. Það virðist þó ekki ætla að verða mjög hastarlegt  í Reykjavík  en fyrir norðan mun koma snjór og frost. Næturfrost verða samt  í Reykjavík. Strax á morgun mun kólna verulega. Eftir um það bil viku mun meðalhitinn í Reykjavík líklega vera komin niður fyrir októbermetið  frá 1915, 7,9 stig.

Og því miður virðist sem fremur kalt verði eftir það, a.m.k. fyrstu dagana. Ég er  þó að vona að þessi mánuður komist inn á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði í Reykjavík. En um það veit ég samt ekki neitt því enn er mikið eftir af mánuðinum.

Áfram er hægt að fylgjast með mánuðinum í fylgiskjalinu.

En þarna er líka annað skjal þar sem hægt er að sjá hita, úrkomu og sól í Reykajvík í þremur hlýjustu októbermánuðunum, 1915, 1959 og 1946. Þar sést glögglega að engin kuldaköst komu þá sem hægt er að nefna því nafni. Árið 1915 var aðeins lesið á mæla þrisvar á dag og enginn meðalhiti hvers dags tilgreindur en morgunhitinn kemst næst því að vera fulltrúi hans.  Skipt er milli hámarks- og lágmarkshita síðdegis fyrir hin árin og 1946 er um að ræða lágmarkshita nætur og hámarkshita dags og fellur þá raunverulegur lágmarkshiti sólarhringins hreinlega burtu suma daga.  Sjá má lægri hita á athugunartíma en sá sem skráður er sem lágmarkshiti. Tímakvarðinn er eftir okkar klukku núna.

Það er hætt við því að þessi október okkar sem hálfnaður er svona glæsilegur eigi nú ekki sjens í þessa mánuði þegar upp verður staðið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Haustið þegar ekki haustar

Það er lítið lát á veðurblíðunni á suður-og vesturlandi og að nokkru leyti um allt land. Í gær mældist hitinn í Reykjavík mestur 14,6 stig í glampandi sólskini. Í nótt fór hann ekki lægra þar en í 10,0 stig. Mesti hiti á landinu á stöðvum  Veðurstofunnar voru 17,0 stig á Þingvöllum á  sjálfvirkan mæli.  Það er hærra en mældist þar nokkru sinni á kvikasilfursmæli og reyndar líka á sjálfvirkan mæli. Á Hvervöllum mældust 13,1 stig en þar mældist mest á kvikasilfri meðan þannig var mælt 12,0 stig en í þessum október hefur það met  verið tvíslegið, í gær og svo 12,7 stig þ. 4.

Við skíðaskálann í Seljalandsdal við Ísafjörð mældist í gær 18,5 stig en þessi mælir sýnir oft grunsamlega háar tölur. Hins vegar mældust á stöðvar Vegagerðarinnar 17,4 stig á Biskupshálsi á norðausturlandi og 17,2 stig á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum en þetta er á fjallvegum.

Ekki hafa nein stöðvarmet á stöðvum sem enn mæla á kvikasilfursmæli verið slegin.  Í gær mældust mest á þeim 15,0 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum.

Það er óvenjulega hlýtt loft yfir landinu. Á hádegi í gær voru 10,6 stig í 1552 m hæð yfir Keflavík og frostmarkshæð var yfir 3000 m í allan gærdag og var það enn á miðnætti í nótt. 

Meðalhiti október það sem af er í Reykjavík er nú 9,6 stig, sem er um hálfu stigi meira en meðaltal alls júnímánaðar 1961-1990 og 4,2 stig yfir meðallagi. Það er með því hæsta sem finna má fyrstu tíu dagana í  október. Hlýrra var þó 1959, 11,0 stig. Veðurlag þá var öðruvísi en núna, þungbúið og úrkomusamt syðra. Mikil árstíðaleg kólnun er vitaskuld í gangi frá fyrsta til síðasta dags í október.

Eftir daginn í dag er næsta víst að meðalhitinn í bænum mun enn stíga. 

Hlýjustu októbermánuðir sem mælst hafa í Reykjavík eru 7,9 stig 1915 sem var líka sólarminnsti október sem þar hefur nælst og 7,7 stig 1959 og 1946. Á Akureyri var síðastnefndi mánuðurinn sá hlýjasti, 7,9 stig. Þar er meðalhitinn það sem af er núna 8,3 stig. 

Það sem er kannski merkilegast með veðrið núna hvað það er hægviðrasamt og sólríkt. En þetta getur ekki gengið lengi svona hlýtt með núverandi veðurlagi þó gott sé. Ef mánuðurinn ætlar að vera áfram í fremstu röð hvað hlýindi varðar verður að koma heiðarleg sunnanátt með ''roki og rigningu'' fyrir sunnan en háum hita allan sólarhringinn um allt land.

Áfram er hægt að fylgjast í fylgiskjalinu með veðrinu í þessum mánuði í Reykjavík og fyrir landið (blað 1)  og á Akureyri (blað 2). 

Og á öðru skjali er hægt að sjá veðurmet allra mánaða á nær öllum mönnuðum veðurstöðvum. Eins og sjá má getur hiti á einstökum stöðvum í oktober,  sérstaklega fyrir norðan og austan, farið talsvert hærra en nú.

Ekki eru þarna sjálfvirku stöðvarnar en hitamet á þeim (og reyndar öllum stöðvum)  í október má  sjá á síðu Trausta Jónssonar.

Hér er Modis mynd af landinu kl. 14:55 í gær. 

modis_2010_10_10.jpg

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eindæma haustblíða

Á hádegi var glaðasólskin í Reykjavík og hægur blær af norðri og 11 stiga hiti. Meðalhiti tvo síðustu dagana hefur verið mjög nálægt dagsmetum án þess þó að ná þeim. Og meðalhitinn  og reyndar líka hámarks-og lágmarkshitinn er algjörlega í stil við það sem gerist í seinni hluta júlí, hlýjasta tíma ársins! 

Á Keflavíkurflugvelli kom hitamet  þ. 2, 14,5 stig en gamla metið var 14,0 þ. 1. 1958 ef það var þá í rauninni ekki kl. 18 þ. 30.! Í gær mældi sjálfvirki mælirinn á Hveravöllum 12,7 stig en þar mældist mest í október á mönnuðu stöðinni árin 1965 til 2004 12,0 stig þ. 1. 2002 en þá voru miklir hitar eftir árstíma.

Eftir spám sem ég leit á lauslega áðan virðast hlýindin ekki vera búin. Þvert á móti munu þau jafnvel færast í aukana næstu daga.

Hverju eru menn eiginlega að mótmæla?!

Áfram fylgjumst við svo með október á þessari tryllingslega veðurglöðu bloggsíðu ''Allra veðra von''!

Og núna kl. 1 var kominn 14 stiga hiti í bænum í norðan einu vindstigi! Hvar endar þetta?! 

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Október verður að duga eða drepast

Október byrjar með hitalátum. Meðalhiti fyrsta dagsins var fimm stigum yfir meðallagi bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þeir voru eins og alveg sómasamlegir hásumardagar. Í Reykjavík naut meira að segja sólar dálítið um hádaginn.

Eitt hitamet var slegið, 14,8 stig á Bláfeldi sem er sunnanmegin á Snæfellsnesi. Mælingar hófust reyndar aðeins árið 1998. En frá 1955 hafa hámarksmælingar verið gerðar á nokkrum stöðum í nágrannasveitunum en svona mikill hiti mældist aldrei á þeim í október.

Áfram verður hægt að fylgjast með daglegu veðri í Reykjavik og á Akureyri á þessari síðu, ásamt hæstum hita og mestri úrkomu á landinu. Hægt verður að fara beint inn í bloggflokkinn Mánaðarvöktun veðurs þar sem þetta skjal verður uppi allan mánuðinn. Kannski þarf stundum að skrolla skjalið svolítið þegar það kemur upp.

Árið er nú í góðri hitaþjálfun og væntum við mikils árangurs af þessum október. Ekki verður við annað unað en hann skáki október 1915 og taki inn 8 stigin í meðalhita eins og að drekka vatn. Standa til þess glæstar vonir því vatnshellingur sótti mjög í sig veðrið síðustu daga septembermánaðar.

Október þarf nauðsynlega að fara að reka af sér það slyðruorð að vera eftirbátur annarra mánaða í hlýindunum síðustu ár. 

Nú er að duga eða drepast fyrir hann.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýjasta sumarið

Meðalhitinn í september í Reykjavík reyndist 10,2  stig. Þar með er ljóst að meðalhiti allra sumarmánaðanna, júní til september, er 11,7 stig. Það er mesti sumarhiti sem mælst hefur í Reykjavík eftir að mælingar urðu nokkuð áreiðanlegar. 

Gamla metið var 11,6 stig frá því sögufræga ári 1939.

Þessar tölur eru miðaðar við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar.

Árin 1932 til 1945 var mælt á þaki Landssímahússins við Austurvöll. Þær mælingar hafa þótt  þarfnast nokkurra leiðréttinga við. Ljóst er að á þessum árum  voru sumrin í Reykjavík  nokkuð óeðlilega hlý miðað við aðrar stöðvar. Þarna er vitanlega dálítil óvissa á sveimi  en það gengur  þó ekki upp að mínu mati að taka tölurnar frá Landsímahússárunum alveg bókstaflega ef menn vilja reyna að átta sig á hlýjustu sumrunum. Ýmis sumur, sem engar sérstakar rósir gerðu, ota sér þá fram í raðir hlýrri sumra, ekki kannski þeirra allra hlýjustu samt (fyrir utan metsumrin 1939 og 1941). En ekki fer ég nánar út í þessa sálma.

Ýmislegt er merkilegt með sumarið í ár. Júní var sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík eftir 1870 og einnig júlí, ásamt júlí 1991. Ágúst varð fimmti hlýjasti og september sá sjötti. 

Mér sýnist líka að þetta sumar sé það hlýjasta sem komið hefur í Stykkishólmi frá 1846 og í Vestmannaeyjum frá 1878.  

Á Akureyri voru sumrin 1933, 1939, 1941 og 1894 hlýrri en núna. 

En það er kannski merkilegast við sumarið að það virðist vera eitt af þeim allra hlýjustu á landinu í heild eftir þeim stöðvum að dæma sem lengst hafa athugað. Sumarið 1939 var hlýrra en þetta sumar núna er á borð við sumrin 1933 og 1941. Næst koma svo eftir mínum pælingum 2003, 2004, 2008, 1953 og 1880. 

Á fylgiskjalinu má sjá hita, sól, úrkomumagn og fjölda úrkomudaga í öllum mánuðum tólf hlýjustu sumranna í Reykjavík, ásamt meðaltali þessara veðurþátta 1961 til 1990 og 1931 til 1960. Býsna mikill munur er á hitanum milli þessara tímabila.

Sitthvað er þarna skemmtilegt og veðurfanavænlegt! Áður hefur þess verið getið að þetta sumar skartar bæði hlýjasta júní og júlí. Verður nú  ýmislegt nefnt  varðandi  önnur þau sumur sem þarna eru talin:

Júlí 1939 er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík en ágúst það ár sá úrkomusamasti og september sá hlýjasti! 

September 1941 er sá hlýjasti á landinu þó afar litlu muni á honum og 1939 sem var nú samt ljúfari  mánuður.  

Ágúst 2003 var ekki aðeins hlýjasti ágúst í Reykjavík og á landinu heldur mun hann einnig  vera hlýjasti mánuður yfirleitt sem nokkru sinni hefur mælst á Íslandi. Júní var þá sá hlýjasti sem komið hafði í Reykjavík en var sleginn út af okkar júní 2010. Júni bætti um betur með því að vera kannski úrkomusamastur allra júnímánaða á landinu ef miðað er við úrkomuna á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. 

Ágúst 2004 var sá fjórði sólarmesti og í þeim mánuði kom minnisstæð hitabylgja sem hugsanlega er sú mesta sem komið hefur á landinu síðustu áratugi. Þá mældist eini dagurinn í Reykjavík sem hefur meðalhita sólarhringsins yfir tuttugu stigum.

Sólskinsstundir sumarið 2008 hafa ekki verið fleiri síðan 1957 og er sumarið hið áttunda sólríkasta. Júní var sá þriðji sólarmesti. Í lok júlí mældist mesti sem mælst hefur í Reykjavík . September hefndi sín hins vegar með því að vera líklega sá úrkomumesti á landinu.   Auk þess mældist þá mesta mánaðarúrkoma á veðurstöð í september og mesta sólarhringsúrkoma.      

Sumarið 1933 var það hlýjasta sem komið hefur fyrir norðan. 

Sumarið 1880 var langhlýjasta sumar sem mælt var á nítjándu öldinni á landinu.

Árið 1960 voru fleiri úrkomudagar í júní í borginni en í nokkrum öðrum júní og hann  var sá 8. sólarminnsti. Úrkomudagar   hafa hins vegar aldrei verið færri en þá var í júlí og einnig í ágúst sem var sá sólríkasti sem mælst hefur í bænum. ''Öfgar'' í veðurfari eru sem sé ekki nýmóðins uppfinning! Í þessum ágúst mældist á Teigarhorni minnsta mánaðarúrkoma sem mælst hefur  í  nokkrum ágúst  á veðurstöð,  0,6 mm. Og er þetta talin þurrasti ágúst  á landinu.  Hvort sem menn vilja trúa því eða ekki  kom ekki  í nokkra áratugi  eftir þetta verulega gott sumar á suðurlandi, stjörnusumar eða stórsumar eins og menn vildu víst kalla það nú á dögum. Eitthvað annað en er núna!

Sumarið í fyrra var óvenjulega þurrt, sérstaklega í júlí. 

Þessir merkismánuðir eru auðkenndir með rauðu í fylgiskjalinu en það sem auðkennt er með svörtu eru mánuðir sem fara nærri metum með það hafurtask sitt sem merkt er án þess þó að setja met.

Nú vaknar náttúrlega sú spurning af hverju þessi sumur voru svona hlý og hvort þau eigi eitthvað sameiginlegt varðandi veðurkerfi, háloftastrauma og hvað eina. En ekki verður hér farið út það. 

Það er svo  hægt í neðra fylgiskjalinu að sjá glæsilega frammistöðu septembers sem bjargaði gullinu fyrir sumarið okkar í Reykjavík!

Loks er bónus með ljúfasta fyrsta október í Reykjavík og kannski víðar. 

Viðbót 1.10. Október byrjar aldeilis vel. Hér fyrir neðan er kort frá kl. 15. Það minnir  nokkuð  á kortið 1. október 1958. Stóri munurinn er þó sá að þá var Elvis í fullu fjöri! Vöktunin heldur svo áfram hér á síðunni á október.1958-10-01_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

kl15g.gif

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikil úrkoma á Kvískerjum

Á sjálfvirka úrkomumælinum á Kvískerjum mældist úrkoman að morgni sunnudagsins 181,2 mm. Því miður eru ekki mannaðar úrkomuathuganir á staðnum núna en þar hefur mest mælst í september með þeim hætti 157,0 mm þ. 28. árið 2007.

Kvísker eru úrkomusamasti staður landsins og þar eru ekki aðeins flest úrkomumánaðarmet heldur líka flest sólarhringsúrkomumet. Það gildir þó ekki um september. Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á mannaðari stöð í september er 197,0 mm á Nesjavöllum þ. 17. 2008 en á sjálfvirkri stöð 220,2 mm þ. 27. 2007 á Ölkelduhálsi.

Meðalhitinn í Reykjavík í þessum mánuði er enn 10,2 stig og mun líklega halda sér nokkurn vegin að minnsta kosti til mánaðarloka. Ef það gengur eftir og jafnvel þó hann lækki eitthvað mun þetta verða hlýjasta sumar, júní til september, sem mælst hefur í Reykjavík. 

Við getum fylgst með þessu í fylgiskjalinu. Í gær var mesti meðalhiti og hæsti hámarkshiti sem komið hefur 26. september á Akureyri síðan a.m.k. 1949.     

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áfram september!

Við höldum hér á Allra veðra von áfram að vakta veðrið í Reykjavík og á Akureyri og að nokkru leyti á öllu landinu.

Áfram september! Carry on september! 

Gaman, gaman!

Nú er komið í skrána mesti og minnsti meðalhiti hvers dags og hámarks-og lágmarkshiti fyrir bæði Reykjavík og Akureyri. Fyrir Akureyri aðeins frá 1949 en miklu lengur fyrir Reykjavík eins og sjá má. Þá er líka hægt að sjá hve nær og hvar mesti og minsti hiti hefur mælst á landinu viðkomandi dag. Það er fyrst og fremst frá 1949 en auk þess stöku eldri mælingar. Þarna er blandað saman sjálfvirkum mælingum og þeim á kvikasilfri. Ég hef gert nánari grein fyrir þessu öllu á Veðurdagatalinu hér á síðunni.

Varla þar að taka það fram að þetta er auðvitað einkaframtak veðuráhugamönnum til skemmtunar og þó tölurnar séu frá Veðurstofunni komnar er röðun metdaganna og metanna mitt verk og framsetning talna á mína ábyrgð með villum og öllu saman og eftir mínum kenjum.

Á fylgiskjalinu er búið að skipta töflunum í tvennt. Reykjavík og landið eru á blaði eitt en Akureyri er ein, eins og drottningu sæmir, á blaði tvö.

Sjá: 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband